Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 520. máls.

Þskj. 821  —  520. mál.



Frumvarp til laga

um Landeyjahöfn.

(Lagt fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)




1. gr.
Markmið.

    Markmið laga þessara er að styrkja samgöngur milli lands og Vestmannaeyja með því að setja reglur um uppbyggingu og rekstur ferjuhafnar í Bakkafjöru á Landeyjum, Rangárþingi eystra, sem hefur hlotið heitið Landeyjahöfn.

2. gr.
Fjármögnun og yfirstjórn.

    Samgönguráðherra fer með yfirstjórn málefna Landeyjahafnar nema annað sé ákveðið í öðrum lögum og annast Siglingastofnun Íslands þátt ríkisins samkvæmt lögunum nema lög kveði á um annað.
    Landeyjahöfn skal byggð og rekin fyrir framlög úr ríkissjóði eins og þau eru ákveðin í samgönguáætlun og fjárlögum hverju sinni.

3. gr.
Eignarhald og rekstur hafnarinnar.

    Landeyjahöfn er að fullu í eigu íslenska ríkisins.
    Siglingastofnun Íslands hefur umsjón með byggingu og rekstri Landeyjahafnar, ber ábyrgð á rekstri hennar og fer með verkefni hafnarstjórnar samkvæmt hafnalögum.
    Með rekstri hafnarinnar er átt við forræði yfir höfn og hafnarsvæði, þ.m.t. uppbygging hafnarinnar, viðhald og rekstur.
    Eignum og tekjum Landeyjahafnar má aðeins verja í viðhald og rekstur hafnarinnar.
    Siglingastofnun Íslands er heimilt að gera þjónustusamning um rekstur hafnarinnar og hefur eftirlit með framkvæmd hans. Um hann gilda reglur um þjónustusamninga ríkisins.

4. gr.
Eignarnámsheimild.

    Samgönguráðherra er heimilt að ákveða, að fengnum tillögum Siglingastofnunar Íslands, að ríkið taki eignarnámi nauðsynlegt land fyrir Landeyjahöfn, enda komi fullar bætur fyrir.
    Landeiganda ber að leyfa efnistöku í landi sínu á því efni sem þarf til hafnargerðarinnar, hvort heldur er grjót, möl eða önnur jarðefni, enda komi fullar bætur fyrir. Þá er samgönguráðherra heimilt að ákveða, að fengnum tillögum Siglingastofnunar Íslands, að ríkið taki eignarnámi land er þarf fyrir varnargarða meðfram Markarfljóti og Álunum og sjóvarnargarða, svo og land til þess að gera brautir og vegi er því tengjast.
    Samgönguráðherra afhendir Siglingastofnun Íslands þau verðmæti sem tekin eru eignarnámi skv. 1. og 2. mgr.
    Það er ekki skilyrði þess að eignarnám skv. 1. eða 2. mgr. geti farið fram að áður hafi verið leitað samninga um land við landeigendur, hvort sem er vegna lands eða efnistöku.
    Um framkvæmd eignarnáms og ákvörðun eignarnámsbóta fer eftir lögum nr. 11/1973, um framkvæmd eignarnáms.

5. gr.
Landgræðsla.

    Landeiganda er skylt að heimila uppgræðslu sands á Bakkafjöru sem nauðsynleg er að mati Siglingastofnunar Íslands og Landgræðslu ríkisins til að hefta sandfok við Landeyjahöfn og aðkomuvegi að höfninni án þess að til komi bætur. Mörk landgræðslusvæðis eru frá stórstraumsfjöruborði í suðri, Bakkaflugvelli og upp að Álunum í norðri, Markarfljóti í austri og vatnsleiðslu Vestmannaeyjabæjar í vestri.
    Landeigandi hefur ekki heimild til að nýta land sem ræktað er samkvæmt ákvæði þessu til beitar eða á nokkurn annan hátt nema með samþykki Landgræðslu ríkisins.

6. gr.
Reglugerðarheimild.

    Heimilt er að setja reglugerð um Landeyjahöfn þar sem m.a. mörk hafnarinnar bæði á sjó og landi eru nánar tilgreind, fram koma starfsheimildir hafnarinnar og heimild til umferðar á hafnarsvæðinu auk annarra atriða er varða öryggi, mengunarvarnir og slysavarnir í höfninni.

7. gr.
Gjaldtökuheimild.

    Ráðherra er heimilt að setja gjaldskrá til innheimtu gjalda vegna kostnaðar við þjónustu og framkvæmd einstakra verka sem tengjast rekstri Landeyjahafnar. Um gjaldtökuheimild skal taka mið af 17. gr. hafnalaga, nr. 61/2003, eftir því sem við á.
    Kostnaður við rekstur hafnarinnar greiðist að öðru leyti af framlögum sem ákvörðuð eru í samgönguáætlun í samræmi við ákvæði fjárlaga hverju sinni.

8. gr.
Gildissvið.

    Þar sem lögum þessum sleppir gilda ákvæði hafnalaga, nr. 61/2003, eftir því sem við á.

9. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að byggð verði ferjuhöfn í Bakkafjöru á Landeyjum sem alfarið verður fjármögnuð úr ríkissjóði og rekin af ríkinu. Hér er því lögð til einstök hafnarframkvæmd og er ljóst að þessi höfn fellur ekki að öllu leyti undir hafnalög, nr. 61/2003, með síðari breytingum. Þykir því nauðsynlegt að sett verði sérlög sem gilda um þessa tilteknu ferjuhöfn eingöngu og er frumvarp þetta samið í því skyni. Frumvarpinu er ætlað að ganga framar hafnalögum, en þar sem því sleppir gilda hafnalög eftir því sem við á.
    Upphaf málsins um ferjuhöfn í Landeyjum er að rekja til þingsályktunartillögu um rannsóknir á ferjuaðstöðu við Bakkafjöru undan Vestmannaeyjum sem samþykkt var á 126. löggjafarþingi 2000–2001. Flutningsmenn hennar voru Árni Johnsen, Drífa Hjartardóttir, Arnbjörg Sveinsdóttir, Hjálmar Árnason, Guðmundur Hallvarðsson, Ísólfur Gylfi Pálmason, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Kristján L. Möller og Jón Kristjánsson. Tillagan var svohljóðandi:
    „Alþingi ályktar að fela samgönguráðherra að hlutast til um við Siglingastofnun Íslands að hún hefji sem fyrst rannsóknir á ferjuaðstöðu við Bakkafjöru og öðrum aðstæðum í tengslum við ferjuleið frá Vestmannaeyjum að Bakkafjöru.“
    Í greinargerð með tillögunni kom m.a. fram að slík framkvæmd mundi gjörbylta samgöngum milli lands og Eyja og allri aðstöðu á Suðurlandsundirlendinu. Ferðir yrðu farnar á 30–60 mínútna fresti og siglingatími gæti farið allt niður í 20 mínútur.
    Í framhaldinu skipaði þáverandi samgönguráðherra starfshóp til að fjalla um samgöngur til Vestmannaeyja. Starfshópurinn, sem starfaði undir forustu Páls Sigurjónssonar verkfræðings, skilaði lokaskýrslu árið 2006 þar sem m.a. var mælt með þessari leið til að bæta samgöngur milli lands og Eyja.
    Þegar niðurstöður starfshópsins lágu fyrir skipaði þáverandi samgönguráðherra, í júlí 2006, stýrihóp til að vinna að forathugun og forhönnun ferjuhafnar í Bakkafjöru á Landeyjasandi sem lið í bættum almenningssamgöngum milli Vestmannaeyja og fastalandsins. Í skipunarbréfi stýrihópsins var miðað við að hin nýja ferja hæfi siglingar milli lands og Eyja árið 2010 ef niðurstöður hans yrðu jákvæðar.
    Stýrihópurinn skilaði skýrslu í mars 2007 þar sem kom fram að niðurstöður rannsókna væru mjög jákvæðar. Var það álit stýrihópsins að gerð ferjuhafnarinnar væri góður kostur fyrir almenningssamgöngur milli lands og Eyja um langa framtíð. Stýrihópurinn lagði því til við þáverandi samgönguráðherra að ákveða að ráðast í gerð ferjuhafnarinnar og smíði nýrrar ferju þannig að fljótlega yrði unnt að hefjast handa við frekari undirbúning að gerð hafnarinnar.
    Ákveðið hefur verið að fara að tillögum stýrihópsins og hefjast handa við gerð ferjuhafnar sem alfarið skal kostuð úr ríkissjóði og er í samgönguáætlun 2007–2010 og fjárlögum 2008 gert ráð fyrir hafnarframkvæmdum í Bakkafjöru.
    Í frumvarpinu er lagður til rammi um framkvæmdir og rekstrarform ferjuhafnarinnar sem lagt er til að nefnist Landeyjahöfn. Gengur frumvarpið framar gildandi hafnalögum, nr. 61/ 2003, með síðari breytingum, enda ljóst að eðli málsins samkvæmt eiga ýmis ákvæði hafnalaga ekki við um Landeyjahöfn. Þar sem frumvarpinu sleppir er lagt til að hafnalögin gildi, eftir því sem við á.
    Frumvarpið fjallar fyrst og fremst um fjármögnun hafnarframkvæmdanna og eignarhald og rekstrarform hafnarinnar að framkvæmdum loknum.
    Er lagt til að framkvæmdir við gerð Landeyjahafnar og rekstur verði að öllu leyti fjármagnaðar með framlögum úr ríkissjóði í samræmi við ákvörðun löggjafarvaldsins hverju sinni. Yfirstjórn málefna hafnarinnar verður hjá samgönguráðherra en Siglingastofnun Íslands er falin framkvæmd laganna og verður rekstur og uppbygging hafnarinnar í höndum stofnunarinnar.
    Jafnframt er lagt til að Siglingastofnun geti gert þjónustusamning um reksturinn í samræmi við almennar reglur um þjónustusamninga ríkisins.
    Til að tryggja það land sem þarf fyrir höfnina hefur frumvarpið að geyma eignarnámsheimild enda er landið forsenda þess að framkvæmdir geti átt sér stað. Eins og fram kemur í 1. gr. frumvarpsins er markmið þess að bæta samgöngur milli lands og Eyja og eru því augljósir almannahagsmunir fólgnir í því að af gerð hafnarinnar verði.
    Eignarnámsheimildin er fengin samgönguráðherra fyrir hönd ríkisins en lagt er til að Siglingastofnun Íslands geri tillögur að eignarnáminu enda sér stofnunin um byggingu og framkvæmdir við hafnargerðina og er því best í stakk búin til að gefa leiðbeiningar um hver landþörfin er. Eignarnámsheimildinni, hvað varðar land fyrir höfnina, er ekki ætlað að taka til meira lands en nauðsynlegt er fyrir höfnina sjálfa og þau mannvirki sem beinlínis tengjast henni.
    Þá er sams konar eignarnámsheimild vegna efnis sem þarf til hafnargerðarinnar og er sú heimild óháð eignarnámsheimild vegna landsins enda fyrirliggjandi að efnistaka fer fram annars staðar en á því landi sem er við höfnina. Að auki er lögð til heimild til eignarnáms vegna varnargarða og annars sem tengist hafnargerðinni og er órjúfanlegur hluti hennar.
    Þá er lagt til ákvæði þess efnis að ekki þurfi að leita samninga við landeigendur áður en eignarnámið fer fram og helgast það af því að þegar hafa verið fullreyndir samningar við landeigendur um land fyrir höfnina. Engin niðurstaða hefur orðið af þeim samningaviðræðum og ekki við að búast að hún fáist þótt frumvarp þetta verði að lögum. Þykir því ekki ástæða til að framgangur málsins tefjist af þeim sökum.
    Um framkvæmd eignarnáms og ákvörðun eignarnámsbóta er síðan lagt til að farið verið að lögum nr. 11/1973, um framkvæmd eignarnáms.
    Fyrir liggur að græða þarf upp sanda í Bakkafjöru til að hefta sandfok við höfnina og umhverfi hennar. Samningur er milli Landgræðslunnar og landeigenda í Landeyjum um uppgræðslu sandanna en hins vegar er talið nauðsynlegt að tryggja til frambúðar rétt til að rækta upp mela og sanda til að hefta sandfok, enda má gera ráð fyrir að slík ræktun komi landeigendum jafnframt til góða. Er því lagt til að þeir verði að þola slíka uppgræðslu endurgjaldslaust. Samhliða þykir nauðsynlegt að setja bann við nýtingu uppgrædds svæðis nema að fengnu leyfi Landgræðslunnar sem mun hafa umsjón með uppgræðslunni.
    Lagt er til að heimilt verði að setja höfninni reglugerð og að hún hafi sambærilegar gjaldtökuheimildir og aðrar hafnir en þar sem höfnin er að öllu leyti fjármögnuð úr ríkissjóði getur hún ekki niðurgreitt þjónustu sína í samkeppni við aðra.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um Landeyjahöfn.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að byggð verði ferjuhöfn í Bakkafjöru í Landeyjum sem alfarið verði fjármögnuð úr ríkissjóði og rekin af ríkinu.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er gert ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs verði eins og áður hefur verið ákveðið í fjárlögum fyrir árið 2008 og samgönguáætlun. Heildarkostnaður ríkissjóðs við gerð Landeyjahafnar er áætlaður 3.108 m.kr. og skiptist hann þannig að 835 m.kr. falla til árið 2008, 1.416 m.kr. árið 2009 og 857 m.kr. árið 2010.