Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 387. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 935  —  387. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum.

Frá félags- og tryggingamálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bjarnheiði Gautadóttur og Guðrúnu Sveinsdóttur frá félags- og tryggingamálaráðuneyti, Guðrúnu J. Jónsdóttur og Skúla Eggert Þórðarson frá ríkisskattstjóra og Halldór Grönvold frá ASÍ. Jafnframt bárust nefndinni umsagnir um málið frá ríkisskattstjóra, Alþýðusambandi Íslands og nokkrum einstaklingum.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum laga um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum. Viðamesta efnisbreyting frumvarpsins varðar það viðmiðunartímabil sem lagt er til grundvallar útreikningum á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði þar sem það er stytt og fært nær töku fæðingarorlofsins.
    Núverandi fyrirkomulag hefur sætt nokkurri gagnrýni og því er sú breyting lögð til að miðað verði við meðaltal heildarlauna foreldris yfir tólf mánaða samfellt tímabil sem lýkur sex mánuðum fyrir fæðingardag barns eða þann dag sem barn kemur inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Þó er gert ráð fyrir að viðmiðunartímabil vegna foreldra sem eru sjálfstætt starfandi einstaklingar verði tekjuárið á undan. Sú breyting mun hafa í för með sér raunhækkun á greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði en jafnframt er aukin heimild til að taka mið af öðrum greiðslum en atvinnutekjum. Frumvarpið gerir einnig ráð fyrir að forsjárlausir foreldrar geti öðlast rétt til fæðingarstyrks, sem og að atriði er varða rétt námsmanna til fæðingarstyrks, sem eingöngu hefur verið kveðið á um í reglugerð, verði færð í lög. Í frumvarpinu er jafnframt gert ráð fyrir að eftirlit með framkvæmd laganna verði fært frá skattyfirvöldum til Vinnumálastofnunar.
    Nefndin telur rétt að árétta það sem fram kemur í kostnaðarumsögn með frumvarpinu að þær breytingar sem frumvarpið gerir ráð fyrir fela í sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð en ætla má að árleg útgjöld muni aukast samtals um 180–320 millj. kr. á ári. Útgjöldin á árinu 2008 eru áætluð 110–190 millj. kr. og bent er á að ekki er gert ráð fyrir þessum útgjöldum í fjárlögum 2008. Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að svigrúm er fyrir þessa aukningu á útgjöldum sjóðsins innan markaðra tekna hans.
    Á fundum sínum ræddi nefndin sjónarmið um aðgang Vinnumálastofnunar að gögnum skattyfirvalda í b-lið 13. gr. frumvarpsins en ákvæðið er sambærilegt ákvæði í lögum nr. 22/2006, um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, og í lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Telur nefndin nauðsynlegt að gætt sé meðalhófs við framkvæmd slíkra ákvæða og að persónuvernd sé tryggð. Leggur nefndin því til breytingar á b-lið 13. gr. frumvarpsins í þá veru að fram komi á umsókn um fæðingarorlof upplýsingar til umsækjanda um að hann samþykki jafnframt að skattyfirvöld láti Vinnumálastofnun í té upplýsingar sem nauðsynlegar eru eftirlitinu með framkvæmd laganna, enda sé það forsenda bótanna.
    Nefndinni barst erindi þar sem meðal annars var bent á að samkvæmt frumvarpinu væri ekki litið á það sem þátttöku á vinnumarkaði á viðmiðunartímabilinu ef foreldrar hefðu fengið tekjutengdar greiðslur vegna langveikra eða alvarlega fatlaðra barna skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna. Nefndin telur mikilvægt að slíkar greiðslur verði taldar til þátttöku á vinnumarkaði líkt og gert er varðandi greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði og fleiri greiðslur skv. 8. og 9. gr. frumvarpsins og leggur í því skyni til breytingar á fyrrnefndum greinum frumvarpsins.
    Loks ræddi nefndin ósk er kom fram í umsögn og á fundum nefndarinnar um að bætt yrði orlofsgreiðslum ofan á greiðslur til foreldra í fæðingarorlofi og leggur til að það verði skoðað í tengslum við fyrirhugaða lengingu á fæðingarorlofi á kjörtímabilinu.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Árni Johnsen var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Ögmundur Jónasson og Birkir J. Jónsson skrifa undir álit þetta með fyrirvara.

Alþingi, 24. apríl 2008.



Guðbjartur Hannesson,


form., frsm.


Ármann Kr. Ólafsson.


Ögmundur Jónasson,


með fyrirvara.



Birkir J. Jónsson,


með fyrirvara.


Jón Gunnarsson.


Pétur H. Blöndal.



Kristinn H. Gunnarsson.


Ásta R. Jóhannesdóttir.