Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 578. máls.

Þskj. 894  —  578. mál.Frumvarp til laga

um breyting á lögum um ættleiðingar, nr. 130/1999,
með síðari breytingum .

(Lagt fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)
1. gr.

    Við 1. mgr. 31. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þó er ekki skylt að leita umsagnar barnaverndarnefndar ef umsækjendur hafa fengið útgefið forsamþykki á síðustu fjórum árum og umsókn þeirra um ættleiðingu er til umfjöllunar hjá erlendu ættleiðingaryfirvaldi nema hagir umsækjenda hafi breyst verulega að mati sýslumanns.

2. gr.

    Fyrri málsliður 3. mgr. 32. gr. laganna orðast svo: Forsamþykki skal ekki gilda lengur en í þrjú ár frá útgáfudegi.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Úr umsóknum um forsamþykki sem borist hafa sýslumanni fyrir gildistöku laga þessara skal leysa samkvæmt lögum þessum.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu. Með því er brugðist við þeirri þróun sem orðið hefur undanfarin ár að biðtími þeirra sem sækja um ættleiðingu á erlendu barni hefur lengst að mun. Meginástæðan fyrir þessari þróun virðist vera sú að færri börn koma frá þeim ríkjum sem látið hafa frá sér börn til ættleiðinga á Vesturlöndum. Breytingin sem lögð er til felur í sér að gildistími forsamþykkis fyrir ættleiðingu á erlendu barni er lengdur úr tveimur árum í þrjú ár auk þess sem lagt er til að einfalda og stytta megi málsmeðferð ef sækja verður um nýtt forsamþykki vegna þess að fyrirséð er að gildistími forsamþykkis renni út áður en til ættleiðingar kemur.
    Samkvæmt lögum um ættleiðingar er þeim sem er búsettur hér á landi óheimilt að ættleiða erlent barn nema fá til þess forsamþykki frá sýslumanni. Við setningu laganna var á sínum tíma ákveðið að gildistími slíks forsamþykkis skyldi vera tvö ár og var við það miðað að sá tími væri nægur, þ.e. að bið eftir barni tæki almennt ekki lengri tíma en tvö ár frá útgáfu forsamþykkisins. Með lögum nr. 69/2006 var dómsmálaráðherra, sem samkvæmt þágildandi ættleiðingarlögum gaf út forsamþykki, veitt heimild til þess að framlengja gildistíma forsamþykkis í allt að 12 mánuði. Í athugasemdum með frumvarpinu kom fram að það gerðist stöku sinnum að væntanlegir kjörforeldrar fengju upplýsingar um að þeim stæði til boða að fá tiltekið barn um það leyti er gildistími forsamþykkis þeirra væri að renna út. Því þyrfti að bregðast skjótt við og framlengja gildistímann til þess að hinir væntanlegu kjörforeldrar gætu sótt barnið til upprunaríkisins. Nú er svo komið biðtími eftir barni frá útlöndum hefur enn lengst og má reikna með, ef fram heldur sem horfir, að það verði æ algengara að grípa verði til þess ráðs að framlengja forsamþykki, jafnvel að það verði meginregla en ekki undantekning. Af þeim sökum er talið rétt að lengja gildistímann úr tveimur árum í þrjú hinum væntanlegu kjörforeldrum til hagsbóta og til einföldunar á allri málsmeðferð. Taka ber fram að umsækjendum um forsamþykki er lögð sú skylda á herðar að tilkynna sýslumanni ef verulegar breytingar verða á aðstæðum þeirra enda geta breyttar aðstæður skipt máli við mat á hæfni væntanlegra kjörforeldra til að taka að sér erlent barn til ættleiðingar. Skv. 4. mgr. 32. gr. ættleiðingarlaga er sýslumanni heimilt að afturkalla forsamþykki, telji hann að aðstæður umsækjenda hafi breyst verulega frá útgáfu þess eða upplýsingar er máli skipta hafi reynst rangar og verður því að ætla að hagsmunum væntanlegs kjörbarns sé ekki teflt í tvísýnu með lengingu á gildistíma forsamþykkis.
    Ekki eru lagðar til breytingar á síðari málslið 3. mgr. 32. gr. laganna og er áfram gert ráð fyrir að í undantekningartilvikum verði unnt að framlengja gildistíma forsamþykkis um 12 mánuði frá útgáfu þess enda ekki útilokað að þær aðstæður skapist að réttmætt geti verið að grípa til slíkrar framlengingar. Breytingunni á 31. gr. er ætlað að bregðast við þeim aðstæðum þar sem slíkt dugir ekki til. Virðist þá nægilegt að sýslumaður afli staðfestingar á því að hagir umsækjenda séu óbreyttir frá fyrri umsókn, en vandséð er að barnaverndarnefnd þurfi þá fortakslaust að fjalla á ný um málið. Matið á því hvort aðstæður hafi breyst verulega er í höndum sýslumanns og er gert ráð fyrir því að væntanlegir kjörforeldrar skýri frá því með glöggum hætti í umsókn sinni um nýtt forsamþykki hvort og að hvaða marki aðstæður hafi breyst. Með umsókn þurfi að leggja fram upplýsingar um heilsufar og ný læknisvottorð auk skattframtala. Þá er gert ráð fyrir að sýslumaður afli nýrra sakavottorða. Á grundvelli þessara gagna og yfirlýsinga umsækjenda metur sýslumaður hvort ástæða sé til þess að senda mál til umsagnar barnaverndarnefndar.
    Ákvæði 3. gr. og ákvæði til bráðabirgða þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um ættleiðingar, nr. 130/199, með síðari breytingum.

    Markmiðið með frumvarpinu er að bregðast við því að biðtími eftir ættleiðingu barns erlendis frá hefur lengst og gildistími forsamþykkis ekki verið í samræmi við biðtímann. Með frumvarpinu er meðal annars lagt til að lengja forsamþykki til ættleiðingar á erlendu barni úr tveimur árum í þrjú ár.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.