Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 191. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 924  —  191. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um samræmda neyðarsvörun.

Frá allsherjarnefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Helgadóttur og Þórunni J. Hafstein frá dómsmálaráðuneyti, Dagnýju Halldórsdóttur og Þórhall Ólafsson frá Neyðarlínunni, Jóhönnu Halldórsdóttur frá Og fjarskiptum ehf., Björn Geirsson og Friðrik Pétursson frá Póst- og fjarskiptastofnun, Jónas Inga Pétursson og Thelmu Þórðardóttur frá ríkislögreglustjóra, Guðjón Bragason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Jón R. Pálsson frá Samtökum atvinnulífsins, Hallmund Albertsson frá Símanum hf. og Jón Viðar Matthíasson frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins.
    Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun laga um samræmda neyðarsímsvörun. Lagt er til nýtt heiti laganna þannig að miðað verði við hugtakið „neyðarsvörun“ sem er víðtækara hugtak en neyðarsímsvörun. Neyðarsvörun er ætlað að stuðla að auknu öryggi þeirra sem eru staddir hverju sinni hér á landi eða næsta nágrenni. Einnig er henni ætlað að uppfylla skyldur stjórnvalda til að veita viðtöku tilkynningum um bruna, slys og önnur neyðartilvik í því skyni að koma tilkynningu um það til hlutaðeigandi stjórnvalds eða þess sem sinnir neyðarþjónustu. Neyðarnúmerið 112 er sameiginlegt fyrir öll ríki Evrópska efnahagssvæðisins. Neyðarlínan hf. var upphaflega sett á fót með þátttöku einkaaðila en er nú að mestu í eigu opinberra aðila.
    Nefndin leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu. Lögð er til sú breyting á 3. mgr. 2. gr. að í stað orðsins „leyfi“ komi „heimild“. Þetta þykir réttara orðalag enda hafa fjarskiptafyrirtæki almenna heimild skv. 4. gr. laga um fjarskipti, nr. 81/2003, til reksturs fjarskiptaneta og fjarskiptaþjónustu og þurfa ekki að fá úthlutað leyfi til þess. Þá er lagt til að við sama ákvæði bætist nýr málsliður þess efnis að þeir aðilar sem eru tilgreindir í 3. mgr. 2. gr. skuli gera nauðsynlegar ráðstafanir til að vaktstöð samræmdrar neyðarþjónustu berist sjálfvirkt með rafrænum hætti nýjustu gögn um notendur, auðkenni þeirra og staðsetningu, eftir því sem við verður komið. Lagt er til að 1. mgr. 3. gr. verði breytt þannig að í stað þess að kveðið sé á um að vaktstöðvar skuli vera í Reykjavík og á Akureyri verði lögbundið að vaktstöðvar séu tvær og önnur þeirra verði í Reykjavík. Lagðar eru til tvenns konar breytingar á 4. mgr. 5. gr. Er annars vegar lagt til að í stað orðsins „beiðni“ í 1. málsl. komi orðið „tilkynning“ til samræmis við hugtakanotkun í frumvarpinu. Hins vegar er lögð til breyting á 2. málsl. þess ákvæðis. Þar er kveðið á um að það varði refsingu að senda vísvitandi ranga tilkynningu til samræmdrar neyðarsvörunar eða misnota að öðru leyti þjónustu hennar við boðun viðbragðsaðila. Nefndin leggur til að orðin „við boðun viðbragðsaðila“ falli brott til að ákvæðið verði ekki óþarflega þröngt. Til skýringar er lögð til orðalagsbreyting á 6. gr. Lagðar eru til tvenns konar breytingar á 8. gr. Er í fyrsta lagi lagt til að fallið verði frá því fyrirkomulagi að jöfnunargjald verði notað til að greiða kostnað við uppbyggingu og rekstur vaktstöðvar. Kostnaður við uppbyggingu og rekstur vaktstöðva greiðist því úr ríkissjóði og af þeim tekjum sem vaktstöð hefur af þjónustu sinni. Í öðru lagi er lagt til að við bætist ákvæði til að kveða skýrt á um aðskilnað annars vegar þeirrar starfsemi sem er stunduð í almennri samkeppni og hins vegar starfsemi sem tengist rekstri vaktstöðvar samræmdrar neyðarsvörunar. Leggur nefndin til að við 8. gr. bætist ný málsgrein sem samræmist 14. gr. samkeppnislaga, nr. 44/ 2005.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Ágúst Ólafur Ágústsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Atli Gíslason skrifar undir álit þetta með fyrirvara.

Alþingi, 23. apríl 2008.Birgir Ármannsson,


form., frsm.


Atli Gíslason,


með fyrirvara.


Sigurður Kári Kristjánsson.Ellert B. Schram.


Siv Friðleifsdóttir.


Herdís Þórðardóttir.Karl V. Matthíasson.