Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 554. máls.

Þskj. 855  —  554. mál.Frumvarp til laga

um Fiskræktarsjóð.

(Lagt fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)
1. gr.
Fiskræktarsjóður.

    Fiskræktarsjóður er sjálfstæður sjóður í eigu ríkisins og á forræði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem hefur það hlutverk að veita lán eða styrki til verkefna sem þjóna þeim markmiðum að efla fiskrækt, bæta veiðiaðstöðu, styðja við rannsóknir í ám og vötnum og auka verðmæti veiði úr þeim.

2. gr.

Stjórn Fiskræktarsjóðs.


    Fiskræktarsjóður lýtur fimm manna stjórn sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipar til fjögurra ára í senn. Tveir nefndarmanna skulu skipaðir samkvæmt tilnefningu Landssambands veiðifélaga, einn samkvæmt tilnefningu Landssambands stangaveiðifélaga og einn samkvæmt tilnefningu Landssambands fiskeldisstöðva. Ráðherra skipar formann nefndarinnar án tilnefningar og skal atkvæði hans ráða úrslitum ef atkvæði falla jöfn. Nú tilnefnir einn framangreindra aðila eigi mann í stjórn sjóðsins og skipar þá ráðherra í nefndina án tilnefningar. Varamenn skal skipa með sama hætti.

3. gr.
Verkefni stjórnar.

    Stjórn Fiskræktarsjóðs hefur yfirumsjón með starfsemi hans í samræmi við lög þessi og reglugerð. Verkefni stjórnar eru m.a. að:
     a.      Skila ársreikningum og reglulegu yfirliti um starfsemi sjóðsins til ráðherra.
     b.      Taka ákvarðanir um ávöxtun eigin fjár skv. 6. gr.
     c.      Taka ákvarðanir um úthlutanir og útgjöld skv. 7. gr.

4. gr.
Ráðstöfunarfé Fiskræktarsjóðs.

    Ráðstöfunarfé Fiskræktarsjóðs er:
     a.      Innheimt gjald af veiðitekjum skv. 5. gr.
     b.      Arður af eigin fé skv. 7. gr.
     c.      Fjárveiting úr ríkissjóði.
     d.      Annað.

5. gr.
Gjald af veiðitekjum.

    Veiðiréttarhafar skulu greiða til Fiskræktarsjóðs 2% gjald af hreinum tekjum af veiði í ám og vötnum á hverju almanaksári.
    Nú hefur veiðifélag tekjur af ráðstöfun á sameiginlegri veiði eða öðrum lögbundnum verkefnum sínum og skal þá félagið standa Fiskræktarsjóði skil á 2% gjaldi af arðgreiðslum á hverju almanaksári.

6. gr.

Álagning og innheimta gjalds af veiðitekjum.


    Fiskistofa annast álagningu og innheimtu gjalds skv. 5. gr. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er þó heimilt að fela innheimtumönnum ríkissjóðs eða öðrum aðilum innheimtu þess.
    Fiskistofu er heimilt að fella niður álagningu gjalds skv. 5. gr. nemi tekjur veiðiréttarhafa skv. 1. mgr. þeirrar greinar eða heildararðgreiðslur veiðifélags til félagsmanna sinna skv. 2. mgr. greinarinnar lægri fjárhæð en 500 þús. kr. á gjaldárinu miðað við vísitölu neysluverðs frá 1. janúar 2008.
    Veiðiréttarhafar og veiðifélög skulu að eigin frumkvæði senda Fiskistofu ársreikning veiðifélags eða framtal yfir tekjur af veiði, þ.m.t. leigutekjur, fyrir 1. maí ár hvert vegna næstliðins almanaksárs á eyðublaði sem Fiskistofa leggur til.
    Ef Fiskistofa telur fram komin gögn eða upplýsingar ófullnægjandi, óglögg, tortryggileg eða ekki látin í té í umbeðnu formi eða hún telur frekari þörf á einhverju atriði skal hún skora skriflega á þann sem kann að verða krafinn um gjald skv. 5. gr. að bæta úr því innan ákveðins tíma og láta í té gögn sem á skortir. Ef ekki er bætt úr annmörkunum, svar berst ekki innan tiltekins tíma, þau gögn eru ekki send sem óskað er eftir eða fram komin gögn eða upplýsingar eru ófullnægjandi eða tortryggileg að mati Fiskistofu er henni heimilt að áætla álagningu gjalds skv. 5. gr. og skal álagningin vera svo rífleg að eigi sé hætt við að fjárhæðir séu áætlaðar lægri en þær eru í raun og veru. Við áætlun er Fiskistofu heimilt að líta til gagna sem aflað er frá öðrum stofnunum eða einkaaðilum og veita vísbendingar um veiðitekjur gjaldskylds aðila.
    Hver sá sem tregðast við að láta Fiskistofu í té upplýsingar er varða gjaldskyldu skv. 5. gr. skal sæta dagsektum að ákvörðun Fiskistofu sem mega nema allt að 10.000 kr. á dag. Dagsektir má innheimta með fjárnámi.
    Eigi síðar en 30. júní hvert ár skal Fiskistofa hafa lokið álagningu á gjaldendur skv. 5. gr. og skal þeim tilkynnt bréflega um hana.
    Nú telur veiðiréttarhafi eða veiðifélag álagt gjald eða gjaldstofn eigi rétt ákveðinn og getur viðkomandi þá innan tveggja vikna frá því að hann fékk vitneskju um álagninguna kært hana til Fiskistofu sem þá skal innan tveggja vikna frá lokum gagnaöflunar leggja rökstuddan skriflegan úrskurð á málið. Úrskurðum Fiskistofu um álagningu gjalds má skjóta til úrskurðar ráðherra.
    Gjöld skv. 5. gr. vegna næstliðins almanaksárs falla í gjalddaga 1. ágúst ár hvert. Ef gjöldin eru ekki greidd innan 30 daga frá gjalddaga skal greiða dráttarvexti af þeim skv. III. kafla laga um vexti og verðtryggingu. Álagning gjalds eða úrskurður um gjaldtöku skv. 5. gr. eru aðfararhæfar ákvarðanir. Má Fiskistofa krefjast fullnustu með aðfarargerð þegar liðnir eru 30 dagar frá dagsetningu álagningar eða uppkvaðningu úrskurðar.

7. gr.
Eigið fé Fiskræktarsjóðs.

    Eigið fé Fiskræktarsjóðs skal að lágmarki vera 270 millj. kr. Lágmarksfjárhæð þessi skal taka breytingum í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs frá 1. janúar 2008.
    Eigið fé, sem ekki hefur verið ráðstafað með heimild í 7. gr., skal ávaxtað samkvæmt samningi við aðila sem hefur leyfi til fjárvörslu lögum samkvæmt, um vörslu og ávöxtun eigin fjár.
    Nú nær eigið fé ekki lágmarksfjárhæð skv. 1. mgr. og skal þá ávaxta eigið fé skv. 2. mgr. þar til lágmarksfjárhæð skv. 1. mgr. er náð.

8. gr.
Úthlutanir úr Fiskræktarsjóði.

    Fyrir 1. september hvert ár skal stjórn Fiskræktarsjóðs gefa út og láta birta lána- og úthlutunarreglur sem gilda skulu fyrir sjóðinn næsta almanaksár. Reglurnar skulu áður bornar undir ráðherra til samþykktar.
    Heimilt er að veita lán og styrki úr Fiskræktarsjóði í samræmi við gildandi lána- og úthlutunarreglur.
    Fiskræktarsjóði er heimilt að afla umsagnar Matvælastofnunar um umsóknir um lán eða styrki til framkvæmda er lúta að fiskrækt í ám og vötnum þyki þess þörf.
    Fiskræktarsjóði er heimilt að skilyrða úthlutanir við að úthlutunarhafar geri grein fyrir framvindu verkefna og ráðstöfun fjár samkvæmt nánari reglum sjóðstjórnar.
    Fiskræktarsjóði er heimilt að ákveða að greiða úthlutanir í áföngum eftir framvindu verkefna.
    Um málsmeðferð við veitingu lána og styrkja gilda ákvæði stjórnsýslulaga. Ákvarðanir Fiskræktarsjóðs eru endanlegar á stjórnsýslustigi.

9. gr.

Reglugerðarheimild. Kostnaður af rekstri.


    Ráðherra er heimilt að setja með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessara laga, þ.m.t. um málsmeðferð og ráðstöfun fjár úr Fiskræktarsjóði.
    Allur kostnaður af starfsemi Fiskræktarsjóðs greiðist af honum.

10. gr.
Viðurlög.

    Ef maður af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi skýrir rangt eða villandi frá upplýsingum, eða heldur leyndum upplýsingum, sem máli skipta við álagningu gjalds á veiðitekjur skv. 5. gr. varðar það fésektum eða allt að tveggja ára fangelsi.
    Hafi fyrirsvarsmaður eða starfsmaður lögaðila gerst sekur um brot gegn 1. mgr. má auk refsingar sem hann sætir gera lögaðilanum sekt, enda sé brotið drýgt til hagsbóta fyrir lögaðilann eða hann hafi notið hagnaðar af brotinu.

11. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2009. Um leið falla úr gildi eldri lög um lax- og silungsveiði, nr. 76/1970, með síðari breytingum.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Ráðherra skal þrátt fyrir 10. gr. skipa nýja stjórn Fiskræktarsjóðs eigi síðar en 1. janúar 2009. Jarðasjóður leggur Fiskræktarsjóði til 270 millj. kr. sem mynda eigið fé sjóðsins skv. 6. gr. eigi síðar en 1. janúar 2009.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu að tilhlutan sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra með það að meginmarkmiði að setja skýrar reglur um hlutverk og stöðu Fiskræktarsjóðs.
    Löng hefð er fyrir stuðningi við fiskrækt og fiskeldi hér á landi. Í fyrstu heildstæðu lax- og silungsveiðilögin, nr. 61/1932, voru tekin upp sérstök ákvæði um styrkveitingar til fiskræktar. Sambærileg ákvæði voru í lax- og silungsveiðilögum, nr. 112/1941, sem og lögum nr. 53/1957. Með lögum nr. 38/1970, um breyting á lögum nr. 53/1957, var Fiskræktarsjóður settur á fót. Markmið sjóðsins hefur frá upphafi verið að efla fiskrækt í landinu, m.a. með seiðasleppingum. Nú er svo komið að Ísland er eina landið við Norður-Atlantshaf sem ekki hefur orðið fyrir stórfelldu hruni í laxastofnum. Miklu fé er varið í nágrannalöndum okkar til viðhalds laxastofnum og verndunar svo að auðlindin tapist ekki fyrir fullt og allt. Ýmsar ástæður eru fyrir þessu hruni, sumar þekktar en aðrar ókunnar. Fullyrða má að mikilvægi Fiskræktarsjóðs hafi aukist eftir því sem áhrif manna á náttúru landsins hafa orðið meiri. Er því afar þýðingarmikið að lagaumgjörð um starfsemi sjóðsins sé nútímaleg og stuðli að skilvirkri starfsemi hans.
    Aðkallandi er að breyta ákvæðum laga um Fiskræktarsjóð sem er að finna í eldri lögum um lax- og silungsveiði, nr. 76/1970. Í Fiskræktarsjóð hafa greitt þeir sem hafa haft tekjur af því lífríki sem er í vötnum landsins og fallorkunni sem í þeim er. Tekjustofnar Fiskræktarsjóðs hafa frá upphafi verið 2% gjald af hreinum leigutekjum af veiði og 3‰ gjald af vergum (óskírum) tekjum af sölu á raforku. Í upphafi var þar um að ræða sölu á orku til almennings. Með 27. gr. laga nr. 50/1998 var hins vegar gerð sú breyting að einnig skyldi greitt sama gjald af sérsamningum til nýrra stórnotenda. Með þessu frumvarpi er ráðgert að aflétta allri álagningu gjalds af tekjum af sölu raforku en bæta sjóðnum það upp með eingreiðslu úr ríkissjóði að fjárhæð 270 millj. kr. sem gera mun sjóðinn ámóta vel settan og ef innheimta af tekjum af raforkusölu hefði haldist óbreytt.
    Greiðsluskylda af tekjum af sölu raforku hefur sætt nokkurri gagnrýni. Fyrir það fyrsta hefur gjaldstofninn í gildandi lögum sætt gagnrýni fyrir að vera óskýr og óeðlilegur. Ljóst má telja að stærstu vatnsaflsvirkjanir í jökulfljótum hafa oftsinnis lítil sem engin áhrif á fiskigengd á meðan smærri virkjanir hafa til muna meiri áhrif. Álagning gjaldsins getur leitt til hærra raforkuverðs og samræmist illa meginreglum um skattlagningu fyrirtækja á samkeppnismarkaði og má þar einkum benda á að einungis ber að greiða gjaldið af raforkusölu frá vatnsaflsorkuverum en ekki gufuaflsorkuverum auk þess að leynd yfir viðskiptakjörum kann að verða raskað. Greiðsla gjaldsins hefur engu breytt um skyldur raforkufyrirtækja til að greiða bætur fyrir tjón sem vatnsorkuver kann að valda á veiði eða veiðihagsmunum enda er skýrt samkvæmt almennum bótareglum og ákvæðum vatna- og veiðilöggjafar að orkuvinnslufyrirtæki ber að bæta slíkt tjón ef um það er að ræða. Einnig eru bein ákvæði í lögum um tilteknar mótvægisráðstafanir, svo sem gerð fiskvega, sbr. 35. gr. lax- og silungsveiðilaga, nr. 61/2006.
    Með frumvarpinu er ráðgert að Fiskræktarsjóður dragi úr eða hætti stuðningi við fiskeldi en stuðningurinn úr sjóðnum til fiskeldis hefur verið lítill á síðustu árum auk þess að sjóðurinn getur aldrei orðið nokkur kjölfesta fyrir starfrækslu eða stofnsetningu fiskeldis- eða hafbeitarstöðva enda er slíkur atvinnurekstur afar kostnaðarsamur. Með frumvarpinu er þó að sjálfsögðu ekki komið í veg fyrir stuðning við seiðaeldi eða fiskrækt, sbr. 1. gr. frumvarpsins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Með greininni er stöðu sjóðsins lýst að lögum og vikið að meginhlutverki hans.

Um 2. gr.


    Með greininni er mælt fyrir um skipan nefndarmanna í stjórn Fiskræktarsjóðs. Að gildandi lögum fer veiðimálanefnd skv. 98. gr. eldri laga um lax- og silungsveiði með stjórn Fiskræktarsjóðs en sú nefnd er ráðherra að auki til aðstoðar um veiðimál. Með frumvarpinu er ráðgert að leggja niður veiðimálanefnd enda er hlutverk hennar óverulegt eftir gildistöku nýrra laga um lax- og silungsveiði auk þess að telja verður að hlutverk hennar skarist við hlutverk samráðsnefndar um framkvæmd nýrra laga um lax- og silungsveiði, laga um eldi vatnafiska, laga um Veiðimálastofnun, laga um fiskrækt og laga um varnir gegn fisksjúkdómum sem sett var á fót með bráðabirgðaákvæðum í nefndum lögum. Hlutverk samráðsnefndarinnar er að fylgjast með og stuðla að greiðri framkvæmd og virkum skoðanaskiptum þeirra er lögin varða helst. Í nefndinni sitja ellefu fulltrúar tilnefndir af eftirtöldum aðilum: Landssambandi veiðifélaga, Landssambandi stangaveiðifélaga, Landssambandi fiskeldisstöðva, Félagi eigenda sjávarjarða, fisksjúkdómanefnd, Veiðimálastofnun, Landbúnaðarstofnun, Fiskistofu, umhverfisráðuneyti og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti (áður sjávarútvegsráðuneyti). Þá skipar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (áður landbúnaðarráðherra) einn nefndarmann án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar.

Um 3. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.


Um 4. gr.


    Með greininni er veitt yfirlit yfir tekjustofna Fiskræktarsjóðs sem koma til úthlutunar á hverju ári. Tekjur Fiskræktarsjóðs frá veiðifélögum og raforkufyrirtækjum vegna vatnsaflsvirkjana hafa verið sem hér segir á síðustu árum. Fjárhæðir eru í þúsundum króna á verðlagi hvers árs. Athuga ber að tekjur hvers árs eru vegna gjalda á næstliðnu ári.

Ár Gjald af
veiðitekjum
Gjald af sölu
raforku
1993 9.419.038 7.292.758
1994 6.413.220 8.624.014
1995 5.447.006 8.044.530
1996 5.633.687 8.206.956
1997 5.771.338 8.363.085
1998 6.665.249 8.665.642
1999 6.442.585 8.357.509
2000 8.083.223 8.440.367
2001 7.981.196 8.795.692
2002 8.329.451 8.773.547
2003 9.173.362 7.960.834
2004 10.979.104 8.921.320
2005 10.332.009 10.570.921
2006 11.038.284 11.671.523
2007 13.941.323 12.294.716*
*áætlað

Um 5. gr.


    Helsta nýmæli greinarinnar er að gjald er lagt á alla veiðiréttarhafa óháð því hvort þeir hafa tekjur af því að nýta veiðirétt sinn annars vegar með sölu veiðileyfa eða nýtingu veiðihlunninda eða hins vegar með aðild að veiðifélagi sem úthlutar arðgreiðslum í samræmi við arðskrá veiðifélags en í gildandi lögum um starfsemi sjóðsins er gjaldið einungis lagt á skírar veiðitekjur veiðifélaga, sbr. b-lið 98. gr. eldri lax- og silungsveiðilaga. Veiðiréttarhafar eru þeir sem eiga veiðirétt en skv. 12. gr. laga um lax- og silungsveiði, nr. 61/2006, ber Landbúnaðarstofnun að halda skrá um veiðivötn og veiðiréttarhafa.
    Í greininni segir að veiðiréttarhafar skuli greiða til Fiskræktarsjóðs 2% gjald af hreinum tekjum af veiði í ám og vötnum. Með hugtakinu hreinar tekjur er átt við tekjur af veiði að frádregnum eðlilegum og tengdum kostnaði við veiðina. Alla jafna ætti ákvörðun gjaldstofns samkvæmt greininni ekki að skapa vandkvæði. Til þess er að líta að veiðiréttarhöfum stendur næst að tíunda upplýsingar um veiðitekjur og er í 6. gr. frumvarpsins gert ráð fyrir að þeir geri það á formi sem Fiskistofa leggur til. Við álagningu og eftir atvikum áætlun gjaldsins mun Fiskistofa einkum líta til þeirra upplýsinga sem gjaldendur afla en þó er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að Fiskistofa geti leitað upplýsinga hjá öðrum sem kunna að hafa upplýsingar um gjaldstofna og eftir atvikum beita þá dagsektum skirrist þeir við að láta þær af hendi.

Um 6. gr.


    Í greininni er að finna nýmæli um fyrirkomulag innheimtu og álagningar gjalds skv. 5. gr. frumvarpsins sem á sér nokkra fyrirmynd í lögum um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, nr. 37/1992.
    Heimild 2. mgr. greinarinnar er byggð á því sjónarmiði að þar sem gjaldið er lágt getur það leitt til þess að álagning á einstaka veiðifélög eða veiðiréttarhafa verði mjög lág. Í slíkum tilvikum er kostnaður vegna innheimtunnar mögulega meiriri en ávinningur hennar.

Um 7. gr.


    Í greininni eru fyrirmæli um meðferð á eigin fé Fiskræktarsjóðs sem eiga sér nokkra fyrirmynd í 7. gr. laga um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins nr. 61/1997, sbr. 6. gr. laga nr. 53/2007.

Um 8. gr.


    Helstu breytingar sem ákvæði greinarinnar fela í sér eru að fyrir 1. september ár hvert skal veiðimálanefnd gefa út og láta birta lána- og úthlutunarreglur sem gilda skulu fyrir sjóðinn næsta almanaksár. Með þessu fyrirkomulagi er stuðlað að því að þau sjónarmið liggi fyrir sem ákvarðanir um lán og styrki úr sjóðnum byggjast á. Þá stuðlar það einnig að því að fyrir liggi skýr stefnumótun um áherslur í störfum sjóðsins fyrir hvert ár. Þar sem úthlutanir úr sjóðnum falla undir stjórnsýslu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er skylt að afla samþykkis hans fyrir reglunum og má gera ráð fyrir að þess sé aflað tímanlega. Í þessu samhengi er rétt að vekja athygli á 8. gr. frumvarpsins þar sem ráðherra er veitt heimild til þess að þrengja í raun valdheimildir sjóðstjórnar við setningu úthlutunarreglna.

Um 9. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 10. gr.


    Í greininni eru fyrirmæli um viðurlög við vanrækslu á að skila gögnum og við framlagningu rangra eða villandi gagna vegna ákvörðunar um álagningu gjalds af veiðitekjum skv. 5. gr. frumvarpsins. Sambærileg ákvæði eru í 109. gr. tekjuskattslaga.

Um 11. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Ríkisstjórn Íslands hefur ákveðið að leggja til við Alþingi að 270 millj. kr. verði varið úr jarðasjóði til að mynda eigið fé Fiskræktarsjóðs skv. 7. gr. þessa frumvarps. Jarðasjóður er á forræði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Með arði af eigin fé ætti sjóðurinn að vera ámóta vel settur og ef hann nyti óbreyttra greiðslna frá seljendum raforku.Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um Fiskræktarsjóð.


    Markmið frumvarpsins er að setja skýrar reglur um hlutverk og stöðu Fiskræktarsjóðs en aðkallandi þykir að breyta ákvæðum laga um sjóðinn sem er að finna í eldri lögum um lax- og silungsveiði, nr. 76/1970. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að Fiskræktarsjóður hafi áfram tekjur af 2% gjaldi af veiði í ám og vötnum en að gjaldtöku af tekjum af sölu raforku verði aflétt. Til að bæta sjóðnum það upp er gert ráð fyrir að honum verði veitt 270 m.kr. eingreiðsla úr Jarðasjóði og að sú fjárhæð myndi eigið fé Fiskræktarsjóðs og taki breytingum í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs frá 1. janúar 2008. Árið 2007 nam gjald af veiðitekjum um 13,9 m.kr. og er áætlað að gjald af sölu raforku hafi numið um 12,3 m.kr. það ár.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa áhrif á afkomu ríkissjóðs þar sem 270 m.kr. eigið féð er fært af Jarðajóði yfir á Fiskræktarsjóð.