Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 515. máls.

Þskj. 816  —  515. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)




1. gr.

    Við 2. mgr. 5. tölul. 1. mgr. 8. gr. laganna bætist: með jafnri fjárhæð á þrjú ár frá og með því reikningsári sem gengishagnaður fellur til.

2. gr.

    Við 2. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laganna bætist: eða eru starfsmenn Þróunarsamvinnustofnunar Íslands.

3. gr.

    Við 2. mgr. 4. tölul. 1. mgr. 49. gr. laganna bætist: með jafnri fjárhæð á þrjú ár frá og með því reikningsári sem gengistap fellur til.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 68. gr. laganna:
     a.      Í stað fjárhæðanna „2.415.492“ og „1.207.746“ í 4. mgr. A-liðar kemur: 3.600.000; og: 1.800.000.
     b.      Í stað hlutfallstalnanna „6%“ og „8%“ í 4. mgr. A-liðar kemur: 5%; og: 7%.
     c.      Í stað fjárhæðanna „5.273.425“ og „8.437.481“ í 4. mgr. B-liðar kemur: 7.119.124; og: 11.390.599.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 70. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „2., 3. og 7. tölul. 3. gr.“ í 1. málsl. 2. tölul. 1. mgr. kemur: 2. og 3. tölul. 3. gr.
     b.      Við 2. tölul. 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Tekjuskattur aðila sem um ræðir í 7. tölul. 3. gr. skal nema 10% af tekjuskattsstofni þeirra.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 71. gr. laganna:
     a.      Í stað hlutfallstölunnar „18%“ í 1. mgr. kemur: 15%.
     b.      Í stað hlutfallstölunnar „26%“ í 2. mgr. kemur: 23,5%.


7. gr.

    Við lögin bætast tvö ný ákvæði til bráðabirgða sem orðast svo:

    a. (I.)
    Þrátt fyrir ákvæði 2. málsl. 1. mgr. A-liðar 67. gr. laganna skulu breytingar á persónuafslætti manna, sem um ræðir í 1. mgr. 66. gr., ákvarðaðar með eftirfarandi hætti:
     1.      Persónuafsláttur manna sem tekur gildi í upphafi ársins 2009 skal ákvarðaður þannig að við fjárhæð persónuafsláttar sem fundinn er samkvæmt ákvæðum 2. málsl. 1. mgr. A-liðar 67. gr. skal bætt 24.000 kr.
     2.      Persónuafsláttur manna sem tekur gildi í upphafi ársins 2010 skal ákvarðaður þannig að við fjárhæð persónuafsláttar sem fundinn er samkvæmt ákvæðum 2. málsl. 1. mgr. A-liðar 67. gr. skal bætt 24.000 kr.
     3.      Persónuafsláttur manna sem tekur gildi í upphafi ársins 2011 skal ákvarðaður þannig að við fjárhæð persónuafsláttar sem fundinn er samkvæmt ákvæðum 2. málsl. 1. mgr. A-liðar 67. gr. skal bætt 36.000 kr.

    b. (II.)
    Þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. A-liðar 68. gr. laganna skulu viðmiðunarfjárhæðir sem þar eru tilgreindar sem skerðingarmörk barnabóta vera 2.880.000 og 1.440.000 við álagningu barnabóta á árinu 2008 vegna tekna á árinu 2007.

8. gr.

    Ákvæði 1. og 3. gr. öðlast gildi 1. janúar 2009 og koma til framkvæmda við álagningu tekjuskatts á árinu 2010.
    Ákvæði 2. gr. öðlast þegar gildi.
    Ákvæði a-liðar 4. gr. öðlast gildi 1. janúar 2009 og kemur til framkvæmda við álagningu og greiðslu barnabóta á árinu 2009 vegna tekna á árinu 2008.
    Ákvæði b- og c-liðar 4. gr. öðlast gildi 1. janúar 2008 og koma til framkvæmda við álagningu barnabóta og vaxtabóta á árinu 2008 vegna tekna og eigna á árinu 2007.
    Ákvæði 5. gr. öðlast þegar gildi og kemur til framkvæmda við álagningu tekjuskatts á árinu 2009.
    Ákvæði 6. gr. öðlast gildi 1. janúar 2008 og kemur til framkvæmda við álagningu tekjuskatts á árinu 2009 hjá þeim lögaðilum sem hafa almanaksárið sem reikningsár og hjá þeim sem hafa upphaf reikningsárs 1. febrúar 2008 eða síðar á því ári.
    Ákvæði til bráðabirgða í 7. gr. öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda eins og þar greinir.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 17. febrúar sl. kemur fram að stöðugleiki í efnahagsmálum sé meginmarkmið þessarar ríkisstjórnar enda stuðli hann að auknum hagvexti og velferð til langframa. Kjarasamningar til þriggja ára sem grundvallist á hóflegum kauphækkunum og verulegri hækkun lægstu launa stuðli að því að það markmið náist auk þess að stuðla að auknum jöfnuði og því séu stjórnvöld tilbúin til að grípa til víðtækra aðgerða, þ.m.t. á sviði skattamála, í því skyni að greiða fyrir gerð kjarasamninga á almennum markaði. Í því frumvarpi sem hér liggur fyrir er að finna tillögur um ýmsar breytingar á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, sem flestar tengjast yfirlýstum aðgerðum ríkisstjórnarinnar samkvæmt framangreindri yfirlýsingu.
    Í fyrsta lagi er lagt til að persónuafsláttur hækki um samtals 7.000 kr. á mánuði eða 84.000 kr. á ársgrundvelli umfram almenna verðuppfærslu í þremur áföngum. Fyrsti áfanginn kemur til framkvæmda í ársbyrjun 2009 þegar persónuafslátturinn við staðgreiðslu tekjuskatts hækkar um 2.000 kr. á mánuði eftir almenna verðlagsuppfærslu, eða um 24.000 kr. samtals á árinu. Sama hækkun verður í öðrum áfanga sem kemur til framkvæmda í ársbyrjun 2010. Í þriðja áfanga er hækkun persónuafsláttar eftir verðlagsuppfærslu 3.000 kr. á mánuði, eða 36.000 kr. samtals á ári, og kemur hún til framkvæmda í ársbyrjun 2011. Áhrif þessara breytinga á persónuafslætti á tekjuhlið ríkissjóðs eru talin nema nálægt 15 milljörðum kr. á ári þegar þær eru að fullu komnar til framkvæmda. Þar af koma um 4,5 milljarðar kr. fram á næsta ári.
    Í öðru lagi er lögð til lækkun á tekjuskatti hlutafélaga og einkahlutafélaga úr 18% í 15%. Hlutfall tekjuskatts hjá öðrum lögaðilum, m.a. sameignarfélögum, lækkar samsvarandi, eða úr 26% í 23,5%. Lækkunin tekur gildi frá og með rekstrarárinu 2008 og kemur til framkvæmda við álagningu tekjuskatts á árinu 2009. Ýmsum vandkvæðum er bundið að meta áhrif þessara breytinga á tekjur ríkissjóðs, ekki síst vegna þeirra miklu umbrota sem nú eiga sér stað í íslensku efnahagslífi, en samkvæmt lauslegri áætlun gæti sú fjárhæð numið allt að 5 milljörðum kr. á ári.
    Í þriðja lagi eru lagðar til breytingar á barnabótum, sem koma til framkvæmda í tveimur áföngum. Þannig er lagt til að viðmiðunarmörk tekna við álagningu barnabóta á þessu ári vegna tekna á árinu 2007 verði hækkuð úr u.þ.b. 100 þús. kr. á mánuði í 120 þús. kr. fyrir einstæða foreldra og úr 200 þús. kr. á mánuði í 240 þús. kr. fyrir hjón og sambýlisfólk. Auk þess er lagt til að tekjuskerðingarhlutföll vegna annars og þriðja barns verði lækkuð um 1%, þ.e. úr 6% og 8% í 5% og 7%. Sú breyting kemur einnig til framkvæmda á þessu ári. Seinni áfangi breytingarinnar kemur hins vegar til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2009 vegna tekna ársins 2008, en þá munu tekjuviðmiðunarmörk einstæðra foreldra hækka í 150 þús. kr. á mánuði og hjóna í 300 þús. kr. á mánuði. Heildaráhrif þessara breytinga á útgjaldahlið ríkissjóðs eru talin nema allt að 2 milljörðum kr. á ári, þar af um 1,2 milljörðum kr. á þessu ári.
    Í fjórða lagi inniheldur frumvarpið tillögu um 35% hækkun á eignarviðmiðunarmörkum vaxtabóta sem lagt er til að komi til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda á þessu ári. Útgjaldaáhrif þeirrar breytingar eru áætluð um 700 millj. kr. á ári.
    Þegar allt er lagt saman er reiknað með að þessar breytingar sem fjallað er um hér að framan skerði afkomu ríkissjóðs um allt 23 milljarða kr. á ársgrundvelli þegar þær verða að fullu komnar til framkvæmda. Áhrifin á þessu ári eru talin nema tæpum 2 milljörðum kr.
    Í frumvarpinu er einnig að finna tillögu að breytingum á ákvæðum tekjuskattslaganna um skattalega meðferð á gengishagnaði og gengistapi. Samkvæmt gildandi lögum skal færa gengismismun, þ.e. gengishagnað að frádregnu gengistapi, að fullu til tekna eða gjalda á viðkomandi reikningsári. Tillaga frumvarpsins felur það í sér að gengismismun verði dreift með jafnri fjárhæð á þrjú reikningsár, þ.e. það reikningsár þegar mismunur myndast og næstu tvö þar á eftir. Til lengra tíma litið hefur þessi breyting engin áhrif á tekjuhlið ríkissjóðs, en áhrif milli einstakra ára kunna að verða einhver og þá bæði til hækkunar og lækkunar. Frumvarpið gerir einnig ráð fyrir að afdráttarskattur af arðgreiðslum til erlendra aðila með takmarkaða skattskyldu verði lækkaður úr 15% í 10% til samræmis við innlenda aðila í því skyni að skapa jafnræði á grundvelli EES-samningsins. Þessi breyting er talin hafa óveruleg áhrif á tekjur ríkissjóðs. Að lokum er sú tillaga lögð til að sama regla gildi um staðaruppbætur útsendra starfsmanna Þróunarsamvinnustofnunar Íslands og staðaruppbætur fastráðinna, settra eða skipaðra starfsmanna við sendiráð Íslands og hjá sendiræðismönnum, þ.e. að þær verði frádráttarbærar frá tekjum við álagningu tekjuskatts. Sem stendur eru ákvæði um skattalega meðferð launa hjá umræddum starfsmönnum í lögum nr. 43/1981, um Þróunarsamvinnustofnun Íslands, en þau lög munu falla úr gildi með nýjum lögum um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Jafnframt er almenna reglan sú að kveðið sé á um skattalega meðferð hvers kyns tekna í lögum um tekjuskatt en ekki í sérlögum. Áhrif þessarar breytingar á afkomu ríkissjóðs eru óveruleg.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í 8. gr. tekjuskattslaganna er m.a. fjallað um skattalega meðferð á gengishagnaði. Hér er lögð til sú breyting að þegar gengistap hefur verið dregið frá gengishagnaði ársins, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 8. gr., skuli færa mismuninn til tekna sem gengishagnað með jafnri fjárhæð á þrjú ár frá og með því reikningsári sem gengishagnaður fellur til.

Um 2. gr.


    Hér er að finna tillögu um að sama regla gildi um staðaruppbætur útsendra starfsmanna Þróunarsamvinnustofnunar Íslands og staðaruppbætur fastráðinna, settra eða skipaðra starfsmanna við sendiráð Íslands og hjá sendiræðismönnum, þ.e. að þær verði heimilt að draga frá tekjum við álagningu tekjuskatts. Í þeirri breytingu felst samræming á launakjörum starfsmanna Þróunarsamvinnustofnunar, sem staðsettir eru erlendis, við þau sem gilda um útsenda starfsmenn utanríkisþjónustunnar.

Um 3. gr.


    Í 49. gr. laganna er m.a. að finna ákvæði um skattalega meðferð á gengistapi. Hér er lögð til sambærileg breyting og í 1. gr. frumvarpsins að þegar gengishagnaður hefur verið dregið frá gengistapi ársins skv. 4. tölul. 1. mgr. 49. gr. skuli færa mismuninn til gjalda sem gengistap með jafnri fjárhæð á þrjú ár frá og með því reikningsári sem gengistap fellur til.

Um 4. gr.


    Í a-lið er lögð til hækkun á tekjuskerðingarmörkum barnabóta úr 100 þús. kr. á mánuði fyrir einstaklinga í 150 þús. kr. sem komi til framkvæmda í tveimur áföngum, þ.e. á þessu ári og því næsta, eins og fram kemur í almennum athugasemdum við frumvarpið hér að framan. Sambærilegar fjárhæðir fyrir hjón hækka úr 200 þús. kr. í 300 þús. kr.
    Í b-lið er lagt til að tekjuskerðingarhlutföll vegna annars og þriðja barns verði lækkuð um 1% sem komi til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda á þessu ári.
    Þá er í c-lið lagt til að eignarskerðingarmörk vaxtabóta verði hækkuð um 35% við álagningu opinberra gjalda í ár.

Um 5. gr.


    Samkvæmt gildandi lögum sæta innlendir lögaðilar 10% afdrætti fjármagnstekjuskatts við útgreiðslu arðs sem kemur til frádráttar endanlegum tekjuskatti en sé rétthafinn lögaðili með erlent heimilisfesti nemur afdrátturinn 15% þar sem hann hefur ákvarðast af lögum nr. 24/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, þar sem skatthlutfallið er 15%. Þetta misræmi hefur skapað vandkvæði hjá þeim innlendu hlutafélögum sem ber ýmist að halda eftir 10% eða 15% staðgreiðslu við útborgun arðs. Auk þess má benda á að með 4. gr. laga nr. 76/2007, um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, og lögum nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, með síðari breytingum, var gerð breyting á 9. tölul. 31. gr. laga um tekjuskatt. Með breytingunni var lögaðilum sem bera takmarkaða skattskyldu skv. 7. tölul. 3. gr. laga um tekjuskatt og eru heimilisfastir í einhverju aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins heimilaður frádráttur sem nemur skattskyldum arðstekjum með sama hætti og innlendum félögum. Í þessari grein er lagt til að afdráttarskattur af arðgreiðslum til erlendra aðila með takmarkaða skattskyldu hér á landi verði lækkaður úr 15% í 10% til samræmis við innlenda aðila í því skyni að skapa jafnræði á grundvelli EES-samningsins.

Um 6. gr.


    Í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þann 17. febrúar 2008 í tengslum við gerð kjarasamninga á almennum markaði er í þessari grein að finna tillögu um lækkun á tekjuskatti þeirra lögaðila er falla undir 1. og 2. tölul. 1. mgr. 2. gr., þ.e. hlutafélaga og einkahlutafélaga, úr 18% í 15%. Þá er lögð til samsvarandi lækkun á tekjuskatti lögaðila er falla undir 3.–5. tölul. 1. mgr. 2. gr., eins og sameignar- og samlagsfélaga, úr 26% í 23,5%. Gert er ráð fyrir því að lækkunin komi til framkvæmda við álagningu tekjuskatts á árinu 2009 vegna rekstrarársins 2008.

Um 7. gr.


    Greinin inniheldur tvö ný ákvæði til bráðabirgða um persónuafslátt og barnabætur. Í a-lið er lögð til 7.000 kr. hækkun á persónuafslætti á mánuði, umfram almenna verðuppfærslu, sem kemur til framkvæmda í þremur áföngum. Í ársbyrjun 2009 hækkar persónuafsláttur við staðgreiðslu tekjuskatts um 2.000 kr. á mánuði eftir verðlagsuppfærslu, eða 24.000 kr. á ársgrundvelli. Samsvarandi breyting verður í öðrum áfanga, sem kemur til framkvæmda í ársbyrjun 2010. Þriðji áfangi kemur til framkvæmda í ársbyrjun 2011, þegar persónuafsláttur við staðgreiðslu tekjuskatts hækkar um 3.000 kr. á mánuði eftir verðlagsuppfærslu, eða um 36.000 kr. á árinu.
    Í b-lið er gerð tillaga um hækkun á tekjuskerðingarmörkum barnabóta í fyrsta áfanga úr 100 þús. kr. á mánuði fyrir einstaklinga í 120 þús. kr. og úr 200 þús. kr. á mánuði fyrir hjón í 240 þús. kr., sbr. nánari umfjöllun í 4. gr. og almennum athugasemdum við frumvarpið.

Um 8. gr.


    Í greininni um gildistöku er m.a. lagt til að sú hækkun barnabóta og vaxtabóta sem kveðið er á um í frumvarpinu ákvarðist við álagningu 2008 á tekjur ársins 2007. Áréttað er að lækkun skatthlutfalls félaga með annað reikningsár en almanaksárið tekur ekki til þeirra félaga sem ljúka því reikningsári sínu á árinu 2008 sem hófst árið 2007. Lækkun á tekjuskattshlutfalli félaga sem svo háttar til um kemur fyrst til þegar reikningsárið hefst á árinu 2008 og álagning fer fram á árinu 2009 eða síðar vegna þess árs.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 90/2003,
um tekjuskatt, með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu eru lagðar til ýmsar breytingar á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, sem flestar tengjast aðgerðum ríkisstjórnarinnar sem gripið var til í því skyni að greiða fyrir gerð kjarasamninga á almennum markaði. Í fyrsta lagi er lagt til að persónuafsláttur vegna tekjuskatts einstaklinga hækki um samtals 7.000 krónur á mánuði eða 84.000 krónur á ársgrundvelli umfram almenna verðuppfærslu í þremur áföngum. Fyrsti áfanginn kemur til framkvæmda í ársbyrjun 2009 þegar persónuafslátturinn hækkar um 2.000 krónur á mánuði umfram verðlag, eða um 24.000 krónur samtals á árinu. Sama hækkun verður í öðrum áfanga sem kemur til framkvæmda í ársbyrjun 2010. Í þriðja áfanga er hækkun persónuafsláttar umfram verðlag 3.000 krónur á mánuði, eða 36.000 krónur samtals á ári, og kemur hún til framkvæmda í ársbyrjun 2011. Áhrif þessara breytinga á persónuafslætti á tekjuhlið ríkissjóðs er talin nema í kringum 17 milljörðum króna á ári þegar þær eru að fullu komnar til framkvæmda. Þar af koma um 5 milljarðar króna fram á næsta ári.
    Í öðru lagi er lögð til lækkun á tekjuskatti hlutafélaga og einkahlutafélaga úr 18% í 15%. Hlutfall tekjuskatts hjá öðrum lögaðilum, m.a. sameignarfélögum, lækkar samsvarandi, eða úr 26% í 23,5%. Lækkunin tekur gildi frá og með rekstrarárinu 2008 og kemur til framkvæmda við álagningu tekjuskatts á árinu 2009. Ýmsum vandkvæðum er bundið að meta áhrif þessara breytinga á tekjur ríkissjóðs, ekki síst vegna þeirra miklu umbrota sem nú eiga sér stað í íslensku efnahagslífi, en samkvæmt lauslegri áætlun gæti sú fjárhæð numið allt að 6 milljörðum króna á ári.
    Í þriðja lagi eru lagðar til breytingar á barnabótum, sem koma til framkvæmda í tveimur áföngum. Þannig er lagt til að viðmiðunarmörk tekna við álagningu barnabóta á þessu ári vegna tekna á árinu 2007 verði hækkuð úr u.þ.b. 100 þús. kr. á mánuði í 120 þús. kr. fyrir einstæða foreldra og úr 200 þús. kr. á mánuði í 240 þús. kr. fyrir hjón og sambýlisfólk. Auk þess er lagt til að tekjuskerðingarhlutföll vegna annars og þriðja barns verði lækkuð um 1%, þ.e. úr 6% og 8% í 5% og 7%. Sú breyting kemur einnig til framkvæmda á þessu ári. Seinni áfangi breytingarinnar kemur hins vegar til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2009 vegna tekna ársins 2008, en þá munu tekjuviðmiðunarmörk einstæðra foreldra hækka í 150 þús. kr. á mánuði og hjóna í 300 þús. kr. á mánuði. Heildaráhrif þessara breytinga á útgjaldahlið ríkissjóðs eru talin nema allt að 2 milljörðum króna á ári, þar af um 1,2 milljörðum króna á þessu ári.
    Í fjórða lagi inniheldur frumvarpið tillögu um 35% hækkun á eignarviðmiðunarmörkum vaxtabóta, sem lagt er til að komi til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda á þessu ári. Útgjaldaáhrif þeirrar breytingar eru áætluð um 700 m.kr. á ári.
    Þegar allt er lagt saman er reiknað með að þessar breytingar sem fjallað er um hér að framan skerði afkomu ríkissjóðs um allt 25 til 26 milljarða króna á ársgrundvelli þegar þær verða að fullu komnar til framkvæmda. Áhrifin á þessu ári eru talin nema tæpum 2 milljörðum króna. Á móti vega almenn áhrif af auknum efnahagsumsvifum á tekjuhlið ríkissjóðs í kjölfar þessara breytinga sem afar erfitt er að spá fyrir um. Lauslegt mat á grundvelli þjóðhagsspár bendir til að þau áhrif gætu verið í kringum 10 milljarðar króna þegar þau eru komin að fullu fram og gæti því afkoma ríkissjóðs batnað sem því nemur. Miðað við þetta gætu nettóáhrifin af lagabreytingunum falið í sér um 15 milljarða króna skerðingu á afkomu ríkissjóðs.
    Í frumvarpinu er einnig að finna tillögu að breytingum á ákvæðum tekjuskattslaganna um skattalega meðferð á gengishagnaði og gengistapi. Samkvæmt gildandi lögum skal færa gengismismun, þ.e. gengishagnað að frádregnu gengistapi, að fullu til tekna eða gjalda á viðkomandi reikningsári. Tillaga frumvarpsins felur það í sér að gengismismun verði dreift með jafnri fjárhæð á þrjú reikningsár, þ.e. það reikningsár þegar mismunur myndast og næstu tvö þar á eftir. Til lengra tíma litið hefur þessi breyting engin áhrif á tekjuhlið ríkissjóðs, en áhrif milli einstakra ára kunna að verða einhver og þá bæði til hækkunar og lækkunar. Frumvarpið gerir einnig ráð fyrir að afdráttarskattur af arðgreiðslum til erlendra aðila með takmarkaða skattskyldu verði lækkaður úr 15% í 10% til samræmis við innlenda aðila í því skyni að skapa jafnræði á grundvelli EES-samningsins. Þessi breyting er talin hafa óveruleg áhrif á tekjur ríkissjóðs. Að lokum er sú tillaga að sama regla gildi um staðaruppbætur útsendra starfsmanna Þróunarsamvinnustofnunar Íslands og staðaruppbætur fastráðinna, settra eða skipaðra starfsmanna við sendiráð Íslands og hjá sendiræðismönnum, þ.e. að þær verði frádráttarbærar frá tekjum við álagningu tekjuskatts. Sem stendur eru ákvæði um skattalega meðferð launa hjá umræddum starfsmönnum í lögum nr. 43/1981, um Þróunarsamvinnustofnun Íslands, en þau lög munu falla úr gildi, með nýjum lögum um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Jafnframt er almenna reglan sú að kveðið sé á um skattalega meðferð hvers kyns tekna í lögum um tekjuskatt en ekki í sérlögum. Áhrif þessarar breytingar á afkomu ríkissjóðs eru óveruleg.
    Þegar á heildina er litið er ekki gert ráð fyrir að framangreindar breytingar hafi för með sér teljandi útgjöld fyrir skattyfirvöld heldur rúmist þær innan útgjaldaramma fjármálaráðuneytisins.