Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 468. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 966  —  468. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög (einföldun reglna um greiðslu hlutafjár í öðru en reiðufé o.fl.).

Frá viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Evu Bryndísi Helgadóttur frá Lögmannafélagi Íslands, Guðrúnu Björk Bjarnadóttur frá Samtökum atvinnulífsins og Áslaugu Árnadóttur og Jón Ögmund Þormóðsson frá viðskiptaráðuneyti.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög hvað varðar greiðslu hlutafjár í öðru en reiðufé við stofnun eða hlutafjárhækkun. Breytingin felst einkum í því að verði frumvarpið að lögum verður í ákveðnum tilvikum ekki krafist sérfræðiskýrslu þegar hlutir í hlutafélögum eru greiddir í formi verðbréfs eða peningamarkaðsskjals eða verðmæti greiðslu fyrir hluti kemur beint fram í endurskoðuðum, lögmæltum ársreikningum. Samkvæmt lögum um einkahlutafélög er við stofnun eða hækkun hlutafjár ekki gerð krafa um sérfræðiskýrslu heldur yfirlýsingu frá löggiltum endurskoðanda eða lögmanni, sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna. Því er lagt til að í sérstökum tilvikum þurfti slík yfirlýsing ekki að fylgja. Í frumvarpinu eru einnig lagðar til rýmkaðar reglur um eigið fé hlutafélaga auk þess sem lögð er til breyting til einföldunar á ákvæði um tilgreiningu á heimili félags í samþykktum þess.
    Hvað varðar þau ákvæði frumvarpsins sem lúta að breytingum á reglum um greiðslu hlutafjár og reglum um eigið fé, þá er tekið mið af óbindandi ákvæðum í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins frá 6. september 2006 um breytingu á tilskipun um stofnun hlutafélaga og tilskilið hlutafé þeirra og breytingar á því, sbr. fylgiskjal I með frumvarpinu. Þess má einnig geta að við samningu frumvarpsins hefur verið byggt á drögum að norsku lagafrumvarpi varðandi innleiðingu þessarar EES-gerðar.
    Við umfjöllun málsins í nefndinni var fjallað um 3. gr. frumvarpsins þess efnis að nægilegt sé að taka fram í hvaða sveitarfélagi félag teljist hafa heimilisfang. Þykir þessi breyting vera til einföldunar þar sem samþykktum félags verður aðeins breytt á hluthafafundum. Í 4. gr. laga um fyrirtækjaskrá eru aftur á móti talin upp atriði sem fyrirtækjaskrá skal skrá eftir því sem við á, þ.m.t. heimilisfang sbr. 3. tölul. ákvæðsins. Nefndin telur rétt að fjármálaráðherra kanni hvort breyta þurfi 4. gr. laga um fyrirtækjaskrá þar sem upp hafa komið efasemdir um hvort á grundvelli hennar sé skylt sé að tilkynna breytingu á heimilisfangi.
    Nefndin leggur til nokkrar breytingar á frumvarpinu. Lagt er til að 1. og 9. gr. verði gerðar skýrari. Þá er lögð til lagfæring á 2. og 7. gr. Jafnframt er lagt til að við frumvarpið bætist ný grein þess efnis að ríkisstjórninni sé heimilt að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 95 frá 6. júlí 2007 um breytingu á XXII. viðauka við EES- samninginn frá 2. maí 1992. Það hefur tíðkast að utanríkisráðherra flytji sérstaka tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar. Slíkar tillögur hafa verið til meðferðar hjá utanríkismálanefnd þingsins sem verður þannig kleift að hafa yfirsýn yfir stöðu innleiðinga EES-gerða. Í framhaldinu hefur hlutaðeigandi ráðherra svo lagt fram frumvarp um efnið. Nefndin telur mikilvægt að samræma framkvæmd þess hvernig ríkisstjórninni er veitt heimild til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar og aflétta þannig stjórnskipulegum fyrirvara af EES-gerðum sem kalla á lagabreytingar hér á landi.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Birkir J. Jónsson og Höskuldur Þórhallsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 7. maí 2008.



Ágúst Ólafur Ágústsson,


form., frsm.


Guðfinna S. Bjarnadóttir.


Jón Bjarnason.



Birgir Ármannsson.


Ellert B. Schram.


Jón Gunnarsson.



Björk Guðjónsdóttir.