Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 535. máls.

Þskj. 836  —  535. mál.



Tillaga til þingsályktunar

um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda.

(Lögð fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)




    Alþingi ályktar að við framkvæmdir í málefnum innflytjenda verði fylgt eftirfarandi áætlun sem hefur það að markmiði að betur verði tekið á móti erlendu fólki sem flyst til landsins og því auðveldað að verða virkir þátttakendur í íslensku samfélagi og rækta menningu sína.

Verkefni stjórnvalda.

    Eftirfarandi eru verkefni sem unnið skal að til að tryggja réttindi íbúa af erlendum uppruna, aðgang þeirra að opinberri þjónustu og aðlögun:

1. Löggjöf um aðlögun innflytjenda.
     1.1      Samning frumvarps um aðlögun innflytjenda.

2. Upplýsingar um innflytjendamál.
2.1    Gagnagrunnur um innflytjendamál.
2.2    Gagnabanki rannsókna um innflytjendamál.
2.3    Viðhorfskannanir meðal innflytjenda.
2.4    Könnun á viðhorfum til innflytjenda.
2.5    Launajafnrétti fyrir alla.

3. Upplýsingamiðlun til innflytjenda.
3.1    Endurskoðun upplýsingamiðlunar til innflytjenda.
3.2    Upplýsingavefurinn mcc.is
3.3    Hlekkur við Island.is
3.4    Bæklingurinn Fyrstu skrefin.
3.5    Aðgengilegar upplýsingar um réttindi á nokkrum tungumálum.
3.6    Öryggi á heimilum.
3.7    Þýðing á leiðakerfi neytenda.
3.8    Þýðing á upplýsingum um íslenskan landbúnað.
3.9    Þýðing á upplýsingum um starfsfræðslunámskeið fiskvinnslunnar.
3.10    Upplýsingamiðlun um fasteignaviðskipti.
3.11    Upplýsingar fyrir alla.
3.12    Netaðgangur innflytjenda.

4. Dvalar- og atvinnuleyfi.
4.1    Einföldun skráningar ríkisborgara ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins.
4.2    Samræming laga um útlendinga, nr. 96/2002, og laga um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002.
4.3    Aukið eftirlit með dvalar- og atvinnuleyfum borgara utan Evrópska efnahagssvæðisins.
4.4    Endurskoðun löggjafar.

5.     Túlkaþjónusta.
5.1    Verklagsreglur menntamálaráðuneytis um túlkaþjónustu.
5.2    Verklagsreglur Vinnueftirlits ríkisins um túlkaþjónustu.
5.3    Verklagsreglur um túlkaþjónustu í heilbrigðisþjónustu.
5.4    Túlkaþjónusta fyrir þá sem búa við fötlun og þurfa á sértækri þjónustu að halda.
5.5    Verklagsreglur um túlka- og þýðingaþjónustu við greiningu fatlaðra barna.
5.6    Fræðsla fyrir túlka.
5.7    Námskeið fyrir túlka.
5.8    Verklagsreglur Barnaverndarstofu um túlkaþjónustu.

6.     Móttaka við búsetuflutning.
6.1    Fyrirmynd að móttökuáætlun sveitarfélaga.
6.2    Símiðlun upplýsinga um aðflutta útlendinga til sveitarfélaga.

7.     Ríki og sveitarfélög sem atvinnurekendur.
7.1    Viðurkenning á erlendri starfsmenntun og námi á vegum menntamálaráðuneytis.
7.2    Viðurkenning á erlendri starfsmenntun og námi heilbrigðisstétta.
7.3    Nám og símenntun heilbrigðisstétta.
7.4    Fræðsluátak fyrir starfsmenn félagsþjónustu sveitarfélaga.
7.5    Fjölmenningarfræðsla starfsfólks Orkustofnunar.
7.6     Fjölmenningarfræðsla starfsfólks Íbúðalánasjóðs.
7.7    Fjölgun starfsmanna lögreglu með fjölmenningarbakgrunn.
7.8    Námskeið í Lögregluskóla ríkisins um málefni útlendinga.

8.     Atvinnumál og atvinnuþátttaka.
8.1    Bætt eftirlit með vinnustöðum.
8.2    Fræðsla til atvinnurekenda.
8.3    Hert eftirlit með aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi í þeim starfsgreinum þar sem fjöldi erlendra starfsmanna er mikill.
8.4    Útgáfa og miðlun upplýsinga.
8.5    Námskeið fyrir erlenda starfsmenn.
8.6    Aðgengi að vinnumarkaðsaðgerðum.
8.7    Áætlun um stuðning við innflytjendur á unglingsaldri.
8.8    Námskeið um stofnun fyrirtækja og framkvæmd viðskiptahugmyndar.

9.     Skattamál.
9.1    Samræming á gildistíma skattkorta og dvalar- og atvinnuleyfa.
9.2    Framtalslaus skattskil útlendinga.
9.3    Uppgjör útlendinga á brottflutningsári.
9.4    Sérstök skattkort fyrir útlendinga sem koma til tímabundinna starfa.
9.5    Þýðing upplýsinga og gagna um skattamál.
9.6    Upplýsingavefur um skattamál.

10. Menntamál.
10.1    Áætlun um innritun og móttöku barna af erlendum uppruna í leik-, grunn- og framhaldsskólum.
10.2    Kennsla í íslensku sem öðru tungumáli í grunn- og framhaldsskólum.
10.3    Endurskoðun aðalnámskrár í íslensku sem öðru tungumáli (ÍSA) fyrir framhaldsskóla.
10.4    Þróun og útgáfa námsgagna.
10.5    Útgáfa Lexin orðabókar/myndaorðabókar.
10.6    Úttekt á stöðu innflytjenda í framhaldsskólum.
10.7    Fjárveiting til framhaldsskóla vegna nemenda með annað móðurmál en íslensku.
10.8    Þýðingar á upplýsingum um framhaldsskólastigið.
10.9    Þýðingar á upplýsingum um innritunarferli á framhaldsskólastigi.
10.10    Viðurkenning móðurmáls í grunn- og framhaldsskólum ef annað en íslenska.
10.11    Bækur á móðurmáli.
10.12    Aukin tengsl skóla við heimili barna af erlendum uppruna.
10.13    Skilgreining á kröfum til kennara í íslensku sem annað tungumál.
10.14    Þjálfun í kennslu ÍSA í kennaranámi.

11. Heilbrigðisþjónusta.
11.1    Umburðarbréf til stjórnenda heilbrigðisstofnana.
11.2    Endurskoðun skráninga í heilbrigðiskerfi.
11.3    Áætlun um mæðraskoðun og ungbarnaeftirlit.
11.4    Upplýsingar fyrir alla.
11.5    Útgáfa upplýsingaefnis.
11.6    Upplýsingamiðlun heilbrigðisstofnana.
11.7    Heilbrigðisskoðanir innflytjenda.
11.8    Forvarnir fyrir alla.

12. Félagsþjónusta.
12.1    Félagsþjónusta fyrir alla.
12.2    Endurskoðun laga um félagsþjónustu sveitarfélaga.

13. Málefni fatlaðra.
13.1    Aðgengilegar upplýsingar um réttindi.
13.2    Sérstakt fræðsluefni fyrir hópa og einstaklinga.
13.3    Gagnvirkt vefumhverfi á þremur tungumálum.
13.4    Samstarfsverkefni um tengsl við hagsmunasamtök fatlaðra.
13.5    Upplýsingamiðlun til innflytjenda.
13.6    Áætlun um þýðingar á greiningarskýrslum.
13.7    Fagorðabanki.

14. Barnavernd.
14.1    Leiðarljós fyrir barnaverndarnefndir sveitarfélaga.
14.2    Skráning barnaverndarmála vegna barna af erlendum uppruna.
14.3    Upplýsingar til foreldra barna af erlendum uppruna.
14.4    Tilmæli og leiðbeiningar til meðferðarheimila vegna barna af erlendum uppruna.

15. Íslenskunám fyrir fullorðna.
15.1    Styrkir til íslenskukennslu.
15.2    Styrkir vegna námsefnis til íslenskukennslu ætlað innflytjendum.
15.3    Mat á gæðum íslenskunámskeiða fyrir útlendinga.
15.4    Starfstengt íslenskunámskeið fyrir fiskvinnslufólk.
15.5    Lesfærni og íslenskunám innflytjenda.

16. Gegn fordómum og mismunun.
16.1    Átak gegn fordómum.
16.2    Fræðsla gegn fordómum.
16.3    Samfélagsfræðsla til innflytjenda.
16.4    Fræðsla um jafnréttismál.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Ríkisstjórnin hefur í samræmi við stefnuyfirlýsingu frá 23. maí 2007 samþykkt framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda og er hún svohljóðandi:

I. Inngangur.

    Þróun undanfarinna ára hefur sýnt svo ekki verður um villst að Ísland er hluti af alþjóðasamfélaginu og bæði vinnumarkaður og mannlíf allt hefur tekið stórstígum breytingum í átt til fjölþjóðlegra samfélags. Áhrifin á efnahagslega velsæld og grósku eru óumdeilanleg. Ísland er ekki lengur eyland heldur tekur þátt í alþjóðlegri samkeppni um fólk og fyrirtæki, hugmyndir og nýsköpun. Frjáls flutningur fjármagns, þjónustu og fólks hefur skapað tækifæri sem áður voru óþekkt. Velmegun og samkeppnisforskot Íslands til framtíðar ræðst meðal annars af því að hingað til lands laðist hæfileikafólk og að sköpuð verði skilyrði til að fjölbreyttur mannauður þess nýtist til að efla og styrkja stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna. Í þessu felast ómæld tækifæri.
    Það er gæfa okkar að með þjóðinni standa grunngildi lýðræðisins traustum fótum, þ.e. mannréttindi, jafnrétti, einstaklingsfrelsi, félagsleg samhjálp, samstaða og umburðarlyndi.
    Íslenskt samfélag hefur alla möguleika til að vera í fararbroddi hvað varðar farsæla og gagnkvæma aðlögun þeirra sem fyrir eru í landinu og nýrra íbúa af erlendum uppruna. Hér er allt að vinna, enda geta Íslendingar lært af reynslu annarra þjóða. Innflytjendur á Íslandi leggja ríkan skerf til samfélagsins. Íslendingar njóta þeirrar sérstöðu að innflytjendur eru virkir þátttakendur í atvinnulífi þjóðarinnar og leggja sína skatta og skyldur til samfélagsins. Það er markmið okkar að allir sem hér búa hafi jafna möguleika til að taka þátt í samfélaginu, njóti gæða þess og réttindarverndar og leggi sitt af mörkum til þess. Til þess að svo megi verða þurfa stjórnvöld, stofnanir, atvinnulíf, sveitarfélög, menningarstofnanir, félagasamtök, landsmenn og innflytjendur sjálfir að taka höndum saman.
    Við gerð framkvæmdaáætlunarinnar hefur verið leitast við að afla nákvæmra upplýsinga um kostnað vegna einstakra aðgerða. Heildarkostnaður liggur ekki fyrir en ljóst er þó að margar aðgerðir eru innan ramma fjárheimilda ráðuneyta og stofnana. Í áætluninni er fyrirsjáanlegur kostnaður víða tilgreindur, en annars staðar er ekki mögulegt að nefna ákveðna fjárhæð. Allar tillögur að aðgerðum hafa verið unnar í samráði við þá sem bera ábyrgð á aðgerðunum og er gert ráð fyrir að þeir tryggi fjármagn við innleiðingu þeirra.

II. Heildstæð framkvæmdaáætlun.

    Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar frá 23. maí 2007 er kveðið á um að gerð verði heildstæð framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda með það að markmiði að betur verði tekið á móti erlendu fólki sem flyst til landsins og því auðveldað að verða virkir þátttakendur í íslensku samfélagi og rækta menningu sína. Þá segir: „Tryggt verði að útlendingar á vinnumarkaði njóti sambærilegra réttinda og íslenskt launafólk og að allar ráðningar erlends verkafólks séu í samræmi við gildandi kjarasamninga. Komið verði í veg fyrir félagsleg undirboð á vinnumarkaði. Átak verði gert í íslenskukennslu fyrir útlendinga. [...] Mikilvægt er að stjórnvöld, atvinnulífið og samfélagið allt taki saman höndum við að berjast gegn fordómum gagnvart minnihlutahópum, hvort sem þeir fordómar byggjast á uppruna eða öðrum þáttum.“
    Félags- og tryggingamálaráðherra fól innflytjendaráði að hafa verkstjórn um gerð framkvæmdaáætlunarinnar. Sú áætlun sem hér birtist byggist á stjórnarsáttmálanum og stefnu í málefnum innflytjenda sem ríkisstjórnin samþykkti í janúar 2007. Auk þess er leitast við að byggja á dýrmætri reynslu sem myndast hefur á síðustu árum meðal þeirra sem starfa að málaflokknum á vettvangi stofnana, félagasamtaka og ýmissa þjónustuaðila og skilað hafa gagnlegum ábendingum til innflytjendaráðs, svo sem á málþingi ráðsins sem haldið var í janúar 2008.
    Við gerð áætlunarinnar var öllum ráðuneytum sent erindi og þau beðin um að rýna í stöðu þeirra málaflokka sem þau eða stofnanir á þeirra vegum sinna með tilliti til þess hvað megi betur fara í starfseminni og þeirri þjónustu sem þegar er veitt eða til hvaða nýrra verkefna þurfi að stofna svo ná megi markmiðum ríkisstjórnarinnar í innflytjendamálum.
    Gert er ráð fyrir framkvæmdaáætlunin verði endurskoðuð að tveimur árum liðnum í kjölfar útkomu framvinduskýrslu um árangur hennar og að þá verði ný áætlun til fjögurra ára lögð fyrir Alþingi.
    Stjórnvöld munu leitast við að hafa sem víðtækast samstarf við samfélag innflytjenda, félagasamtök, sjálfseignarstofnanir og atvinnulíf um framkvæmd þessarar áætlunar og nýta þannig sérþekkingu sem myndast hefur um málefni innflytjenda á margvíslegum vettvangi, svo sem innan Rauða kross Íslands og Alþjóðahúss.

Samfélag fyrir alla.

    Innflytjendur eiga að hafa greiðan aðgang að opinberri þjónustu hvort sem er á vettvangi ríkis eða sveitarfélaga og þjónustan á eftir föngum að mæta þörfum fjölbreyttara samfélags. Þessi framkvæmdaáætlun ber það með sér að vera sú fyrsta á þessu sviði sem ríkisstjórnin samþykkir. Í henni er komið á framfæri ábendingum til fjölmargra aðila í samfélaginu sem gegna mikilvægu hlutverki í farsælli aðlögun innflytjenda að íslensku samfélagi og þeir hvattir til dáða. Greint er frá fyrirhuguðum og tímabærum breytingum á ýmissi löggjöf sem taka mið af breyttu samfélagi. Lýst er ýmsum umbótaverkefnum sem lúta að öflun upplýsinga um innflytjendamál og miðlun upplýsinga til innflytjenda. Fjallað er um einföldun og samræmingu á veitingu dvalar- og atvinnuleyfa, túlkaþjónustu og móttöku nýrra íbúa við búsetuflutning. Þá er lýst aðgerðum til að bæta eftirlit og auka réttindarvernd innflytjenda. Framkvæmdaáætlunin greinir einnig frá aðgerðum til að tryggja innflytjendum aðgang að íslenskunámi, almennri menntun og velferðarþjónustu. Loks er í áætluninni kveðið á um samfélagsfræðslu og aðgerðir til að sporna við fordómum.

Löggjöf um aðlögun innflytjenda.

    Félags- og tryggingamálaráðherra hyggst undirbúa gerð frumvarps til laga um aðlögun innflytjenda sem ætlað er að kveða á um atriði sem almenn löggjöf á einstaka sviðum nær ekki yfir. Við samningu frumvarpsins verði tekið mið af alþjóðlegum skuldbindingum Íslands. Á meðal helstu atriða sem taka þarf afstöðu til við samningu slíks frumvarps eru:
          Miðlun upplýsinga til innflytjenda og öflun upplýsinga um innflytjendamál.
          Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga varðandi þjónustu við innflytjendur.
          Hlutverk innflytjendaráðs varðandi ráðgjöf við stjórnvöld og stefnumótun í málefnum innflytjenda.
          Hlutverk Fjölmenningarseturs, meðal annars sem grunnstofnunar um söfnun, samnýtingu, samræmingu og miðlun upplýsinga.
          Hlutverk þróunarsjóðs innflytjendamála um stuðning við rannsóknir og þróunarverkefni á sviði innflytjendamála.
          Skyldur opinberra aðila til að útvega túlka og þýðingar þegar gagnkvæmir og ríkir fjárhags-, öryggis-, réttar- eða velferðarhagsmunir eru í húfi.
          Skylda stjórnvalda til að sinna samfélagsfræðslu og starfi gegn fordómum í garð útlendinga í íslensku samfélagi.
          Mótun kæruleiða í þágu þeirra sem telja á sér brotið vegna trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar eða ætternis.
          Gerð framkvæmdaáætlunar í innflytjendamálum og skýrslur félags- og tryggingamálaráðherra til að tryggja framþróun í þessum málaflokki.
          Móttaka flóttafólks, þar á meðal reglur um hvernig staðið skuli að móttökunni.

Önnur löggjöf.

    Í framkvæmdaáætluninni er greint frá frumvörpum til nýrra laga um útlendinga og laga um atvinnuréttindi útlendinga sem nú liggja fyrir Alþingi. Þá eru til afgreiðslu á Alþingi frumvörp um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla þar sem tekin eru stór skref varðandi rétt barna til að viðhalda móðurmáli sínu, málörvun, íslenskukennslu og námsstuðning, sem og útgáfu námsgagna. Við endurskoðun annarra laga sem fyrirhuguð er, svo sem um félagsþjónustu sveitarfélaga og um málefni fatlaðra, verði þess gætt að tillit verði tekið til þarfa innflytjenda. Við þessa endurskoðun verði meðal annars horft til þess að skilgreina rétt notenda til túlkaþjónustu. Mikilvægt er að Alþingi hafi ávallt málefni innflytjenda til skoðunar við setningu laga er haft geta áhrif á líf þeirra.

Samstarf ríkis og sveitarfélaga.

    Sveitarfélög gegna lykilhlutverki við aðlögun innflytjenda að samfélaginu. Þau hafa á sinni hendi umfangsmikla nærþjónustu, reka leikskóla og grunnskóla, sinna barnavernd og veita fjölbreytta félagsþjónustu. Mörg hafa mótað sérstaka stefnu um aðlögun innflytjenda. Sveitarfélög sem ekki hafa slíka stefnu nú þegar eru eindregið hvött til stefnumótunar á þessu sviði. Innflytjendaráð hefur styrkt þróunarverkefni á sveitarstjórnarstigi sem miða að því að koma á skipulögðu og öflugu móttökuferli fyrir nýja íbúa af erlendum uppruna. Fjölmenningarsetur fær það verkefni að miðla lærdómi af þessum verkefnum og nýta við gerð fyrirmyndar að móttökuáætlunum sem sveitarfélög geta tileinkað sér. Auk þess munu sveitarfélög, í gegnum Fjölmenningarsetur, geta samnýtt upplýsingar, þýðingar o.fl. og komið þannig í veg fyrir tvíverknað eða ómarkvissa ráðstöfun fjármuna.
    Lögð er áhersla á samstarf ríkis og sveitarfélaga í málefnum innflytjenda. Sveitarfélög hafa rúmar heimildir til að efna til þjónustu eða verkefna til að mæta þörfum íbúanna sem geta verið ólíkar frá einu sveitarfélagi til annars, enda er hlutfall innflytjenda mjög breytilegt eftir sveitarfélögum. Í tengslum við auknar skyldur sveitarfélaga á þessu sviði verða reglur um framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga endurskoðaðar til að betur megi styðja við hlutverk sveitarfélaga á sviði aðlögunar innflytjenda og efnt til samráðs ríkis og sveitarfélaga um fjármögnun nýrra verkefna. Loks ber að nefna að skráning innflytjenda í Þjóðskrá verður bætt, en símiðlun til sveitarfélaga um flutning til og frá sveitarfélaginu er ein af forsendum þess að sveitarfélög geti styrkt móttökuferlið.

Þriðji geirinn.

    Á Íslandi hafa félagasamtök, símenntunarmiðstöðvar, ýmsar sjálfseignarstofnanir og fyrirtæki þróað þjónustu við innflytjendur og samfélagið allt á sviði fjölmenningar og innflytjendamála. Þjónustan spannar allt frá ráðgjöf til fyrirtækja um fjölmenningarsamfélagið, einstaklingsbundna ráðgjöf við innflytjendur, túlkaþjónustu og íslenskunámskeið til fordómafræðslu svo nokkuð sé nefnt. Þessu ber að fagna. Ríkisstjórnin telur að þarna sé um auðlind að ræða og hvetur stjórnvöld, stofnanir, atvinnulíf og samfélagið til að virkja auðlindina með því að efna til verkefna og samstarfs og nýta þannig þá sérþekkingu sem myndast hefur. Vefur og þjónusta Fjölmenningarseturs verður bakhjarl í starfi þessara aðila og miðar að því að allar helstu upplýsingar stjórnvalda og opinberra stofnana séu aðgengilegar á einum stað, öllum til frjálsra nota í sinni starfsemi. Þá gegnir þróunarsjóður innflytjendamála mikilvægu hlutverki við að styðja við hvers konar þróun og nýsköpun á þessu sviði.

Samfélagslegt verkefni.

    Hér á eftir eru settar fram ábendingar til fjölmargra aðila sem hafa mikilvægu hlutverki að gegna við aðlögun innflytjenda og samfélagsins að þeim breytingum sem orðið hafa, svo sem atvinnurekenda, stéttarfélaga, stjórnmálaflokka, frjálsra félagasamtaka, fjölmiðla, íþróttahreyfingarinnar og menningarstofnana og þeir hvattir til dáða. Síðast en ekki síst ber að hvetja innflytjendur sjálfa til að nýta sér bjargir og gæði samfélagsins og leggja sitt af mörkum. Mikilvægt er fyrir þróun lýðræðissamfélagsins að samtök innflytjenda sjálfra styrkist, en slíkt mundi auðvelda samvinnu opinberra aðila og innflytjenda. Þá er sömuleiðis mikilvægt að hvetja innflytjendur til að taka þátt í grunnstofnunum lýðræðisins við hlið annarra landsmanna, svo sem í stjórnmálaflokkum og hagsmunasamtökum, í þeim tilgangi að efla samræðu, gagnkvæman skilning og þátttöku í mótun samfélagsins.

Atvinnurekendur.

    Innflytjendur á Íslandi eiga ríkan þátt í þeirri efnahagslegu velgengni sem landsmenn hafa notið á umliðnum árum. Margir atvinnurekendur, bæði á almennum vinnumarkaði sem og á vettvangi hins opinbera, gera sér ljósa grein fyrir því að án þeirra hefðu þeir vart getað eflt fyrirtæki sín eða sinnt starfseminni með sama hætti og ella. Atvinnurekendur bera þá skyldu að mismuna ekki starfsfólki sínu eftir uppruna, kyni, trúarbrögðum eða litarhætti og sjá til þess að það njóti allra samningsbundinna og lagalegra réttinda á vinnumarkaði, þar á meðal vinnuverndar. Auk þess gegna atvinnurekendur lykilhlutverki við að auðvelda innflytjendum aðlögun að samfélaginu, svo sem með því að opna þeim leið að íslenskunámi og samfélagsfræðslu og stuðla að heilbrigðum samskiptum innflytjenda og innfæddra á vinnustaðnum. Mikilvægt er að atvinnurekendur mismuni ekki umsækjendum um atvinnu eftir uppruna og leitist við að styðja innflytjendur í starfi þannig að þeir njóti starfsþróunar á við aðra. Með þeim hætti nýtist mannauðurinn sem best, innflytjendum og samfélaginu öllu til heilla. Atvinnurekendur sem axla samfélagslega ábyrgð sína að þessu leyti leggja þungvægan skerf til almennrar velferðar og félagslegrar samstöðu allra íbúa í nútíð og í framtíð.

Stéttarfélög.

    Stéttarfélög hafa mörg hver verið í fararbroddi við að sinna mikilvægri réttindagæslu fyrir hönd innflytjenda og stuðla að gagnkvæmri aðlögun innflytjenda og innfæddra Íslendinga. Hæst ber starf þeirra að því að tryggja að útlendingar í tímabundnum störfum á íslenskum vinnumarkaði svo og innflytjendur sem hér hafa sest að njóti samningsbundinna kjara og réttinda og jafnréttis á við aðra starfsmenn. Margir kjarasamningar innihalda ákvæði um ýmsa fræðslu- og menntunarmöguleika. Mikilvægt er að stéttarfélög beiti sér fyrir því að innflytjendur í hópi félagsmanna njóti þessara ákvæða og allra annarra kjarasamningsbundinna réttinda í sama mæli og aðrir á vinnumarkaði þannig að þeir fái notið starfsþróunar og geti notað hæfileika sína til jafns við aðra. Þá eru stéttarfélög hvött til þess að stjórnir og nefndir á vegum þeirra endurspegli samsetningu félagsmanna og að innflytjendur séu virkjaðir til að taka þar sæti. Stjórnvöld munu áfram gera ráð fyrir og reiða sig á árvekni stéttarfélaga hvað varðar réttindamál útlendinga og stöðu innflytjenda á íslenskum vinnumarkaði.

Stjórnmálaflokkar.

    Stjórnmálaflokkar eru meðal mikilvægustu grunnstofnana þess lýðræðisskipulags sem við búum við. Það er hlutverk þeirra að endurspegla og túlka þarfir samfélagsins og leita leiða til að tekist verði á við hagsmunamál þjóðarinnar hverju sinni með farsælum hætti. Jafnframt eru þeir vettvangur einstaklinga til að hljóta þjálfun í að starfa með lýðræðislegum hætti og gegna fulltrúa- og trúnaðarstörfum fyrir samfélagið, bæði á vettvangi sveitarstjórna og Alþingis. Stjórnmálaflokkar hljóta að telja það keppikefli að leitast við að virkja innflytjendur í starfi sínu, bæði til að raddir þeirra heyrist innan stofnana lýðræðisins en einnig til að stjórnmálaflokkarnir sjálfir endurspegli skilning á litrófi samfélagsins og fjölbreytilegum þörfum þess. Með þeim hætti eru lögð lóð á vogarskálar gagnkvæmrar virðingar og eindrægni meðal allra íbúa þessa lands.

Frjáls félagasamtök.

    Hinn mikli fjöldi frjálsra félagasamtaka sem dafna hér á landi og ýmiss konar grasrótarvirkni íbúanna er til marks um ríkan félagsauð bæði á vettvangi nærsamfélagsins og landsins alls. Í mörgum byggðum landsins eru það þessi samtök sem halda íbúunum saman um leið og þau eru farvegur íbúanna til að láta gott af sér leiða. Starfsemi þeirra getur verið að margvíslegum hagsmunamálum, líknar- og góðgerðamálum, á vettvangi menningar og lista og að ýmsum tómstundamálum. Forystufólk þessara félaga getur lagt mikið af mörkum til aðlögunar innflytjenda og innfæddra Íslendinga með því að leitast við að laða innflytjendur að þessum félögum, virkja þá til stjórnarstarfa og annarra trúnaðarstarfa og opna þeim þannig vettvang til að starfa við hlið innfæddra Íslendinga að áhugamálum sínum.

Íþróttahreyfingin.

    Íþróttahreyfingin gegnir mikilvægu hlutverki gagnvart börnum og ungmennum og er vettvangur til að efla félagsleg tengsl og jákvæða sjálfsmynd. Forvarnagildi íþróttastarfs er hafið yfir allan vafa. Ýmislegt bendir til að börn innflytjenda stundi ekki íþróttir að sama marki og börn af íslenskum uppruna og því þarf að breyta. Því er íþróttahreyfingin hvött til þess að leitast við að laða til sín börn og ungmenni af erlendum uppruna með markvissum hætti. Þannig mundi hún leggjast á árar með nærsamfélaginu við að flýta fyrir og auðvelda gagnkvæma aðlögun og draga úr hvers konar fordómum. Þá er íþróttahreyfingin einnig hvött til þess að efla þátttöku foreldra af erlendum uppruna í starfi íþróttafélaganna, en með því er markmiðum um aðlögun og þátttöku sýnd virðing og stuðningur. Þá eru sveitarfélög og aðrir opinberir aðilar hvattir til að styðja við og starfa með íþróttafélögunum að þessum markmiðum.


Fjölmiðlar.

    Fjölmiðlar eiga að endurspegla þjóðfélagið á hverjum tíma en þeir hafa einnig mótandi áhrif á það. Það hvernig fjallað er um innflytjendur og innflytjendamál í fjölmiðlum ræður miklu um hvernig til tekst með farsæla aðlögun þeirra að samfélaginu og samfélagsins alls að breyttum heimi. Ábyrg umfjöllun, aðgangur innflytjenda sjálfra að fjölmiðlunum og viðleitni til að draga úr fordómum og sleggjudómum eru allt atriði sem miklu ráða varðandi eindrægni í samfélaginu og upplýsta umræðu. Fjölmiðlar sem vilja axla ábyrgð sína gagnvart hinu lýðræðislega samfélagi mega aldrei falla í þá gryfju að kynda undir staðalmyndir eða alhæfingar. Því eru fjölmiðlar hvattir til að setja sér siðareglur um efnistök þegar fjallað er um málefni innflytjenda.

Menningarstofnanir.

    Listir og hvers konar menningarstarfsemi eru öflugar hér á landi og efla með landsmönnum menntun, afþreyingu, gagnrýna hugsun og sjálfsskoðun og skoðun á umheiminum. Þá skapar samvirkni ólíkra menningarstrauma innihaldsríka deiglu sem veitir nýjum þrótti í hvers konar sköpun og menningarlíf. Mikilvægt er að fjölbreytni samfélagsins endurspeglist í lista- og menningarlífi þess og að innflytjendur séu bæði þátttakendur og njótendur á því sviði. Að auðvelda innflytjendum að leggja rækt við eigin menningararfleifð og miðla henni til annarra stuðlar að aukinni fjölbreytni og víðsýni. Átthaga- og menningarfélög innflytjenda gegna hér ríku hlutverki. Stjórnvöld vilja styðja við framlag innflytjenda til menningarlífs þjóðarinnar, enda fer það saman að auðvelda innflytjendum að leggja rækt við eigin menningararfleifð og miðla henni til samfélagsins og um leið stuðla að þróttmikilli, kvikri og skapandi menningarstarfsemi.

III. Stofnanir á sviði innflytjendamála.

    Hér á eftir er gerð grein fyrir ráðum, nefndum og stofnunum sem heyra undir félags- og tryggingamálaráðuneyti og fara með málefni innflytjenda og flóttafólks.

Innflytjendaráð.

    Meginverkefni innflytjendaráðs er að fjalla um helstu atriði er snerta aðlögun útlendinga að íslensku samfélagi. Meðal annars skal ráðið vera stjórnvöldum, bæði á vettvangi ríkis og sveitarfélaga, til ráðgjafar við stefnumótun í málaflokkum, gera tillögu að framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar í innflytjendamálum og fylgjast með framkvæmd hennar. Innflytjendaráð myndar einnig stjórn þróunarsjóðs innflytjendamála. Ráðið skipa fulltrúi félags- og tryggingamálaráðherra sem jafnframt er formaður, innflytjandi skipaður án tilnefningar og fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga, heilbrigðisráðuneytis, dóms- og kirkjumálaráðuneytis og menntamálaráðuneytis.

Flóttamannanefnd.

    Flóttamannanefnd tók við af flóttamannaráði árið 2005 og er hún skipuð fulltrúum félags- og tryggingamálaráðuneytis, utanríkisráðuneytis, dóms- og kirkjumálaráðuneytis og Rauða kross Íslands. Meginverkefni nefndarinnar er að gera tillögur til ríkisstjórnar um móttöku hópa flóttafólks frá tilteknum svæðum. Tillögur nefndarinnar byggjast á samstarfi við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og er ævinlega gerður samningur við tiltekið sveitarfélag og Rauða kross Íslands um þjónustu við flóttafólkið fyrsta dvalarár þeirra í landinu. Nefndin hefur sett sér viðmiðunarreglur sem finna má á heimasíðu félags- og tryggingamálaráðuneytis.

Þróunarsjóður innflytjendamála.

    Í mars 2007 ákvað þáverandi félagsmálaráðherra að koma á fót þróunarsjóði innflytjendamála og veita til hans 10.000.000 kr. árlega. Var úthlutað úr honum fyrsta sinni í árslok 2007. Tilgangur sjóðsins er að efla rannsóknir og þróunarverkefni á sviði málefna innflytjenda með það að markmiði að auðvelda innflytjendum aðlögun að íslensku samfélagi og gera samfélaginu betur kleift að koma til móts við þarfir þeirra. Lögð er áhersla á að verkefni séu í samræmi við og í anda stefnu ríkisstjórnarinnar um aðlögun innflytjenda. Reglur sjóðsins og umsóknareyðublöð eru á vef félags- og tryggingamálaráðuneytis.

Fjölmenningarsetur.

    Fjölmenningarsetri var komið á fót árið 2000 á grundvelli ályktunar Alþingis. Hlutverk þess er að greiða fyrir samskiptum Íslendinga og erlendra ríkisborgara, vinna með stofnunum og sveitarstjórnum að eflingu þjónustu fyrir erlenda ríkisborgara, fyrirbyggja vandamál í samskiptum fólks af margvíslegum menningarsvæðum og auðvelda aðlögun erlends fólks að íslensku þjóðfélagi. Þá er það hlutverk þess að stuðla að því að upplýsingagjöf opinberra aðila til innflytjenda sé heildstæð, samhæfð og markviss og að opinberir aðilar hafi aðgang að fyrirmyndum um þjónustu og stuðning við innflytjendur.
    Helstu verkefni Fjölmenningarseturs eru þessi:
          Að sinna upplýsingamiðlun til einstaklinga, til dæmis með ráðgjöf í síma og með upplýsingamiðlun um vefinn mcc.is
          Hafa umsjón með samræmingu og ráðgjöf við miðlun upplýsinga um hlutverk og þjónustu stofnana ríkis og sveitarfélaga.
          Veita ráðgjöf við stefnumótun og framsetningu upplýsinga innan stjórnsýslunnar og leiðbeiningar um gerð verkferla og verklagsreglna.
          Hafa yfirlit yfir rannsóknir og þróunarverkefni.
          Hafa upplýsingar um íslenskunámskeið, fræðslunámskeið og þá þjónustu sem í boði er.
          Halda skrá yfir sjálfstætt starfandi túlka og þá túlka- og þýðingaþjónustu sem er í boði.
          Hafa forgöngu um og sinna samstarfi á sviði fordómafræðslu.

IV. Verkefni stjórnvalda.

1. Löggjöf um aðlögun innflytjenda.
    Samið verði frumvarp til laga um aðlögun innflytjenda. Lögð verði áhersla á að frumvarpið taki einungis til atriða sem snerta aðlögun innflytjenda og önnur löggjöf fjallar ekki um. Meginstefnan er að fjalla um réttindi og skyldur innflytjenda og aðstoð og þjónustu við þá með sama hætti og við aðra íbúa landsins. Helstu atriði sem taka þarf afstöðu til við samningu frumvarpsins lúta að miðlun upplýsinga til innflytjenda, öflun upplýsinga um innflytjendamál, hlutverki og starfsemi innflytjendaráðs, þróunarsjóði innflytjendamála, Fjölmenningarsetri og flóttamannanefnd varðandi þjónustu við kvótaflóttafólk. Framangreind starfsemi er þegar til staðar með stoð í samþykktum ríkisstjórnar á hverjum tíma, með ákvörðun ráðherra eða í formi tilraunaverkefna á grunni þingsályktunar og er mikilvægt að rennt sé lagastoðum undir þessa starfsemi.

Markmið:    Sett verði löggjöf um aðlögun innflytjenda.

1.1 Samning frumvarps um aðlögun innflytjenda.
Ábyrgð:     Félags- og tryggingamálaráðuneyti.
Lýsing:    Settur verði á fót starfshópur er hafi það hlutverk að semja frumvarp um aðlögun innflytjenda þar sem verði tekið á ýmsum atriðum er varða upplýsingamiðlun, réttarstöðu innflytjenda, svo sem rétt til túlkaþjónustu, og meðal annars skotið lagalegum stoðum undir starfsemi stofnana, ráða og nefnda í málaflokknum.
Framkvæmd:     Félags- og tryggingamálaráðuneyti.
Samstarfsaðili:    Innflytjendaráð.
Tímabil:     September 2008.
Kostnaðaráætlun:    Unnið af starfsmönnum.
Fjárveiting:     Innan ramma.
Afurð:     Lagafrumvarp.

2.     Upplýsingar um innflytjendamál.
    Tölulegar upplýsingar um innflytjendamál á Íslandi verði bættar í því skyni að opinberir aðilar, rannsóknasamfélagið og aðrir sem málið varðar hafi á hverjum tíma sem bestar upplýsingar um fjölda, uppruna, aldur og dreifingu innflytjenda á landinu, greint niður á sveitarfélög. Til framtíðar litið er sérstaklega mikilvægt að hægt verði að nýta þessar upplýsingar til að greina stöðu annarrar kynslóðar innflytjenda, enda þótt þeir hafi hlotið íslenskan ríkisborgararétt. Þá verði Fjölmenningarsetri falið að halda skrá yfir rannsóknir á þessu sviði og gera þær aðgengilegar, auk þess sem reglulega verði fylgst með viðhorfum bæði innflytjenda sjálfra og viðhorfa til innflytjenda. Þá er baráttan gegn fordómum brýnt samfélagslegt verkefni sem félags- og tryggingamálaráðuneytið mun styðja við með því að láta gera fræðsluefni öðrum til frjálsra afnota, auk þess sem ráðuneytið mun taka höndum saman við félagasamtök og aðra um átaksverkefni á sviði fordómafræðslu. Bent skal á að þróunarsjóður innflytjendamála mun nýtast sem tæki til að styðja við rannsóknir og þróunarverkefni á sviði innflytjendamála.

Markmið:    Tölulegar upplýsingar um innflytjendamál á Íslandi mæti þörfum opinberra aðila, rannsóknarsamfélagsins og annarra sem málið varðar.

2.1 Gagnagrunnur um innflytjendamál.
Ábyrgð:     Hagstofan.
Lýsing:    Skráning innflytjenda í gagnagrunna Hagstofunnar verði bætt þannig að þar séu á hverjum tíma upplýsingar um bæði fyrstu og aðra kynslóð innflytjenda, jafnt þeirra sem eru með erlent ríkisfang og hinna sem hlotið hafa íslenskt ríkisfang. Greint verði á milli þeirra sem eiga báða foreldra af erlendum uppruna og hinna með annað foreldrið íslenskt.
Framkvæmd:     Mannfjöldadeild.
Samstarfsaðili:     Innflytjendaráð.
Tímabil:     Viðvarandi.
Kostnaðaráætlun:     4.200.000 kr.
Fjárveiting:     Innan ramma.
Afurð:     Gagnagrunnur um innflytjendamál.

2.2 Gagnabanki rannsókna um innflytjendamál.
Ábyrgð:     Fjölmenningarsetur.
Lýsing:    Safnað verði saman upplýsingum um rannsóknir í innflytjendamálum, sérstök verkefni, verklag sveitarfélaga við móttöku innflytjenda, fyrirmyndir að móttökuáætlunum sem og miðlun upplýsingaefnis á helstu tungumálum.
Framkvæmd:     Fjölmenningarsetur.
Samstarfsaðilar:     Innflytjendaráð, Samband íslenskra sveitarfélaga o.fl.
Tímabil:     Viðvarandi.
Kostnaðaráætlun:     Innan ramma.
Fjárveiting:     Innan ramma.
Afurð:     Gagnabanki á vef Fjölmenningarseturs www.mcc.is

Markmið:    Að stjórnvöld og aðrir hafi á hverjum tíma upplýsingar um líðan og aðstæður innflytjenda.

2.3 Viðhorfskannanir meðal innflytjenda.
Ábyrgð:     Félags- og tryggingamálaráðuneyti.
Lýsing:    Gerðar verði viðhorfskannanir meðal innflytjenda meðal annars um aðbúnað, viðhorf, upplýsingamiðlun, aðlögunarferli og fleiri atriði sem snerta líf þeirra og líðan.
Framkvæmd:     Innflytjendaráð.
Samstarfsaðilar:     Fjölmenningarsetur og rannsóknastofnanir.
Tímabil:     Á 4–5 ára fresti.
Kostnaðaráætlun:     10.000.000 kr. hver könnun.
Afurð:     Viðhorfskannanir meðal innflytjenda.

Markmið:     Að stjórnvöld og samfélagið í heild hafi á hverjum tíma upplýsingar um viðhorf almennings til innflytjenda.

2.4 Könnun á viðhorfum til innflytjenda.
Ábyrgð:     Félags- og tryggingamálaráðuneyti.
Lýsing:    Gerðar verði viðhorfskannanir meðal almennings um afstöðu til innflytjenda, þar á meðal fordóma.
Framkvæmd:     Innflytjendaráð.
Samstarfsaðilar:     Fjölmenningarsetur og rannsóknastofnanir.
Tímabil:    Á tveggja ára fresti.
Kostnaðaráætlun:     500.000 kr. hver könnun.
Afurð:     Viðhorfskannanir meðal almennings.

Markmið:    Innflytjendur á vinnumarkaði njóti launajafnréttis á við aðra landsmenn óháð kyni, uppruna eða litarhætti.

2.5 Launajafnrétti fyrir alla.
Ábyrgð:     Jafnréttisstofa.
Lýsing:    Framkvæmd verði rannsókn á launum karla og kvenna meðal innflytjenda og niðurstöður bornar saman við laun almennt á vinnumarkaði til að ganga úr skugga um hvort launajafnrétti ríki bæði með tilliti til uppruna og kynferðis.
Framkvæmd:     Jafnréttisstofa.
Samstarfsaðilar:     Jafnréttisráð og félags- og tryggingamálaráðuneyti.
Tímabil:     2008–2009.
Kostnaðaráætlun:     1.500.000 kr.
Fjármögnun:     Innan ramma.
Afurð:     Rannsókn.

3.     Upplýsingamiðlun til innflytjenda.
    Upplýsingamiðlun til innflytjenda, ásamt íslenskukennslu, er vafalaust einn mesti áhrifavaldur á að innflytjendur geti nýtt sér gæði samfélagsins og tekið fullan þátt í því. Þess vegna verði gert átak í upplýsingamiðlun til innflytjenda þannig að öll ráðuneyti og ríkisstofnanir endurskoði upplýsingamiðlun sína og lagi hana jafnframt að þörfum innflytjenda. Í hópi innflytjenda eru útlendingar sem ekki ætla að dvelja í landinu til langframa en eiga kröfu á upplýsingum um rétt sinn, skyldur og grunnþjónustu. Þá eru innflytjendur sem hafa sest að hér á landi sem þurfa bæði sértækar upplýsingar og þjónustu á meðan þeir hafa ekki náð valdi á íslenskri tungu. Þess vegna munu stofnanir meta hverju sinni hvaða hagsmunir standi til þess að settar verði fram upplýsingar á helstu tungumálum sem innflytjendur hér á landi tala.
    Fjölmenningarsetur fær það hlutverk að safna öllum mikilvægum upplýsingum saman, samræma og samnýta og birta þær á vefnum mcc.is í samstarfi við Island.is (www.island.is). Þannig verði til á einum stað upplýsingaveita stjórnvalda til nota fyrir innflytjendur, þá sem veita þeim þjónustu og aðra sem á þurfa að halda. Nú þegar hefur verið ráðinn starfsmaður í þetta verkefni.
    Undir einstaka málaflokkum í þessari áætlun eru fjölmörg upplýsingaverkefni sem snerta viðkomandi þjónustusvið og ekki er getið í þessum kafla áætlunarinnar sérstaklega.

Markmið:    Innflytjendur hafi aðgang að nauðsynlegum upplýsingum um íslenskt stjórnkerfi, samfélag og almannaþjónustu sem jafnhliða séu settar fram á íslensku.

3.1 Endurskoðun upplýsingamiðlunar til innflytjenda.
Ábyrgð:     Öll ráðuneyti og ríkisstofnanir.
Lýsing:    Vefir, regluleg útgáfa, leiðbeiningar, eyðublöð og annað upplýsingaefni verði yfirfarið með tilliti til þarfa innflytjenda, efnið verði á íslensku, ensku og móðurmáli stærstu hópa innflytjenda.
Framkvæmd:    Skipaður verði ábyrgðaraðili verkefnis innan hvers ráðuneytis og stofnunar, en Fjölmenningarsetur heldur utan um verkefnið í heild.
Samstarfsaðilar:     Innflytjendaráð og Island.is
Tímabil:     Viðvarandi verkefni.
Kostnaðaráætlun:     Innan ramma.
Fjármögnun:     Innan ramma.
Afurð:     Upplýsingaefni ráðuneyta og stofnana á viðeigandi tungumálum.

3.2 Upplýsingavefurinn mcc.is.
Ábyrgð:     Fjölmenningarsetur.
Lýsing:    Uppbygging heildstæðs upplýsingavefs á nokkrum tungumálum þar sem allar helstu upplýsingar um réttindi og skyldur innflytjenda í íslensku samfélagi er að finna, svo sem um hlutverk og þjónustu ríkis og sveitarfélaga og stofnana þeirra, þ.m.t. skóla, upplýsingar um íslensku- og fræðslunámskeið, túlka- og þýðingaþjónustu, um fyrstu skrefin á vinnumarkaði, vottorð og skilríki sem þarf við komu til landsins og för frá landinu, auk umsóknareyðublaða o.fl.
Framkvæmd:     Verkefnisstjóri Fjölmenningarseturs í upplýsingamiðlun.
Samstarfsaðilar:     Ráðuneyti, stofnanir, sveitarfélög, fræðsluaðilar, skólar o.fl.
Tímabil:     Viðvarandi verkefni.
Kostnaðaráætlun:     Framlag starfsmanna.
Fjármögnun:    7.000.000 kr. af fjárveitingu vegna mótvægisaðgerða sem þegar hefur verið veitt.
Árangur/mat:     Talning heimsókna, kannanir o.fl.
Afurð:     Vefurinn mcc.is

3.3 Hlekkur við Island.is.
Ábyrgð:     Utanríkisráðuneyti.
Lýsing:     Á heimasíðu sendiráða erlendis verður hlekkur inn á Island.is (www. island.is).
Framkvæmd:     Utanríkisþjónustan.
Samstarfsaðili:     Island.is
Tímabil:     2008.
Kostnaðaráætlun:     Óverulegur kostnaður.
Fjármögnun:     Innan ramma.
Afurð:    Hlekkir við Island.is

3.4 Bæklingurinn Fyrstu skrefin.
Ábyrgð:     Félags- og tryggingamálaráðuneyti.
Lýsing:    Reglubundin endurskoðun bæklings á níu erlendum tungumálum um fyrstu skrefin í íslensku samfélagi sem verður uppfærður eftir þörfum og dreift á helstu viðkomustöðum innflytjenda.
Framkvæmd:     Innflytjendaráð.
Samstarfsaðilar:    Fjölmenningarsetur, Samband íslenskra sveitarfélaga og stofnanir og aðilar sem um er fjallað í bæklingnum.
Tímabil:    Fyrsta útgáfa bæklingsins var haustið 2007 en endurskoðun fari fram vorið 2009.
Kostnaðaráætlun:     1.500.000 kr.
Fjármögnun:    Félags- og tryggingamálaráðuneytið og vinnuframlög frá stofnunum sem fjallað er um.
Afurð:     Endurskoðaður bæklingur.

Markmið:    Endurskoða og birta aðgengilegt kynningarefni um almannatryggingar fyrir fólk af erlendum uppruna með það að markmiði að það geti aflað sér upplýsinga um réttindi almannatrygginga á Íslandi á tungumáli sem það skilur.

3.5 Aðgengilegar upplýsingar um réttindi á nokkrum tungumálum.
Ábyrgð:     Tryggingastofnun ríkisins.
Lýsing:     Á heimasíðu Tryggingastofnunar og þjónustustöðvum Tryggingastofnunar, hjá Útlendingastofnun, félagsþjónustum sveitarfélaga og öðrum stöðum sem fólk af erlendum uppruna sækir þjónustu og ráðgjöf til séu aðgengilegar upplýsingar um almannatryggingar á ensku, pólsku, taílensku og ef til vill fleiri tungumálum.
Framkvæmd:     Upplýsingasvið Tryggingastofnunar ríkisins.
Samstarfsaðili:     Alþjóðahús.
Tímabil:     Maí 2008–janúar 2009.
Kostnaðaráætlun:     2.000.000 kr.
Fjármögnun:     Á fjárhagsáætlun kynningarmála Tryggingastofnunar ríkisins.
Árangur/mat:     Starfsfólk Tryggingastofnunar og aðrir sem aðstoða fólk af erlendum uppruna við að komast inn í íslenskt velferðarkerfi geti vísað á upplýsingar á tungumáli sem umsækjendur geta skilið. Mat fari fram með könnunum meðal útlendinga og fólks sem aðstoðar þá.
Afurð:    Upplýsingar á heimasíðu og útgefnar í bæklingi.

Markmið:     Að innflytjendur hafi aðgengi að greinargóðum upplýsingum um mikilvægustu atriðin er varða öryggi á heimilum.

3.6 Öryggi á heimilum.
Ábyrgð:     Brunamálastofnun.
Lýsing:     Bæklingur um öryggi á heimilum á ensku, taílensku, pólsku, spænsku og rússnesku. Farið verði yfir helstu atriði í sambandi við neyðarnúmer, flóttaleiðir, reykskynjara og slökkvitæki.
Framkvæmd:     Brunamálastofnun.
Tímabil:     2008.
Kostnaðaráætlun:     Innan ramma.
Fjármögnun:     Innan ramma.
Afurð:    Bæklingur.

Markmið:    Að innflytjendur hafi aðgang að greinargóðum upplýsingum um neytendamál.

3.7 Þýðing á leiðakerfi neytenda.
Ábyrgð:     Viðskiptaráðuneyti.
Lýsing:     Um leið og kostur er verði leiðakerfi neytenda (neytandi.is) þýtt á helstu tungumál innflytjenda og jafnframt miðlað til Ísland.is og mcc.is
Framkvæmd:     Talsmaður neytenda.
Samstarfsaðili:     Neytendastofa.
Tímabil:     2008–2009.
Kostnaðaráætlun:     Innan ramma.
Fjármögnun:     Innan ramma.
Afurð:    Leiðakerfi neytenda á helstu tungumálum innflytjenda.

Markmið:    Að innflytjendur hafi aðgang að greinargóðum upplýsingum um íslenskan landbúnað.

3.8 Þýðing á upplýsingum um íslenskan landbúnað.
Ábyrgð:     Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti.
Lýsing:     Upplýsingar um íslenskan landbúnað verði þýddar á fjögur tungumál og birtar á heimasíðu ráðuneytisins. Einnig verði á síðunni tenglasafn sem gagnast geti erlendum starfsmönnum í landbúnaði.
Framkvæmd:     Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti.
Samstarfsaðili:     Fjölmenningarsetur.
Tímabil:     Apríl–desember 2008.
Kostnaðaráætlun:     350.000 kr.
Fjármögnun:     Innan ramma.
Árangur/mat:    Teljari á vefsíðu.
Afurð:    Upplýsingar á vef sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins.

Markmið:    Að innflytjendur hafi aðgang að upplýsingum um starfsfræðslunámskeið innan fiskvinnslu.

3.9 Þýðing á upplýsingum um starfsfræðslunámskeið fiskvinnslunnar.
Ábyrgð:     Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti.
Lýsing:     Upplýsingar um starfsfræðslunámskeið fiskvinnslunnar verði þýddar á pólsku og annað tungumál og birtar á heimasíðu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis.
Framkvæmd:     Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti.
Samstarfsaðili:     Fjölmenningarsetur.
Tímabil:     Vor 2008.
Kostnaðaráætlun:     150.000 kr.
Fjármögnun:     Innan ramma.
Árangur/mat:    Teljari á vefsíðu.
Afurð:    Upplýsingar á vef sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins.

Markmið:    Innflytjendur hafi jafnan aðgang að þjónustu Íbúðalánasjóðs á við aðra landsmenn og að greinargóðum upplýsingum sem varða íbúðakaup og -sölu þannig að þeir geti gætt fjárhagslegra hagsmuna sinna.

3.10 Upplýsingamiðlun um fasteignaviðskipti.
Ábyrgð:     Íbúðalánasjóður.
Lýsing:    Auka upplýsingar á helstu tungumálum innflytjenda um lánakerfi Íbúðalánasjóðs, aðra fjármögnunarmöguleika og ferli íbúðarkaupa á Íslandi í formi bæklinga/einblöðunga og hafa grunneyðublöð, svo sem um greiðslumat og umsóknareyðublöð, á fleiri tungumálum. Setja upplýsingar og eyðublöð á vef sjóðsins og á vef Fjölmenningarseturs.
Framkvæmd:     Íbúðalánasjóður.
Samstarfsaðilar:     Fjölmenningarsetur og Alþjóðahús.
Tímabil:     2008.
Kostnaðaráætlun:     1.000.000 kr.
Fjármögnun:     Innan ramma.
Árangur/mat:     Fjöldi tungumála sem svara til notendahóps.
Afurð:     Upplýsingar á vef, bæklingar og eyðublöð.

Markmið:     Innflytjendur hafi jafnan aðgang að niðurgreiðslu á húshitunarkostnaði á við aðra landsmenn og greinargóðum upplýsingum um hvernig og hvar þær eru framkvæmdar þannig að þeir geti gætt fjárhagslegra hagsmuna sinna.

3.11 Upplýsingar fyrir alla.
Ábyrgð:     Iðnaðarráðuneyti.
Lýsing:     Gefa út bækling/einblöðung og þýða umsóknareyðublað á helstu tungumál innflytjenda um niðurgreiðslur á húshitunarkostnaði, á hvaða landsvæðum og hvernig þær eru framkvæmdar. Þýða útdrátt úr reglugerð um niðurgreiðslu húshitunar, nr. 284/2005, með síðari breytingum. Setja upplýsingar og eyðublöð á vef sveitarfélaga þar sem niðurgreiðslur eru framkvæmdar, á vef Orkustofnunar, á vefi dreifiveitna sem hafa heimild til niðurgreiðslna, á vef Fjölmenningarseturs og vef félags- og tryggingamálaráðuneytisins.
Framkvæmd:     Iðnaðarráðuneyti.
Samstarfsaðilar:     Fjölmenningarsetur, Alþjóðahús, Orkustofnun, sveitarfélög og dreifiveitur.
Tímabil:     2008.
Kostnaðaráætlun:     Innan ramma.
Fjármögnun:     Innan ramma.
Afurð:    Upplýsingar á vef, bæklingar og eyðublöð.

Markmið:     Innflytjendum verði auðveldað aðgengi að netinu í þeim sveitarfélögum þar sem þeir búa.

3.12 Netaðgangur innflytjenda.
Ábyrgð:     Menntamálaráðuneyti.
Lýsing:     Bókasöfn verði hvött til að auka aðgengi innflytjenda að netinu, meðal annars með því að koma upp tölvuaðstöðu fyrir notendur safna.
Framkvæmd:     Menntamálaráðuneyti.
Samstarfsaðilar:     Félag forstöðumanna bókasafna, bókasöfn og sveitarfélög.
Tímabil:     Viðvarandi verkefni.
Kostnaðaráætlun:     Innan ramma.
Fjármögnun:     Innan ramma.
Árangur/mat:    Fjöldi námskeiða og fjöldi heimsókna innflytjenda á bókasöfn.
Afurð:    Netaðgangur á bókasöfnum.

4.     Dvalar- og atvinnuleyfi.
    Lagt hefur verið fram á Alþingi annars vegar frumvarp dóms- og kirkjumálaráðherra um breytingar á lögum um útlendinga, nr. 96/2002, með síðari breytingum, og hins vegar frumvarp félags- og tryggingamálaráðherra um breytingu á lögum um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002, og lögum um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, nr. 47/1993, með síðari breytingum. Markmið frumvarpanna er meðal annars að tryggja að ríkisborgarar ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins sem dvelja og starfa hér á landi hafi til þess tilskilin dvalar- og atvinnuleyfi. Í því skyni er lagt til að veiting slíkra leyfa verði einfölduð og samræmd. Enn fremur er lagt til að skráningar verði bættar, meðal annars með þeim hætti að ríkisborgurum ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins verði gert kleift að skrá sig hjá einum aðila við komuna til landsins. Þá eru lagðar til breytingar í átt til núverandi framkvæmdar á ákvæði laga um útlendinga um dvalarleyfi fyrir aðstandendur.

Markmið:     Ríkisborgarar ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins geti skráð dvöl sína hér á landi með einföldum hætti.

4.1 Einföldun skráningar ríkisborgara ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins.
Ábyrgð:     Dóms- og kirkjumálaráðuneyti.
Lýsing:     Skráningarkerfi verði einfaldað þannig að útlendingar sem hafa heimild til að dvelja hér á landi án sérstakra dvalarleyfa (ríkisborgarar ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins) skrái sig hjá einu stjórnvaldi við upphaf dvalar, sbr. tillögur í frumvarpi til laga um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 96/2002, með síðari breytingum.
Framkvæmd:     Dóms- og kirkjumálaráðuneyti.
Samstarfsaðilar:     Útlendingastofnun og Þjóðskrá.
Tímabil:     Útfært í reglugerð fyrri hluta árs 2008.
Kostnaðaráætlun:     Kostnaður vegna breytinga á tölvukerfum.
Fjármögnun:     Innan ramma.
Afurð:    Nýtt einfaldara skráningarkerfi.

Markmið:    Samræming í tengslum við veitingu dvalarleyfa og atvinnuleyfa fyrir ríkisborgara ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins.

4.2 Samræming laga um útlendinga, nr. 96/2002, og laga um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002.
Ábyrgð:     Dóms- og kirkjumálaráðuneyti og félags- og tryggingamálaráðuneyti.
Lýsing:    Meðal annars verði tryggt að sá sem öðlast búsetuleyfi samkvæmt lögum um útlendinga öðlist á sama tíma óbundið atvinnuleyfi samkvæmt lögum um atvinnuréttindi útlendinga.
Lýsing:     Frumvörp lögð fram á Alþingi 2007. Miðað við gildistöku um mitt ár 2008.
Framkvæmd:     Dóms- og kirkjumálaráðuneyti og félags- og tryggingamálaráðuneyti.
Tímabil:     Vorið 2008.
Kostnaðaráætlun:     Óverulegur kostnaður.
Fjármögnun:     Innan ramma.
Afurð:    Samræmd löggjöf í tengslum við veitingu dvalar- og atvinnuleyfa.

Markmið:    Ríkisborgarar ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins sem dvelja og starfa hér á landi hafi til þess tilskilin dvalarleyfi og atvinnuleyfi.

4.3 Aukið eftirlit með dvalar- og atvinnuleyfum borgara utan Evrópska efnahagssvæðisins.
Ábyrgð:     Dóms- og kirkjumálaráðuneyti og félags- og tryggingamálaráðuneyti.
Lýsing:     Með samvinnu stjórnvalda sem koma að málefnum útlendinga, meðal annars með gagnkvæmri upplýsingagjöf þeirra á milli, verði komið í veg fyrir að ríkisborgarar ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins geti án afskipta stjórnvalda dvalið og eftir atvikum starfað hér á landi án tilskilinna leyfa.
Framkvæmd:     Dóms- og kirkjumálaráðuneyti og félags- og tryggingamálaráðuneyti.
Samstarfsaðilar:     Útlendingastofnun, Þjóðskrá, skattyfirvöld, Vinnumálastofnun og lögregla.
Tímabil:     Frumvörp lögð fyrir Alþingi 2007. Nánari útfærsla eftir atvikum í reglugerðum síðari hluta árs 2008.
Fjármögnun:     Að mestu innan ramma.
Afurð:     Að erlendir ríkisborgarar ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins geti ekki án afskipta stjórnvalda dvalið og eftir atvikum starfað hér á landi.

Markmið:    Ákvæði laga um dvalarleyfi fyrir aðstandendur verði breytt til samræmis við núverandi framkvæmd.

4.4 Endurskoðun löggjafar.
Ábyrgð:     Dóms- og kirkjumálaráðuneyti.
Lýsing:     Ákvæði laga um útlendinga um dvalarleyfi fyrir aðstandendur verði endurskoðað.
Framkvæmd:     Dóms- og kirkjumálaráðuneyti.
Tímabil:     Lagafrumvarp lagt fram á Alþingi 2008. Nánari útfærsla eftir atvikum í reglugerð fyrri hluta árs 2008.
Kostnaðaráætlun:     Óverulegur kostnaður.
Fjármögnun:     Innan ramma.
Afurð:    Breytt ákvæði um dvalarleyfi fyrir aðstandendur.

5.     Túlkaþjónusta.
    Réttur innflytjenda til túlkaþjónustu, eða með öðrum orðum skilgreining á þeim aðstæðum sem kalla á túlkun, er eitt þeirra atriða sem tekin verði afstaða til við samningu frumvarps til laga um aðlögun innflytjenda. Ríkisstjórnin telur það fara saman að efla íslenskukennslu fyrir útlendinga og stuðla að því að mikilvægar upplýsingar um stjórnkerfið, réttindamál og þjónustu séu þýddar á helstu móðurmál innflytjenda hérlendis. Innflytjendur hafa lögvarinn rétt til túlkunar á vettvangi dómstólanna og innan heilbrigðisgeirans. Víðar innan stjórnkerfisins og stofnana geta gagnkvæmir hagsmunir staðið til þess að tryggja að réttar og vandaðar upplýsingar berist milli starfsmanna og innflytjenda. Þessir hagsmunir geta varðað ríka fjárhags-, öryggis-, réttinda- og velferðarhagsmuni, svo sem innan barnaverndar, á sviði vinnueftirlits eða í samskiptum foreldra og skóla. Því munu margar stofnanir vinna að því á næstunni að setja sér verklagsreglur um túlkun. Í þessu samhengi er mikilvægt að styrkja nám fyrir túlka og þjálfun þeirra á sértækum sviðum, svo sem innan heilbrigðis- og félagsþjónustu.

Markmið:    Tungumálaerfiðleikar hindri ekki að upplýsingar berist milli foreldra og starfsmanna skóla.

5.1 Verklagsreglur menntamálaráðuneytis um túlkaþjónustu.
Ábyrgð:     Menntamálaráðuneyti.
Lýsing:     Að samþykktum frumvörpum um leikskóla og grunnskóla verði samdar verklagsreglur um túlkaþjónustu, sbr. 9. gr. leikskólafrumvarps og 16. og 18. gr. grunnskólafrumvarps, þar sem kveðið verði á um að tryggð verði túlkun á upplýsingum sem eru nauðsynlegar vegna samskipta foreldra og skóla.
Framkvæmd:     Skóladeild menntamálaráðuneytis.
Samstarfsaðili:     Samband íslenskra sveitarfélaga.
Tímabil:     Vorið 2008.
Kostnaðaráætlun:     Innan ramma.
Fjármögnun:     Samkvæmt samkomulagi ríkis og sveitarfélaga.
Afurð:     Verklagsreglur um túlkaþjónustu í leik- og grunnskólum.

Markmið:     Að innflytjendum á vinnumarkaði sé veitt túlkaþjónusta þegar brýnir hollustu- og öryggishagsmunir eru í húfi.

5.2 Verklagsreglur Vinnueftirlits ríkisins um túlkaþjónustu.
Ábyrgð:     Vinnueftirlit ríkisins.
Lýsing:    Samdar verði verklagsreglur um túlkaþjónustu sem tryggi starfsmönnum með takmarkaða íslenskukunnáttu túlkun ef aðstæður krefjast, til dæmis ef vinnuslys eða aðrir brýnir hollustu- og öryggishagsmunir eru fyrir hendi.
Framkvæmd:     Vinnueftirlit ríkisins.
Samstarfsaðilar:     Fjölmenningarsetur o.fl.
Tímabil:     2008–2009.
Kostnaðaráætlun:     Innan ramma.
Fjármögnun:     Innan ramma.
Afurð:    Verklagsreglur um túlkaþjónustu.

Markmið:    Tungumálaerfiðleikar hindri ekki að upplýsingar berist milli einstaklings og heilbrigðisstarfsmanns.

5.3 Verklagsreglur um túlkaþjónustu í heilbrigðisþjónustu.
Ábyrgð:     Heilbrigðisráðuneyti.
Lýsing:     Settar verði samræmdar verklagsreglur um túlkaþjónustu vegna sjúklinga sem hafa ekki vald á íslensku í samræmi við rétt þeirra til túlkunar, sbr. lög um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997.
Framkvæmd:     Landlæknisembættið.
Samstarfsaðili:     Fjölmenningarsetur.
Tímabil:     Fyrri hluti árs 2008.
Kostnaðaráætlun:     Innan ramma.
Fjármögnun:     Innan ramma.
Afurð:    Verklagsreglur um túlkaþjónustu.

Markmið:    Túlkaþjónusta sé aðgengileg öllum fullorðnum sem búa við fötlun, fötluðum börnum og foreldrum þeirra.

5.4 Túlkaþjónusta fyrir þá sem búa við fötlun og þurfa á sértækri þjónustu að halda.
Ábyrgð:     Félags- og tryggingamálaráðuneyti.
Lýsing:     Túlkaþjónusta fyrir þá sem þurfa að leita sér þjónustu svæðisskrifstofa sé aðgengileg og til staðar séu skýrar verklagsreglur um framkvæmd hennar. Sett séu til dæmis viðmið um fjölda viðtala.
Framkvæmd:     Svæðisskrifstofur um málefni fatlaðra.
Samstarfsaðilar:    Svæðisskrifstofur og aðrir þjónustuaðilar sem veita fólki með fötlun þjónustu, Fjölmenningarsetur o.fl.
Tímabil:     1. janúar – 1. mars 2009.
Kostnaðaráætlun:     300.000 kr.
Fjármögnun:     Innan ramma.
Afurð:    Verklagsreglur.

Markmið:     Tungumálaerfiðleikar hindri ekki að upplýsingar berist milli foreldra og sérfræðinga sem annast greiningu barns, ráðgjöf og eftirfylgni.

5.5 Verklagsreglur um túlka- og þýðingaþjónustu við greiningu fatlaðra barna.
Ábyrgð:     Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.
Lýsing:     Viðmiðunar- og verklagsreglur Greiningarstöðvar um túlkun við athuganir, greiningar, ráðgjöf og eftirfylgd verði bættar. Gerð verði áætlun um þýðingar á greiningarskýrslum sem eru afhentar foreldrum í lok greiningar.
        Greiningar- og ráðgjafarstöð leiðbeini frumgreiningaraðilum um slíkar verklagsreglur.
Framkvæmd:     Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.
Samstarfsaðilar:     Frumgreiningaraðilar.
Tímabil:     2009.
Kostnaðaráætlun:     1.000.000 kr.
Fjármögnun:     Tillögur á fjárlögum.
Árangur/mat:    Birtist í handbók Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins.
Afurð:     Verklagsreglur um túlkaþjónustu, þýðingar og framkvæmd þeirra hafa tekið gildi.

5.6 Fræðsla fyrir túlka.
Ábyrgð:     Heilbrigðisráðuneyti.
Lýsing:     Haldin verði námskeið í túlkun innan heilbrigðisþjónustu sem taki mið af þörfum starfsfólks og notenda af erlendum uppruna.
Framkvæmd:     Landlæknisembættið.
Samstarfsaðili:     Fjölmenningarsetur.
Tímabil:     2008–2009.
Kostnaðaráætlun:     Innan ramma.
Fjármögnun:     Innan ramma.
Afurð:    Námskeið.

5.7 Námskeið fyrir túlka.
Ábyrgð:     Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.
Lýsing:     Efnt verði til námskeiðs í túlkun á sviði greiningarvinnu og ráðgjafar til foreldra.
Framkvæmd:     Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.
Samstarfsaðilar:     Fjölmenningarsetur og Framhaldsskólinn á Ísafirði.
Tímabil:     2008.
Kostnaðaráætlun:     300.000 kr.
Fjármögnun:     Með námskeiðsgjöldum.
Árangur/mat:    Tilboð um námskeið verði kynnt á haustmisseri 2008.
Afurð:    Námskeið.

Markmið:    Tungumálaerfiðleikar hindri ekki að nauðsynlegar upplýsingar berist milli stofnana og starfsfólks innan barnaverndar annars vegar og foreldra hins vegar.

5.8 Verklagsreglur Barnaverndarstofu um túlkaþjónustu.
Ábyrgð:     Barnaverndarstofa.
Lýsing:     Samdar verði leiðbeinandi verklagsreglur um túlkaþjónustu sem tryggi að foreldrum og börnum af erlendum uppruna verði boðin túlkaþjónusta þegar þess er þörf.
Framkvæmd:     Barnaverndarstofa.
Samstarfsaðili:     Fjölmenningarsetur.
Tímabil:     Júní 2008.
Kostnaðaráætlun:     500.000 kr. á ári.
Fjármögnun:     Innan ramma 2008.
Árangur/mat:    Öll börn og foreldrar sem hafa ekki náð tökum á íslensku máli fái túlkaþjónustu.
Afurð:    Verklagsreglur um túlkaþjónustu.

6.     Móttaka við búsetuflutning.
    Á vettvangi sveitarfélaga er vaxandi áhugi fyrir því að koma á skipulögðu móttökuferli vegna nýrra íbúa af erlendum uppruna sem setjast að í viðkomandi sveitarfélagi. Nokkur tilraunaverkefni sem að þessu lúta eru í vinnslu og hafa þau verið styrkt af þróunarsjóði innflytjendamála. Markmið móttökuáætlananna er að kynna nærsamfélagið, þjónustu bæði sveitarfélagsins og opinberra stofnana á búsetusvæðinu og möguleika til félagsstarfs í þeim tilgangi að virkja innflytjendur sem fyrst til þátttöku í samfélaginu og koma í veg fyrir félagslega einangrun. Með þessum hætti fengju innflytjendur allar helstu upplýsingar á einum stað og flýtt yrði fyrir aðlögun þeirra og aðgengi að þjónustu. Í mörgum tilvikum er gert ráð fyrir því að nýir íbúar fái liðveitendur eða félagslega tengiliði frá félagasamtökum á borð við Rauða kross Íslands eða frá öðrum sem starfa innan sveitarfélagsins og hefur slíkt reynst vel. Ein forsenda þess að slíkum móttökuáætlunum verði komið á er að sveitarfélögum berist upplýsingar um nýja íbúa fljótt og örugglega frá Þjóðskrá. Því verði þjónusta Þjóðskrár við sveitarfélög endurskoðuð. Ríkisstjórnin vill styðja við þessa þróun og mun Fjölmenningarsetur fá það verkefni að miðla fyrirmyndum og lærdómi af þessum tilraunaverkefnum til annarra sveitarfélaga.

Markmið:     Sveitarfélögum verði auðveldað að koma á skipulögðu móttökuferli fyrir nýja íbúa og stuðla þannig að aðlögun og þátttöku þeirra í nærsamfélaginu.

6.1 Fyrirmynd að móttökuáætlun sveitarfélaga.
Ábyrgð:     Félags- og tryggingamálaráðuneyti.
Lýsing:    Útbúin verði fyrirmynd að móttökuáætlun sveitarfélags sem miðist að því að tryggja að innflytjendur verði sem allra fyrst virkir þátttakendur í samfélaginu og fái strax við komuna til sveitarfélags í hendur upplýsingar um þjónustu sveitarfélagsins og ríkisins á viðkomandi búsetusvæði. Fyrirmyndin verði unnin á grundvelli reynslu af tilraunaverkefnum sveitarfélaga víða um land.
Framkvæmd:     Fjölmenningarsetur.
Samstarfsaðilar:     Einstök sveitarfélög og ríkisstofnanir og Samband íslenskra sveitarfélaga.
Tímabil:     Mars 2008 – apríl 2009.
Kostnaðaráætlun:     Innan ramma.
Fjármögnun:     Unnið meðal annars af verkefnisstjóra á Austfjörðum en staða hans er fjármögnuð af mótvægisaðgerðafé ríkisstjórnarinnar frá október 2007.
Árangur/mat:    Hlutfall sveitarfélaga með móttökuáætlun 2010.
Afurð:    Leiðbeiningar útgefnar af félags- og tryggingamálaráðuneyti.

Markmið:     Að gera sveitarfélögum kleift að setja sig í samband við aðflutta útlendinga .

6.2 Símiðlun upplýsinga um aðflutta útlendinga til sveitarfélaga.
Ábyrgð:     Dóms- og kirkjumálaráðuneyti.
Lýsing:     Áætlað er að á næstu árum verði fyrirkomulag íbúaskráningar hjá Þjóðskrá tekið til endurskoðunar, þar á meðal tæknilegt umhverfi skrárinnar. Við þá endurskoðun verði búið svo um hnúta að sveitarfélög fái tilkynningar um alla útlendinga sem flytjast til þeirra.
Framkvæmd:     Dóms- og kirkjumálaráðuneyti.
Samstarfsaðili:     Þjóðskrá.
Tímabil:     Ræðst af framgangi tæknilegrar endurnýjunar að öðru leyti.
Kostnaðaráætlun:     Hluti af kostnaði við tæknilega endurnýjun Þjóðskrár.
Fjármögnun:     Hluti af kostnaði við tæknilega endurnýjun Þjóðskrár.
Afurð:    Sjálfkrafa upplýsingar til sveitarfélaga um aðflutta útlendinga.

7.     Ríki og sveitarfélög sem atvinnurekendur.
    Ríkisstjórnin beinir því til allra opinberra stofnana, hvort sem þær eru í eigu ríkis eða sveitarfélaga, að stuðla að því að starfsmönnum þeirra af erlendum uppruna sé auðveldað íslenskunám og að þeir njóti fulls jafnréttis á við aðra starfsmenn hvað varðar kjör, réttindi, aðbúnað, starfsþróun og símenntun. Einkum er hvatt til þess að innflytjendum sé auðveldað að nýta menntun sína með því að þeim verði gert hægara um vik að fá viðurkenningu á erlendri starfsmenntun og námi. Þá er mælst til þess að stjórnendur opinberra stofnana leitist við að starfsfólk, eftir því sem við á, fái fræðslu um mismunandi menningarheima og fjölmenningarsamfélagið og að markvisst verði unnið gegn hvers kyns fordómum í garð minnihlutahópa. Bent er á að í mörgum tilvikum getur það bætt þjónustu að ráðnir séu innflytjendur í störf og þannig aukið við þekkingu og hæfni starfsliðsins í heild til að skilja og mæta þörfum notenda í fjölbreyttara samfélagi.

Markmið:    Mat og viðurkenning á erlendri starfsmenntun og námi verði einfaldað.

7.1 Viðurkenning á erlendri starfsmenntun og námi á vegum menntamálaráðuneytis.
Ábyrgð:     Menntamálaráðuneyti.
Lýsing:    Mat og viðurkenning á erlendri starfsmenntun og námi verði einfaldað og upplýsingar þar um þýddar á fleiri tungumál og gerðar aðgengilegar á vef ráðuneytisins sem og á vef Fjölmenningarseturs (www.mcc.is).
Framkvæmd:     Símenntunardeild.
Samstarfsaðilar:     Iðan fræðslusetur og Fræðsluskrifstofa atvinnulífsins.
Tímabil:     Í vinnslu.
Kostnaðaráætlun:     1.000.000 kr.
Fjármögnun:     Innan ramma.
Afurð:    Einfaldað mats- og viðurkenningarferli ásamt upplýsingum á netinu.

Markmið:    Mat og viðurkenning á erlendri starfsmenntun og námi verði einfalduð.

7.2 Viðurkenning á erlendri starfsmenntun og námi heilbrigðisstétta.
Ábyrgð:     Heilbrigðisráðuneyti.
Lýsing:    Mat og viðurkenning á erlendri starfsmenntun og námi heilbrigðisstétta verði einfaldað og upplýsingar þar um þýddar á fleiri tungumál og gerðar aðgengilegar á vef ráðuneytisins sem og á vef Fjölmenningarseturs (www. mcc.is).
Framkvæmd:     Heilbrigðisráðuneyti.
Samstarfsaðili:     Fjölmenningarsetur.
Tímabil:     Í vinnslu.
Kostnaðaráætlun:     Innan ramma.
Fjármögnun:     Innan ramma.
Afurð:    Einfaldað mats- og viðurkenningarferli ásamt upplýsingum á netinu.

Markmið:    Heilbrigðisstarfsfólki bjóðist í námi sínu og símenntun að fræðast um ólíka menningarheima og trúartengd viðhorf og siði að því leyti sem það skiptir máli gagnvart innflytjendum sem nýta sér heilbrigðisþjónustuna, einkum þegar staðið er frammi fyrir atburðum eins og fæðingu, sjúkdómum, þjáningu og dauða.

7.3 Nám og símenntun heilbrigðisstétta.
Ábyrgð:     Heilbrigðisráðuneyti.
Lýsing:    Bréf til allra menntastofnana sem koma að menntun heilbrigðisstétta til að brýna mikilvægi kennslu á þessu sviði.
Framkvæmd:     Landlæknisembættið.
Samstarfsaðilar:     Menntastofnanir heilbrigðisstétta.
Tímabil:     Fyrri árshelmingur 2008.
Kostnaðaráætlun:     Innan ramma.
Fjármögnun:     Innan ramma.
Afurð:    Bréf og fræðsla.

Markmið:    Tryggja að starfsmenn félagsþjónustunnar hafi þekkingu til að veita fólki af erlendum uppruna nauðsynlega þjónustu.

7.4 Fræðsluátak fyrir starfsmenn félagsþjónustu sveitarfélaga.
Ábyrgð:     Félags- og tryggingamálaráðuneyti.
Lýsing:    Efnt verði til námskeiða fyrir starfsmenn sveitarfélaganna í kjölfar samþykktar nýrra laga um félagsþjónustu sveitarfélaga einkum með tilliti til fjölmenningarsamfélagsins.
Framkvæmd:     Félags- og tryggingamálaráðuneyti.
Samstarfsaðilar:     Samband íslenskra sveitarfélaga og félagsráðgjafarskor Háskóla Íslands.
Tímabil:     2009.
Árangur/mat:    Hlutfall sveitarfélaga sem fá fræðslu.
Afurð:    Námskeið um allt land.

Markmið:    Starfsfólk fái fræðslu um þjónustu í fjölmenningarsamfélagi.

7.5 Fjölmenningarfræðsla starfsfólks Orkustofnunar.
Ábyrgð:     Orkustofnun.
Lýsing:    Námskeið um fjölmenningarleg samskipti.
Framkvæmd:     Orkustofnun.
Samstarfsaðili:     Alþjóðahús.
Tímabil:     2008–2009.
Kostnaðaráætlun:     Innan ramma.
Fjármögnun:     Innan ramma.
Árangur/mat:    Hlutfall starfsmanna sem sækir námskeið.
Afurð:    Námskeið.

7.6 Fjölmenningarfræðsla starfsfólks Íbúðalánasjóðs.
Ábyrgð:     Íbúðalánasjóður.
Lýsing:    Námskeið um fjölmenningarleg samskipti.
Framkvæmd:     Íbúðalánasjóður.
Samstarfsaðili:     Alþjóðahús.
Tímabil:     2008–2009.
Kostnaðaráætlun:     500.000 kr.
Fjármögnun:     Innan ramma.
Árangur/mat:    Hlutfall starfsmanna sem fengið hafa fræðslu.
Afurð:    Námskeið.

Markmið:    Að auka innsýn lögreglu í málefni innflytjenda.

7.7 Fjölgun starfsmanna lögreglu með fjölmenningarbakgrunn.
Ábyrgð:     Dóms- og kirkjumálaráðuneyti.
Lýsing:    Starfsmönnum verði fjölgað hjá lögregluembættum með bakgrunn og tungumálakunnáttu sem nýtist við meðferð mála sem snerta útlendinga.
Framkvæmd:     Dóms- og kirkjumálaráðuneyti og ríkislögreglustjóri.
Samstarfsaðili:     Lögregluskóli ríkisins.
Tímabil:     2008–2009.
Kostnaðaráætlun:     Óverulegur kostnaður.
Fjármögnun:     Innan ramma.
Afurð:    Fjölbreyttari bakgrunnur starfsliðs lögregluembætta.

Markmið:    Að auka þekkingu innan lögreglunnar á málefnum útlendinga.

7.8 Námskeið í Lögregluskóla ríkisins um málefni útlendinga.
Ábyrgð:     Dóms- og kirkjumálaráðuneyti.
Lýsing:    Haldin verði í Lögregluskóla ríkisins sérstök námskeið sem miði að því að auka sérþekkingu innan lögreglunnar á málefnum útlendinga.
Framkvæmd:     Lögregluskóli ríkisins.
Tímabil:     Haust 2008.
Kostnaðaráætlun:     Innan ramma.
Fjármögnun:     Innan ramma lögregluskólans.
Árangur/mat:    Hlutfall lögreglumanna sem fá fræðslu.
Afurð:    Fjölmenningarnámskeið Lögregluskóla ríkisins.

8.     Atvinnumál og atvinnuþátttaka.
    Helstu verkefni ríkisins á næstu árum á sviði atvinnumála útlendinga og innflytjenda beinast að samræmingu á skráningum, einföldun á veitingu atvinnuleyfa og auknu eftirliti með því að leyfi séu í gildi; að fræðslu og virku eftirliti með því að gildandi lög og kjarasamningar séu virtir; að því að fræðsla og eftirlit á sviði vinnuverndar nái til starfsmanna af erlendum uppruna og að því að innflytjendur hafi jafnan aðgang að vinnumarkaðsaðgerðum verði staðbundins eða tímabundins atvinnuleysis vart. Vinnumálastofnun skal sérstaklega huga að úrræðum til að styrkja stöðu ungs fólks af erlendum uppruna á vinnumarkaði. Loks eru fyrirhuguð námskeið á vegum Impru sem miða að því að virkja frumkvöðla meðal innflytjenda til að stofna eigin atvinnurekstur.

Markmið:    Útlendingar á innlendum vinnumarkaði njóti sömu kjara og réttinda og aðrir.

8.1 Bætt eftirlit með vinnustöðum.
Ábyrgð:     Vinnumálastofnun.
Lýsing:    Samstarf stjórnvalda og aðila vinnumarkaðar um eftirlit með að gildandi lög og kjarasamningar séu virt og dvalar- og atvinnuleyfi í gildi í kjölfar samþykktar frumvarpa um útlendinga og atvinnuréttindi útlendinga.
Framkvæmd:     Vinnumálastofnun.
Samstarfsaðilar:     Verkalýðsfélög, Alþýðusamband Íslands, Samtök atvinnulífsins, félags- og tryggingamálaráðuneyti og lögreglan.
Tímabil:     Viðvarandi verkefni.
Kostnaðaráætlun:     5–6.000.000 kr.
Fjármögnun:     Innan ramma.
Afurð:    Bætt eftirlit.

8.2 Fræðsla til atvinnurekenda.
Ábyrgð:     Vinnumálastofnun.
Lýsing:    Fræðsla og upplýsingamiðlun á netinu til atvinnurekenda um lög og reglur er gilda um ráðningu erlendra starfsmanna, hvort sem er á grundvelli laga um atvinnuréttindi útlendinga, samnings um Evrópska efnahagssvæðið og stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu og samnings milli ríkisstjórnar Íslands annars vegar og ríkisstjórnar Danmerkur og heimastjórnar Færeyja hins vegar.
Framkvæmd:     Vinnumálastofnun.
Samstarfsaðilar:     Skattyfirvöld, Vinnueftirlit ríkisins, lögregla, Þjóðskrá og Tryggingastofnun ríkisins.
Tímabil:     Viðvarandi verkefni.
Kostnaðaráætlun:     Vinna starfsmanna.
Fjármögnun:     Innan ramma.
Afurð:    Upplýsingaefni til atvinnurekenda á heimasíðu Vinnumálastofnunar og í dreifibréfum.

Markmið:    Útlendingar á innlendum vinnumarkaði njóti sömu vinnuverndar og aðrir starfsmenn.

8.3 Hert eftirlit með aðbúnaði, hollustuháttum og öryggi í þeim starfsgreinum þar sem fjöldi erlendra starfsmanna er mikill.
Ábyrgð:     Vinnueftirlit ríkisins.
Lýsing:    Vinnueftirlit ríkisins herði eftirlit í starfsgreinum og á vinnustöðum þar sem erlendir starfsmenn eru fjölmennir, svo sem í bygginga- og mannvirkjagerð, fiskvinnslu, hjá verslunum, á veitingastöðum, í umönnunarstörfum og víðar í samræmi við lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr. 46/1980, og auki upplýsingaflæði milli stofnunarinnar og Vinnumálastofnunar um vinnustaði þar sem vinnuaðstæður eru ófullnægjandi.
Framkvæmd:     Þróunar- og eftirlitsdeild og umdæmi Vinnueftirlits ríkisins.
Samstarfsaðilar:     Vinnumálastofnun.
Tímabil:     Viðvarandi verkefni.
Kostnaðaráætlun:     Innan ramma.
Fjármögnun:     Innan ramma.
Árangur/mat:    Fækkun slysa.
Afurð:    Hert eftirlit.

Markmið:    Upplýsingar, fræðsla og þjálfun á sviði vinnuverndar nái til erlendra starfsmanna.

8.4 Útgáfa og miðlun upplýsinga.
Ábyrgð:     Vinnueftirlit ríkisins.
Lýsing:    Útgáfa á fræðsluefni á íslensku fyrir atvinnurekendur og fyrir erlenda starfsmenn þeirra sem starfa í ólíkum starfsgreinum á nokkrum helstu tungumálum innflytjenda, bæði í formi bæklinga og upplýsingaefnis á heimasíðu Vinnueftirlitsins.
Framkvæmd:     Fræðsludeild Vinnueftirlits ríkisins.
Samstarfsaðilar:     Atvinnurekendur.
Tímabil:     2008.
Kostnaðaráætlun:     Innan ramma.
Fjármögnun:     Innan ramma.
Afurð:    Bæklingar og upplýsingar á vef.

8.5 Námskeið fyrir erlenda starfsmenn.
Ábyrgð:     Vinnueftirlit ríkisins.
Lýsing:    Námskeiðsgögn verði útbúin og boðið upp á námskeið í vinnuverndar- og öryggismálum á nokkrum helstu tungumálum erlendra starfsmanna á innlendum vinnumarkaði.
Framkvæmd:     Fræðsludeild Vinnueftirlits ríkisins.
Samstarfsaðili:     Félags- og tryggingamálaráðuneyti.
Tímabil:     2008–2010.
Kostnaðaráætlun:     Innan ramma.
Fjármögnun:     Innan ramma.
Afurð:    Námskeið og námskeiðsgögn.

Markmið:    Innflytjendur hafi jafnan aðgang á við aðra á vinnumarkaði að vinnumarkaðsaðgerðum með það að markmiði að þeir séu áfram virkir þátttakendur á vinnumarkaði.

8.6 Aðgengi að vinnumarkaðsaðgerðum.
Ábyrgð:     Vinnumálastofnun.
Lýsing:    Stuðlað skal áfram að aðgengi útlendinga sem hafa leyfi til að dveljast og starfa hér á landi að vinnumarkaðsaðgerðum missi þeir störf sín þar sem áhersla verður á einstaklingsmiðaða þjónustu og virka þátttöku einstaklingsins. Sérstaklega verði gætt að stöðu innflytjenda sem missa starf við fiskvinnslu.
Framkvæmd:     Vinnumálastofnun.
Samstarfsaðilar:     Vinnumarkaðsráð, sveitarfélög og verkalýðsfélög.
Tímabil:     Viðvarandi verkefni.
Kostnaðaráætlun:     Innan ramma.
Fjármögnun:     Innan ramma.
Árangur/mat:    Atvinnuleysi innflytjenda verði hlutfallslega ekki meira en annarra.

Markmið:    Ungir innflytjendur eigi kost á heildstæðri ráðgjöf og stuðningi til sjálfseflingar í námi og starfi.

8.7 Áætlun um stuðning við innflytjendur á unglingsaldri.
Ábyrgð:     Vinnumálastofnun.
Lýsing:    Mótuð verði áætlun um stuðning við innflytjendur á unglingsaldri til að auðvelda þeim að stunda nám við hæfi eða auka möguleika sína á vinnumarkaði á grundvelli tillagna frá verkefninu Framtíð í nýju landi.
Framkvæmd:     Vinnumálastofnun.
Samstarfsaðilar:     Menntamálaráðuneyti og Fjölsmiðjan.
Tímabil:     2008–2009.
Kostnaðaráætlun:     Innan ramma.
Fjármögnun:     Innan ramma.
Árangur/mat:    Árangur verði metinn að loknum tveimur árum eftir að úrræðum hefur verið komið á fót.
Afurð:    Stuðningsúrræði.

Markmið:    Að virkja frumkvöðla meðal innflytjenda.

8.8 Námskeið um stofnun fyrirtækja og framkvæmd viðskiptahugmyndar.
Ábyrgð:     Nýsköpunarmiðstöð Íslands.
Lýsing:    Námskeiðin Sóknarbraut og Vaxtarsprotar, auk námskeiðsins Brautargengis sem ætlað er konum, verði aðlöguð þörfum innflytjenda í þeim tilgangi að veita þeim aðgang að námskeiðum ætluðum frumkvöðlum í að þróa og hrinda viðskiptaáætlunum í framkvæmd.
Framkvæmd:     Impra.
Samstarfsaðilar:     Alþjóðahús, Fjölmenningarsetur og ýmsir sérfræðingar í viðskiptalífi.
Tímabil:     Fyrsta námskeiðið verði tilbúið haustið 2008, síðan haldið eftir þörfum.
Kostnaðaráætlun:     4.000.000 kr.
Fjármögnun:     Impra, styrkir og hófleg námskeiðsgjöld.
Árangur/mat:     Fjöldi námskeiða og þátttakenda.
Afurð:     Viðskiptaáætlanir nemenda.


9.     Skattamál.
    Innan fjármálaráðuneytis og embættis ríkisskattstjóra verði áfram unnið að því að einfalda skattskil útlendinga, bæði með því að bæta upplýsingagjöf og auðvelda þeim að skila rafrænum framtölum. Útgáfa skattkorta verði betur samræmd gildistíma dvalar- og atvinnuleyfa, svo sem með því að gefa út sérstök skattkort til þeirra er koma til tímabundinna starfa hingað til lands. Þá verði verkferlar við uppgjör skatta á brottflutningsári gerðir einfaldari og skjótvirkari þannig að útlendingar geti gert upp skattgreiðslur sínar að
fullu áður en þeir flytjast af landi brott.

Markmið:    Gildistími skattkorta og dvalar- og atvinnuleyfa útlendinga verði samræmdur.

9.1 Samræming á gildistíma skattkorta og dvalar- og atvinnuleyfa.
Ábyrgð:     Fjármálaráðuneyti.
Lýsing:    Samræming á gildistíma skattkorta og dvalar- og atvinnuleyfa og útgáfa tímabundinna skattkorta vegna ríkisborgara utan Evrópska efnahagssvæðisins, sbr. áfangaskýrslu vinnuhóps í febrúar 2008.
Framkvæmd:     Fjármálaráðuneyti.
Samstarfsaðilar:    Ríkisskattstjóri, félags- og tryggingamálaráðuneyti, Vinnumálastofnun og Útlendingastofnun.
Tímabil:     Í vinnslu.
Kostnaðaráætlun:     Innan ramma.
Fjármögnun:     Innan ramma.
Afurð:    Samræmdir gildistímar.

Markmið:    Að auðvelda útlendingum að skila skattframtali á netinu og gera skattskil erlendra ríkisborgara eins markviss og einföld og mögulegt er.

9.2 Framtalslaus skattskil útlendinga.
Ábyrgð:     Ríkisskattstjóri.
Lýsing:    Gera skattskil erlendra ríkisborgara eins markviss og einföld og mögulegt er.
Framkvæmd:     Ríkisskattstjóri.
Samstarfsaðilar:     Stofnanir sem annast málefni útlendinga svo og samtök launagreiðenda.
Tímabil:     Stefnt að framtalslausum skilum 2009.
Kostnaðaráætlun:     Innan ramma.
Fjármögnun:     Innan ramma.
Árangur/mat:    Einfaldari og réttari skil.
Afurð:    Réttari skattlagning og ánægðari skattgreiðendur.

Markmið:    Að ganga að fullu frá skattlagningu á brottfararári og þannig einfalda framkvæmd við álagningu gjalda og innheimtu.

9.3 Uppgjör útlendinga á brottflutningsári.
Ábyrgð:     Ríkisskattstjóri.
Lýsing:    Gera útlendingum kleift að ganga frá sínum skattamálum að fullu áður en þeir fara af landi brott.
Framkvæmd:     Ríkisskattstjóri.
Samstarfsaðilar:     Skattstjórar og ríkisbókhald.
Tímabil:     2008.
Kostnaðaráætlun:     Innan ramma.
Fjármögnun:     Innan ramma.
Árangur/mat:    Bætt þjónusta við þá sem flytja af landinu og mun betri og réttari skattskil. Færri áætlanir við álagningu.
Afurð:     Réttari skattlagning, auðveldari framtalsvinnsla og ánægðari gjaldendur.

Markmið:    Að fylgja eftir réttri skráningu og að tryggt sé að einungis þeir sem hafa dvalarleyfi fái skattkort.

9.4 Sérstök skattkort fyrir útlendinga sem koma til tímabundinna starfa.
Ábyrgð:     Ríkisskattstjóri.
Lýsing:    Skattkortaútgáfa endurskoðuð með það fyrir augum að samræma gildistíma þeirra og atvinnuleyfa.
Framkvæmd:     Ríkisskattstjóri.
Samstarfsaðilar:     Útlendingastofnun og Vinnumálastofnun.
Tímabil:     2008.
Kostnaðaráætlun:     Innan ramma.
Fjármögnun:     Innan ramma.
Árangur/mat:    Virkara eftirlit.
Afurð:    Betri yfirsýn og réttari skráning.

Markmið:    Að allir eigi greiðan aðgang að nauðsynlegum upplýsingum og gögnum til að geta sinnt sínum skattskilum.

9.5 Þýðing upplýsinga og gagna um skattamál.
Ábyrgð:     Ríkisskattstjóri.
Lýsing:    Þýðing skattframtala, helstu eyðublaða, leiðbeininga og bæklinga með upplýsingum um skattlagningu á Íslandi á þau tungumál sem fjölmennustu hópar innflytjenda skilja.
Framkvæmd:     Ríkisskattstjóri.
Samstarfsaðili:     Alþjóðahús.
Tímabil:     2008.
Kostnaðaráætlun:     Innan ramma.
Fjármögnun:     Innan ramma.
Árangur/mat:    Betri upplýsingagjöf.
Afurð:    Bætt þjónusta við þá sem ekki hafa íslensku að móðurmáli, bæði þá sem hafa sest hér að og þá sem starfa hér tímabundið.

Markmið:    Að gera erlendum ríkisborgurum auðvelt að nálgast upplýsingar um skattaleg málefni á vefnum á sínu móðurmáli.

9.6 Upplýsingavefur um skattamál.
Ábyrgð:     Ríkisskattstjóri.
Lýsing:    Hönnun og þróun vefs þar sem aðgengilegar eru upplýsingar á erlendum tungumálum.
Framkvæmd:     Ríkisskattstjóri.
Samstarfsaðili:     Fjölmenningarsetur.
Tímabil:     Stöðug þróun og uppfærsla.
Kostnaðaráætlun:     Innan ramma.
Fjármögnun:     Innan ramma.
Árangur/mat:    Betri upplýsingagjöf.
Afurð:    Bætt þjónusta við þá sem ekki hafa íslensku að móðurmáli, bæði þá sem hafa sest hér að og þá sem starfa hér tímabundið á vefnum www.rsk.is /international

10. Menntamál.
    Á skólakerfinu, þ.e. leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum, hvílir þung skylda á sviði menntunar og aðlögunar innflytjenda, en einnig hvað varðar undirbúning allrar æsku landsins undir líf og starf í fjölbreyttara samfélagi þar sem hæfni til að setja málefni í alþjóðlegt samhengi getur skipt sköpum um þróun efnahagslífsins og stöðu Íslands til framtíðar á alþjóðavettvangi. Í því felast dýrmæt tækifæri að efla unga innflytjendur til að verða öflugir fulltrúar Íslands í gegnum trausta þekkingu á gildum hins íslenska lýðræðissamfélags auk jafnhliða þekkingar á öðrum samfélögum, tungu þeirra og menningu.
    Verkefni menntakerfisins eru fyrst og fremst að styðja við samfélagsfræðslu, veita tækifæri til íslenskunáms, auðvelda nám í öðrum kennslugreinum, útvega viðeigandi námsgögn, vinna að aðlögun og fordómafræðslu og mennta kennara til að mæta fjölbreyttari þörfum nemendanna.
    Þá hvílir á menntamálayfirvöldum sú skylda að efla rannsóknir, auðvelda miðlun þekkingar, veita fjármagn og með öðrum hætti styðja menntastofnanir til að sinna þessu hlutverki. Menntamálaráðherra hefur lagt fram frumvörp um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla fyrir Alþingi sem taka mið að þessum skyldum menntakerfisins.
    Í framkvæmdaáætluninni er lagður grunnur að öflugri upplýsingamiðlun og bættu samstarfi skóla og foreldra af erlendum uppruna. Nokkur þeirra stefnumála sem voru sett fram í stefnu ríkisstjórnarinnar um aðlögun innflytjenda og varða menntamál hafa þegar komið til framkvæmda, svo sem endurútgáfa aðalnámskrár í íslensku sem öðru tungumáli fyrir grunnskóla. Þá er horft til þess að við endurskoðun á lögum um málefni bókasafna verði litið til þess hlutverks sem bókasöfn geta gegnt við upplýsingamiðlun til innflytjenda og stuðning við nám í móðurmáli.

Markmið:    Aðlögun nemenda að íslensku skólakerfi verði þeim þægileg og auðveld.

10.1 Áætlun um innritun og móttöku barna af erlendum uppruna í leik-, grunn- og framhaldsskólum.
Ábyrgð:     Menntamálaráðuneyti.
Lýsing:    Sérhver skóli geri áætlun um innritun og móttöku barna af erlendum uppruna sem taki mið af bakgrunni þeirra og færni í íslensku og móðurmáli, og eftir atvikum öðrum tungumálum, í þeim tilgangi að auðvelda nám, þátttöku og aðlögun að skólasamfélaginu. Starfsáætlanir leikskóla fjalli meðal annars um móttökuáætlun fyrir börn sem hafa annað móðurmál en íslensku. Grunnskólar taki á móti þessum nemendum samkvæmt móttökuáætlun skóla eða sveitarfélags. Ákvæði þessu lútandi verði í skólasamningum framhaldsskóla.
Framkvæmd:     Námskrárdeild og skóladeild menntamálaráðuneytis.
Samstarfsaðilar:     Samband íslenskra sveitarfélaga og framhaldsskólar.
Tímabil:     Viðvarandi.
Kostnaðaráætlun:     Innan ramma.
Fjármögnun:     Af fjárveitingum.
Árangur/mat:    Hlutfall skóla með móttökuáætlanir.
Afurð:    Móttökuáætlanir.

Markmið:    Nemendur í grunn- og framhaldsskólum njóti réttar til náms í íslensku sem öðru tungumáli.

10.2 Kennsla í íslensku sem öðru tungumáli í grunn- og framhaldsskólum.
Ábyrgð:     Menntamálaráðuneyti.
Lýsing:    Í nýju frumvarpi til laga um leikskóla er ítrekað að nú þegar fái börn kennslu í íslensku á forsendum þess skólastigs og á grundvelli einstaklingsmiðaðs náms. Enn skýrar er kveðið á um að grunnskólanemendur af erlendum uppruna eigi rétt á kennslu í íslensku sem öðru tungumáli skv. 16. gr. frumvarps til laga um grunnskóla. Framhaldsskólanemendur hafa sama rétt skv. 35. gr. frumvarps til laga um framhaldsskóla. Í reglugerð verði kveðið nánar á um rétt framhaldsskólanemenda til kennslu í íslensku svo og um tilhögun og mat á náminu.
Framkvæmd:     Menntamálaráðuneyti.
Samstarfsaðilar:     Grunn- og framhaldsskólar.
Tímabil:     Viðvarandi verkefni.
Kostnaðaráætlun:     Kostnaður metinn að samþykktum frumvörpum.
Fjármögnun:     Kostnaðarskipting ríkis og sveitarfélaga metin að samþykktum frumvörpum.
Afurð:    Ákvæði í grunn- og framhaldsskólalögum.

10.3 Endurskoðun aðalnámskrár í íslensku sem öðru tungumáli (ÍSA) fyrir framhaldsskóla.
Ábyrgð:     Menntamálaráðuneyti.
Lýsing:    Gefin verður út aðalnámskrá í íslensku sem öðru tungumáli fyrir framhaldsskóla.
Framkvæmd:     Námskrárdeild.
Tímabil:     Drög liggja fyrir.
Afurð:    Aðalnámskrár í ÍSA.

Markmið:    Nemendur njóti réttar síns til náms í íslensku sem öðru tungumáli í leik-, grunn- og framhaldsskólum (ÍSA: Íslenska sem annað mál).

10.4 Þróun og útgáfa námsgagna.
Ábyrgð:     Menntamálaráðuneyti.
Lýsing:    Stuðningur við þróun og útgáfu námsgagna til kennslu í íslensku sem öðru tungumáli í leik-, grunn- og framhaldsskólum.
Framkvæmd:     Skóladeild menntamálaráðuneytis og þróunarsjóður námsgagna.
Samstarfsaðilar:     Námsgagnastofnun.
Tímabil:     Viðvarandi verkefni.
Kostnaðaráætlun:     Innan ramma.
Fjármögnun:     Af ramma og þróunarsjóðsstyrkir.
Árangur/mat:    Fjöldi námsgagna fyrir viðeigandi skólastig.
Afurð:    Námsgögn í ÍSA.

Markmið:    Efla rafræna útgáfu orðabóka fyrir ýmis tungumál.

10.5 Útgáfa Lexin orðabókar/myndaorðabókar.
Ábyrgð:     Menntamálaráðuneyti.
Lýsing:    Íslensk útgáfa Lexin orðabóka/myndaorðabóka sem einkum er ætluð fólki með litla íslenskukunnáttu, börnum og ungmennum og þeim sem eru nýfluttir til landsins. Fyrsti áfangi felur í sér á annað þúsund myndir og 5.000 orð og annar áfangi 10.000 orð til viðbótar.
Framkvæmd:     Verkefnastjóri í innflytjendamálum.
Samstarfsaðilar:     Vinnuhópur menntamálaráðuneytis og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
Tímabil:     Fyrsti áfangi 2008, annar áfangi 2010.
Kostnaðaráætlun:     Innan ramma.
Fjármögnun:     Innan ramma.
Afurð:    Myndaorðabók á níu tungumálum.

Markmið:    Styrkja stöðu nemenda með annað móðurmál en íslensku í framhaldsskólum.

10.6 Úttekt á stöðu innflytjenda í framhaldsskólum.
Ábyrgð:     Menntamálaráðuneyti.
Lýsing:    Úttekt á stöðu framhaldsskólanemenda með annað móðurmál en íslensku og mótun tillagna til úrbóta af nefnd sem verði falið verkefnið.
Framkvæmd:     Skóladeild menntamálaráðuneytis.
Samstarfsaðilar:     Skólameistarar framhaldsskóla.
Tímabil:     Starfslok nefndar óákveðin.
Afurð:    Miðlun upplýsinga og tillögur um úrbætur.

10.7 Fjárveiting til framhaldsskóla vegna nemenda með annað móðurmál en íslensku.
Ábyrgð:     Menntamálaráðuneyti.
Lýsing:    Menntamálaráðuneyti eyrnamerki árlega sérstaka fjárveitingu fyrir nemendur í framhaldsskólum með annað móðurmál en íslensku.
Framkvæmd:     Skóladeild.
Tímabil:     Viðvarandi verkefni.
Kostnaðaráætlun:     19.000.000 kr. á fjárlögum 2007.
Fjármögnun:     Fjárlög.
Árangur/mat:    Hlutfall framhaldsskóla sem nýta tilboðið.
Afurð:    Styrkir til skóla.

10.8 Þýðingar á upplýsingum um framhaldsskólastigið.
Ábyrgð:     Menntamálaráðuneyti.
Lýsing:    Bæklingurinn Nám að loknum grunnskóla verði þýddur á átta helstu tungumál innflytjenda.
Framkvæmd:     Verkefnastjóri í innflytjendamálum.
Samstarfsaðilar:     Framhaldsskólar.
Tímabil:     2008.
Kostnaðaráætlun:     2.000.000 kr.
Árangur/mat:     Bæklingar liggja fyrir í drögum.
Afurð:    Upplýsingar um framhaldsskólastigið á átta erlendum tungumálum.

10.9 Þýðingar á upplýsingum um innritunarferli á framhaldsskólastigi.
Ábyrgð:     Menntamálaráðuneyti.
Lýsing:    Innritunarvefur framhaldsskóla verði þýddur á nokkur helstu tungumál innflytjenda.
Framkvæmd:     Verkefnastjóri í innflytjendamálum.
Samstarfsaðilar:     Framhaldsskólar.
Kostnaðaráætlun:     500.000 kr.
Afurð:    Upplýsingar um innritunarferli í framhaldsskóla á nokkrum tungumálum.

Markmið:    Nemendur fái eftir því sem kostur er tækifæri til að viðhalda móðurmáli sínu.

10.10 Viðurkenning móðurmáls í grunn- og framhaldsskólum ef annað en íslenska.
Ábyrgð:     Menntamálaráðuneyti.
Lýsing:    Grunnskólum sé heimilt að viðurkenna kunnáttu í móðurmáli nemenda með annað móðurmál en íslensku sem hluta af skyldunámi í stað skyldunáms í erlendu tungumáli. Móðurmál framhaldsskólanema af erlendum uppruna verði viðurkennt og metið til eininga. Móðurmáli verði viðhaldið í fjarnámi eða með öðrum hætti eftir því sem kostur er.
Framkvæmd:     Námskrárdeild.
Tímabil:     Vor 2008.

Markmið:    Stutt verði við verkefni bókasafna um bókakost á erlendum málum.

10.11 Bækur á móðurmáli.
Ábyrgð:     Menntamálaráðuneyti.
Lýsing:    Fylgst verði með og stutt við verkefni bókasafna um söfnun bókakosts á erlendum tungumálum og miðlun bóka í millisafnalánum sem meðal annars geti nýst nemendum við að viðhalda móðurmáli.
Framkvæmd:     Menntamálaráðuneyti.
Samstarfsaðilar:     Félag forstöðumanna bókasafna, sveitarfélög og bókasöfn.
Tímabil:     Viðvarandi.
Kostnaðaráætlun:     Innan ramma.
Fjármögnun:     Innan ramma.
Árangur/mat:    Fjöldi bóka og útlán á einstökum tungumálum.
Afurð:    Bókakostur á erlendum málum.

Markmið:    Foreldrum og forráðamönnum af erlendum uppruna verði auðvelduð þátttaka í skólastarfi.

10.12 Aukin tengsl skóla við heimili barna af erlendum uppruna.
Ábyrgð:     Menntamálaráðuneyti.
Lýsing:    Skólayfirvöld og kennarar leggi áherslu á að styrkja tengsl við heimili barna af erlendum uppruna, svo sem með því að hvetja foreldra til að mæta á fundi er varða börn þeirra og í foreldraviðtöl. Stöðluð bréf og skilaboð milli skóla og heimila verði þýdd á móðurmál sem flestra foreldra sem ekki tala íslensku.
Framkvæmd:     Skóladeild menntamálaráðuneytis.
Samstarfsaðilar:     Grunnskólar og Fjölmenningarsetur.
Tímabil:     Í vinnslu.
Kostnaðaráætlun:     Innan ramma.
Fjármögnun:     Innan ramma.
Árangur/mat:    Hlutfall foreldra barna af erlendum uppruna sem mæta í foreldraviðtöl.
Afurð:    Stöðluð bréf.

Markmið:    Framboð verði aukið af vel menntuðum kennurum sem hafa lært að kenna íslensku sem annað tungumál.

10.13 Skilgreining á kröfum til kennara í íslensku sem annað tungumál.
Ábyrgð:     Menntamálaráðuneyti.
Lýsing:    Lágmarkskröfur sem gera þarf til kennara sem kenna íslensku sem annað tungumál verði skilgreindar.
Framkvæmd:     Skrifstofa vísindamála og háskóla menntamálaráðuneytis.
Samstarfsaðili:     Kennaraháskóli Íslands.
Tímabil:     2008.
Kostnaðaráætlun:     Innan ramma.
Fjármögnun:     Innan ramma.
Afurð:    Skilgreindar kröfur til ÍSA-kennara.

10.14 Þjálfun í kennslu ÍSA í kennaranámi.
Ábyrgð:     Menntamálaráðuneyti.
Lýsing:    Inn í almennt kennaranám komi þjálfun kennaranema í kennslu íslensku sem annars tungumáls auk þess sem átak verði gert í námskeiðshaldi í kennslu ÍSA fyrir starfandi kennara.
Framkvæmd:     Menntamálaráðuneyti.
Samstarfsaðilar:     Kennaraháskóli Íslands, Endurmenntun Háskóla Íslands, Háskólinn á Akureyri og Háskólinn í Reykjavík.
Tímabil:     Viðvarandi verkefni.
Kostnaðaráætlun:     Innan ramma.
Fjármögnun:     Innan ramma.
Afurð:    Sérþjálfaðir ÍSA-kennarar.

11. Heilbrigðisþjónusta.
    Innflytjendur eiga að hafa sama aðgang að heilbrigðisþjónustu og aðrir landsmenn. Til að þeir geti nýtt sér hana er brýnt að upplýsingar um heilbrigðiskerfið og sjúkratryggingar séu aðgengilegar á helstu tungumálum sem innflytjendur tala. Auk þess getur reynst nauðsynlegt að tryggja aðgang þeirra að upplýsingum um einstaka sjúkdóma og meðferðir. Lög um réttindi sjúklinga veita þeim sem ekki skilja íslensku lögvarðan rétt til túlkaþjónustu, en huga þarf að því að efla menntun túlka sem sérhæfa sig í túlkun innan heilbrigðiskerfisins og koma upp fagorðabönkum þeim til stuðnings.
    Þá er brýnt að tryggja að innflytjendur nýti sér mæðraskoðun og ungbarnavernd, að forvarnastarf nái til þeirra og að brugðist verði hratt og vel við sértækum heilsufarsvandamálum sem upp kunna að koma. Heilbrigðisstarfsfólk verði frætt um mismunandi menningarheima sem skipt geta máli fyrir meðhöndlun fólks af ólíkum uppruna. Þá skiptir máli að skráningar séu bættar til að unnt sé að fylgjast með því til framtíðar hvort sérstök vandamál tengd heilsu bitni frekar á innflytjendum en öðrum hópum.

Markmið:    Innflytjendur hafi jafnan aðgang að fullnægjandi heilbrigðisþjónustu á við aðra landsmenn í samræmi við lög um heilbrigðisþjónustu, lög um sjúkratryggingar og lög um réttindi sjúklinga.

11.1 Umburðarbréf til stjórnenda heilbrigðisstofnana.
Ábyrgð:     Heilbrigðisráðuneyti.
Lýsing:    Umburðarbréf verði sent til stjórnenda stofnana heilbrigðisráðuneytisins til að árétta að stjórnendur þeirra fylgist með því að öll starfsemi stofnunar sé í samræmi við markmið um jafnan aðgang og fullnægjandi heilbrigðisþjónustu.
Framkvæmd:     Landlæknisembættið.
Tímabil:     2008.
Kostnaðaráætlun:     Innan ramma.
Fjármögnun:     Innan ramma.
Afurð:    Umburðarbréf.

11.2 Endurskoðun skráninga í heilbrigðiskerfi.

Ábyrgð:     Heilbrigðisráðuneyti.
Lýsing:    Mótuð verði stefna og gefnar út leiðbeiningar um skráningar í heilbrigðiskerfinu þannig að þær endurspegli starfsemi heilbrigðisþjónustunnar, heilsuvanda skjólstæðinga og úrlausnir þegar um þjónustu við innflytjendur er að ræða.
Framkvæmd:     Landlæknisembættið.
Samstarfsaðili:     Fjölmenningarsetur.
Tímabil:     2008–2010.
Kostnaðaráætlun:     Innan ramma.
Fjármögnun:     Innan ramma.
Afurð:    Leiðbeiningar og verklagsreglur.

11.3 Áætlun um mæðraskoðun og ungbarnaeftirlit.
Ábyrgð:     Heilbrigðisráðuneyti.
Lýsing:    Mótuð verði sérstök áætlun á heilsugæslustöðvum um mæðraskoðun og ungbarnaeftirlit sem taki mið af þörfum foreldra af erlendum uppruna.
Samstarfsaðilar:     Heilsugæslustöðvar, Miðstöð mæðraverndar og Miðstöð heilsuverndar barna.
Tímabil:     2008.
Kostnaðaráætlun:     Innan ramma.
Fjármögnun:     Innan ramma.
Árangur/mat:    Hlutfall mæðra og ungbarna af erlendum uppruna sem njóta fullrar þjónustu.
Afurð:    Áætlun um mæðraskoðun og ungbarnaeftirlit.

11.4 Upplýsingar fyrir alla.
Ábyrgð:     Heilbrigðisráðuneyti.
Lýsing:    Eyðublöð, leiðbeiningar og fræðsluefni verði þýdd á helstu móðurtungur innflytjenda, gefin út á prentuðu formi og birt á netinu eftir þörfum, sem og gefnar út orðskýringar á helstu hugtökum í heilbrigðisþjónustu.
Framkvæmd:     Landlæknisembættið.
Samstarfsaðili:     Fjölmenningarsetur.
Tímabil:     2008–2010.
Kostnaðaráætlun:     Innan ramma.
Fjármögnun:     Innan ramma.
Afurð:    Upplýsingar í bæklingum og á vef.

Markmið:    Upplýsingar um sjúkratryggingar og skipulag og uppbyggingu heilbrigðisþjónustu verði aðgengilegar innflytjendum.


11.5 Útgáfa upplýsingaefnis.
Ábyrgð:     Heilbrigðisráðuneyti.
Lýsing:    Gefinn verði út bæklingur á nokkrum helstu móðurmálum innflytjenda hérlendis með hagnýtum upplýsingum um heilbrigðisþjónustu, sjúkratryggingar, réttindi sjúklinga og leiðbeiningum um viðbrögð þegar neyðarþjónustu er þörf.
Framkvæmd:     Heilbrigðisráðuneyti.
Samstarfsaðilar:     Tryggingastofnun ríkisins og landlæknisembættið.
Tímabil:     2008.
Kostnaðaráætlun:     Innan ramma.
Fjármögnun:     Innan ramma.
Afurð:    Bæklingur.

11.6 Upplýsingamiðlun heilbrigðisstofnana.
Ábyrgð:     Heilbrigðisráðuneyti.
Lýsing:    Umburðarbréf til heilbrigðisstofnana um að þær vinni grunnupplýsingar um þjónustu sína og birti á nokkrum móðurtungum innflytjenda hérlendis, meðal annars á eigin vef og á vef Fjölmenningarseturs (www.mcc.is).
Framkvæmd:     Landlæknisembættið.
Tímabil:     Fyrri hluti árs 2008.
Kostnaðaráætlun:     Innan ramma.
Fjármögnun:     Innan ramma.
Árangur/mat:    Hlutfall heilbrigðisstofnana með fullnægjandi upplýsingar á vef.
Afurð:    Upplýsingar á vef.

Markmið:    Hugað sé að sértækum heilsufarsvandamálum innflytjenda með það að markmiði að bæta heilsufar þeirra.

11.7 Heilbrigðisskoðanir innflytjenda.

Ábyrgð:     Heilbrigðisráðuneyti.
Lýsing:    Við endurskoðun á reglugerð um læknisskoðanir á innflytjendum verði skilgreindar áherslur í heilbrigðisskoðunum útlendinga við komu þeirra til landsins vegna útgáfu dvalarleyfa, ábyrgð á framkvæmd þeirra og meðferð á þeim vandamálum er greinast kunna.
Framkvæmd:     Sóttvarnalæknir hjá landlæknisembætti.
Tímabil:     2008–2009.
Kostnaðaráætlun:     Innan ramma.
Fjármögnun:     Innan ramma.
Afurð:    Reglugerð.

Markmið:    Forvarnastarf á sviði heilsu nái til innflytjenda.
    
11.8 Forvarnir fyrir alla.
Ábyrgð:     Heilbrigðisráðuneyti.
Lýsing:    Upplýsingaefni um tiltekna áhættuþætti fyrir heill og heilbrigði verði gert aðgengilegt á helstu móðurtungum innflytjenda hérlendis og unnið markvisst að fræðslu til innflytjenda um forvarnir og heilsueflingu, svo sem á vinnustöðum og í skólum.
Framkvæmd:     Lýðheilsustöð.
Samstarfsaðilar:     Félagasamtök, skólar o.fl.
Tímabil:     Viðvarandi verkefni.
Kostnaðaráætlun:     Innan ramma.
Fjármögnun:     Innan ramma.
Afurð:    Upplýsingaefni og fræðsla.

12. Félagsþjónusta.
    Lög um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, kveða á um umfangsmikla þjónustu við íbúa sveitarfélaganna. Markmið laganna er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar og skal það gert með því að tryggja lífskjör þeirra sem standa höllum fæti, veita aðstoð til þess að íbúar búi sem lengst í heimahúsum og grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir félagsleg vandamál. Mikilvægt er að lögin endurspegli þann veruleika sem birtist í fjölgun innflytjenda á Íslandi og er hér lagt til að farið verði yfir lögin í þeim tilgangi.

Markmið:    Sveitarstjórnir tryggi að innflytjendur hafi sama aðgang að félagsþjónustu og aðrir íbúar sveitarfélagsins.

12.1 Félagsþjónusta fyrir alla.
Ábyrgð:     Félags- og tryggingamálaráðuneyti.
Lýsing:    Efnt verði til sérstaks samráðs milli félags- og tryggingamálaráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga með það í huga að tryggja að börn og fjölskyldur innflytjenda hafi greiðan aðgang að félagsþjónustu. Meðal annars verði meginatriði laga um félagsþjónustu sveitarfélaga þýdd á þau tungumál sem flestir innflytjendur skilja.
Framkvæmd:     Félags- og tryggingamálaráðuneyti.
Samstarfsaðilar:     Samband íslenskra sveitarfélaga og Fjölmenningarsetur.
Tímabil:     2008–2009.
Kostnaðaráætlun:     500.000 kr.
Afurð:    Upplýsingar og þýðingar á efni um félagsþjónustu sveitarfélaga.

12.2 Endurskoðun laga um félagsþjónustu sveitarfélaga.
Ábyrgð:     Félags- og tryggingamálaráðuneyti.
Lýsing:    Hugað verði sérstaklega að þörfum innflytjenda, bæði barna og fullorðinna, við endurskoðun laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, meðal annars á túlkun í viðtölum vegna félagslegrar ráðgjafar og aðstoðar við erlenda ríkisborgara í neyð.
Framkvæmd:     Félags- og tryggingamálaráðuneyti.
Samstarfsaðili:     Samband íslenskra sveitarfélaga.
Tímabil:     2009.
Kostnaðaráætlun:     Innan ramma.
Fjármögnun:     Innan ramma.
Afurð:    Frumvarp.

13. Málefni fatlaðra.
    Innflytjendur eiga að njóta sömu þjónustu og aðrir landsmenn vegna hvers konar fötlunar. Verkefni viðeigandi stofnana á þessu sviði snúa fyrst og fremst að fræðslu til innflytjendasamfélagsins um þá þjónustu og úrræði sem í boði eru, en einnig að starfsmönnum í málaflokknum svo að tryggt verði að menningarmunur, tungumálaerfiðleikar eða aðrir þættir hindri ekki greiningu, þjónustu eða upplýsingamiðlun. Í þessu samhengi er mikilvægt að meðferðaraðilar séu upplýstir um mismunandi menningarheima og að stutt verði við menntun og bjargir túlka á þessu sérhæfða sviði.

Markmið:    Að kynna fólki af erlendum uppruna þjónustu sem fólki með fötlun stendur til boða og upplýsa um réttindi þeirra.

13.1 Aðgengilegar upplýsingar um réttindi.
Ábyrgð:     Félags- og tryggingamálaráðuneyti.
Lýsing:    Að á svæðisskrifstofum séu aðgengilegar upplýsingar á a.m.k. fimm erlendum tungumálum um þá opinberu þjónustu sem stendur til boða.
Framkvæmd:     Félags- og tryggingamálaráðuneyti.
Samstarfsaðilar:     Svæðisskrifstofur málefna fatlaðra, þjónustuaðilar sem hafa yfirtekið þjónustu við fatlaða samkvæmt samningi, Fjölmenningarsetur o.fl.
Tímabil:     Maí 2008 – janúar 2009.
Kostnaðaráætlun:     500.000 kr.
Fjármögnun:     Innan ramma.
Árangur/mat:    Allir þeir sem skráðir eru erlendir að uppruna hafi fengið upplýsingabækling um réttindi í febrúar 2009.
Afurð:    Upplýsingabæklingur.

Markmið:    Að innflytjendum með fötlun sé boðið upp á sérstaka fræðslu um helstu þætti velferðarþjónustunnar sem sé sérsniðin að þörfum innflytjenda.

13.2 Sérstakt fræðsluefni fyrir hópa og einstaklinga.
Ábyrgð:     Félags- og tryggingamálaráðuneyti.
Lýsing:    Búið verði til sérstakt fræðsluefni sem hægt sé að nota á fræðslufundum þar sem sérstaklega verði farið í ýmsa þætti þjónustu velferðarkerfisins.
Framkvæmd:     Svæðisskrifstofur málefna fatlaðra.
Samstarfsaðilar:     Þjónustuaðilar sem hafa yfirtekið þjónustu við fatlaða samkvæmt samningi, Fjölmenningarsetur, þeir sem bjóða upp á túlkaþjónustu o.fl.
Tímabil:     Janúar 2009 – desember 2009.
Kostnaðaráætlun:     500.000 kr.
Fjármögnun:     Innan ramma.
Árangur/mat:    Að minnst 100 einstaklingar notfæri sér þjónustuna.
Afurð:    Tíu námskeið.

Markmið:    Að hvers konar efni og upplýsingar um fatlanir séu aðgengilegar og boðið sé upp á gagnvirkt samband.

13.3 Gagnvirkt vefumhverfi á þremur tungumálum.
Ábyrgð:     Félags- og tryggingamálaráðuneyti.
Lýsing:    Vefumhverfi þar sem þeir sem búa við fötlun geta lagt fram spurningar og fengið svör á þremur tungumálum.
Framkvæmd:     Félags- og tryggingamálaráðuneyti.
Samstarfsaðilar:     Svæðisskrifstofur og aðrir þjónustuaðilar sem veita fólki með fötlun þjónustu og Fjölmenningarsetur.
Tímabil:     1. janúar – 1. mars 2009.
Kostnaðaráætlun:     500.000 kr.
Árangur/mat:     Að 80% þeirra sem búa við fötlun og þurfa sértæka þjónustu geti nýtt sér þessa þjónustu.
Afurð:    Vefumhverfi í tengslum við vef ráðuneytis og Island.is (www.island.is).

Markmið:    Að auka tengsl fullorðinna fatlaðra og foreldra fatlaðra við hagsmunasamtök fatlaðra.

13.4 Samstarfsverkefni um tengsl við hagsmunasamtök fatlaðra.
Ábyrgð:     Félags- og tryggingamálaráðuneyti.
Lýsing:    Samstarfsverkefni sem miðar að því að þjónustuaðilar veki sérstaka athygli á starfsemi hagsmunasamtaka fatlaðra og hafi milligöngu um tengsl fullorðinna fatlaðra og foreldra fatlaðra við hagsmunasamtökin.
Framkvæmd:     Félags- og tryggingamálaráðuneyti.
Samstarfsaðilar:     Hagsmunasamtök fatlaðra, svæðisskrifstofur, Tryggingastofnun ríkisins, aðrir þjónustuaðilar sem veita fólki með fötlun þjónustu og Fjölmenningarsetur.
Tímabil:     1. janúar – 1. maí 2009.
Kostnaðaráætlun:     Innan ramma.
Fjármögnun:     Framlag starfsmanna.
Árangur/mat:    Að helmingur þeirra sem leita þjónustu svæðisskrifstofa tengist hagsmunasamtökum.
Afurð:    Skilgreint verklag og samstarfsvettvangur.

Markmið:    Upplýsingar um málefni fatlaðra, þjónustu við fötluð börn og umönnunargreiðslur verði aðgengilegar innflytjendum.

13.5 Upplýsingamiðlun til innflytjenda.
Ábyrgð:     Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.
Lýsing:    Vefsvæði Greiningar- og ráðgjafarstöðvar verði eflt með tilliti til þarfa innflytjenda þannig að helstu upplýsingar um málefni fatlaðra, lagaumhverfi, þjónustu við fötluð börn, umönnunargreiðslur o.fl. verði þýddar á algengustu tungumál innflytjenda og birtar á vef stofnunarinnar. Á vefsíðum Fjölmenningarseturs (www.mcc.is) og Island.is (www.island.is) verði settir inn tenglar á síðu Greiningarstöðvarinnar. Settir verði inn tenglar um fatlanir á algengustu tungumál innflytjenda frá stofnunum í öðrum löndum.
Framkvæmd:     Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.
Tímabil:     Haustmisseri 2008.
Kostnaðaráætlun:     300.000 kr.
Fjármögnun:     Innan ramma.
Árangur/mat:     Verkefnið er á lokastigi og upplýsingar verða til prentaðar og á vefsvæði Greiningarstöðvarinnar innan tíðar á serbnesku, rússnesku, pólsku, spænsku, ensku, filippseysku og taílensku.
Afurð:     Endurskoðað vefsvæði og skriflegar upplýsingar á helstu tungumálum innflytjenda.

13.6 Áætlun um þýðingar á greiningarskýrslum.
Ábyrgð:     Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.
Lýsing:    Gerð verði áætlun um þýðingar á greiningarskýrslum sem eru afhentar foreldrum í lok greiningar.
Framkvæmd:     Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.
Tímabil:     2009.
Kostnaðaráætlun:     Innan ramma.
Fjármögnun:     Innan ramma.
Afurð:    Áætlun um þýðingar.

13.7 Fagorðabanki.
Ábyrgð:     Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.
Lýsing:    Komið verði upp gagnabanka með fagorðum og útskýringum á þeim á algengustu tungumálum innflytjenda til að auðvelda túlkun og skilning innflytjenda á margvíslegum tegundum fatlana og einkennum þeirra.
Framkvæmd:     Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.
Samstarfsaðili:     Fjölmenningarsetur og Íslensk málstöð.
Tímabil:     2008–2010.
Kostnaðaráætlun:     Innan ramma.
Fjármögnun:     Innan ramma.
Afurð:    Fagorðabanki.

14. Barnavernd.
    Nauðsynlegt er að barnaverndaryfirvöld haldi árvekni sinni og fylgist með hvort þörf sé á sértækum verkefnum eða aðgerðum til að tryggja að börn innflytjenda njóti þeirrar verndar og stuðnings sem íslensk löggjöf tryggir börnum óháð uppruna. Í því samhengi er mikilvægt að barnaverndaryfirvöld haldi skrár sem þjóna þessum tilgangi og að þau tryggi að nauðsynlegar upplýsingar berist foreldrum er njóta stuðnings stofnana sem starfa á málasviðinu. Barnaverndarstofa mun styðja barnaverndarnefndir sveitarfélaga til að auðvelda þeim að sinna hlutverki sínu.

Markmið:    Börn af erlendum uppruna njóti þeirrar verndar sem íslensk löggjöf á sviði barnaverndarmála kveður á um.

14.1 Leiðarljós fyrir barnaverndarnefndir sveitarfélaga.
Ábyrgð:     Barnaverndarstofa.
Lýsing:    Útbúin verði leiðarljós fyrir barnaverndarnefndir til að auðvelda þeim að uppfylla lagaskyldu um að gera framkvæmdaáætlun í barnaverndarmálum sem feli í sér markmið sem stuðla að bættum hag barna af erlendum uppruna.
Framkvæmd:     Barnaverndarstofa.
Samstarfsaðilar:     Barnaverndarnefndir sveitarfélaga.
Tímabil:     2008.
Kostnaðaráætlun:     Vinnuframlag starfsmanna.
Fjármögnun:     Innan ramma.
Árangur/mat:    Helmingur áætlana endurspegli málefni barna af erlendum uppruna.
Afurð:    Leiðarljós fyrir barnaverndarnefndir.

Markmið:    Fylgst verði með heill barna af erlendum uppruna til að leggja megi grunn að mögulegum aðgerðum á sviði barnaverndar reynist tilefni til.

14.2 Skráning barnaverndarmála vegna barna af erlendum uppruna.
Ábyrgð:     Barnaverndarstofa.
Lýsing:    Í tölfræðivinnslu verði börn af erlendum uppruna sérgreind og samtölublöð innihaldi upplýsingar um fjölda barna af erlendum uppruna til meðferðar hjá barnaverndarnefndum og þannig fengin yfirsýn yfir hvort þau endurspegli þýðið hvað fjölda og eðli mála áhræri.
Framkvæmd:     Barnaverndarstofa.
Samstarfsaðilar:     Barnaverndarnefndir.
Tímabil:     2008.
Kostnaðaráætlun:     Vinnuframlag starfsmanna.
Fjármögnun:     Innan ramma.
Árangur/mat:    80% nefnda skili viðunandi skráningu.
Afurð:    Yfirlit yfir fjölda og eðli mála þar sem börn af erlendum uppruna eiga í hlut.

14.3 Upplýsingar til foreldra barna af erlendum uppruna.
Ábyrgð:     Barnaverndarstofa.
Lýsing:    Upplýsingaefni sem foreldrar fá við komu barna á meðferðarheimili verði þýtt á móðurmál þeirra.
Framkvæmd:     Barnaverndarstofa.
Samstarfsaðilar:     Meðferðarheimili.
Tímabil:     2008.
Kostnaðaráætlun:     500.000 kr.
Fjármögnun:     Innan ramma.
Árangur/mat:    Allir foreldrar sem hafa ekki tök á íslensku máli fái upplýsingar á móðurmáli sínu.
Afurð:    Bæklingar og túlkun.

Markmið:    Stofnanir sem starfa undir Barnaverndarstofu setji sér markmið og verklagsreglur um meðferð barna af erlendum uppruna sem meðal annars verði kynnt í ársskýrslu Barnaverndarstofu 2009.

14.4 Tilmæli og leiðbeiningar til meðferðarheimila vegna barna af erlendum uppruna.
Ábyrgð:     Barnaverndarstofa.
Lýsing:    Barnaverndarstofa leiðbeini meðferðarheimilum um markmiðssetningu og verklag vegna barna af erlendum uppruna, sem meðal annars nái til fræðslu gegn kynþáttafordómum innan heimilanna og gerðar meðferðar- og útskriftaráætlana.
Framkvæmd:     Barnaverndarstofa.
Samstarfsaðilar:     Meðferðarheimili.
Tímabil:     Verklag liggi fyrir 1. janúar 2009.
Kostnaðaráætlun:     Vinnuframlag starfsmanna.
Fjármögnun:     Innan ramma.
Árangur/mat:    Öll meðferðarheimili setji sér markmið og verklagsreglur.
Afurð:    Markmiðssetning og verklagsreglur.

15. Íslenskunám fyrir fullorðna.
    Íslenskukennslu fyrir fullorðna hefur fleygt fram á undanförnum árum, einkum eftir að menntamálaráðuneytið ákvað árið 2007 að verja 190.000.000 kr. til að styrkja fræðsluaðila og fyrirtæki til að halda íslenskunámskeið og til námsefnis- og námskrárgerðar um íslenskukennslu fyrir fullorðna. Sú námskrá liggur nú fyrir og byggist hún á viðmiðunarramma Evrópuráðsins fyrir erlend tungumál. Styrkveitingarnar hafa einnig stuðlað að því að íslenskunámskeið eru þátttakendum nú ódýrari. Áfram verði veittar ámóta fjárhæðir í þessu skyni.
    Mikilvægustu verkefnin framundan snerta gerð gæðaviðmiðana og námsefnis, auk þess sem styrkveitingum til námskeiðahalds verði fram haldið. Við styrkveitingar verði horft til þess að efla starfstengt íslenskunám og að íslenskukennslan nái einnig til þeirra sem ekki eru á vinnumarkaði. Sérstaklega verði leitast við að ná til þeirra sem hafa litla sem enga formlega menntun.

Markmið:    Fullorðnir innflytjendur á vinnumarkaði og utan hans eigi kost á góðri íslenskukennslu.

15.1 Styrkir til íslenskukennslu.
Ábyrgð:     Menntamálaráðuneyti.
Lýsing:    Veittir verði styrkir til fræðsluaðila og fyrirtækja sem uppfylla þau formskilyrði sem menntamálaráðuneytið setur vegna íslenskukennslu fyrir innflytjendur, sbr. minnisblað menntamálaráðherra til ríkisstjórnarinnar haustið 2007.
Framkvæmd:     Verkefnisstjórn um íslenskukennslu fyrir útlendinga.
Tímabil:     Viðvarandi verkefni.
Kostnaðaráætlun:     Innan fjárveitingar.
Fjármögnun:     Innan ramma.
Árangur/mat:    Fjöldi styrktra námskeiða/fjöldi nemenda.
Afurð:    Styrkt námskeið.

Markmið:    Tryggja framboð á námsefni sem hæfir markmiðum fyrirliggjandi námskrár.

15.2 Styrkir vegna námsefnis til íslenskukennslu ætlað innflytjendum.
Ábyrgð:     Menntamálaráðuneyti.
Lýsing:    Hvatt verði sérstaklega til námsefnisgerðar í samræmi við námskrá og mælistikur um gæði námsefnis og námsefnisgerð styrkt meðal annars gegnum þróunarsjóð framhaldsskóla og fullorðinsfræðslu og Sprotasjóð samkvæmt fyrirliggjandi frumvarpi um framhaldsskóla.
Framkvæmd:     Verkefnisstjórn um íslenskukennslu fyrir útlendinga.
Samstarfsaðilar:     Námsefnishöfundar.
Tímabil:     Viðvarandi verkefni.
Kostnaðaráætlun:     25.000.000 kr. árið 2008.
Fjármögnun:     Innan ramma.
Árangur/mat:    Að til sé námsefni sem hæfi mismunandi getu nemenda.
Afurð:    Styrkt námsefni.

Markmið:    Fylgst verði með gæðum íslenskukennslu.

15.3 Mat á gæðum íslenskunámskeiða fyrir útlendinga.
Ábyrgð:     Menntamálaráðuneyti.
Lýsing:    Samin verða gæðaviðmið um íslenskukennslu fyrir útlendinga.
Framkvæmd:     Verkefnisstjórn um íslenskukennslu fyrir útlendinga.
Samstarfsaðili:     Mats- og greiningarsvið menntamálaráðuneytis.
Tímabil:     Lokið árið 2008.
Kostnaðaráætlun:     Innan ramma.
Fjármögnun:     Innan ramma.
Afurð:    Gæðaviðmið vegna íslenskukennslu.

Markmið:    Að starfsfólk af erlendum uppruna í fiskvinnslu eigi kost á vönduðu starfstengdu íslenskunámi.

15.4 Starfstengt íslenskunámskeið fyrir fiskvinnslufólk.
Ábyrgð:     Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti.
Lýsing:    Þróun og framkvæmd á starfstengdu námskeiði í íslensku fyrir fiskvinnslufólk.
Framkvæmd:     Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti.
Samstarfsaðilar:     Starfsfræðslunefnd fiskvinnslunnar og Fjölmenningarsetur.
Tímabil:     2008.
Kostnaðaráætlun:     3.500.000 kr.
Fjármögnun:     Innan ramma.
Árangur/mat:    Árangursmat í námskeiðslok.
Afurð:    Námskeið í starfstengdri íslensku.

Markmið:    Gera innflytjendum mögulegt óháð búsetu að auka lesfærni sína, íslenskukunnáttu og færni við upplýsingaöflun.

15.5 Lesfærni og íslenskunám innflytjenda.
Ábyrgð:     Menntamálaráðuneyti og félags- og tryggingamálaráðuneyti.
Lýsing:    Þróunarverkefni þar sem unnið verði að því með aðstoð upplýsingatækni að innflytjendur sem ekki kunna latneskt letur og hafa litla formlega menntun frá sínu heimalandi eigi þess kost að læra að lesa og boðið sé upp á íslenskunám við hæfi óháð búsetu.
Framkvæmd:     Fjölmenningarsetur.
Samstarfsaðilar:     Háskóli Íslands, Háskólasetur Vestfjarða, aðilar í fullorðinsfræðslu og frjáls félagasamtök.
Tímabil:     2008–2010.
Kostnaðaráætlun:     Til nánari útfærslu.
Fjármögnun:     Opinber framlög og styrkir.
Afurð:    Opinn kennsluvefur, samskiptanet og aukin fagleg þekking á kennslu til þeirra einstaklinga sem hafa litla formlega menntun og eru að flytja til Íslands erlendis frá.

16. Gegn fordómum og mismunun.
    Það er órjúfanlegur þáttur í lýðræðissamfélaginu að íbúar allir þekki rétt sinn og skyldur og hafi um leið möguleika til að taka þátt í og hafa áhrif á mótun samfélagsins. Til þess þarf að þekkja grunngildi samfélagsins, innviði þess og starfshætti lýðræðislegra stofnana. Virðing fyrir skoðunum annarra og tjáningarfrelsið haldast hönd í hönd.
    Stjórnvöld vilja taka höndum saman við atvinnulífið, menntakerfið, frjáls félagasamtök og samfélagið allt við að berjast gegn hvers konar fordómum gegn minnihlutahópum, hvort sem þeir fordómar byggjast á uppruna, litarhætti eða öðrum þáttum. Fordómar byggjast á vanþekkingu og staðalmyndum og blandist þeir við tortryggni eða ótta getur skapast hætta á að vegið verði að mannréttindum og heill innflytjenda, í raun að grunngildum hins upplýsta lýðræðis- og velferðarsamfélags sem Ísland er. Þess vegna er mikilvægt að reglulega verði gerðar kannanir á viðhorfum almennings til innflytjenda og brugðist við með fordómafræðslu ef tilefni er til.
    Á grundvelli stjórnarsáttmálans hyggst félags- og tryggingamálaráðuneytið efna til átaks gegn fordómum og leitast við að ná breiðri samstöðu við félagasamtök, fjölmiðla, atvinnulíf og innflytjendur um mótun þess og framkvæmd. Í því samhengi er mikilvægt að nýta þá sérþekkingu sem myndast hefur á vettvangi aðila eins og Rauða kross Íslands og Alþjóðahúss og margra fleiri sem hafa sérhæft sig í starfi að málefnum innflytjenda.

Markmið:    Stjórnvöld, atvinnulífið og samfélagið allt taki höndum saman um að berjast gegn fordómum gagnvart minnihlutahópum.

16.1 Átak gegn fordómum.
Ábyrgð:     Félags- og tryggingamálaráðuneyti.
Lýsing:    Ráðuneytið hafi forgöngu um átak gegn fordómum í samvinnu við sem breiðastan hóp félagasamtaka, fjölmiðla, stofnana og innflytjenda sjálfra.
Framkvæmd:     Innflytjendaráð.
Samstarfsaðilar:     Ýmis mannréttindasamtök, Fjölmenningarsetur o.fl.
Tímabil:     2008–2009.
Kostnaðaráætlun:     10.000.000 kr.
Árangur/mat:    Að minnst helmingur svarenda í Þjóðarpúlsi Gallup þekki til átaksins.
Afurð:    Átak gegn fordómum.

Markmið:    Til sé aðgengilegt fræðsluefni sem nýtist í baráttu gegn fordómum á hverjum tíma.

16.2 Fræðsla gegn fordómum.
Ábyrgð:     Félags- og tryggingamálaráðuneyti.
Lýsing:    Ráðuneytið láti gera námskeiðspakka á íslensku um ástæður fordóma, umburðarlyndi og menningarlæsi sem boðinn verði skólum, félagasamtökum og vinnustöðum til afnota.
Framkvæmd:     Innflytjendaráð.
Samstarfsaðilar:     Ýmis mannréttindasamtök og stofnanir.
Tímabil:     2008.
Kostnaðaráætlun:     300.000 kr.
Afurð:    Fræðsluefni fyrir námskeið gegn fordómum.

16.3 Samfélagsfræðsla til innflytjenda.
Ábyrgð:     Félags- og tryggingamálaráðuneyti.
Lýsing:    Gerður verði námskeiðspakki á nokkrum tungumálum um íslenskt samfélag og grunngildi þess, helstu alþjóðlega samninga um mannréttindi og fleira sem boðinn verði fræðsluaðilum til afnota og settur á heimasíðu ráðuneytisins.
Framkvæmd:     Innflytjendaráð.
Samstarfsaðilar:     Menntamálaráðuneyti og Fjölmenningarsetur.
Tímabil:     Haust 2008.
Kostnaðaráætlun:     2.000.000 kr.
Afurð:    Námskeiðspakki.

Markmið:    Innflytjendur á Íslandi fái fræðslu um jafnrétti kynja, svo sem um lagaleg réttindi.

16.4 Fræðsla um jafnréttismál.
Ábyrgð:     Jafnréttisstofa.
Lýsing:    Útbúið verði fræðsluefni á nokkrum algengustu tungumálum innflytjenda um jafnréttismál á Íslandi, svo sem lagaleg réttindi með bæði karla og konur sem markhópa.
Framkvæmd:     Jafnréttisstofa.
Samstarfsaðilar:     Alþjóðahús og félags- og tryggingamálaráðuneyti.
Tímabil:     2008.
Kostnaðaráætlun:     300.000 kr.
Fjármögnun:     Innan ramma.
Afurð:    Bæklingar og glærupakkar.