Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 531. máls.

Þskj. 832  —  531. mál.



Frumvarp til laga

um breytingar á ýmsum lögum vegna flutnings stjórnsýslu-
og eftirlitsverkefna á sviði lax- og silungsveiði,
fiskræktar o.fl. til Fiskistofu.

(Lagt fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)




I.      KAFLI
Breytingar á lögum nr. 58/2006, um fiskrækt, með síðari breytingum.
1. gr.

    Í stað orðsins „Matvælastofnunar“ í 1. mgr. 4. gr. laganna og sama orðs hvarvetna annars staðar í lögunum, að undanskildu ákvæði til bráðabirgða, kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Fiskistofa.

2. gr.

    Í stað orðanna „eldi vatnafiska“ í ákvæði til bráðabirgða við lögin kemur: fiskeldi.

II. KAFLI
Breytingar á lögum nr. 59/2006, um Veiðimálastofnun,
með síðari breytingum.

3. gr.

    Við 5. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Veiðimálastofnun er heimilt að eiga aðild að rannsókna- og þróunarfyrirtækjum, sem eru hlutafélög eða önnur félög með takmarkaðri ábyrgð, er þróa hugmyndir og hagnýta rannsókna- og þróunarverkefni sem stofnunin vinnur að hverju sinni.

4. gr.

    Í stað orðanna „eldi vatnafiska“ í ákvæði til bráðabirgða við lögin kemur: fiskeldi.

III. KAFLI
Breytingar á lögum nr. 60/2006, um varnir gegn fisksjúkdómum,
með síðari breytingum.

5. gr.

    Í stað orðanna „laga um eldi vatnafiska og laga um eldi nytjastofna sjávar“ í 2. málsl. 2. gr. laganna kemur: og laga um fiskeldi.

6. gr.

    Í stað orðanna „eldi vatnafiska“ í ákvæði til bráðabirgða við lögin kemur: fiskeldi.

IV. KAFLI
Breytingar á lögum nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði,
með síðari breytingum.

7. gr.

    Í stað orðsins „Matvælastofnunar“ í 1. mgr. 4. gr. laganna og sama orðs hvarvetna annars staðar í lögunum kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Fiskistofa.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
     a.      2. mgr. orðast svo:
                      Veiðimálastofnun safnar veiðiskýrslum í samræmdu formi sem stofnunin útbýr og leggur til í umboði Fiskistofu. Veiðiskýrslur teljast opinber gögn og almennar upplýsingar úr veiðiskýrslum skulu jafnframt vera aðgengilegar almenningi sem og öðrum rannsókna- og ráðgjafaraðilum samkvæmt ákvörðun Fiskistofu.
     b.      2. málsl. 3. mgr. fellur brott.

9. gr.

    Í stað orðanna „eldi vatnafiska“ í ákvæði til bráðabirgða við lögin kemur: fiskeldi.

V.      KAFLI
Breytingar á lögum nr. 80/2005, um Matvælastofnun, með síðari breytingum.
10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      Orðin „lögum nr. 33/2002, um eldi nytjastofna sjávar“ í a-lið falla brott.
     b.      J-liður fellur brott.

11. gr.

    5. gr. laganna fellur brott.

VI. KAFLI
Breytingar á lögum nr. 36/1992, um Fiskistofu, með síðari breytingum.
12. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „sjávarútvegsmála“ í 1. málsl. kemur: lax- og silungsveiði, fiskræktar o.fl.
     b.      Í stað orðsins „sjávarútvegsráðherra“ í 2. málsl. kemur: sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

13. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. gr. laganna:
     a.      Við bætist nýr málsliður sem verður 2. málsl., svohljóðandi: Einnig skal Fiskistofa annast stjórnsýslu og eftirlit samkvæmt lögum um lax- og silungsveiði, lögum um fiskrækt o.fl.
     b.      Á eftir orðinu „sjávarútvegsmála“ í 2. málsl., er verður 3. málsl., kemur: lax- og silungsveiði, fiskræktar o.fl.

14. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      Við bætist ný málsgrein sem verður 2. mgr., svohljóðandi:
                      Framkvæmd stjórnsýslu veiðimála á sviði lax- og silungsveiði, fiskræktar og annarra laga sem varða ferskvatnsfiska skal vera í höndum sérstaks sviðs Fiskistofu sem nefnist veiðimálasvið en það hefur einnig eftirlit með því að ákvæðum laga á því sviði sé framfylgt, nema á annan veg sé mælt í lögum. Fiskistofustjóri skal ráða sviðsstjóra til að stýra veiðimálasviði stofnunarinnar. Skal sá sviðsstjóri vera með háskólapróf sem nýtist honum í starfi og nefnast veiðimálastjóri. Skal hann heyra undir fiskistofustjóra sem jafnframt setur honum erindisbréf með hliðsjón af þeim verkefnum sem tilheyra stjórnsýslu veiðimála samkvæmt lögum um lax- og silungsveiði, lögum um fiskrækt og öðrum lögum sem varða starfsemi veiðimálasviðsins.
     b.     
Í stað orðsins „Sjávarútvegsráðherra“ í 2. mgr., er verður 3. mgr., kemur: Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

15. gr.

    Við lögin bætist ný grein sem verður 5. gr., svohljóðandi:
    Fiskistofa skipar eftirlitsmenn með veiði samkvæmt lögum um lax- og silungsveiði þar sem þurfa þykir enda æski þess veiðifélag eða veiðiréttarhafar þar sem veiðifélag hefur ekki verið stofnað og greiði kostnað af eftirlitinu. Á sama hátt skipar Fiskistofa eftirlitsmann með klaköflun þar sem þurfa þykir og greiðir viðkomandi klakleyfishafi kostnað sem af þessu leiðir.
    Fiskistofu er heimilt að skipa eftirlitsmenn með því að bann við laxveiðum í sjó sé virt. Kostnaður við störf þeirra greiðist úr ríkissjóði.
    Eftirlitsmenn skulu hafa nákvæmar gætur á því að veiði í umdæmi þeirra sé stunduð með löglegum hætti. Þeir safna skýrslum og skulu m.a. gera skrár um veiðivélar, lagnir og drætti í umdæmum sínum og sjá um merkingu veiðarfæra. Nánari fyrirmæli um starfsemi eftirlitsmanna setur Fiskistofa í erindisbréfi.
    Eftirlitsmenn skulu eiga frjálsa för um veiðivatn, meðfram því og um netlög í sjó eftir því sem þörf krefur. Þeir hafa vald til að taka upp ólögleg veiðitæki eða veiðitæki sem notuð eru á óleyfilegum tíma eða óleyfilegum stað.

VII. KAFLI
Gildistaka.
16. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 2008.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.

    Við flutning á málefnum frá Matvælastofnun til Fiskistofu samkvæmt lögum þessum skulu starfsmönnum sem starfa við verkefni sem flutt eru frá Matvælastofnun samkvæmt lögum þessum boðin störf hjá Fiskistofu. Við ráðstöfun starfa samkvæmt þessu ákvæði þarf ekki að gæta 7. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, með síðari breytingum.

II.

    Við gildistöku þessara laga skulu renna til Fiskistofu eignir sem runnu til Matvælastofnunar frá embætti veiðimálastjóra samkvæmt 6. gr. laga nr. 80/2005, um Matvælastofnun, með síðari breytingum.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er lagt fram að tilhlutan sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra en með því er stefnt að því að flytja til Fiskistofu stjórnsýslu og eftirlit á sviði lax- og silungsveiði og fiskræktar og önnur verkefni sem varða ferskvatnsfiska.
    Fyrstu ákvæði um stjórn veiðimála hér á landi voru lögfest með setningu laga nr. 61/1932, um lax- og silungsveiði. Með þeim lögum var komið á fót embætti veiðimálastjóra, sem þó varð ekki að fullu virkt fyrr en 1946 þegar fyrsti veiðimálastjórinn kom til starfa. Í lögunum er tilgreint að veiðimálastjóri og veiðimálanefnd skuli vera atvinnumálaráðherra til aðstoðar við stjórn veiðimála. Veiðimálastjóri skyldi vera kunnáttumaður um veiðimál og vatnalíffræði. Helstu verkefni hans samkvæmt þessum fyrstu lögum skyldu vera eftirfarandi, þ.e. að:
          annast nauðsynlegar rannsóknir vatna og fiska og skrásetja veiðivötn,
          sjá um söfnun á veiði- og fiskræktarskýrslum,
          láta gera uppdrætti af klakstöðvum og fiskvegum og hafa umsjón með gerð þeirra mannvirkja,
          gera tillögur um reglugerðir og friðunarákvæði,
          veita mönnum leiðbeiningar um veiðimál og vera ráðherra til aðstoðar.
    Síðan hefur hlutverki embættisins verið breytt nokkrum sinnum í gegnum tíðina, m.a. með lögum nr. 53/1957 og nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði, og með lögum nr. 63/1994, nr. 50/1998 og nr. 83/2001, um breytingu á lögum um lax- og silungsveiði. Með lögum nr. 50/1998 var embættið gert að sjálfstæðum stjórnsýsluaðila í veiðimálum með kæruleið til landbúnaðarráðuneytis en þá hafði nýlega verið skilið á milli rannsókna og stjórnsýslu í veiðimálum.
    Segja má að meginmarkmið þess starfs, sem unnið hefur verið að í veiðimálum í 75 ár, hafi verið eftirfarandi:
     1.      Auka skilvirkni og tryggja réttláta stjórnsýslu gagnvart veiðifélögum.
     2.      Tryggja sjálfbæra nýtingu á laxa- og silungastofnum.
     3.      Auka framleiðni náttúrulegra vistkerfa í ferskvatni með ræktun.
     4.      Vernda og bæta búsvæði laxfiska í ferskvatni og sjó.
     5.      Vernda laxa- og silungsstofna gagnvart neikvæðum áhrifum mengunar og fiskeldis.
    Óhætt er að fullyrða að þetta starf hafi borið mikinn árangur og stjórnsýsla í veiðimálum hér á landi telst vera til fyrirmyndar fyrir aðrar þjóðir og ástand laxa- og silungastofna og búsvæða þeirra með því besta sem gerist.
    Á árinu 2005 var starfsemi embættis veiðimálastjóra og fleiri stofnana hins vegar sameinað í eina stofnun, Landbúnaðarstofnun, með lögum nr. 80/2005 og hófst sá samrekstur í ársbyrjun 2006. Í árslok 2007 var nafni Landbúnaðarstofnunar breytt í Matvælastofnun með lögum nr. 167/2007, um tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðs Íslands í kjölfar sameiningar á landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneyti. Með þessu varð veruleg áherslubreyting í starfi stofnunarinnar sem hafði fengið nýtt heiti, Matvælastofnun, og ýtti undir endurskoðun á staðsetningu starfsemi í veiðimálum innan hennar vébanda.
    Í frumvarpi þessu er lagt til að málefni sem varða veiðimál og nýtingarstjórnun laxfiska verði flutt frá Matvælastofnun til Fiskistofu. Fyrir því eru margvísleg rök sem hér verða rakin í stuttu máli.
    Stofnun Landbúnaðarstofnunar árið 2005 var í raun útfærsla á tillögum um sameiningu allrar stjórnsýslu í landbúnaði, þ.m.t. embætti yfirdýralæknis, veiðimálastjóra og Aðfangaeftirlits, í Búnaðarstofu, sem fyrst komu fram í stjórnsýsluúttekt árið 1997. Var þá miðað við að einstök stjórnsýslusvið yrðu tiltölulega sjálfstæð innan stofnunarinnar enda voru þau verkefni sem sameinuð voru harla ólík. Hér var því fyrst og fremst verið að huga að hagræðingu og eflingu stjórnsýslunnar. Þegar Landbúnaðarstofnun hóf starfsemi varð fljótlega ljóst að meginþungi þeirrar starfsemi yrði á sviði dýraheilbrigðis og eftirlits með aðföngum og matvælaframleiðslu enda tók skipurit og skipting stofnunarinnar í svið mið af því. Starfsemi í veiðimálum, sem byggðist á félagslegri uppbyggingu veiðifélaga ásamt nýtingarstjórnun og verndun á ferskvatnsumhverfi laxfiska, átti því fátt sameiginlegt með öðrum þáttum í starfsemi stofnunarinnar og hefur því í raun verið fjárhagslega og stjórnunarlega skipt milli sviða stofnunarinnar.
    Um síðustu áramót var nafni Landbúnaðarstofnunar breytt í Matvælastofnun og yfirtók sú stofnun fjölda verkefna á sviði matvælastjórnsýslu og eftirlits sem áður voru unnin af Umhverfisstofnun og Fiskistofu, meðal annars landamæraeftirlit. Eðli málsins samkvæmt jókst öll áhersla á matvælaeftirlit til muna við þessa breytingu sem jók enn frekar efasemdir um réttmæti og hagkvæmni þess að hafa stjórnsýslu veiðimála innan vébanda Matvælastofnunar ef aðrir valkostir væru fyrir hendi. Í þessu sambandi má benda á að Matvælastofnun framfylgir að stórum hluta lögum sem eru innleiðing á evrópskum lögum með mikla tengingu við Brussel, en stjórnsýsla veiðimála framfylgir alfarið íslenskum lögum.
    Stofnun Matvælastofnunar var bein afleiðing af sameiningu landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneyta í eitt ráðuneyti. Reikna má með að sú breyting eigi eftir að hafa margvísleg áhrif á skipulagningu undirstofnana þessa ráðuneytis. Í sjávarútvegi hefur stjórnsýsla nytjastofna sjávar verið á hendi Fiskistofu sem framfylgir ýmsum lögum og reglugerðum þess málaflokks. Hún hefur einnig á hendi viðamikið veiðieftirlit um land allt. Stjórnsýsla veiðimála á margt sameiginlegt með þeirri grunnstarfsemi sem fram fer á Fiskistofu. Báðir þessir aðilar fara með stjórnsýslu sem byggist á íslenskum lögum og tengist sjálfbærri nýtingu á fiskstofnum þótt mikill munur sé á nýtingarformi. Mikilvægur þáttur þessarar starfsemi er veiðieftirlit sem í veiðimálum felst m.a. í því að koma í veg fyrir blóraveiði á laxi í sjó. Slík veiði getur átt sér stað í silunganet með strandlengjunni en einnig eru vísbendingar um laxveiðar í ýsu- og rauðmaganet sem falla undir eftirlitsskyldu Fiskistofu. Einnig eru vaxandi áhyggjur af tilfallandi laxveiði í flotvörpur sem sífellt eru að verða algengara og öflugra veiðarfæri við veiðar uppsjávarfiska, svo sem síldar, loðnu, makríls og kolmunna svo nokkur dæmi séu tekin. Samráð þeirra aðila, sem semja eða setja reglugerðir um veiðar nytjafiska í sjó og þeirra sem fara með málefni laxfiska, er því mjög mikilvægt en hefur verið mjög lítið undanfarna áratugi.
    Hin síðari ár hefur orðið ljóst að efla þyrfti verulega rannsóknir á laxi í sjó. Mikil hnignun hefur orðið í stórlaxastofnum sem dvelja tvö eða fleiri ár í sjó. Flest bendir til þess að þessa hnignun megi rekja til affalla í sjó, hvort sem um er að ræða breytt fæðuframboð, afrán eða aukningar á laxi sem meðafla í hefðbundnum veiðum. Hliðstæð hnignun hefur nú orðið í þorsk- og loðnustofninum hér við land án þess að fundist hafi á því haldbærar skýringar. Vegna minnkandi laxgengdar hefur Laxaverndarstofnunin (NASCO) sett á stofn sérstakan sjóð til að styrkja laxarannsóknir í sjó sem sýnir mikilvægi þessa verkefnis. Öflug þátttaka Íslands í slíku verkefni byggist að stórum hluta á því að hafa aðgengi að rannsóknaskipum sem verið hafa í forsjá Hafrannsóknastofnunarinnar. Nánari tenging stjórnsýslu veiðimála og þeirra sem fara með málefni nytjastofna sjávar mundi styrkja boðleiðir og hugsanlega tryggja einhvern aðgang laxfiskarannsókna að nýtingu á rannsóknaskipum.
    Þótt nytjastofnar sjávar hafi að mestu verið nýttir með línu-, neta- eða botnvörpuveiðum hefur nýlega vaknað áhugi á því að stunda sjóstangaveiði nytjafiska við strendur landsins. Mun slík ferðamennska hafa vaxið verulega, einkum á Vestfjörðum. Hér hefur vaknað upp mikilvægur snertiflötur milli þeirra sem fara með stjórnsýslu veiðimála, þar sem megnið af veiðinni er úr stangaveiði, og Fiskistofu, sem m.a. framfylgir úthlutun á kvóta vegna sjóstangaveiði á nytjastofnum.
    Stjórnsýsla varðandi eldi á laxfiskum hefur verið innan málaflokks veiðimála í áratugi. Þar kemur bæði til útgáfa rekstrarleyfa og eftirlit með eldisstöðvum sem lögfest var með lögum nr. 83/2001. Í kjölfarið var sett viðamikil reglugerð um búnað og innra eftirlit í fiskeldisstöðvum, nr. 1011/2003, sem styrkti mjög alla stjórnsýslu gagnvart laxeldisstöðvum í sjó. Eftirlit með öllum lax- og bleikjueldisstöðvum var þannig á hendi embættis veiðimálastjóra áður en embættið var sameinað fleiri stofnunum í Landbúnaðarstofnun. Á sama hátt hefur útgáfa rekstrarleyfa og eftirlit með eldi nytjastofna sjávar verið á hendi Fiskistofu þar til þau verkefni voru flutt til Matvælastofnunar um síðustu áramót með lögum nr. 167/2007. Hér ætti því að geta komið til hagræðing og samræming á leyfisveitingum og eftirliti með fiskeldi.
    Þó er sennilega nokkur munur á áherslum milli þessara stjórnsýsluaðila varðandi útfærslu slíks eftirlits. Hagmunir í veiðimálum taka óhjákvæmilega mið af því að tryggja að eldislax sleppi ekki úr eldisstöðvum og sjókvíum til að koma í veg fyrir vist- og erfðafræðileg áhrif á náttúrulega laxastofna. Á sama hátt gætu stórfelldar slysasleppingar á þorski eða öðrum nytjastofnum valdið óeðlilegu afráni á laxaseiðum ef kvíar eru staðsettar nærri ósasvæðum. Stjórnsýsla veiðimála kemur því ætíð til með að nálgast slíkt eftirlit út frá verndunarsjónarmiðum, þar sem fjöldi eldislaxa og/eða annarra eldisfiska verður ætíð mikill miðað við tiltölulega smáa laxastofna. Vegna mikillar stærðar á stofnum helstu nytjafiska okkar og fjölbreytilegs lífsferils er ólíklegt að séfræðingar og stjórnsýsluaðilar í sjávarútvegi hafi áhyggjur af slysasleppingum úr þorskeldiskvíum og gera þeir því e.t.v. minni kröfur til eldisaðila varðandi eldisbúnað en stjórnsýsla veiðimála, eins og setning reglugerðar nr. 1011/2003, um búnað og innra eftirlit í eldisstöðvum, sem eingöngu tók til vatnafiska, ber vitni um.
    Í frumvarpinu er lögð á það rík áhersla að starfsemi tengd stjórnsýslu í veiðimálum og nýtingarstjórnun laxfiska verði rekin sem sjálfstætt svið innan Fiskistofu og forstöðumaður þess sviðs gegni starfsheitinu „veiðimálastjóri“ sem er rótgróið starfsheiti og fellur vel að þeim verkefnum sem unnið er að á því sviði. Gert er ráð fyrir að forstöðumaður eða sviðsstjóri veiðimálasviðs verði ráðinn af fiskistofustjóra og að hann heyri að öðru leyti undir fiskistofustjóra. Fordæmi fyrir svipaðri tilhögun er í lögum nr. 80/2005, um Matvælastofnun, sem eins og áður segir bar heitið Landbúnaðarstofnun, en þar er tekið á sérstöðu yfirdýralæknis á eftirfarandi hátt í 4. gr. laganna þar sem segir m.a.: „Matvælastofnun skiptist í svið eftir viðfangsefnum. Forstjóri ræður sviðsstjóra yfir hvert svið og skulu þeir hafa aflað sér bæði háskólamenntunar og sérþekkingar á viðkomandi sviði. Þó skal sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipa sviðsstjóra yfir sérstöku sviði sem fara skal með dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim. Sá sviðsstjóri skal vera dýralæknir að mennt og nefnast yfirdýralæknir. Skal hann heyra undir forstjóra sem jafnframt setur honum erindisbréf með hliðsjón af þeim verkefnum sem yfirdýralækni eru sérstaklega falin með lögum. Yfirdýralæknir skal vera staðgengill forstjóra. Forstjóri ræður annað starfsfólk nema annað sé tekið fram í lögum.“ Eins og fram kemur í framangreindu ákvæði er það fyrirkomulag sem haft er á skipan yfirdýralæknis að nokkru leyti frábrugðið því sem hér er lagt til með veiðimálastjóra þar sem yfirdýralæknir er skipaður af ráðherra en gert er ráð fyrir að veiðimálastjóri verði ráðinn af fiskistofustjóra.
    Þótt mikill skyldleiki sé með ýmsum verkefnum í veiðimálum og verkefnum Fiskistofu hafa veiðimálin að ýmsu leyti mikla sérstöðu. Þótt laxastofnar hér á landi séu smáir og heildarlaxveiðin yfirleitt undir 150 lestum er um að ræða mikil verðmæti, einkum í stangaveiðinni. Talið er að bein efnahagsleg áhrif af stangaveiði á laxfiskum hér á landi séu um 2 milljarðar kr. en óbein og afleidd áhrif um 7 milljarðar kr. Heildarvirðið er því nærri 9 milljörðum kr. Því er mikilvægt að vel sé staðið að nýtingarstjórnun og verndun þeirrar auðlindar sem fólgin er í laxi og silungi, og tryggja þarf réttmætar fjárveitingar til hinna ýmsu verkefna.
    Flest stjórnsýsluverkefni í veiðimálum tengjast starfsemi í eða við ár og stöðuvötn, bæði varðandi veiðar á laxfiskum en þau snerta einnig fiskvegi, malartekju og ýmsar framkvæmdir sem ógnað geta búsvæðum laxfiska. Veiðiréttur í ferskvatni er bundinn við nærliggjandi landareignir og er því í einkaeign. Til að tryggja samnýtingu margra mismunandi eignaraðila á veiðiauðlindinni hafa verið sett á stofn veiðifélög við flest veiðivötn landsins sem tryggja að lýðræði eigenda sé virt og að farið sé að lögum varðandi nýtingu þessarar auðlindar. Stjórnsýsla á þessu sviði snertir því mörg ólík fagsvið, svo sem líffræði, vistfræði, lögfræði og félagslega þætti veiðifélaga. Helstu lögbundnu verkefnin eru sem hér segir, þ.e. að:
          skrásetja ár og vötn og eigendur lax- og silungsveiðiréttar í ferskvatni og sjó,
          safna skýrslum um veiði laxfiska í ám, vötnum og sjó,
          stuðla að uppbyggingu veiðifélaga og meðhöndla kærur vegna stjórnsýslu,
          staðfesta nýtingar- og fiskræktaráætlanir veiðifélaga,
          gefa út rannsóknaleyfi og veiðiskírteini vegna rannsókna í ferskvatni og heimila merkingar,
          veita ýmsar undanþágur vegna fiskræktar, stangaveiði og veiða í óhefðbundinn búnað,
          veita heimildir til fiskvegagerðar, mannvirkjagerðar og efnistöku við ár og vötn,
          staðfesta samþykktir og arðskrár veiðifélaga,
          veita undanþágu frá banni við flutningi á fullvöxnum fiski til stangaveiði,
          leita umsagna í samræmi við lög og kosta stoðrannsóknir ef nauðsynlegt er,
          hafa eftirlit með framangreindum þáttum og öðrum ákvæðum fyrrgreindra laga,
          taka þátt í alþjóðasamvinnu innan Laxaverndarstofnunarinnar (NASCO).
    Eins og hér kemur fram spannar starfsemi í veiðimálum víðtækt svið og fjölbreytileg verkefni sem öll tengjast starfsemi veiðifélaga á einn eða annan hátt. Formenn og einstaka meðlimir veiðifélaga þurfa því að geta sótt í einn rann með margvísleg erindi, hvort sem um er að ræða leyfisveitingar, undanþágur eða kærur, t.d. vegna mistaka í stjórnsýslu innan veiðifélags. Einnig þurfa veiðifélög að geta treyst á hnitmiðaða upplýsingagjöf, bæði rafræna, skriflega og munnlega, varðandi þau lög og reglugerðir, sem í gildi eru, og túlkun þeirra. Til að tryggja samfellu, samræmingu og yfirsýn í öllum þessum málum er mikilvægt að þeim sé að mestu sinnt innan sama sviðs í þeirri stofnun sem fer með málaflokk veiðimála. Ef frumvarp þetta verður að lögum er eins og áður segir stefnt að því að stofnað verði sérstakt veiðimálasvið á Fiskistofu til að fara með stjórnsýslu og framkvæmd þeirra laga sem frumvarpið lýtur að og að fiskistofustjóri ráði yfir það sérstakan sviðsstjóra.
    Samhliða þessu frumvarpi er lagt fyrir Alþingi frumvarp til laga um fiskeldi en með því er stefnt að því að sameina í einn lagabálk ákvæði laga um eldi vatnafiska og eldi nytjastofna sjávar þar sem báðar þessar atvinnugreinar heyra nú undir sama ráðuneytið, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið. Þar er gert ráð fyrir m.a. að eftirlit samkvæmt lögunum verði að mestu leyti hjá Fiskistofu, þ.e. það eftirlit sem lýtur að veiðistjórnun ferskvatnsfiska og stjórnsýslu um það efni. Hins vegar er þar gert ráð fyrir að Matvælastofnun fari samkvæmt þeim lögum með allt sem lýtur að matvælaeftirliti og dýrasjúkdómavörnum. Að öðru leyti hefur verið leitast við að samræma efni þessara lagafrumvarpa eins og kostur er.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Gerðar eru breytingar á nokkrum ákvæðum laga nr. 58/2006, um fiskrækt, með síðari breytingum, vegna þeirrar tilfærslu málefna frá Matvælastofnun til Fiskistofu sem stefnt er að með frumvarpinu og varða stjórnsýslu og eftirlit samkvæmt lögunum.

Um 2. gr.

    Verið er að leiðrétta ákvæði til bráðabirgða í umræddum lögum og samræma það ákvæðum frumvarps til laga um fiskeldi sem einnig hefur verið lagt fyrir þingið.

Um 3. gr.

    Það er talið rétt að Veiðimálastofnun geti átt aðild að sérstökum fyrirtækjum um rannsókna- og þróunarverkefni. Með því er stuðlað að betri tengslum og samvinnu stofnunarinnar við atvinnulífið en einnig getur stofnunin við þær aðstæður betur fylgt eftir niðurstöðum rannsókna sinna svo að þær nýtist betur stofnuninni sjálfri. M.a. er talið æskilegt að stofnunin fái sjálf arð af þeim verkefnum sem hún vinnur að og geti nýtt hann til að efla og styrkja starfsemi sína og þau verkefni sem hún vinnur að á hverjum tíma. Einnig er bent á að Veiðimálastofnun starfar að hluta til á samkeppnismarkaði og er af þeirri ástæðu m.a. talið rétt að stofnunin geti þróast og mótast í samræmi við markaðsaðstæður. Svipuð ákvæði eru í ýmsum lögum um sambærilegar stofnanir.

Um 4. gr.

    Verið er að leiðrétta ákvæði til bráðabirgða í umræddum lögum og samræma það ákvæðum frumvarps til laga um fiskeldi sem einnig hefur verið lagt fyrir þingið.

Um 5. gr.

    Verið er að leiðrétta ákvæðið til samræmis við frumvarp til laga um fiskeldi sem einnig hefur verið lagt fyrir þingið.

Um 6. gr.

    Verið er að leiðrétta ákvæði til bráðabirgða í umræddum lögum og samræma það ákvæðum frumvarps til laga um fiskeldi sem einnig hefur verið lagt fyrir þingið.

Um 7. gr.

    Hér eru lagt til að gerðar verði nokkrar breytingar á nokkrum ákvæðum laga nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði, með síðari breytingum, vegna þeirrar tilfærslu málefna sem stefnt er að með frumvarpinu og varða stjórnsýslu og eftirlit samkvæmt lögunum frá Matvælastofnun til Fiskistofu.

Um 8. gr.

    Skráning á veiði er gríðarlega mikilvæg og er bæði grunnur undir stjórnsýsluákvörðunum í veiðimálum og verðmætamati veiðivatna. Einnig eru í veiðigögnum fólgnar afar mikilvægar upplýsingar um líffræðilega þætti í fiskstofnum. Þetta eru því að hluta vísindagögn sem nýtast í rannsóknavinnu til að meta ástand fiskstofna og til leiðsagnar um veiðistjórnun og fiskrækt.
    Veiðimálastofnun hefur safnað og unnið úr þessum gögnum í umboði stjórnsýslu veiðimála til margra ára gegn gjaldi. Eðlilegt er að Veiðimálastofnun sinni þessu starfi eins og verið hefur og geti nýtt þessi gögn við rannsóknir og ráðgjöf. Hefur Veiðimálastofnun meðal annars lagt vinnu í það að koma á netskráningu á veiði. Mjög mikilvægt er að haldið sé utan um veiðiskráningu og er hún í raun mat á stöðu lax- og silungsstofna hér á landi og því undirstaða nýtingaráætlana og stjórnvaldsaðgerða vegna friðunar, ef þeirra gerist þörf. Aðgengi stjórnsýslunnar að þessum gögnum þarf því að vera greitt og ótakmarkað. Einnig þarf aðgengi hagsmunaaðila og ýmissa ráðgjafaraðila að þessum gögnum að vera frjálst þótt framsetning gagnanna geti verið takmörkunum háð vegna trúnaðar við þá sem leggja til gögnin, ekki síst gagnvart netaveiði. Framsal umræddra gagna til einstaklinga og fyrirtækja þarf því að vera á vegum hlutlauss stjórnsýsluaðila sem getur metið réttmæti slíks framsals út frá ákvæðum upplýsinga-, stjórnsýslu- og samkeppnislaga. Í frumvarpinu er lagt til að framsal slíkra gagna sé alfarið á vegum veiðimálasviðs Fiskistofu.

Um 9. gr.

    Verið er að leiðrétta ákvæði til bráðabirgða í umræddum lögum og samræma það ákvæðum frumvarps til laga um fiskeldi sem einnig hefur verið lagt fyrir þingið.

Um 10. og 11. gr.

    Hér er lagt til að gerðar verði breytingar á nokkrum ákvæðum laga nr. 80/2005, um Matvælastofnun, með síðari breytingum, vegna þeirrar tilfærslu málefna frá Matvælastofnun til Fiskistofu sem stefnt er að með frumvarpinu og varða stjórnsýslu og eftirlit samkvæmt lögunum. Einnig er hér verið að gera tilteknar leiðréttingar til að samræma ákvæði laganna frumvarpi til laga um fiskeldi sem einnig hefur verið lagt fyrir þingið en þar er einnig gert ráð fyrir að tiltekin verkefni verið flutt frá Matvælastofnun til Fiskistofu.

Um 12. og 13. gr.

    Hér er lagt til að gerðar gerðar verði breytingar á nokkrum ákvæðum laga nr. 36/1992, um Fiskistofu, með síðari breytingum, vegna þeirrar tilfærslu málefna frá Matvælastofnun til Fiskistofu sem stefnt er að með frumvarpinu og varða stjórnsýslu og eftirlit samkvæmt lögunum. Einnig eru þar gerðar lítils háttar leiðréttingar á ákvæðum laganna vegna sameiningar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyta í eitt ráðuneyti sem varð með lögum nr. 109/2007.

Um 14. gr.

    Hér er kveðið um að stjórnsýsla veiðimála á sviði lax- og silungsveiði, fiskræktar og annarra laga sem varða ferskvatnsfiska skuli vera í höndum sérstaks sviðs Fiskistofu sem nefnist veiðimálasvið og að það skuli einnig hafa eftirlit með því að framfylgt sé ákvæðum laga á því sviði. Er þannig gert ráð fyrir að þetta svið annist alla framkvæmd stjórnsýslu á sviði veiðimála samkvæmt lögum nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði, lögum nr. 58/2006, um fiskrækt, og öðrum lögum sem varða starfsemi sviðsins samkvæmt framanrituðu nema á annan veg sé mælt í lögum. Þar er átt við að veiðimálasvið Fiskistofu annist alla stjórnsýslu og eftirlit á þessu sviði nema í þeim tilvikum þegar í einstökum lögum er kveðið á um að stjórnsýslu og eftirliti á því sviði sé hagað með öðrum hætti. Þá er gert ráð fyrir að fiskistofustjóri ráði sérstakan sviðsstjóra yfir veiðimálasviðið og að hann nefnist veiðimálastjóri. Það er sama heiti og var samkvæmt eldri lögum um það embætti sem fór með stjórnsýslu veiðimála ferskvatnsfiska áður en þau mál voru flutt til Landbúnaðarstofnunar með lögum nr. 80/2005, sem síðar varð Matvælastofnun, sbr. lög nr. 167/2007, um tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðs Íslands. Svipað fyrirkomulag er nú á skipan yfirdýralæknis samkvæmt lögum nr. 80/2005, um Matvælastofnun, að öðru leyti en því að hann er skipaður í embætti af ráðherra eins og gerð hefur verið grein fyrir í almennum athugasemdum hér að framan.

Um 15. gr.

    Með 57. gr. laga nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði var lagt til að sambærilegt ákvæði og þetta yrði fellt brott úr lögum um lax- og silungsveiði og tekið upp í lög nr. 80/2005, um Landbúnaðarstofnun, nú Matvælastofnun. Ákvæði þessi voru áður í 96. gr. eldri laga nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði. Þar sem með frumvarpi þessu er verið að flytja öll verkefni er varða stjórnsýslu og eftirlit með ferskvatnsveiði til Fiskistofu er lagt til að ákvæði þetta verði flutt í lög um þá stofnun, nr. 36/1992. Í samræmi við það er í frumvarpi þessu gert ráð fyrir að ákvæði þetta verði fellt brott úr lögum nr. 80/2005, um Matvælastofnun, sbr. 8. gr. frumvarpsins.

Um 16. gr.

    Gert er ráð fyrir að ákvæði laganna taki gildi 1. júlí 2008. Rétt þykir að kveða á um tiltekið tímamark fyrir gildistöku laganna í stað þess að þau taki gildi við birtingu. Þannig verður tryggt að ekki fari milli mála á hverjum tíma hvaða stofnun fari með þau málefni sem flytjast milli stofnana samkvæmt lögunum og hvenær einstök verkefni flytjast frá Matvælastofnun til Fiskistofu. Eftir 1. júlí 2008 er gert ráð fyrir að Fiskistofa taki við öllum verkefnum sem flutt verða frá Matvælastofnun samkvæmt lögum þessum, bæði málum sem berast eftir þann tíma og einnig málum sem eru í vinnslu hjá Matvælastofnun á þeim tíma.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða I er gert ráð fyrir því að starfsmönnum, sem ráðnir hafa verið hjá Matvælastofnun við þau verkefni sem miðað er við að flytjist til Fiskistofu samkvæmt lögum þessum, verði boðin sambærileg störf hjá síðarnefndu stofnuninni og er þannig gert ráð fyrir að störf þeirra flytjist til þeirrar stofnunar. Ekki er því gert ráð fyrir að störfin séu lögð niður heldur gert ráð fyrir að Fiskistofa yfirtaki ráðningarsamninga viðkomandi starfsmanna. Gert er ráð fyrir að einn af þeim starfsmönnum verði ráðinn veiðimálastjóri í samræmi við 14. gr. frumvarpsins. Í samræmi við það er í ákvæðinu kveðið á um undanþágu frá því að auglýsa beri störfin laus til umsóknar skv. 7. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, með síðari breytingum. Þá er gert ráð fyrir að starfsmenn haldi óbreyttum starfskjörum en það þýðir t.d. að aðild að lífeyrissjóði verði óbreytt og að um laun þeirra fari eftir þeim kjarasamningum sem við eiga.
    Þá er í ákvæði til bráðabirgða II gert ráð fyrir að eignir þær sem runnu til Matvælastofnunar, áður Landbúnaðarstofnunar, við stofnun hennar skv. 6. gr. laga nr. 80/2005, renni nú til Fiskistofu. Við sameiningu embættis veiðimálastjóra og fleiri stofnana í Landbúnaðarstofnun með lögum nr. 80/2005 runnu eignir embættisins til þeirrar stofnunar, þ.m.t. öll gögn í veiðimálum, myndir, skrautmunir o.fl. Er gert ráð fyrir að þessi sömu gögn renni nú til Fiskistofu.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna flutnings stjórnsýslu- og eftirlitsverkefna á sviði lax- og silungsveiði, fiskræktar o.fl. til Fiskistofu.

    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum í þeim tilgangi að flytja stjórnsýslu- og eftirlitsverkefni á sviði lax- og silungsveiði og fiskræktar og önnur verkefni sem varða stjórnsýslu ferskvatnsfiska frá Matvælastofnun til Fiskistofu. Auk þess eru lagðar til lítils háttar breytingar á starfsemi Veiðimálastofnunar.
    Við flutning á málefnum frá Matvælastofnun til Fiskistofu skal starfsmönnum Matvælastofnunar sem við þau starfa boðin störf hjá Fiskistofu. Samkvæmt upplýsingum frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti er þessum verkefnum nú sinnt af tveimur starfsmönnum Matvælastofnunar. Þeim var áður sinnt af embætti veiðimálastjóra, en það embætti sameinaðist Landbúnaðarstofnun, nú Matvælastofnun, við stofnun hennar árið 2006. Við þá sameiningu var 26,6 m.kr. fjárveiting embættis veiðimálastjóra flutt til Landbúnaðarstofnunar á fjárlögum 2006.
    Frumvarpið mælir fyrir um tilflutning verkefna milli tveggja stofnana. Miðað við fyrirliggjandi upplýsingar um stöðu í starfsmanna- og húsnæðismálum þeirra verður ekki séð að lögfesting frumvarpsins hafi í för með sér aukinn kostnað fyrir ríkissjóð.