Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 526. máls.

Þskj. 827  —  526. mál.



Frumvarp til laga

um endurskoðendur.

(Lagt fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)




I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1.      gr.
Skilgreiningar.

    Í lögum þessum merkir:
     1.      Endurskoðandi: Sá sem hefur þekkingu til að gefa hlutlaust og áreiðanlegt álit á reikningsskilum og öðrum fjárhagsupplýsingum, hefur löggildingu til starfa við endurskoðun og fullnægir að öðru leyti skilyrðum laga þessara.
     2.      Endurskoðun: Óháð og kerfisbundin öflun gagna og mat á þeim í þeim tilgangi að láta í ljós rökstutt og faglegt álit endurskoðanda um áreiðanleika þeirra og framsetningu í samræmi við lög, settar reikningsskilareglur eða önnur skilyrði sem fram koma í álitsgerðinni.
     3.      Endurskoðunarfyrirtæki: Fyrirtæki sem fengið hefur skráningu til endurskoðunarstarfa samkvæmt ákvæðum laga þessara.
     4.      Endurskoðunarnefnd: Eins og hún er skilgreind í IX. kafla A laga nr. 3/2006, um ársreikninga.
     5.      Samstarfsfyrirtæki endurskoðenda: Endurskoðendur eða endurskoðunarfyrirtæki sem hafa með sér samstarf sem miðar að hagnaðar- eða kostnaðarskiptingu, sameiginlegu eignarhaldi, sameiginlegum yfirráðum eða stjórn, sameiginlegri stefnu í gæðastjórnun og gæðaaðferðum, sameiginlegri viðskiptastefnu, notar sameiginlegt vörumerki eða samnýtir umtalsverðan hluta faglegra úrræða.
     6.      Alþjóðlegir endurskoðunarstaðlar: Alþjóðlegir staðlar um endurskoðun (ISA) og tengdar yfirlýsingar og staðlar, að því marki sem þeir tengjast endurskoðun, sem framkvæmdastjórn ESB hefur samþykkt í samræmi við 26. gr. tilskipunar 2006/43/EB og teknir hafa verið upp í íslenskan rétt.
     7.      Eining tengd almannahagsmunum:
              a.      Lögaðili sem er með skráð lögheimili á Íslandi og hefur verðbréf sín skráð á skipulegum verðbréfamarkaði í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum.
              b.      Lífeyrissjóður sem hefur fullgilt starfsleyfi.
              c.      Lánastofnun eins og hún er skilgreind í lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.
              d.      Félag sem hefur starfsleyfi til að reka vátryggingastarfsemi hér á landi samkvæmt lögum nr. 60/1994, um vátryggingastarfsemi.

II. KAFLI
Réttindi endurskoðenda.
2. gr.

    Ráðherra veitir réttindi með löggildingu til endurskoðunarstarfa. Til þess að öðlast löggildingu þarf viðkomandi að fullnægja eftirtöldum skilyrðum:
     1.      eiga lögheimili hér á landi, eða vera ríkisborgari aðildarríkis að Evrópska efnahagssvæðinu, aðildarríkis stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyja,
     2.      vera lögráða og hafa haft forræði á búi sínu síðastliðin þrjú ár,
     3.      hafa óflekkað mannorð, svo sem áskilið er til kjörgengis til Alþingis,
     4.      hafa lokið meistaranámi í endurskoðun og reikningsskilum sem viðurkennt er af endurskoðendaráði,
     5.      hafa staðist sérstakt próf, sbr. 5. gr.,
     6.      hafa starfað að lágmarki í þrjú ár undir handleiðslu endurskoðanda við endurskoðun ársreikninga og annarra reikningsskila hjá endurskoðunarfyrirtæki,
     7.      hafa starfsábyrgðartryggingu, sbr. 6. gr.
    Óski endurskoðandi sem hefur réttindi til endurskoðunarstarfa í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum eftir löggildingu til endurskoðunarstarfa hér á landi skal hann standast sérstakt hæfnispróf í lögum og reglum um skatta- og félagarétt.
    Ráðherra getur, að fengnum tillögum endurskoðendaráðs, veitt þeim einstaklingum löggildingu til endurskoðunarstarfa sem sanna að þeir hafi lokið námi og staðist próf erlendis, sem telst samsvara kröfum sem gerðar eru í 4., 5. og 6. tölul. 1. mgr. enda uppfylli þeir ákvæði 2., 3., og 7. tölul. sömu málsgreinar. Slíkir aðilar skulu standast sérstakt hæfnispróf í lögum og reglum um skatta- og félagarétt.
    Endurskoðendaráð getur veitt einstaklingum sem lokið hafa öðru háskólanámi með endurskoðun sem kjörsvið undanþágu frá ákvæði 4. tölul. 1. mgr. enda telji endurskoðendaráð sýnt að umsækjandi hafi næga þekkingu á þeim málefnum sem varða endurskoðendur og störf þeirra.
    Áður en löggilding er veitt skal umsækjandi vinna drengskaparheit um að hann muni af kostgæfni og samviskusemi í hvívetna rækja það starf sem löggildingin veitir honum rétt til að stunda og hlíta lögum og öðrum reglum sem starfið varða.

3. gr.

Endurskoðunarfyrirtæki.


    Endurskoðendum er heimilt að stofna félag um rekstur endurskoðunarfyrirtækis í því formi sem þeir sjálfir kjósa, þar á meðal með takmarkaðri ábyrgð.
    Meiri hluti atkvæðisréttar í endurskoðunarfyrirtæki skal vera í höndum endurskoðenda eða endurskoðunarfyrirtækja sem hlotið hafa viðurkenningu á Evrópska efnahagssvæðinu eða í aðildarríkjum stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum.
    Í endurskoðunarfyrirtæki skal meiri hluti stjórnarmanna vera endurskoðendur eða fulltrúar endurskoðunarfyrirtækja. Ef stjórnarmenn eru tveir skal annar þeirra vera endurskoðandi eða fulltrúi endurskoðunarfyrirtækis.
    Endurskoðunarfyrirtæki skal hafa formlegt gæðakerfi.
    Endurskoðunarfyrirtæki skal tryggja að nöfn og heimilisföng eigenda fyrirtækisins séu aðgengileg almenningi.
    Endurskoðunarfyrirtæki skal að uppfylltum ákvæðum þessarar greinar sækja um réttindi til endurskoðunarstarfa til fjármálaráðuneytisins. Jafnframt ber fyrirtækinu að tilkynna ráðuneytinu án tafar ef það uppfyllir ekki lengur eitthvert þessara ákvæða.

4. gr.

    Ráðuneytið birtir opinbera skrá yfir endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki sem fengið hafa réttindi til endurskoðunarstarfa enda séu ákvæði 2. og 3. gr. uppfyllt.
    Ráðuneytið setur nánari reglur um skráninguna og hvaða upplýsingar skulu koma þar fram.
    Endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki skulu auðkennd með sérstöku númeri í opinberu skránni.
    Endurskoðunarfyrirtæki sem hlýtur skráningu skv. 1. mgr. má ekki hafa verið tekið til gjaldþrotaskipta eða beðið verulegan álitshnekki svo draga megi í efa hæfi þess til að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru um endurskoðun í lögum þessum. Endurskoðunarfyrirtæki sem hlotið hefur skráningu skal án tafar tilkynna fjármálaráðuneytinu ef skilyrði þessarar málsgreinar eru ekki uppfyllt.
    Endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki skv. 1. mgr. skulu, án ástæðulauss dráttar, tilkynna fjármálaráðuneytinu ef breytingar verða á þeim upplýsingum sem fram koma í skránni.
    Öðrum en endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum skv. 1. mgr. er eigi heimilt að nota orðin endurskoðandi eða endurskoðun í starfs- eða firmaheiti sínu. Þá er óheimilt að vekja þá trú að aðili sé endurskoðandi ef hann er það ekki, sbr. 1. mgr., með notkun starfsheitis, firmanafns eða með öðrum misvísandi hætti. Ákvæði þetta nær þó ekki til starfsheitis innri endurskoðenda í fyrirtækjum enda séu störf þeirra hluti af innra stjórnendaeftirliti viðkomandi fyrirtækis.
    Ráðherra skal auglýsa löggildingu endurskoðenda og skráningu endurskoðunarfyrirtækja í Lögbirtingablaði og tilkynna endurskoðendaráði og Félagi löggiltra endurskoðenda. Sama á við ef skráning fellur niður, sbr. 10. mgr.
    Ráðherra gefur út löggildingarskírteini til handa endurskoðanda.
    Fyrir löggildingu skal endurskoðandi greiða gjald í ríkissjóð samkvæmt lögum nr. 88/ 1991, um aukatekjur ríkissjóðs.
    Hafi endurskoðandi lagt inn réttindi sín eða þau verið felld niður skal nafn hans fellt út af skrá, sbr. 1. mgr. Sama á við um endurskoðunarfyrirtæki sem uppfyllir ekki lengur skilyrði 4. mgr. þessarar greinar og/eða skilyrði 3. gr.

5. gr.

Próf og prófnefnd.


    Endurskoðendaráð skv. 14. gr. skipar þriggja manna prófnefnd endurskoðenda sem heldur próf fyrir þá sem sækja um löggildingu til endurskoðunarstarfa. Prófnefndin skal skipuð til fjögurra ára í senn.
    Próf til öflunar endurskoðendaréttinda skal ná til þeirra greina bóknáms og verkmenntunar sem helst varða endurskoðendur og störf þeirra.
    Í reglugerð, sem ráðherra setur að fengnum tillögum endurskoðendaráðs, skal m.a. kveðið nánar á um skilyrði til próftöku, prófgreinar, framkvæmd prófa og lágmarksárangur til að standast þau.
    Próf skulu að jafnaði haldin einu sinni ár hvert.
    Kostnaður vegna prófa, þ.m.t. þóknun til prófnefndarmanna, greiðist með próftökugjaldi sem ráðherra ákveður að fengnum tillögum endurskoðendaráðs.

6. gr.
Starfsábyrgðartrygging.

    Endurskoðanda er skylt að hafa í gildi starfsábyrgðartryggingu hjá vátryggingafélagi sem hefur starfsleyfi hér á landi vegna fjárhagstjóns sem leitt getur af ásetningi eða gáleysi í störfum hans eða starfsmanna hans samkvæmt lögum þessum. Tryggingarskyldan fellur niður ef endurskoðandi leggur inn réttindi sín, sbr. 1. mgr. 24. gr.
    Ráðherra skal, að fengnum tillögum endurskoðendaráðs, ákveða lágmark á fjárhæð tryggingar skv. 1. mgr. og hámark eigin áhættu vátryggingartaka.
    Endurskoðandi skal fyrir 15. janúar ár hvert senda Félagi löggiltra endurskoðenda staðfestingu um að hann hafi í gildi starfsábyrgðartryggingu.

7. gr.
Endurmenntun.

    Endurskoðanda er skylt að sækja endurmenntun sem tryggir að hann viðhaldi reglulega fræðilegri þekkingu, faglegri hæfni og faglegum gildum.
    Endurmenntunin skal að lágmarki svara til 20 klukkustunda á ári og samtals 120 klukkustunda á hverju þriggja ára tímabili. Endurmenntunartímabil endurskoðanda sem fær löggildingu í fyrsta sinn hefst 1. janúar árið eftir að löggilding er veitt.
    Endurmenntun skv. 1. mgr. skal á hverju þriggja ára tímabili ná a.m.k. til eftirtalinna sviða og skal lágmark endurmenntunar á hverju sviði vera:
     a.      endurskoðun 30 klukkustundir,
     b.      reikningsskil og fjármál 20 klukkustundir,
     c.      skatta- og félagaréttur 15 klukkustundir,
     d.      siðareglur og fagleg gildi 10 klukkustundir.
    Endurskoðandi skal halda skrá um endurmenntun sína og skulu a.m.k. 60 klukkustundir vera staðfestanlegar á hverju þriggja ára tímabili.
    Ráðherra getur sett nánari ákvæði um endurmenntun endurskoðenda með reglugerð.

III. KAFLI
Starfsemi endurskoðenda.
8. gr.

    Endurskoðendur skulu rækja störf sín af kostgæfni og samviskusemi í hvívetna og fylgja ákvæðum þeirra laga og reglna sem gilda um störf þeirra.
    Endurskoðandi skal fylgja siðareglum sem settar hafa verið af Félagi löggiltra endurskoðenda.
    Endurskoðandi er opinber sýslunarmaður við framkvæmd endurskoðunarstarfa.

9. gr.

    Endurskoðandi skal rækja störf sín í samræmi við alþjóðlega endurskoðunarstaðla og alþjóðlega staðla um gæðaeftirlit sem teknir hafa verið upp í íslenskan rétt, sbr. 31. gr.

10. gr.

    Endurskoðandi samstæðu ber ábyrgð á endurskoðun samstæðureikninga. Endurskoðandi samstæðunnar skal afla gagna og yfirfara vinnu annarra endurskoðenda sem komið hafa að endurskoðun annarra eininga innan samstæðunnar. Þá skal endurskoðandi samstæðu tryggja aðgang eftirlitsaðila að vinnugögnum annarra endurskoðenda vegna endurskoðunar annarra eininga innan samstæðunnar.
    Í þeim tilvikum þar sem endurskoðun tiltekinna eininga innan samstæðu fer fram í landi utan Evrópska efnahagssvæðisins skal endurskoðandi samstæðu varðveita afrit af vinnugögnum viðkomandi endurskoðenda eða tryggja með öðrum hætti aðgang eftirlitsaðila að þeim og afla sér gagna annarra endurskoðenda. Sé endurskoðanda meinaður aðgangur að vinnugögnum skulu vinnuskjöl skjalfesta þær hindranir og ástæður þeirra.

11. gr.
Áritun.

    Við lok endurskoðunar skal endurskoðandi árita hið endurskoðaða viðfangsefni með áritun sem inniheldur upplýsingar um endurskoðunina og álit endurskoðandans. Hafi endurskoðunarfyrirtæki verið falin endurskoðun skal áritun undirrituð af a.m.k. þeim endurskoðanda sem ábyrgð bar á endurskoðuninni fyrir hönd endurskoðunarfyrirtækisins. Áritun skal vera í samræmi við alþjóðlega endurskoðunarstaðla.

IV. KAFLI
Félag löggiltra endurskoðenda.
12. gr.

    Endurskoðendur skulu hafa með sér fagfélag sem nefnist Félag löggiltra endurskoðenda. Er öllum endurskoðendum skylt að vera þar félagsmenn.
    Hlutverk Félags löggiltra endurskoðenda er að stuðla að faglegri framþróun í endurskoðun og skyldum greinum.
    Félag löggiltra endurskoðenda setur sér samþykktir. Það skal ekki hafa með höndum aðra starfsemi en þá sem sérstaklega er mælt fyrir um í lögum, sbr. þó 5. mgr.
    Félag löggiltra endurskoðenda ber kostnað af þeim störfum sem því eru falin með lögum. Getur félagið lagt árgjald á félagsmenn til að standa straum af þeim kostnaði.
    Félagi löggiltra endurskoðenda er heimilt að starfrækja í öðru skyni en að framan greinir sérstaka félagsdeild, eina eða fleiri. Skal fjárhagur slíkra félagsdeilda aðgreindur frá fjárhag félagsins.

13. gr.

    Félag löggiltra endurskoðenda kemur fram fyrir hönd endurskoðenda gagnvart dómstólum og stjórnvöldum um þau málefni sem stétt þeirra varða. Auk þess skal félagið hafa með höndum eftirtalin verkefni í samráði við endurskoðendaráð:
     1.      Að setja siðareglur fyrir endurskoðendur að fenginni staðfestingu ráðherra á reglunum.
     2.      Að hlutast til um að reglulega séu haldin námskeið sem fullnægja kröfum um endurmenntun, sbr. 7. gr.
     3.      Að halda skrá yfir endurmenntun endurskoðenda.
     4.      Að annast gæðaeftirlit með störfum endurskoðenda.
     5.      Að halda skrá yfir gildandi starfsábyrgðartryggingu endurskoðenda.
     6.      Að halda skrá um þá starfsmenn sem eru í starfsþjálfun, sbr. 6. tölul. 1. mgr. 2. gr.

V. KAFLI
Endurskoðendaráð.
14. gr.

    Ráðherra skipar fimm menn í endurskoðendaráð til fjögurra ára í senn og jafnmarga til vara og skulu þeir hafa þekkingu á sviðum sem tengjast endurskoðun.
    Tveir nefndarmenn skulu skipaðir samkvæmt tilnefningu Félags löggiltra endurskoðenda, einn skal skipaður eftir tilnefningu Viðskiptaráðs Íslands og tveir nefndarmenn skulu skipaðir af ráðherra án tilnefningar og skal annar þeirra vera formaður ráðsins. Skal formaður fullnægja skilyrðum til að vera skipaður í embætti héraðsdómara. Eins skal farið að um skipun varamanna. Meiri hluti ráðsins skal skipaður öðrum en þeim sem hafa starfað við endurskoðun á síðustu þremur árum.

15. gr.

    Hlutverk endurskoðendaráðs er að hafa eftirlit með því að endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki ræki störf sín í samræmi við ákvæði þessara laga, siðareglur Félags löggiltra endurskoðenda og aðrar reglur sem taka til starfa endurskoðenda.
    Endurskoðendaráð skal sérstaklega fylgjast með:
     1.      að endurskoðandi uppfylli skilyrði til löggildingar,
     2.      að endurskoðandi uppfylli kröfur um endurmenntun,
     3.      að reglulegt gæðaeftirlit með störfum endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja fari fram,
     4.      að til séu siðareglur og endurskoðunarstaðlar.
    Endurskoðendaráð skal hafa samvinnu við lögbær yfirvöld í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, í aðildarríki Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum við eftirlit og rannsókn með störfum endurskoðenda.

16. gr.

    Endurskoðendaráð getur tekið mál til meðferðar að eigin frumkvæði ef það hefur ástæðu til að ætla að endurskoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki hafi brotið gegn lögum þessum, siðareglum Félags löggiltra endurskoðenda eða öðrum reglum sem taka til starfa endurskoðenda.
    Hver sá sem telur á sér brotið af hálfu endurskoðanda með aðgerðum eða aðgerðaleysi hans getur skotið málinu til endurskoðendaráðs til úrskurðar. Mál skal lagt fyrir endurskoðendaráð með skriflegu erindi og skulu því fylgja nauðsynleg gögn að mati ráðsins.
    Endurskoðendaráð úrskurðar um kæru- og ágreiningsefni sem lúta að störfum endurskoðenda samkvæmt lögum þessum.
    Endurskoðendaráði er heimilt ef sérstaklega stendur á að skylda málsaðila til að greiða gagnaðila sínum málskostnað vegna rekstrar máls fyrir ráðinu.
    Endurskoðendaráð getur með rökstuddu áliti vísað máli til opinberrar rannsóknar.

17. gr.

    Endurskoðendaráð skal veita endurskoðendum eða endurskoðunarfyrirtækjum hæfilegan frest til að bæta úr óverulegum annmörkum sem kunna að koma í ljós við eftirlit skv. 15. gr.
    Nú telur endurskoðendaráð sýnt að endurskoðandi hafi í störfum sínum brotið gegn lögum þessum svo að ekki verði við unað skal endurskoðendaráð í rökstuddu áliti veita viðkomandi aðila áminningu eða leggja til við ráðherra að réttindi endurskoðandans verði felld niður.

18. gr.

    Endurskoðendaráð skal setja sér starfsreglur sem ráðherra samþykkir.
    Ákvarðanir endurskoðendaráðs sæta ekki stjórnsýslukæru.
    Endurskoðendaráð skal jafnan leita álits sérfróðra manna utan ráðsins um mál sem eru utan við sérfræðisvið þeirra manna er ráðið skipa.
    Í hverju máli skal fullskipað endurskoðendaráð úrskurða.
    Verði ekki samkomulag í ráðinu um afgreiðslu máls skal þess getið í umsögn, enda hefur sá eða þeir, er ágreining gera, rétt til að gera sérstaka grein fyrir atkvæði sínu.
    Endurskoðendaráð lætur dómstólum, ákæruvaldi og stjórnvöldum í té umsagnir varðandi efni á sviði endurskoðunar.
    Endurskoðendaráð skal árlega gera skýrslu um störf sín og skal hún opin almenningi. Birta skal opinberlega og rekja alla úrskurði ráðsins skv. 16. gr.
    Sérhver endurskoðandi skal greiða í ríkissjóð árlegt gjald að fjárhæð 50.000 kr. til að standa straum af kostnaði við störf endurskoðendaráðs. Gjalddagi gjaldsins er 1. janúar og ef gjaldið er ekki greitt innan 30 daga frá gjalddaga skal greiða dráttarvexti af því skv. III. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, með síðari breytingum.

VI. KAFLI
Óhæði endurskoðenda.
19. gr.

    Í endurskoðunarverkefnum skal endurskoðandi og endurskoðunarfyrirtæki vera óháð viðskiptavini sínum, bæði í reynd og ásýnd. Endurskoðandi skal eigi framkvæma endurskoðun ef einhver þau tengsl eru á milli endurskoðandans og viðskiptavinar hans sem eru til þess fallin að vekja efa um óhæði hans hjá vel upplýstum þriðja aðila, svo sem atvinnutengsl, bein eða óbein fjárhagsleg tengsl eða viðskiptatengsl önnur en leiðir af endurskoðuninni.
    Endurskoðanda er óheimilt að taka þátt í ákvörðunum stjórnar eða stjórnenda þess aðila sem hann endurskoðar.
    Við mat á óhæði skal endurskoðandi fylgja ákvæðum siðareglna sem Félag löggiltra endurskoðenda hefur sett, sbr. 1. tölul. 13. gr. Skjalfesta skal í vinnuskjölum við endurskoðunina allar alvarlegar ógnanir gagnvart óhæði og tilgreina viðeigandi verndarráðstafanir.
    Endurskoðandi einingar tengdrar almannahagsmunum skal á hverju ári:
     1.      staðfesta skriflega við endurskoðunarnefnd viðkomandi einingar að hann séu óháður hinni endurskoðuðu einingu,
     2.      greina endurskoðunarnefndinni frá þeirri þjónustu sem einingunni er veitt auk endurskoðunar,
     3.      ræða við endurskoðunarnefndina um hugsanlega ógnun við óhæði sitt og þær verndarráðstafanir sem gerðar eru til að draga úr slíkri ógnun.

20. gr.
Starfstími endurskoðenda.

    Ef ekki er annað áskilið í lögum eða í samþykktum fyrirtækis eða samið er um annað helst starf endurskoðanda samkvæmt lögum þessum þangað til annar endurskoðandi tekur við. Endurskoðandi getur þó látið af starfi áður en ráðningartíma hans lýkur en þá ber honum og eftir atvikum stjórn þess aðila sem í hlut á að tilkynna starfslok endurskoðandans og ástæður þeirra til endurskoðendaráðs. Ekki er hægt að segja upp samningi um endurskoðun vegna ágreinings um reikningsskilareglur eða endurskoðunaraðferðir.
    Þegar skipt er um endurskoðanda skal endurskoðandinn sem tekur við snúa sér til fráfarandi endurskoðanda sem ber skylda til að upplýsa um ástæðurnar fyrir starfslokum sínum. Jafnframt skal fyrri endurskoðandinn veita hinum nýja endurskoðanda aðgang að öllum upplýsingum sem máli skipta um fyrirtækið sem endurskoðað er.
    Endurskoðandi sem ber ábyrgð á endurskoðun einingar tengdrar almannahagsmunum skal taka sér hlé frá endurskoðun þeirrar einingar í a.m.k. tvö ár samfellt eigi síðar en sjö árum eftir að honum var falið verkið. Sama gildir um endurskoðendur þeirra dótturfélaga sem hafa verulega þýðingu innan samstæðunnar.
    Endurskoðanda sem áritar endurskoðuð reikningsskil einingar tengdrar almannahagsmunum er ekki heimilt að taka við lykilstjórnunarstöðu hjá viðkomandi fyrirtæki fyrr en a.m.k. tvö ár eru liðin frá því að hann tók þátt í endurskoðun fyrirtækisins.

21. gr.
Þóknun.

    Þóknun fyrir endurskoðun skal við það miðuð að hún geri endurskoðanda kleift að komast að rökstuddri niðurstöðu í samræmi við þær faglegu kröfur sem settar eru fram í lögum þessum og gilda almennt um störf endurskoðenda.
    Greiðsla eða fjárhæð þóknunar fyrir endurskoðun má ekki með nokkrum hætti skilyrða eða tengja öðru en endurskoðuninni.

VII. KAFLI
Gæðaeftirlit.
22. gr.

    Endurskoðunarfyrirtækjum og endurskoðendum sem þar starfa og sjálfstætt starfandi endurskoðendum er skylt að sæta gæðaeftirliti eigi sjaldnar en á sex ára fresti í samræmi við ákvæði þessarar greinar.
    Endurskoðendur eða endurskoðunarfyrirtæki sem annast endurskoðun eininga tengdra almannahagsmunum skulu þó sæta gæðaeftirliti eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti.
    Endurskoðendaráð setur reglur um framkvæmd gæðaeftirlits og val gæðaeftirlitsmanna svo að tryggt sé að þeir séu óháðir þeim sem eftirlitið beinist að.
    Endurskoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki sem sætir gæðaeftirliti skal veita þeim sem sinnir gæðaeftirliti nauðsynlega aðstoð og aðgang að upplýsingum sem óskað er eftir við gæðaeftirlitið. Lagaákvæði um þagnarskyldu takmarka ekki skyldu til þess að veita upplýsingar og aðgang að gögnum.
    Endurskoðendaráð skal árlega birta upplýsingar um heildarniðurstöðu gæðaeftirlitsins.

VIII. KAFLI
Brottfall endurskoðunarréttinda.
23. gr.

    Sá sem hefur löggildingu til endurskoðunarstarfa og fullnægir ekki skilyrðum laga til þess að njóta hennar skal án tafar tilkynna það til endurskoðendaráðs.

24. gr.

    Endurskoðandi getur lagt inn réttindi sín og falla þá niður réttindi og skyldur hans sem endurskoðanda nema annað leiði af lögum. Endurskoðandi getur ekki lagt inn réttindi sín ef mál hans er til meðferðar hjá endurskoðendaráði nema með heimild endurskoðendaráðs enda séu annmarkar óverulegir.
    Hafi endurskoðandi lagt inn réttindi sín skal veita honum þau á ný eftir umsókn hans án endurgjalds ef hann fullnægir orðið öllum skilyrðum til að njóta þeirra og sanni að hann hafi uppfyllt endurmenntunarkröfur þriggja ára tímabils.

25. gr.

    Réttindi endurskoðanda falla niður eftir ákvörðun ráðherra:
     1.      Ef endurskoðandi fullnægir ekki skilyrðum til löggildingar.
     2.      Að tillögu endurskoðendaráðs, sbr. 17. gr.
    Hafi réttindi endurskoðanda verið felld niður skv. 1. mgr. getur einstaklingur óskað eftir endurnýjun þeirra, enda fullnægi hann öllum skilyrðum til löggildingar. Skal þá veita honum þau standist hann próf að nýju skv. 5. gr. Ráðherra getur, að fengnum tillögum endurskoðendaráðs, veitt undanþágur frá ákvæðinu.
    Endurskoðendaráð getur lagt til við ráðherra að réttindi endurskoðunarfyrirtækis til endurskoðunarstarfa verði felld niður uppfylli það ekki ákvæði laga þessara.

26. gr.

    Hafi réttindi endurskoðanda verið felld niður eða þau lögð inn skal löggildingarskírteini skv. 8. mgr. 4. gr. án tafar skilað til fjármálaráðuneytisins.

IX. KAFLI
Skaðabætur og refsingar.
27. gr.

    Endurskoðandi ber ábyrgð á tjóni sem hann eða starfsmenn hans valda í störfum sínum, af ásetningi eða gáleysi. Um sakarmat og sönnun gilda reglur skaðabótaréttar.

28. gr.

    Brot gegn lögum þessum og reglum, sem settar verða samkvæmt þeim, varða sektum til ríkissjóðs, niðurfellingu réttinda eða fangelsi allt að 2 árum, nema þyngri hegning liggi við samkvæmt öðrum lögum hvort sem þau eru framin af ásetningi eða gáleysi.
    Heimilt er að gera upptækan með dómi beinan eða óbeinan hagnað sem hlotist hefur af broti gegn ákvæðum laga þessara er varða sektum eða fangelsi.
    Tilraun til brots eða hlutdeild í brotum samkvæmt lögum þessum er refsiverð eftir því sem segir í almennum hegningarlögum.

X. KAFLI
Ýmis ákvæði.
29. gr.
Skýrsla um gagnsæi.

    Endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki sem hafa með höndum endurskoðun eininga tengdra almannahagsmunum skulu árlega birta á vefsetri sínu skýrslu um gagnsæi. Skýrslan skal birt eigi síðar en þremur mánuðum fyrir lok hvers reikningsárs.
    Í skýrslu endurskoðunarfyrirtækis um gagnsæi skal a.m.k. eftirfarandi koma fram:
     a.      lýsing á félagsformi og eignarhaldi,
     b.      lýsing á lagalegu og skipulagslegu fyrirkomulagi samstarfsfyrirtækja endurskoðenda sem það kann að tilheyra,
     c.      lýsing á stjórnskipulagi þess,
     d.      lýsing á innra gæðaeftirlitskerfi og yfirlýsing frá stjórn um skilvirkni þess,
     e.      upplýsingar um hvenær síðasta gæðaeftirlit fór fram, sbr. 22. gr.,
     f.      skrá yfir einingar tengdar almannahagsmunum sem það hefur annast lögboðna endurskoðun fyrir á næstliðnu fjárhagsári,
     g.      upplýsingar um óhæðisreglur ásamt staðfestingu um að þeim hafi verið fylgt,
     h.      upplýsingar um endurmenntunarstefnu, sbr. 7. gr.,
     i.      upplýsingar um heildarveltu, sundurliðað eftir þóknun fyrir endurskoðun og aðra þjónustu á næstliðnu fjárhagsári,
     j.      upplýsingar um grundvöllinn fyrir starfskjörum eigenda.
    Skýrslan um gagnsæi skal undirrituð af stjórn endurskoðunarfyrirtækis, sbr. 3. gr., eða af viðkomandi endurskoðanda ef hann er sjálfstætt starfandi.
    Eftirlit með skýrslum um gagnsæi er í höndum endurskoðendaráðs.

30. gr.
Þagnarskylda.

    Endurskoðendur, starfsmenn endurskoðenda, eftirlitsaðilar og hverjir þeir sem taka að sér verk í þágu endurskoðenda eða eftirlitsaðila eru bundnir þagnarskyldu um allt það er þeir kunna að komast að vegna starfa sinna og leynt skal fara samkvæmt lögum eða eðli máls, nema dómari úrskurði að skylt sé að veita upplýsingar fyrir dómi eða lögreglu eða skylda sé til að veita upplýsingar lögum samkvæmt. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er endurskoðendaráði heimilt að láta erlendum eftirlitsaðilum eða lögbærum yfirvöldum erlendis í té upplýsingar að því tilskildu að viðkomandi erlendir aðilar uppfylli kröfur um samsvarandi þagnarskyldu og séu undir eftirliti í sínu heimalandi. Með upplýsingar, sem eftirlitsaðili fær frá framangreindum erlendum aðilum og einkenndar eru sem trúnaðarmál eða eru það eðli máls samkvæmt, skal fara að hætti 1. mgr.

31. gr.

    Ráðherra getur sett reglugerð um nánari framkvæmd þessara laga, þar á meðal um innleiðingu alþjóðlegra endurskoðunarstaðla sem samþykktir hafa verið af sameiginlegu EES- nefndinni.

XI. KAFLI
Gildistaka o.fl.
32. gr.
Innleiðing.

    Lög þessi eru sett til þess að taka upp í innlendan rétt ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2006/43/EB frá 17. maí 2006 um lögboðna endurskoðun ársreikninga og samstæðureikninga, um breytingu á tilskipun ráðsins 78/660/EBE og 83/349/EBE og um niðurfellingu á tilskipun ráðsins 84/253/EBE eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 160/2006.

33. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2009. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 18/1997, um endurskoðendur, með síðari breytingum.

Ákvæði til bráðabirgða.

I.

    Fyrsta endurmenntunartímabil skv. 7. gr. hefst 1. janúar 2010. Þrátt fyrir 33. gr. halda ákvæði 3. og 4. málsl. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 18/1997, um endurskoðendur, með síðari breytingum, gildi sínu fram að þeim tíma.

II.

    Þar til alþjóðlegir endurskoðunarstaðlar hafa verið teknir upp í íslenskan rétt skal endurskoðun skv. 9. gr. fara eftir góðri endurskoðunarvenju. Með góðri endurskoðunarvenju er átt við að endurskoðað sé með viðurkenndum aðferðum í samræmi við leiðbeinandi reglur um endurskoðun (ISA) út gefnar af alþjóðasamtökum endurskoðenda (IFAC) sem Félag löggiltra endurskoðenda er aðili að.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta miðar að því að koma til framkvæmda hér á landi tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/43/EB frá 17. maí 2006 um lögboðna endurskoðun ársreikninga og samstæðureikninga, um breytingu á tilskipun ráðsins 78/660/EBE og 83/349/EBE og um niðurfellingu á tilskipun ráðsins 84/253/EBE, hér eftir nefnd 8. félagatilskipun.
    Evrópusambandið hefur síðan 1996 markvisst unnið að samræmingu reglna um reikningsskil og endurskoðendur. Í mars 2004 lagði framkvæmdastjórnin fram tillögu að 8. félagatilskipuninni. Hún var svo samþykkt 17. maí 2006 og birt í Stjórnartíðindum EB þann 9. júní 2006.
    Tilskipunin var tekin upp í EES-samninginn 8. desember 2006 með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 160/2006. Vegna skuldbindinga okkar að Evrópurétti ber að innleiða 8. félagatilskipun í íslenskan rétt.
    Með tilskipuninni er stefnt að mikilli, en þó ekki fullkominni, samræmingu krafna um lögboðna endurskoðun. Aðildarríki sem gerir kröfu um lögboðna endurskoðun er heimilt að setja strangari kröfur nema kveðið sé á um annað í tilskipuninni. Í henni koma fram grunnreglur sem eiga að tryggja það að markmið tilskipunarinnar náist en aðildarríki geta almennt gengið lengra en tilskipunin segir til um.
    Einn helsti tilgangur tilskipunarinnar er að tryggja með betri hætti en áður að fjárfestar og aðrir hagsmunaaðilar geti reitt sig á störf endurskoðenda og að koma í veg fyrir fjármálamisferli innan Evrópusambandsins. Í kjölfar fjármálamisferla sem átt hafa sér stað á síðastliðnum árum hefur Evrópusambandið áréttað mikilvægi þess að skýrar og einsleitar reglur gildi um störf endurskoðenda innan sambandsins. Í því skyni er með tilskipuninni m.a. leitast við að skýra skyldur endurskoðenda, reyna eftir fremsta megni að tryggja óhæði þeirra og auka samstarf eftirlitsaðila innan Evrópusambandsins. Jafnframt er með tilskipuninni ráðgert að öll endurskoðun innan Evrópusambandsins, og þar af leiðandi innan Evrópska efnahagssvæðisins, fari fram í samræmi við alþjóðlega endurskoðunarstaðla sem gefnir verða út af framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.
    Þar sem tilskipunin gengur töluvert lengra í átt að samræmingu en áður hefur verið gert á þessu sviði hafa önnur ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins gert töluverðar breytingar á þeim reglum landsréttar sem taka til starfa endurskoðenda.
    Innleiðing tilskipunarinnar í íslenskan rétt kallar á umfangsmikla endurskoðun núgildandi laga og reglna um endurskoðendur en lög nr. 18/1997, um endurskoðendur, hafa nánast staðið óbreytt frá því þau tóku gildi árið 1. júlí 1997. Fyrir gildistöku þeirra tóku lög nr. 67/1976 til starfa endurskoðenda en þau leystu af hólmi lög nr. 89/1953 sem komu í stað fyrstu laga um löggilta endurskoðendur hér á landi, nr. 9 frá 15. júní 1926.
    Ráðherra skipaði nefnd 1. september 2006 til að setja fram fullmótaðar tillögur um innleiðingu tilskipunarinnar. Í vinnuhópinn voru skipuð Þórður Reynisson, fjármálaráðuneytinu, formaður, Elmar Hallgríms Hallgrímsson, fjármálaráðuneytinu, Gunnar Sigurðsson, Félagi löggiltra endurskoðenda, Lárus Finnbogason, Deloitte, Margret G. Flóvenz, KPMG, og Ólafur B. Kristinsson, PricewaterhouseCoopers. Einnig störfuðu með nefndinni Ögmundur Hrafn Magnússon og Harpa Theodórsdóttir frá fjármálaráðuneytinu.
    Frumvarpið byggist í meginatriðum á tilskipuninni en auk hennar var við samningu frumvarpsins höfð hliðsjón af núgildandi löggjöf og norrænum rétti á sviði endurskoðunar. Innleiðing tilskipunarinnar kallar jafnframt á breytingar á lögum um ársreikninga og því er samhliða frumvarpinu lagt fram frumvarp til breytinga á lögum um ársreikninga, með síðari breytingum.

Helstu breytingar sem felast í frumvarpinu.
    Eins og áður hefur komið fram felast í frumvarpinu töluverðar breytingar á núgildandi lögum og reglum um endurskoðendur. Frumvarpið nær til endurskoðenda og starfa þeirra sem felast í endurskoðun eins og hún er skilgreind í lögum þessum. Meðal helstu breytinga sem lagðar eru til í frumvarpinu eru:
     1.      Að allir endurskoðendur skuli sæta reglubundnu gæðaeftirliti.
     2.      Að tekin verði upp skylduaðild endurskoðenda að Félagi löggiltra endurskoðenda.
     3.      Að lögfest verði sú krafa að allir endurskoðendur starfi samkvæmt ítarlegum siðareglum sem Félag löggiltra endurskoðenda setur, að fenginni staðfestingu ráðherra.
     4.      Hlutverk endurskoðendaráðs breytist og gegnir það eftirlitshlutverki varðandi skráningu endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækja, endurmenntun og reglulegu gæðaeftirliti og að endurskoðandi uppfylli skilyrði til löggildingar.
     5.      Auknar kröfur um óhæði og þá sérstaklega gagnvart fyrirtækjum tengdum almannahagsmunum.
     6.      Auknar kröfur til endurmenntunar endurskoðenda.
    Ákvæðum frumvarpsins er skipt í ellefu kafla, en greinar þess eru alls þrjátíu og þrjár auk bráðabirgðaákvæða. Hér að aftan verður fjallað nánar um einstakar greinar frumvarpsins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um I. kafla.

    Í I. kafla er að finna skýringar á helstu hugtökum sem koma fyrir í frumvarpinu.

Um 1. gr.

    Í greininni er að finna orðskýringar þar sem helstu hugtök sem fram koma í frumvarpinu eru skilgreind. Í núgildandi lögum eru hugtök ekki skilgreind sérstaklega en rétt þykir að taka af allan vafa um merkingu nokkurra lykilhugtaka frumvarpsins með greininni.
    Í fyrsta lagi er að finna í ákvæðinu skilgreiningu á hugtakinu endurskoðandi. Hugtakið er skilgreint með sambærilegum hætti og 1. mgr. 1. gr. núgildandi laga.
    Í 2. tölul. er hugtakið endurskoðun skilgreint en rétt þótti að skýra það hugtak með hliðsjón af markmiðum laganna.
    Í 3. tölul. er hugtakið endurskoðunarfyrirtæki skýrt en með því er átt við fyrirtæki sem fengið hefur skráningu til endurskoðunarstarfa samkvæmt ákvæðum laganna. Hugtakið tekur því aðeins til þeirra félaga sem fengið hafa opinbera skráningu til endurskoðunarstarfa en það er nýmæli frá núgildandi lögum.
    Um endurskoðunarnefnd verður fjallað í IX. kafla A í lögum um ársreikninga, verði frumvarp um það efni samþykkt. Er hér látið nægja að vísa til þess kafla.
    Með hugtakinu samstarfsfyrirtæki endurskoðenda í 5. tölul. 1. mgr. er átt við enska hugtakið „network“ og er það skilgreint með sams konar hætti og í 7. tölul. 2. gr. 8. félagatilskipunarinnar.
    Skilgreiningin á hugtakinu alþjóðlegir endurskoðunarstaðlar er í samræmi við skýringu þess hugtaks í 11. tölul. 2. gr. tilskipunarinnar.
    Hugtakið eining tengd almannahagsmunum hefur ekki áður verið skilgreint í íslenskri löggjöf en með því er átt við einingu (e. entity) sem er í rekstri og sem almennt má telja að sé þjóðhagslega mikilvæg og rétt þykir að gera auknar kröfur um áreiðanleika og óhæði þegar kemur að endurskoðun hennar. Í samræmi við tilskipunina er annars vegar lagt til að hugtakið taki til eininga sem eiga lögheimili hér á landi og eru jafnframt með verðbréf skráð á skipulegan verðbréfamarkað í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum. Hugtakið skipulegur verðbréfamarkaður er skilgreindur í samræmi við lög um kauphallir. Þar er hugtakið skilgreint sem marghliða viðskiptakerfi innan Evrópska efnahagssvæðisins sem leiðir saman kaupendur og seljendur fjármálagerninga, í samræmi við ófrávíkjanlegar reglur þess, þannig að til samninga stofnast um fjármálagerninga sem teknir hafa verið til viðskipta í viðskiptakerfinu. Hins vegar er gert ráð fyrir því að hugtakið taki einnig til lánastofnana eins og þær eru skilgreindar í lögum um fjármálafyrirtæki, en það eru viðskiptabankar, sparisjóðir, lánafyrirtæki og rafeyrisfyrirtæki sem fengið hafa starfsleyfi, og félaga sem hafa starfsleyfi til að reka vátryggingastarfsemi hér á landi. Að auki er lagt til að hugtakið eining tengd almannahagsmunum verði jafnframt látið ná til lífeyrissjóða og er það talið eðlilegt með hliðsjón af eðli og þjóðfélagslegu mikilvægi þeirra.

Um II. kafla.

     Í II. kafla er m.a. fjallað um þau skilyrði sem einstaklingur þarf að uppfylla til að geta öðlast löggildingu til endurskoðunarstarfa, hvaða skilyrði félag þarf að uppfylla til að fá skráningu sem endurskoðunarfyrirtæki og próf til öflunar endurskoðunarréttinda. Enn fremur er í kaflanum fjallað um starfsábyrgðartryggingu endurskoðenda og kröfur um endurmenntun endurskoðenda.

Um 2. gr.

    Í þessari grein eru talin upp þau skilyrði sem einstaklingur þarf að uppfylla til að öðlast löggildingu til endurskoðunarstarfa.
    Í 1. mgr. er fjallað í sjö töluliðum um þau skilyrði sem einstaklingur þarf að uppfylla til að geta öðlast löggildingu sem endurskoðandi. Það sem er frábrugðið frá núgildandi lögum er skilyrði um lögheimili í 1. tölul. og í 4. tölul. er kveðið á um að einstaklingur skal hafa lokið meistaranámi í endurskoðun og reikningsskilum sem viðurkennt er af endurskoðendaráði. Í núgildandi lögum var miðað við brottfararpróf frá viðskiptadeild Háskóla Íslands með endurskoðun sem kjörsvið. Það brottfararpróf frá Háskóla Íslands sem miðað er við í núgildandi lögum er ekki lengur til en í stað þess hefur komið nám sem lýkur með meistaraprófi í reikningsskilum og endurskoðun. Auk þess eru nú fleiri háskólar sem útskrifa nemendur með sömu prófgráðu og því þykir ekki rétt að binda þetta skilyrði við ákveðin háskóla. Gert er ráð fyrir að við mat endurskoðendaráðs á meistaranámi í endurskoðun og reikningsskilum skuli námið að minnst kosti ná til þeirra greina sem um getur í 1. og 2. tölul. 8. gr. 8. félagatilskipunarinnar.
    Í 2. mgr. er fjallað um þau skilyrði sem endurskoðandi sem hefur endurskoðunarréttindi í ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum þarf að uppfylla. Skal hann gangast undir og standast sérstakt hæfnispróf í lögum og reglum um skatta- og félagarétt.
    Í 3. mgr. er fjallað um þau skilyrði sem endurskoðendur eða einstaklingar þurfa að uppfylla til að fá löggildingu til endurskoðunarstarfa hér á landi ef þeir hafa lokið námi og staðist próf til endurskoðunarréttinda í erlendu ríki sem ekki fellur undir 2. mgr. Gerðar eru ítarlegri kröfur til þeirra aðila sem hafa endurskoðunarréttindi frá öðrum ríkjum en til þeirra sem um getur í 2. mgr. en ráðherra getur að fengnum tillögum endurskoðendaráðs og að nánari skilyrðum uppfylltum veitt þeim aðilum löggildingu til endurskoðunar. Þeir skulu jafnframt gangast undir og standast sérstakt hæfnispróf í lögum og reglum um skatta- og félagarétt.
    Með ákvæði 4. mgr. er endurskoðendaráð veitt heimild til að veita einstaklingum undanþágu frá ákvæði 4. tölul. 1. mgr. sem lokið hafa öðru háskólanámi með endurskoðun sem kjörsvið. Þar sem ekki er langt síðan farið var að bjóða upp á meistaranám í endurskoðun og reikningsskilum þykir rétt að veita þeim einstaklingum sem lokið hafa námi sem fullnægir ákvæðum gildandi laga tækifæri til að öðlast löggildingu enda telji endurskoðendaráð sýnt að umsækjandi hafi næga þekkingu á þeim málefnum sem varða endurskoðendur og störf þeirra.
    Með 5. mgr. er lögfest sú skipan sem verið hefur í gildi, þ.e. að áður en einstaklingi er veitt löggilding skal hann vinna með undirritun drengskaparheit um að hann muni rækja starfið af kostgæfni og samviskusemi í hvívetna og hlíta lögum og öðrum reglum sem starfið varða.

Um 3. gr.


    Greinin fjallar um heimild endurskoðenda til þess að stofna félag um rekstur sinn og þau skilyrði sem slíkt félag þarf að uppfylla. Einstök ákvæði greinarinnar taka mið af 4. gr. 8. félagatilskipunarinnar og núgildandi lögum um endurskoðendur, nr. 18/1997.
    1. mgr. er samhljóða 1. mgr. 6. gr. núgildandi laga. Ekki er gerð sérstök krafa til rekstrarforms endurskoðunarfyrirtækja og miðað er við að endurskoðendur geti stofnað félag um rekstur endurskoðunarfyrirtækis í því formi sem þeir sjálfir kjósa, þar á meðal með takmarkaðri ábyrgð. Það breytir þó engu um að endurskoðandi ber alltaf óskerta ábyrgð á tjóni sem hann eða starfsmaður hans veldur öðrum með störfum sínum.
    Í 2. mgr. kemur fram að meiri hluti atkvæðisréttar í endurskoðunarfyrirtæki skuli vera í höndum endurskoðenda, sbr. 2. gr., og/eða endurskoðunarfyrirtækja sem viðurkennd eru á Evrópska efnahagssvæðinu eða í aðildarríkjum stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum. Í núgildandi lögum eru töluverðar takmarkanir á eignarhaldi og rekstri endurskoðunarfyrirtækja en með frumvarpinu er lagt til að þær heimildir verði rýmkaðar töluvert. Í frumvarpinu er ekki gerð krafa um að rekstur félags skv. 1. gr. takmarkist eingöngu við rekstur endurskoðunarfyrirtækis og eignaraðild er ekki takmörkuð að öðru leyti en því að eftir sem áður er miðað við að skorður séu lagðar við eignarhaldi í endurskoðunarfélögum þannig að meiri hluti atkvæðisréttar í endurskoðunarfyrirtæki skal ávallt vera í höndum endurskoðenda eða endurskoðunarfyrirtækis.
    Með 3. mgr. eru tekin af öll tvímæli um að meiri hluti stjórnarmanna endurskoðunarfyrirtækja skulu vera endurskoðendur eða fulltrúar endurskoðunarfyrirtækja.
    Í 4. mgr. er kveðið á um að endurskoðunarfyrirtæki skuli hafa formlegt gæðakerfi. Þetta ákvæði er í samræmi við ákvæði í 29. gr. 8. félagatilskipunarinnar þar sem kveðið er á um að gæðaeftirlit skuli m.a. beinast að gæðakerfi endurskoðunarfyrirtækja. Með gæðakerfi er átt við formlegar gæðareglur sem taka mið af alþjóðlegum stöðlum sem gefnir eru út af IFAC (the International Federation of Accountants) um gæðaeftirlit, svo sem ISQC (International Standards on Quality Control). Með 5. mgr. er lögð sú skylda á endurskoðunarfyrirtæki að þau tryggi að nöfn og heimilisföng eigenda fyrirtækisins séu aðgengileg almenningi. Slíkt er m.a. hægt að gera með því að birta umræddar upplýsingar á vefsvæðum viðkomandi fyrirtækja.
    Þar sem gert er ráð fyrir að hægt sé að veita endurskoðunarþjónustu í nafni endurskoðunarfyrirtækis er gert ráð fyrir að ráðuneytið veiti slíkum fyrirtækjum réttindi til að veita þessa þjónustu að uppfylltum þeim skilyrðum sem fram koma í greininni auk 4. mgr. 4. gr. Jafnframt er lögð sú skylda á endurskoðunarfyrirtæki að það tilkynni án tafar fjármálaráðuneytinu ef það uppfyllir ekki skilyrði greinarinnar.

Um 4. gr.

    Með greininni er kveðið á um að ráðuneytið haldi opinbera skrá þannig að þeir sem kaupa endurskoðunarþjónustu og almenningur geti með einföldum hætti séð hverjir hafi réttindi til að veita slíka þjónustu. Ráðuneytið setur nánari reglur um skráninguna en getur falið öðrum aðila, t.d. Félagi löggiltra endurskoðenda, að annast uppfærslu og innskráningu þeirra upplýsinga sem fram koma í skránni.
    Í 2. mgr. kemur fram að ráðuneytið setji nánari reglur um skráninguna og hvaða upplýsingar skulu koma þar fram. Gert er ráð fyrir að við setningu reglna samkvæmt þessari málsgrein sé tekið tillit til 16., 17., 19. og 45. gr. 8. félagatilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins.
    Í 3. mgr. kemur fram að sérhver endurskoðandi og sérhvert endurskoðunarfyrirtæki fær sérstakt númer og skulu þau auðkennd með þessu númeri í opinberu skránni, sbr. 1. mgr.
    Endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki sem fengið hafa réttindi til endurskoðunarstarfa verða að njóta óskoraðs trausts þeirra aðila sem reiða sig á störf þeirra. Þess vegna er mikilvægt að í lögum um endurskoðendur séu ákvæði sem vísa til þess að þeir sem hafa slík réttindi verði að gæta að því að staða þeirra á hverjum tíma gefi til kynna að ekki sé ástæða til þess að draga í efa hæfi þeirra og sjálfstæði í endurskoðunarstörfum. Endurskoðendur þurfa að uppfylla slík skilyrði í 2. og 3. tölul. 1. mgr. 2. gr. til þess að öðlast og halda réttindum sínum. Ákvæði 4. mgr. er ætlað tryggja að endurskoðunarfyrirtæki lúti sömu reglum.
    Samkvæmt 5. mgr. bera endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki ábyrgð á að tilkynna fjármálaráðuneytinu, án ástæðulauss dráttar, ef breytingar verða á þeim upplýsingum sem fram eiga að koma í skránni.
    Samkvæmt 6. mgr. er öðrum en endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum sem eru skráð á opinberu skrána, sbr. 1. mgr., óheimilt að nota orðin endurskoðandi og endurskoðun í starfsheitum sínum. Félögum eða einstaklingum sem ekki hafa fengið skráningu samkvæmt greininni verður því óheimilt að selja eða með öðrum hætti að bjóða upp á endurskoðun. Það er þó talið nauðsynlegt að setja undanþáguákvæði um starfsheitið innri endurskoðandi. Ástæða þess er sú að þetta starfsheiti hefur unnið sér sess og á sér erlenda samsvörun í hugtakinu „Internal Auditor“. Þetta starfsheiti er bundið við störf að innri endurskoðun í fyrirtækjum sem hafa innri endurskoðunardeild og víða er kveðið á um slíka innri endurskoðun í lögum. Starfsheitið hefur eingöngu merkingu innan þess fyrirtækis sem viðkomandi starfar en er ekki sjálfstætt að öðru leyti þannig að viðkomandi gefi til kynna að hann taki að sér endurskoðun með þeim hætti sem kveðið er á um í frumvarpinu.
    Í ákvæði 7. mgr. kemur fram að ráðherra ber að auglýsa hver hafi fengið löggildingu sem endurskoðandi og skráningu endurskoðunarfyrirtækis í Lögbirtingablaði. Jafnframt ber ráðuneytinu að tilkynna það endurskoðendaráði og Félagi löggiltra endurskoðenda, en nauðsynlegt er að það sé gert þar sem eftirlit er að hluta til hjá þessum aðilum. Það skal áréttað að skyldan til að auglýsa hver hafi fengið löggildingu sem endurskoðandi gildir líka þegar manni er veitt löggilding að nýju, eftir að hann hefur misst hana. Sama fyrirkomulag skal haft við þegar endurskoðunarfyrirtæki er fellt af skrá eða ef endurskoðandi hefur lagt inn réttindi sín eða þau verið felld niður.
    Önnur ákvæði greinarinnar þarfnast ekki skýringa.

Um 5. gr.


    Greinin fjallar um próf til að öðlast löggildingu sem endurskoðandi. Greinin er svipuð 3. gr. núgildandi laga. Helsta breytingin sem lögð er til frá núgildandi lögum er að endurskoðendaráð skipar prófnefnd til fjögurra ára í senn en ekki ráðherra.
    Samkvæmt 3. mgr. skal ráðherra setja reglugerð, að fengnum tillögum endurskoðendaráðs, þar sem nánar skal kveðið á um skilyrði til próftöku, prófgreinar, framkvæmd prófa og lágmarksárangur til að standast þau.
    Í 4. mgr. er kveðið á um að prófin skulu haldin einu sinni ár hvert eins og verið hefur.
    Kostnaður vegna prófanna greiðist með próftökugjaldi sem ráðherra ákveður að fengnum tillögum endurskoðendaráðs en gjaldið skal ekki vera hærra en kostnaðurinn við gerð og framkvæmd prófanna.

Um 6. gr.


    Endurskoðandi ber bótaábyrgð á störfum sínum og starfsmanna sinna samkvæmt almennum reglum og því er lagt til að endurskoðendum verði skylt að hafa í gildi starfsábyrgðartryggingu hjá vátryggingafélagi sem hefur starfsleyfi hér á landi. Ákvæðið er að mestu efnislega samhljóða ákvæði 10. gr. núgildandi laga um endurskoðendur. Sambærileg ákvæði eru almennt í erlendri löggjöf um endurskoðendur og í 8. félagatilskipun er mælt fyrir um tryggingarskyldur endurskoðenda.
    Ákvæði 2. mgr. er sams konar og í núgildandi lögum og fjallar um heimild ráðherra til að ákveða lágmark starfsábyrgðartryggingar og hámark eigin áhættu vátryggingartaka. Við slíka ákvörðun skal hann hafa hliðsjón af tillögum endurskoðendaráðs.
    Með 3. mgr. er lagt er til að endurskoðandi skuli árlega, fyrir 15. janúar, senda Félagi löggiltra endurskoðenda staðfestingu um að hann hafi í gildi starfsábyrgðartryggingu, en í gildandi lögum ber að senda umrædda tilkynningu til ráðuneytisins.

Um 7. gr.


    Krafan um reglubundna endurmenntun er í samræmi við 13. gr. 8. félagatilskipunarinnar.
    Lagt er til að reglugerð sem sett verður á grundvelli þessarar greinar taki mið af reglum um endurmenntun sem fram koma í menntunarstaðli IFAC, IES 7 (International Educations Standard for Professional Accountants). Umfang endurmenntunar, þar sem krafist er að hún skuli að lágmarki vera 20 klukkustundir á ári og samtals 120 klukkustundir á hverju þriggja ára tímabili, er í samræmi við 34. gr. þessa menntunarstaðals. Þar er einnig að finna þá kröfu að helmingur þeirrar endurmenntunar sem fram fer á hverju þriggja ára tímabili skal vera staðfestanlegur.
    Í 3. mgr. er lagt til að endurmenntunin nái a.m.k. til eftirtalinna sviða: endurskoðunar, reikningsskila og fjármála, skatta- og félagaréttar, svo og siðareglna og faglegra gilda. Í greininni er tiltekinn lágmarkstímafjöldi fyrir hvert svið miðað við hvert þriggja ára tímabil.
    Í 4. mgr. er gert ráð fyrir að endurskoðandi annist sjálfur skráningu á þeirri endurmenntun sem hann hefur sinnt og geti gert grein fyrir henni og skulu a.m.k. 60 klukkustundir vera staðfestanlegar á hverju þriggja ára tímabili.
    Í 5. mgr. kemur fram að ráðherra hefur heimild til að setja nánari reglur um endurmenntun endurskoðenda.

Um III. kafla.


    Í þessum kafla frumvarpsins er fjallað um starfsemi endurskoðenda. Í III. kafla núgildandi laga eru að finna sams konar ákvæði og eru í 1. mgr. 8. gr. og 11. gr. Önnur ákvæði kaflans eru nýmæli sem taka mið af 8. félagatilskipun.

Um 8. gr.


    Í 1. mgr. eru settar fram almennar kröfur til starfa endurskoðenda en greinin er efnislega samsvarandi 2. mgr. 7. gr. núgildandi laga um endurskoðendur.
    Í 2. mgr. kemur fram að endurskoðandi skuli fylgja siðareglum sem settar eru af Félagi löggiltra endurskoðenda. Í 2. mgr. 15. gr. núgildandi laga er að finna ákvæði um siðareglur fyrir endurskoðendur en það orðalag sem hér lagt er til í greininni er skýrara og afdráttarlausara. Ákvæðið er einnig í samræmi við 21. gr. 8. félagatilskipunarinnar þar sem fram kemur að aðildarríki skulu tryggja að allir endurskoðendur hlíti siðareglum starfsstéttarinnar.
    Samkvæmt 3. mgr. er endurskoðandi opinber sýslunarmaður og ber því, eftir atvikum, réttindi og skyldur sem opinber starfsmaður. Sams konar ákvæði var í lögum nr. 67/1976, um endurskoðendur, en féll út við gildistöku núgildandi laga um endurskoðendur, nr. 18/1997. Telja má að þótt ákvæðið sé ekki í núgildandi lögum leiði það af eðli málsins að endurskoðendur geti, eftir atvikum, borið réttindi og skyldur sem opinberir starfsmenn. Til að taka af allan vafa um slíkt þykir rétt að taka það fram með skýrum hætti í frumvarpinu.

Um 9. gr.


    Þessi grein er í samræmi við 26. gr. 8. félagatilskipunarinnar þar sem þess er krafist að endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki annist lögboðna endurskoðun í samræmi við alþjóðlega endurskoðunarstaðla sem framkvæmdastjórnin samþykkir.
    Í frumvarpinu er ekki gerður greinarmunur á lögboðinni endurskoðun og annarri endurskoðun enda markmiðið eitt og hið sama þó að sumum aðilum sé skylt sé að láta endurskoða reikningsskil sín en ekki öðrum. Ákvæðið í tilskipuninni er lágmarkskrafa og því ekkert sem kemur í veg fyrir að ákvæði frumvarpsins nái til allrar endurskoðunar hvort sem hún er lögboðin eða ekki.
    Í skilgreiningu í 2. gr. 8. tilskipunarinnar kemur fram að með alþjóðlegum endurskoðunarstöðlum sé átt við ISA (International Statements on Auditing) og tengdar yfirlýsingar og staðla sem varða endurskoðunina. Í endurskoðunarstöðlum ISA er víða vísað í alþjóðlega gæðastaðla ISQC en einnig er gert ráð fyrir því að vísað sé til þessara staðla við gæðaeftirlit. Því er í frumvarpinu gert ráð fyrir að endurskoðandi ræki störf sín í samræmi við alþjóðlega gæðastaðla.
    Endurskoðun hefur það að markmiði að endurskoðandi láti í ljós álit á reikningsskilum eða öðrum upplýsingum í sérstakri áritun. Álit endurskoðanda samkvæmt ISA-stöðlum og tengdum yfirlýsingum og stöðlum sem tengjast endurskoðuninni getur falið í sér jákvæða staðfestingu eða neikvæða staðfestingu eftir því hvort um er að ræða endurskoðun eða könnun. Hvort tveggja lýtur að álitsgerð endurskoðanda á reikningsskilum og er því, í samræmi við 8. félagatilskipun, gert ráð fyrir að könnunarstaðlar ISRE (International Standards on Review Engagements) séu hluti alþjóðlegra endurskoðunarstaðla.

Um 10. gr.


    Þessi grein kveður á um að endurskoðandi móðurfélags og dótturfélaga þess beri ábyrgð á endurskoðun samstæðureikninga. Tilskipunin kveður á um að endurskoðandi samstæðureikninga beri fulla ábyrgð á áritun samstæðureiknings. Endurskoðandi samstæðunnar skal því yfirfara vinnu endurskoðenda þeirra eininga innan samstæðunnar sem hann endurskoðar ekki sjálfur og skrá þá yfirferð þannig að eftirlitsaðilar geti lagt mat á vinnu hans í þessu samhengi. Í þeim tilvikum þar sem endurskoðun tiltekinna eininga innan samstæðu fer fram í landi utan Evrópska efnahagssvæðisins skal endurskoðandi samstæðu varðveita afrit af vinnugögnum viðkomandi endurskoðenda eða tryggja með öðrum hætti aðgang eftirlitsaðila að þeim og afla sér gagna annarra endurskoðenda. Sé endurskoðanda meinaður aðgangur að vinnugögnum skulu vinnuskjöl skjalfesta þær hindranir og ástæður þeirra.

Um 11. gr.


    Með greininni er kveðið á um að sá sem ber ábyrgð á endurskoðuninni skuli staðfesta hana með áritun um að hún innihaldi upplýsingar um endurskoðunina og álit endurskoðandans. Jafnframt skal tekið fram að endurskoðunin sé framkvæmd í samræmi við alþjóðlega endurskoðunarstaðla. Með greininni er jafnframt verið að innleiða 28. gr. 8. félagatilskipunar. Endurskoðendum er eftir sem áður heimilt að beita góðri endurskoðunarvenju svo fremi sem ekki hafi verið innleiddir alþjóðlegir endurskoðunarstaðlar sem taka til sama efnis, sbr. 31. gr.

Um IV. kafla.

    Ákvæði IV. kafla frumvarpsins fjalla um Félag löggiltra endurskoðenda. Með frumvarpinu eru lagðar til verulegar breytingar á lögbundnu hlutverki félagsins og aukið eftirlit með endurskoðendum almennt. Því er lagt til að tekin verði upp skylduaðild endurskoðenda að Félagi löggiltra endurskoðenda.

Um 12. gr.


    Í greininni er fjallað um fagfélag endurskoðenda sem nefnist Félag löggiltra endurskoðenda og hlutverk þess. Nýmæli þessarar greinar er m.a. að öllum endurskoðendum er skylt að vera þar félagsmenn. Skylduaðildin tengist þeim verkefnum sem félaginu er falið að annast, sbr. 13. gr., en verkefnin snúa að öllum sem hafa löggildingu til endurskoðunarstarfa. Þar sem verkefni félagsins, sbr. 13. gr., ná til allra endurskoðenda er talið nauðsynlegt að þeim sé skylt að vera félagar í Félagi löggiltra endurskoðenda. Getur félagið lagt á félagsmenn árgjald til að standa straum af þeim kostnaði sem leiðir af lögbundnum verkefnum félagsins. Jafnframt er félaginu heimilt að starfrækja í öðru skyni en að framan greinir sérstaka félagsdeild, eina eða fleiri, og skal fjárhagur slíkra félagsdeilda aðgreindur frá fjárhag félagsins.

Um 13. gr.


    Með greininni er kveðið á um verkefni Félags löggiltra endurskoðenda. Líkt og almennt má segja um fagfélög þá kemur Félag löggiltra endurskoðenda fram fyrir hönd endurskoðenda gagnvart dómstólum og stjórnvöldum um þau málefni sem stétt þeirra varða. Með þessari grein eru Félagi löggiltra endurskoðenda falin tiltekin verkefni sem það skal annast í samráði við endurskoðendaráð. Hér er um að ræða verkefni sem félagið annast nú þegar ýmist í umboði fjármálaráðuneytisins samkvæmt lögum eða reglugerð eða að eigin frumkvæði.

Um V. kafla.


    Samkvæmt tilskipuninni skal aðildarríki tilnefna lögbært yfirvald sem ber ábyrgð á eftirliti með endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum. Lagt er til að endurskoðendaráð fari með þetta eftirlit og fjallar V. kafli frumvarpsins um það.

Um 14. gr.


    Í þessari grein er fjallað um skipun endurskoðendaráðs en ráðherra skipar fimm menn í ráðið til fjögurra ára í senn og jafnmarga til vara.
    Í 2. mgr. er kveðið á um með hvaða hætti skuli skipað í endurskoðendaráðið. Þessu fyrirkomulagi er ætlað að tryggja aðkomu aðila úr viðskiptalífinu við tilnefningu þeirra sem sitja í ráðinu en jafnframt séu þar einstaklingar sem starfa við endurskoðun. Í samræmi við 32. gr. tilskipunarinnar er gert ráð fyrir að meiri hluti þeirra sem sitji í ráðinu séu ekki starfandi endurskoðendur en samkvæmt tilskipuninni skulu þeir sem skipa ráðið hafa þekkingu á sviðum sem tengjast endurskoðun.

Um 15. gr.


    Í þessari grein er fjallað um hlutverk endurskoðendaráðs sem er töluvert umfangsmeira en hlutverk þess samkvæmt núgildandi lögum. Lagt er til að meginhlutverk endurskoðendaráðs sé að hafa almennt eftirlit með því að endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki starfi í samræmi við ákvæði þessara laga.
    Í 2. mgr. er tekið fram sérstaklega um tiltekin atriði sem falla undir starfssvið endurskoðendaráðs og er það í samræmi við 4. tölul. 32. gr. 8. félagatilskipunarinnar.
    Í 3. mgr. kemur fram að endurskoðendaráð skal hafa samvinnu við lögbær yfirvöld aðildarríkjanna sem hafa eftirlit með endurskoðendum í viðkomandi ríki. Í því felst m.a. að endurskoðendaráð skal skiptast á upplýsingum og aðstoða við rannsókn á málum sem tengjast störfum endurskoðenda.

Um 16. gr.


    Endurskoðendaráð hefur það hlutverk skv. 15. gr. að hafa eftirlit með því að endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki ræki störf sín í samræmi við ákvæði þessara laga og þær reglur sem að öðru leyti gilda um störf endurskoðenda og hafa tilvísun í ákvæði laganna. Það er því nauðsynlegt að til viðbótar því sem talið er upp í 15. gr. hafi endurskoðendaráð heimild til þess að taka mál til meðferðar að eigin frumkvæði telji það ástæður til þess. Gert er ráð fyrir að fyrirkomulag þess verði í samræmi við þær starfsreglur sem settar verða skv. 18. gr.
    Auk þess sem endurskoðendaráð getur tekið mál til meðferðar að eigin frumkvæði er gert ráð fyrir að hver sá sem telur á sér brotið af hálfu endurskoðanda með aðgerðum eða aðgerðaleysi hans geti skotið málinu til endurskoðendaráðs. Sá sem skýtur máli til endurskoðendaráðs skal þó hafa lögvarða hagsmuni af því að fá úrskurð endurskoðendaráðs í viðkomandi máli.
    Endurskoðendaráð úrskurðar um kæru- og ágreiningsefni sem lúta að störfum endurskoðenda samkvæmt lögum þessum.
    Í 4. mgr. er lagt til að endurskoðendaráði verði veitt heimild til að skylda málsaðila til að greiða gagnaðila þann kostnað sem hann hefur orðið fyrir vegna reksturs málsins fyrir ráðinu. Þetta er þó undantekning frá meginreglunni og því er endurskoðendaráði aðeins heimilt að leggja slíka skyldu á málsaðila þegar sérstaklega stendur á.
    Leiði störf endurskoðendaráðs til þess að fram komi að endurskoðandi hafi brotið af sér með þeim hætti að það geti varðað við hegningarlög eða önnur lög er með 5. mgr. lagt til að ráðið geti með rökstuddu áliti vísað máli til opinberrar rannsóknar.

Um 17. gr.


    Greinin fjallar um þau úrræði sem endurskoðendaráð hefur telji það sýnt að endurskoðandi hafi í störfum sínum brotið gegn lögum þessum en í rökstuddu áliti getur endurskoðendaráð veitt viðkomandi aðila áminningu eða lagt til við ráðherra að réttindi endurskoðandans verði felld niður.

Um 18. gr.


    Í greininni er m.a. fjallað um málsmeðferð fyrir endurskoðendaráði en sé ekki kveðið á um annað fer málsmeðferð fyrir endurskoðendaráði eftir stjórnsýslulögum.
    Í 1. mgr. kemur fram að endurskoðendaráð skuli setja sér starfsreglur sem ráðherra samþykkir.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að ákvarðanir endurskoðendaráðs séu lokaákvarðanir á stjórnsýslustigi og þær sæti því ekki stjórnsýslukæru. Þetta kemur þó ekki í veg fyrir að aðili geti borið ákvarðanir endurskoðendaráðs undir dómstóla.
    Samkvæmt 3. mgr. skal endurskoðendaráð jafnan leita álits hjá sérfróðum aðilum utan ráðsins ef mál eru utan sérfræðisviðs þeirra sem úrskurða í málinu.
    Með 4. mgr. er lagt til að fullskipað endurskoðendaráð skuli úrskurða í öllum málum. Er það m.a. gert til að tryggja með sem bestum hætti málsmeðferð fyrir ráðinu en skv. 14. gr. skal skipaður varamaður fyrir hvern nefndarmann.
    Í 7. mgr. er lagt til að endurskoðendaráð geri ár hvert skýrslu um störf sín sem skal vera opin almenningi. Í skýrslunni skal rekja alla úrskurði ráðsins á viðkomandi ári.
    Með 8. mgr. er lagt til að endurskoðendur standi undir kostnaði við eftirlit með störfum þeirra. Í því skyni er ráðgert að endurskoðendur greiði til ríkissjóðs árlegt gjald að fjárhæð 50.000 kr.

Um VI. kafla.

    Kaflinn fjallar um óhæði endurskoðandans en það er einn mikilvægasti þáttur í störfum endurskoðenda. Í 8. félagatilskipuninni er lögð mikil áhersla á óhæði endurskoðanda og endurskoðunarfyrirtækis gagnvart viðskiptavini sínum og er ákvæðum kaflans ætlað að tryggja óhæði með sem bestum hætti.

Um 19. gr.

    Í siðareglum endurskoðenda eru mjög ítarleg ákvæði um óhæði endurskoðenda sem hafa það að markmiði að tryggja að endurskoðandi sé ekki háður viðskiptavini sínum hvorki í ásýnd né reynd. Þessum reglum er ætlað að tryggja það nauðsynlega trúnaðarsamband sem þarf að vera á milli endurskoðenda og þeirra sem reiða sig á störf þeirra. Það að endurskoðendur sinna störfum sem varða hagsmuni almennings felur í sér að allur almenningur og stofnanir reiða sig á að störf þeirra séu unnin af kostgæfni. Í þessari grein frumvarpsins eru ekki settar jafnítarlegar reglur um óhæði endurskoðenda og eru í 9. gr. núgildandi laga, en þess í stað vísað til siðareglna sem endurskoðendum ber að fylgja skv. 2. mgr. 8. gr. frumvarpsins.

Um 20. gr.


    Markmið 1. mgr. þessarar greinar er að tryggja að endurskoðendum eða endurskoðunarfyrirtækjum sé ekki vikið frá nema af gildum ástæðum. Þetta er í samræmi við 38. gr. 8. félagatilskipunarinnar.
    Ákvæði 2. mgr. er í samræmi við 3. tölul. 23. gr. 8. félagatilskipunarinnar.
    Til að tryggja óhæði endurskoðenda gagnvart einingu tengdri almannahagsmunum enn frekar er lagt til ákvæði um takmörkun á starfstíma endurskoðanda, sbr. 3. mgr. Endurskoðandi sem áritar reikningsskil einingar tengdrar almannahagsmunum skal hverfa frá endurskoðun hennar í tvö ár að lágmarki, hafi hann sinnt verkinu í sjö ár samfellt eftir að honum var falið verkið. Endurskoðandi telst hafa sinnt verkinu samfellt ef ekki hefur orðið hlé á þeim störfum hans sem varað hafa í a.m.k. tvö ár. Komi endurskoðandinn aftur að endurskoðun félagsins að tveimur árum liðnum hefst nýtt sjö ára tímabil. Endurskoðanda innan sama endurskoðunarfyrirtækis er heimilt að taka við hlutverki þess endurskoðanda sem hverfur frá verkinu. Þetta ákvæði er í samræmi 2. tölul. 42. gr. 8. félagatilskipunarinnar.
    Endurskoðanda sem áritar endurskoðuð reikningsskil einingar tengdrar almannahagsmunum er ekki heimilt að taka við lykilstjórnunarstöðu hjá viðkomandi fyrirtæki fyrr en a.m.k. tvö ár eru liðin frá því að hann tók þátt í endurskoðun fyrirtækisins. Ákvæðið er í samræmi við 3. tölul. 42. gr. 8. félagatilskipunarinnar og þarfnast ekki frekari skýringar.

Um 21. gr.


    Grein þessi tekur á þóknun fyrir endurskoðun en hún skal miðuð við það að hún geri endurskoðanda kleift að komast að rökstuddri niðurstöðu til þess að láta í ljós álit í samræmi við þær faglegu kröfur sem settar eru fram í þessum lögum og gilda almennt um störf endurskoðenda. Endurskoðandi þarf til að mynda að geta sýnt fram á að þóknun fyrir endurskoðunarstarf nægi miðað við þann tíma og það starfsfólk sem lagt hefur verið til verksins og fyrir að fylgja endurskoðunarstöðlum og öðrum reglum sem um störf hans gilda.
    2. mgr. uppfyllir kröfu 25. gr. 8. félagatilskipunarinnar um að ekki er heimilt að krefjast þóknunar fyrir endurskoðun þar sem greiðsla eða fjárhæð þóknunarinnar er með einhverjum hætti skilyrt eða tengd öðru en endurskoðuninni.

Um VII. kafla.


    Í kaflanum er fjallað um gæðaeftirlit sem endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki skulu sæta en í samræmi við IV. kafla laganna annast Félag löggiltra endurskoðenda gæðaeftirlitið og greiðir kostnað vegna þess. Í núgildandi lögum er ekki fjallað um gæðaeftirlit en skv. 8. félagatilskipun ber stjórnvöldum að tryggja að allir endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki vinni eftir gæðareglum og að opinbert eftirlit sé haft með því að þeim reglum sé fylgt.

Um 22. gr.


    Í greininni er að finna reglur um gæðaeftirlit með endurskoðunarfyrirtækjum, endurskoðendum sem þar starfa og sjálfstætt starfandi endurskoðendum. Ákvæðinu er m.a. ætlað að tryggja innleiðingu á 29. gr. tilskipunarinnar en samkvæmt greininni er framangreindum aðilum skylt að sæta gæðaeftirliti eigi sjaldnar en á sex ára fresti í samræmi við ákvæði þessarar greinar.
    Með 2. mgr. er lagt til að gerðar verði ítarlegri kröfur til þeirra sem annast endurskoðun einingar tengdrar almannahagsmunum á þann hátt að þeim aðilum verði gert skylt að sæta gæðaeftirliti eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti.
    Endurskoðendaráð setur reglur um framkvæmd gæðaeftirlits og val gæðaeftirlitsmanna svo að tryggt sé að þeir séu óháðir þeim sem eftirlitið beinist að.
    Skal endurskoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki veita þeim sem sinnir gæðaeftirliti nauðsynlega aðstoð og aðgang að upplýsingum sem óskað er eftir. Jafnframt er tekið fram að ákvæði um þagnarskyldu takmarka ekki skyldu þess sem gæðaeftirlitið beinist að til veita þeim sem sinnir gæðaeftirliti upplýsingar og aðgang að gögnum.
    Endurskoðendaráð skal árlega birta upplýsingar um heildarniðurstöðu gæðaeftirlitsins.

Um VIII. kafla.


    Í kaflanum er fjallað um brottfall endurskoðunarréttinda í fjórum greinum. Töluverður greinarmunur er gerður á því hvort endurskoðandi hefur lagt inn réttindi sín eða hvort þau hafa verið felld niður.

Um 23. gr.


    Með greininni er lagt til að það verði á ábyrgð endurskoðandans að tilkynna það endurskoðendaráði ef hann fullnægir ekki skilyrðum laganna til þess að njóta löggildingar sem endurskoðandi.

Um 24. gr.


    Í greininni er fjallað um það þegar endurskoðandi leggur inn réttindi sín en endurskoðandi getur almennt alltaf lagt inn endurskoðunarréttindi sín og falla þá niður réttindi og skyldur hans sem endurskoðanda nema annað leiði af lögum. Það á m.a. við kröfur laganna um starfsábyrgðartryggingu og endurmenntun. Endurskoðanda er þó eigi heimilt að leggja inn réttindi sín ef mál hans er til meðferðar hjá endurskoðendaráði. Slík takmörkun er talin nauðsynleg t.d. til að koma í veg fyrir að endurskoðandi geti komist hjá niðurfellingu réttinda með því að leggja inn réttindi sín eftir að málið hefur verið tekið fyrir hjá endurskoðendaráði. Endurskoðendaráð getur þó heimilað að endurskoðandi leggi inn réttindi sín þó að mál viðkomandi endurskoðenda sé til meðferðar hjá ráðinu ef annmarkar eru óverulegir að mati endurskoðendaráðs.
    Í 2. mgr. er tekið fram að ef endurskoðandi hefur lagt inn réttindi sín skuli veita honum þau á ný án endurgjalds ef hann sækir um að fá réttindin að nýju og hann fullnægir öllum skilyrðum til að njóta þeirra þegar hann sækir um og uppfylli endurmenntunarkröfur sem jafna má til þriggja ára endurmenntunartímabils, sbr. 7. gr. frumvarpsins.

Um 25. gr.


    Greinin fjallar um niðurfellingu á réttindum endurskoðanda en í 1. mgr. er tekið fram að þau falli niður eftir ákvörðun ráðherra ef hann fullnægir ekki skilyrðum laganna til að njóta þeirra eða eftir tillögu þess efnis frá endurskoðendaráði.
    Samkvæmt 2. mgr. getur endurskoðandi sem hefur orðið að sæta niðurfellingu réttinda skv. 1. mgr. óskað eftir endurnýjun réttindanna ef hann fullnægir öllum skilyrðum til löggildingar þegar hann sækir um. Honum skulu þá veitt réttindin að nýju ef hann stenst próf til löggildingar til endurskoðunarstarfa skv. 5. gr. frumvarpsins. Ráðherra getur heimilað þeim sem sækir um endurnýjun réttinda undanþágu frá þeirri kröfu að þurfa að standast prófið skv. 5. mgr. ef endurskoðendaráð mælir með því að slík undanþága verði veitt.
    Samkvæmt 3. mgr. getur endurskoðendaráð lagt til við ráðherra að réttindi endurskoðunarfyrirtækis verði felld niður ef það uppfyllir ekki skilyrði laganna til að njóta þeirra.

Um 26. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um IX. kafla.


    Í þessum kafla eru tvær greinar, annars vegar með ákvæðum um skaðabætur og hins vegar um refsingar. Ákvæði um skaðabætur er ekki í gildandi lögum og er því 23. gr. nýmæli í lögum. Lagt er til að ákvæði 24. gr. um refsingar verði breytt nokkuð frá því sem er í 20. gr. gildandi laga.

Um 27. gr.


    Ákvæði um skaðabætur er nýmæli í lögum um endurskoðendur. Ákvæðið á ekki að leiða til breytinga á þeim óskráðu reglum sem gilda um skaðabótaábyrgð endurskoðenda. Um bótagrundvöllinn vegna tjóns sem endurskoðandi veldur í starfi sínu gildir sakarreglan. Jafnframt ber endurskoðandi ábyrgð á tjóni sem starfsmaður hans veldur með saknæmum hætti á grundvelli reglunnar um vinnuveitandaábyrgð. Álíka ákvæði er að finna í lögum um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa og var höfð hliðsjón af þeim við gerð ákvæðisins.

Um 28. gr.


    Í greininni er kveðið á um viðurlög varðandi brot gegn lögum þessum og reglum. Í ákvæðinu er lagt til að kveðið verði á um að brot gegn lögum þessi varði refsingu hvort sem þau eru framin af ásetningi eða gáleysi.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að heimilt sé að gera upptækan með dómi beinan eða óbeinan hagnað sem hlotist hefur af broti gegn ákvæðum laganna er varða refsingu.
    Í 3. mgr. er mælt fyrir um að tilraun til brots eða hlutdeild í brotum á ákvæðum laga þessara sé refsiverð eftir því sem segir í almennum hegningarlögum.

Um X. kafla.


    Í þessum kafla eru þrjár greinar. Fjallað er um skýrslu endurskoðenda eða endurskoðunarfyrirtækja um gagnsæi en það er nýmæli frá núgildandi lögum. Jafnframt er ítarlegt ákvæði í kaflanum um þagnarskyldu og í lokagrein kaflans er að finna ákvæði um að ráðherra geti sett reglugerð um nánari framkvæmd þessara laga.

Um 29. gr.


    Þessi grein kveður á um að endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki sem hafa með höndum endurskoðun eininga tengdra almannahagsmunum skuli, á vefsetri sínu, birta skýrslu um gagnsæi. Skýrslan skal birt eigi síðar en þremur mánuðum fyrir lok hvers reikningsárs endurskoðunarfyrirtækisins.
    Í 2. mgr. eru talin upp atriði sem a.m.k. skulu koma fram í skýrslunni. Skýrslan um gagnsæi skal undirrituð af endurskoðanda eða stjórn endurskoðunarfyrirtækis eftir atvikum. Eftirlit með skýrslunum er í höndum endurskoðendaráðs. Ákvæði þessarar greinar eru í samræmi við 40. gr. 8. félagatilskipunar.

Um 30. gr.


    Greinin fjallar um þagnarskyldu endurskoðenda, starfsmanna endurskoðenda, eftirlitsaðila og hverra þeirra sem taka að sér verk í þágu endurskoðenda eða eftirlitsaðila. En þeir eru bundnir þagnarskyldu um allt það er þeir kunna að komast að vegna starfa sinna og leynt skal fara samkvæmt lögum eða eðli máls, nema dómari úrskurði að skylt sé að veita upplýsingar lögum samkvæmt. Þagnarskylda helst þótt látið sé af starfi.
    Í 2. mgr. er tekið fram að þrátt fyrir 1. mgr. sé endurskoðendaráði heimilt að hafa samvinnu við erlenda eftirlitsaðila eða lögbær yfirvöld erlendis og láta þeim í té upplýsingar að því tilskildu að viðkomandi erlendir aðilar séu undir eftirliti í sínu heimalandi. Þessi málsgrein er í samræmi við 36. gr. tilskipunarinnar.

Um 31. gr.


    Ákvæðið mælir fyrir um heimild ráðherra til að setja nánari ákvæði um framkvæmd laganna. Fyrirséð er að Evrópusambandið mun útfæra nánar reglur varðandi ýmis ákvæði tilskipunarinnar, þar á meðal gefa út alþjóðlega endurskoðunarstaðla. Í ljósi þessa þykir rétt að veita ráðherra heimild til að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laganna.

Um XI. kafla.


    Í XI. kafla laganna eru ákvæði um innleiðingu 8. félagatilskipunar, gildistöku frumvarpsins og fleira.

Um 32. gr.


    Í þessari grein kemur fram hvaða tilskipun frumvarpinu er ætlað að innleiða.

Um 33. gr.


    Í greininni er lagt til að lögin öðlist gildi 1. janúar 2009. Jafnframt er í ákvæðinu lagt til að núgildandi lög um endurskoðendur, nr. 18/1997, falli úr gildi.

Um ákvæði til bráðabirgða I.

    Með ákvæðinu er lagt til að reglur gildandi laga um endurmenntun endurskoðenda haldi gildi sínu þar til núgildandi endurmenntunartímabili lýkur. Ákvæði frumvarpsins um endurmenntun koma því ekki til framkvæmda fyrr en 1. janúar 2010 og er við það miðað að þá hefjist fyrsta þriggja ára endurmenntunartímabil endurskoðenda skv. 7. gr. frumvarpsins.

Um ákvæði til bráðabirgða II.


    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um endurskoðendur.


    Frumvarp þetta miðar að því að koma til framkvæmda hér á landi 8. félagatilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/43/EB frá 17. maí 2006 um lögboðna endurskoðun ársreikninga og samstæðureikninga. Einn helsti tilgangur frumvarpsins er að tryggja með betri hætti en áður að fjárfestar og aðrir hagsmunaaðilar geti reitt sig á störf endurskoðenda. Meðal helstu breytinga sem lagðar eru til í frumvarpinu eru að gerðar verði auknar kröfur til endurskoðenda og eftirlits með störfum þeirra. Lagt er til að tekin verði upp skylduaðild endurskoðenda að Félagi löggiltra endurskoðenda sem heldur skrá yfir endurmenntun endurskoðenda, annast gæðaeftirlit með störfum þeirra og setur siðareglur fyrir endurskoðendur að fenginni staðfestingu ráðherra. Félag löggiltra endurskoðenda ber straum af kostnaði vegna starfa sinna.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að eftirliti með störfum endurskoðenda verði komið þannig fyrir að það fari fram hjá endurskoðendaráði sem skal skipað af fjármálaráðherra. Endurskoðendaráð er sjálfstætt í störfum sínum og úrskurðir þess sæta ekki stjórnsýslukæru. Endurskoðendaráð hefur því stöðu stjórnsýslunefndar á þessu sviði og fer með opinbert eftirlit og stjórnsýsluvald. Endurskoðendaráð á að hafa eftirlit með því að endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki ræki störf sín í samræmi við ákvæði þessara laga og aðrar reglur sem taka til starfa endurskoðenda. Samkvæmt frumvarpinu skal sérhver endurskoðandi greiða í ríkissjóð árlegt gjald að fjárhæð 50.000 kr. til að standa straum af kostnaði við störf endurskoðendaráðs.
    Í ljósi þessa fyrirkomulags og með hliðsjón af lögum um fjárreiður ríkisins telur fjármálaráðuneytið að innheimt árgjald og ráðstöfun þess til að mæta kostnaði við eftirlit sem leiða kann af ákvæðum frumvarpsins beri að færa í fjárlög og ríkisreikning á svipaðan hátt og á við um önnur lögþvinguð eftirlitsgjöld og ráðstöfun þeirra. Felur það í sér að í fjárlögum verði veitt fjárheimild jafnhá lögboðna gjaldinu til að heimila ráðstöfun á því til endurskoðendaráðs. Lausleg áætlun ráðuneytisins og Félags löggiltra endurskoðenda bendir til að árlegur kostnaður við starf endurskoðendaráðs gæti numið í kringum 10 m.kr., sem færist þá til gjalda í ríkisreikningi. Á móti komi jafnháar tekjur af eftirlitsgjaldinu.