Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 547. máls.
Prentað upp.

Þskj. 848  —  547. mál.
Leiðréttur texti.
Frumvarp til laga

um uppbót á eftirlaun.

(Lagt fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)
I. KAFLI
Markmið og gildissvið.
1. gr.
Markmið.

    Markmið laga þessara er að tryggja einstaklingum sem eiga takmörkuð eða engin réttindi til eftirlauna frá lífeyrissjóðum tiltekna uppbót á eftirlaun sem greiðist úr ríkissjóði.

2. gr.
Gildissvið.

    Einstaklingur sem á takmarkaðan eða engan rétt til eftirlauna frá lífeyrissjóði getur öðlast rétt á greiðslum samkvæmt lögum þessum, enda uppfylli hann eftirfarandi skilyrði við lok viðmiðunarárs:
     a.      hafi náð 67 ára aldri,
     b.      sé búsettur á Íslandi og
     c.      hafi búið á Íslandi í 10 ár samtals frá 16 ára aldri.
    Eigi einstaklingur réttindi í lífeyrissjóði getur hann einungis öðlast rétt til uppbótar samkvæmt lögum þessum hafi hann hafið töku þeirra eftirlauna sem hann á rétt til.
    Með búsetu samkvæmt þessari grein er átt við lögheimili í skilningi lögheimilislaga.

3. gr.
Skilgreiningar.

    Í lögum þessum merkir:
     1.      Eftirlaun: Ellilífeyrisgreiðslur úr lífeyrissjóðum samkvæmt lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, og sambærilegar ellilífeyrisgreiðslur erlendis frá.
     2.      Lífeyrissjóður: Aðili sem veitir viðtöku skyldubundnu iðgjaldi til greiðslu eftirlauna (ellilífeyris) til æviloka, sbr. lög nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Til lífeyrissjóða skal í þessu sambandi einnig telja erlenda aðila sem veita einstaklingum sambærileg réttindi.
     3.      Uppbót á eftirlaun: Fjárhæð sem greidd er út með reglubundnum hætti að lokinni álagningu opinberra gjalda fyrir viðmiðunarár.
     4.      Viðmiðunarár: Næstliðið tekjuár á undan álagningarári.
     5.      Greiðslutímabil: Tímabil sem greiðsla uppbótar skiptist niður á og hefst fyrsta almanaksmánuð að lokinni álagningu á álagningarári. Greiðslutímabil byrjar að jafnaði í ágúst ár hvert og lýkur í júlí árið eftir.

II. KAFLI
Eftirlaunauppbót.
4. gr.
Fjárhæð.

    Uppbót á eftirlaun einstaklinga sem uppfylla skilyrði 2. gr. skal ákvarða þannig að frá því sem á vantar að eftirlaun þeirra úr lífeyrissjóðum nemi að meðaltali 25.000 kr. á mánuði, eða 300.000 kr. á ári miðað við heilt ár, skal draga eigin tekjur eins og nánar er kveðið á um í 5. gr. Þeir sem engan rétt eiga til eftirlauna hjá lífeyrissjóði skulu njóta sambærilegra réttinda.

5. gr.
Ákvörðun uppbótar á eftirlaun.

    Ákvörðun um uppbót á eftirlaun skal miðast við tekjur viðmiðunarárs samkvæmt skattframtali.
    Tekjur skv. A- og B-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki telst til tekna, frádráttarliða skv. 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga og undantekninga eða takmarkana samkvæmt sérlögum, skulu koma til lækkunar á þeirri fjárhæð sem kveðið er á um í 4. gr.
    Jafnframt skal helmingur tekna skv. C-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki telst til tekna og undantekninga eða takmarkana samkvæmt sérlögum, koma til lækkunar þeirri fjárhæð sem kveðið er á um í 4. gr. Þegar um hjón eða samskattað fólk er að ræða skal þó skipta sameiginlegum fjármagnstekjum skv. 3. mgr. 66. gr. laga nr. 90/2003 jafnt á milli þeirra þegar tekjuviðmiðun samkvæmt þessari málsgrein er fundin.
    Ekki teljast til tekna, þrátt fyrir ákvæði 2. mgr., eftirlaun úr lífeyrissjóðum, bætur samkvæmt almannatryggingum eða fjárhagsaðstoð sveitarfélaga.
    Nú hefur einstaklingur hafið töku eftirlauna á viðmiðunarári og skal þá eingöngu greiða uppbót vegna þeirra mánaða viðmiðunarársins sem viðkomandi fékk greidd eftirlaun. Við ákvörðun um viðmið skal, varðandi tekjur skv. 2. mgr., miða við þær tekjur sem til féllu eftir að viðkomandi hóf töku eftirlauna, en varðandi tekjur skv. 3. mgr. skal miða við meðalmánaðartekjur margfaldaðar með þeim fjölda mánaða sem viðkomandi fékk greidd eftirlaun á viðmiðunarárinu. Þegar um er að ræða einstakling sem engin réttindi á í lífeyrissjóðum skal með sama hætti miða við fyrsta dag þess mánaðar þegar viðkomandi nær 67 ára aldri.

6. gr.
Framkvæmd og greiðslutilhögun.

    Uppbót á eftirlaun skal ákvörðuð við álagningu og skal hún teljast til skattskyldra tekna viðmiðunarárs. Við skattlagningu samkvæmt lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, og ákvörðun um bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, skal farið með greiðslur samkvæmt lögum þessum sem ellilífeyrisgreiðslur úr lífeyrissjóði, sbr. lög nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.
    Uppbót á eftirlaun sem ákvörðuð er skv. 5. gr. skal að jafnaði greiða með 12 jöfnum mánaðarlegum greiðslum fyrsta virkan dag hvers mánaðar. Þó skal greiða með færri greiðslum sé mánaðarleg fjárhæð lægri en 2.000 kr.
    Fyrsta greiðsla hvers greiðslutímabils skal fara fram í mánuðinum eftir að álagning liggur fyrir.
    Fjársýsla ríkisins annast greiðslur uppbótar á eftirlaun.

7. gr.
Leiðrétting greiðslna.

    Hafi breytingar orðið á tekjum einstaklings sem ákvörðun um uppbót á eftirlaun er byggð á skal uppbót endurákvörðuð af hálfu skattyfirvalda.
    Hafi einstaklingur fengið hærri uppbót en hann átti rétt á skal honum gert að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 10% álagi. Álagið skal þó fellt niður ef viðkomandi færir rök fyrir því að honum verði eigi kennt um þá annmarka er leiddu til endurákvörðunar uppbótar. Greiðsla uppbótar kemur ekki til útborgunar sé fjárhæð hennar lægri en 500 kr. á ársgrundvelli.
    Heimilt er að draga ofgreiðslu uppbótar frá uppbót sem einstaklingur öðlast rétt til síðar. Um innheimtu ofgreiðslu fer að öðru leyti skv. 111. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.
    Óheimilt er að framselja eða veðsetja kröfur um greiðslur samkvæmt lögum þessum og ekki má leggja á þær löghald eða gera í þeim fjárnám eða halda eftir til greiðslu opinberra gjalda.
    Hafi rétthafi fengið lægri uppbót en honum bar samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda skal greiða honum þá fjárhæð sem vangreidd var ásamt vöxtum fyrir það tímabil sem féð var ógreitt, enda verði viðkomandi eigi kennt um að vangreitt var. Skulu vextir þessir vera jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður og birtir á hverjum tíma skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.
    Sama á við þegar úrskurður ríkisskattstjóra leiðir til þess að einstaklingur á rétt á uppbót en hafi áður verið synjað um hana eða reiknuð lægri uppbót. Hafi uppbót verið vangreidd vegna skorts á upplýsingum sem rétthafa verður kennt um falla vextir niður.

III. KAFLI
Stjórnsýsla.
8. gr.
Framkvæmdaraðili.

    Skattstjóri í hverju umdæmi fer með framkvæmd laga þessara.

9. gr.
Afgreiðsla skattstjóra.

    Ákvörðun um uppbót eftirlauna skal byggjast á upplýsingum skattframtals og liggja fyrir við álagningu opinberra gjalda ár hvert og skal hún miðast við þann dag sem rétthafi hefur uppfyllt skilyrði laga þessara.
    Lífeyrissjóðir skulu eigi síðar en 1. apríl ár hvert senda ríkisskattstjóra skrá, á því formi sem ríkisskattstjóri ákveður, yfir alla þá sjóðfélaga sem náð höfðu 67 ára aldri á næstliðnu tekjuári, ásamt upplýsingum um hvort greiðslur eftirlauna séu hafnar. Að öðru leyti skulu lífeyrissjóðir veita skattyfirvöldum nauðsynlegar upplýsingar til ákvörðunar á fjárhæð uppbótar á eftirlaun.
    Liggi ekki fyrir fullnægjandi upplýsingar að mati skattstjóra til að ákvarða uppbót á eftirlaun skal skattstjóri gera einstaklingi viðvart um hugsanlegan rétt hans til greiðslu uppbótar samkvæmt lögum þessum.
    Um málsmeðferð fer að öðru leyti eftir 96. og 97. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, eftir því sem við á.

10. gr.
Kæruheimild.

    Sé uppi ágreiningur um ákvörðun skattstjóra á uppbót til eftirlauna er hún kæranleg til skattstjóra innan 30 daga frá dagsetningu ákvörðunar.
    Úrskurð skattstjóra má kæra til ríkisskattstjóra innan 30 daga frá dagsetningu úrskurðar.
    Úrskurður ríkisskattstjóra er lokaákvörðun á stjórnsýslustigi.

IV. KAFLI
Ýmis ákvæði.
11. gr.
Reglugerð.

    Fjármálaráðherra er heimilt að kveða nánar á um framkvæmd þessara laga með reglugerð.

12. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Greiðsla uppbótar samkvæmt lögum þessum skal fara fram í fyrsta skipti í ágúst 2008.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Lífeyrissjóðir skulu eigi síðar en 1. júlí 2008 senda ríkisskattstjóra þær upplýsingar sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 9. gr. að því er varðar tekjuárið 2007.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 23. maí 2007 um fyrstu aðgerðir í þágu aldraðra og öryrkja er kveðið á um að ríkissjóður tryggi ellilífeyrisþegum lífeyri að lágmarki 25 þúsund krónur á mánuði frá lífeyrissjóði eða sambærilega réttarbót með öðrum hætti. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 5. desember 2007 segir enn fremur að ríkissjóður muni „tryggja að ellilífeyrisþegar fái að lágmarki 25 þúsund krónur á mánuði frá lífeyrissjóði frá 1. júlí 2008“. Frumvarpi þessu er ætlað að hrinda þessum áformum í framkvæmd og bæta kjör þeirra sem fá takmarkaðar eða engar greiðslur úr lífeyrissjóðum.
    Í frumvarpinu er lagt til að uppbót á eftirlaun verði greidd þeim sem hafa engin eftirlaun úr lífeyrissjóði eða eftirlaun sem ekki ná tiltekinni viðmiðunarfjárhæð, 25.000 kr. á mánuði, að teknu tilliti til annarra tekna. Réttur til uppbótar á eftirlaun er tengdur aldri með þeim hætti að hafi einstaklingur náð 67 ára aldri og þegar hafið töku eftirlauna úr lífeyrissjóði gæti hann átt rétt til greiðslu uppbótar á þau eftirlaun svo fremi sem hann hefur ekki aðrar tekjur, svo sem atvinnutekjur eða fjármagnstekjur, yfir tilteknum mörkum og uppfyllir tiltekin búsetuskilyrði. Bætur almannatrygginga hafa þó ekki áhrif á þennan rétt. Einstaklingar 67 ára og eldri sem eiga engin réttindi til eftirlauna úr lífeyrissjóði öðlast einnig þennan rétt. Talið er að um 2.600 ellilífeyrisþegar njóti ekki eftirlauna úr lífeyrissjóðum sem stendur og að samtals muni um 5.000 einstaklingar falla undir gildissvið frumvarpsins.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að skattyfirvöld reikni út uppbót á eftirlaun samhliða álagningu opinberra gjalda sem alla jafna liggur fyrir 1. ágúst ár hvert. Útreikningur uppbótar byggist á tekjum næstliðins árs og samhliða er reiknaður af henni tekjuskattur og útsvar sem dregst frá uppbótinni áður en hún er greidd út með jöfnum greiðslum í 12 mánuði að lokinni álagningu opinberra gjalda. Verði frumvarpið að lögum mun uppbót vegna ársins 2007 greiðast út með þeim hætti að fyrsta greiðsla kemur 1. ágúst 2008 og sú síðasta 1. júlí 2009.
    Sem fyrr segir má gera ráð fyrir að um 5.000 einstaklingar muni fá uppbót á eftirlaun verði frumvarpið að lögum, þar af er áætlað að um 2.600 einstaklingar hafi fullan rétt. Uppbótin mun hins vegar skerða bætur almannatrygginga með sama hætti og greiðslur eftirlauna úr lífeyrissjóðum, þ.e. ellilífeyrir er óskertur en tekjutrygging og heimilisuppbót er skert með tilteknum hætti. Að teknu tilliti til skatta og áhrifa eftirlaunauppbótarinnar á bætur almannatrygginga er talið að upptaka uppbótar á eftirlaun kosti ríkissjóð rúman hálfan milljarð króna á ári.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í 1. gr. kemur fram að markmið þessa frumvarps sé að tryggja tilteknum hópi einstaklinga sem komnir eru á eftirlaunaaldur tiltekna uppbót á eftirlaun í því skyni að bæta lífskjör þeirra og stuðla að fjárhagslegu öryggi þeirra. Gert er ráð fyrir að með þessu verði bætt staða þeirra einstaklinga sem ekki hafa náð að afla sér nægilegra lífeyrisréttinda, m.a. vegna vinnu við heimilisstörf eða skertrar starfsgetu. Enda þótt sú uppbót á eftirlaun sem hér um ræðir greiðist úr ríkissjóði eru sjónarmiðin að baki henni þau að hún komi til viðbótar greiðslum eftirlauna úr lífeyrissjóðum og sé meðhöndluð sem slík í skattalegu tilliti og gagnvart bótum almannatrygginga.

Um 2. gr.

    Með greininni er kveðið á um að lögin taki til einstaklinga sem náð hafa 67 aldri og eiga takmarkaðan eða engan rétt til eftirlauna úr lífeyrissjóðum. Uppfylli einstaklingur skilyrði greinarinnar getur hann átt rétt á uppbót samkvæmt lögunum. Miðað er við að viðkomandi hafi búið hér á landi samtals í 10 ár frá 16 ára aldri og sé jafnframt búsettur á Íslandi þegar viðmiðunarári lýkur. Einstaklingur sem á réttindi í lífeyrissjóði skal hafa byrjað töku þeirra til þess að geta átt rétt til uppbótar. Almennt má gera ráð fyrir því að sjóðfélagi í lífeyrissjóði hafi þurft að greiða lífeyrissjóðsiðgjöld í um 10 til 15 ár til þess að eiga rétt á 25.000 kr. eftirlaunum á mánuði úr lífeyrissjóði. Með því að miða við 10 ára búsetu er komið til móts við þá sem hér hafa búið en hafa þrátt fyrir það ekki náð þessum réttindum. Til samanburðar má nefna að óskertur ellilífeyrir samkvæmt lögum nr. 100/2007, um almannatryggingar, miðast við 40 ára búsetu á Íslandi á aldrinum 16 til 67 ára og skerðast greiðslur hlutfallslega ef um skemmri búsetu er að ræða.

Um 3. gr.

    Í greininni er að finna skýringar á helstu grunnhugtökum frumvarpsins. Greinin þarfnast ekki nánari skýringar.

Um 4. gr.

    Samkvæmt þessari grein skal uppbót á eftirlaun hjá einstaklingum, sem uppfylla skilyrði 2. gr., ákvörðuð þannig að frá þeirri fjárhæð sem upp á vantar að eftirlaun úr lífeyrissjóði nemi 300.000 kr. á ári miðað við heilt ár, eða 25.000 kr. á mánuði að meðaltali, skal draga eigin tekjur að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Sambærilegar greiðslur eftirlauna erlendis frá ber að telja til eftirlauna úr lífeyrissjóðum við ákvörðun uppbótar.

Um 5. gr.

    Þessi grein fjallar um ákvörðun uppbótar á eftirlaun, en hún byggist á tekjum viðmiðunarárs samkvæmt skattframtali. Hér er nánar kveðið á um útreikning uppbótarinnar eftir að frumákvörðun hennar skv. 4. gr., sem tekin er á grundvelli eftirlauna úr lífeyrissjóðum á viðmiðunarári, liggur fyrir. Til lækkunar á þeirri fjárhæð koma aðrar tekjur viðmiðunarárs samkvæmt forsendum sem nánar er lýst hér á eftir. Ákvæði greinarinnar um tillit til annarra tekna eru að mörgu leyti sambærileg við ákvæði 1. mgr. 16. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar.
    Með 2. mgr. er lagt til að tekjur skv. A- og B-hluta 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, m.a. atvinnutekjur, koma í jöfnu hlutfalli til frádráttar þeirri fjárhæð sem á vantar til þess að greiðslur eftirlauna úr lífeyrissjóðum nái 25.000 kr. markinu, sbr. 4. gr. Þó skal undanskilja tilteknar tekjur frádrætti, þ.e. eftirlaun frá lífeyrissjóðum, enda hefur þegar verið tekið tillit til þeirra í 4. gr., bætur almannatrygginga og fjárhagsaðstoð sveitarfélaga.
    Jafnframt er í 3. mgr. lagt til að helmingur fjármagnstekna komi til frádráttar frá framangreindum mismun. Þegar um hjón eða samskattað fólk er að ræða er sameiginlegum fjármagnstekjum skipt jafnt á milli þeirra, en fjármagnstekjur eru skv. 62. gr. tekjuskattslaga, nr. 90/2003, taldar til tekna hjá þeim sem hefur hærri tekjur skv. A-lið 7. gr. laganna.
    Í 5. mgr. er lagt til að einungis skuli greiða uppbót á eftirlaun vegna þess hluta viðmiðunarárs sem viðkomandi hefur fengið greidd eftirlaun. Taka skal tillit til þeirra tekna einstaklingsins sem hlutfallslega geta talist til þess tímabils á árinu. Einungis verður litið til þess hluta tekna, annarra en fjármagnstekna, sem til falla eftir að viðkomandi byrjar töku eftirlauna. Tekið verður tillit til þess hlutfalls fjármagnstekna viðmiðunarárs sem heyra til tímabilsins eftir að viðkomandi byrjaði töku eftirlauna. Í þeim tilvikum þegar einstaklingur á engan rétt til eftirlauna verður á sama hátt miðað við þann mánuð þegar viðkomandi nær 67 ára aldri.

Um 6. gr.

    Greinin fjallar um hvernig úthluta skuli þeirri fjárhæð sem ákvörðuð hefur verið í formi uppbótar á eftirlaun til þeirra einstaklinga sem rétt eiga samkvæmt frumvarpinu. Fram kemur að sú fjárhæð sem ákvörðuð er teljist til tekna þess árs sem hún byggist á og sé skattlögð til samræmis við það eins og hver önnur eftirlaun. Þrátt fyrir að eftirlaunauppbótin samkvæmt frumvarpinu skuli, hvað skattlagningu varðar, teljast til tekna viðmiðunarárs skerðir hún ekki þá tekjutryggingu og heimilisuppbót sem Tryggingastofnun greiðir vegna viðmiðunarársins, heldur er gert ráð fyrir að sú skerðing sem uppbótin kann að leiða til komi fram á greiðslutímabili uppbótarinnar.
    Í greininni er einnig kveðið á um greiðslufyrirkomulag uppbótarinnar. Lagt er til að henni verði skipt í jafnar mánaðarlegar greiðslur þar sem hver greiðsla verður að jafnaði ekki lægri en 2.000 kr. Heildarfjárhæðin sem skiptist með þessum hætti er uppbót vegna viðmiðunarárs að frádregnum tekjuskatti og útsvari. Að jafnaði skulu fara fram tólf greiðslur á greiðslutímabili, en færri ef hver greiðsla nær ekki 2.000 kr. Greiðslur hefjast að lokinni álagningu opinberra gjalda, að jafnaði 1. ágúst á hvert. Fjársýsla ríkisins annast greiðslur uppbótar á eftirlaun.

Um 7. gr.

    Greinin tekur til þeirrar endurskoðunar sem fram þarf að fara breytist forsendur fyrir ákvörðun uppbótar á eftirlaun, hvort heldur er um að ræða ákvörðun um van- eða ofgreiðslu. Þar er fyrst og fremst byggt á ákvæðum tekjuskattslaga um sama efni. Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringar.

Um 8. gr.

    Í greininni er kveðið á um að umsýsla samkvæmt lögunum sé í höndum skattstjóra.

Um 9. gr.

    Fram kemur í greininni að uppbót á eftirlaun verði ákvörðuð af skattstjóra án sérstakrar umsóknar frá rétthafa. Með því er rétthöfum gert auðveldara að nálgast umrædd réttindi án fyrirhafnar. Mælt er fyrir um skyldur íslenskra lífeyrissjóða til þess að upplýsa skattyfirvöld á hverju ári um þá einstaklinga sem eiga réttindi hjá viðkomandi sjóði og náð hafa þeim aldri að geta átt rétt á uppbót á eftirlaun. Jafnframt hvort framangreindir einstaklingar hafi byrjað töku eftirlauna sem þeir eiga rétt til, en það er eitt af skilyrðunum fyrir greiðslu uppbótar.
    Í greininni eru einnig innleiddar reglur tekjuskattslaga um andmælafresti, endurupptöku og boðanir vegna endurálagningar og sömuleiðis er mælt fyrir um að skattstjóri kalli eftir viðbótarupplýsingum frá einstaklingum í þeim tilvikum þar sem óljóst er hvort réttur til greiðslna samkvæmt lögunum er til staðar. Að öðru leyti skal framkvæmd taka mið af ákvæðum tekjuskattslaga líkt og segir í 4. mgr. greinarinnar.

Um 10. gr.

    Heimilt er samkvæmt greininni að kæra til skattstjóra ákvarðanir sem teknar eru varðandi uppbót á eftirlaun. Þeim úrskurði er heimilt að áfrýja til ríkisskattstjóra sem hefur með höndum lokaákvörðunarvald á stjórnsýslustigi.

Um 11. gr.

    Með greininni er lagt til að fjármálaráðherra geti sett nánari fyrirmæli um framkvæmd laganna í reglugerð.

Um 12. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Í ákvæðinu er mælt fyrir um að vegna greiðslu uppbótar sem samkvæmt frumvarpinu skal fara fram í fyrsta skipti í ágúst 2008 skuli lífeyrissjóðir senda ríkisskattstjóra þær upplýsingar sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 9. gr. að því er varðar tekjuárið 2007, eigi síðar en 1. júlí 2008.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um uppbót á eftirlaun.

    Markmiðið með frumvarpinu er að bæta hag þeirra ellilífeyrisþega sem minnstar tekjur hafa sér til framfærslu. Með frumvarpinu mun hluti ellilífeyrisþega fá allt að 25 þús. kr. á mánuði í viðbótargreiðslu er nefnist uppbót á eftirlaun.
    Frumvarpið felur í sér umtalsverð aukin útgjöld fyrir ríkissjóð. En þar sem að uppbótin veldur því að viðmiðunartekjur ellilífeyrisþega hækka þá munu á móti útgjöld lífeyristrygginga lækka. Áætlað er útgjaldaraukning nemi samtals um 600 m.kr. á ári.