Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 558. máls.

Þskj. 859  —  558. mál.



Tillaga til þingsályktunar

um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 49/2007, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.


(Lögð fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)




    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 49/2007 frá 8. júní 2007 um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/89/EB frá 18. janúar 2006 um ráðstafanir til að tryggja öruggt framboð raforku og um fjárfestingar í grunnvirkjum.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta framangreinda ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um ráðstafanir til að tryggja öruggt framboð raforku og um fjárfestingar í grunnvirkjum.
    Innleiðing þessarar ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér á landi. Ákvörðunin var því tekin með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu meðan leitað er samþykkis Alþingis til að staðfesta hana. Í athugasemdum hér á eftir er gerð nánari grein fyrir því hvað felst í slíkum fyrirvara, sbr. 103. gr. EES-samningsins, sem og efni tilskipunarinnar. Gerð þessi felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast.
    Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/89/EB.
    Tilskipunin mælir fyrir um aðgerðir til að tryggja öryggi í orkuöflun og fjárfestingum í flutningi og dreifingu á raforku. Í tilskipuninni er lögð áhersla á nauðsyn þess að tryggja jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar raforku. Sú skylda er lögð á aðila að tryggja að settar séu, og staðfestar, viðbragðsáætlanir sem og að gripið verði til aðgerða til að mæta frávikum í raforkukerfinu. Skylda þessi hvílir jafnt á ríkjum, opinberum eftirlitsaðilum sem og dreifiveitum og kerfisstjórum flutningskerfa.
    Tilskipunin fjallar að hluta til um viðskipti með raforku og tengingu yfir landamæri og á því ekki að öllu leyti við innlendar aðstæður enda er íslenska raforkukerfið einangrað frá öðrum kerfum. Þá mun tilskipunin ekki kalla á ítarlegar lagabreytingar þar sem einstaka ákvæði hennar er nú þegar að finna í innlendri löggjöf upp að vissu marki.
    Tilskipunin mun fyrirsjáanlega kalla á breytingar á raforkulögum, nr. 65/2003, með síðari breytingum, og hugsanlega reglugerð um framkvæmd raforkulaga, nr. 1040/2005. Hins vegar er að svo stöddu ekki ljóst hversu ítarlegar þær breytingar munu endanlega verða vegna sérstöðu íslenska raforkukerfisins, sbr. umfjöllun að framan.
    Ekki er unnt að segja til um að svo stöddu hver áhrif tilskipunarinnar og efni lagabreytinga á raforkulögum muni hafa í för með sér fyrir hagsmunaaðila hér á landi. Hins vegar hefur iðnaðarráðuneytið kynnt efni tilskipunarinnar fyrir hagsmunaaðilum en við undirbúning innleiðingar hennar leitaði ráðuneytið umsagnar Samorku, Orkustofnunar, Landsnets og dreifiveitna raforku. Einnig hefur ráðuneytið fundað með Orkustofnun og Landsneti um efni tilskipunarinnar.

3. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    EES-samningurinn er reglulega uppfærður með breytingum á viðaukum og bókunum við samninginn. Ákvarðanir um þessar breytingar eru teknar í sameiginlegu EES-nefndinni og með þær hefur ávallt verið farið sem hverja aðra þjóðréttarsamninga. Samkvæmt EES-samningnum skuldbinda þær aðildarríkin að þjóðarétti um leið og þær hafa verið teknar, nema eitthvert þeirra beiti heimild í 103. gr. EES-samningsins til að setja fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Viðkomandi aðildarríki hefur þá sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum. Að því er Ísland varðar hefur slíkur fyrirvari almennt einungis verið settur þegar innleiðing ákvörðunar kallar á lagabreytingar hér landi, en í því tilviki leiðir af 21. gr. stjórnarskrárinnar að leita ber eftir samþykki Alþingis áður en ákvörðun er staðfest. Slíkt samþykki getur Alþingi alltaf veitt með viðeigandi lagabreytingu, en einnig hefur tíðkast að heimila stjórnvöldum að skuldbinda sig að þjóðarétti með þingsályktun áður en landsréttinum er með lögum breytt til samræmis við viðkomandi ákvörðun. Í seinni tíð hefur það verið viðtekinn háttur við staðfestingu þeirra ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar, sem krefst lagabreytinga að innleiða, enda kemur hvortveggja til, að frestur til að aflétta hinum stjórnskipulega fyrirvara er tiltölulega skammur, auk þess sem ekki er alltaf tímabært að innleiða ákvörðun um leið og hún er tekin.


Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 49/2007

frá 8. júní 2007

um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR TEKIÐ NEÐANGREINDA ÁKVÖRÐUN

með hliðsjón af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, með áorðnum breytingum samkvæmt bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist hér á eftir „samningurinn“, einkum 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)        IV. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 151/2006 frá 8. desember 2006 ( 1 ).

2)        Fella ber inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/89/EB frá 18. janúar 2006 um ráðstafanir til að tryggja öruggt framboð raforku og um fjárfestingar í grunnvirkjum ( 2 ).

ÁKVÖRÐUNIN ER SVOHLJÓÐANDI:

1. gr.


Eftirfarandi liður bætist við á eftir 24. lið (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/8/EB) í IV. viðauka við samninginn:

„25.         32005 L 0089: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/89/EB frá 18. janúar 2006 um ráðstafanir til að tryggja öruggt framboð raforku og um fjárfestingar í grunnvirkjum (Stjtíð. ESB L 33, 4.2.2006, bls. 22).“

2. gr.


Íslenskur og norskur texti tilskipunar 2005/89/EB, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

3. gr.


Ákvörðun þessi öðlast gildi hinn 9. júní 2007 að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi borist sameiginlegu EES-nefndinni ( * ).

4. gr.


Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.

Gjört í Brussel 8. júní 2007.

     Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar
    Formaður

    A. Seatter


    Ritarar
    sameiginlegu EES-nefndarinnar

    K. Bryn     M. Brinkmann




Fylgiskjal II.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2005/89/EB
frá 18. janúar 2006
um ráðstafanir til að tryggja öruggt framboð raforku og um fjárfestingar í grunnvirkjum
(Texti sem varðar EES)


EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 95. gr.,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar,
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndar Evrópubandalaganna ( 1 ),
að höfðu samráði við svæðanefndina, í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 2 ),
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)          Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/54/ EB frá 26. júní 2003 um sameiginlegar reglur um innri markaðinn fyrir raforku ( 3 ) var mikilvægt framlag til þess að skapa innri markað fyrir raforku. Ein af meginforsendunum fyrir eðlilegri starfsemi innri markaðarins er að tryggja öflugt afhendingaröryggi raforku og gefur tilskipunin aðildarríkjunum kost á því að leggja veituskyldur á raforkufyrirtæki, m.a. að því er varðar afhendingaröryggi. Slíkar veituskyldur skulu skilgreindar eins nákvæmlega og þröngt og unnt er, og skulu ekki leiða til þess að til verði framleiðslugeta sem er umfram það sem nauðsynlegt er til að koma í veg fyrir óþarfa truflun á dreifingu raforku til kaupenda.
2)          Venjulega er spáð fyrir um eftirspurn eftir rafmagni til meðallangs tíma byggt á sviðsmyndum sem unnar eru af flutningskerfisstjórum eða öðrum stofnunum sem geta gert þær að beiðni aðildarríkis.
3)          Innri samkeppnismarkaður fyrir raforku í Evrópusambandinu útheimtir stefnu, varðandi afhendingaröryggi raforku, sem samrýmist kröfum slíks markaðar og er gagnsæ og án mismununar. Skortur á slíkri stefnu í einstökum aðildarríkjum, eða verulegur munur á stefnu aðildarríkja, myndi leiða til röskunar á samkeppni. Miklu máli skiptir því að skilgreina skýrt hlutverk og ábyrgð lögbærra yfirvalda og aðildarríkjanna sjálfra og allra hlutaðeigandi markaðsaðila til að tryggja afhendingaröryggi raforku og eðlilega starfsemi innri markaðarins og um leið að forðast að skapa hindranir fyrir nýja aðila á markaðinum t.d. fyrirtæki sem framleiða eða afhenda rafmagn í aðildarríki sem hafa nýlega hafið starfsemi í því aðildarríki og að forðast röskun á innri markaðinum fyrir raforku eða erfiðleika fyrir markaðsaðila, þ.m.t. fyrirtæki með litla markaðshlutdeild eins og framleiðendur og birgja með litla hlutdeild á viðkomandi markaði í Bandalaginu.
4)          Í ákvörðun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1229/2003/EB ( 4 ) er mælt fyrir um röð viðmiðunarreglna Bandalagsins fyrir samevrópsk orkunet. Í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1228/2003 frá 26. júní 2003 um skilyrði fyrir aðgangi að neti fyrir raforkuviðskipti yfir landamæri ( 5 ) eru m.a. settar fram meginreglur og nákvæmar reglur um hvernig skuli brugðist við kerfisöng.
5)          Þegar stuðlað er að notkun raforku úr endurnýjanlegum orkugjöfum er nauðsynlegt að tryggja að tilheyrandi varageta sé til staðar þar sem það er tæknilega nauðsynlegt til að viðhalda áreiðanleika og öryggi netsins.
6)          Til þess að uppfylla skuldbindingar Bandalagsins í umhverfismálum og draga úr þörfinni á aðfenginni orku er mikilvægt að taka tillit til langtímaáhrifa sem vaxandi eftirspurn eftir raforku hefur.
7)          Samvinna milli landsbundinna flutningskerfisstjóra í málum sem varða netöryggi, þ.m.t. skilgreining flutningsgetu, upplýsingamiðlun og kerfislíkön, er mikilvæg fyrir þróun starfhæfs innri markaðar og hana mætti bæta frekar. Skortur á samræmingu að því er varðar netöryggi skaðar þróun jafnra samkeppnisskilyrða.
8)          Helsti tilgangur viðeigandi tæknireglna og tilmæla eins og þeirra sem er að finna í rekstrarhandbók samtaka um samræmingu flutnings á raforku (UCTE), svipaðra reglna og tilmæla sem þróuð hafa verið af Nordel, í Eystrasaltsnetmálanum sem og kerfanna í Breska konungsríkinu og á Írlandi, er stuðningur við tæknilegan rekstur samtengda netsins sem stuðlar þannig að uppfyllingu kröfunnar um að kerfið starfi áfram ef til bilunar kemur á tilteknum stað eða stöðum í kerfinu og dregur úr kostnaði við að milda áhrif slíkrar röskunar á afhendingu.
9)          Með tilliti til tíðni og lengdar truflana skal sú krafa gerð að flutningskerfis- og dreifikerfisstjórar veiti kaupendum öfluga þjónustu.
10)          Ráðstafanir, sem heimilt er að gera til að tryggja að hæfileg varaframleiðslugeta sé til staðar, skulu vera markaðstengdar og án mismununar og geta m.a. falið í sér ráðstafanir eins og samningsbundna ábyrgð og fyrirkomulag, framleiðslugetuvalrétt eða framleiðslugetuskuldbindingar. Til viðbótar þessum ráðstöfunum geta komið gerningar án mismununar eins og framleiðslugetugreiðslur.
11)          Til þess að tryggja að viðeigandi fyrirframupplýsingar séu tiltækar skulu aðildarríkin birta ráðstafanir sem gerðar eru til að gæta jafnvægis milli framboðs og eftirspurnar meðal fjárfesta og hugsanlegra fjárfesta í framleiðslu og á meðal raforkuneytenda.
12)          Með fyrirvara um ákvæði 86., 87. og 88. gr. sáttmálans er mikilvægt að aðildarríkin mæli fyrir um ótvíræðan, viðeigandi og traustan ramma sem auðveldar örugga afhendingu raforku og stuðlar að fjárfestingum í framleiðslugetu og aðferðum til að stjórna eftirspurn. Einnig er mikilvægt að viðeigandi ráðstafanir séu gerðar til að tryggja regluramma sem hvetur til fjárfestinga í nýjum flutningstengilínum, einkum milli aðildarríkja.
13)          Á fundi leiðtogaráðsins í Barcelona 15. og 16. mars 2002 var umfang samtengingar milli aðildarríkjanna ákveðið. Lítil samtenging leiðir til þess að markaðurinn klofnar og hindrar samkeppnisþróun. Það að til staðar sé viðunandi, raunveruleg flutningsgeta tengilínu hvort sem hún er yfir landamæri eða ekki, er afar mikilvægt en ekki nægilegt skilyrði fyrir virkri samkeppni. Til að gæta hagsmuna kaupenda skal eðlilegt jafnvægi ríkja milli mögulegs ávinnings af nýjum samtengingarverkefnum og kostnaðar við slík verkefni.
14)          Þótt mikilvægt sé að ákvarða mestu mögulegu flutningsgetu án þess að brjóta gegn kröfum um öruggan rekstur neta er einnig mikilvægt að tryggja fullt gagnsæi aðferða við útreikninga á getu og úthlutun í flutningskerfinu. Með þessu móti gæti verið mögulegt að nýta betur þá getu sem til staðar er og koma í veg fyrir að rangar vísbendingar um skort berist til markaðarins og stuðla þannig að því að markmiðin um virkan innri samkeppnismarkað, í skilningi tilskipunar 2003/54/EB, náist.
15)          Flutningskerfis- og dreifikerfisstjórar þurfa viðeigandi og traustan regluramma fyrir fjárfestingar sínar, og fyrir viðhald og endurnýjun neta.
16)          Í 4. gr. tilskipunar 2003/54/EB er þess krafist að aðildarríkin hafi eftirlit með og leggi fram skýrslu um afhendingaröryggi raforku. Þessi skýrsla skal fjalla um þætti sem máli skipta fyrir afhendingaröryggi til skamms tíma, meðallangs tíma og lengri tíma, þ.m.t. áætlanir flutningskerfisstjóra um fjárfestingar í netinu. Þegar slík skýrsla er tekin saman er ætlast til þess að aðildarríkin vísi í upplýsingar og mat sem flutningskerfisstjórar eru þegar með í framkvæmd bæði hver fyrir sig og sameiginlega, þ.m.t á evrópskum vettvangi.
17)          Aðildarríkin skulu tryggja skilvirka framkvæmd þessarar tilskipunar.
18)          Þar eð aðildarríkin geta ekki fyllilega náð markmiði fyrirhugaðra aðgerða, þ.e. að tryggja örugga afhendingu raforku á grundvelli frjálsrar samkeppni og að skapa innri markað á sviði raforku sem starfræktur er að fullu og þar sem samkeppni ríkir, og þar eð því markmiði verður, af þeim sökum, betur náð á vettvangi Bandalagsins vegna þess hve aðgerðirnar eru umfangsmiklar og hafa mikil áhrif, er Bandalaginu heimilt að samþykkja ráðstafanir í samræmi við dreifræðisregluna eins og fram kemur í 5. gr. sáttmálans. Í samræmi við meðalhófsregluna, eins og hún er sett fram í þeirri grein, ganga ákvæði þessarar tilskipunar ekki lengra en nauðsynlegt er til að þeim markmiðum verði náð.
SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

1. gr.
Gildissvið

1.     Í þessari tilskipun er mælt fyrir um ráðstafanir sem hafa það að markmiði að standa vörð um afhendingaröryggi raforku svo tryggja megi eðlilega starfsemi innri markaðarins fyrir raforku og að tryggja:
a)    fullnægjandi framleiðslugetu,
b)    fullnægjandi jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar,
    og
c)    viðeigandi samtengingu milli aðildarríkja sem stuðlar að þróun innri markaðarins.
2.     Í henni er komið á fót ramma, en innan hans skulu aðildarríkin skilgreina stefnu, sem er gagnsæ og án mismununar, um örugga afhendingu raforku sem samrýmist kröfum innri markaðar fyrir raforku þar sem samkeppni ríkir.

2. gr.
Skilgreiningar

Í þessari tilskipun skulu skilgreiningarnar í 2. gr. tilskipunar 2003/54/EB gilda. Að auki er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
a)    ,,eftirlitsyfirvald“: eftirlitsyfirvöld í aðildarríkjum sem tilnefnd eru í samræmi við 23. gr. tilskipunar 2003/54/EB,
b)    „afhendingaröryggi raforku“: geta rafkerfis til að afhenda kaupendum raforku eins og kveðið er á um í þessari tilskipun,
c)    „rekstraröryggi nets“: samfelldur rekstur flutnings-, og þar sem við á, dreifinets við fyrirsjáanlegar aðstæður,
d)    „jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar“: fullnæging fyrirsjáanlegrar eftirspurnar neytenda eftir raforku án þess að þörf sé á að framfylgja ráðstöfunum til að draga úr notkun.

3. gr.
Almenn ákvæði

1.     Aðildarríkin skulu tryggja öruggt framboð raforku með því að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að stuðla að traustu umhverfi fjárfestinga og með því að skilgreina hlutverk og ábyrgð lögbærra yfirvalda, þ.m.t. eftirlitsyfirvöld þar sem við á, og allra viðkomandi markaðsaðila og birta upplýsingar þar að lútandi. Til viðeigandi markaðsaðila teljast m.a. flutnings- og dreifikerfisstjórar, raforkuframleiðendur, birgjar og kaupendur.
2.     Við framkvæmd ráðstafananna, sem um getur í 1. mgr., skulu aðildarríkin hafa hliðsjón af:
a)    mikilvægi þess að tryggja órofna afhendingu raforku,
b)    mikilvægi trausts og gagnsæs regluramma,
c)    innri markaðinum og möguleikunum á samvinnu yfir landamæri að því er varðar afhendingaröryggi raforku,
d)    þörfinni á reglulegu viðhaldi, og þar sem við á, endurnýjun flutnings- og dreifineta til að viðhalda afkastagetu netsins,
e)    mikilvægi þess að tryggja rétta framkvæmd tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2001/77/EB frá 27. september 2001 um að auka hlutdeild rafmagns, sem er framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum, á innri raforkumarkaði ( 6 ) og tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2004/8/EB frá 11. febrúar 2004 um að auka samvinnslu raf- og varmaorku sem byggist á eftirspurn eftir notvarma á innri orkumarkaðinum ( 7 ), að því leyti sem ákvæði þeirra varða afhendingaröryggi raforku,
f)    þörfinni á að tryggja nægilega varaflutningsgetu og varaframleiðslugetu fyrir öruggan rekstur,
    og
g)    mikilvægi þess að hvetja til stofnunar heildsölumarkaða þar sem seljanleiki ríkir.
3.     Við framkvæmd ráðstafananna, sem um getur í 1. mgr., skulu aðildarríkin einnig hafa hliðsjón af:
a)    hversu mikil fjölbreytni er í raforkuframleiðslu á landsvísu eða á viðeigandi svæði,
b)    mikilvægi þess að draga úr langtímaáhrifum sem vöxtur eftirspurnar eftir raforku hefur,
c)    mikilvægi þess að hvetja til orkunýtni og taka í notkun nýja tækni, einkum tækni til að stjórna eftirspurn, tækni í tengslum við endurnýjanlega orku og dreifða framleiðslu,
    og
d)    mikilvægi þess að ryðja úr vegi stjórnsýslulegum hindrunum á fjárfestingum í grunnvirkjum og framleiðslugetu.
4.     Aðildarríkin skulu tryggja að allar ráðstafanir, sem samþykktar eru í samræmi við þessa tilskipun, séu án mismununar og leggi ekki óeðlilegar byrðar á markaðsaðila, þ.m.t. nýja aðila á markaði og fyrirtæki með litla markaðshlutdeild. Aðildarríkin skulu einnig taka tillit til áhrifa ráðstafananna á raforkukostnað kaupenda áður en þær eru samþykktar.
5.     Þegar unnið er að því að tryggja viðeigandi samtengingu milli aðildarríkja eins og um getur í c-lið 1. mgr. 1. gr. skal leggja sérstaka áherslu á:
a)    legu hvers aðildarríkis,
b)    að viðhalda eðlilegu jafnvægi milli kostnaðar við smíði nýrra samtengla og ávinnings kaupenda,
    og
c)    að tryggja að samtenglar, sem fyrir eru, séu notaðir á svo skilvirkan hátt sem unnt er.

4. gr.
Rekstraröryggi nets

1.     a)    Aðildarríki eða lögbær yfirvöld skulu tryggja að flutningskerfisstjórar setji lágmarksreglur um rekstur og lágmarksskuldbindingar varðandi netöryggi.
        Áður en þeir mæla fyrir um slíkar reglur og skuldbindingar skulu þeir hafa samráð við viðeigandi aðila í löndunum sem þeir eru samtengdir.
    b)    Þrátt fyrir a-lið fyrstu undirgreinar geta aðildarríkin krafist þess að flutningskerfisstjórar leggi slíkar reglur og skuldbindingar fyrir lögbært yfirvald til samþykkis.
    c)    Aðildarríkin skulu tryggja að flutningskerfisstjórar og, þar sem við á, dreifikerfisstjórar fari að lágmarksreglunum um rekstur og lágmarksskuldbindingunum varðandi netöryggi.
    d)    Aðildarríkin skulu krefjast þess að flutningskerfisstjórar viðhaldi fullnægjandi rekstraröryggi nets.
        Með hliðsjón af því skulu flutningskerfisstjórar viðhalda fullnægjandi tæknilegri varaflutningsgetu til að tryggja rekstraröryggi netsins og vinna með þeim flutningskerfisstjórum sem þeir eru samtengdir.
        Þær fyrirsjáanlegu aðstæður, sem öryggis skal gætt við, eru skilgreindar í reglunum um rekstraröryggi netsins.
    e)    Aðildarríkin skulu einkum tryggja að samtengdir flutnings- og, þar sem við á, dreifikerfisstjórar skiptist á upplýsingum sem varða rekstur neta á tímanlegan og skilvirkan hátt í samræmi við lágmarksrekstrarkröfurnar. Sömu kröfur skulu gilda, þar sem við á, um flutnings- og dreifikerfisstjóra sem eru samtengdir kerfisstjórum utan Bandalagsins.
2.     Aðildarríki eða lögbær yfirvöld skulu tryggja að flutningskerfisstjórar og, þar sem við á, dreifikerfisstjórar setji og uppfylli árangursmarkmið um afhendingargæði og netöryggi. Slík markmið skulu háð samþykki aðildarríkjanna eða lögbærra yfirvalda og skulu þau fylgjast með því hvort þau náist. Þau skulu vera hlutlæg, gagnsæ og án mismununar og skulu birt.
3.     Þegar gripið er til ráðstafananna sem um getur í 24. gr. tilskipunar 2003/54/EB og í 6. gr. reglugerðar (EB) nr. 1228/2003 skulu aðildarríkin ekki mismuna á grundvelli þess hvort um innlenda samninga eða samninga yfir landamæri er að ræða.
4.     Aðildarríkin skulu tryggja að skerðing á afhendingu við neyðaraðstæður sé byggð á fyrirframskilgreindum viðmiðunum flutningskerfisstjóra um stjórnun ójafnvægis. Haft skal náið samráð við aðra hlutaðeigandi flutningskerfisstjóra um gerð allra öryggisráðstafana og viðeigandi tvíhliða samningar virtir, þ.m.t. samningar um skipti á upplýsingum.

5. gr.
Jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar viðhaldið

1.     Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að viðhalda jafnvægi milli eftirspurnar eftir raforku og þess hversu mikil framleiðslugeta er tiltæk.
Aðildarríkin skulu einkum:
a)    með fyrirvara um sérstakar kröfur lítilla, einangraðra kerfa, hvetja til þess að settur verði fram rammi fyrir heildsölumarkað sem gefur viðeigandi vísbendingar varðandi verð, vegna framleiðslu og fyrir notkun,
b)    krefjast þess að flutningskerfisstjórar tryggi að viðeigandi varaframleiðslugeta sé til staðar svo gæta megi jafnvægis og/eða að sambærilegar markaðsráðstafanir verði samþykktar.
2.     Með fyrirvara um 87. og 88. gr. sáttmálans er aðildarríkjunum einnig heimilt að grípa til frekari ráðstafana sem taka til, en takmarkast ekki við, eftirfarandi:
a)    ákvæða sem greiða fyrir aukningu framleiðslugetu og aðgangi nýrra framleiðslufyrirtækja að markaðinum,
b)    afnáms hindrana sem koma í veg fyrir notkun riftanlegra samninga,
c)    afnáms hindrana sem koma í veg fyrir að bæði framleiðendur og kaupendur geri mislanga samninga,
d)    hvatningar til þess að tækni sé tekin í notkun sem stjórnar eftirspurn í rauntíma, s.s. þróuð mælikerfi,
e)    hvatningar til orkusparnaðarráðstafana,
f)    útboðsaðferða, eða annarra sambærilegra aðferða sem eru gagnsæjar og án mismununar, í samræmi við 1. mgr. 7. gr. tilskipunar 2003/54/EB.
3.     Aðildarríkin skulu birta ráðstafanirnar sem þau grípa til samkvæmt þessari grein og tryggja sem víðasta dreifingu þeirra.

6. gr.
Fjárfesting í neti

1.     Aðildarríkin skulu setja regluramma sem:
a)    gefur bæði flutnings- og dreifikerfisstjórum vísbendingar, að því er varðar fjárfestingar, um að þróa net sín til að mæta fyrirsjáanlegri eftirspurn á markaðinum
    og
b)    auðveldar viðhald og, þar sem við á, endurnýjun neta þeirra.
2.     Aðildarríkin mega leyfa markaðsmiðaðar fjárfestingar (merchant investments) í samtengingum með fyrirvara um reglugerð (EB) nr. 1228/2003.
Aðildarríkin skulu tryggja að ákvarðanir um fjárfestingar í samtengingum séu teknar í náinni samvinnu milli viðkomandi flutningskerfisstjóra.

7. gr.
Skýrslugjöf

1.     Aðildarríkin skulu tryggja að skýrslan, sem um getur í 4. gr. tilskipunar 2003/54/EB, taki til almennrar getu rafkerfisins til að anna núverandi og áætlaðri eftirspurn eftir rafmagni og að þar sé fjallað um:
a)    rekstraröryggi nets,
b)    áætlað jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar næstu fimm árin,
c)    framtíðarhorfur varðandi afhendingaröryggi raforku á tímabili sem nemur fimm til fimmtán árum frá dagsetningu skýrslunnar,
    og
d)    fjárfestingarfyrirætlanir flutningskerfisstjóra, og annarra sem þeir hafa vitneskju um, næstu fimm almanaksárin eða lengur að því er varðar framboð á flutningsgetu samtengilína yfir landamæri.
2.     Aðildarríkin eða lögbær yfirvöld skulu semja skýrsluna í náinni samvinnu við flutningskerfisstjóra. Flutningskerfisstjórar skulu, ef við á, hafa samráð við nálæga flutningskerfisstjóra.
3.     Í þeim hluta skýrslunnar sem fjallar um fyrirætlanir um fjárfestingar í samtengingum sem um getur í d-lið 1. mgr. skal taka tillit til:
a)    meginreglnanna varðandi viðbrögð við kerfisöng sem settar eru fram í reglugerð (EB) nr. 1228/2003,
b)    flutningslína sem þegar eru til staðar og þeirra sem fyrirhugaðar eru,
c)    væntanlegs framleiðslumynsturs, framboðs, viðskipta yfir landamæri og notkunar sem gerir kleift að stjórna eftirspurn, og
d)    innlendra, svæðisbundinna og evrópskra markmiða um sjálfbæra þróun, þ.m.t. þeirra verkefna sem mynda hluta af „forgangsverkefnaásunum“ sem taldir eru upp í I. viðauka við ákvörðun 1229/2003/EB.
Aðildarríkin skulu tryggja að flutningskerfisstjórar veiti upplýsingar um fjárfestingarfyrirætlanir sínar, eða annarra aðila sem þeir hafa vitneskju um, að því er varðar framboð á flutningsgetu samtengilína yfir landamæri.
Aðildarríkin geta einnig gert kröfu um að flutningskerfisstjórar veiti upplýsingar um fjárfestingar sem tengjast lagningu lína innanlands sem hafa veruleg áhrif á framboð samtenginga yfir landamæri.
4.     Aðildarríkin eða lögbær yfirvöld skulu tryggja að flutningskerfisstjórum og/eða lögbærum yfirvöldum sé auðveldaður nauðsynlegur aðgangur að viðeigandi gögnum þar sem við á í þróun þessa verkefnis.
Tryggja skal að ekki sé greint frá trúnaðarupplýsingum.
5.     Á grundvelli þeirra upplýsinga sem um getur í d- lið 1. mgr. og lögbær yfirvöld hafa látið í té skal framkvæmdastjórnin leggja skýrslu fyrir aðildarríkin, lögbær yfirvöld og evrópskan hóp eftirlitsaðila með rafmagni og gasi sem komið var á fót með ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2003/796/EB ( 8 ) um fyrirhugaðar fjárfestingar og hvernig þær stuðla að markmiðunum sem sett eru fram í 1. mgr. 1. gr.
Þessa skýrslu má sameina þeirri skýrslugerð sem kveðið er á um í c-lið 1. mgr. 28. gr. tilskipunar 2003/54/EB og skal hún birt.

8. gr.
Lögleiðing

1.     Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari eigi síðar en 24. febrúar 2008. Þau skulu tilkynna það framkvæmdastjórninni þegar í stað.
Þegar aðildarríkin samþykkja þessi ákvæði skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þau verða birt opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.
2.     Aðildarríkin skulu eigi síðar en 1. desember 2007 tilkynna framkvæmdastjórninni um ákvæði úr landslögum sem þau samþykkja um málefni sem tilskipun þessi nær til.

9. gr.
Skýrslugjöf

Framkvæmdastjórnin skal fylgjast með og yfirfara beitingu þessarar tilskipunar og leggja skýrslu um árangur fyrir Evrópuþingið og ráðið eigi síðar en 24. febrúar 2010.

10. gr.
Gildistaka

Tilskipun þessi öðlast gildi á tuttugasta degi eftir að hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.

11. gr.
Viðtakendur

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.
Gjört í Strassborg 18. janúar 2006.
Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
J. BORRELL FONTELLES H. WINKLER
forseti. forseti.
Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. ESB L 89, 29.3.2007, bls. 22, og EES-viðbætir nr. 15, 29.3.2007, bls. 18.
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Stjtíð. ESB L 33, 4.2.2006, bls. 22.
Neðanmálsgrein: 3
(*)    Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 4
(1)    Stjtíð. ESB C 120, 20.5.2005, bls. 119.
Neðanmálsgrein: 5
(2)    Álit Evrópuþingsins frá 5. júlí 2005 (hefur enn ekki verið birt íStjórnartíðindum ESB) og ákvörðun ráðsins frá 1. desember 2005.
Neðanmálsgrein: 6
(3)    Stjtíð. ESB L 176, 15.7.2003, bls. 37. Tilskipuninni var breytt með tilskipun ráðsins 2004/85/EB (Stjtíð. ESB L 236, 7.7.2004, bls. 10).
Neðanmálsgrein: 7
(4)    Stjtíð. ESB L 176, 15.7.2003, bls. 11.
Neðanmálsgrein: 8
(5)    Stjtíð. ESB L 176, 15.7.2003, bls. 1. Reglugerðinni var breytt með reglugerð ráðsins (EB) nr. 1223/2004 (Stjtíð. ESB L 233, 2.7.2004, bls. 3).
Neðanmálsgrein: 9
(6)    Stjtíð. EB L 283, 27.10.2001, bls. 33. Tilskipuninni var breytt með aðildarlögunum frá 2003.
Neðanmálsgrein: 10
(7)    Stjtíð. ESB L 52, 21.2.2004, bls. 50.
Neðanmálsgrein: 11
(8)    Stjtíð. ESB L 296, 14.11.2003, bls. 34.