Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 546. máls.

Þskj. 847  —  546. mál.Frumvarp til laga

um opinbera háskóla.

(Lagt fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)
I. KAFLI
Gildissvið o.fl.
1. gr.
Gildissvið.

    Lög þessi gilda um háskóla sem reknir eru sem opinberir háskólar og lúta yfirstjórn menntamálaráðherra. Opinber háskóli er í lögum þessum nefndur háskóli.
    Menntamálaráðherra birtir auglýsingu um háskóla sem starfa samkvæmt lögum þessum.

2. gr.
Sjálfstæð menntastofnun.

    Háskóli er sjálfstæð menntastofnun sem heyrir undir menntamálaráðherra, sbr. 2. og 3. gr. laga um háskóla. Hann hefur sjálfdæmi um starfsemi sína að öðru leyti en kveðið er á um í lögum, reglum eða öðrum fyrirmælum sem gilda um háskólastarf.

3. gr.
Hlutverk.

    Háskóli sinnir kennslu, rannsóknum, þekkingarleit og sköpun á sviði vísinda, fræða, tækniþróunar eða lista. Menntun, sem háskólar veita, tekur mið af þörfum samfélagsins og getur verið fræðilegs eðlis og starfsmiðuð. Háskóli er miðstöð þekkingar og hluti af alþjóðlegu mennta- og vísindasamfélagi. Háskóla er heimilt að veita endurmenntun í þeim fræðum sem stunduð eru innan hans.
    Menntamálaráðherra er heimilt að fela einstökum háskólum að sinna kennslu eða rannsóknum á ákveðnum afmörkuðum sviðum, ótímabundið eða til ákveðins tíma.

II. KAFLI
Stjórnsýsla og stjórnskipulag.
4. gr.
Skipulagseiningar og rekstrarform.

    Skipulagseiningar háskóla eru:
     a.      skólar og deildir, sbr. IV. kafla laga þessara,
     b.      háskólastofnanir sem heyra undir háskólaráð samkvæmt ákvörðun þess,
     c.      háskólastofnanir sem heyra undir skóla samkvæmt ákvörðun skólaráðs,
     d.      háskólastofnanir sem starfa á grundvelli sérlaga.
    Heimilt er í reglum, er háskólaráð setur, að nota önnur heiti fyrir skóla og deildir, sbr. a- lið, og að háskóli starfi á grundvelli annarra skipulagseininga.

5. gr.
Háskólaráð og stjórn háskóla.

    Stjórn háskóla er falin háskólaráði og rektor. Háskólaráð markar heildarstefnu í kennslu og rannsóknum og mótar skipulag háskóla. Háskólaráð fer með almennt eftirlit með starfsemi háskólans í heild, einstakra skóla og háskólastofnana og ber ábyrgð á því að háskóli starfi í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli.
    Háskólaráð fer með úrskurðarvald í málefnum háskólans, einstakra skóla og stofnana sem honum tengjast og heyra undir háskólaráð eða skóla.
    Háskólaráð ber ábyrgð á framkvæmd samstarfssamninga sem háskóli gerir við fyrirtæki og aðrar stofnanir. Þá hefur háskólaráð yfirumsjón með fyrirtækjum, sjóðum og almennum eignum háskóla.
    Háskólaráð setur reglur og viðmið um ráðningu starfsliðs skóla og háskólastofnana, sbr. b- og c-lið 4. gr.
    Háskólaráð getur framselt ákvörðunarvald sem rektor eða öðrum stjórnendum er fengið í einstökum málum eða málaflokkum til annarra stjórnenda enda sé það gert skriflega og tilkynnt sérstaklega.
    Fái háskólaráð til meðferðar málefni, er varðar sérstaklega einn skóla, skal ráðið leita álits forseta hans áður en málefnið er leitt til lykta. Með saman hætti skal háskólaráð leita álits forstöðumanns háskólastofnunar sem ekki heyrir undir skóla.

6. gr.
Fulltrúar í háskólaráði.

    Rektor háskóla á sæti í háskólaráði hans og er hann jafnframt formaður ráðsins. Auk hans eiga sex fulltrúar sæti í háskólaráði til þriggja ára í senn:
     1.      Einn fulltrúi háskólasamfélagsins valinn samkvæmt ákvörðun háskólafundar.
     2.      Einn fulltrúi valinn af heildarsamtökum nemenda við háskólann.
     3.      Tveir fulltrúar valdir af menntamálaráðherra.
     4.      Tveir fulltrúar valdir af þeim fulltrúum sem fyrir eru í háskólaráði.
    Hverjum fulltrúa skv. 1., 2. og 3. tölul. skal valinn varamaður.
    Tveir fulltrúar skv. 4. tölul. og einn sameiginlegur varamaður fyrir þá skulu valdir sameiginlega af rektor og fjórum fulltrúum skv. 1., 2. og 3. tölul. þegar þeir hafa verið valdir til setu í ráðinu til næstu þriggja ára. Við val fulltrúa skv. 3. og 4. tölul. skal leitast við að tryggja sem víðtækasta þekkingu og reynslu háskólanum til stuðnings. Fulltrúar skv. 3. og 4. tölul. mega ekki vera starfsmenn eða nemendur háskólans. Þegar þeir fulltrúar, sem taldir eru í þessari málsgrein, hafa verið valdir telst háskólaráð fullskipað.
    Háskólaráð setur nánari reglur um val á fulltrúum háskólasamfélagsins og nemenda. Leita skal umsagnar háskólafundar og heildarsamtaka nemenda háskóla áður en slíkar reglur eru settar eða þeim breytt.

7. gr.
Fundir háskólaráðs.

    Háskólaráð heldur fundi eftir þörfum. Æski þrír fulltrúar í háskólaráði fundar er formanni skylt að boða til hans.
    Háskólaráð er ekki ályktunarfært nema fimm atkvæðisbærir háskólaráðsmenn sæki fund hið fæsta. Afl atkvæða ræður úrslitum mála. Ef atkvæði falla jöfn sker atkvæði formanns úr.
    Rektor boðar fundi háskólaráðs. Háskólaráð setur reglur um undirbúning funda, fundarboð, fundarsköp, birtingu ákvarðana og annað er lýtur að starfsháttum ráðsins og ekki er ákveðið í lögum þessum.

8. gr.
Háskólarektor.

    Menntamálaráðherra skipar háskólarektor til fimm ára samkvæmt tilnefningu háskólaráðs. Háskólaráð setur reglur um hvernig staðið skuli að tilnefningu rektors. Getur háskólaráð ákveðið hvort tilnefning þess fari fram að undangengnum kosningum eða auglýsingu embættisins.
    Rektor er formaður háskólaráðs. Hann er yfirmaður stjórnsýslu háskólans og æðsti fulltrúi hans gagnvart mönnum og stofnunum innan háskólans og utan hans. Hann stýrir starfsemi háskólans og hefur frumkvæði að því að háskólaráð marki sér heildarstefnu í málefnum háskólans. Rektor ber ábyrgð á og hefur eftirlit með allri starfsemi háskólans, þ.m.t. ráðningar- og fjármálum einstakra skóla og stofnana. Hann ber ábyrgð á gerð starfs- og rekstraráætlana og að þær séu samþykktar af háskólaráði. Á milli funda háskólaráðs fer rektor með ákvörðunarvald í öllum málum háskólans.
    Rektor ræður forseta fyrir hvern skóla, sbr. 12. gr., og setur honum erindisbréf. Háskólaráð getur heimilað að rektor ráði aðstoðarrektor, einn eða fleiri.
    Rektor ræður starfslið sameiginlegrar stjórnsýslu háskóla og setur því erindisbréf eða starfslýsingar.

III. KAFLI
Háskólafundur.
9. gr.
Háskólafundur.

    Háskólafundur er samráðsvettvangur háskólasamfélagsins þar sem fram fer umræða um þróun og eflingu háskólans. Háskólafundur fjallar um og tekur þátt í að móta sameiginlega vísinda- og menntastefnu háskólans að frumkvæði rektors. Háskólaráð getur leitað umsagnar háskólafundar um hvaðeina sem varðar starfsemi háskóla, einstakra skóla eða stofnana. Háskólaráð getur einnig falið háskólafundi umfjöllun um fagleg málefni og akademíska stefnumörkun.
    Háskólafundur er ályktunarbær um þau málefni sem fundurinn telur að varði hag háskólasamfélagsins.
    Ákvörðunum háskólaráðs, rektors, forseta skóla eða forstöðumanna háskólastofnana verður ekki skotið til háskólafundar.

10. gr.
Fulltrúar á háskólafundi.

    Á háskólafundi eiga sæti rektor, forsetar og formenn deilda. Þar sitja jafnframt kennarar og sérfræðingar úr skólum og stofnunum háskóla, ásamt fulltrúum stofnana sem starfa samkvæmt sérlögum eða tengjast háskólanum sérstaklega. Fulltrúar skóla skulu kjörnir á skólafundi, sbr. 14. gr.
    Á háskólafundi eiga einnig sæti til tveggja ára í senn tveir fulltrúar samtaka háskólakennara kjörnir í skriflegri kosningu úr hópi félagsmanna sem ekki gegna störfum forseta og tveir fulltrúar starfsmanna við stjórnsýslu háskólans kjörnir í skriflegri atkvæðagreiðslu. Auk þess á sæti á háskólafundi einn fulltrúi nemenda á móti hverjum fimm fulltrúum annarra aðila innan háskólans, og skulu þeir kjörnir í sérstökum kosningum til eins árs í senn.
    Háskólaráð setur nánari reglur um fjölda fulltrúa sem sæti eiga á háskólafundi og um val þeirra. Í reglum skal jafnframt kveðið á um kosningu og setu fulltrúa annarra stofnana og samtaka á háskólafundi en þeirra sem taldir eru í 1. mgr. og um atkvæðisrétt þeirra.
    Rektor boðar háskólafund og stýrir honum eða felur öðrum stjórn hans. Háskólafund skal halda að minnsta kosti einu sinni á hverju ári. Æski 2/3 hlutar fulltrúa á háskólafundi fundar er rektor skylt að boða til hans.

IV. KAFLI
Skólar og stofnanir.
11. gr.
Skólar og stofnanir.

    Skólar eru megineiningar háskóla og deildir grunneiningar. Háskólaráð ákvarðar hlutverk, mörk og verkaskiptingu milli skóla og kveður á um skipan þeirra í reglugerð. Hver skóli skiptist í deildir samkvæmt tillögu skólans sem lögð er fyrir háskólaráð. Leita skal umsagnar háskólafundar áður en gerðar eru grundvallarbreytingar á skólaskipaninni.
    Innan skóla fer fram kennsla, rannsóknir og stjórnun. Skólar eru sjálfstæðir um fagleg og rekstrarleg málefni innan þeirra marka sem ákvörðuð eru af háskólaráði. Deildir bera faglega ábyrgð á háskólakennslu og rannsóknum.
    Við skóla er heimilt að starfrækja sérstakar háskólastofnanir, sbr. c-lið 1. mgr. 4. gr., og rannsóknastofur sem settar eru á stofn samkvæmt ákvörðun skólaráðs og samkvæmt nánari reglum sem háskólaráð setur.

12. gr.
Forsetar skóla og deildarformenn.

    Daglegri starfsemi skóla stýrir forseti. Rektor ræður forseta hvers skóla að undangenginni auglýsingu. Heimilt er rektor að kalla starfsmann háskóla til þess að vera forseti yfir skóla. Um tímalengd ráðningar fer samkvæmt reglum sem háskólaráð setur. Rektor setur forsetum erindisbréf.
    Í umboði háskólaráðs og rektors á forseti frumkvæði að mótun stefnu fyrir skóla, hefur eftirlit með starfi og stjórnsýslu hans og ræður til hans starfslið. Forseti ber ábyrgð á fjármálum og almennum gæðakröfum skóla gagnvart rektor og háskólaráði, sbr. 5. gr. Forseti velur deildarformenn til tveggja ára í senn samkvæmt tilnefningu deildarfundar. Háskólaráð setur reglur um val deildarformanna.

13. gr.
Skólaráð.

    Forseti og deildarformenn mynda skólaráð. Í skólaráði skal einnig sitja fulltrúi nemenda, einn eða fleiri, sem valinn er af nemendum samkvæmt reglum sem háskólaráð setur. Skólaráð fjallar um sameiginleg málefni skólans, þar á meðal ákvarðanir deilda um námsframboð.
    Háskólaráð setur nánari reglur um starfsemi skóla, stjórn þeirra, skiptingu skóla í deildir, hlutverk deildarformanna og skóla- og deildarfundi.

14. gr.
Skólafundir.

    Skólafundur, sem forseti stýrir í umboði rektors, er samráðsvettvangur þar sem fram fer umræða um innri málefni skóla. Háskólaráð getur leitað umsagnar fundar skóla um hvaðeina sem varðar starfsemi skólans og þeirra deilda sem starfræktar eru við hann.
    Skólafundur er ályktunarbær um þau málefni sem fundurinn telur að varði hag skóla. Ályktanir fundar skóla skulu kynntar háskólaráði, rektor, forstöðumönnum háskólastofnana og öðrum þeim er þær kunna að varða.
    Ákvörðunum háskólaráðs, rektors, forseta eða forstöðumanns háskólastofnunar verður ekki skotið til skólafundar. Sama gildir um húsfundi í háskólastofnun, sbr. b- og c-lið 1. mgr. 4. gr.

V. KAFLI
Starfslið háskóla.
15. gr.
Starfsheiti.

    Starfsheiti kennara við háskóla skulu vera prófessor, dósent, lektor og aðjunkt. Háskólaráð getur sett nánari reglur um þessi og önnur starfsheiti sem það ákveður að nota.
    Háskólakennarar hafa með höndum og bera ábyrgð á kennslu sem fram fer til viðurkenndrar prófgráðu.
    Háskólakennarar og sérfræðingar hafa með höndum sjálfstæðar vísindarannsóknir.
    Forstöðumenn stofnana hafa með höndum háskólakennslu og sjálfstæðar rannsóknir ef kveðið er á um það í reglum viðkomandi stofnunar.
    Háskólaráð setur nánari reglur um starfsheiti og starfsskyldur þeirra sem ráðnir eru í akademísk störf samkvæmt ákvæðum þessa kafla, sem og um leyfi þeirra frá störfum.

16. gr.
Dómnefndir.

    Háskóli skal setja á fót dómnefnd til þess að meta hæfi þeirra sem sækja um akademísk störf eða fá boð um slíkt starf. Þeir sem hljóta akademískt starf við háskóla eða háskólastofnun skulu hafa lokið meistaraprófi hið minnsta eða hafa jafngilda þekkingu og reynslu að mati dómnefndar. Þeir skulu jafnframt hafa sýnt þann árangur í starfi að þeir njóti viðurkenningar á viðkomandi sérsviði.
    Skóla eða stofnun er heimilt að gera kröfu um að umsækjendur um akademískt starf hafi doktorspróf á viðkomandi sérsviði.
    Um skipan, störf og niðurstöður dómnefndar fer samkvæmt 18. gr. laga um háskóla og reglum sem háskólaráð setur að fenginni umsögn háskólafundar. Í þeim reglum skal tryggt að umsóknir hljóti faglega og óvilhalla meðferð. Heimilt er að taka upp fyrirkomulag fastra dómnefnda innan háskóla.

17. gr.
Veiting starfa.

    Forseti veitir akademísk störf við skóla og stofnanir sem heyra undir skóla. Forstöðumaður veitir akademísk störf við stofnun sem heyrir undir háskólaráð. Veiting starfs skal ákveðin á grundvelli tillögu sem gerð er samkvæmt nánari reglum settum af háskólaráði en þær afmarka jafnframt umboð forseta. Þegar starf hefur verið veitt skal gerður um það ráðningarsamningur.
    Akademískt starf, sem veitt er við háskóla, skal áður hafa verið auglýst laust til umsóknar. Rektor háskóla, samkvæmt tillögu skóla og með samþykki háskólaráðs, getur þó boðið vísindamanni að taka við slíku starfi án þess að það sé auglýst laust til umsóknar. Háskóla er jafnframt heimilt að víkja frá skyldu til auglýsinga þegar í hlut eiga störf sem byggjast á sérstökum tímabundnum styrkjum, störf sem tengjast sérstökum tímabundnum verkefnum, störf sem nemendur gegna við háskólann samhliða rannsóknartengdu framhaldsnámi og störf við háskólann sem tengjast tilteknu starfi utan hans á grundvelli samstarfssamnings.
    Starf er ekki auglýst þegar um er að ræða framgang eða tilflutning milli starfsheita samkvæmt reglum settum af háskólaráði.
    Ráðningarsamningur um akademískt starf getur verið ótímabundinn eða tímabundinn til allt að fimm ára. Þegar sérstaklega stendur á er heimilt að framlengja tímabundna ráðningu um allt að tveimur árum fram yfir fimm ára markið.

VI. KAFLI
Nemendur.
18. gr.
Innritun.

    Rektor, og forsetar í umboði hans, bera ábyrgð á innritun nemenda í háskóla.
    Nemendur, sem hefja nám til fyrstu háskólagráðu í háskóla, skulu hafa lokið stúdentsprófi eða öðru jafngildu prófi. Háskóla er þó heimilt að innrita nemendur sem ekki hafa lokið stúdentsprófi eða öðru jafngildu prófi ef þeir hafa öðlast reynslu eða ráða yfir þekkingu og færni sem svarar til krafna skólans um undirbúning fyrir nám á háskólastigi.
    Háskólaráð setur, að fenginni tillögu skóla eftir því sem við á, nánari reglur um eftirfarandi atriði:
     a.      kröfur um undirbúning til viðbótar stúdentsprófi í einstökum námsleiðum í grunnnámi,
     b.      inntökuskilyrði í einstakar námsleiðir í framhaldsnámi,
     c.      inntöku- eða stöðupróf sem viðhöfð eru á einstökum námsleiðum,
     d.      takmörkun á fjölda nemenda sem teknir eru inn á einstakar námsleiðir,
     e.      mat á reynslu, þekkingu og færni nemenda sem ekki hafa lokið formlegu undirbúningsnámi á framhaldsskólastigi.
    Reglur samkvæmt d- og e-lið skulu settar fyrir fram fyrir hvert háskólaár. Í slíkum reglum er heimilt að taka mið af skilyrðum háskóla til þess að veita kennslu á viðkomandi námsleið.

19. gr.
Réttindi og skyldur nemenda.

    Háskólaráð setur, að fenginni umsögn heildarsamtaka nemenda innan háskólans, reglur um réttindi og skyldur nemenda, þ.m.t. um málskotsrétt þeirra innan háskólans.
    Nemandi skal forðast að hafast nokkuð það að í námi sínu eða í framkomu sinni innan og utan skólans sem er honum til vanvirðu eða álitshnekkis eða varpað getur rýrð á nám hans eða skóla.
    Gerist nemandi sekur um háttsemi samkvæmt 2. mgr. eða sem er andstæð lögum þessum eða reglum settum samkvæmt þeim skal forseti þeirrar deildar þar sem hann er skráður til náms taka mál hans til meðferðar. Að teknu tilliti til alvarleika brots getur forseti veitt nemanda áminningu eða vikið honum úr skóla um tiltekinn tíma eða að fullu. Áður en ákvörðun um brottrekstur er tekin skal gefa nemanda kost á að tjá sig um málið. Nemanda er heimilt að skjóta ákvörðun forseta til áfrýjunarnefndar samkvæmt lögum um háskóla. Málskot frestar framkvæmd ákvörðunar forseta.
    Rektor getur að hæfilegum tíma liðnum heimilað nemanda, sem vikið hefur verið að fullu úr skóla, að skrá sig aftur til náms í háskólanum ef aðstæður hafa breyst. Nemanda er heimilt að skjóta synjun rektors um skráningu til áfrýjunarnefndar.

VII. KAFLI
Kennsla, prófhald og prófgráður.
20. gr.
Kennsla, kennsluhættir.

    Háskólaráð setur reglur um lengd háskólaárs og skiptingu þess í kennslumissiri. Fyrirlestrar, æfingar og námskeið í háskóladeildum eru fyrir skrásetta stúdenta en kennara er heimilt að veita öðrum kost á að sækja slíka kennslu nema forseti mæli öðruvísi fyrir.
    Kennsla skal fara fram í námskeiðum sem metin eru í einingum, sbr. lög um háskóla. Háskólaráð skal setja almennar reglur um mat námskeiða til eininga.
    Skólar skulu setja almennar reglur um kennslu og kennsluhætti sem háskólaráð staðfestir.

21. gr.
Próf og prófhald.

    Háskólaráð skal setja reglur um prófhald, þ.m.t. viðurkenningu erlendra prófa, inntöku- og undirbúningspróf, einkunnir og annað er að prófum lýtur. Hver háskóli ræður tilhögun prófa að svo miklu leyti sem ekki eru sett bindandi ákvæði um það í reglum háskólaráðs.
    Sameiginleg stjórnsýsla hvers skóla annast skipulag og framkvæmd prófa.
    Nemandi á rétt á að fá útskýringar kennara á mati skriflegrar úrlausnar sinnar ef hann æskir þess innan 15 daga frá birtingu einkunnar. Vilji nemandi, sem ekki hefur staðist próf, þá eigi una mati kennarans getur hann snúið sér til viðkomandi forseta. Skal þá prófdómari skipaður í hverju tilviki. Einnig getur kennari eða meiri hluti nemenda, telji þeir til þess sérstaka ástæðu, óskað skipunar prófdómara í einstöku prófi.
    Heimilt er í reglum háskólaráðs að kveða á um námsframvindu og hámarkstímalengd í námi.
    Deild er heimilt að meta nám, sem nemandi hefur stundað utan deildarinnar, sem hluta af námi við deildina enda uppfylli námið sambærilegar gæða- og námskröfur og gerðar eru á grundvelli laga þessara og laga um háskóla.

22. gr.
Prófgráður.

    Um prófgráður sem háskóla er heimilt að veita fer samkvæmt lögum um háskóla, sbr. þó 23. gr. laga þessara. Háskólaráði er heimilt að setja nánari reglur um prófgráður á grundvelli þeirra.

23. gr.
Doktorsnafnbót.

    Háskólar hafa rétt til að veita doktorsnafnbót í heiðursskyni. Doktorsnafnbót í heiðursskyni verður ekki veitt nema samkvæmt tillögu skólaráðs og með samþykki háskólaráðs.
    Háskólar hafa rétt til að veita doktorsnafnbót með vörn sérstakrar doktorsritgerðar og setur háskólaráð almennar reglur um vörn slíkra doktorsritgerða.

VIII. KAFLI
Fjárhagsmálefni.
24. gr.
Fjármögnun.

    Hver háskóli hefur sjálfstæða fjárveitingu á fjárlögum. Ráðherra gerir tillögur um fjárframlög til hvers skóla til að mæta útgjöldum til kennslu, rannsókna og annarra verkefna.
    Háskóla er heimilt að afla sér tekna til viðbótar við framlög skv. 1. mgr. með:
     a.      skrásetningargjöldum sem nemendur greiða við skráningu í nám, allt að 45.000 kr. fyrir hvern nemanda á ársgrundvelli. Álögð gjöld samkvæmt þessum lið skulu eigi skila háskóla hærri tekjum en sem nemur samanlögðum útgjöldum háskólans vegna nemendaskráningar og þjónustu við nemendur sem ekki telst til kostnaðar við kennslu og rannsóknastarfsemi,
     b.      gjöldum til að standa undir útgáfu staðfestra vottorða, gerð, fyrirlögn og yfirferð stöðu-, inntöku-, upptöku- og fjarprófa,
     c.      gjöldum fyrir þjónustu sem telst utan þeirrar þjónustu sem háskóla er skylt að veita,
     d.      gjöldum fyrir þjónustu sem háskóli veitir og grundvölluð er á samningi við menntamálaráðuneyti, sbr. d-lið 2. mgr. 21. gr. laga um háskóla,
     e.      gjöldum fyrir endurmenntun og fræðslu fyrir almenning.
    Heimilt er að taka 15% hærra gjald af þeim sem fá leyfi til skrásetningar utan auglýstra skráningartímabila, sbr. a-lið.
    Háskólaráð geta gert tillögu til ráðherra um breytingar á hámarksfjárhæð skrásetningargjalda.
    Háskólaráð setur nánari reglur um gjaldtöku og ráðstöfun gjalda samkvæmt þessari grein. Í reglum háskólaráðs er heimilt að mæla fyrir um lækkun skrásetningargjalds til tekjulítilla stúdenta er búa við örorku eða fötlun, sbr. 2. gr. laga nr. 59/1992, um málefni fatlaðra. Heimilt er að miða slíkar reglur við tekjumörk og hvort lækkun sé í formi fastrar krónutölu eða hlutfalls af skrásetningargjaldi. Í reglum háskólaráðs er jafnframt heimilt að verja hluta skrásetningargjalds til félagssamtaka stúdenta.

25. gr.
Þjónustusamningar.

    Háskólaráði er heimilt að semja við stúdenta, samtök þeirra og félög, hollvinasamtök, einstaklinga, samtök þeirra og fyrirtæki eða opinberar stofnanir um að taka að sér þjónustu fyrir hönd Háskóla Íslands enda sé farið að ákvæðum í 30. gr. laga um fjárreiður ríkisins.

IX. KAFLI
Ýmis ákvæði.
26. gr.
Önnur viðfangsefni og starfsemi.

    Háskóla er heimilt, með samþykki menntamálaráðherra, að eiga aðild að hlutafélögum, sjálfseignarstofnunum eða félögum með takmarkaða ábyrgð ef starfsemi þeirra samrýmist þeim markmiðum sem háskólanum eru sett og aðild þjónar hagsmunum hans. Háskólaráð fer með eignarhlut háskólans í slíkum fyrirtækjum en getur veitt skóla, stofnun eða öðrum aðila innan háskóla umboð til að fara með hlutinn.
    Háskóla er heimilt að stofna og starfrækja sérstaka rannsóknar- og þróunarsjóði. Skal um þá sett skipulagsskrá sem menntamálaráðherra og háskólaráð staðfesta. Skipulagsskráin skal birt í B-deild Stjórnartíðinda.
    Háskóla er heimilt að semja við aðrar stofnanir og fyrirtæki, sem tengjast starfssviði skólans, um kennslu, rannsóknir og ráðningu kennara og annarra starfsmanna.

27. gr.
Ársfundur.

    Háskóli skal árlega halda opinn ársfund þar sem fjárhagur skólans og meginatriði starfsáætlunar hans eru kynnt.

28. gr.
Birting reglna og kennsluskrár.

    Reglur þær, sem háskólaráð setur samkvæmt lögum þessum, skulu birtar í B-deild Stjórnartíðinda.
    Hver skóli semur og birtir eigin kennsluskrá. Árlega skal birt kennsluskrá fyrir háskólann í heild.

X. KAFLI
Gildistaka o.fl.
29. gr.
Gildistaka.

    Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög nr. 41/1999, um Háskóla Íslands, lög nr. 40/1999, um Háskólann á Akureyri, og lög nr. 43/1995, um listmenntun á háskólastigi.
    Lög þessi öðlast þegar gildi og koma að fullu til framkvæmda 1. júlí 2008.
    Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 29. gr. öðlast ákvæði 4., 11. og 12. gr. laga þessara þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Við gildistöku laga þessara heldur starfslið Háskólans á Akureyri og Háskóla Íslands, sem hefur verið skipað eða ráðið á grundvelli laga nr. 41/1999 og laga nr. 40/1999, störfum sínum og starfsréttindum.
    Umboð háskólaráðs Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri falla niður við gildistöku laga þessara. Fram til þess tíma er háskólaráðum skólanna heimilt að skipuleggja starfsemi sína í samræmi við ákvæði 4., 11. og 12. gr., þar á meðal að auglýsa laus störf forseta skóla og deildarformanna.
    Ákvæði reglna, sem háskólaráð Kennaraháskóla Íslands, Háskólans á Akureyri og Háskóla Íslands hafa sett á grundvelli gildandi laga um viðkomandi háskóla, gilda með áorðnum breytingum, að svo miklu leyti sem þau fara ekki gegn þessum lögum, þar til háskólaráð hefur sett nýjar reglur samkvæmt ákvæðum þessara laga.
    Við gildistöku laga þessara skulu skólar við Háskóla Íslands vera félagsvísinda-, laga- og viðskiptasvið, heilbrigðisvísindasvið, hugvísindasvið, verkfræði- og raunvísindasvið og menntavísindasvið. Deildir við Háskólann á Akureyri eru félagsvísinda- og hugvísindadeild, heilbrigðisvísindadeild, kennaradeild og viðskipta- og raunvísindadeild. Fyrir árslok 2008 skulu háskólar, sem lög þessi taka til, laga sig að ákvæðum laga þessara um skóla, sbr. 2. mgr. 4. gr.
    Lög nr. 57/1999, um búnaðarfræðslu, skulu endurskoðuð fyrir árslok 2009.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I. Inngangur.
    Frumvarp þetta er samið af nefnd sem menntamálaráðherra skipaði til að endurskoða lög nr. 136/1997, um háskóla, ásamt gildandi sérlögum um starfandi ríkisháskóla. Nefndin skilaði frumvarpi til laga um háskóla til ráðherra í desember 2005, sem síðar varð að lögum nr. 63/2006 og tóku gildi á miðju ári 2006. Við undirbúning frumvarps þessa var nefndinni gert að taka mið af þeirri þróun og breytingum sem orðið hafa undanfarin ár á umhverfi opinberra háskóla í samanburði við þróun í öðrum OECD-ríkjum. Tillögur nefndarinnar skyldu vera til þess fallnar að samræma skilyrði og efla opinbera háskóla og gæði námsframboðs þeirra. Við gerð frumvarpsins hafði nefndin samráð við starfandi opinbera háskóla á Íslandi. Í nefndinni áttu sæti Guðmundur Árnason ráðuneytisstjóri, formaður, Hanna Katrín Friðriksdóttir ráðgjafi, Inga Jóna Þórðardóttir viðskiptafræðingur, Jón Sigurðsson, fyrrv. seðlabankastjóri og ráðherra, Stefanía K. Karlsdóttir, fyrrv. rektor Tækniháskóla Íslands, og Sveinbjörn Björnsson, fyrrv. rektor Háskóla Íslands. Hellen M. Gunnarsdóttir, sérfræðingur í ráðuneytinu, starfaði með nefndinni. Afrakstur nefndarstarfsins er hjálagt frumvarp.

II. Markmið frumvarpsins.
    Með frumvarpi þessu eru lagaákvæði um opinbera háskóla færð til samræmis við þann almenna lagaramma um starfsemi háskóla sem ákvarðaður var með lögum nr. 63/2006. Þau lög taka jafnt til allra íslenskra háskóla óháð rekstrarformi og afmarka fagleg og rekstrarleg starfsskilyrði skólanna. Þar skipta mestu máli kröfur laganna um gæðaeftirlit, samræmingu prófgráðna og gagnkvæma viðurkenningu náms, ásamt áherslu á sveigjanleika í skipulagi háskólanna sem og að þeim sé tryggt faglegt sjálfstæði. Einhugur mun vera um það meðal íslenskra háskólamanna að vel hafi tekist til við smíði rammalaganna og að ekki sé þörf á því að greina á milli íslenskra háskóla eftir rekstrarformi þeirra. Það leiðir hins vegar af þeim meginreglum sem gilda um ríkisrekstur að lagaákvæði af þessu tagi þurfi að vera fyrir hendi varðandi þá háskóla sem reknir eru sem ríkisstofnanir. Er þar einkum vísað til eftirfarandi atriða:
     1.      Allar heimildir til fjárhagsráðstafana í ríkisrekstri verða að byggjast á lögum. Er hér bæði um að ræða framlög til lögbundinnar starfsemi og eins fjáröflun til annarra verkefna.
     2.      Gerð er krafa um að margvíslegar ákvarðanir í starfsmanna- og nemendamálum eigi sér stoð í settum lögum.
     3.      Gengið er út frá því að megindrættirnir í skipulagi ríkisrekstrar séu ákvarðaðir af löggjafanum, meðal annars hvað varðar skipun yfirstjórnar opinberra stofnana.
    Meginmarkmið fyrirliggjandi frumvarps er því að tryggja að fagleg starfsskilyrði íslenskra háskóla verði þau sömu óháð rekstrarformi að teknu tilliti til þessara þriggja atriða.

III. Gildandi sérlög um ríkisrekna háskóla.
    Háskóli Íslands (HÍ) var stofnaður árið 1911 og var lengi eini háskólinn í landinu sem bauð háskólanám til prófgráðu. Upphafleg lög um skólann voru samþykkt 1909 og hafa síðan verið endurskoðuð með reglubundnu millibili, síðast á árabilinu 1997 til 1999. Gildandi lög um skólann eru nr. 41/1999.
    Árið 1971 var Kennaraskólanum breytt með lögum í Kennaraháskóla Íslands (KHÍ). Með lögum nr. 137/1997 voru Þroskaþjálfaskólinn, Fósturskólinn og Íþróttakennaraskólinn sameinaðir honum. Eru þau lög enn í gildi.
    Háskólinn á Akureyri (HA) var stofnaður 1987 en gildandi lög um skólann eru nr. 40/ 1999. Tækniskóli Íslands, sem stofnaður var árið 1962, varð formlegur háskóli með lögum um Tækniháskóla Íslands, nr. 53/2002. Árið 2005 var Tækniháskóli Íslands síðan sameinaður Háskólanum í Reykjavík (HR) sem hóf háskólastarfsemi árið 1998.
    Ákvæði núgildandi sérlaga um háskólana þrjá, HÍ, KHÍ og HA, byggjast öll á áþekkum grunni og hafa að geyma hliðstæð ákvæði í flestum efnum. Mikil samvinna hefur verið milli skólanna um framkvæmd laganna og setningu reglna á grundvelli þeirra. Má slá því föstu að skólarnir búi allir við eitt og sama umhverfi í lagalegu tilliti. Í frumvarpinu er við það miðað að ein heildarlöggjöf skuli gilda um alla opinbera háskóla, sbr. þó ákvæði um endurskoðun laga um búnaðarfræðslu, en að þeirri endurskoðun lokinni muni lög þessi jafnframt taka til menntastofnana landbúnaðarins.

IV. Meginefni frumvarpsins og helstu markmið.
    Meginefni frumvarpsins byggist að verulegu leyti á viðamiklu úttektarstarfi sem fram hefur farið innan íslenska háskólakerfisins á síðastliðnum árum. Þá hefur einnig verið tekið tillit til vinnu sem farið hefur fram innan háskólanna, m.a. tillagna á vettvangi HÍ og KHÍ um tilhögun á fyrirhugaðri sameiningu skólanna.
    Meðal þeirra úttekta, sem litið var til við gerð frumvarpsins, eru þrjár sem einkum varða Háskóla Íslands.
     Í fyrsta lagi er úttekt sem menntamálaráðherra fól Ríkisendurskoðun að gera á fjárhagsstöðu, fjármögnun, árangri, gæðum, rekstrarformi og stjórnsýslu HÍ. Úttektin samanstendur af þremur meginþáttum: (1) greiningu Ríkisendurskoðunar á framangreindum þáttum, (2) viðhorfskönnun meðal starfsfólks og (3) alþjóðlegum samanburði á völdum kennitölum og starfsþáttum. Lokaskýrsla Ríkisendurskoðunar var birt vorið 2005.
     Í öðru lagi fól menntamálaráðherra árið 2004 fjögurra manna hópi, undir forustu Ingu Dóru Sigfúsdóttur, að framkvæma úttekt á akademískri stöðu HÍ, einkum rannsóknastarfinu. Tekur úttektin til rannsóknastarfs við skólann á árunum 1999–2002. Skýrsla Ingu Dóru og samstarfsmanna hennar var birt í september 2005.
     Í þriðja lagi átti HÍ frumkvæði að því að Samtök evrópskra háskóla (European University Association) gerðu úttekt á skólanum þar sem lögð var sérstök áhersla á uppbyggingu framhaldsnáms og gæðastarf. Þessi úttekt er ekki liður í opinberu eftirliti með skólanum heldur var tilgangur hennar fyrst og fremst að fá ábendingar og ráðleggingar frá hópi erlendra háskólamanna sem nýst gætu við framtíðaruppbyggingu skólans. Lokaskýrsla hópsins var birt stjórn HÍ í september 2005.
    Enda þótt þessar úttektir hafi HÍ að viðfangsefni beina niðurstöður þeirra skýru ljósi á ýmsa þætti í starfs- og rekstrarskilyrðum opinberu háskólanna allra. Þetta á sérstaklega við um skýrslu Ríkisendurskoðunar og eru eftirfarandi ályktanir hennar til marks um það:
    „Þegar hugað er að gæðamálum Háskóla Íslands, hagkvæmni og skilvirkni rekstrarins og möguleikum skólans til að ná heildarmarkmiðum sínum er mikilvægt að hugað sé vel að stjórnunarháttum skólans. Stjórnsýsla skólans hefur breyst mikið á síðustu árum, vaxið, eflst og tekist á við ný verkefni. Á sama tíma hefur umfang rekstrar orðið meira og viðfangsefni flóknari. Ljóst er að virk þátttaka starfsmanna og nemenda í stjórnun skólans hefur marga kosti en slíkt stjórnskipulag getur einnig búið yfir göllum. Nauðsynlegt virðist að skerpa á ýmsum þáttum þess og skýra betur.“
    Enn fremur segir í skýrslunni:
    „Meðal annars þyrfti að skýra betur ábyrgð deildarforseta og stöðu rektors gagnvart þeim. Þá þyrfti að kveða á um úrræði sinni deildarforsetar ekki skyldum sínum, t.d. við gæðaeftirlit eða fjármálastjórnun. Í því samhengi mætti hugsa sér að rektor hafi bein áhrif á val deildarforseta. Vel virðist koma til greina að breyta samsetningu háskólaráðs með því að fjölga utanaðkomandi aðilum og að fela ráðinu að ákveða hvernig staðið skuli að ráðningu rektors.
    Að lokum virðist mikilvægt að farið verði yfir verkaskiptingu miðlægrar stjórnsýslu Háskólans og einstakra deilda og skilgreina hvaða þjónustu stjórnsýslan eigi að veita deildunum. Í því samhengi er afar mikilvægt að skólinn taki sjálfur meiri ábyrgð á launamálum starfsmanna í stað þess að hlíta ákvörðun þriðja aðila, þ.e. kjaranefndar. Einnig þyrfti að kanna þann möguleika að sameina deildir eða auka samstarf milli þeirra og mynda þannig sterkari og hagkvæmari einingar. Þannig mætti m.a. tryggja deildunum nauðsynlega fjármála- og rekstrarþekkingu sem sumar þeirra skortir nú tilfinnanlega. Styrkja þarf fjármálastýringu Háskólans og auka eftirlit með rekstri deilda og annarra starfseininga.“ (Ríkisendurskoðun: Háskóli Íslands, Stjórnsýsluúttekt, bls. 6–7. Reykjavík, apríl 2005).
    Helstu markmið frumvarpsins eru:
          Meginmarkmið frumvarpsins er að einfalda þau lagaskilyrði sem gilda um starfsemi háskóla með það fyrir augum að veita háskólum sem mest sjálfstæði í innri málefnum. Á það bæði við um skipulag og fagleg málefni. Að þessu leyti er inntak frumvarpsins í fullu samræmi við þá almennu stefnumörkun löggjafarvaldsins sem fram kemur í lögum um háskóla, nr. 63/2006, en þeim var ætlað að undirstrika sjálfstæði háskóla og að skapa þeim sem víðast svigrúm til athafna.
          Frumvarpið grundvallast á þeirri hugsun að almenn skilyrði eigi að gilda um starfsemi opinberra háskóla. Uppbygging frumvarpsins er því í anda rammalöggjafar sem veitir einstökum stofnunum sem samkvæmt því starfa verulegt svigrúm til að feta eigin leiðir í útfærslum og framkvæmd laganna.
          Hlutverk háskólaráða er betur skilgreint en áður og staða þess sem yfirstjórnar háskóla er styrkt. Ekki eru gerðar breytingar á meginhlutverki rektors sem áfram er formaður háskólaráðs.
          Sjálf skipan í háskólaráð breytist verði þetta frumvarp að lögum. Í háskólaráði HA sitja nú fimm einstaklingar: rektor, sem er sjálfkjörinn í ráðið og er jafnframt forseti þess, tveir fulltrúar kennara, einn fulltrúi stúdenta og einn fulltrúi skipaður af menntamálaráðherra. Í háskólaráði HÍ sitja rektor, sem er sjálfkjörinn í ráðið og jafnframt forseti þess, fjórir fulltrúar kennara, einn fulltrúi samtaka háskólakennara, tveir fulltrúar stúdenta og tveir fulltrúar sem menntamálaráðherra skipar. Frumvarpið miðast við að háskólaráð verði auk rektors skipað tveimur utanaðkomandi einstaklingum (valdir af menntamálaráðherra) auk fulltrúa nemenda og fulltrúa háskólasamfélagsins. Þessir fimm sækja sér síðan tvo fulltrúa til viðbótar sem ekki eru starfsmenn eða nemendur viðkomandi háskóla. Við val á utanaðkomandi fulltrúum skal leitast við að tryggja sem víðtækasta þekkingu og reynslu háskólanum til stuðnings. Þátttaka og áhrif kennara og nemenda í skólaráðum er á hinn bóginn efld.
          Nýmæli í frumvarpinu er að skólar eru skilgreindir sem meginskipulagseiningar í starfsemi háskóla. Með því verður til öflugt burðarlag í stjórnskipan skólanna sem getur verið farvegur og vettvangur fyrir margvíslega stoðþjónustu við kjarnastarfsemi þeirra, þ.e. kennslu og rannsóknir. Tillagan um eflingu skóla er lykilatriði í sameiningu Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands, sbr. áform um sameiningu þeirra og almenna stefnumörkun HÍ.
          Samhliða því að skólar verði að megineiningum í starfi háskóla verður til nýtt starf forseta skóla sem mun bera ábyrgð á fjármálum og rekstri sviðsins og þeirra stofnana sem undir það heyra. Gerð er tillaga um að starfsheiti þess sem ráðinn er æðsti yfirmaður skóla verði forseti til þess að undirstrika að þeir fari með yfirstjórnarhlutverk ásamt rektor. Þó er háskólaráði heimilað að ákveða annað starfsheiti telji ráðið það æskilegt af einhverjum ástæðum. Í tillögunni felst að forsetar verði ráðnir af rektor að undangenginni auglýsingu. Forsetum er ætlað að vera akademískir leiðtogar skóla og hafa frumkvæði að útfærslu heildarstefnu háskóla á vettvangi síns sviðs. Til þeirra verða gerðar ríkar hæfiskröfur.
          Skilvirkari stjórn opinberra háskóla. Ráðning forseta skóla, ásamt eflingu megineininga í starfseminni, felur í sér styrkari forustu, valddreifingu og möguleika á því að bæta stoðþjónustu og þverfræðilegt samstarf. Með þessu er brugðist við ábendingum sem fram hafa komið um að stjórn opinberra háskóla þurfi að verða skilvirkari.
          Þess var ekki óskað af nefnd þeirri sem vann frumvarp þetta að hún fjallaði um fjárhagsmálefni háskóla. Ákvæði 24. gr. frumvarpsins, sem fjallar um fjárhagsmálefni, fela ekki í sér grundvallarbreytingar á gjaldtökuheimildum háskóla en þó er beinlínis gert ráð fyrir að einstakir háskólar geri tillögu til ráðherra um fjárhæð skrásetningargjalda. Fjárhæð þeirra verður þó eftir sem áður fastsett í lögum og breytingar á þeirri fjárhæð verði lagðar fyrir Alþingi af ráðherra eins og verið hefur.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Í heiti frumvarpsins og inngangsgrein þess er notast við hugtakið „opinberir háskólar“ sem ætlað er að taka til háskóla sem reknir eru af ríkinu og lúta yfirstjórn menntamálaráðherra. Þessir háskólar eru nú: Háskóli Íslands, Kennaraháskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri. Með lögum nr. 167/2007 voru þær breytingar gerðar á lögum nr. 57/1999, um búnaðarfræðslu að yfirstjórn Landbúnaðarháskóla Íslands og Hólaskóla – Háskólans á Hólum færðist frá landbúnaðarráðuneyti yfir til menntamálaráðuneytis. Ákvæði frumvarpsins hafa ekki áhrif á þá ráðagerð sem felst í sameiningu HÍ og KHÍ 1. júlí 2008, sbr. 4. gr. laga nr. 37/2007, um sameiningu Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands. Verði frumvarpið að lögum mun það öðlast gildi á sama tíma. Í greininni er gildissvið laganna markað með vísan til þessara stofnana.

Um 2. og 3. gr.

    Byggt er á 2. gr. og 3. gr. rammalaga um háskóla sem kveða á um hinn faglega grundvöll háskólastarfs. Gengið er út frá því að þessi starfsskilyrði séu þau sömu fyrir alla háskóla, óháð rekstrarformi. Þau fyrirmæli, sem vísað er til að gildi um háskólastarf í niðurlagi 2. gr., eru af margvíslegum toga og eiga m.a. rætur að rekja til samræmingar á hinu evrópska menntasvæði (European Higher Education Area) sem Ísland er aðili að í gegnum Bologna-ferlið og sameiginlegt rannsóknasvæði Evrópu (European Research Area). Í 1. mgr. 3. gr. er að finna kjarnann í hlutverki háskóla skv. 2. gr. rammalaga um háskóla.
    Í 2. mgr. 3. gr. er lagt til að menntamálaráðherra sé heimilt að fela einstökum háskólum að sinna kennslu eða rannsóknum á ákveðnum, afmörkuðum sviðum, ótímabundið eða til ákveðins tíma. Heimild í þessa veru er í lögum á Norðurlöndum, sjá m.a. 4. gr. 1. kafla rammalaga um norska háskóla (universitetsloven). Heimildin byggist á því að hún verði nýtt til þess að tryggja að háskólastarfsemi eigi sér stað í greinum sem hafa sérstaka þýðingu fyrir íslenskt skólasamfélag. Er þar iðulega um fámennar greinar að ræða sem mikilvægt er að hafi kjölfestu í stefnumörkun og ákvörðunum stjórnvalda. Háskóli sinnir endurmenntun þeirra sem lokið hafa háskólaprófi, miðla fræðslu til almennings og veita samfélaginu þjónustu í krafti þekkingar sinnar. Sinnir þörfum samfélagsins.

Um 4. gr.

    Hér er fjallað um helstu skipulagseiningar opinberra háskóla. Eins og áður greinir er við það miðað að skólar verði hinar formlegu stjórnunar- og rekstrareiningar í starfi opinberra háskóla. Í þessum skilningi samsvara skólar því sem nefnt er school eða college í alþjóðlegu háskólaumhverfi. Jafnframt endurspeglar þessi aðgreining þau skilyrði sem gerð eru um viðurkenningu háskóla, sbr. 3. gr. laga nr. 63/2006. Eins og rakið er í skýringum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 63/2006 eru fræðasvið m.a. ákveðin út frá þeim viðmiðum sem OECD hefur lagt til grundvallar við flokkun á vísindastarfsemi. Er þar byggt á því að starfsemi háskóla skiptist í eftirtalda skóla: Náttúruvísindi (Natural Sciences), verkfræði og tækni (Engineering and Technology), heilbrigðisvísindi (Medical Sciences), auðlinda- og búvísindi (Agricultural Sciences), félagsvísindi (Social Sciences) og hugvísindi (Humanities). Þessi aðgreining hefur fyrst og fremst flokkunar- og skilgreiningargildi. Íslenskir háskólar eru aftur á móti ekki bundnir af því að skipting skóla endurspegli nákvæmlega þessa aðgreiningu. Í ákvæði til bráðabirgða í frumvarpi þessu er m.a. gert ráð fyrir fráviki frá aðgreiningunni við ákvörðun á skólum innan Háskóla Íslands.
    Enda þótt skólar séu þannig teknir upp sem megineiningar háskóla stendur óbreytt að deildir eru grunneiningar hans og bera hina faglegu ábyrgð á háskólakennslu og rannsóknum, sbr. 11. gr. frumvarpsins. Af þessu leiðir að skólar eru fyrst og fremst stjórnunarleg umgjörð um rekstur, fjármál og sameiginleg málefni skyldra fræðigreina. Er því gert ráð fyrir að þar sem forsendur skiptingar háskóla í tvo eða fleiri skóla eru ekki fyrir hendi megi viðhafa einfaldara skipulag sem byggist alfarið á einni eða fleiri deildum sem grunneiningum. Rétt er þó að benda á að kostir stærri eininga segja fljótt til sín með tilliti til samlegðar og hagræðingar og má því reikna með að skólaskipting verði víðast viðtekin í íslenskum háskólum. Er það einnig í samræmi við þær ábendingar sem fram hafa komið í úttektum á íslenska háskólakerfinu og vikið er að í almennum athugasemdum við frumvarpið.
    Hinn meginþátturinn í skipulagi háskóla varðar háskólastofnanir sem settar eru á laggirnar til þess að vera rammi um fræðastarf á tilteknum sviðum, sem og þjónustustarfsemi háskóla. Enn fremur eru til staðar nokkrar háskólastofnanir sem starfa á grundvelli sérlaga en í nánum tengslum við háskóla. Mikilvægt er að þetta skipulag háskólastofnana sé í senn skýrt og einfalt enda hefur það valdið vandkvæðum, t.d. innan Háskóla Íslands, hve sundurleitt fyrirkomulagið er og staða stofnana misjöfn.
    Ákvæðum frumvarpsins er ætlað að styðja einföldun á skipulagi opinberra háskóla með því að stofnanir starfi á vettvangi hvers skóla, sbr. c-lið 1. mgr. Slíkum stofnunum verður skipt upp í faglegar sjálfstæðar rannsóknastofur en sú skipting endurspeglar skiptingu skóla í undirgreinar. Er það í samræmi við þá skipan sem við lýði er í dag en jafnframt er reiknað með því að tækifæri til samlegðar og hagræðingar verði nýtt þar sem það á við. Fyrirkomulag stofnana verður að bjóða upp á ákveðinn sveigjanleika og því er mælt fyrir um að háskólaráð geti ákveðið að háskólastofnun heyri undir ráðið, sbr. b-lið 1. mgr., og sé því viðbót við það fyrirkomulag að ein stofnun starfi á vettvangi hvers skóla. Með hliðsjón af því fyrirkomulagi sem verið hefur mundi þessi heimild einkum verða nýtt til þess að starfrækja þjónustustofnanir og þverfræðilegar rannsóknastofnanir. Margvísleg rök hníga að því að hagfellt geti verið að vista sjálfstætt þá þjónustu sem háskólar veita umfram kjarnastarfsemi sinnar. Meðal þess sem hér um ræðir er endurmenntun í þágu atvinnulífs, tölvuþjónusta og önnur sú starfsemi sem samkeppnissjónarmið mæla fyrir um að skuli aðskilin frá hefðbundnum ríkisrekstri. Vakin er hins vegar athygli á því að háskólar geta einnig valið að stofna sjálfstæð félög og fyrirtæki um slíka starfsemi í samræmi við heimildina í 3. mgr. 4. gr. frumvarpsins og IX. kafla þess. Var sú leið m.a. valin er íslenskir háskólar og rannsóknarstofnanir settu á laggirnar Rannsókna- og háskólanet Íslands hf. (RHnet) árið 2001 en það fyrirkomulag þykir hafa gefist vel.
    Þær háskólastofnanir sem starfa á grundvelli sérlaga eru í dag helst Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn. Í ákvæðum laga um báðar stofnanir er fjallað um háskólatengsl og mælt fyrir um samningsgerð þar að lútandi. Þar fyrir utan eru í gildi lög um tilraunastöðina að Keldum en staða þeirrar stofnunar hefur verið til sérstakrar umfjöllunar, m.a. með tilliti til tengsla við starfandi háskóla. Um skipulag og stöðu slíkra stofnana gagnvart Háskóla Íslands ræðst hins vegar af þeim sérlögum sem um er að ræða hverju sinni.
    Í 2. mgr. er gert ráð fyrir því að settar verði reglur um hlutverk helstu skipulagseininga háskóla. Hér er um að ræða almennar reglur um lagaframkvæmd sem íslensk stjórnskipun felur háskólaráðum að setja. Setning nánari reglna um innra skipulag hvers háskóla fyrir sig, t.d. um einstakar háskólastofnanir (hvort sem þær heyra undir háskólaráð eða skóla), yrðu hins vegar á forræði háskólaráðs án atbeina ráðherra.

Um 5. gr.

    Ákvæðið byggist á 15. gr. rammalaga um háskóla þar sem fram kemur að yfirstjórn háskóla sé falin háskólaráði og rektor. Þegar opinberir háskólar eiga í hlut þarf að kveða á um stjórnunarhlutverk háskólaráðs með nokkuð nákvæmari hætti en ella, meðal annars vegna lögbundins hlutverks rektors háskóla sem forstöðumanns, sbr. 38. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og ábyrgðar háskólaráðs, sbr. 49. gr. laga nr. 88/ 1997, um fjárreiður ríkisins. Í 8. gr. frumvarpsins er tekið af skarið um það að rektor beri ábyrgð á og hafi eftirlit með allri starfsemi háskóla, þar með talið ráðningum og fjármálum einstakra skóla og stofnana. Af þessu, og einkum 49. gr. laga nr. 88/1997, leiðir að háskólaráð hefur eftirlit með því að rektor ræki starfsskyldur sínar, sbr. 38. gr. laga nr. 70/1996.
    Ákvæði 1. mgr. 15. gr. eru að mestu sama efnis og ákvæði núgildandi laga. Sérstök áhersla er þó lögð á stefnumótunarhlutverk háskólaráðs sem frumvarpið hefur að markmiði að styrkja verulega. Þrátt fyrir að stefnumótun og framtíðarsýn sé á höndum háskólaráðs gerir frumvarpið ráð fyrir því að rektor geti átt þar ákveðið frumkvæði að því að háskólaráð marki sér heildarstefnu í málefnum háskóla, sbr. 2. mgr. 8. gr. Ekki er lagt til að efnisleg breyting verði á úrskurðarvaldi háskólaráðs, sbr. 2. mgr. Í samræmi við það getur háskólaráð tekið til endurskoðunar flestar ákvarðanir sem teknar hafa verið innan háskólans. Endurskoðun getur leitt til þess að ákvörðun sé staðfest, henni breytt eða ný ákvörðun tekin í máli. Undanskildar eru þó ákvarðanir í faglegum efnum sem eru á forræði einstakra háskólakennara, deilda eða skóla. Þannig endurmetur háskólaráð ekki prófúrlausnir eða faglega niðurstöðu kennara, prófdómara eða dómnefnda. Ráðið getur hins vegar þurft að skera úr um það hvort meðferð skóla eða deildar á skriflegu erindi nemanda hafi verið í samræmi við lög, reglur háskólans og góða stjórnsýsluhætti.
    Undanskilin eru enn fremur málefni einstakra starfsmanna sem eru alfarið á forræði rektors sem forstöðumanns stofnunar. Háskólaráð setur hins vegar almenn viðmið og reglur um ráðningu starfsmanna og getur þurft að skera úr um vafaatriði sem varða þær reglur með almennum hætti. Valdmörk háskólaráðs og rektors ættu þannig að vera skýr og tryggt að í framkvæmd komi ekki upp vandamál hvað það varðar.
    Eðli málsins samkvæmt fer stefnumörkun í fræðilegum efnum fyrst og fremst fram á vettvangi deilda og skóla. Háskólaráð hefur fyrst og fremst hlutverk við að móta heildarstefnu háskólans og er háskólafundur, sbr. III. kafla frumvarpsins, bakhjarl háskólaráðs í þeirri vinnu. Framkvæmd markaðrar stefnu er síðan á hendi háskólaráðs sem og umsýsla eigna.
    Sérstaklega er hnykkt á því í 3. mgr. að háskólaráð beri ábyrgð á framkvæmd samstarfssamninga sem háskóli gerir við fyrirtæki og aðrar stofnanir. Vægi slíkra samninga hefur farið vaxandi og er mikilvægt að þeim sé settur fastur rammi.
    Ákvæði 4. mgr. eru í samræmi við gildandi reglur. Viðmið af því tagi sem hér er vísað til eru m.a. um framgang milli starfsheita eða tilflutning milli stjórnunareininga innan háskóla. Mögulegt er einnig að tilflutningur eigi sér stað milli skóla og háskólastofnunar.
    Rík hefð er fyrir því innan háskóla að ákvörðunarvald sé framselt innan skipulagseininga. Rétt þykir að sú framkvæmd eigi sér skýra lagastoð, sbr. tillögu um efni 5. mgr., en jafnframt sé tekið fram að meginreglur laga eigi hér við. Er þar m.a. vísað til þess þegar teknar eru eiginlegar stjórnvaldsákvarðanir um réttindi og skyldur starfsmanna og nemenda. Slíkar ákvarðanir geta eðli málsins samkvæmt verið af ýmsu tagi. Framsal ákvörðunarvalds í einstökum málum varðar innra skipulag háskóla og því þykir rétt að háskólaráði sé veitt þessi heimild. Gera má ráð fyrir að tillaga um slíkt valdframsal geti komið frá einstökum skipulagseiningum háskóla og fallist háskólaráð á slíkt sé það gert með skriflegum hætti. Jafnframt er gert ráð fyrir því að slíkt valdframsal sé tilkynnt sérstaklega, t.d. í skipuriti eða með öðrum hætti, á vef háskóla.
    Í 6. mgr. er sett fram sú regla að leita skuli álits forseta skóla þegar málefni sviðs er til umfjöllunar í háskólaráði. Álits forstöðumanns yrði leitað með sama hætti í tilviki stofnunar. Ákvæðið þarfnast ekki skýringa að öðru leyti.

Um 6. gr.

    Víðtækt hlutverk háskólaráða er eitt megineinkenni íslenska háskólakerfisins. Þetta hlutverk tekur bæði til stefnumörkunar og framkvæmdastjórnar, auk þess sem gengið er út frá því sem meginstefnu í gildandi lögum að háskólaráð sé æðsti ákvörðunaraðili innan hvers háskóla.
    Af þessu margþætta hlutverki háskólaráða leiðir að vega verður saman ýmis sjónarmið þegar tekin er afstaða til þess hvernig háskólaráð skuli skipað. Úttektaraðilar, sem fjallað hafa um íslensku háskólana á umliðnum missirum, hafa allir vikið að skipun háskólaráða með einum eða öðrum hætti. Þannig bentu bæði Ríkisendurskoðun og Samtök evrópskra háskóla (EUA) á það í úttektum sínum, sem gerð er grein fyrir í almennum athugasemdum frumvarpsins, að fjölga bæri utanaðkomandi fulltrúum í háskólaráði HÍ. Í þessu sambandi vék Ríkisendurskoðun sérstaklega að þróun síðustu ára varðandi skipan háskólaráða í skólum á Norðurlöndum. Eru þær breytingar yfirleitt í þá átt að meiri hluti háskólaráðs sé skipaður fulltrúum aðila utan háskóla fremur en að ráðið sé skipað fulltrúum deilda eða stofnana innan skólans. Misjafnt er þó hversu langt er gengið í þessu efni og enn fremur hvaða áhrif breyting á skipan háskólaráða hefur á stöðu rektors. Ríkisendurskoðun bendir þannig á í úttekt sinni á HÍ að verið hafi „nokkuð skiptar skoðanir um hvort æskilegt sé að rektor eigi sæti í háskólaráði og stjórni jafnvel störfum þess. Ýmsir hafa talið slíkt fyrirkomulag óheppilegt þar sem ráðinu er m.a. ætlað að hafa eftirlit með störfum rektors og annarra stjórnenda. Í nýjum norrænum háskólalögum er ekki lengur gert ráð fyrir að rektor og aðstoðarrektor eigi sæti í háskólaráði.“
    Á sama tíma hefur í umræðu síðastliðinna ára á Norðurlöndum verið lögð áhersla á að breytingar á skipan háskólaráða megi ekki verða til þess að skerða sjálfstæði háskóla. Hefur yfirleitt verið farin sú leið að áskilja að fjölgun á utanaðkomandi fulltrúum byggðist á því að þeir séu valdir með heildarhagsmuni háskóla í huga og á grundvelli faglegrar hæfni sinnar. Breytingin hafi því að leiðarljósi að nýir fulltrúar í háskólaráði séu sjálfstæðir í störfum sínum.
    Eins og áður segir byggist fyrirliggjandi frumvarp á þeirri forsendu að skipun yfirstjórnar opinberra stofnana skuli ákveðin með lögum. Nefnd sú sem samdi frumvarpið fjallaði því ítarlega um þau rök sem færð hafa verið fram í umræðum á síðustu árum, sem og kosti og galla í þeim útfærslum sem helst hefur verið litið til. Ljóst var frá upphafi að breytinga væri þörf á núverandi fyrirkomulagi enda koma afar skýrar ályktanir fram um það í fyrirliggjandi úttektum. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að fjögur sjónarmið hefðu áberandi mest vægi þegar mótuð væri löggjafarstefna fyrir opinbera háskóla á Íslandi. Umrædd sjónarmið má draga saman á eftirfarandi hátt:
    1.     Að ráðið veiti háskóla forustu jafnt inn á við sem út á við.
    Öll framvinda í umhverfi íslenskra háskóla á síðustu tíu árum gerir afar brýnt að forusta þeirra verði efld út á við. Þróun þekkingarsamfélagsins verður sífellt örari og jafnast hraðinn tíðum á við stökkbreytingar. Til þess að tryggja hagsmuni sína í þessari stöðugu ummyndun verður hver háskóli að leggja höfuðáherslu á markmiðsbundna stjórnun og víðtæka hagsmunagæslu með samningum og samstarfi. Þeim markmiðum nær háskóli ekki án bandamanna og því að eiga greiðan aðgang að atvinnulífinu. Lykilatriði í þessu tilliti er trúverðug forusta háskólaráðs út á við. Af sjálfu leiðir að henni verður best náð með því að ráðið sjálft hafi á að skipa fulltrúum sem geta verið öflugir málsvarar háskóla á öllum framangreindum sviðum. Eru þetta helstu rökin fyrir því að ráðið hafi á að skipa breidd í utanaðkomandi fulltrúum. Hvað varðar forustu inn á við felst meginstyrkur núverandi skipunar í því að rektor háskóla sé jafnframt formaður háskólaráðsins. Er því ekki gerð nein tillaga um breytingu hvað það varðar.
    2.     Að ráðið geti sinnt endurskoðunar- og úrskurðarhlutverki sínu.
    Núverandi skipan háskólaráða í HÍ, HA og KHÍ gengur út frá því að fulltrúar í ráðinu komi að meirihluta til úr hópi starfsmanna og nemenda við skólann. Augljóst er að flest þau erindi, sem háskólaráð fær til endurskoðunar eða úrskurðar, varða einhverja grunneiningu skólans að verulegu leyti, auk þess sem mál getur einnig varðað stöðu hópa starfsmanna eða nemenda með afgerandi hætti. Þessi skipan er ekki til þess fallin að styðja við endurskoðunar- og úrskurðarhlutverk ráðsins og er óheppileg. Það að vanhæfisreglur eigi við í ýmsum tilvikum hefur ekki neina úrslitaþýðingu enda er gildissvið stjórnsýslulaga takmarkað að ýmsu leyti.
    3.     Að ráðið vinni heildarhagsmunum háskóla brautargengi.
    Af ákvæðum um núverandi skipan háskólaráða HÍ, HA og KHÍ má að ýmsu leyti og réttilega draga þá ályktun að fulltrúum í ráðinu sé ætlað að gæta tiltekinna hagsmuna innan skólans. Mikilvægt er að hverfa frá þessari framsetningu að ákveðnu marki enda samrýmist hún ekki vel því lögbundna hlutverki sem opinberum háskólum er ætlað að sinna í þágu almennings. Þannig er það meginhlutverk háskólaráðs að vinna brautargengi heildarhagsmunum stofnunarinnar. Í framkvæmd mun það og styrkja þetta yfirstjórnarhlutverk háskólaráðs að meginrekstrareiningar stofnunarinnar eflist og fái fleiri mál til úrlausnar eins og gert er ráð fyrir í ákvæðum frumvarpsins um eflingu skóla. Þróun háskólafundar sem vettvangs fyrir heildarstefnumótun styður einnig aðkomu einstakra deilda og stofnana að ákvarðanaferlinu. Ættu því hagsmunir einstakra stjórnunareininga að vera vel settir enda þótt þær eigi ekki sína fulltrúa í háskólaráði.
    4.     Að skipan ráðsins styðji við skilvirka framkvæmdastjórn.
    Háskólaráð fer með framkvæmdastjórn háskóla ásamt rektor. Því skiptir miklu máli að fjöldi fulltrúa í ráðinu sé ákveðinn með tilliti til þess að ákvarðanataka sé í senn skilvirk og vönduð. Sú almenna löggjafarstefna hefur mótast á umliðnum árum að fjölskipuð stjórnvöld, sem taka ákvarðanir, séu að meginstefnu til ekki fjölmennari en sjö manna. Má sem dæmi nefna stjórn tækniþróunarsjóðs sem starfar á grundvelli laga nr. 75/2007, um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun.
    Þegar framangreind sjónarmið voru vegin saman í heild var það niðurstaða nefndar menntamálaráðherra að leggja til þá skipan sem fram kemur í 1. mgr., þ.e. að háskólaráð opinbers háskóla verði sjö manna, skipað rektor og sex fulltrúum sem valdir eru til þess að tryggja sem mesta faglega breidd og styrk fyrir háskólann út á við. Í 1. tölul. 1. mgr. er gert ráð fyrir að háskólasamfélagið velji einn fulltrúa samkvæmt nánari ákvörðun háskólafundar. Hefð er fyrir því innan háskóla að tala um samfélag háskólans eða háskólasamfélagið. Í frumvarpinu er byggt á því að til háskólasamfélagsins heyri þeir sem sæti eiga á háskólafundi, sbr. 10. gr. frumvarpsins. Þá er gert ráð fyrir að tveir fulltrúar stjórnvalda verði valdir af menntamálaráðherra og er það í samræmi við núverandi skipan í HÍ og KHÍ. Er óumdeilt að þetta fyrirkomulag hefur gefist vel og tryggt stöðu háskólanna í samskiptum við hagsmunaaðila og stjórnvöld. Þá er kveðið á um það í 4. tölul. 1. mgr. að tveir fulltrúar í háskólaráði skuli valdir af þeim fulltrúum sem fyrir eru í háskólaráði. Er sú tillaga í samræmi við þau sjónarmið að skipan háskólaráðs eigi að endurspegla sjálfstæði háskóla.
    Í 2. mgr. er tekið fram að fjórum fulltrúum tilnefndum af aðilum utan háskóla skuli valinn varamaður. Í þessu felst að hver af þessum fjórum fulltrúum eigi sinn varamann sem boðaður er til fundar ef forföll verða hjá viðkomandi. Forfallist varamaður, sem valinn er af menntamálaráðherra, getur hinn varamaðurinn komið í hans stað. Að öðru leyti koma varamenn ekki hver í annars stað.
    Í 3. mgr. er að finna reglu sem sérstaklega þarf að ákveða þar eð fulltrúum í háskólaráði er falið að sjá um að ráðið verði fullskipað. Þetta verkefni hafa fulltrúarnir með höndum en felur ekki í sér að ráðið hafi tekið til starfa fyrr en það er fullskipað. Mikilvægt er að val fulltrúa samkvæmt þessari málsgrein gangi greiðlega fyrir sig og í tæka tíð áður en skipunartímabil fráfarandi háskólaráðs rennur út.
    Í 4. mgr. kemur fram að háskólaráð setji nánari reglur um val á fulltrúum háskólasamfélagsins og nemenda. Þetta er í samræmi við gildandi lög, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 41/1999, um Háskóla Íslands.

Um 7. gr.

    Í ákvæðinu er fjallað um fundi og störf háskólaráðs. Byggt er á reglum í gildandi lögum að teknu tilliti til þess fulltrúafjölda sem gerð er tillaga um í 6. gr. frumvarpsins. Ákvæðið um að afl atkvæða ráði úrslitum mála byggist á atkvæðum sem greidd eru með og á móti. Ekki er tekið tillit til hjásetu. Greinin skýrir sig að öðru leyti sjálf.

Um 8. gr.

    Hér er fjallað um skipun og störf rektors. Byggt er á reglum í gildandi lögum. Í samræmi við það á hver háskóli val um það hvort kosningar fari fram innan hans til undirbúnings þess að háskólaráð láti uppi tilnefningu sína.
    Ákvæði 2. mgr. gerir ráð fyrir því að rektor sé forstöðumaður háskóla í merkingu 38. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og ber því ábyrgð á að háskóli starfi í samræmi við lög, stjórnvaldsfyrirmæli og erindisbréf. Þá felst jafnframt í því samkvæmt sama ákvæði að forstöðumaður ber ábyrgð á að rekstrarútgjöld og rekstrarafkoma stofnunarinnar sé í samræmi við fjárlög og að fjármunir séu nýttir á árangursríkan hátt.
    Samkvæmt 3. mgr. ræður rektor forseta fyrir hvern skóla innan háskóla. Um ráðningu forseta er nánar fjallað í 12. gr. Vakin er athygli á því að forseti er ekki ráðinn til starfa ef háskóli starfar samkvæmt einföldu skipulagi og án skiptingar í skóla, sbr. 2. mgr. 4. gr. Rektor háskóla mundi við þær aðstæður geta ráðið aðstoðarforseta og falið honum ýmis verkefni við stjórn skólans. Aðstoðarforsetar gætu verið fleiri en einn, t.d. yfir kennslumálum og yfir rannsóknum. Þá er tekið fram að háskólaráð geti heimilað að rektor ráði aðstoðarrektor, einn eða fleiri. Þykir eðlilegt að það sé háskólaráð sem geti heimilað slíkt.

Um 9. gr.

    Ákvæðið byggist á 16. gr. rammalaga um háskóla þar sem fram kemur að í hverjum háskóla skuli haldinn háskólafundur a.m.k. einu sinni á ári. Að öðru leyti tekur ákvæðið mið af því hvernig háskólafundir hafa þróast á vettvangi Háskóla Íslands allt frá 1999. Hlutverk háskólafundar er ráðgefandi og bundið við stefnumörkun fyrir háskólann í heild. Fundurinn fjallar því ekki um einstök stjórnsýslumál.

Um 10. gr.

    Ákvæðinu um skipan háskólafundar er ætlað að endurspegla þá breidd sem þarf að vera til staðar við stefnumörkun fyrir háskólann í heild. Reiknað er með að háskólaráð setji nánari reglur um fjölda fulltrúa sem eiga sæti á fundinum og val þeirra. Í því efni yrði tekið mið af almennum viðmiðum um fulltrúasamkomur af þessu tagi.
    Í 3. mgr. er gert ráð fyrir að háskólaráð setji nánari reglur um fjölda fulltrúa sem sæti geta átt á háskólafundi og um val þeirra. Gera verður ráð fyrir því við undirbúning að setningu slíkra reglna verði þær eftir því sem við á kynntar háskólafundi, skólafundi eða eftir atvikum húsfundi í háskólastofnun, sbr. 1. mgr. 4. gr.

Um 11. gr.

    Í 1. mgr. kemur fram sú meginregla frumvarpsins að skólar eru megineiningar háskóla og deildir grunneiningar skóla. Um inntak skóla sem skipulagseininga er vísað til almennra athugasemda með frumvarpinu og skýringar við 4. gr.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir því að deildir séu faglegar grunneiningar skóla og hafi forræði yfir akademískum málefnum þess, þ.e. kennslu og rannsóknum. Í þessum skilningi samsvara deildir áfram því sem nefnt er faculty í alþjóðlegu háskólaumhverfi. Þessi meginregla er sett fram í 2. mgr. þannig að deildir beri faglega ábyrgð á háskólakennslu og rannsóknum. Í því felst nánar að deildir ákveða uppbyggingu einstakra námsleiða. Námsleið er hér skilgreind í samræmi við ákvæði rammalaga um háskóla, nr. 63/2006, og auglýsingu nr. 80/2007, um útgáfu viðmiða um æðri menntun og prófgráður, og samsvarar því sem nefnt er study programme í alþjóðlegu háskólaumhverfi.
    Í meginreglunni felst einnig að deildir veita háskóla- eða prófgráðu sem veitt er við lok skilgreindrar námsleiðar. Formaður deildar staðfestir veitingu prófgráðu fyrir hennar hönd. Þá koma deildir að samstarfi um veitingu prófgráðu og mat til eininga á námi sem fram fer í öðrum háskólum, sbr. 9. og 10. gr. laga um háskóla.
    Í fyrirliggjandi stefnumörkun í tengslum við sameiningu HÍ og KHÍ kemur fram að í hverjum skóla starfi ekki fleiri en fjórar til sex deildir. Verður að telja mikilvægt að haldið sé fast við þá stefnu svo að kostir við nýja skipan nýtist sem best. Í því sambandi skal tekið fram að deildir geta sett á stofn faglegar skipulagseiningar innan sinna vébanda í samræmi við almenna framsalsheimild, sbr. 5. mgr. 5. gr. Þessar einingar mundu samsvara því sem nefnt er department í alþjóðlegu háskólaumhverfi. Reglur settar af háskóla mundu fjalla nánar um heiti og hlutverk slíkra eininga.

Um 12. gr.

    Í greininni er fjallað um skipulag skóla og störf forseta. Vísað er til almennra athugasemda við frumvarpið um meginhlutverk forseta sem faglegra leiðtoga fyrir hinni akademísku starfsemi. Áréttað er að þeim er einnig falið ákvörðunarvald í starfsmannamálum, m.a. um ráðningar akademískra starfsmanna. Þá munu þeir bera ábyrgð á gæðum kennslu, rannsókna, stjórnsýslu, stoðþjónustu og annarrar starfsemi sviðsins. Af þessu má ljóst vera að gera verður ríkar hæfiskröfur til þeirra sem ráðnir eru í störf forseta. Í frumvarpinu er farin sú leið að forsetar skuli uppfylla almenn hæfisskilyrði prófessora samkvæmt lögum. Þar að auki leiðir af eðli starfsins að umsækjendur um það þurfi að hafa leiðtogahæfileika og víðtæka reynslu af stjórnun og stefnumótun. Fjármálalegir þættir koma einnig inn í hæfismatið enda segir í 2. mgr. að forseti beri ábyrgð á fjármálum skóla gagnvart rektor og háskólaráði. Í því felst þó ekki að forseti skóla beri þá ábyrgð sem hvílir á rektor skv. 38. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna manna ríkisins. Hér er lögð til ákveðin verkaskipting sem þó er háð eftirliti rektors og háskólaráðs. Í því sambandi verður að gera ráð fyrir því að forseti beri ábyrgð á gerð starfs- og rekstraráætlana skóla og að af 2. mgr. 8. gr. leiðir að slíkar áætlanir verði óhjákvæmilega hluti af þeim áætlunum rektors sem háskólaráð samþykkir.
    Enda þótt ekki sé kveðið á um það í 1. mgr. er háskóla heimilt að skipa valnefnd til þess að velja hæfasta umsækjandann úr hópi þeirra sem uppfylla lagaskilyrðin, m.a. um prófessorshæfi. Slík valnefnd mundi einnig koma að því ákveði rektor að nýta heimild til þess að kalla starfsmann háskóla til þess að vera tímabundið forseti yfir skóla. Um tímalengd ráðningar forseta fer samkvæmt reglum sem háskólaráð setur en hún mundi í öllum tilvikum vera tímabundin og miðast við fimm ára hámark nema afbrigði til framlengingar séu nýtt.
    Í 2. mgr. kemur fram að forseti velji deildarformenn til tveggja ára í senn samkvæmt tilnefningu deildarfundar. Í gildandi lögum er ekki kveðið á um valtímabil deildarforseta en rétt þykir að skapa þessu atriði festu með lögum. Tveggja ára tímabilið er ákveðið með það í huga að forsetar munu taka við hluta þeirrar stjórnunar sem deildarforsetar áður höfðu með höndum.

Um 13. gr.

    Í ákvæðinu kemur fram að forseti og deildarformenn myndi skólaráð. Skólaráð fjallar um sameiginleg málefni skólans og mun að auki staðfesta ákvarðanir deilda um námsframboð, m.a. með hliðsjón af faglegri samþættingu námsframboðs í skólanum og fjárhagslegum sjónarmiðum. Þá er gert ráð fyrir því að skólaráð geti ákveðið að koma á fót háskólastofnun, sbr. c-lið 1. mgr. 4. gr.

Um 14. gr.

    Ákvæðið fjallar um skólafundi sem eru samráðsvettvangur um innri málefni skólans. Reiknað er með að þar eigi sæti starfsmenn og stúdentar skólans og utanaðkomandi fulltrúar samkvæmt nánari ákvörðun hvers skóla. Meginhlutverk þessara funda er við stefnumörkun í sameiginlegum akademískum og faglegum málefnum. Fundurinn hefur hins vegar ekki stjórnsýslulegt hlutverk eins og áréttað er 2. mgr. Húsfundir, sem haldnir eru innan sjálfstæðra háskólastofnana, hafa sambærilegt hlutverk og skólaráð.

Um 15. gr.

    Í 13.–15. gr. er fjallað um starfslið háskóla. Nauðsynlegt er að skýrlega sé mælt fyrir um ýmis atriði er varða t.d. ráðningu starfsliðs og þeirrar sérstöðu er opinberir háskólar búa við þegar kemur að ákvæðum laga nr. 70/1996 og ákvæðum stjórnsýslulaga. Ákvæðin byggjast annars að verulegu leyti á núgildandi lögum um kennara og sérfræðinga í lögum um Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri og Kennaraháskóla Íslands, og munu ekki hafa neina breytingu í för með sér fyrir réttarstöðu starfsmanna.
    Kjarnastarfsemi hvers háskóla felst annars vegar í kennslu til viðurkenndrar prófgráðu og hins vegar í vísindarannsóknum. Starfsheiti þeirra sem sinna þessari starfsemi í íslenskum háskólum eru venjuhelguð. Í 1. mgr. er tekið upp ákvæði úr 17. gr. rammalaganna um að starfsheiti kennara við háskóla skuli vera prófessor, dósent, lektor og aðjunkt.
    Undir „akademísk störf“ falla störf háskólakennara, þ.e. prófessora, dósenta og lektora að undanskildum aðjunktum, og sérfræðinga sem hafa með höndum sjálfstæðar vísindarannsóknir.
    Þessum störfum fylgir sjálfstæði í kennslu og frumkvæði við val á viðfangsefnum og aðferðum við rannsóknir. Að sama skapi eru gerðar ríkar kröfur til þeirra sem hafa þessi störf með höndum og bera þeir víðtæka ábyrgð á að ná árangri á því sviði sem þeim er úthlutað. Eru því ströng og ófrávíkjanleg hæfisskilyrði fyrir ráðningu í þessi störf auk þess sem umsækjendur um þau verða að sýna fram á það gagnvart dómnefnd, eða öðrum þar til bærum aðila, að þeir njóti viðurkenningar á sínu sérsviði.
    Sérfræðingar sem hafa með höndum þjónusturannsóknir falla hins vegar ekki undir umrædd skilyrði og geta háskólar ráðið þá til starfa án þess að ráðningarmálið fari fyrir dómnefnd. Sama gildir um þá sem ráðnir eru í störf aðjunkta.
    Gert er ráð fyrir að reglur, sem háskólaráði er ætlað að setja um leyfi akademískra starfsmanna frá störfum, taki bæði til reglulegra rannsóknaleyfa sem hefðbundið er að veita, sem og leyfi frá störfum af öðrum ástæðum, svo sem ef háskólakennari tekur tímabundið við öðru launuðu starfi.

Um 16. gr.

    Ákvæði um dómnefndir byggjast á 18. gr. rammalaga um háskóla og áralangri framkvæmd. Ekki er reiknað með að menntamálaráðherra tilnefni fulltrúa sinn í dómnefndir eins og nú er samkvæmt núgildandi reglum um Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri og Kennaraháskóla Íslands. Á hinn bóginn gildir um dómnefndir samkvæmt þessu ákvæði að í þeim skal sitja a.m.k. einn fulltrúi sem ekki starfar við viðkomandi háskóla, sbr. 2. mgr. 18. gr. rammalaga um háskóla, nr. 63/2006.

Um 17. gr.

    Eins og vikið er að í almennum athugasemdum við frumvarpið er gert ráð fyrir því að forsetar fari með ráðningarmál þeirra sem starfa við kennslu og rannsóknir. Sama gildir um slík störf við stofnanir sem heyra undir háskólaráð. Hér er um mikilvæga nýbreytni að ræða sem ætlað er að styrkja starfsemi þessara megineininga í rekstri háskóla.
    Áfram er gert ráð fyrir því að veiting starfs sé ákveðin á grundvelli tillögu. Fyrirkomulag tillögugerðar verði hins vegar ekki ákveðin af lögum en fari samkvæmt reglum settum af háskólaráði. Er það í samræmi við núverandi skipan sem leyfir að valnefndir geri slíkar tillögur eða að þær séu afgreiddar á fundum í stjórnunareiningum.
    Þegar um er að ræða auglýst störf byggist tillagan á því að velja þann úr hópi hæfra umsækjenda, samkvæmt áliti dómnefndar, sem best uppfyllir skilyrði auglýsingar. Er afar mikilvægt að ráðningarreglur, sem háskólaráð setur, greini skýrlega á milli þessara tveggja þrepa í ráðningarferlinu, þ.e. annars vegar að ákvarða hverjir umsækjenda uppfylla lágmarksskilyrði fyrir ráðningu, sem er hlutverk dómnefndar, og hins vegar að velja milli þeirra umsækjenda sem dómnefnd telur hæfa.
    Lagt er til að áfram verði byggt á þeirri meginreglu að störf við kennslu og rannsóknir skuli auglýst en að víkja megi frá auglýsingaskyldunni í nánar afmörkuðum tilvikum. Eru þessi tilvik í samræmi við núgildandi reglur.
    Í lokamálsgrein ákvæðisins er byggt á þeirri meginreglu gildandi laga sem heimilar tímabundna ráðningu til allt að fimm ára þegar störf við kennslu og rannsóknir eiga í hlut. Hér er um frávik að ræða frá meginreglu 7. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sem stutt hefur verið rökum um sérstöðu starfa háskólakennara og vísinda- og fræðimanna. Er þá byggt á því að tími sem þarf til undirbúnings slíku starfi og þjálfunar í því réttlæti lengri ráðningartíma en almennt er gengið út frá í lögum nr. 70/1996. Í ljósi reynslu af þessu ákvæði, sem m.a. hefur verið í lögum um Háskóla Íslands frá árinu 1999, er lagt til að framlengja megi tímabundna ráðningu um allt að tvö ár fram yfir fimm ára markið. Þessari heimild yrði einungis beitt þegar sérstaklega stendur á og í þeim tilvikum þegar framlenging á ráðningartíma þjónaði almennt hagsmunum viðkomandi skóla.

Um 18. gr.

    Í ákvæðinu og 19. gr. er fjallað um nemendur opinberra háskóla. Byggt er á ákvæðum VII. kafla rammalaga um háskóla.
    Hér er að finna ákvæði um innritun nemenda sem eru höfð nokkuð ítarlegri en í gildandi lögum en borið hefur á því að óvissa ríkti um það með hvaða hætti opinberir háskólar skuli haga inntöku nemenda.
    Í 2. mgr. kemur fram að háskóla sé heimilt að víkja frá megininntökuskilyrðinu um stúdentspróf eða annað jafngilt próf. Þessi undanþáguheimild hefur verið í lögum um langa hríð.
    Í 3. mgr. eru talin upp í fimm liðum þau atriði sem reglur háskóla þurfa að kveða á um inntöku nemenda. Eru þessi fyrirmæli í samræmi við það hvernig gildandi lög hafa verið framkvæmd. Ákvarðanir um inntöku í opinbera háskóla teljast stjórnvaldsákvarðanir í skilningi laga og er því brýnt að vel sé hugað að heimildum og málsmeðferð, m.a. um inntökupróf, fjöldatakmarkanir o.fl.
    Í 4. mgr. kemur fram að reglur um fjöldatakmörkun og inntöku á grundvelli undanþágu skulu settar fyrir fram fyrir hvert háskólaár að teknu tilliti til forsendna háskóla til þess að veita kennslu á viðkomandi námsleið. Tilvísun greinarinnar er ætlað að taka af tvímæli um það að háskóla sé heimilt að takmarka inntöku nemenda ef skortur er á kennslukrafti eða aðstöðu innan háskóla. Nokkur vafi hefur þótt leika á um þetta atriði í núgildandi lögum.

Um 19 gr.

    Ákvæðið byggist að mestu leyti á VII. kafla laga um háskóla og ákvæðum gildandi laga, sbr. IV. kafla laga um Háskólann á Akureyri. Rétt er þó að undirstrika að gert er ráð fyrir því að forseti þeirrar deildar þar sem nemandi er skráður fari með agavald gagnvart nemendum í deildum í viðkomandi skóla. Er þetta breyting frá núgildandi lögum sem miða við að það sé rektor einn sem fari með heimildir til þess að beita viðurlögum. Breytingin þykir hins vegar eðlileg í ljósi þess að ákvarðanir í málum nemenda séu almennt teknar sem næst vettvangi.

Um 20. gr.

    Ákvæðið byggist á ákvæðum laga um háskóla, einkum 6. gr. þeirra laga. Í samræmi við þá stefnu að skólar hafi svigrúm til þess að haga kennslu í sem bestu samræmi við þarfir einstakra greina er tekið af skarið um að missiraskipting geti verið mismunandi milli skóla. Þetta gefur m.a. möguleika á því að taka upp sumarmissiri í tilteknum greinum að öðrum skilyrðum uppfylltum.
    Í 2. mgr. kemur fram að kennsla skal fara fram í námskeiðum sem metin eru í einingum í samræmi við fyrirmæli laga nr. 63/2006. Hér er vísað til 6. gr. þeirra laga þar sem segir m.a. að 60 námseiningar svari að jafnaði til fulls náms á ársgrundvelli og endurspegli alla námsvinnu nemenda. Þessi viðmið byggjast á ECTS-einingakerfinu sem með þessu leysir af hólmi fyrirkomulag samkvæmt eldri lögum sem gerðu ráð fyrir 30 einingum á ári í fullu námi. Yfirfærsla milli kerfa verður hins vegar auðveld enda hafa opinberu háskólarnir um skeið notað ECTS-einingar til jafns við hinar.

Um 21. gr.

    Hér eru tekin saman ýmis ákvæði um próf og mat á námi. Gert er ráð fyrir því að hver háskóli setji ítarlegri reglur á grundvelli ákvæðisins, m.a. um viðurkenningu erlendra prófa, inntöku- og undirbúningspróf, einkunnir og annað er að prófum lýtur, enn fremur um námsframvindu og hámarkstímalengd í námi, sbr. 4. mgr. greinarinnar. Efni þessara ákvæða eru í stórum dráttum í samræmi við núgildandi lög.

Um 22. gr.

    Í ákvæðinu kemur fram að um prófgráður, sem háskóla er heimilt að veita, fari samkvæmt lögum um háskóla, nr. 63/2006. Háskólaráði er heimilt að setja nánari reglur um prófgráður á grundvelli þeirra telji ráðið þess þörf. Mundi slíkt t.d. koma til álita vegna prófgráðna sem veittar eru í tengslum við endurmenntun.

Um 23. gr.

    Samkvæmt ákvæðinu er gert ráð fyrir að háskólar hafi rétt til að veita doktorsnafnbót í heiðursskyni og að slík nafnbót verði einungis veitt samkvæmt tillögu stjórnar fræðasviðs og með samþykki háskólaráðs. Í þessu efni er byggt á gildandi lögum.

Um 24. gr.

    Í ákvæðinu er fjallað um fjármögnun háskóla og byggist það að meginstefnu á núverandi fyrirkomulagi sem gilt hefur um Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri. Tekið er fram að menntamálaráðherra geri tillögur til hvers skóla til að mæta útgjöldum til kennslu, rannsókna og annarra verkefna. Er þannig gert ráð fyrir að opinberir háskólar skipuleggi starfsemi sína og einstök verkefni innan þess ramma sem ræðst af fjárveitingum á fjárlögum, öðrum framlögum og eigin tekjum, sbr. 2. mgr.
    Í 2. mgr. eru teknar saman á einn stað þær heimildir sem opinberir háskólar hafa til gjaldtöku. Er það í samræmi við 2. mgr. 22. gr. laga um háskóla. Hér ber að undirstrika að um er að ræða heimildir til töku þjónustugjalda sem ætlað er að mæta þeim tilkostnaði sem hlýst af því að veita umrædda þjónustu. Þau rök sem búa hér að baki byggjast á því að rétt sé að virkja kostnaðarvitund, einkum nemenda og starfsmanna háskólanna, og á gjaldtakan að vera stjórntæki til að stýra eftirspurn eftir þeirri þjónustu sem um er að ræða hverju sinni.
    Í fyrsta lagi er í a-lið áfram byggt á því að háskólar hafi heimild til innheimtu skrásetningargjalds. Gjaldið er í eðli sínu þjónustugjald, sbr. álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 836/1993, sem m.a. er ætlað að mæta útgjöldum vegna skráningar og ýmiss konar þjónustu við nemendur sem ekki telst til kostnaðar við kennslu og rannsóknastarfsemi. Hámark þjónustugjaldsins er þó takmarkað við ákveðna fjárhæð. Lögð er til sú breyting í 4. mgr. að háskólaráð einstakra skóla geta gert tillögu til menntamálaráðherra um breytingar á hámarksfjárhæð skrásetningargjaldsins. Með því er leitast við að gera háskólaráð skólanna virkara við ákvörðun gjaldsins. Það er síðan menntamálaráðherra sem getur fylgt eftir tillögunum með því að leggja þær fyrir Alþingi í formi lagafrumvarps. Í þessu felst þó ekki takmörkun á rétti ráðherra til þess að leggja fram að eigin frumkvæði tillögur fyrir Alþingi um breytingar á fjárhæð gjaldsins. Með þessu fyrirkomulagi er einnig gert ráð fyrir því að fjárhæð skrásetningargjalda geti verið mismunandi eftir skólum. Miðað er við að hámark gjaldsins megi vera 45.000 kr. við skráningu í nám en það er sú fjárhæð sem miðað er við í gildandi lögum, sbr. 1. gr. laga nr. 132/2004, og áfram er byggt á því að hámark gjaldsins verði ákveðið af Alþingi. Að því er varðar grundvöll og fjárhæð gjaldsins er byggt á sama grundvelli og greinir í 3. mgr. 13. gr. laga, um Háskóla Íslands, og fyrst var ákveðið með lögum nr. 29/1996.
    Í öðru lagi er gert ráð fyrir að háskólar megi innheimta gjöld til að standa undir útgáfu staðfestra vottorða, gerð, fyrirlögn og yfirferð stöðu-, inntöku-, upptöku- og fjarprófa. Um stöðu- og inntökupróf er m.a. fjallað í c-lið 3. mgr. 18. gr. frumvarpsins. Talið er rétt að háskólar fái slíka heimild, en í framkvæmd hefur m.a. sýnt sig að háskólar geta þurft að leggja út í umtalsverðan kostnað vegna framangreindra prófa, sbr. t.d. álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 3805/2003, þar sem fjallað var um heimild til töku próftökugjalds vegna inntökuprófs við læknadeild Háskóla Íslands.
    Í þriðja lagi er í c-lið byggt á því að háskólar hafi heimild til innheimtu gjalds fyrir þjónustu sem telst utan þeirrar þjónustu sem háskóla er skylt að veita. Ákvæðið er samhljóða 1. málsl. 1. mgr. 18. gr. laga um Háskóla Íslands og 1. málsl. 1. mgr. 14. gr. laga um Háskóla Íslands og þarfnast ekki skýringa.
    Í fjórða lagi er í d-lið lagt til að háskóla verði heimilt að taka gjald fyrir þjónustu sem háskóli veitir og er grundvölluð á samningi við menntamálaráðuneytið, sbr. d-lið 2. mgr. 21. gr. laga um háskóla. Ákvæðið er nýmæli og er m.a. ætlað að taka til verkefna er fela í sér þjónustu sem háskóli tekur að sér að veita á grundvelli samnings við menntamálaráðuneytið. Hér má nefna sem dæmi að verði frumvarp menntamálaráðherra um brottfall laga nr. 25/1921, um einkarétt Háskóla Íslands til útgáfu almanaks, að lögum verður unnt að fela Háskóla Íslands áfram útgáfu almanaksins með samningi sem áður er lýst. Í slíkum tilvikum fengi háskólaráð heimild til þess að ákveða innheimtu gjalds fyrir þjónustu sem það veitir vegna útgáfu almanaksins.
    Í fimmta lagi er í e-lið mælt fyrir um heimild til töku gjalds fyrir endurmenntun og fræðslu fyrir almenning. Ákvæðið er samhljóða ákvæði 2. málsl. 1. mgr. 18. gr. laga um Háskóla Íslands og þarfnast ekki skýringar.
    Í lokamálsgrein ákvæðisins er kveðið á um heimild háskólaráðs til þess að setja nánari reglur um ráðstöfun gjalda samkvæmt greininni. Er sérstaklega tekið fram að háskólaráð geti annars vegar mælt fyrir um lækkun skrásetningargjalds til tekjulítilla stúdenta er búa við örorku eða fötlun eins og hún er skilgreind í lögum um málefni fatlaðra. Þykir rétt að veita háskólaráði þetta svigrúm og að um slíkar undanþágur sé mælt fyrir um í reglum skólans en með því er tryggt að jafnræðis sé gætt meðal stúdenta. Þá er einnig gert ráð fyrir því að háskólaráði verði heimilt að ráðstafa hluta skrásetningargjaldsins til félagssamtaka stúdenta. Er þetta talið nauðsynlegt vegna fyrirmæla 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 33/1968, um Félagsstofnun stúdenta við Háskóla Íslands, þar sem háskólaráði er veitt heimild til ráðstöfunar hluta skrásetningargjalds til Félagsstofnunar stúdenta við Háskóla Íslands.

Um 25. gr.

    Sambærilegt ákvæði er að finna í gildandi lögum um Háskóla Íslands og lögum um Háskólann á Akureyri.

Um 26. gr.

    Ákvæði 1. mgr. 23. gr. eru að mestu samhljóða gildandi lögum og þarfnast ekki sérstakra skýringa. Rétt er þó að benda á niðurlag 1. mgr. þar sem fram kemur að háskólaráð geti veitt skóla, stofnun eða öðrum aðila innan háskóla umboð til að fara með eignarhluti skólans í fyrirtækjum. Er þetta eðlileg skipan til þess að nýta sérþekkingu sem til staðar er innan háskóla. Gert er ráð fyrir að umboð háskólaráðs sé bundið í fyrirmæli og afturkallanlegt.
    Ákvæði 2. mgr. er viðbót við gildandi lög í ljósi vaxandi sértekna háskóla. Rétt er að háskóli hafi möguleika til þess að eyrnamerkja tekjur af afmörkuðum verkefnum og ráðstafa þeim til sérstakra rannsóknar- og þróunarsjóða. Um rekstrarform slíkra sjóða fer eftir lögum en þá má starfrækja á einkaréttarlegum grunni.
    Í 3. mgr. er ákvæði sem heimilar háskólum að eiga í margvíslegu samstarfi við fyrirtæki og stofnanir. Ákvæðið er í gildandi lögum, m.a. 19. gr. laga nr. 41/1999, um Háskóla Íslands. Þýðing þess er ekki síst fólgin í því að koma megi á fót fyrirkomulagi gestastarfa við háskóla sem og sameiginlegum störfum (joint appointments) í þá veru sem hefð er fyrir í samstarfi háskóla og sjúkrahúsa.

Um 27. gr.

    Ákvæði 24. gr. eru samhljóða gildandi lögum um opinbera háskóla og í samræmi við 23. gr. rammalaga um háskóla. Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 28. gr.

    Í 1. mgr. kemur fram að reglur þær sem háskólaráð setur samkvæmt lögum þessum skuli birtar í B-deild Stjórnartíðinda. Ákvæðið er samhljóða gildandi lögum um opinbera háskóla, sbr. t.d. 1. mgr. 20. gr. laga nr. 41/1999, um Háskóla Íslands, og þarfnast ekki skýringa.
    Í 2. mgr. er vikið að samningu og birtingu kennsluskrár. Gengið er út frá því að þau verkefni verði á forræði skóla fremur en einstakra deilda eins og er samkvæmt gildandi reglum. Er það í samræmi við markmið frumvarpsins um að skólar verði sýnilegir sem öflugar megineiningar háskóla. Í ákvæðinu kemur einnig fram að árlega skuli gefin út kennsluskrá fyrir háskóla í heild. Þessi útgáfa er m.a. til upplýsingar fyrir stjórnvöld enda er mælt fyrir um hana í 24. gr. rammalaga um háskóla.

Um 29. gr.

    Verði frumvarp þetta að lögum er lagt til að þau öðlist þegar gildi og komi að fullu til framkvæmda 1. júlí 2008. Um leið munu Háskóli Íslands og Kennaraháskóli Íslands sameinast, sbr. lög um það efni nr. 37 27. mars 2007. Gert er ráð fyrir að unnið verði að innleiðingu stjórnskipulags fyrir sameinaðan skóla í samræmi við fyrirmæli frumvarpsins, verði það að lögum, og að teknu tilliti til þess sem fram kemur í ákvæðum til bráðabirgða.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Rétt þykir að taka af allan vafa í 1. mgr. að þrátt fyrir brottfall laga um Háskóla Íslands og um Háskólann á Akureyri þá verði engin breyting á störfum þeirra sem hafa verið ráðnir eða eftir atvikum skipaðir við skólana við gildistöku laganna.
    Þá þykir einnig rétt að gera ráð fyrir því að starfandi háskólar hafi tækifæri til þess að undirbúa gildistöku laganna strax við birtingu þeirra í Stjórnartíðindum með því að undirbúa nauðsynlegar breytingar á innra skipulagi skólanna, sbr. 4. gr. frumvarpsins, þar á meðal að auglýsa eftir forsetum deilda, sbr. 11. og 12. gr.
    Í 3. mgr. er að finna ákvæði um gildi reglna sem settar hafa verið í tíð þeirra laga sem fyrirliggjandi frumvarp mun leysa af hólmi verði það að lögum. Reiknað er með að lokið hafi verið við setningu nýrra reglna þegar lögin koma að fullu til framkvæmda þann 1. júlí 2008. Í ljósi þess er ekki talin þörf á að kveða á um frekari tímamörk í þessu sambandi. Þá er í 4. mgr. gert ráð fyrir því að Háskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri skuli fyrir árslok 2008 laga innra skipulag sitt að ákvæðum 4. gr. frumvarpsins um skóla. Loks er í lokamálsgrein ákvæðisins tekið fram að ákvæði laga nr. 57/1999, um búnaðarfræðslu, skuli endurskoðuð fyrir árslok 2009.Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um opinbera háskóla.

    Með frumvarpinu eru lagaákvæði um ríkisháskóla færð til samræmis við þann almenna lagaramma um starfsemi háskóla sem ákvarðaður var með lögum nr. 63/2006, um háskóla. Helstu nýmæli frumvarpsins eru að skólar verða megineiningar í starfsemi háskóla. Samhliða því verður til nýtt starf, forseti skóla. Skólar verða sjálfstæðir um fagleg og rekstrarleg málefni innan þeirra marka sem ákvörðuð eru af háskólaráði. Deildir verða grunneiningar skóla og bera faglega ábyrgð á háskólakennslu og rannsóknum. Rektor ræður forseta skóla og forseti ræður deildarformenn. Við skóla verður heimilt að starfrækja sérstakar háskólastofnanir og rannsóknastofur.
    Fjármálaráðuneytið telur frumvarpið hafa óveruleg áhrif á rekstrarkostnað háskóla. Gert er ráð fyrir að stjórnsýsla þeirra verði skilvirkari og skili betri þjónustu en þó ekki endilega fjárhagslegri hagræðingu. Í frumvarpinu eru tekin af öll tvímæli um að skólum sé heimilt að innheimta gjöld til að standa undir kostnaði við inntökupróf. Þau gjöld munu þó hafa óveruleg áhrif á tekjur skólanna. Er því gert ráð fyrir að kostnaður ríkissjóðs af lögfestingu frumvarpsins sé óverulegur og verði látinn rúmast innan gildandi fjárlagaramma menntamálaráðuneytis.