Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 463. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 959  —  463. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um brottfall laga nr. 14/1942, um læknaráð.

Frá heilbrigðisnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Áslaugu Einarsdóttur frá heilbrigðisráðuneyti. Jafnframt hafa nefndinni borist fimm umsagnir um málið.
    Margt hefur breyst á þeim 66 árum sem liðin eru frá því að lög um læknaráð, nr. 14/1942, voru sett. Hlutverk læknaráðs er að láta dómstólum, ákæruvaldi og stjórn heilbrigðismálanna í té sérfræðilegar umsagnir um læknisfræðileg efni. Ætla má að ekki séu lengur fyrir hendi þær forsendur sem voru áður fyrir starfsemi læknaráðs sem helgast aðallega af því að dómstólar hafa nú greiðari aðgang að sérfræðingum en árið 1942. Jafnframt hafa áherslur í málsmeðferð stjórnsýslunnar breyst, sbr. einkum þær breytingar sem urðu á málsmeðferð með gildistöku stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.
     Verulega hefur dregið úr starfsemi læknaráðs undanfarin ár þar sem nú er talið eðlilegra að leysa úr ágreiningi um læknisfræðileg álitaefni með aðstoð dómkvaddra matsmanna og sérfróðra meðdómenda. Jafnframt hefur Hæstiréttur Íslands gert athugasemdir við starfsemi læknaráðs í dómum sínum og afgreiðsla ráðsins hefur í mörgum tilfellum ekki verið talin standast stjórnsýslulög. Dómur Mannréttindadómstóls Evrópu frá 2007 rennir jafnframt stoðum undir það að í dag standist læknaráð ekki reglur um hæfi. Því telur nefndin að nauðsynlegt sé að fella lög um læknaráð úr gildi.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Álfheiður Ingadóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 6. maí 2008.



Ásta Möller,


form., frsm.


Ágúst Ólafur Ágústsson.


Árni Páll Árnason.



Ellert B. Schram.


Pétur H. Blöndal.


Ragnheiður Ríkharðsdóttir.



Valgerður Sverrisdóttir.


Þuríður Backman.