Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 579. máls.

Þskj. 895  —  579. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á umferðarlögum, nr. 50/1987,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)
1. gr.

    Við 67. gr. laganna bætast fjórar nýjar málsgreinar, 2.–5. mgr., svohljóðandi:
    Ráðherra getur ákveðið gjald allt að 15.000 kr. sem eigandi (umráðamaður) ökutækis skal greiða við skoðun hafi ökutæki ekki verið fært til skoðunar á réttum tíma samkvæmt þeim reglum um skoðun ökutækja sem ráðherra setur með stoð í 1. mgr.
    Ráðherra getur ákveðið að gjaldið lækki um allt að 50% verði það greitt innan tiltekins frests eftir að það er lagt á. Einnig getur ráðherra ákveðið að gjaldið hækki um allt að 100% verði það ekki greitt við skoðun sé þess krafist. Gjaldið getur því að hámarki orðið 30.000 kr.
    Gjaldið nýtur lögveðs í viðkomandi ökutæki með sama hætti og gjald skv. a–f-lið 1. mgr. 108. gr., sbr. 2. mgr. 109. gr.
    Ráðherra setur í reglugerð nánari reglur um álagningu og innheimtu gjaldsins, þar á meðal um frest varðandi lækkun gjalds, sbr. 3. mgr., og hver skuli annast innheimtu þess sé það ekki greitt við skoðun. Ráðherra er heimilt að fela öðru stjórnvaldi innheimtu gjalds í vanskilum.

2. gr.

    G-liður 1. mgr. 108. gr. laganna fellur brott.

3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2009.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Ákvæði 2.–5. mgr. 67. gr. laganna gilda ekki um ökutæki sem færa skal til skoðunar fyrir 1. janúar 2009.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Markmið frumvarpsins er að draga úr fjölda óskoðaðra ökutækja í umferð og gera eftirlit lögreglu með skoðun ökutækja skilvirkara. Gert er ráð fyrir að sérstakt gjald verði lagt á þá sem vanrækja að færa ökutæki til skoðunar.
    Skráð ökutæki hér á landi voru um síðustu áramót 258.009, þar af voru 25.128 óskoðuð eða tæplega 10% af heildarökutækjafjölda landsmanna. Þessi vanræksla hefur verið áhyggjuefni árum og áratugum saman. Skilvirk úrræði hefur skort til eftirfylgni.
    Ætla má að hluti óskoðaðra ökutækja í umferðinni sé í lélegu ástandi og geti skapað hættu. Einnig skipta hér máli aðrir opinberir hagsmunir, svo sem innheimta skatta og gjalda og eftirlit vegna lögmæltra ökutækjatrygginga.
    Í reglugerð nr. 378/1998, um skoðun ökutækja, sem sett er samkvæmt heimild í 67. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987, er kveðið á um skyldu eiganda (umráðamanns) ökutækis til að færa það til skoðunar. Eftirlit hefur fyrst og fremst verið í höndum lögreglu. Það er misjafnt eftir landshlutum hversu vel lögreglan fylgist með óskoðuðum ökutækjum. Fer það aðallega eftir því hvort mannafli er fyrir hendi. Erfiðast hefur eftirlitið verið á höfuðborgarsvæðinu.
    Samkvæmt 69. gr. umferðarlaga getur lögreglan tekið skráningarmerki af skráningarskyldu ökutæki sé það ekki fært til skoðunar þegar krafist er. Áður skal þó gefa sjö daga frest til að færa ökutækið til skoðunar með því að líma sérstakan boðunarmiða yfir skoðunarmiða viðkomandi ökutækis með áletrun þar um, sbr. 17. gr. reglugerðar nr. 378/1998. Slík vinnubrögð hafa ekki gefið góða raun.
    Í g-lið 108. gr. umferðarlaga er heimild fyrir lögreglu að leggja á gjald vegna vanrækslu á að færa ökutæki til skoðunar en ráðherra ákveður fjárhæð gjaldsins. Þá heimild hefur lögreglan ekki notað. Raunar er það svo að einu brotin þar sem beitt er gjaldtöku samkvæmt heimild í 108. gr. eru stöðubrot og svonefnd stöðumælabrot í Reykjavík og fer álagning gjalds og innheimta þess fram á vegum borgarinnar.
    Fyrirhugað gjald skv. 67. gr. hefur þá sérstöðu gagnvart gjöldum skv. 108. gr. að ekki er gert ráð fyrir að lögreglan annist álagningu þess og innheimtu. Þess í stað er gert ráð fyrir að það verði innheimt við lögmælta skoðun ökutækis en jafnframt að sérstökum aðila verði falin ábyrgð á eftirfylgni þess að ökutæki séu færð til skoðunar. Þess skal getið í þessu sambandi að í skýrslu nefndar um leiðir til að styrkja atvinnulíf á Vestfjörðum, sem skilaði forsætisráðherra tillögum sínum í apríl 2007, er lagt til að sýslumanninum í Bolungarvík verði falin eftirfylgni með því að óskoðuð ökutæki verði færð til skoðunar (sjá bls. 16 í skýrslunni).
    Sérstaða gjalds skv. 67. gr. og það að lögreglan annast ekki álagningu þess og innheimtu mælir með því að gjaldið sé lögbundið. Með því eru einnig send skýr skilaboð til þeirra sem vanrækja að færa ökutæki til skoðunar. Þyki einhverjum gjaldið hátt má benda á að auðvelt er að komast hjá því að það sé lagt á.
    Að liðnum ákveðnum tíma frá því að færa bar ökutæki til skoðunar og útséð er um að eigandi (umráðamaður) verði við tilmælum um að gera slíkt verður lögreglu send skrá yfir óskoðuð ökutæki í viðkomandi lögregluumdæmi og henni falið að taka þau úr umferð.
    Samhliða breytingu þeirri sem hér um ræðir er stefnt að því að efla eftirlitsskoðun með ökutækjum á vegum úti með aukinni samvinnu eftirlitsmanna Vegagerðarinnar, lögreglunnar og skoðunarstöðva. Þegar er komin nokkur reynsla á slíka samvinnu í átaksverkefnum og lofar hún góðu.
    Margháttaður ávinningur ætti að geta skapast af breyttu fyrirkomulagi. Mikilvægast er að með því er stefnt að auknu umferðaröryggi með fækkun óskoðaðra og oft og tíðum vanbúinna ökutækja í umferð og um leið er létt á störfum lögreglu sem ætti að koma sér vel, einkum í stærri byggðarlögum. Vonast er til að það muni jafnframt gera innheimtuna skilvirkari og stuðla að því að gjaldtakan nái tilgangi sínum, þ.e. að þeir verði færri sem vanrækja að færa ökutæki til skoðunar á tilsettum tíma.
    Samhliða þessum tillögum að breyttu fyrirkomulagi á eftirliti með skoðun ökutækja eru uppi áform um að breyta reglum um tíðni skoðunar á ökutækjum til samræmis við það sem tíðkast í nágrannalöndum okkar. Meginreglan verður sú að ökutæki verði fyrst skoðað eftir fjögur ár en síðan á tveggja ára fresti. Þessi tilhögun mun þó ekki gilda um tiltekin ökutæki sem einkum eru notuð í atvinnuskyni.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Gert er ráð fyrir að gjald vegna vanrækslu á að færa ökutæki til skoðunar verði greitt í skoðunarstöð þegar komið er með ökutæki til skoðunar en að öðrum kosti verði það innheimt eftir nánari reglum sem ráðherra setur.
    Til að eyða vafa um útreikning á gjaldi vegna vanrækslu á að færa ökutæki til skoðunar skal tekið fram að gert er ráð fyrir að ráðherra hafi svigrúm innan þeirrar tölu sem nefnd er í 2. mgr. til að ákvarða fjárhæð gjaldsins í reglugerð. Ef ákveðið er að viðmiðið sé 15.000 kr. gjald sem lagt er á eiganda (umráðamann) ökutækis sem færir ekki ökutæki sitt til lögmæltrar skoðunar á tilsettum tíma mundi það lækka samkvæmt greininni um allt að 50% (í allt að 7.500 kr.) ef ökumaður (umráðamaður) greiddi innan ákveðins frests. Upphaflegt gjald mundi síðan hækka um allt að 100% (í allt að 30.000 kr.) ef ökutæki er fært til skoðunar en áfallið gjald ekki greitt samhliða skoðun.
    Þess er vænst að það fyrirkomulag um eftirfylgni með skoðun ökutækja sem mælt er fyrir um í grein þessari leiði til þess að flestir muni færa ökutæki sitt til skoðunar á tilsettum tíma og komist þannig hjá greiðslu gjaldsins, eða verði eftir atvikum við ábendingu innheimtuaðilans um að færa ökutæki til skoðunar og greiða lágmarksgjald vegna vanrækslunnar.
    Tilgangur ákvæðisins er jafnframt sá að lögákveðið gjald og skilvirk meðferð málsins á innheimtustigi sé eðlilegur aðdragandi þess að lögreglan taki skráningarmerki af ökutæki. Markmiðið er að aðgerðirnar dragi verulega úr vanrækslu þeirrar skyldu að færa ökutæki til skoðunar.

Um 2. gr.

    Ákvæði um gjald í 67. gr. kemur í stað g-liðar 1. mgr. 108. gr. umferðarlaga.

Um 3. gr.

    Gert er ráð fyrir að miða gildistöku laganna við næstu áramót og að endurskoðun reglugerðar um skoðun ökutækja, m.a. varðandi reglur um tíðni skoðunar á ökutækjum, verði lokið fyrir þann tíma.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Með ákvæðinu eru tekin af öll tvímæli um að gjald skv. 67. gr. taki ekki til ökutækja sem vanrækt hefur verið að færa til skoðunar fyrir 1. janúar 2009.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á umferðarlögum,
nr. 50/1987, með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu er mælt fyrir um heimild til að leggja allt að 30.000 kr. gjald á þá sem vanrækja að færa ökutæki til lögmæltrar skoðunar á réttum tíma. Heimilt er að lækka gjaldið um allt að 50% sé það greitt innan tiltekins frests og hækka um allt að 100% verði það ekki greitt við skoðun sé þess krafist. Gert er ráð fyrir að lögin öðlast gildi 1. janúar 2009. Þau taka ekki til ökutækja sem færa skal til skoðunar fyrir þann dag. Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að markmið þess sé að draga úr fjölda óskoðaðra ökutækja í umferð og gera eftirlit lögreglu skilvirkara. Jafnframt kemur þar fram að um síðustu áramót voru 258.009 skráð ökutæki hér á landi og þar af voru 25.128 þeirra óskoðuð eða tæplega 10%.
    Verði frumvarp þetta að lögum má ætla að það muni hafa einhvern tekjuauka í för með sér fyrir ríkissjóð, einkum í upphafi, sem síðan muni minnka þegar eigendum ökutækja verða ljós áhrif þess að sinna ekki lögmæltri skoðun ökutækja sinna á tilsettum tíma, en ekki eru forsendur til að áætla nákvæmar fjárhæðir í því sambandi. Ekki er ástæða til að ætla að lögfesting frumvarpsins hafi teljandi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.