Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 534. máls.

Þskj. 835  —  534. mál.Tillaga til þingsályktunar

um framkvæmdaáætlun í barnaverndarmálum fram til næstu sveitarstjórnarkosninga árið 2010.


(Lögð fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)
    Alþingi ályktar, sbr. 3. mgr. 5. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, að eftirfarandi framkvæmdaáætlun í barnaverndarmálum skuli gilda fyrir árið 2008 og fram til sveitarstjórnarkosninga árið 2010.

1.     Inngangur.
    Félags- og tryggingamálaráðherra og Barnaverndarstofa skulu vinna samkvæmt þeirri framkvæmdaáætlun sem hér er sett fram með það að markmiði að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða stofna heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega og árangursríka aðstoð. Í því augnamiði skal ráðuneytið og Barnaverndarstofa hafa eftirtalin fimm meginmarkmið að leiðarljósi:
     1.      Að efla barnaverndarstarf á vegum félags- og tryggingamálaráðuneytis.
     2.      Að efla barnaverndarstarf á vegum Barnaverndarstofu.
     3.      Að efla þjónustu Barnaverndarstofu.
     4.      Að bæta hæfni, getu og þekkingu starfsfólks Barnaverndarstofu og þeirra sem starfa á vegum stofnunarinnar.
     5.      Að hámarka nýtingu og virðisauka fjármuna sem lagðir eru til stofnunarinnar.

    Áætlunin skiptist niður í eftirfarandi þætti:

2.     Aðgerðir til eflingar barnaverndarstarfs á vegum félags- og tryggingamálaráðuneytisins.
    Til að efla barnaverndarstarf á vegum félags- og tryggingamálaráðuneytisins skal unnið að því að tryggja nauðsynlegt fjármagn til málaflokksins, að unnið sé að þróun löggjafar á sviði barnaverndar og skal félags- og tryggingamálaráðuneytið vinna reglubundið í samstarfi við Barnaverndarstofu að þróun málaflokksins og að því að tryggja samráð og samvinnu við önnur ráðuneyti sem sinna málefnum barna.

3.     Aðgerðir til eflingar barnaverndarstarfs á vegum Barnaverndarstofu.
    Til að efla barnaverndarstarf skal Barnaverndarstofa vinna að því að greina úrlausnarefni á málefnasviðinu, fylgjast með þróun málaflokksins og leggja reglubundið fram tillögur til endurbóta við félags- og tryggingamálaráðuneytið og í kjölfarið taka þátt í framkvæmd þeirra.
    Í tengslum við þetta skulu sett starfsmarkmið og skulu verkefni sem unnin eru á grundvelli þeirra m.a. vera eftirfarandi:

3.1     Rannsóknarverkefni.
3.1.1    Rannsókn á framburði barna sem koma í Barnahús vegna gruns um kynferðislegt ofbeldi.
3.1.2     Athugun á líkamlegu ofbeldi gegn börnum á Íslandi.
3.1.3     Athugun á samstarfi við 112 um móttöku tilkynninga.
3.1.4     Athugun á fjölda tilkynninga sem leiða til könnunar máls hjá barnaverndarnefndum.
3.1.5     Athugun á vímuefnaneyslu og greiningum barna á Stuðlum.
3.1.6     Rannsóknasetur í barna- og fjölskylduvernd.

3.2     Þróunarverkefni.
3.2.1     Notkun matslista ASEBA.
3.2.2     Gæðastaðlar um vistun barna utan heimilis – „Quality for children“.
3.2.3     Eftirlit með vistun barna utan heimilis.
3.2.4     Skilgreiningar- og flokkunarkerfi í barnavernd (SOF).
3.2.5     Úrræði vegna þungaðra kvenna sem stofna heilsu og lífi ófæddra barna í hættu.
3.2.6     Viðbragðsteymi vegna dauðsfalla barna (Child Death Review Team).

3.3     Erlent samstarf.
3.3.1     Ráðstefna NFBO árið 2008.
3.3.2     Norræn barnaverndarráðstefna árið 2009.

3.4     Saga barnaverndarstarfs á Íslandi.

4.     Efling þjónustu og verklags.
    Stefnt skal að því að efla þjónustu Barnaverndarstofu þannig að hún verði markvissari, aðgengilegri og skjótari og ávallt í samræmi við þarfir barna og fjölskyldna þeirra á hverjum tíma. Þetta á við um ráðgjöf, fræðslu, eftirlit og rekstur heimila og stofnana á vegum stofnunarinnar. Tryggt skal að jafnræði ríki gagnvart þeim sem stofnunin hefur samskipti við.
    Í tengslum við þetta skulu sett starfsmarkmið og skulu verkefni sem unnin eru á grundvelli þeirra m.a. vera eftirfarandi:

4.1     Ný meðferðarúrræði.
4.1.1     Fjölþáttameðferð (Multisystemic Therapy – MST)
4.1.2     Fjölþáttameðferðarfóstur (MTFC/TFC).
4.1.3     Foreldrafærniþjálfun (t.d. Parent Management Training PMT).
4.1.4     Meðferð fyrir unga gerendur í kynferðisbrotamálum.

4.2     Foster Pride – framhaldsnámskeið.

4.3     Reiðistjórnun (Aggression Replacement Training – ART).

4.4     Árangursmat.
4.4.1     Mat á árangri meðferðarheimila.
4.4.2     Mat á árangri Barnahúss.

4.5     Skjalastjórnun og tölfræði.
4.5.1     Handbók um skjalastjórnun og skráningu.
4.5.2     Endurbætur á tölfræði um barnavernd.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Ríkisstjórnin hefur samþykkt framkvæmdaáætlun um barnavernd frá árinu 2008 fram til sveitarstjórnarkosninga árið 2010. Hún fylgir hér á eftir:

1.     Inngangur.
    Samkvæmt 5. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, ber félagsmálaráðuneytið ábyrgð á stefnumótun í barnavernd og skal ráðherra leggja fyrir Alþingi framkvæmdaáætlun til fjögurra ára í senn að loknum sveitarstjórnarkosningum. Barnaverndarstofa er sjálfstæð stofnun sem heyrir undir yfirstjórn félags- og tryggingamálaráðuneytisins og annast stjórnsýslu á því sviði sem barnaverndarlögin ná til. Áætlun þessi er unnin á grundvelli 5. gr. barnaverndarlaga en er einnig í samræmi við 7. gr. reglugerðar um framkvæmd fjárlaga og ábyrgð á fjárreiðum ríkisstofnana í A-hluta, nr. 1061/2004, þar sem segir að forstöðumenn beri ábyrgð á gerð langtímaáætlunar sem skuli endurspegla stefnumörkun og megináherslur í starfsemi stofnunar.
    Sú stefnumarkandi áætlun félags- og tryggingamálaráðuneytisins og Barnaverndarstofu sem hér birtist nær til tímabilsins frá gildistöku hennar á árinu 2008 til næstu sveitarstjórnarkosninga árið 2010. Áætlunin tekur mið af nýlegri aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í málefnum barna. Áætlunin byggist á ákvæðum barnaverndarlaga um ábyrgð og skyldur ríkisins í barnaverndarmálum. Hlutverki Barnaverndarstofu er nánar lýst í 7. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, þar sem segir að stofan skuli:
          vinna að samhæfingu og eflingu barnaverndarstarfs í landinu og vera félagsmálaráðherra til ráðgjafar um stefnumótun í málaflokknum,
          hlutast til um að fram fari þróunar- og rannsóknastarf á sviði barnaverndar,
          hafa með höndum leiðbeiningar um túlkun og framkvæmd barnaverndarlaga og fræðslu og ráðgjöf fyrir barnaverndarnefndir í landinu,
          hafa eftirlit með störfum barnaverndarnefnda,
          annast leyfisveitingar til fósturforeldra, taka ákvarðanir og veita barnaverndarnefndum liðsinni í fósturmálum,
          fara með yfirstjórn heimila og stofnana sem ríkinu ber að sjá til að séu tiltæk og hlutast til um að slík heimili og stofnanir verði sett á fót,
          hafa yfirumsjón með vistun barna á heimilum og stofnunum á ábyrgð ríkisins,
          annast leyfisveitingar samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga.
    Barnaverndarstofa getur einnig rekið sérstakar þjónustumiðstöðvar í því skyni að treysta þverfaglegt samstarf, eflingu og samhæfingu stofnana við meðferð mála á sviði barnaverndar. Þá er Barnaverndarstofu heimilt að bjóða barnaverndarnefndum aðra sérhæfða þjónustu, svo sem úrræði utan stofnana á sviði meðferðar fyrir börn, enda sé markmið hennar að auðvelda nefndum að sinna lögbundnu hlutverki sínu.
    Ætlunarverk félags- og tryggingamálaráðuneytisins og Barnaverndarstofu felst í því að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða stofna heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega og árangursríka aðstoð. Í því augnamiði hafa ráðuneytið og stofan sett sér eftirfarandi meginmarkmið sem unnið verður að á áætlunartímabilinu:
     1.      Að efla barnaverndarstarf á vegum félags- og tryggingamálaráðuneytisins með því að tryggja nauðsynlegt fjármagn til málaflokksins, eiga frumkvæði að þróun löggjafar á sviði barnaverndar og vinna reglubundið í samstarfi við Barnaverndarstofu að þróun málaflokksins og því að tryggja samráð og samvinnu við önnur ráðuneyti sem sinna málum barna.
     2.      Að efla barnaverndarstarf á vegum Barnaverndarstofu með því að greina úrlausnarefni á málefnasviðinu, fylgjast með þróun málaflokksins og leggja reglubundið fram tillögur til endurbóta við félags- og tryggingamálaráðuneytið og í kjölfarið taka þátt í framkvæmd þeirra.
     3.      Að efla þjónustu Barnaverndarstofu þannig að hún verði markvissari, aðgengilegri og skjótari og ávallt í samræmi við þarfir barna og fjölskyldna þeirra á hverjum tíma. Þetta á bæði við um ráðgjöf, fræðslu, eftirlit og rekstur heimila og stofnana á vegum Barnaverndarstofu. Tryggt sé að jafnræði ríki gagnvart þeim sem stofnunin hefur samskipti við.
     4.      Að bæta hæfni, getu og þekkingu starfsfólks Barnaverndarstofu og þeirra sem starfa á vegum stofnunarinnar með því að fylgja sérstakri starfsmannastefnu. Stefnan gerir m.a. ráð fyrir að fram fari regluleg starfsmannasamtöl og gerðar séu mannafla- og endurmenntunaráætlanir þar sem starfsmönnum er gefinn kostur á að bæta hæfni sína og taka þátt í að skapa nýja þekkingu á sviði barnaverndarmála, svo sem í formi rannsóknar- og þróunarverkefna.
     5.      Að hámarka nýtingu og virðisauka fjármuna sem lagðir eru til stofnunarinnar.
    Barnavernd hefur síðan 1992 heyrt undir félagsmálaráðuneytið með lögum nr. 58/1992. Í kjölfarið var unnið að úttekt á heildarskipan málaflokksins og gerðar viðamiklar skipulagsbreytingar með stofnun Barnaverndarstofu árið 1995, sbr. lög nr. 22/1995. Fyrstu starfsár Barnaverndarstofu einkenndust af mikilli uppbyggingu og breytingastarfi, m.a. á sviði meðferðar fyrir börn og með stofnun Barnahúss. Stofan lagði fram stefnumarkandi áætlun fyrir tímabilið 2005–2008, ásamt starfsmannastefnu og stefnu í jafnréttismálum. Mörkuð var stefna þar sem áherslur beindust að því að meta árangur af uppbyggingarstarfinu, þróa ný úrræði í stað langtímameðferðar og efla innviði stofnunarinnar. Nú og um næstu framtíð munu áherslur félags- og tryggingamálaráðuneytisins og Barnaverndarstofu beinast að því að innleiða og þróa ný úrræði í barnaverndarmálum, meta árangur úrræða í barnavernd með reglubundnum hætti, styrkja starf Barnaverndarstofu á öllum sviðum og efla barnavernd á vegum sveitarfélaganna.
    Með framangreint í huga munu áhersluverkefni Barnaverndarstofu á tímabilinu beinast að nýjungum, þróunar- og rannsóknastarfi, bættri þjónustu og verklagi og nýtingu fjármuna.
    Hér er byggt á aðferðafræði stefnumarkandi áætlanagerðar (e. strategic planning). Einnig er höfð til hliðsjónar aðferðafræði stefnumiðaðs skorkorts (BSC – Balanced Scorecard). Settir eru fram árangursmælikvarðar sem eiga að uppfylla sæmilega þá gæðastaðla sem gilda um slíka mælikvarða. Notast var við ýmis fyrirliggjandi gögn, þar á meðal skýrslur Barnaverndarstofu. Stofan hefur lagt sig fram um að safna greinargóðum upplýsingum um barnaverndarstarf á landinu og birt jafnóðum ýmsar grunnupplýsingar sem safnað er mánaðarlega auk þess að birta ársskýrslur. Þá var einnig notast við fyrri stefnumarkandi áætlun Barnaverndarstofu, ársáætlun, drög að árangursstjórnunarsamningi, niðurstöður starfsdaga og fleira. Áhersla er á markmiðssetningu sem miðar að breytingum, að fara úr tilteknu ástandi í annað og betra ástand. Ekki er ástæða til að setja markmið um þætti sem annaðhvort eru óraunhæf eða búið er nú þegar að ná. Reynt er að hafa texta áætlunarinnar hnitmiðaðan og einskorða hana við raunhæf verkefni. Leitast er við að áætlunin endurspegli raunverulegan vilja og getu stjórnenda og annarra starfsmanna til að fylgja stefnunni.
    Til hliðsjónar við uppbyggingu áætlunarinnar eru höfð framangreind fimm meginmarkmið. Helstu meginmarkmiðum er skipt niður í nokkur starfsmarkmið sem fela í sér mælanlegt takmark ráðuneytis og Barnaverndarstofu, mælikvarða á árangur og einstök verkefni sem er ætlað að stuðla að framgangi áætlunarinnar. Einnig kemur fram staða verkefna við upphaf tímabilsins ef vinna við þau er hafin og áætluð staða í lok þess ef ekki er gert ráð fyrir að verkefninu verði þá lokið. Gert er ráð fyrir að sérstök áætlun fylgi hverju verkefni.

2.     Aðgerðir til eflingar barnaverndarstarfs á vegum félags- og tryggingamálaráðuneytisins.
Meginmarkmið.
    Að efla barnaverndarstarf á vegum félags- og tryggingamálaráðuneytisins með því að tryggja nauðsynlegt fjármagn til málaflokksins, eiga frumkvæði að þróun löggjafar á sviði barnaverndar og vinna reglubundið í samstarfi við Barnaverndarstofu að þróun málaflokksins og því að tryggja samráð og samvinnu við önnur ráðuneyti sem sinna málefnum barna.

Starfsmarkmið.

     1.      Að fara vandlega yfir fjárlagatillögur frá Barnaverndarstofu á hverju ári og leggja fyrir Alþingi og fylgja eftir tillögum um nauðsynlegt fjármagn til málaflokksins.
     2.      Að meta með reglubundnum hætti framkvæmd barnaverndarlöggjafar, sérstaklega reynslu af nýjungum og breytingum í barnaverndarstarfi, í samvinnu við Barnaverndarstofu. Að leggja fram frumvörp til breytinga á barnaverndarlögunum sem nauðsynlegar eða æskilegar teljast hverju sinni.
     3.      Að meta með reglubundnum hætti þörf á setningu reglugerða og breytingum í samráði við Barnaverndarstofu.
     4.      Að efla og þróa samvinnu milli ráðuneyta um málefni barna.
     5.      Að efla og þróa, í samstarfi við Barnaverndarstofu, samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga og sveitarfélögin um barnaverndarstarf. Að eiga frumkvæði að því í samstarfi við Barnaverndarstofu að fram fari mat á álagi í barnaverndarstarfi og endurmat á starfsmannaþörf sveitarfélaganna í málaflokknum.
     6.      Að halda reglulega fundi með forstjóra Barnaverndarstofu til að ræða úrlausnarefni á málefnasviðinu og tillögur Barnaverndarstofu til endurbóta.

Mælikvarði á árangur.
     1.      Haldinn fundur með forstjóra Barnaverndarstofu eftir að árlegar fjárlagatillögur stofunnar liggja fyrir. Fjárlagatillögum ráðuneytisins fylgt eftir við gerð fjárlaga hvert ár.
     2.      Skipaður starfshópur til að meta reynsluna af barnaverndarlögum, nr. 80/2002, sem skili tillögum til breytinga á lögunum fyrir 1. nóvember 2008.
     3.      Árleg greinargerð um samvinnu milli ráðuneyta um málefni barna.
     4.      Árleg greinargerð um samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga og sveitarfélögin um barnaverndarstarf. Skýrsla fyrir árslok 2008 um endurmat á starfsmannaþörf sveitarfélaganna í málaflokknum.
     5.      Formlegar fundargerðir eftir reglubundna fundi félags- og tryggingamálaráðuneytisins og forstjóra Barnaverndarstofu.

3.     Aðgerðir til eflingar barnaverndarstarfs á vegum Barnaverndarstofu.
Meginmarkmið.
    Að efla barnaverndarstarf á vegum Barnaverndarstofu með því að greina úrlausnarefni á málefnasviðinu, fylgjast með þróun málaflokksins og leggja reglubundið fram tillögur til endurbóta við félags- og tryggingamálaráðuneytið og í kjölfarið taka þátt í framkvæmd þeirra.

Starfsmarkmið.
     1.      Að fjölga þróunar- og rannsóknarverkefnum á sviði barnaverndar á tímabilinu.
     2.      Að vinna árlega greinargerð um stöðu og þróun barnaverndarmála sem byggð verði á upplýsingum hérlendis sem erlendis.
     3.      Að setja reglubundið fram á grundvelli 1. og 2. tölul. tillögur til félags- og tryggingamálaráðherra um hvaða úrbóta sé þörf á sviði barnaverndar.
     4.      Að taka þátt í skipulegu erlendu samstarfi á tímabilinu þar sem lögð verði áhersla á samstarf innan Eystrasaltsráðsins, ISPCAN (International Society for Prevention of Child Abuse and Neglect) og deilda innan þess, svo sem NFBO (Nordisk Forening mot Barnemishandling og Omsorgssvikt), FICE (Federation of Educative Communities), IFCO (International Foster Care Organization), NOFCA (Nordic Foster Care Association), og á samstarf um norrænu barnaverndarráðstefnuna. Að taka þátt í samstarfi á vegum Evrópuráðsins, og Sameinuðu þjóðanna eftir atvikum, með þátttöku í fundum, ráðstefnum og verkefnum og veitingu upplýsinga eftir því sem óskað er. Enn fremur að taka þátt í sértækum samstarfsverkefnum eftir því sem tilefni gefst. Árlega verði unnin greinargerð um erlent samstarf, m.a. um þátttöku starfsmanna í viðburðum og ávinning af samstarfinu.
     5.      Að auka upplýsingamiðlun til almennings, m.a. með markvissari notkun heimasíðu stofnunarinnar. Þannig verði a.m.k. vikulega fréttir af barnaverndarstarfi settar á vefinn og heimasíða stofnunarinnar efld með því að bæta reglulega við tenglum og nýju fræðsluefni. Einnig að auka áframhaldandi þátttöku starfsmanna í fjölmiðlaumræðu.

Mælikvarði á árangur.
     1.      Fjöldi og umfang rannsóknar- og þróunarverkefna unnin á tímabilinu og formleg eftirfylgni í formi ákvarðana eða aðgerða með hliðsjón af niðurstöðum þeirra.
     2.      Árlega unnin greinargerð um þróun barnaverndarmála og birt á heimasíðu Barnaverndarstofu.
     3.      Reglulegar skjalfestar tillögur til félags- og tryggingamálaráðherra um umbætur á sviði barnaverndar er komi fram m.a. í rökstuðningi með fjárlagatillögum stofnunarinnar, ársáætlunum eða sérstökum greinargerðum.
     4.      Árlega gefin út greinargerð um erlent samstarf og mat á ávinningi.
     5.      Fjölgun milli ára á heimsóknum á heimasíðu stofnunarinnar. Fjöldi tilvika þar sem starfsmaður stofnunarinnar tekur þátt í umræðu um barnavernd í ljósvaka- eða ritmiðlum.
    
    Verkefni sem unnin eru á grundvelli framangreindra starfsmarkmiða eru eftirfarandi:

3.1     Rannsóknarverkefni.
3.1.1     Rannsókn á framburði barna sem koma í Barnahús vegna gruns um kynferðislegt ofbeldi.
Tilefni og væntanlegur ávinningur.
    Barnaverndarstofa hefur gert samning við dr. Jón Friðrik Sigurðsson, forstöðusálfræðing Landspítala – háskólasjúkrahúss, Gísla Guðjónsson, prófessor og réttarsálfræðing við Institute of Psychiatry King's College í London, Jóhönnu Kristínu Jónsdóttur, M.A. í sálarfræði, og Þorbjörgu Sveinsdóttur, B.A. í sálarfræði, um rannsókn fyrir Barnaverndarstofu í tengslum við þá þjónustu sem veitt er í Barnahúsi vegna gruns um kynferðisbrot gegn börnum. Meginmarkmið rannsóknarinnar er að skoða í hvaða tilvikum eða hvaða atriði í framburði barna leiði til opinberrar ákæru fyrir kynferðisbrot og dóms og hvað af framburði barna haldi sér inn í ákærur og forsendur dómsorðs. Einnig er fyrirhugað að kanna ýmis atriði sem snúa að eðli kynferðisbrota á Íslandi og athuga hvort þau hafi áhrif á framvindu máls. Ávinningur af rannsókninni er að meta reynslu af þjónustu Barnahússins og hvort bæta megi málsmeðferð mála um kynferðislegt ofbeldi gegn börnum.

Framkvæmd/kostnaður.
    Skráningu gagna er lokið. Verið er að safna upplýsingum um afdrif mála sem rannsóknin tekur til og vinna úr niðurstöðum.
    Stefnt er að því að skýrsla um niðurstöðu rannsóknarinnar liggi fyrir í lok mars 2008.

3.1.2     Athugun á líkamlegu ofbeldi gegn börnum á Íslandi.
Tilefni og væntanlegur ávinningur.
    Oft hafa vaknað spurningar um hlutfall tilkynninga vegna líkamlegs ofbeldis gagnvart börnum sem virðist lægra á Íslandi en hjá ýmsum vestrænum þjóðum. Ein skýringin kann að vera sú að vandinn sé duldari hér en víða erlendis. Jafnframt verður skortur á vitund um tilvist líkamlegs ofbeldis og takmörkuð þekking á greiningu á áverkum barna til þess að draga úr líkum á því að mál uppgötvist og séu tilkynnt barnaverndaryfirvöldum. Af þessum ástæðum telur Barnaverndarstofa brýnt að láta fara fram athugun á líkamlegu ofbeldi á börnum á Íslandi með það fyrir augum að varpa skýrara ljósi á umfang vandans, viðbrögð við ofbeldi og meta þörf úrræða.

Framkvæmd/kostnaður.
    Skoðaðar verða allar tilkynningar til barnaverndarnefnda árið 2006 þar sem tilkynnt var um líkamlegt ofbeldi gagnvart börnum. Verkefnið verður unnið í samstarfi við barnaverndarnefndir og BA-nema í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands. Ekki er gert ráð fyrir sérstökum kostnaði vegna verkefnisins en hann mun að mestu felast í vinnuframlagi sérfræðinga Barnaverndarstofu.

Staða við lok tímabils.
    Stefnt er að því að athugun verði lokið í júlí 2008.

3.1.3     Athugun á samstarfi við 112 um móttöku tilkynninga.
Tilefni og væntanlegur ávinningur.
    Barnaverndarstofa hafði frumkvæði að samstarfi við Neyðarlínuna 112 um móttöku tilkynninga á grundvelli ákvæða barnaverndarlaga. Markmiðið er að hægt verði að hafa samband við allar barnaverndarnefndir landsins gegnum 112 á öllum tímum sólarhrings og auðvelda þannig almenningi að rækja lagaskyldur sínar um að tilkynna til barnaverndarnefnda. Þá má geta þess að Áfallamiðstöð Landspítalans hefur sent Barnaverndarstofu upplýsingar frá ársbyrjun 2007 um tilkynningar sem miðstöðin tekur á móti og framsendir til barnaverndarnefnda. Barnaverndarstofa telur brýnt að gera athugun á framkvæmd og árangri samstarfsins við Neyðarlínuna, m.a. meta viðhorf barnaverndarnefnda til þjónustunnar, hvort tilkynningum hafi fjölgað með betra aðgengi og frá hverjum tilkynningar berast og meta jafnvel þekkingu og viðhorf almenning til þessarar þjónustu.

Framkvæmd/kostnaður.
    Stefnt er að því að vinna verkefnið í samstarfi við 112 og Félagsvísindadeild Háskóla Íslands eftir atvikum. Barnaverndarstofa mun árið 2008 skoða sérstaklega misræmi í fjölda tilkynninga sem berast 112 annars vegar og sem barnaverndarnefndir skrá að berist frá 112 hins vegar. Verkefnið verður aðallega unnið af sérfræðingum Barnaverndarstofu, hugsanlega kemur til kostnaðar ef leitað verður samstarfs um að gera viðhorfskönnun en ekki hefur verið gerð kostnaðaráætlun vegna þessa. Nánar um kostnað vísast til athugasemdar í lok 3. kafla.

Staða við lok tímabils.
    Stefnt er að því að verkefninu ljúki fyrir árslok 2008.

3.1.4     Athugun á fjölda tilkynninga sem leiða til könnunar máls hjá barnaverndarnefndum.
Tilefni og væntanlegur ávinningur.
    Umtalsverð fjölgun hefur orðið á tilkynningum til barnaverndarnefnda undanfarin ár sem bendir til aukins álags á starfsfólk í barnavernd. Samstarf við Neyðarlínuna 112 um móttöku tilkynninga á grundvelli ákvæða barnaverndarlaga auðveldar almenningi að rækja lagaskyldur sínar um að tilkynna til barnaverndarnefnda. Vísbendingar eru um aukna vitund opinberra aðila um tilkynningarskylduna sem hefur einnig áhrif á fjölgun tilkynninga. Frá árinu 2005 hefur Barnaverndarstofa mánaðarlega fengið upplýsingar um fjölda tilkynninga frá barnaverndarnefndum. Í ársbyrjun 2007 fór Barnaverndarstofa fram á það að barnaverndarnefndir skiluðu mánaðarlega upplýsingum um í málum hve margra barna tekin var ákvörðun um nánari könnun hjá í kjölfar tilkynningar. Í ljós kemur að mikill munur er milli barnaverndarnefnda að þessu leyti og í sumum tilvikum er einungis lítill hluti tilkynninga kannaður frekar. Barnaverndarstofa telur brýnt að gera athugun á eðli og umfangi tilkynninga og hlutfalli þeirra sem leiða til könnunar máls hjá barnaverndarnefndum.

Framkvæmd/kostnaður.
    Barnaverndarstofa mun halda áfram að safna reglulega upplýsingum frá barnaverndarnefndum um fjölda ákvarðana um könnun máls. Í byrjun árs 2009 verður unnin áætlun um verkefnið en gert er ráð fyrir að það verði unnið í samstarfi við Háskóla Íslands eða Rannsóknasetur í barna- og fjölskylduvernd.

Staða við lok tímabils.
    Stefnt er að því að verkefninu verði lokið fyrir árslok 2009.

3.1.5     Athugun á vímuefnaneyslu og greiningum barna á Stuðlum.
Tilefni og væntanlegur ávinningur.
    Á meðferðardeild Stuðla hefur verið lögð fyrir börn sérstök vímuefnakönnun. Könnunin hefur fyrst og fremst verið notuð sem meðferðartæki þar sem ráðgjafar fara yfir og vinna með svör tiltekinna skjólstæðinga, en sérstök úrvinnsla tölulegra upplýsinga var gerð á Barnaverndarstofu árið 2006. Barnaverndarstofa telur mikilvægt að vinna frekar með þessar upplýsingar og reyna að varpa ljósi á áhrifa- og áhættuþætti hjá þeim hópi unglinga sem reynist í mikilli neyslu fíkniefna.

Framkvæmd/kostnaður.
    Barnaverndarstofa gerir ráð fyrir að vinna verkefnið í samstarfi við Stuðla og Lýðheilsustöð. Stefnt er að því að bera saman niðurstöður gagna úr vímuefnakönnuninni og niðurstöður greininga barna á meðferðardeild Stuðla miðað við greiningarviðmið DSM-kerfisins. Gerð verður áætlun um nánari útfærslu verkefnisins fyrir 1. janúar 2009 og áætlað er að verkefninu ljúki á því ári. Ekki er gert ráð fyrir sérstökum kostnaði vegna verkefnisins en hann mun að mestu felast í vinnuframlagi sérfræðinga Barnaverndarstofu og annarra stofnana.

Staða við lok tímabils.
    Verkefnaáætlun mun liggja fyrir 1. janúar 2009 og skýrsla um niðurstöður verkefnisins í árslok 2009.

3.1.6     Rannsóknasetur í barna- og fjölskylduvernd.
Tilefni og væntanlegur ávinningur.
    Árið 2005 gerði Barnaverndarstofa þriggja ára samstarfssamning við Rannsóknasetur í barna- og fjölskylduvernd. Setrið sem var stofnað 12. maí 2006 er starfrækt af félagsráðgjafarskor Háskóla Íslands og heyrir undir Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands. Hlutverk Rannsóknasetursins er að auka og efla rannsóknir í félagsráðgjöf á sviði barna- og fjölskylduverndar, m.a. með því að eiga frumkvæði að og sinna rannsóknum, efla tengsl rannsókna og kennslu, samhæfa rannsóknir á fræðasviðinu, hafa samstarf við innlendar og erlendar rannsóknastofnanir, kynna niðurstöður rannsókna og standa fyrir námskeiðum, fyrirlestrum og ráðstefnum á sviði félagsráðgjafar. Barnaverndarstofa telur mikilvægt að efla rannsóknir á aðstæðum barna í víðum skilningi og sér sóknarfæri í samstarfi við Rannsóknasetrið.

Framkvæmd/kostnaður.
    Samstarfs- og styrktaraðilar sem koma að rekstri setursins eru, auk Barnaverndarstofu, Biskupsstofa, Efling – stéttarfélag, félags- og tryggingamálaráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið, Reykjanesbær, Umboðsmaður barna og Velferðarsvið Reykjavíkurborgar. Kostnaður Barnaverndarstofu vegna verkefnisins er í dag 500.000 kr. á ári og verður ávinningur af þátttökunni metinn með tilliti til frekara samstarfs.

Staða við lok tímabils.
    Barnaverndarstofa mun taka ákvörðun um frekara samstarf fyrir 1. maí 2008.

3.2     Þróunarverkefni.
3.2.1     Notkun matslista ASEBA.
Tilefni og væntanlegur ávinningur.
    Barnaverndarstofa innleiddi árið 2006 markvissa notkun kembilista ASEBA (Achenbach System of Empirically Based Assessment). Listarnir hafa hlotið alþjóðlega útbreiðslu og teljast hafa hlotið viðurkenningu til að meta eðli og stig þess vanda sem börn geta átt við að stríða. Tvö meginmarkmið voru með markvissri notkun listanna í starfsemi Barnaverndarstofu. Annars vegar að hjálpa til við að meta hvort barn teldist í þörf fyrir sérhæfða meðferð á stofnun eða styrkt fóstur, þ.e. innleiða notkun staðlaðra matstækja þegar tekin er ákvörðun um beitingu sérhæfðs úrræðis. Hins vegar var markmiðið að nota listana til að meta breytingar á hegðun barna frá einum tíma til annars eða til að leggja mat á árangur sérhæfðra úrræða. Einnig hafa ASEBA-listarnir verið notaðir í Barnahúsi frá upphafi starfseminnar, en notkun þeirra þar miðar einvörðungu að því að kanna ástand barna sem þangað koma og eru þannig eitt af fleiri mælitækjum sem notuð eru í svipuðum tilgangi.
    Verkefnið þykir gefa færi á því að þróa úrræði til að mæta þörfum barna og beina fjármunum og kröftum að þeim lausnum sem þykja skila mestum gæðum. Þá þykir sá ávinningur af verkefninu að með því verði til samræmdur grunnur upplýsinga um þau börn sem þurfa sérhæfða meðferð sem unnt er að nota í rannsóknarskyni.

Framkvæmd/kostnaður.
    Barnaverndarstofa hefur verið í samstarfi um verkefnið við dr. Tomas Achenbach, Research Center for Children, Youth and Families í Bandaríkjunum, og Halldór Sig. Guðmundsson félagsráðgjafa, fyrir hönd ASEBA á Íslandi. Keyptur hefur verið hugbúnaður ASEBA, handbækur og eyðublöð ásamt gagnagrunni yfir rannsóknir. Samkvæmt ákvörðun Barnaverndarstofu hafa ASEBA-listar verið notaðir í Barnahúsi í nokkur ár og hafa fylgt öllum umsóknum um vistun á Stuðlum, á langtímameðferðarheimili og í styrkt fóstur frá ársbyrjun 2006. Barnaverndarstofa hefur skráð upplýsingar úr innsendum ASEBA-listum í samræmdan gagnagrunn.

Staða við lok tímabils.
    Í árslok 2007 lá fyrir samantekt um verkefnið, úrvinnsla og framsetning tölulegra upplýsinga. Áætlun um frekari úrvinnslu og notkun listanna verður gerð fyrir 1. ágúst 2008.

3.2.2     Gæðastaðlar um vistun barna utan heimilis – „Quality for children“.
Tilefni og væntanlegur ávinningur.
    Árið 2005 hófst samstarf 32 Evrópuríkja sem miðaði að því að þróa gæðastaðla er varða umönnun barna í fóstri, á stofnunum eða í öðrum úrræðum þegar um vistun barna utan heimilis er að ræða. Frumkvæði og yfirumsjón með samstarfinu var í höndum SOS-barnaþorpanna, Alþjóðasamtaka fósturforeldra (IFCO) og Alþjóðasamtaka uppeldis- og meðferðarstofnana (FICE). Verkefnið var stutt fjárhagslega af Evrópusambandinu og naut jafnframt stuðnings Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) og Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF). Markmið samstarfsins var að ná fram alþjóðlega viðurkenndum gæðastöðlum um vistun barna utan heimilis sem tækju m.a. til eftirfarandi þátta: Ákvarðana um vistun utan heimilis, val á vistunarúrræðum, gæði umönnunar og eftirfylgd.
    Á grundvelli þessara upplýsinga voru dregnar ályktanir um jákvæða og neikvæða þætti sem síðan voru notaðir til að leggja grunn að gæðakvörðum. Vinnu þessari lauk árið 2007. Aðferðin við þróun gæðastaðlanna í fyrsta áfanga var að kalla eftir reynslu- eða lífssögum einstaklinga, þ.e. barna sem höfðu verið vistuð utan heimilis í fóstri eða á stofnun, fósturforeldra, meðferðaraðila og kynforeldra, í því skyni að öðlast innsýn í reynslu þeirra og viðhorf með útgáfu gæðastaðla (Quality for Children – Standards). Að lokinni setningu hinna alþjóðlegu staðla var áætlað að þróa staðla sem ættu við hvert land fyrir sig. Staðlar þessir eiga sér einnig rætur í tilmælum Evrópuráðsins um réttindi barna á stofnunum sem ráðherranefndin samþykkti 16. mars 2005.

Framkvæmd/kostnaður.
    Í september 2007 hófst vinna við þróun íslenskra gæðastaðla um vistun barna utan heimilis. Unnið verður á grundvelli samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, alþjóðlegu staðlanna, tilmæla Evrópuráðsins um réttindi barna á stofnunum, barnaverndarlaga og reglugerða ásamt fleiri gögnum frá löndum sem þegar hafa sett sér slíka gæðastaðla. Í kjölfar þróunar hinna íslensku gæðastaðla verður eftirlit með öllu vistunarferlinu endurskoðað og breytt og foreldrar vistbarna og fyrrum vistbörn verða fengin til þátttöku í eftirliti og mati á gæðum ferlisins. Þá munu starfsmenn meðferðarheimila og barnaverndarnefnda fá kynningu og fræðslu um gæðastaðlana. Starfið mun að mestu unnið af sérfræðingum á Barnaverndarstofu, en gert er ráð fyrir að ráða utanaðkomandi sérfræðing til aðstoðar en ekki hefur verið gerð kostnaðaráætlun vegna þessa. Nánar um kostnað vísast til athugasemdar í lok 3. kafla.

Staða við lok tímabils.
    Barnaverndarstofa áætlar að íslenskir gæðastaðlar er varða umönnun barna í fóstri, á stofnunum og/eða í öðrum sambærilegum úrræðum verði tilbúnir 1. apríl 2008. Áætlun um markvissa kynningu staðlanna fyrir starfsfólk meðferðarheimila og barnaverndarnefnda mun liggja fyrir 1. júní 2008 og kynningarstarf hafið í kjölfarið.

3.2.3     Eftirlit með vistun barna utan heimilis.
Tilefni og væntanlegur ávinningur.
    Samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga og reglugerða hefur Barnaverndarstofa bæði faglegt og fjárhagslegt eftirlit með þeim meðferðarheimilum sem rekin eru á vegum ríkisins. Þá hefur Barnaverndarstofa sérstöku hlutverki að gegna í fósturmálum og skal auk þess hafa yfirlit yfir þörf á heimilum og öðrum úrræðum á ábyrgð sveitarfélaga samkvæmt ákvæðum barnaverndarlaga, hvetja sveitarfélög til að hafa tiltæk nauðsynleg úrræði og liðsinna þeim í þeim efnum eftir því sem þörf er á. Með hliðsjón af þessum almennu skyldum Barnaverndarstofu til að vinna að samhæfingu og eflingu barnaverndarstarfs og með hliðsjón af gæðastöðlum og tilmælum Evrópuráðsins um réttindi barna á stofnunum þykir Barnaverndarstofu brýnt að skipuleggja markvisst eftirlit með vistun barna utan heimilis. Barnaverndarstofa hefur á undanförnum árum unnið talsvert í því að skipuleggja eftir þjónustu- og vistunarsamningum, að heimilin uppfylli kröfur um viðurkennt faglegt starf og að stuðla að almennum umbótum í meðferðarstarfi. Í apríl 2008 gerir Barnaverndarstofa ráð fyrir að tilbúnir verði gæðastaðlar um vistun barna utan heimilis sem muni kalla á endurskoðun fyrirkomulags á eftirliti, bæði með vistun barna á meðferðarheimilum og kalla á mótun viðmiða um eftirlit með annarri vistun.

Framkvæmd/kostnaður .
    Á árinu 2008 verður unnið að þróun eftirlits í samræmi við gæðastaðla um vistun barna utan heimilis. Í janúar 2008 hófst undirbúningur að því að fyrrverandi vistbörn á meðferðarheimilum verði fengin til þátttöku í eftirliti með vistun á meðferðarheimili. Jafnhliða verða foreldrar fyrrverandi vistbarna á meðferðarheimilum fengnir til þátttöku í mati á starfi meðferðarheimilanna og mati á eftirfylgd eftir meðferð. Í árslok 2008 er gert ráð fyrir að tilbúin verði áætlun um fyrirkomulag eftirlits af hálfu Barnaverndarstofu með vistun barna á meðferðarheimilum. Á árinu 2009 verður unnið að mótun fyrirkomulags á eftirliti með annarri vistun utan heimilis. Starfið mun að mestu unnið af sérfræðingum á Barnaverndarstofu en gert er ráð fyrir að ráða utanaðkomandi sérfræðing til aðstoðar en ekki hefur verið gerð kostnaðaráætlun vegna þessa. Nánar um kostnað vísast til athugasemdar í lok 3. kafla.

Staða við lok tímabils
.
    Áætlun um fyrirkomulag eftirlits Barnaverndarstofu með vistun barna á meðferðarheimilum verði tilbúin í árslok 2008. Áætlun um fyrirkomulag eftirlits með annarri vistun utan heimilis verði tilbúin í árslok 2009.

3.2.4     Skilgreiningar- og flokkunarkerfi í barnavernd (SOF).
Tilefni og væntanlegur ávinningur.
    Árið 2003 fékk Barnaverndarstofa dr. Freydísi J. Freysteinsdóttur til að útbúa skilgreiningar- og flokkunarkerfi í barnaverndarmálum (SOF). Allar barnaverndarnefndir landsins tóku SOF-kerfið í notkun við mat og flokkun tilkynninga frá og með 1. janúar 2005 og er það lagt til grundvallar við gerð eyðublaða fyrir sískráningu og ársskýrslueyðublaðs. Árið 2006 fór fram mat á kerfinu, m.a. á viðhorfum starfsmanna til notkunar á því, og endurskoðun í kjölfarið. Markmiðið með flokkunarkerfinu er m.a. að gera vandamál og markmið afskipta barnaverndarnefnda sýnilegri fyrir foreldrum, börnum og barnaverndarstarfsmönnum, samræma skilgreiningar og mat á vandamáli og aðstæðum barna, fá skýrari mynd af þörf fyrir úrræði og auðvelda ákvarðanatöku um úrræði. Þá auðveldar kerfisbundið mat samanburð og rannsóknir á sviði barnaverndar. Barnaverndarstofa telur mikilvægt að samræma enn frekar túlkun eða mat á ýmsum þáttum kerfisins og að kynna flokkunarkerfið betur.

Framkvæmd/kostnaður.

    Gerð verður áætlun fyrir 1. júlí 2008 um kynningu á SOF-kerfinu fyrir barnaverndarstarfsmönnum og öðrum. Kynningar verða á síðari hluta árs 2008 og fyrri hluta árs 2009, eftir atvikum í tengslum við aðra fræðslu eða eftirlit á vegum Barnaverndarstofu. Ekki er gert ráð fyrir sérstökum kostnaði vegna verkefnisins.

Staða við lok tímabils.
    Stefnt er að því að áætlun liggi fyrir 1. júlí 2008 og að verkefninu verði lokið 1. júlí 2009.

3.2.5     Úrræði vegna þungaðra kvenna sem stofna heilsu og lífi ófæddra barna í hættu.
Tilefni og væntanlegur ávinningur.
    Í barnaverndarlögum, nr. 80/2002, er að finna skýrari ákvæði en áður um skyldur og heimildir barnaverndarnefnda til að bregðast við tilkynningum um þungaðar konur sem stofna heilsu eða lífi ófædds barns síns í hættu með óviðunandi eða háskalegu líferni sínu, t.d. með ofneyslu áfengis eða fíkniefnaneyslu. Í lögunum eru ákvæði um könnun máls, beitingu stuðnings eða þvingunar eftir atvikum ef hin þungaða kona hefur ekki náð lögræðisaldri. Þá er einnig mælt fyrir um heimild barnaverndarnefndar til að setja fram kröfu um sviptingu sjálfræðis samkvæmt ákvæðum lögræðislaga í því skyni að koma konu til aðhlynningar og meðferðar á viðeigandi stofnun. Barnaverndarstofa telur þetta brýnt verkefni og mjög mikilvægt að skoða með hvaða hætti sé eðlilegast og heppilegast að haga stuðningi við þungaðar konur að þessu leyti. Þá er einnig brýnt að skoða hvaða úrræði unnt er að nota ef beita þarf þvingun í þessum tilvikum. Miðað við reynslu annarra þjóða þykir Barnaverndarstofu ljóst að hér þurfi markvisst samstarf barnaverndaryfirvalda og heilbrigðisyfirvalda.

Framkvæmd/kostnaður.
    Barnaverndarstofa hyggst boða til fundar með fulltrúum barnaverndaryfirvalda og heilbrigðisyfirvalda fyrir 1. apríl 2008 þar sem leitað verður eftir samstöðu um að setja á laggirnar starfshóp til að vinna frekar að verkefninu. Stefnt verður að því að starfshópur skili tillögum fyrir 1. október 2008. Ekki er gert ráð fyrir sérstökum kostnaði vegna verkefnisins á þessu stigi.

Staða við lok tímabils.
    Skipaður verði starfshópur fyrir 1. maí 2008 er skili af sér tillögum um verklag og úrræði fyrir 1. október 2008.

3.2.6     Viðbragðsteymi vegna dauðsfalla barna (Child Death Review Team).
Tilefni og væntanlegur ávinningur.
    Svokölluð viðbragðsteymi vegna dauðsfalla barna (Child Death Review Team) voru fyrst sett á laggirnar í Bandaríkjunum í kjölfar fjölgunar dauðsfalla barna. Á undanförnum árum hafa æ fleiri ríki sett á laggirnar sambærileg viðbragðsteymi. Þar koma saman fulltrúar heilbrigðis-, dóms- og barnaverndarkerfis með það að markmiði að varpa ljósi á dauðsföll og koma með ábendingar um hvernig megi fækka dauðsföllum barna. Lögð er áhersla á að þróa aðferðir til að bæta heilsu og öryggi barna, bæta samskipti milli stofnana, greina orsakir og viðbrögð við dauðsföllum og safna og birta upplýsingar um öll dauðsföll barna.

Framkvæmd/kostnaður.
    Barnaverndarstofa hefur unnið að undirbúningi stofnunar viðbragðsteymis vegna dauðsfalla barna og átt í því skyni samræður við aðrar stofnanir. Boðað verður til fundar með fulltrúum allra hlutaðeigandi aðila fyrir 1. júní 2008 þar sem leitað verður eftir samstöðu um stofnun viðbragðsteymis. Tekið verður þátt í starfi International Child.org, sem er alþjóðlegt samstarf sérfræðinga á þessu sviði, eftir því sem tök eru á. Ekki liggur fyrir kostnaðaráætlun vegna verkefnisins.

Staða við lok tímabils.
    Tillaga Barnaverndarstofu verður að setja á laggirnar viðbragðsteymi fyrir 1. september 2008 og gert verður ráð fyrir árlegum skýrslum um störf teymisins.

3.3     Erlent samstarf.
3.3.1     Ráðstefna NFBO árið 2008.
Tilefni og væntanlegur ávinningur.
    Barnaverndarstofa á fulltrúa í stjórn NFBO (Nordisk Forening mot Barnemishandling og Omsorgssvikt) en samtökin eiga aðild að ISPCAN. Stofan hefur gert samning við Íslandsdeild samtakanna um að taka þátt í að undirbúa og fjármagna ráðstefnu sem haldin verður á vegum samtakanna á Íslandi í maí 2008. Ráðstefnur af þessu tagi hafa verið haldnar á tveggja ára fresti frá stofnun NFBO árið 1998 og er þetta fyrsta ráðstefnan sem haldin verður á Íslandi. Þema ráðstefnunnar verður: Börn og vanræksla: Þarfir – skyldur – ábyrgð. Ætlunin er að höfða til sérfræðinga á sem flestum sviðum þar sem unnið er með þarfir, hagsmuni og réttindi barna og beina athyglinni að vanrækslu barna í víðum skilningi, af hálfu foreldra, sérfræðinga og samfélagsins.

Framkvæmd/kostnaður.
    Undirbúningur ráðstefnunnar er yfirstandandi og eiga tveir starfsmenn sæti í undirbúningsnefnd, þar af annar sem formaður. Formaður undirbúningsnefndar er jafnframt stjórnarmaður í NFBO og felst nokkur kostnaður í ferðum á norræna stjórnarfundi vegna undirbúnings ráðstefnunnar og þátttöku í starfi félagsins. Stefnt er að því að ráðstefnan skili hagnaði.

Staða við lok tímabils.
    Ráðstefnan verður haldin í maí 2008.

3.3.2     Norræn barnaverndarráðstefna árið 2009.
Tilefni og væntanlegur ávinningur.
    Barnaverndarstofa hefur um áratuga skeið tekið þátt í samstarfi um norræna barnaverndarráðstefnu sem haldin er á þriggja ára fresti til skiptis á Norðurlöndunum. Ráðstefnan var síðast haldin í Kaupmannahöfn en næsta ráðstefna verður í Noregi árið 2009. Ávinningur af þátttöku í undirbúningi ráðstefnunnar er að kynnast nýjum straumum og stefnum í barnaverndarstarfi nágrannaríkjanna, eiga þátt í mótun dagskrár og miðla reynslu Íslendinga.

Framkvæmd/kostnaður.
    Undirbúningur ráðstefnunnar er yfirstandandi og sækir starfsmaður Barnaverndarstofu þá fundi sem undirbúningsnefnd boðar. Kostnaður felst í ferðum vegna undirbúnings og í þátttöku í ráðstefnunni.

Staða við lok tímabils.
    Ráðstefnan verður haldin árið 2009.

3.4 Saga barnaverndarstarfs á Íslandi.
Tilefni og væntanlegur ávinningur.
    Árið 2007 voru 75 ár síðan fyrstu barnaverndarlögin tóku gildi á Íslandi og taldi Barnaverndarstofa við hæfi á þeim merku tímamótum að undirbúa ritun sögu barnaverndarstarfs á Íslandi. Saga barnaverndarstarfs mun veita merkilegt og haldgott yfirlit yfir umfang og þróun barnaverndarstarfs á landinu, auðvelda samanburð við stöðu barnaverndarstarfs í þeim ríkjum sem við berum okkur saman við og væntanlega stuðla að frekari umbótum.

Framkvæmd/kostnaður.
    Barnaverndarstofa mun halda áfram undirbúningi útgáfunnar.

Staða við lok tímabils.
    Stefnt er að því að ritið verði gefið út fyrir lok tímabilsins 2010.

Um kostnað vegna 3. kafla.
    Ráðuneytið og Barnaverndarstofa meta það svo að viðbótarútgjöld Barnaverndarstofu vegna verkefna í 3. kafla, sem ekki eru innan fjárheimilda Barnaverndarstofu, geti numið um 10 millj. kr. á ári.

4. Efling þjónustu og verklags.
Meginmarkmið.
    Að efla þjónustu Barnaverndarstofu þannig að hún verði markvissari, aðgengilegri og skjótari og ávallt í samræmi við þarfir barna og fjölskyldna þeirra á hverjum tíma. Þetta á við um ráðgjöf, fræðslu, eftirlit og rekstur heimila og stofnana á vegum stofnunarinnar. Tryggt sé að jafnræði ríki gagnvart þeim sem stofnunin hefur samskipti við.

Starfsmarkmið.
     1.      Að reglulega fari fram mat á helstu þjónustuþáttum Barnaverndarstofu, svo sem ráðgjöf, fræðslu og eftirliti með störfum barnaverndarnefnda. Taka skal sérstakt tillit til reynslu og viðhorfa þeirra sem þjónustunnar njóta, fyrst og fremst barnanna. Á grundvelli þess mats verði þjónusta stofnunarinnar endurskoðuð. Í því felst m.a. að skoða þörf á sérhæfðari ráðgjöf og fræðslu fyrir barnaverndarnefndir og aðra opinbera aðila og þörf á markvissara eftirliti með störfum nefndanna.
     2.      Að viðhalda öflugu fræðslustarfi Barnaverndarstofu, m.a. með því að standa fyrir málstofum mánaðarlega frá september til maí, hljóðrita þær og setja á vefinn. Þá verði haldin árleg ráðstefna á vegum Barnaverndarstofu með þátttöku erlendra sérfræðinga. Einnig verði unnið markvisst að því að auka upplýsingamiðlun stofnunarinnar, m.a. með notkun heimasíðu þar sem lögð verði áhersla á efni sem nýtist barnaverndarnefndum og öðrum opinberum aðilum. Aukin verði kynning og notkun á lokuðu svæði á heimasíðu Barnaverndarstofu. Á lokaða svæðinu verði áfram gerð aðgengileg ýmis eyðublöð og gögn fyrir barnaverndarnefndir og hvatt til umræðna um barnaverndarmál. Handbók barnaverndarnefnda verði endurskoðuð reglulega með hliðsjón af nýrri þekkingu og hugað sérstaklega að málefnum barna af erlendum uppruna.
     3.      Að efla menntun og þjálfun starfsmanna sem vinna fyrir barnaverndarnefndir landsins og á meðferðarheimilum og auka þekkingu samstarfsaðila barnaverndarnefnda og meðferðarheimila. Leita eftir samstarfi við félagsráðgjafarskor Háskóla Íslands, Kennaraháskóla Íslands og aðrar stofnanir um að koma á fót framhaldsnámi í barnavernd, svo og að skipuleggja námsleiðir og námskeið á sviði barnaverndar og meðferðar.
     4.      Að árlega verði haldinn fundur með félagsmálastjórum og yfirmönnum starfseininga sem bera ábyrgð á barnaverndarstarfi í sveitarfélögum landsins. Þar gefist kostur á að ræða þjónustu Barnaverndarstofu og barnavernd á ábyrgð sveitarfélaga, kynna nýjungar í barnavernd og ræða einstök verkefni.
     5.      Að bæta eftirlit Barnaverndarstofu með barnaverndarnefndum, m.a. að móta viðmið um frumkvæðiseftirlit þar sem gerðar eru athuganir á einstaka málum eða kannanir á framkvæmd einstakra þátta í störfum barnaverndarnefnda.
     6.      Að gefa út handbók meðferðarheimila þar sem m.a. verði fjallað um markmið, verklag og sérhæfingu hvers heimilis og hugað sérstaklega að börnum af erlendum uppruna. Handbókin byggist m.a. á gæðastöðlum um vistun barna utan heimilis.
     7.      Að gera úttekt á meðferðarstarfi Stuðla og meðferðarheimila Barnaverndarstofu og í kjölfarið taka ákvarðanir um hvaða úrbóta er þörf, m.a. með tilliti til fjölda og stærðar meðferðarheimila, sérhæfingar, þarfar fyrir utanaðkomandi þjónustu, meðferðartíma, eftirmeðferðar og samhæfingar við önnur meðferðartilboð.
     8.      Að gera sérstaka úttekt á öryggis- og eldvarnamálum á Stuðlum og meðferðarheimilum Barnaverndarstofu og meta hvort úrbóta sé þörf.
     9.      Að endurskoða samning Barnaverndarstofu og Fangelsismálastofnunar um vistun fanga yngri en 18 ára.
     10.      Að sjá til þess að ávallt sé fyrir hendi nægjanlegur fjöldi hæfra fósturforeldra til að mæta þörfum hverju sinni og leggja áherslu á að fjölga fósturforeldrum í þéttbýli. Að halda Foster Pride-námskeið fyrir væntanlega fósturforeldra. Að auka eftirlit með samstarfi barnaverndarnefnda við fósturforeldra og vinnubrögðum nefndanna í fósturmálum.
     11.      Að gera úttekt á hlutverki og starfsemi Barnahúss, m.a. hvort auka beri umfang starfsins, breyta eigi starfsháttum og meta samvinnu við helstu samstarfsaðila.
     12.      Að skipuleggja meðferð fyrir unga gerendur í kynferðisbrotamálum.
     13.      Að bæta verklag stofnunarinnar með því að vinna markvisst með GoPro Professional skjalastjórnunarkerfi, taka upp verklagsreglur um afgreiðslu erinda og vinnslu umsókna og fundi á vegum stofnunarinnar, þar á meðal starfsmannafundi. Að endurbætur á tölfræði um barnaverndarmál, þar á meðal frá barnaverndarnefndum, leiði til áreiðanlegri og réttmætari gagna auk þess að ávallt liggi fyrir nýjustu upplýsingar um þróun barnaverndar á hverjum tíma.
     14.      Að þróa eftirlit sem stofunni er falið samkvæmt lögum um eftirlit með aðgangi barna að kvikmyndum og tölvuleikjum, nr. 62/2006, og sérstaklega að vinna að því að ábyrgðaraðilar setji verklagsreglur um framkvæmd mats og aldurstakmörkunar og komi upp gagnagrunni sem almenningur hafi aðgang að.
     15.      Að efla og þróa samstarf barnaverndaryfirvalda og yfirvalda og stofnana á sviði félags-, heilbrigðis-, mennta-, löggæslu- og dómsmála í málefnum barna.

Mælikvarði á árangur.
     1.      Mat á þjónustuþáttum verði gert einu sinni á tímabilinu og niðurstöður liggi fyrir 1. janúar 2010. Barnaverndarstofa bregðist við þeim niðurstöðum með formlegum og skjalfestum aðgerðum.
     2.      Niðurstöður mats á fræðsluverkefnum samkvæmt starfsmarkmiði sem gert er árlega, í fyrsta skipti í desember 2008. Árleg fjölgun heimsókna og þátttöku í umræðum á lokuðu svæði heimasíðu Barnaverndarstofu. Endurskoðun handbókar fyrir barnaverndarnefndir fyrir 1. júlí 2009.
     3.      Tillögur að skipulagi framhaldsnáms í barnavernd við Háskóla Íslands liggi fyrir eigi síðar en 1. júní 2008. Fjöldi og umfang námsleiða og námskeiða á tímabilinu.
     4.      Samantekt eftir árlegan fund með lykilstarfsmönnum barnaverndarnefnda verði aðgengileg á heimasíðu Barnaverndarstofu.
     5.      Árlegt yfirlit yfir eftirlitsmál samkvæmt starfsmarkmiði, í fyrsta skipti í desember 2008, og þá liggi jafnframt fyrir viðmið um frumkvæðiseftirlit.
     6.      Handbók meðferðarheimilanna liggi fyrir í ágúst 2008.
     7.      Niðurstöður úttektar á meðferðarstarfi liggi fyrir ekki síðar en 31. desember 2009. Tillögur um úrbætur séu fyrirliggjandi ekki síðar en 1. mars 2010.
     8.      Niðurstöður úttektar á öryggis- og eldvarnamálum liggi fyrir í apríl 2008.
     9.      Stefnt er að því að endurskoðaður samningur liggi fyrir í maí 2008.
     10.      Yfirlit yfir fjölgun fósturforeldra í þéttbýli liggi fyrir í júlí 2008. Haldin verði að jafnaði tvö Foster Pride-námskeið fyrir fósturforeldra á ári á tímabilinu. Tekið verði í gagnið frá 1. janúar 2009 matsblað sem fósturforeldrar, starfsmaður barnaverndarnefndar, kynforeldrar og barnið eftir atvikum verða beðin að fylla út í lok fósturs.
     11.      Niðurstaða úttektar á hlutverki og starfsemi Barnahúss liggi fyrir 1. desember 2008.
     12.      Formlegar verklagsreglur um meðferð fyrir unga gerendur kynferðisbrota liggi fyrir í árslok 2008.
     13.      Árlegt skjalfest mat á framförum í verklagi þeirra þátta sem fram koma í starfsmarkmiði, vegna skjalavinnslu- og hópvinnukerfis, svo sem hvort vinnslutími mála hafi breyst. Endurskoðuð handbók um skjalastjórnun liggi fyrir í árslok 2008 samhliða verklagsreglum um málsmeðferð, m.a. um skráningu ráðgjafar og afgreiðslu erinda. Mánaðarlegar skýrslur frá öllum barnaverndarnefndum með tilteknum tölfræðilegum upplýsingum. Árlegt mat í tengslum við gerð ársskýrslu Barnaverndarstofu á þeim eyðublöðum sem notuð eru til að safna tölfræðilegum upplýsingum frá barnaverndarnefndum.
     14.      Árleg greinargerð um framkvæmd eftirlits með kvikmyndum og tölvuleikjum. Í maí 2008 liggi fyrir samantekt um stöðu verklagsreglna um framkvæmd mats og aldurstakmörkunar.
     15.      Árleg greinargerð um samstarf yfirvalda og stofnana í málefnum barna.

    Verkefni sem unnin eru á grundvelli framanangreindra starfsmarkmiða eru eftirfarandi:

4.1     Ný meðferðarúrræði.
4.1.1     Fjölþáttameðferð (Multisystemic Therapy – MST)
Tilefni og væntanlegur ávinningur.
    MST-aðferðin hefur fyrst og fremst verið þróuð til þess að glíma við hegðunarraskanir unglinga, þ.e. andfélagslega hegðun, afbrotahegðun og vímuefnanotkun, í nærumhverfi barnsins, þ.e. fjölþáttameðferð án þess að fjarlægja barnið af heimili sínu. Meðferðin byggist á íhlutun sem beinist að öllum þekktum áhrifaþáttum er varðar andfélagslega hegðun, afbrot og vímuefnaneyslu barns, svo sem persónueinkennum þess, samskipti innan fjölskyldu, foreldrahæfni, jafningjahópi barnsins, skólagöngu og nærsamfélagi. Til eru skyldar aðferðir sem hafa verið sérstaklega sniðnar til að mæta hegðunarerfiðleikum hjá yngri börnum. Norðmenn hafa í tilraunaskyni til dæmis beitt svonefndu PMT-kerfi (Parent Management Training) fyrir börn 6–12 ára og svonefndri „Webster–Stratton“-aðferð fyrir börn á leikskólaaldri. Báðar þessar aðferðir eru náskyldar MST-aðferðinni að því leyti að fræðilegur grunnur er áþekkur og íhlutun beinist að fjölskyldunni sem heild með því markmiði að styrkja foreldrahæfni sérstaklega.
    Margar aðferðir í meðferð hafa verið þróaðar utan stofnana, ekki síst í Bandaríkjunum. Hins vegar er MST-aðferðin óumdeilanlega sú sem mesta athygli hefur vakið í Bandaríkjunum og undanfarið í Evrópu. Nú eru liðin átta ár síðan Norðmenn ákváðu að innleiða MST- aðferðina á landsvísu og reynsla þeirra hefur svo sannarlega gefið tilefni til að henni sé gefinn gaumur. Þá hafa bæði Svíar og Danir siglt í kjölfarið.
    Reynsla annarra þjóða af MST-aðferðinni gefur tilefni til að endurskoða þá stefnu sem hefur verið fylgt í meðferðarmálum barna og unglinga hér á landi. Þannig hafa rannsóknir á árangri þessarar aðferðar sýnt umtalsvert betri langtímaárangur heldur en hefðbundin stofnanameðferð.
    Barnaverndarstofa telur ótvíræðan ávinning af því að innleiða MST-aðferðina á Íslandi. Skoða beri fjölþáttameðferð sem valkost við stofnanameðferð og einnig sem eftirfylgd eftir lok meðferðar á heimili eða stofnun.

Framkvæmd/kostnaður.
    Undirbúningur verkefnisins hefur staðið yfir frá árinu 2004 og hélt Barnaverndarstofa t.d. viðamikla ráðstefnu árið 2005 með þátttöku fyrirlesara frá Bandaríkjunum og Noregi. Fyrstu skrefin í innleiðingu MST á Íslandi hafa þegar verið stigin með samþykki og stuðningi félags- og tryggingamálaráðuneytisins. Verkefnisstjóri mun hefjast handa í fullu starfi 1. mars 2008. Stefnt er að því að starfrækja tvö teymi með samtals sex meðferðaraðilum ásamt einum til tveimur handleiðurum og hefja sjálfa meðferðina haustið 2008. Meðferðarteymin munu starfa undir yfirstjórn Barnaverndarstofu í samstarfi við leyfishafa í Bandaríkjunum og fagaðila í Noregi. Gert er ráð fyrir að meðferðin verði boðin barnaverndarnefndum á Suðvesturlandi og Norðurlandi og að unnt verði að bjóða allt að 90 fjölskyldum þessa þjónustu á ári hverju. Í fjárlögum 2008 fékk Barnaverndarstofa fjárheimild að fjárhæð 50 millj. kr. til að innleiða þetta meðferðarform. Fjárhæðin dugir til að starfrækja tvö meðferðarteymi í níu mánuði á árinu. Til að tryggja heilsársrekstur þessara teyma þarf til viðbótar 17,5 millj. kr. fjárheimild.

Staða við lok tímabilsins.
    Gert er ráð fyrir mati á árangri MST-aðferðarinnar samhliða því að meðferðin er veitt og að unnin verði skýrsla um árangurinn í árslok 2012.

4.1.2     Fjölþáttameðferðarfóstur (MTFC/TFC).
Tilefni og væntanlegur ávinningur.
    Fjölþáttameðferðarfóstur (Multidimentional Treatment Foster Care – MTFC) byggist á svipuðum forsendum og MST að öðru leyti en því að unglingur dvelur í fóstri á meðan meðferð varir. Meðferðarfóstur (Treatment Foster Care – TFC) gerir ráð fyrir talsverðri eftirfylgd eftir að fóstri lýkur. Rannsóknir hafa sýnt mun betri árangur slíkrar meðferðar en meðferðar á heimili eða stofnun, líkt og með hefðbundinni MST-aðferð. Markhópurinn er börn sem sýna frávikshegðun, svo sem afbrotahegðun, hegðunarröskun og geðræn og tilfinningaleg vandamál. Fósturforeldrar fá sérstaka þjálfun áður en fóstur hefst og reglulega handleiðslu meðan á fóstri stendur. Unnið er bæði heima og í skóla barnsins og öðru umhverfi sem það tengist. Foreldrar barnanna fá fjölskyldumeðferð og markvissa þjálfun í foreldrafærni meðan á meðferð stendur enda markmiðið að barnið snúi aftur heim að lokinni meðferð.
    Í ljósi reynslu annarra þjóða af fjölþáttameðferð í fóstri telur Barnaverndarstofa þörf á að taka upp slíkt úrræði hér á landi.

Framkvæmd/kostnaður.
    Barnaverndarstofa mun gera áætlun um framkvæmd verkefnisins. Kostnaður er innan fjárheimilda Barnaverndarstofu.

Staðan í lok tímabils.
    Áætlun mun liggja fyrir 1. september 2008.

4.1.3     Foreldrafærniþjálfun (t.d. Parent Management Training – PMT).
Tilefni og væntanlegur ávinningur.
    Mikil vakning er hér á landi um mikilvægi þess að bregðast markvisst við merkjum um hegðunarerfiðleika barna vegna þess alvarlega samfélagslega vanda sem af hlýst ef hegðun þróast til verri vegar. Rannsóknir sýna að uppeldisaðferðir foreldra eru lykilatriði þegar breyta á hegðun barns til hins betra. Í nýlegri aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að unnið verði að því að foreldrum standi til boða uppeldisráðgjöf og þjálfun í foreldrafærni þar sem einkum verði lögð áhersla á fræðslu og ráðgjöf fyrir foreldra fyrsta barns, foreldra barna á unglingsaldri og foreldra barna með sérþarfir.
    PMT-Oregon-aðferðin er ein þeirra sem rannsóknir hafa sýnt fram á að skili góðum árangri en aðferðin er eins og áður hefur komið fram náskyld MST-aðferðinni og beinist að því að styrkja foreldrahæfni sérstaklega. Aðferðin hefur verið nýtt hér á landi frá haustinu 2000 að frumkvæði fagfólks hjá Hafnarfjarðarkaupstað í samráði við meginhöfunda aðferðarinnar, dr. Patterson og dr. Forgatch og samstarfsfólk þeirra í Oregon í Bandaríkjunum. Barnaverndarstofa telur ótvíræðan ávinning af því að innleiða PMT-aðferðina á Íslandi.

Framkvæmd/kostnaður.
    Mikilvægt frumkvöðlastarf hefur verið unnið hjá Hafnarfjarðarkaupstað þar sem þróað hefur verið kerfi sem nær bæði til forvarna og meðferðar vegna hegðunarerfiðleika. Barnaverndarstofa mun í samstarfi við fræðslusvið Hafnarfjarðarkaupstaðar gera áætlun um hvernig innleiða megi PMT-aðferðina á landsvísu í samráði við viðeigandi stofnanir á vegum sveitarfélaganna og heilsugæslustöðvar. Samhliða verður litið til annarra aðferða til eflingar foreldrahæfni, svo sem hinnar svonefndu Webster-Stratton aðferðar (The incredible Years) og áströlsku aðferðarinnar „Positive Parenting Program – Triple P“. Barnaverndarstofa mun gera áætlun um framkvæmd verkefnisins og stefnt skal að því að á árinu 2010 standi foreldrum til boða námskeið eða þjónusta óháð búsetu. Tekið verði upp samstarf við heilsugæslustöðvar og félagsþjónustu sveitarfélaga til að hrinda verkefninu í framkvæmd. Kostnaður vegna verkefnisins liggur ekki fyrir.

Staðan í lok tímabils.
    Áætlun um framkvæmd verkefnisins og kostnað mun liggja fyrir á árinu 2009.

4.1.4     Meðferð fyrir unga gerendur í kynferðisbrotamálum.
Tilefni og væntanlegur ávinningur.
    Allnokkur fjöldi þeirra sem verður uppvís af því að fremja kynferðisbrot gegn börnum er undir 18 ára aldri. Þá hafa rannsóknir leitt í ljós að yfir helmingur fullorðinna kynferðisafbrotamanna hefur feril sinn á unglingsárum. Íslandi er skylt að bregðast við og veita aðstoð í samræmi við samning Evrópuráðsins um vernd gegn kynferðislegri misbeitingu og kynferðisofbeldi frá 25. október 2007 sem undirritaður var fyrir hönd Íslands 4. febrúar 2008. Nauðsynlegt er að bregðast við kynferðisafbrotum sem framin eru af börnum og unglingum með faglegum og markvissum hætti, bæði í ljósi hagsmuna hinna ungu gerenda og í því skyni að stuðla að fækkun fórnarlamba. Jafnframt benda athuganir til að almennt sé árangur meðferðar betri því yngri sem gerandinn er þegar hann gengst undir hana. Barnaverndarstofa hefur um nokkurt skeið boðið upp á greiningu og meðferð fyrir unga gerendur í tengslum við Stuðla með aðstoð sérhæfðs meðferðaraðila og á einu af langtímameðferðarheimilum stofunnar. Greining og meðferð fyrir unga gerendur kynferðisbrota er sérhæft verkefni og mikilvægt að skipuleggja samræmd vinnubrögð um mat á þörf fyrir meðferð innan eða utan stofnunar að teknu tilliti til aldurs og stöðu gerandans.

Framkvæmd/kostnaður.
    Barnaverndarstofa mun áfram þróa meðferð fyrir unga gerendur kynferðisbrota á Stuðlum og á meðferðarheimilum og jafnframt undirbúa meðferð utan stofnana í samstarfi við þar til bæra sérfræðinga. Kostnaður er áætlaður 7,5 millj. kr. á ári.

Staða við lok tímabils.
    Gert er ráð fyrir að skipulag og verklagsreglur liggi fyrir í árslok 2008. Stefnt er að því að meta þjónustuna í árslok 2010.

4.2     Foster Pride – framhaldsnámskeið.
Tilefni og væntanlegur ávinningur.
    Við þjálfun og mat á hæfi fósturforeldra hefur á undanförnum árum verið lagt til grundvallar kennsluefnið Foster Pride sem Barnaverndarstofa keypti frá Bandaríkjunum. Haldin hafa verið nokkur námskeið og telur Barnaverndarstofa að þau hafi skilað ótvíræðum árangri með því að fósturforeldrar séu betur búnir undir hlutverk sitt. Fyrirtækið sem selur Foster Pride hefur á boðstólum fjölda námskeiða þar sem lögð er áhersla á sértæka erfiðleika fósturbarna og hefur Barnaverndarstofa hug á að standa fyrir framhaldsnámskeiðum fyrir fósturforeldra. Mun það gera fósturforeldra færari um að mæta sífellt flóknari þörfum fósturbarna og er þetta sérstaklega brýnt þegar um styrkt fóstur er að ræða.

Framkvæmd/kostnaður.
    Farið verður yfir þau framhaldsnámskeið sem í boði eru og gerð áætlun um innleiðingu þeirra. Kostnaður rúmast innan fjárheimilda Barnaverndarstofu.

Staðan í lok tímabils.
    Áætlun liggi fyrir 1. júlí 2008.

4.3     Reiðistjórnun (Aggression Replacement Training – ART).
Tilefni og væntanlegur ávinningur.
    Reiðistjórnun (Aggression Replacement Training – ART) er árangursrík aðferð til að fyrirbyggja og draga úr erfiðri óæskilegri hegðun hjá börnum, svo sem þeim sem hafa greinst með þroska- og atferlisröskun, þar á meðal af völdum ofvirkni. Grundvöllur aðferðarinnar er félagsmótunarkenningar A.P. Goldstein og byggist ART á þjálfun á færni í félagslegum samskiptum, aðlögun og sjálfsstjórn. Þá felst þjálfunin í siðferðilegri umræðu þar sem ímyndaðar aðstæður eru teknar sem dæmi. Þjálfun tekur að jafnaði tólf vikur og miðar að skilvirkri yfirfærslu á aðstæður daglegs lífs. Þjálfun fer fram í litlum hópum með tveimur þjálfurum. Árangur er metinn á markvissan og reglubundinn hátt. Ávinningur af markvissri notkun ART í meðferð er m.a. að samræma starfsaðferðir og hugmyndafræði langtímameðferðarheimila sem rannsóknir benda til að auki árangur meðferðar fyrir unglinga.

Framkvæmd/kostnaður.
    Árið 2007 stofnuðu Barnaverndarstofa og Stuðlar til samstarfs við norska sérfræðinga sem héldu grunnnámskeið fyrir alla starfsmenn Stuðla. Helmingur starfsmanna Stuðla hlaut síðan framhaldsþjálfun sem fór fram í september 2007. Að auki stóð þjálfun til boða fyrir rekstraraðila og starfsmenn langtímameðferðarheimila Barnaverndarstofu. Áhersla var lögð á þjálfun starfsmanna Stuðla með það í huga að þar yrði til sérhæfð þekking á ART í því skyni að innleiða aðferðina á meðferðarstofnunum Barnaverndarstofu. Stefnt er að því að skipuleggja frekari námskeið árin 2008 og 2009 þar sem lögð verður áhersla á að nota ART í meðferðarstarfi og einnig að hluti þátttakenda hljóti fulla þjálfun, þ.e. geti tekið að sér þjálfun annarra. Verkefnið kallar ekki á viðbótarfjárheimild til Barnaverndarstofu.

Staðan í lok tímabils.
    Stefnt er að því að allir starfsmenn meðferðarstaða Barnaverndarstofu hafi lokið ART- þjálfun og einhverjir hafi lokið fullri þjálfun í árslok 2009.

4.4     Árangursmat.
4.4.1     Mat á árangri meðferðarheimila.
Tilefni og væntanlegur ávinningur.
    Verulegum fjárhæðum hefur verið varið í uppbyggingu og rekstur meðferðarheimila fyrir börn og ungmenni á starfstíma Barnaverndarstofu. Brýn þörf er á því að gera reglubundið mat á meðferðarstarfinu, m.a. er mikilvægt að fá fram upplýsingar frá þeim sem notið hafa þjónustunnar og viðhorf þeirra einstaklinga sem hafa verið í meðferð og foreldra þeirra. Niðurstöður árangursmats á meðferðarstarfi meðferðarheimilisins í Háholti voru tilbúnar árið 2007.

Framkvæmd/kostnaður.
    Gerður verður samningur við þar til bæran sérfræðing sem tekur að sér að gera árangursmat á meðferðarstarfi eins til tveggja meðferðarheimila. Safnað verður upplýsingum um viðhorf vistbarna og foreldra til meðferðarinnar og árangurs hennar, félagslega stöðu viðkomandi og framtíðarhorfur, aðlögun og færni viðkomandi og leitað eftir ábendingum um breytingar á meðferð og starfrækslu meðferðarheimilisins. Verkinu lýkur með skilum á greinargerð sem uppfyllir fræðilegar kröfur. Kostnaður við verkefnið rúmast innan fjárheimilda Barnaverndarstofu.

Staða við lok tímabilsins.
    Stefnt er að því að verkefninu verði lokið 31. desember 2009.

4.4.2     Mat á árangri Barnahúss.
Tilefni og væntanlegur ávinningur.
    Undanfarið hefur Barnaverndarstofa unnið að undirbúningi þess að láta framkvæma árangursmat á starfsemi Barnahúss. Um er að ræða heildarmat (e. summative evaluation) á starfi hússins og áhrifum þess á rannsókn kynferðisbrota og meðferð þolenda. Rannsókn af þessu tagi er mikilvægt innlegg í úttekt á hlutverki og starfsemi hússins og tillögur til úrbóta.

Framkvæmd/kostnaður.
    Barnaverndarstofa hefur verið í viðræðum við ýmsa sérfræðinga um framkvæmd rannsóknarinnar og gerð hafa verið drög að rannsóknaáætlun.

Staða við lok tímabilsins.
    Rannsókna- og kostnaðaráætlun mun liggja fyrir 1. ágúst 2008 og stefnt er að því að skýrslu um rannsóknina verði skilað fyrir árslok 2009.

4.5     Skjalastjórnun og tölfræði.
4.5.1     Handbók um skjalastjórnun og skráningu.
Tilefni og væntanlegur ávinningur.
    Á síðustu árum hefur verið lögð aukin áhersla á bætta skjalameðferð á Barnaverndarstofu. Traust skráning, vönduð meðferð skjala, samræmt hópvinnukerfi og öflugar verklagsreglur eiga að auðvelda starfsmönnum að veita þá þjónustu sem barnaverndarlög kveða á um og tryggja að meðferð, skráning og afgreiðsla erinda verði í samræmi við ákvæði stjórnsýslu- og upplýsingalaga og laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Barnaverndarstofa keypti í ársbyrjun 2005 nýtt hópvinnukerfi, GoPro Professional, og mikilvægt er að endurskoða Uglu, handbók stofnunarinnar um skjalastjórnun. Handbókin á jafnframt að geyma verklagsreglur um samræmda notkun tölvukerfisins, samræmda skráningu ráðgjafar, verklagsreglur um afgreiðslu erinda og vinnslu umsókna og fundi á vegum stofnunarinnar, þar á meðal starfsmannafundi.

Framkvæmd.
    Sérstökum starfshópi verður falið að endurskoða Uglu í samstarfi við aðra starfsmenn Barnaverndarstofu.

Staða við lok tímabilsins.
    Gert er ráð fyrir að verkefninu ljúki fyrir árslok 2008.

4.5.2     Endurbætur á tölfræði um barnavernd.
Tilefni og væntanlegur ávinningur.
    Í samræmi við hlutverk Barnaverndarstofu hefur stofnunin safnað tölfræðilegum upplýsingum um barnaverndarmál. Hér er annars vegar um að ræða upplýsingar frá barnaverndarnefndum og hins vegar um starfsemi stofnunarinnar sjálfrar og meðferðarheimila á hennar vegum. Notast hefur verið við sérstök eyðublöð vegna upplýsinga frá barnaverndarnefndum sem skilað er árlega. Mikilvægt er að tryggja og bæta skil, samræmi og áreiðanleika þessara upplýsinga. Þá hefur barnaverndarnefndum verið gert frá 1. janúar 2005 að skila mánaðarlega upplýsingum um tiltekin atriði í störfum sínum, sískráning var endurmetin í árslok 2006 og var ákveðið að biðja um frekari upplýsingar með þessum hætti frá og með 1. janúar 2007. Einnig hefur barnaverndarnefndum verið gert að skrá sérstaklega frá 1. janúar 2008 hvort barn sé af erlendum uppruna eða hvort barn sé fatlað enda þykir mikilvægt að fá árlega skýrari mynd af fjölda mála þessara barna sem barnaverndarnefndir hafa afskipti af. Mikilvægt er að fylgjast vel með samræmdri skráningu og efla aðgengi að upplýsingum frá barnaverndarnefndum. Slíkt auðveldar yfirsýn yfir stöðu og þróun barnaverndarstarfs sem gerir Barnaverndarstofu og barnaverndarnefndum betur kleift að skipuleggja lögbundna þjónustu.

Framkvæmd.
    Barnaverndarstofa mun skoða reglulega hvernig frumskráningu mála hjá barnaverndarnefndum landsins er háttað og bæta eftir þörfum og birta á heimasíðu sinni leiðbeiningar um útfyllingu eyðublaða. Sískráning barnaverndarmála verður endurmetin í nóvember ár hvert og tekin ákvörðun um hvort gerðar verði kröfur um frekari sískráningu upplýsinga.

Staða við lok tímabilsins.
    Í lok árs 2007 var gerð úttekt á ársskýrslueyðublöðum og leiðbeiningum Barnaverndarstofu um útfyllingu þeirra. Í lok hvers árs verður tekin ákvörðun um hvort óskað verður frekari sískráningar upplýsinga, næst í lok árs 2008.