Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 521. máls.

Þskj. 822  —  521. mál.Frumvarp til laga

um breyting á ýmsum lögum vegna breytts fyrirkomulags
á skráningu og þinglýsingu skipa.

(Lagt fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)
I. KAFLI
Breyting á þinglýsingalögum, nr. 39/1978, með síðari breytingum.

1. gr.

    Í stað orðsins ,,rúmlestir“ í 40. gr. laganna kemur: brúttótonn.

2. gr.

    Í stað orðsins ,,rúmlestir“ í 41. gr. laganna kemur: brúttótonn.

3. gr.

    2. mgr. 42. gr. laganna orðast svo:
    Nú er skrásett skip er þessi kafli laganna tekur til flutt á milli umdæma. Verður þá aðgangur þinglýsingarstjóra í því umdæmi sem skip er flutt til virkur eftir umskráningu skips í aðalskipaskrá. Þinglýst skjöl um skipið skulu vera aðgengileg á tölvutæku formi í skipabók þinglýsingarstjóra.

4. gr.

    Fyrirsögn V. kafla laganna verður: Þinglýsing um skrásett skip, 5 brúttótonn og stærri.

5. gr.

    Í stað orðanna ,,5 rúmlestir“ í 1. mgr. og 1. málsl. 2. mgr. 43. gr. laganna kemur: 5 brúttótonn.

6. gr.

    Í stað orðanna ,,5 rúmlestir“ í 44. gr. laganna kemur: 5 brúttótonn.

7. gr.

    1. mgr. 45. gr. laganna orðast svo:
    Nú er skráð skráningarskylt skip innan 5 brúttótonna flutt á milli skráningarumdæma. Verður þá aðgangur þinglýsingarstjóra í því umdæmi sem skip er flutt til virkur eftir umskráningu skips í aðalskipaskrá. Þinglýst skjöl um skipið skulu vera aðgengileg á tölvutæku formi í skipabók þinglýsingarstjóra.

8. gr.

    Fyrirsögn VI. kafla laganna verður: Þinglýsing um skrásett skráningarskyld skip minni en 5 brúttótonn.

II. KAFLI

Breyting á lögum nr. 115/1985, um skráningu skipa, með síðari breytingum.

9. gr.

    3. mgr. 13. gr. laganna orðast svo:
    Nú veldur hið nýja heimilisfang því að skip er flutt á milli þinglýsingaumdæma. Verður þá aðgangur í skipabók þinglýsingarstjóra í því umdæmi sem skip er flutt til virkur eftir umskráningu skips í aðalskipaskrá. Réttaráhrif þinglýsingar rofna ekki vegna flutningsins.

III. KAFLI

Breyting á siglingalögum, nr. 34/1985, með síðari breytingum.

10. gr.

    Í stað orðanna ,,5 rúmlestir“ í 3. gr. laganna kemur: 5 brúttótonn.

IV. KAFLI

Breyting á lögum nr. 90/1991, um nauðungarsölu, með síðari breytingum.

11. gr.

    Í stað orðsins ,,rúmlestir“ í 2. mgr. 17. gr. laganna kemur: brúttótonn.

V. KAFLI
Breyting á lögum nr. 36/1978, um stimpilgjald, með síðari breytingum.

12. gr.

    Í stað orðsins ,,brúttósmálestum“ í 1. mgr. 16. gr. laganna kemur: brúttótonnum.

VI. KAFLI
Gildistaka.
13. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júní 2008.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Fyrir 1. september 2008 skulu sýslumenn hafa skráð og skannað allar gildandi þinglýstar upplýsingar um skip í tölvufært þinglýsingarkerfi. Fram til þess tíma er þinglýsingarstjóra í því umdæmi sem skip er flutt frá þó áfram heimilt að senda þinglýsingarstjóra í umdæmi því sem skip er flutt til öll skjöl sem í gildi eru um skipið, en staðfest endurrit eða ljósrit ef um er að ræða skjöl sem bundin hafa verið í afsals- og veðmálabækur fyrir gildistöku laga þessara.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er að nokkru byggt á sömu sjónarmiðum og fram komu í frumvarpi um sama efni sem lagt var fram á Alþingi á 132. löggjafarþingi 2005–2006, en varð ekki að lögum. Frumvarpið er samið í samvinnu samgönguráðuneytisins, Siglingastofnunar Íslands, dóms- og kirkjumálaráðuneytis og Fasteignamats ríkisins.
    Með frumvarpi þessu er þó ekki lagt til, eins og í framangreindu frumvarpi, að færsla þinglýsingarbóka skipa og báta verði hjá einu sýslumannsembætti, sýslumanninum á Ísafirði. Þá er það ekki markmið frumvarpsins að framkvæmd nauðungarsölu skipa verði hjá sýslumanninum á Ísafirði. Hins vegar má segja að önnur markmið framangreinds frumvarps séu í samræmi við frumvarp þetta en þau eru einkum:
     1.      Að taka upp samræmdan þinglýsingargagnagrunn fyrir skip í þinglýsingarkerfi Landskrár fasteigna. Í dag er þinglýsingarbók fyrir skip tölvufærð hjá nokkrum sýslumannsembættum en hjá öðrum embættum er þinglýsingarbókin lausblaðabók. Gert er ráð fyrir að þinglýst skjöl verði aðgengileg á tölvutæku formi í skipaskrá þinglýsingarstjóra. Markmiðið er að tryggja samræmi milli aðalskipaskrár og þinglýstra heimilda um skip. Með þessum breytingum verður skipabók þinglýsingarstjóra tengd aðalskipaskrá Siglingastofnunar Íslands er annast skráningar í aðalskipaskrá. Með því móti er framkvæmd þinglýsinga einfölduð og verður ekki lengur nauðsynlegt að senda tilkynningar um breytta skráningu frá Siglingastofnun til sýslumannsembætta og tilkynningar um þinglýsingar frá sýslumannsembættum til Siglingastofnunar.
     2.      Með frumvarpi þessu er lagt til að breyta stærðarviðmiðunum skipa í 5 brúttótonn í stað brúttórúmlesta, en ekki er gert ráð fyrir neinni efnisbreytingu á fyrrnefndum reglum og munu þær taka til svipaðs fjölda skipa og verið hefur. Um nánari ástæður þess að breyta úr rúmlestum í brúttótonn vísast til athugasemda við 1. gr. frumvarpsins.
    Siglingastofnun Íslands heldur aðalskipaskrá yfir öll skip sem skráð eru samkvæmt lögum nr. 115/1985, um skráningu skipa. Sýslumenn þinglýsa eignarheimildum, veðböndum og kvöðum á skip, hver í sínu umdæmi. Þegar skip er frumskráð hjá Siglingastofnun ber stofnuninni að senda „hlutaðeigandi þinglýsingarstjóra“ tilkynningu um skráninguna og á sama hátt ber stofnuninni að tilkynna síðari breytingar á skráningarumdæmi skips. Á sýslumönnum hvílir einnig tilkynningarskylda til Siglingastofnunar í hvert sinn er breytingar verða á eigendaskráningu skipa. Framkvæmd þessara tilkynninga verður einfaldari nái frumvarpið fram að ganga, eins og áður er komið fram.
    Sýslumannsumdæmin eru 25 og heldur hver sýslumaður skipabók yfir þau skip sem skráð eru í umdæminu. Ef skip er selt á milli umdæma þarf að senda „öll skjöl sem í gildi eru“ varðandi skipið frá sýslumanni í eldra umdæmi til sýslumanns í hinu nýja umdæmi. Oft ber aðalskipaskrá Siglingastofnunar og skipabókum sýslumanna ekki saman um eignarheimild svo vikum og mánuðum skiptir. Með því að birta ávallt bæði skráðan eiganda samkvæmt skráningu í skipaskrá og þinglýstan eiganda samkvæmt þinglýsingabók liggur alltaf ljóst fyrir hvar og hvernig í þeirri óvissu liggur ef ekki er samræmi á milli skráðs eiganda og þinglýsts eiganda. Öll skjöl verða kyrr á sama stað verði frumvarp þetta að lögum. Lagt er til með frumvarpi þessu að eignarheimilda- og veðbandaskráning skipa verði hluti af tölvufærðu þinglýsingarkerfi sem sýslumenn nota núna við þinglýsingar vegna fasteigna og bifreiða. Jafnframt er unnið að því á öðrum vettvangi að þinglýsingar annarra eigna, þ.e. lausafjár og loftfara, færist yfir í sama þinglýsingarkerfi, til mikils hagræðis fyrir sýslumenn og aðra hagsmunaaðila. Það er í samræmi við bréf dóms- og kirkjumálaráðuneytisins frá 9. september 2005 um bætta virkni þinglýsingarkerfa Landskrár fasteigna í samræmi við átaksverkefni ráðuneytisins í upplýsinga- og fjarskiptatækni (AUFT).

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. og 2. gr.


    Ákveðið hefur verið að hætta mælingum skipa eftir mælieiningunni rúmlestir. Reglur nr. 244/1987, um mælingar skipa, kveða á um að frá og með 1. júlí 1987 skuli mæla skip samkvæmt alþjóðasamþykkt um mælingu skipa (International Convention on Tonnage Measurement of Ships) sem undirrituð var í Lundúnum 23. júní 1969 og tók gildi 18. júlí 1982. Í þessum reglum felst að taka þarf upp brúttótonn í stað brúttórúmlesta í mælingum skipa. Vegna mismunandi mælireglna á rýmum í skipum er reiknistuðull fyrir umreikning úr rúmlestum í brúttótonn ekki einhlítur. Hér er lagt til að í stað 5 rúmlesta viðmiðunar komi 5 brúttótonna viðmiðun. Samkvæmt aðalskipaskrá eru um 740 skráð skip minni en 5 rúmlestir. Sé miðað við 5 brúttótonn eru 891 skip innan þeirra marka. Skráðum skipum í þessum neðsta flokki fjölgar því nokkuð, en þar sem þetta hefur fyrst og fremst þýðingu varðandi þinglýsingar og ekki þarf að greiða stimpilgjald af skráningu kaupsamninga og afsala er þessi breyting ekki íþyngjandi fyrir þau skip er færast í neðri flokkinn.
    Í ljósi framangreinds eru því lagðar til orðalagsbreytingar á ýmsum lögum til þess að tryggja samræmi.

Um 3. gr.


    Í 3. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á 2. mgr. 42. gr. þinglýsingarlaga, nr. 39/1978, um flutning skipa á milli umdæma. Öll þinglýst skjöl verða skönnuð og við flutning skips á milli umdæma mun ekki lengur þurfa að senda skjöl varðandi skipið til hins nýja þinglýsingarumdæmis heldur verða þau geymd í skjalageymslu hjá því þinglýsingarumdæmi sem skip var skráð áður. Þetta felur í sér mun meira réttaröryggi þar sem pökkun og sending skjala getur leitt til þess að þau misleggist eða týnist. Afrit skjala á löggiltu þinglýstu eintaki verða því geymd í skjalageymslu þess embættis þar sem skip var skráð í upphafi.
    Öll sýslumannsembætti munu hafa skoðunaraðgang að skipabókum annarra embætta og geta þar með veitt upplýsingar úr þinglýsingabókum og gefið út þinglýsingarvottorð óháð skráningarumdæmi skips. Hins vegar verður ekki hróflað við ákvæðum 41.gr., 43. gr. og 47.gr. þinglýsingarlaga um það hvar þinglýsing skjala varðandi skip skuli fara fram og mun þinglýsingarkerfið verða aðgangsstýrt þannig að móttaka skjala og þinglýsing mun einskorðast við það umdæmi þar sem skip er skráð.

Um 4.–6. gr.


    Sjá athugasemdir við 1. og 2. gr.

Um 7. gr.


    Í 7. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á 1. mgr. 45. gr. þinglýsingarlaga, nr. 39/1978, um flutning skipa innan 5 brúttótonna á milli umdæma. Eiga hér við sömu rök og þau sem eru að baki 4. gr. frumvarpsins og vísast til athugasemda um þá grein.

Um 8. gr.


    Sjá athugasemdir við 1. og 2. gr.

Um 9. gr.


    Í 9. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á 3. mgr. 13. gr. laga nr. 115/1985, um skráningu skipa. Í greininni er fjallað um skráningu og flutning skips á milli umdæma og kallast efnislega á við ákvæði 4. og 8. gr. frumvarpsins um breytingar á ákvæðum 42. gr. og 47. gr. þinglýsingarlaga, nr. 39/1978.
    Lagt er til að við flutning skips á milli umdæma þurfi Siglingastofnun ekki að tilkynna þinglýsingarstjóra í því umdæmi sem það er flutt í um flutninginn, eins og framkvæmdin gerir ráð fyrir, í ljósi þess sem aðgangur að skipabók þinglýsingarstjórans verður virkur við flutninginn. Jafnframt er tekið fram að réttaráhrif þinglýsingar rofni ekki við flutninginn. Eins og fyrr er lýst munu öll þinglýst skjöl verða aðgengileg á tölvutæku formi í skipabók þinglýsingarstjóra og mun því ekki lengur þurfa að senda þinglýst skjöl á milli þinglýsingarumdæma við umskráningu skips. Þinglýst eintök skjala munu verða geymd hjá því þinglýsingarembætti þar sem skip var skráð í upphafi. Við umskráningu skips í aðalskipaskrá mun þinglýsingarumdæmi skips breytast sjálfkrafa þannig að við breytingu á skráningarumdæmi skips í aðalskipaskrá mun sjálfkrafa lokast fyrir þinglýsingaraðgang hjá þeim sýslumanni þar sem skip var skráð og opnast fyrir þinglýsingaraðgang hjá sýslumanni í því umdæmi sem skipið flyst til.

Um 10.–12. gr.


    Sjá athugasemdir við 1. og 2. gr.

Um 13. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Í bráðabirgðaákvæði laganna er lagt til að sýslumönnum verði sett ákveðin tímamörk til þess að hafa lokið innfærslum þinglýstra skjala úr skipabókum embætta í skipabók á rafrænu formi. Á aðalskipaskrá eru í allt ríflega 2000 skip og þar af er stór hluti nú þegar innfærður í eldra rafrænt þinglýsingarkerfi og verður þeim gögnum varpað yfir á hinn nýja þinglýsingargrunn. Það er því álitið að frestur til 1. september sé rúmur tími fyrir sýslumenn til þess að skrá og skanna gögnin og gæti það jafnframt verið tilvalið verkefni fyrir sumarstarfsmenn viðkomandi embætta. Innfærsla úr handfærðum skipabókum í þinglýsingarkerfi Landskrár fasteigna mun fara fram með nánast sama hætti og gert var þegar fasteignabækur sýslumanna voru færðar inn í þinglýsingarhluta Landskrár fasteigna. Þar sem því verkefni er enn ekki að fullu leyti lokið er þekking á verkferlum og vinnulagi við innfærslur nú þegar til staðar hjá sýslumannsembættunum svo ekki ætti að pverða til kostnaðarauki fyrir þá aðila sem að koma, þ.e. sýslumenn og Fasteignamat ríkisins, sérstaklega þar sem ekki er um mörg þinglýsingarandlög að ræða.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á ýmsum lögum vegna breytts fyrirkomulags á skráningu og þinglýsingu skipa.

    Markmið frumvarpsins er meðal annars að auka skilvirkni og einfalda kerfi varðandi skráningu og þinglýsingu skráningarskyldra skipa með því að taka upp samræmdan þinglýsingargagnagrunn fyrir skip í þinglýsingarkerfi Landskrár fasteigna hjá Fasteignamati ríkisins og að tryggja samræmi milli aðalskipaskrár og þinglýstra heimilda um skip. Í dag er þinglýsingarbók fyrir skip tölvufærð hjá nokkrum sýslumannsembættum en hjá öðrum embættum er þinglýsingarbókin lausblaðabók. Innfærsla úr handfærðum skipabókum í þinglýsingarkerfi Landskrár fasteigna mun fara fram með nánast sama hætti og viðhafður var þegar fasteignabækur sýslumanna voru færðar í þinglýsingarhluta Landskrár fasteigna.
    Samkvæmt áætlun Fasteignamats ríkisins er gert ráð fyrir að stofnkostnaður vegna forritunar og aðlögunar á hugbúnaði verði minni háttar. Þá er gert ráð fyrir að innfærsla gagna og rekstur gagnagrunnsins verði borinn uppi með gjöldum á notendur skrárinnar.