Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 277. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 963  —  277. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um samstarf milli slysavarnafélaga og björgunarsveita á sjó og land í vestnorrænu löndunum.

Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Karl V. Matthíasson, formann Vestnorræna ráðsins og Íslandsdeildar þess, og Þórð Þórarinsson, framkvæmdastjóra Vestnorræna ráðsins. Umsagnir bárust um málið frá Landhelgisgæslu Íslands, ríkislögreglustjóranum, Slysavarnafélaginu Landsbjörgu og Siglingastofnun, auk þess sem álit barst frá allsherjarnefnd Alþingis.
    Með tillögunni er lagt til að Alþingi skori á ríkisstjórnina að gera samkomulag við landsstjórnir Færeyja og Grænlands um að stuðla að og styrkja samstarf slysavarnafélaga og björgunarsveita á sjó og landi í löndunum þremur. Með ályktun nr. 4/2007 sem samþykkt var á ársfundi Vestnorræna ráðsins 23. ágúst 2007 samþykkti ráðið að beina þessari áskorun til ríkisstjórna Íslands, Færeyja og Grænlands.
    Nefndin tekur undir þau sjónarmið sem fram koma í tillögunni og bendir á að sameiginleg björgunaræfing Vestur-Norðurlandanna er fyrirhuguð 7. júní nk. í tengslum við þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins um björgunarsamvinnu í Norður-Atlantshafi sem haldin verður í Þórshöfn í Færeyjum 5.–8. júní. Þar mun Landhelgisgæsla Íslands m.a. taka þátt.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Bjarni Benediktsson og Guðfinna S. Bjarnadóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 7. maí 2008.



Árni Páll Árnason,


varaform., frsm.


Steingrímur J. Sigfússon.


Ásta R. Jóhannessdóttir.


                             

Siv Friðleifsdóttir.


Lúðvík Bergvinsson.


Kristinn H. Gunnarsson.



Björk Guðjónsdóttir.