Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 587. máls.

Þskj. 909  —  587. mál.



Frumvarp til laga

um brottfall laga um Bjargráðasjóð, nr. 146/1995,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)




1. gr.

    Starfsemi Bjargráðasjóðs skal lögð niður og eignum og skuldbindingum sjóðsins skipt á milli eignaraðila hans í samræmi við ákvæði laga þessara.
    Stjórn sjóðsins stýrir uppgjöri á eignum og skuldbindingum sjóðsins og er henni heimilt að afla sérfræðiaðstoðar eftir því sem hún telur þörf á.

2. gr.

    Réttur til styrkja úr sjóðnum fellur niður vegna tjóna sem verða eftir 30. júní 2008. Umsóknum vegna tjóna skal skilað til sjóðsins eigi síðar en 15. nóvember 2008. Umsóknir sem berast eftir þann tíma verða ekki teknar til greina við uppgjör sjóðsins.
    Frá og með 1. janúar 2008 fellur niður lögbundin skylda ríkis, sveitarfélaga og bænda í gegnum búnaðargjald til að standa sjóðnum skil á tekjum hans.
    Miðað skal við að uppgjöri sjóðsins verði lokið fyrir árslok 2008. Umboð stjórnar sjóðsins fellur brott þegar uppgjöri sjóðsins er að fullu lokið.

3. gr.

    Að teknu tilliti til skuldbindinga Bjargráðasjóðs skal nettóeign sjóðsins skipt á milli eignaraðila hans í jöfnum hlutföllum.
    Samband íslenskra sveitarfélaga skal hafa forkaupsrétt að fasteign sjóðsins.
    Eignarhlutur sveitarfélaganna skal renna til Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna yfirtöku allra skuldbindinga vegna starfsmanna Bjargráðasjóðs, þar á meðal lífeyrisskuldbindinga, og kaupa á fasteign sjóðsins.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi lög um Bjargráðasjóð, nr. 146/1995, með síðari breytingum, og ákvæði í viðauka við lög um búnaðargjald, nr. 84/1997, með síðari breytingum, sem kveða á um hlutdeild Bjargráðasjóðs í búnaðargjaldi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta hefur það að markmiði að fella úr gildi lög um Bjargráðasjóð, nr. 146/ 1995, með síðari breytingum, og skipta hreinum eignum sjóðsins milli eigenda hans.
    Í meginatriðum byggist frumvarpið á samþykkt stjórnar Bjargráðasjóðs frá 12. nóvember 2007, þar sem lagt var til að unnið yrði að tillögum um breytingar á starfsemi og rekstri sjóðsins og í þeirri vinnu yrði tekið tillit til óska um að fjármögnun og rekstur sjóðsins verði færður frá sveitarfélögunum. Í samræmi við það voru unnar tillögur um með hvaða hætti eignum og skuldbindingum sjóðsins verði skipt upp milli eigenda. Fyrirkomulagi í tryggingamálum landbúnaðarins er síðan vísað til umræðu á vettvangi Bændasamtaka Íslands og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins.

I.


    Bjargráðasjóður Íslands var stofnaður með lögum nr. 45/1913 í þeim tilgangi að koma til hjálpar landsmönnum í hallæri eða til að afstýra því. Í 1. gr. laganna er hallæri skilgreint svo að sveitarfélag verði svo illa statt að það megni ekki af eigin rammleik að forða mönnum og skepnum við harðrétti eða felli. Á þeim tíma gátu búfjárfellir og önnur áföll í landbúnaði haft í för með sér mjög alvarlegar afleiðingar fyrir íbúa sveitarfélaganna. Var stjórn sjóðsins m.a. falið það hlutverk að hafa vakandi auga á öllum hallærishættum og veita landsstjórninni lið til allra framkvæmda sem miðuðu að því að afstýra hallæri. Skylt var að setja sérstaka bjargráðasamþykkt fyrir hverja sýslu eða kaupstað. Skv. 12. gr. laganna átti hvert hérað tilkall til að ráðstafa séreign sinni í bjargráðasjóðnum til útbýtingar samkvæmt bjargráðasamþykkt sinni. Dygði séreignin ekki til forðatryggingar eða hjálpar í hallæri var heimilt að veita því héraði vaxtalaust bráðabirgðalán af sameignarfé sjóðsins gegn veði í bjargráðagjaldi héraðsins.
    Gildandi lög um Bjargráðasjóð eru nr. 146/1995, með síðari breytingum, og hefur á grundvelli þeirra verið sett reglugerð nr. 30/1998. Hlutverk sjóðsins hefur tekið verulegum breytingum frá stofnun hans enda hafa sveitarfélögin og aðrir opinberir aðilar ríkar skyldur til að mæta áföllum sem dunið geta á landsmönnum. Má sem dæmi nefna að sett hafa verið lög um félagsþjónustu sveitarfélaga, Viðlagatryggingu Íslands, Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga og Atvinnuleysistryggingasjóð. Fjölmörg úrræði sem ekki voru til staðar við setningu upphaflegra laga um Bjargráðasjóð eru því fyrir hendi til að bæta áföll sem einstök landsvæði kunna að verða fyrir, m.a. í landbúnaði. Möguleikar til töku margvíslegra trygginga á frjálsum markaði hafa einnig stóraukist og það hafa atvinnurekendur og einstaklingar nýtt sér í ríkum mæli.
    Þróun í landbúnaði og ákvarðanir einstakra búgreinafélaga hafa leitt til þess að iðgjöld til Bjargráðasjóðs hafa farið lækkandi og tilteknar búgreinar hafa kosið að hætta aðild að sjóðnum. Mestu munar nú að það hefur verið eindregin afstaða félagsmanna í Landssambandi kúabænda að búgreinin hætti þátttöku í búnaðardeild Bjargráðasjóðs. Aðrar búgreinar, t.d. hrossarækt, eiga aðild að sjóðnum en greiðslur til Bjargráðasjóðs virðast ekki vera í samræmi við þróun og umfang í þeirri búgrein. Ýmsar nýjar búgreinar sem nú eru stundaðar, svo sem skógrækt og kornrækt, eiga ekki aðild að sjóðnum. Jafnframt eru skiptar skoðanir um það innan einstakra búgreina sem ennþá eiga aðild að Bjargráðasjóði hvort þeirri aðild verði haldið áfram. Smám saman hefur því verið að fjara undan starfsemi búnaðardeildar sjóðsins að frumkvæði landbúnaðarins eða vegna ákvarðana einstakra búgreinafélaga.

II.


    Tekjustofnar Bjargráðasjóðs eru framlög ríkisins samkvæmt fjárlögum hverju sinni, árleg íbúaframlög sveitarfélaga sem bundin eru vísitölu neysluverð og hlutdeild í búnaðargjaldi af söluvörum landbúnaðarins. Jafnframt eru tekjur af vöxtum sjóðsins af eigin fé. Tekjur sjóðsins skiptast í samræmi við 6. gr. laganna þannig að í almennu deild sjóðsins renna 75% af framlögum sveitarfélaga og jafnhá fjárhæð af framlagi ríkissjóðs og vaxtatekjur sjóðsins en í búnaðardeild sjóðsins rennur hlutdeild í búnaðargjaldi, 25% af framlögum sveitarfélaga og sá hluti framlags ríkissjóðs sem ekki rennur til almennu deildar.
    Framlög sveitarfélaga eru bundin vísitölu neysluverðs og voru árið 2007 131,91 kr. á íbúa eða samtals 40,5 millj. kr. Framlag ríkissjóðs er ákveðið á fjárlögum hverju sinni og hefur það verið 10 millj. kr. undanfarin ár. Hlutdeild í búnaðargjaldi var 0,6% frá 1972 til 1995, en hefur síðan farið lækkandi og voru tekjur sjóðsins af því 27,4 millj. kr. árið 2007.
    Greiðsluframlög sveitarfélaganna til Bjargráðasjóðs hafa í tímans rás þróast þannig að líta má á þau sem beinan stuðning eða styrk við hluta einnar atvinnugreinar í landinu þrátt fyrir að mikilvægi landbúnaðar sem atvinnugreinar sé allt annað og minna en í upphafi 20. aldar. Hefur stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga bent á að verkefni Bjargráðasjóðs er ekki sveitarstjórnarmál heldur atvinnumál og því sé eðlilegt að landbúnaðarráðuneyti fari með málefni sjóðsins í samvinnu við Bændasamtökin. Má benda á að u.þ.b. 2/ 3 hlutar framlaga sveitarfélaga til sjóðsins koma frá íbúum á höfuðborgarsvæðinu en þar er landbúnaður nánast enginn. Þær tilteknu búgreinar sem tekið hafa ákvörðun um að greiddur skuli hluti búnaðargjalds til sjóðsins af framleiðslu greinanna hafa notið þessa stuðnings. Lögbundin framlög sveitarfélaganna á grundvelli laga nr. 146/1995 hafa því vakið ýmsar spurningar, m.a. um jafnræði og samkeppnisstöðu einstakra atvinnugreina og hvort rétt sé að sveitarfélögum sé skylt samkvæmt lögum að styðja eina atvinnugrein umfram aðrar.

III.


    Bjargráðasjóður skiptist í tvær deildir, almenna deild og búnaðardeild. Hlutverk almennu deildar sjóðsins er að veita einstaklingum, félögum og sveitarfélögum fjárhagsaðstoð til að bæta meiri háttar bein tjón af völdum náttúruhamfara, sbr. 8. gr. laganna. Ekki eru bætt tjón sem njóta almennrar tryggingaverndar eða hægt er að fá bætt með öðrum hætti, sbr. ákvæði laga um Viðlagatryggingu Íslands. Ekki er veitt fjárhagsaðstoð vegna tjóns ef ásetningi eða gáleysi eiganda eða umsjónarmanns verður um kennt, eðlilegar varnir ekki við hafðar og ef staðsetning hluta er óeðlileg með tilliti til tjónahættu. Ekki er veitt fjárhagsaðstoð vegna tjóna á stærri mannvirkjum svo sem orku- og hafnamannvirkjum, sjóvarnagörðum, fiskeldismannvirkjum og skipasmíðastöðvum.
    Hlutverk búnaðardeildar er að bæta meiri háttar tjón hjá einstaklingum og félögum vegna sjúkdóma, óvenjulegs veðurfars og slysa þegar ásetningi eða gáleysi eiganda eða umsjónarmanns verður eigi um kennt og eðlilegar varnir hafa verið við hafðar, sbr. 9. gr. laganna. Ekki eru bætt tjón sem almennt er tryggt fyrir innan búgreinar eða hægt er að fá bætt með öðrum hætti, sbr. ákvæði laga um Viðlagatryggingu Íslands. Búnaðardeild bætir tjón á búfé og afurðum búfjár og uppskerutjón á garðávöxtum. Stjórn sjóðsins er enn fremur heimilt að styrkja fyrirbyggjandi aðgerðir til að koma í veg fyrir tjón sem honum bæri annars að bæta. Hámark fyrirbyggjandi styrkja er 10% af ráðstöfunarfé hvers árs. Forsenda styrkveitinga úr búnaðardeild sjóðsins er að skil hafi verið gerð á búnaðargjaldi í samræmi við ákvæði laga um búnaðargjald, nr. 84/1997, með síðari breytingum.
    Fjárhagsaðstoð beggja deilda sjóðsins er fólgin í veitingu styrkja sem stjórn sjóðsins ákveður hverju sinni í samræmi við fjárhag og stöðu sjóðsins. Stjórn sjóðsins leggur mat á styrkhæfni tjóna, ákveður styrkhlutfall og eigin áhættu tjónþola í tjóni. Styrkhlutfall og eigin áhættu er stjórn sjóðsins heimilt að ákveða mismunandi eftir búgreinum og tegundum eigna og taka í því efni m.a. mið af tekjuskiptingu sjóðsins og rekstraráhættu hverrar búgreinar.
    Hlutverk almennrar deildar sjóðsins hefur minnkað verulega frá því að Bjargráðasjóði var komið á fót. Greidd eru iðgjöld til Viðlagatryggingar, sbr. lög nr. 55/1992, m.a. af ýmsum mannvirkjum sveitarfélaga og einstaklinga sem áður voru ótryggð, og ofanflóðasjóður er einnig starfræktur, sbr. lög nr. 49/1997. Komið hefur því verið á meiri tryggingavernd vegna tjóna af völdum náttúruhamfara sem áður var ekki til staðar. Möguleikar til töku margvíslegra trygginga á frjálsum markaði hafa stóraukist og það hafa atvinnurekendur og einstaklingar nýtt sér í ríkum mæli. Tjón vegna uppskerubrests af völdum kals í túnum hafa þó verið greidd úr almennri deild sjóðsins. Þegar mikil tjón hafa orðið af völdum kals hefur ríkissjóður greitt sérstök framlög til sjóðsins til að mæta þeim áföllum.

IV.


    Á undanförnum árum hefur verið umræða um að leggja Bjargráðasjóð niður og að tryggingar taki við hlutverki hans. Aðalástæður þessara umræðna eru sennilega þær að tjón eru ekki bætt að fullu og eigin áhætta tjónþola hefur hækkað á liðum árum. Nokkrar kannanir hafa verið gerðar á undanförnum árum á bótakerfi sjóðsins og það borið saman við tryggingar sem í boði eru hjá tryggingafélögum. Vandinn hefur einkum verið sá að ekki eru til tryggingar sem eru fyllilega sambærilegar við bótareglur Bjargráðasjóðs. Enn fremur hefur verið litið svo á að ekki væri unnt að koma á slíku tryggingakerfi á almennum markaði á meðan sjóðurinn er starfræktur. Á hinn bóginn er ljóst að tryggingafélögin bjóða tryggingar af ýmsu tagi sem Bjargráðasjóður hefur ekki gert, svo sem sérstakar brunatryggingar og rekstrarstöðvunartryggingar. Með breyttum búskaparháttum og stærri búum hafa æ fleiri bændur keypt slíkar tryggingar.
    Á fundi stjórnar Bjargráðasjóðs 7. desember 2005 var samþykkt að gera úttekt á framtíðarhlutverki sjóðsins og tryggingum í landbúnaði í samráði við Bændasamtök Íslands. Úttektin verði unnin af sérfróðum aðilum á sviði trygginga, laga og búrekstrar í samráði við áðurnefnda aðila. Í framhaldi af því samþykkti stjórn Bjargráðasjóðs 2. mars 2006 að skipa nefnd til að fjalla um framtíðarhlutverk sjóðsins í samráði við stjórnarmenn. Óskað var tilnefningar í nefndina frá Bændasamtökum Íslands, félagsmálaráðuneytinu, landbúnaðarráðuneytinu og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
    Að frumkvæði nefndarinnar var 22. júní 2007 gerður samningur við ráðgjafarfyrirtækið ParX um að kanna viðhorf hagsmunaaðila til Bjargráðasjóðs. Rætt var við forsvarsmenn Bændasamtaka Íslands, Landssamtaka sauðfjárbænda, Landssambands kúabænda, Félags kjúklingabænda, Félags eggjaframleiðenda, Svínaræktarfélags Íslands, Sambands íslenskra sveitarfélaga og fulltrúa félags- og landbúnaðarráðuneyta. Í minnisblaði um niðurstöður þeirra viðtala koma fram afar ólíkar skoðanir.
    Skýrasta afstöðu tekur Samband íslenskra sveitarfélaga sem vill leggja sjóðinn niður í núverandi mynd og afnema framlög sveitarfélaga til hans. Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur lýst þeirri afstöðu að starfsemi Bjargráðasjóðs sé miklu fremur atvinnumál tiltekinna starfsgreina en sveitarstjórnarmál. Af þeirri ástæðu og í ljósi þróunar á starfsemi sjóðsins á undanförnum árum leggur stjórnin áherslu á að sveitarfélögin verði leyst undan fjármögnun og rekstri sjóðsins og að eignum hans og skuldbindingum verði skipt upp milli eigenda. Hafa fulltrúar sambandsins rætt málið við ráðherra sveitarstjórnarmála á undanförnum missirum en jafnframt lagt áherslu á að ná þyrfti sátt við Bændasamtök Íslands um málið.
    Landssamband kúabænda tekur einnig skýra afstöðu og vill að búgreinin hætti þátttöku í búnaðardeild Bjargráðasjóðs. Bændasamtök Íslands og önnur búgreinafélög, svo sem Landssamtök sauðfjárbænda, Svínaræktarfélag Íslands, Félag kjúklingabænda og Félag eggjaframleiðenda, hafa ekki lýst jafn eindreginni afstöðu til áframhaldandi starfsemi Bjargráðasjóðs. Þessi félög telja Bjargráðasjóð veita bændum mikilvæga tryggingavernd þótt starfsemin sé nokkuð umdeild meðal bænda. Jafnframt kunni að vera erfitt fyrir búgreinafélögin að fá góða sjúkdómatryggingu fyrir sína félagsmenn. Meðal annars var nefnd sú hugmynd að Bændasamtök Íslands gætu tekið að sér að reka sjóðinn og gert um það samning við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið ef sveitarfélögin og Landssamband kúabænda hætta þátttöku.
    Í framhaldi af skýrslu ParX var samþykkt eftirfarandi bókun í stjórn Bjargráðasjóðs 12. október 2007 um framtíðarhlutverk sjóðsins:
    „Lögð voru fram minnisblöð frá ParX dags. 10. október 2007 og Þórði Skúlasyni dags. 11. október 2007. Formaður gerði grein fyrir umfjöllun á fundi endurskoðunarnefndar um framtíðarhlutverk Bjargráðasjóðs 11. október sl. Á þeim fundi kom fram skýr vilji fulltrúa sveitarfélaganna um að aðkomu þeirra að sjóðnum verði hætt og lýstu aðrir nefndarmenn skilningi sínum á því sjónarmiði. Á fundinum kom einnig fram að búgreinarnar sem aðild eiga að Bjargráðasjóði telja æskilegt að tryggingavernd og hlutverk Bjargráðasjóðs verði endurmetið.
    Í ljósi þessa telur stjórn Bjargráðasjóðs rétt að unnið verði áfram að tillögum um breytingar á starfsemi og rekstri sjóðsins og í þeirri vinnu verði tekið tillit til óska um að fjármögnun og rekstur sjóðsins verði færður frá sveitarfélögunum. Í samræmi við það verði unnar tillögur um með hvaða hætti eignum og skuldbindingum sjóðsins verði skipt upp milli eigenda. Fyrirkomulagi í tryggingamálum landbúnaðarins verði síðan vísað til umræðu á vettvangi Bændasamtaka Íslands og landbúnaðarráðuneytisins.“
    Ofangreind samþykkt á sér þá skýringu, líkt og að framan er rakið, að grundvallarbreytingar hafa átt sér stað í öllu starfsumhverfi Bjargráðasjóðs. Í samþykktinni felst sú afstaða af hálfu stjórnar Bjargráðasjóðs að hætt verði lögskyldri aðild sveitarfélaganna að sjóðnum. Eignum hans og skuldbindingum verði skipt upp milli eigenda, sem eru ríkissjóður, sveitarfélögin og Bændasamtök Íslands. Sú uppskipting þarf ekki að leiða til þess að starfsemi Bjargráðasjóðs verði lögð niður. Ákvörðun um hvort starfsemi Bjargráðasjóðs verði framhaldið með breyttu fyrirkomulagi sem tryggingasjóði einstakra búgreina er eðlilegast að ræða og taka á vettvangi landbúnaðarins, milli sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins og Bændasamtakanna, án afskipta sveitarfélaganna.

V.


    Nettóeign Bjargráðasjóðs í árslok 2007 er samkvæmt ársreikningi 659,3 millj. kr. Ef sjóðnum yrði skipt upp miðað við þær forsendur kæmu 219,7 millj. kr. í hlut hvers eiganda, þ.e. ríkissjóðs, Bændasamtaka íslands og sveitarfélaganna. Verði sjóðurinn lagður niður í núverandi mynd í samræmi við efni frumvarps þessa tæki nokkra mánuði að ljúka uppgjöri á innsendum umsóknum miðað við þær forsendur sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Yrði þá endanlega ljóst hver hlutur eigendanna yrði.
    Ákvæði frumvarpsins gera ráð fyrir því að hlutur sveitarfélaganna renni til Sambands íslenskra sveitarfélaga og að sambandið noti þá eignarhlutdeild m.a. til að kaupa 15% hlutdeild Bjargráðasjóðs í 5. hæð húseignarinnar að Borgartúni 30 í Reykjavík, sem metin er í ársreikningi 2007 á tæpar 24 millj. kr., og til að mæta ábyrgð á lífeyrisskuldbindingum Bjargráðasjóðs sem sambandið yfirtæki. Samtals nema þær skuldbindingar rúmlega 50 millj. kr. í árslok 2007.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í greininni er lagt til að Bjargráðasjóður verði lagður niður og stjórn sjóðsins verði falið að stýra uppgjöri á eignum og skuldbindingum sjóðsins. Gert er ráð fyrir að kostnaður við uppgjörið, þar á meðal vegna nauðsynlegrar sérfræðivinnu, greiðist af eigin fé sjóðsins. Ekki er talin þörf á að skipa sérstaka skilanefnd til að vinna uppgjörið enda eru starfsemi og fjárhagur sjóðsins fremur einföld í sniðum.

Um 2. gr.


    Í greininni er miðað við að einungis þau tjón sem verða fyrir 30. júní 2008 verði styrkhæf. Er gert ráð fyrir að skila verði umsóknum um bætur úr sjóðnum fyrir 15. nóvember 2008 til að tjón fáist bætt. Almennt hefur verið miðað við að umsóknir berist sjóðnum innan árs frá tjónsatburði en talin er ástæða til að stytta þann frest í frumvarpi þessu til að draga ekki um of vinnu við niðurlagningu sjóðsins.
    Í 2. mgr. er gert ráð fyrir að frá og með 1. janúar 2008 falli niður skylda ríkis, sveitarfélaga og bænda til að greiða í sjóðinn. Í þessu felst að ríkissjóður greiði ekki í sjóðinn þær 10 millj. kr. sem gert er ráð fyrir á fjárlögum, Jöfnunarsjóður sveitarfélaga innheimti ekki hjá sveitarfélögum framlag þeirra í sjóðinn og við álagningu gjalda hjá bændum vegna ársins 2008 verði ekki innheimt hlutdeild sjóðsins í búnaðargjaldi.
    Í 3. mgr. kemur fram að gert er ráð fyrir að uppgjöri sjóðsins verði lokið fyrir árslok 2008. Mun stjórn sjóðsins skila umboði sínu að því loknu ásamt skilaskýrslu til Bændasamtaka Íslands, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga og samgönguráðuneytisins.

Um 3. gr.


    Í 1. gr. gildandi laga um Bjargráðasjóð kemur fram að sjóðurinn er sjálfstæð stofnun, sameign ríkisins, sveitarfélaganna og Bændasamtaka Íslands. Litið hefur verið svo á að um jöfn eignarhlutföll væri að ræða og er við það miðað í 1. mgr. að nettóeign sjóðsins skiptist jafnt á milli eigenda hans.
    Meginhlutverk Bjargráðasjóðs undanfarna áratugi hefur verið að bæta ýmiss konar tjón í landbúnaði. Má í því sambandi einnig nefna að nú þegar eru fyrir hendi reglur á forræði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins um bætur vegna niðurskurðar af völdum sjúkdóma í landbúnaði, t.d. vegna riðu og salmonellu að hluta. Það er álit ýmissa aðila innan landbúnaðargeirans að taka þurfi tryggingakerfi landbúnaðarins til endurskoðunar en nánari útfærsla á þeim atriðum verður að vera í höndum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins og Bændasamtakanna. Á hinn bóginn er ekki óeðlilegt að horfa til þess að fjármunir sem koma í hlut ríkisins og Bændasamtakanna við niðurlagningu Bjargráðasjóðs verði nýttir við endurskipulagningu tryggingakerfis í landbúnaði. Vegna ákvæða laga um fjárreiður ríkisins, nr. 88/1997, með síðari breytingum, er þó ekki fært að eyrnamerkja eignarhluta ríkissjóðs til þess verkefnis fyrr en niðurstaða endurskipulagningar og nauðsynleg lög og reglugerðir um það efni hafa hlotið lögformlega meðferð Alþingis og ráðuneytis.
    Eignarhlutur hvers og eins sveitarfélags hefur aldrei verið skilgreindur en í frumvarpinu er miðað við að hlutur sveitarfélaganna renni til Sambands íslenskra sveitarfélaga. Sambandið hefur um árabil verið samstarfsaðili Bjargráðasjóðs um rekstur sjóðsins og á sjóðurinn m.a. 15% hlut í húsnæði sambandsins að Borgartúni 30, Reykjavík. Hafa bæði sambandið og Bjargráðasjóður haft hag af þessum samrekstri. Í 2. mgr. er gert ráð fyrir að sambandið öðlist forkaupsrétt að þeim eignarhluta. Á móti er í 3. mgr. gert ráð fyrir að sambandið yfirtaki allar skuldbindingar vegna starfsmanna Bjargráðasjóðs, þar á meðal lífeyrisskuldbindingar, en miðað við ársreikning sjóðsins nam sú skuldbinding um 50 millj. kr. í árslok 2007. Eðlilegt er að allar slíkar skuldbindingar verði sérstaklega yfirfarnar þegar unnið verður að uppgjöri sjóðsins. Þegar þessar skuldbindingar hafa verið metnar verður ákvörðun um ráðstöfun þeirra fjármuna sem eftir standa tekin á vettvangi sambandsins, t.d. með því að skipta fjármununum milli sveitarfélaga miðað við íbúafjölda.

Um 4. gr.


    Í greininni er lagt til að lögin öðlist þegar gildi. Er það eðlilegt til að unnt sé að hefjast strax handa við undirbúning að niðurlagningu sjóðsins.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um brottfall laga um Bjargráðasjóð,
nr. 146/1995, með síðari breytingum.

    Markmið þessa frumvarps er að fella úr gildi lög um Bjargráðasjóð, nr. 146/1995, og skipta hreinum eignum sjóðsins milli eigenda hans.
    Samkvæmt lögunum er Bjargráðasjóður sjálfstæð stofnun, sameign ríkisins, sveitarfélaganna og Bændasamtaka Íslands. Tekjustofnar sjóðsins eru framlög ríkisins samkvæmt fjárlögum hverju sinni, árleg íbúaframlög sveitarfélaga sem bundin eru vísitölu neysluverðs og hlutdeild í búnaðargjaldi af landbúnaðarvörum. Jafnframt eru tekjur af vöxtum sjóðsins af eigin fé. Framlög sveitarfélaga voru árið 2007 131,91 kr. á íbúa eða samtals 40,5 m.kr. Framlag ríkissjóðs hefur undanfarin ár verið 10 m.kr. Hlutdeild í búnaðargjaldi skilaði sjóðnum 27,4 m.kr. tekjum árið 2007. Nettóeign Bjargráðasjóðs í árslok 2007 er samkvæmt ársreikningi 659,3 m.kr. Ef sjóðnum verður skipt upp í þrennt kæmu 219,7 m.kr. í hlut hvers eiganda. Frumvarpið gerir ráð fyrir að hlutur sveitarfélaganna renni til Sambands íslenskra sveitarfélaga og að sambandið noti þá eignarhlutdeild meðal annars til að kaupa 15% hlutdeild Bjargráðasjóðs í 5. hæð húseignarinnar að Borgartúni 30 í Reykjavík og til að mæta ábyrgð á lífeyrisskuldbindingum Bjargráðasjóðs sem sambandið yfirtæki en þær nema samtals um 50 m.kr. í árslok 2007.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.