Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 905, 135. löggjafarþing 292. mál: samgönguáætlun.
Lög nr. 33 23. apríl 2008.

Lög um samgönguáætlun.


1. gr.

Markmið.
     Markmið laga þessara er að samræma áætlanagerð við framkvæmdir og rekstur í samgöngumálum. Það skal gert með samgönguáætlun til tólf ára skv. 2. gr. og fjögurra ára áætlun skv. 3. gr. sem er hluti af og innan ramma samgönguáætlunar.

2. gr.

Samgönguáætlun.
     Samgönguráðherra leggur á fjögurra ára fresti fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun þar sem mörkuð skal stefna og markmið fyrir allar greinar samgangna næstu tólf árin. Jafnframt skal m.a. meta og taka tillit til þarfa ferðaþjónustunnar fyrir bættar samgöngur.
     Samgönguáætlun tekur til fjáröflunar og útgjalda til allra greina samgangna, þ.e. flugmála, vegamála og siglingamála, þ.m.t. almenningssamgangna, hafnamála, sjóvarna, öryggismála og umhverfismála samgöngugreina. Þar skal skilgreina það grunnkerfi sem ætlað er að bera meginþunga samgangna og gera skal grein fyrir ástandi og horfum í samgöngum í landinu. Við gerð samgönguáætlunar skal m.a. byggja á þeim meginmarkmiðum að samgöngur séu greiðar, hagkvæmar, öruggar og umhverfislega sjálfbærar auk þess sem þær stuðli að jákvæðri byggðaþróun.
     Við gerð samgönguáætlunar skal jafnframt taka mið af eftirfarandi markmiðum:
  1. að ná fram samræmdri forgangsröð og stefnumótun,
  2. að ná fram hagkvæmri notkun fjármagns og mannafla,
  3. að ná fram samræmdu skipulagi samgöngugreina og samstarfi stofnana samgönguráðuneytisins og fyrirtækja á þess vegum.

     Einnig skal taka mið af því að fjármunir ríkissjóðs nýtist sem best og skal forgangsröðun byggjast á mati á þörf fyrir samgönguframkvæmdir í landinu í heild og í einstökum landshlutum.
     Áætlun um fjáröflun og útgjöld skal skipt á þrjú fjögurra ára tímabil og skulu útgjöld sundurliðuð þar eftir helstu útgjaldaflokkum. Jafnframt er útgjöldum vegna nýrra framkvæmda á grunnkerfinu skipt eftir einstökum stórum verkefnum á hvert hinna þriggja tímabila.
     Áður en áætlun samkvæmt ákvæði þessu er unnin leggur samgönguráðherra fram stefnu sína í helstu málaflokkum, auk fjárhags- og tímaramma, til samgönguráðs, sbr. 4. gr. Tillögur byggðar á þeirri stefnu skulu unnar í stofnunum og fyrirtækjum samgöngumála fyrir ráðið. Samgönguráð undirbýr og semur tillögu að samgönguáætlun og leggur fyrir samgönguráðherra til endanlegrar afgreiðslu og ákvörðunar.
     Samgönguáætlun skal endurskoða á fjögurra ára fresti eða oftar ef þörf þykir.

3. gr.

Fjögurra ára áætlun samgönguáætlunar.
     Gera skal áætlun fyrir fyrsta fjögurra ára tímabil samgönguáætlunar skv. 2. gr. og leggur samgönguráðherra fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um slíka áætlun.
     Fjögurra ára áætlun samgönguáætlunar skal endurskoðuð á tveggja ára fresti og þá unnin ný áætlun fyrir næstu fjögur ár og lögð fram á Alþingi ný þingsályktunartillaga um hana, þannig að ávallt sé í gildi samþykkt áætlun fyrir a.m.k. tvö ár í senn.
     Í fjögurra ára áætlun samkvæmt ákvæði þessu skal vera áætlun fyrir hvert ár tímabilsins, fyrir hverja stofnun og fyrirtæki samgöngumála sem eiga undir samgönguráðuneytið.
     Sundurliðun fjögurra ára áætlunar skal hagað þannig að ábyrgð og fjárheimildir hverrar stofnunar og fyrirtækis komi skýrt fram. Gerð skal grein fyrir fjáröflun og útgjöld skulu sundurliðuð eftir einstökum framkvæmdum, rekstri, þjónustu og viðhaldi eftir því sem við á. Í fjögurra ára áætlun skal m.a. vera sundurliðun í samræmi við uppsetningu fjárlaga. Tekjur og gjöld fjögurra ára áætlunar skulu rúmast innan ramma samgönguáætlunar.
     Áður en áætlun samkvæmt ákvæði þessu er unnin leggur samgönguráðherra fram fjárhagsramma til samgönguráðs sem undirbýr og semur tillögu að áætlun og leggur fyrir samgönguráðherra til endanlegrar afgreiðslu.

4. gr.

Samgönguráð.
     Samgönguráðherra skipar samgönguráð sem hefur yfirumsjón með gerð tillagna að samgönguáætlun. Í samgönguráði sitja forstöðumenn þeirra samgöngustofnana sem heyra undir samgönguráðuneytið. Auk þess situr þar fulltrúi samgönguráðherra sem jafnframt er formaður og er skipunartími hans fjögur ár en skal þó takmarkaður við embættistíma þess ráðherra sem skipar. Jafnframt skal fulltrúi fyrirtækis samgöngumála sem undir samgönguráðuneytið heyrir leggja fram áætlanir til samgönguráðs og sitja fundi ráðsins þegar fjallað er um málefni sem eiga undir viðkomandi fyrirtæki.
     Samgönguráð skal minnst einu sinni við gerð nýrrar samgönguáætlunar standa fyrir samgönguþingi sem ætlað er að veita ráðgjöf og leiðbeiningar við gerð samgönguáætlunar. Til samgönguþings skal öllum helstu hagsmunaaðilum samgöngumála boðið. Á samgönguþingi skal gera grein fyrir fyrirhuguðum forsendum og markmiðum áætlunarinnar. Samgönguráð skal hafa samráð við hagsmunaaðila og kynna fyrir almenningi áætlanir eins og ástæða þykir til hverju sinni.

5. gr.

Skýrsla um framkvæmd samgönguáætlunar.
     Ráðherra skal árlega leggja fram á Alþingi skýrslu um framkvæmd samgönguáætlunar næstliðið ár.

6. gr.

Gildistaka samgönguáætlunar og fjögurra ára áætlunar samgönguáætlunar.
     Samgönguáætlun og fjögurra ára áætlun hennar taka gildi þegar Alþingi hefur samþykkt þær sem þingsályktanir.

7. gr.

Gildistaka.
     Lög þessi öðlast þegar gildi. Frá sama tíma falla úr gildi lög nr. 71/2002.

Samþykkt á Alþingi 15. apríl 2008.