Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 331. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 866  —  331. mál.




Nefndarálit



um frv. til varnarmálalaga.

Frá minni hluta utanríkismálanefndar.



    Síðastliðna tvo áratugi eða tæplega það hafa miklar og sögulegar breytingar gengið yfir heiminn á sviði utanríkis- og öryggismála, viðskipta og stjórnmála. Eftir langt kyrrstöðutímabil svokallaðra kaldastríðsára þar sem kjarnorkuvígbúið ógnarjafnvægi hélt heiminum í frosnum helgreipum hafa hlutirnir verið á fleygiferð. Þessar breytingar lúta ekki aðeins að upplausn Sovétríkjanna, Varsjárbandalagsins og falli Berlínarmúrsins og þar með gerbreyttum stjórnmálaaðstæðum í Evrópu með áhrifum á heiminn allan, heldur einnig að hnattvæðingu á forsendum fjármagns og stórfyrirtækja, stríði um olíu og aðrar auðlindir, og loftslagsbreytingum en auðvitað ekki síst að friðar- og öryggismálum. Ófriðarbál logar í Afganistan og í Írak; staðan hefur sennilega aldrei verið verri í deilunum milli Ísraels og Palestínu; í Afríku geisa átök og jafnvel hreinar kynþáttahreinsanir sem jaðra við þjóðarmorð á fleiri en einum stað. Allt eru þetta ótvíræðar vísbendingar um að aðferðafræði hernaðarhyggjunnar, hnefaréttarins og hernaðarbandalaganna er gjörsamlega gjaldþrota sem leið til aukins öryggis.
    Með lokum kalda stríðsins og með hruni Sovétríkjanna breyttist valdaskipan heimsins. Það sem áður hafði verið ógnarjafnvægi tveggja stórvelda, í það minnsta á hernaðarsviðinu, varð allt í einu að ruglingslegri mynd. Gömlu evrópsku stórveldin voru mörg hver komin nokkuð að fótum fram, a.m.k. í hernaðarlegum skilningi og í skilningi hnattrænna pólitískra áhrifa, ríki Asíu glímdu við mikinn fólksfjölda og stöðuga fjölgun, og síðan tróndi á toppnum eitt stórveldi, Bandaríki Norður-Ameríku. Þetta er heimur með einum pól í stað tveggja og þótt fáir hugsandi menn sakni þess tíma er ekki þar með sagt að það sem við tók sé gallalaust. Enda fór það svo að í kjölfarið óx mjög hroki vestrænna valdamanna, einkum í Bandaríkjunum, sem töldu sér alla vegi færa og að nú þyrftu þeir engan lengur að spyrja álits á gerðum sínum.
    En tímarnir eru fljótir að breytast. Bandaríkin urðu fyrir miklu áfalli 11. september 2001. Svo hörmuleg sem sjálf árásin var og glæpirnir viðbjóðslegir þegar ráðist var á turnana tvo, var þá kannski hið pólitíska og sálræna áfall sem stórveldið Bandaríkin urðu fyrir enn þá veigameira. Viðbrögð Bandaríkjamanna fyrstu vikurnar eftir árásina á tvíburaturnana báru vitni um þetta. En harðlínuöflin í Bandaríkjunum voru fljót að jafna sig og ná undirtökunum á nýjan leik. Í hönd fór stríð þeirra gegn hryðjuverkum, skilyrðislaus krafa um stuðning og hlýðni undir vígorðinu „Annaðhvort ertu með okkur eða á móti“.
    Í framhaldinu var sprengjum látið rigna úr lofti yfir eitt vanþróaðasta ríki heimsins, Afganistan, þar sem NATO situr nú fast í fúafeni og Bandaríkjamenn ögra öðrum NATO- ríkjum að taka meiri þátt í hernaðinum með sér. Í kjölfarið fylgdi svo ólögmætt árásarstríð, innrás í Írak 2003 á upplognum forsendum. Þessu „stríði gegn hryðjuverkum“ tengjast margvísleg og gróf mannréttindabrot, svo sem ólöglegt fangaflug, leynifangelsi, pyntingar, rekstur fangabúðanna í Guantanamo, „svartlistarnir“ og gríðarlega aukin upplýsingasöfnun um almenna borgara. Allt þrengir þetta að friðhelgi manna og ferðafrelsi.

Brotthvarf hersins á Miðnesheiði.
    Hér á Íslandi studdu stjórnvöld skilyrðislaust þessa nýju hernaðarhyggju sem fólst í „stríðinu gegn hryðjuverkum“. Íslensk stjórnvöld studdu bæði stríðið í Afganistan og í Írak, og var þá iðulega spilað á ótta við að herinn á Miðnesheiði kynni að yfirgefa landið ef Íslendingar röðuðu sér ekki upp meðal „hinna staðföstu þjóða“.
    Stuðningurinn við ólögmæt árásarstríð voru þó hvorki fyrsta sé síðasta tilraun íslenskra stjórnvalda til að halda í bandaríska herinn. Í hvert skipti sem bandaríski herinn gaf út að nú stæði til að draga úr viðbúnaði einkenndust viðbrögð íslenskra ráðamanna af taugaveiklun og afneitun á þeirri staðreynd, sem duldist engum hugsandi manni, að fyrr frekar en síðar færi herliðið af landi brott. Vandræðagangurinn hófst strax upp úr 1991 í tíð Jóns Baldvins Hannibalssonar sem utanríkisráðherra og lauk ekki fyrr en langþráður draumur þeirra sem börðust fyrir herleysi Íslands rættist 30. september 2006 þegar bandaríski herinn yfirgaf landið eftir 55 ára samfellda veru.
    Eins fráleitt og það var virtist brottför hersins koma íslenskum stjórnvöldum í opna skjöldu. Undirbúningur undir þessi tímamót, sem öllum hugsandi mönnum hefðu mátt vera ljós, var ótrúlega handahófskenndur og í raun enginn. Afleiðingin varð sú að íslenska þjóðin og sérstaklega Suðurnesjamenn sátu uppi með tómar byggingar og horfin störf á Miðnesheiði. Íslendingar vöknuðu upp við þann draum að þeir ættu ekki nauðsynleg tæki og tól til að reka sinn eina stóra millilandaflugvöll og voru ofurseldir náð og miskunn Bandaríkjamanna um að þeir fengju að yfirtaka völlinn. Þótt þokkalega hafi tekist til við að leysa þau vandamál sem sköpuðust þar vegna brottfarar hersins er það síður en svo þeim að þakka sem neituðu að horfast í augu við veruleikann og þær breytingar sem voru að verða allt í kringum okkur og löngu framkominn vilja Bandaríkjamanna til að hverfa héðan á brott.

Svikin loforð um þverpólitískt samráð.
    Í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks var mönnum svo brugðið við brottför hersins að í september 2006 lofaði hún vönduðu, þverpólitísku samstarfi allra flokka um framhald mála og var sambærilegu fyrirheiti komið inn í stjórnarsáttmála að loknum kosningum í maímánuði fyrir hartnær ári síðan. Efndirnar láta enn bíða eftir sér. Með tilkomu þessa frumvarps, undangenginna samninga við grannríki um heræfingar og fleiri stefnumótandi ákvarðana er verða ráðandi um stöðu öryggis- og utanríkismála næstu árin má segja að þessi hátíðlegu loforð bæði fyrrverandi og núverandi ríkisstjórnar um þverpólitískt samráð og samvinnu í málaflokknum séu endanlega svikin. Þetta er að sjálfsögðu bæði stórlega ámælisvert og dapurlegt í senn. Með brottför Bandaríkjahers af landinu haustið 2006 og vegna margvíslegra breytinga í alþjóðamálum sköpuðust kjöraðstæður til að endurmeta allar áherslur Íslands á þessu sviði og endurskilgreina stöðu landsins og hagsmuni í öryggislegu og pólitísku tilliti. Ekki síst var, og væri enn, sá kostur spennandi að nota tækifærið og leggja grunn að meiri samstöðu og sátt um utanríkis- og öryggismálastefnu landsins eftir að harðvítugar deilur um aðild að hernaðarbandalagi og erlenda hersetu höfðu þverklofið þjóðin í meira en hálfa öld. Hvorki fyrrverandi né núverandi ríkisstjórn virðast hafa á því áhuga að svo mikið sem reyna að sætta sjónarmið og leita málamiðlana milli þeirra sem eru andvígir hernaðarhyggjunni og hvers kyns hernaðarbrölti á Íslandi og hinna sem trúað hafa stálinu.

NATO-væðing.
    Í kjölfarið á brottför hersins var gengið til samninga við Bandaríkjamenn um góssið og samskipti í framhaldinu. Vandræðagangurinn lýsti sér ekki síst í yfirtökunni á rekstri Ratsjárstofnunar. Um tíma var ekki ljóst hvort þeim rekstri yrði yfirhöfuð haldið áfram en að lokum fundu menn sér réttlætingu í því að NATO hefði mikinn áhuga á því að starfsemin, þ.e. hinn hernaðarlegi hluti hennar, yrði rekin áfram. Handarbakavinnubrögðin sjást best á því að fyrst þann 1. ágúst 2007 skipaði utanríkisráðherra starfshóp til að undirbúa yfirtöku íslenskra stjórnvalda á starfsemi Ratsjárstofnunar sem fór svo fram 15. ágúst, sem sagt hálfum mánuði síðar. Samhliða því var farið að ræða við ýmsar nágrannaþjóðir í NATO og draga þær að samningaborði til að koma hingað með heri sína til æfinga. Og loks voru tekin í fyrsta skipti í sögunni inn á íslensk fjárlög og fjáraukalög stórfelld útgjöld til hernaðarmála sem tengjast veru Íslands í hernaðarbandalaginu NATO, heræfingum og stríðsleikjabrölti. Allar eru þessar ákvarðanir teknar áður en nokkur greining eða skoðun hefur farið fram á stöðu Íslands og þörfum að þessu leyti og án nokkurrar undangenginnar umræðu og lýðræðislegrar umfjöllunar. Um frekari upplýsingar vísast til fylgiskjals XV: upplýsingaskýrslu til utanríkismálanefndar um atburðarás frá því að tilkynnt var um brottför varnarliðsins frá Íslandi.
    Þegar allt er tínt til er hér um að ræða meiri háttar hervæðingu á forsendum NATO, sannkallaða NATO-væðingu íslenskra utanríkis- og öryggismála. Þessi NATO-væðing lýsir sér í fyrsta lagi í lögbindingu reglubundinna heræfinga NATO-ríkja hér á landi, eins og fram kemur einkum í VII. kafla frumvarpsins, 18.–20. gr. Heræfingar þessar, svokallað loftrýmiseftirlit, hinn geysikostnaðarsami rekstur hins hernaðarlega hluta ratsjárkerfisins og allt hið viðamikla og dýra umstang þessu tengt á aðeins að eiga við á svokölluðum friðartímum. Komi til ófriðarástands eða þess að ófriðlega horfi á áfram að treysta á gamla herverndarsamninginn við Bandaríkin. Og, eins og áður sagði, hefur allt þetta verið ákveðið án þess að fyrir liggi nokkurt mat á þeirri ógn sem Íslandi stafar af öðrum ríkjum eða utan frá yfirleitt. Drög að slíkri vinnu eru fyrst nú að fara af stað á vegum nefndar undir forustu Vals Ingimundarsonar. Allt vísar í þá átt að heræfingarnar og rekstur ratsjárstöðvanna þjóni fyrst og fremst markmiðum NATO og séu liður í auknu samstarfi við hernaðarbandalagið fremur en að þær eigi að stuðla að auknu öryggi íslensku þjóðarinnar.
    Í öðru lagi brýst NATO-væðingin fram í tilkomu nýrrar hermálastofnunar sem frumvarpið gerir ráð fyrir, Varnarmálastofnunar, sem verður best lýst sem einhvers konar blöndu af útibúi NATO hér á landi og íslenskri hermálastofnun. Fyrir utan þann mikla og næsta örugglega ört vaxandi kostnað sem rekstur stofnunarinnar mun hafa í för með sér er eðli hennar að mörgu leyti óskemmtilegt og í hróplegu ósamræmi við ítrekaðar yfirlýsingar um að Íslendingar séu og ætli að vera herlaus og friðelskandi þjóð.
    Í þriðja lagi gerir frumvarpið ráð fyrir stórauknu samstarfi við NATO og í reynd endanlegri inngöngu í hernaðarbandalagið. Inngangan var á sínum tíma, ásamt með komu Bandaríkjahers, umdeildasta pólitíska deilumál lýðveldissögunnar þangað til deilur um stóriðjustefnuna á síðustu árum tóku við. Þegar Ísland gekk í NATO með sínum frægu fyrirvörum um að hér skyldi ekki vera her á friðartímum og að aldrei væri ætlunin að koma upp her, þá var þátttaka okkar í framhaldinu í raun fyrst og fremst formlegs eðlis. Ísland tók ekki þátt í hermálasamstarfi NATO, auðvitað ekki í kjarnorkuvígbúnaðarhlutanum og Ísland greiddi ekki í mannvirkjasjóðinn. Þar með var Ísland í raun og veru passíft eða afskiptalaust um málefni NATO að þessu leyti. Með frumvarpinu og tengdum aðgerðum og ákvörðunum að undanförnu er lokaskrefið tekið inn í NATO, til fullgildrar og virkrar þátttöku í öllu starfi hernaðarbandalagsins: Ísland situr í hermálanefndinni, borgar í mannvirkjasjóðinn frá og með þessu ári og farið er að taka við leyndarupplýsingum NATO í sérstöku „leyndarherbergi“ í utanríkisráðuneytinu. Merki frá hernaðarratsjám á Íslandi eiga að renna inn í NATO-kerfið í framtíðinni og þannig mætti áfram telja.
    Í sambandi við hina nýju utanríkis- og öryggismálastefnu, stefnu NATO-væðingarinnar, er ekki síst mikilvægt að gera sér grein fyrir að það er hið nýja NATO sem um ræðir. Þetta er NATO sem hefur horfið frá fyrri skilgreiningum og markmiðum um að vera svokallað varnarbandalag á því landsvæði sem tilheyrði aðildarríkjunum og til þess að vera árásaraðili, gerandi jafnvel í fjarlægum heimsálfum. NATO stóð sjálft í fyrsta sinn fyrir beinum hernaðaraðgerðum með loftárásunum á Júgóslavíu og tók svo við stríðsrekstrinum í Afganistan af Bandaríkjamönnum og Bretum á árinu 2004 enda höfðu þeir þá fundið sér verkefni annars staðar eins og kunnugt er.

Kostnaðurinn.
    Undirritaður fór sem fulltrúi í utanríkismálanefnd í heimsókn upp á Keflavíkurflugvöll á dögunum og skoðaði þar hið nýja fríríki utanríkisráðuneytisins, „öryggissvæðið“, sem Varnarmálastofnunin á að stjórna. Þar virðist ætlunin að til viðbótar við Varnarmálastofnun og umsvif á hennar vegum hreiðri margar aðrar opinberar og hálfopinberar stofnanir um sig með tilheyrandi útþenslu og kostnaði. Allt verður það meira og minna í tengslum við heræfinga- og stríðsleikjabrölt, margs konar kostnaðarsöm gæluverkefni sem eiga fátt skylt við almenna íslenska öryggishagsmuni. Er ærin ástæða til að hafa af þessari þróun áhyggjur fyrir hönd íslenskra skattgreiðenda. Á þessu sviði er báknið ekki á leiðinni burt heldur er þvert á móti að verða til nýtt bákn með öll einkenni þess og þegar fram komna tilburði til að réttlæta eigin tilvist og heimta meiri og meiri peninga.
    Í fylgiskjali I með nefndaráliti þessu er að finna minnisblað frá utanríkisráðuneytinu um áætlaðan rekstrarkostnað og tekjumöguleika Varnarmálastofnunar næstu þrjú árin sem undirritaður óskaði eftir að tekið yrði saman. Þótt blaðið sé rýrt og athygli veki að ekki skyldu berast ítarlegri gögn frá ráðuneytinu um þennan þátt mála sýnir það samt að þarna stefnir í rekstur upp á einn og hálfan til tvo milljarða kr. þegar á allra næstu árum. Er þó ljóst að margt er ótalið og fellur til annars staðar en hjá Varnarmálastofnun. Því skal hér spáð að innan fimm ára verði kostnaður vegna NATO-væðingarstefnunnar í heild sinni kominn í 3,5–5 milljarða kr. ráði óbreytt stefna.

Vígbúnaðarkapphlaupið og kostnaður vígvæðingar í heiminum.
    Rétt er að staldra aðeins við þennan þátt hervæðingar, kostnaðinn, og setja hann í alþjóðlegt samhengi. Um þessar mundir fara fréttir af útreikningum hagfræðingsins Josephs Stiglitz, sem hlotið hefur nóbelsverðlaun í grein sinni, á kostnaðinum við Íraksstríðið eins og stormur um heimsbyggðina. Niðurstaða hans er að stríðið hafi kostað Bandaríkjamenn þrjú þúsund milljarða bandaríkjadala, sem er meira en 180-föld landsframleiðsla Íslands. Þá eru aðeins talin útgjöld bandarískra yfirvalda til stríðsins, og Stiglitz telur líklegt að kostnaður Bretlands og annarra vígfúsra ríkja sé samanlagt á svipuðu róli.
    Samhliða því að vestræn ríki verji með þessum hætti meiri og meiri fjármunum í styrjaldir eru fleiri ríki heims að vígbúast. Tvö ríki eru í nokkrum sérflokki hvað þetta varðar. Rússar, undir forustu Vladimírs Pútín, fara ekki leynt með að verið sé að endurreisa hið rússneska herveldi til að bregðast við hernaðarmætti Bandaríkjanna og annarra NATO-ríkja. Útgjöld til hernaðarmála hafa þar aukist um meira en 10% árlega á undanförnum árum. Sömu sögu er að segja af Kínverjum, nema að þar er hernaðaruppbyggingin fyrst og fremst ný af nálinni en ekki afturhvarf til fyrri hernaðarhyggju. Samkvæmt nýjustu yfirlýsingum frá Kínverjum munu útgjöldin til hermála aukast um 17,6% á þessu ári. Réttlætingin er iðulega sú sama og hjá Rússum: verið er að bregðast við hernaðarmætti Bandaríkjanna og annarra vestrænna ríkja.
    Almennt má því segja að útlit sé fyrir að verið sé að blása lífi í vígbúnaðarkapphlaupið sem margir töldu að mundi ljúka með hruni Sovétríkjanna. Ábyrgð NATO á þeirri endurlífgun er mikil enda eru það enn NATO-ríkin Bandaríkin, Bretland og Frakkland sem eyða mestum fjármunum til hernaðar í heiminum og hvetja þannig til aukins vígbúnaðar annarra ríkja. Hlutur NATO-ríkja í heildarútgjöldum til hermála í heiminum er 70% og munar þar mest um hlut Bandaríkjanna sem er næstum 50%.
    Til er ein og aðeins ein leið út úr þeim vítahring vígvæðingar sem við erum nú illu heilli að festast í sem aldrei fyrr. Það er hnattræn afvopnun þar sem hver þjóð leggur sitt af mörkum. Með þessu frumvarpi er óumdeilanlega farið í þveröfuga átt og í stað þess að leggja lóð á skálar afvopnunar í heiminum er tekið þátt í vígbúnaðarkapphlaupinu með virkum hætti, virkari en Íslendingar hafa áður gert.

Íslenskir öryggishagsmunir.
    Í beinu framhaldi af því að ræða nýtilkominn og stórfelldan tilkostnað vegna NATO-væðingarstefnunnar, vegna hernaðaræfinga og uppihalds erlendra herja í tilgangsleysi á friðartímum er rétt að spyrja hvaða aðgerðir og hvers konar ráðstöfun fjármuna mundi gagnast best til að tryggja eftir föngum öryggi íslenskra borgara, frið og stöðugleika hér á landi og í okkar næsta nágrenni.
    Enginn vafi er á því að mun nærtækara er að ráðstafa fé til að efla t.d. hið bráðnauðsynlega sjálfboðaliðastarf björgunarsveita í landinu og aðstoða þær við að búa sig sem best af tækjakosti og aðstöðu allri. Í öðru lagi er almenn löggæsla í landinu svelt og hefur dregist saman á sama tíma og gæluverkefni hjá ríkislögreglustjóra tútna út. Auknir fjármunir til almennrar löggæslu er tvímælalaust mikilvægur liður í að efla öryggi og viðhalda stöðugleika og friði í samfélagi okkar. Í þriðja lagi er engin deila um að búa þarf vel að Landhelgisgæslunni og sérstaklega flugbjörgunarsveit hennar hvað varðar tækjakost og mannafla. Efling almannavarna, tollgæsla, landamæraeftirlit, barátta gegn innflutningi ólöglegra fíkniefna o.fl. – allt eru þetta þættir sem hljóta að koma til álita og skoðunar þegar rætt er um ráðstöfun fjármuna gagngert í því skyni að tryggja öryggi, vellíðan og frið í landinu og gæta þannig hagsmuna hinna almennu borgara.
    Mengunarvarnir, viðbúnaður sem lýtur að því að mæta eldgosum, jarðskjálftum, farsóttum, veðurhamförum og öðrum slíkum þáttum eru allt hlutir af sama toga og nærtækari en sú ímyndaða utanaðkomandi hernaðarógn sem í reynd væri eina mögulega réttlæting þess að taka inn á íslensku fjárlögin milljarðaútgjöld til hernaðarverkefna. Enginn hefur getað bent á þann óvin sem menn ætla að verja sig gegn. Þegar allt um þrýtur hafa menn helst nefnt auknar siglingar olíuflutningaskipa fram hjá landinu, hvernig sem menn ætla nú að glíma við hættur af slíku með heræfingum og orrustuþotum. Þegar við bætist að allt þetta umstang og brölt, rekstur radarstöðvakerfisins, loftrýmiseftirlitið, heræfingarnar og uppihald erlendra herja hér á landi á kostnað íslenskra skattborgara, er eingöngu hugsað á friðartímum hlýtur að þurfa einhver rök sem hafa ekki enn komið fram eigi að réttlæta slíkt.
    Það stingur sérstaklega í augu að á sama tíma og ekki virðast vera nægir fjármunir til að halda uppi almennri löggæslu og grenndargæslu í landinu, búa betur að ýmissi lífsnauðsynlegri starfsemi, eins og starfsemi björgunarsveitanna sem alltaf er leitað til þegar á bjátar, þegar óveður geisa, þegar bjarga þarf mönnum úr háska, þegar leita þarf að týndu fólki o.s.frv., þá skuli vera til milljarðafjármunir til að leiða í lög á Íslandi grímulausa hernaðarhyggju og NATO-væða utanríkis- og öryggismálastefnu okkar.

Um efni frumvarpsins og einstakar greinar.
    Um efni frumvarpsins sérstaklega er það að segja að markmið þess eins og þau eru sett fram í 1. gr. líta vel út við fyrstu sýn. En þegar betur er að gáð eru í flestum tilfellum engar innstæður fyrir þeim fallegu fyrirheitum sem þar eru. Í nefndaráliti og breytingartillögum meiri hluta utanríkismálanefndar er fólgin staðfesting á því að frumvarpið er meingallað og nær alls ekki þeim markmiðum sem því eru í orði kveðnu ætlað að gera. Hefur meiri hlutinn af þeim ástæðum séð sig knúinn til að gera á uppsetningu og efni frumvarpsins, einkum fyrstu greinum þess, umtalsverðar breytingar.

Óskýr mörk milli hernaðarlegra og borgaralegra verkefna.
    Í 1. gr. er fjallað um gildissvið og markmið og er þar m.a. tekið fram að lögin taki ekki til verkefna stjórnvalda sem séu borgaraleg í eðli sínu, svo sem löggæslu og almannavarna. Þegar betur er að gáð er veruleikinn ekki svona einfaldur. Má í því sambandi vísa til fylgiskjala með nefndaráliti þessu og samskipta utanríkismálanefndar og utanríkisráðuneytis og sérstaklega fylgiskjals IV, minnisblaðs frá utanríkisráðuneytinu til utanríkismálanefndar, dagsetts 11. mars 2008, þar sem brugðist er við umsögn ríkislögreglustjóra um frumvarpið. Þar er m.a. komist svo kostulega að orði á einum stað um þessi efni að athygli vekur. Sagt er: „Varnarmálastofnun telst samkvæmt framansögðu borgaraleg stofnun sem mun, að meginstefnu til, sinna varnartengdum verkefnum sem teljast ekki borgaraleg í eðli sínu.“
    Um markmið laganna segir í a-lið 1. gr. að þau séu m.a. „að afmarka valdheimildir íslenskra stjórnvalda varðandi varnartengd verkefni“. Mikill vafi leikur á að hægt sé að segja að lögin standi að þessu leyti til undir nafni, heldur virðist sem skörun milli hernaðarlegra eða varnartengdra verkefna og ýmiss konar borgaralegrar starfsemi sé miklu meiri en látið er í veðri vaka í frumvarpinu og greinargerð þess. Sama gildir að nokkru leyti um b-lið þar sem segir að eitt af markmiðum laganna sé „að greina á milli varnartengdra verkefna og borgaralegra verkefna sem lúta að löggæslu og innra öryggi ríkisins“.
    Almennt má segja að með frumvarpi þessu virðist alls ekki hafa tekist að draga upp þær hreinu línur milli hernaðarverkefna og hernaðarumsvifa annars vegar og borgaralegra þátta hins vegar sem þó er látið í veðri vaka að sé gert. Til marks um þetta eru ekki síst þær alvarlegu athugasemdir sem ríkislögreglustjóri og fleiri borgaralegir aðilar gerðu, bæði í umsögnum sínum og á fundum með utanríkismálanefnd.

Ólýðræðislegt og ógagnsætt fyrirkomulag.
    Í c-lið 2. mgr. 1. gr. segir að eitt markmiðið sé „að greina á milli stefnumótunar og framkvæmdaratriða á sviði varnarmála“. Þegar betur er að gáð er þetta alls ekki gert og strax í 3. gr. frumvarpsins er komin upp mótsögn við það sem segir í c-lið 2. mgr. 1. gr. um markmið, enda er þar tekið fram að utanríkisráðherra beri ábyrgð á bæði mótun og framkvæmd öryggis- og varnarstefnu Íslands. Og í d-lið 2. mgr. 1. gr. segir að eitt af markmiðum laganna skuli vera „að auðvelda lýðræðislegt eftirlit með varnartengdri starfsemi“. Ekkert er hins vegar sagt í frumvarpinu um það hvernig hinu lýðræðislega eftirliti skuli háttað ef frá er talin 25. gr. þar sem fjallað er um „ársskýrslu Varnarmálastofnunar“. Bendir 25. gr. raunar til þess að hið lýðræðislega eftirlit verði því sem næst ekkert, enda hafi utanríkisráðherra þá einu skyldu gagnvart löggjafarþinginu að kynna skýrsluna og birta útdrátt á heimasíðu stofnunarinnar. Einnig að þessu leyti bregst því frumvarpið og frekara efnisinnihald þess með öllum þeim væntingum sem vakna við lestur hinna háleitu markmiða í 1. gr.
    Eins fela næstu greinar, 2., 3. og 4. gr., og svo aftur ákvæði 3. kafla um stjórnsýslu, 6. og 7. gr., utanríkisráðherra mjög víðtækt vald sem tekur bæði til stefnumótunar og framkvæmdar á þessu sviði. Höfundar frumvarpsins hafa í þessu efni farið offari og eru breytingartillögur og umfjöllun í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar m.a. til marks um það. Það segir sína sögu að utanríkismálanefndar er nánast að engu getið í frumvarpinu og þá eingöngu í þeim tilvikum sem um einhvers konar tilkynningarskyldu til nefndarinnar eða upplýsingaskyldu er að ræða.
    Það fyrirkomulag sem hér á að setja á fót í formi hlutverks utanríkisráðuneytisins og Varnarmálastofnunar er ólýðræðislegt og ógagnsætt. Ekki er gert ráð fyrir neinu sérstöku eftirliti eða sérstakri aðild af hálfu utanríkismálanefndar eða sérnefndar eins og víða á við í öðrum þjóðþingum. Ekki er heldur gert ráð fyrir að lögð sé fyrir Alþingi stefnumótun á sviði öryggismála, t.d. í formi þingsályktunar. Ekki er gert ráð fyrir að sett verði á fót sérstök eftirlitsnefnd eða að utanríkismálanefnd sé falið slíkt hlutverk með beinum hætti þannig að þeirri starfsemi sem þessum málum tengjast, þar á meðal upplýsingasöfnun og upplýsingagreiningu, sé veitt lýðræðislegt aðhald. Sérstök ástæða væri til að hafa hér uppi virkt kostnaðareftirlit því eins og áður hefur komið fram er ærin ástæða til að ætla að útgjöld muni vaxa ört og verða stórfelld strax á komandi árum á grundvelli þessa frumvarps.

Heræfingar og hernaðarbrölt.
    Rétt er að vekja athygli sérstaklega á 2. kafla og ákvæðum 5. gr. um skilgreiningar hugtaka. Í reynd eru þær sennilega hvað mest upplýsandi um það hvað raunverulega er hér á ferðinni, að frumvarpið er lagarammi um heræfingar og hernaðarbrölt. Það sést t.d. ef skoðaðar eru skilgreiningar í 3. tölul. um hlutverk gistiríkis og 16. tölul. um varnaræfingar. Svipað má segja þegar komið er í 7. gr. og talin eru upp verkefni Varnarmálastofnunar. Meðal verkefna þar eru rekstur íslenska loftvarnakerfisins (þ.e. hernaðarratsjárstöðvanna), undirbúningur og umsjón varnaræfinga sem haldnar eru hérlendis og framkvæmd gistiríkisstuðnings íslenskra stjórnvalda. Og hvert er hlutverk gistiríkis samkvæmt skilgreiningu í 5. gr.? Jú, það er að taka á móti liðsafla og búnaði á vegum Atlantshafsbandalagsins eða annarra ríkja sem koma að aðgerðum á yfirráðasvæði þess eða ferðast í gegnum það.

Varnarmálastofnun.
    Í 7. gr. segir að á meðal helstu verkefna Varnarmálastofnunar sé „[þ]átttaka í starfi nefnda og undirstofnana Atlantshafsbandalagsins, þ.m.t. herstjórnarmiðstöðvar bandalagsins“. Meðal hlutverka Varnarmálastofnunar er einnig „[r]ekstur gagnatenginga við upplýsingakerfi Atlantshafsbandalagsins og undirstofnana þess sem Ísland hefur aðgang að og úrvinnsla upplýsinga úr slíkum kerfum“. Verkefni Varnarmálastofnunar eru því ýmiss konar hernaðartengd verkefni, upplýsingasöfnun og úrvinnsla hernaðarlegra upplýsinga.
    Af öðrum ákvæðum sem tvímælis orka vill minni hlutinn fyrst og fremst nefna allt sem lýtur að mannahaldi og ráðningarskilmálum starfsmanna, ekki síst ákvæði 10. gr. um tímabundnar mannaráðningar þar sem ýmislegt orkar mjög tvímælis þótt utanríkismálanefnd, eins og fram kemur í breytingartillögum meiri hlutans, hafi gert sitt til að lagfæra þau ákvæði. Ákvæði 7. kafla, 18.–20. gr., eru lagarammi um hið svokallaða loftrýmiseftirlit, um gistiríkishlutverk Íslands til að standa hér straum af hingaðkomum, veru og uppihaldi erlendra herja og heræfingarnar sjálfar, sbr. ákvæði 20. gr. um svokallaðar varnaræfingar. Hve mikill kostnaður á eftir að lenda á herðum íslenskra skattborgara vegna fullkomlega tilgangslausra, óþarfra, ónæðissamra og skaðlegra heræfinga og tengds brölts mun framtíðin ein leiða endanlega í ljós, þ.e. verði framfylgt óbreyttri stefnu, en ljóst er að þar eru fjárhæðir mældar í hundruðum milljóna og milljörðum en ekki smærri einingum. Slík eru gjöldin sem íslenska þjóðin á að borga til að ráðherrar geti talið sig menn með mönnum á vettvangi NATO.
    Loks er rétt að benda á ákvæði 24. gr. um öryggisvottun og trúnaðarstig skjala, sbr. og ákvæði 9. gr. um að óheimilt sé að ráða til Varnarmálastofnunar eða hafa þar starfandi einstakling eða verktaka sem ekki uppfyllir skilyrði öryggisvottunar skv. 24. gr. Hér eru gamalkunnug ákvæði á ferð og ljóst að sporin hræða í sögulegu tilliti í þessum efnum, enda arfleifð hersetunnar og samskipta við hernaðarbandalagið vörðuð því að fólki sé mismunað á grundvelli stjórnmálaskoðana, það sæti persónunjósnum og símhlerunum. Hér er því ástæða til að vera á varðbergi.

Niðurstaða.
    Í reynd er fæst í þessu frumvarpi sem sýnist. Hér er á ferðinni lagarammi um heræfingar og hernaðarútgjöld, um hervæðingu íslenskra fjárlaga og NATO-væðingu íslenskrar utanríkis- og öryggismálastefnu. Frumvarpið markar tímamót að því leyti að hér er á ferðinni mesta hervæðing landsins í einu skrefi frá undirritun varnarsamningsins við Bandaríkin og inngöngu Íslands í NATO.
    Mikilvægt er að undirstrika að þessi hervæðing er síður en svo sjálfsögð eða óhjákvæmileg þótt hún sé að ýmsu leyti beint framhald á því niðurlægingarskeiði í íslenskri utanríkispólitík sem hófst um miðja síðustu öld. Hinn augljósi valkostur, að nota tækifærið sem gafst með brottför hersins til að móta friðsamlega og sjálfstæða utanríkisstefnu, komst þó aldrei til umræðu meðal þeirra sem ráða nú för í utanríkismálum þjóðarinnar. Það er ámælisvert í sjálfu sér, en einnig í ljósi þeirra loforða sem gefin voru í framhaldi af brottför hersins um pólitískt samráð sem nú eru endanlega svikin. Við það má bæta að algjörlega skortir á að lýðræðisleg umræða og eðlileg grunnvinna hafi áður verið unnin í formi könnunar á þörfum og hagsmunum Íslands í þessum efnum eins og áður sagði.
    Minni hluti utanríkismálanefndar leggst með vísan til framanritaðs gegn frumvarpi þessu og leggur til að því verði vísað til ríkisstjórnarinnar. Alþingi feli ríkisstjórninni að efna þegar í stað eigið loforð úr stjórnarsáttmálanum um þverpólitíska vinnu og stefnumótun á þessu sviði. Viðbrögð Alþingis og ákvarðanir, hvort heldur er í formi lagasetningar eða ákvarðana um fjárveitingar og um framtíðartilhögun utanríkis- og öryggismála, taki síðan mið af niðurstöðum slíkrar vinnu.

Alþingi, 2. apríl 2008.



Steingrímur J. Sigfússon.




Fylgiskjal I.

Minnisblað frá utanríkisráðuneytinu.
(11. mars 2008.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal II.

Umsögn frá Samtökum hernaðarandstæðinga.
(21. febrúar 2008.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal III.

Umsögn frá ríkislögreglustjóra.
(22. febrúar 2008.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal IV.

Minnisblað frá utanríkisráðuneytinu.
Athugasemdir við umsögn ríkislögreglustjóra.
(11. mars 2008.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal V.

Umsögn frá Alþýðusambandi Íslands.
(21. febrúar 2008.)




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal VI.

Minnisblað frá utanríkisráðuneytinu.
(14. mars 2008.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal VII.

Umsögn frá ríkisskattstjóra.
(20. febrúar 2008.)




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal VIII.

Umsögn frá Siglingastofnun Íslands.
(19. febrúar 2008.)




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal IX.

Umsögn frá tollstjóranum í Reykjavík.
(22. febrúar 2008.)




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal X.

Umsögn frá Ratsjárstofnun.
(22. febrúar 2008.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal XI.

Umsögn frá Landhelgisgæslu Íslands.
(22. febrúar 2008.)




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal XII.

Umsögn frá Flugmálastjórn Íslands.
(25. febrúar 2008.)




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal XIII.

Umsögn frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum.
(29. febrúar 2008.)




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal XIV.

Umsögn frá Lögreglustjórafélagi Íslands.
(6. mars 2008.)




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal XV.

Upplýsingaskýrsla utanríkisráðuneytisins til utanríkismálanefndar um atburðarás
frá því að tilkynnt var um brottför varnarliðsins frá Íslandi.

(10. ágúst 2007.)


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.