Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 516. máls.

Þskj. 817  —  516. mál.Frumvarp til laga

um ráðstöfun andvirðis vatnsréttinda kristfjárjarðanna
Merkis og Arnarhóls.

(Lagt fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)
1. gr.

    Sveitarstjórn Fljótsdalshéraðs er heimilt að ráðstafa andvirði vatnsréttinda kristfjárjarðanna Merkis og Arnarhóls á Jökuldal til félagslegra framkvæmda í sveitarfélaginu.
    Ráðstöfun andvirðis vatnsréttindanna skal háð samþykki sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins og vera samræmanleg hinum forna tilgangi kristfjárgjafa.

2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Samkvæmt úrskurði matsnefndar um verðmæti vatnsréttinda sem nýtt verða við Kárahnjúkavirkjun nema samanlagðar bætur vegna vatnsréttinda jarðanna Merkis og Arnarhóls á Jökuldal í Fljótsdalshéraði um 19,7 millj. kr. Landbúnaðarráðuneytið tók við greiðslu bótanna með heimild í fjáraukalögum 2007 og fjallar frumvarp þetta um ráðstöfun þeirra. Að viðbættum vöxtum frá uppkvaðningardegi til greiðsludags nemur fjárhæð bótanna um 20,3 millj. kr.
    Jörðin Merki er byggð úr landi Arnheiðarstaða í Fljótsdalshreppi sem hefur verið talin kristfjárjörð svo langt aftur sem skriflegar heimildir ná og má hér vísa til máldaga frá árinu 1367 (Fornbréfasafn III, bls. 240). Gjafabréf jarðarinnar er hins vegar glatað. Jörðin Arnarhóll er nýbýli sem byggt var úr landi Merkis árið 1960 en er nú í eyði. Af þessum sökum eru bæði Merki og Arnarhóll einnig kristfjárjarðir.
    Kristfjárjarðir eru sjálfseignarstofnanir eða ígildi þeirra sem gefnar voru í því skyni að fátæklingar mættu njóta afgjalds þeirra. Í greinargerð félagsmálaráðuneytisins um kristfjárjarðir frá 1952 segir að samkvæmt sögn fróðra manna séu Arnheiðarstaðir gefnir sem kristfjárjörð með þeirri kvöð að á eftir gjaldi heimajarðarinnar skuli framfleytt svonefndum hundraðsómaga og eftirgjaldið metið 1 hundrað á landsvísu.
    Upphaflega voru kristfjárjarðir í umsjá kirkjunnar en frá því á 19. öld hafa kirkjuleg yfirvöld almennt haft lítil afskipti af þeim. Kirkjumálaráðuneytið, síðar landbúnaðarráðuneytið og loks sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hafa frá um 1940 haft forræði á Merki og síðar Arnarhól.
    Afla verður sérstakrar heimildar til sölu kristfjárjarða þar sem þær eru ígildi sjálfseignarstofnana. Hefur löggjafinn í þeim tilvikum ætíð gert að skilyrði við söluna að söluandvirðinu verði varið í samræmi við fornan tilgang kristfjárgjafarinnar.
    Þar sem kristfjárjarðir bera kennimörk löngu liðinna og gerólíkra þjóðlífshátta er erfitt að greina nákvæmlega hver þau verkefni eru sem fallið geta að tilgangi eignarformsins sem fyrst og fremst er fátækraframfærsla. Sú heimild sem felst í frumvarpi þessu gengur eins langt og kostur er í þessum efnum og byggist um leið á fyrirmynd í lögum nr. 53/2001 um sölu kristfjárjarðanna Arnheiðarstaða og Droplaugarstaða í Fljótsdalshreppi. Í þeim lögum var með líkum hætti og í þessu frumvarpi veitt heimild til sölu jarðanna gegn því að andvirði þeirra yrði varið til félagslegra framkvæmda sem samræmanlegar væru hinum forna tilgangi kristfjárgjafa.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um ráðstöfun andvirðis
vatnsréttinda kristfjárjarðanna Merkis og Arnarhóls.

    Markmið frumvarpsins er að heimila sveitarstjórn Fljótsdalshéraðs að ráðstafa andvirði vatnsréttinda kristfjárjarðanna Merkis og Arnarhóls í Jökuldal til félagslegra framkvæmda í sveitarfélaginu. Samkvæmt úrskurði matsnefndar um verðmæti vatnsréttinda sem nýtt verða við Kárahnjúkavirkjun nema samanlagðar bætur vegna vatnsréttinda fyrrgreindra jarða um 19,7 m.kr. eða 20,3 m.kr. að viðbættum vöxtum.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa áhrif á afkomu ríkissjóðs.