Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 287. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Prentað upp.

Þskj. 1011  —  287. mál.
Breyttur texti .
Nefndarálitum frv. til l. um leikskóla.

Frá menntamálanefnd.         Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á fund sinn Þórhall Vilhjálmsson, Arnór Guðmundsson, Sigríði Láru Ásbergsdóttur og Guðna Olgeirsson frá menntamálaráðuneyti. Einnig kom nefnd menntamálaráðherra um endurskoðun laga um leikskóla; Sjöfn Þórðardóttir, Valborg Þ. Snævarr, Björg Bjarnadóttir, Marta D. Sigurðardóttir, Ingibjörg Einarsdóttir og Svandís Ingimundardóttir. Frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga komu Guðjón Bragason, Svandís Ingimundardóttir, Þórður Skúlason, Gunnlaugur Júlíusson og Valgerður Freyja Ágústsdóttir. Þá kom Kristbjörg Stephensen borgarlögmaður. Frá Kennarasambandi Íslands komu Elna Katrín Jónsdóttir, Björg Bjarnadóttir frá Félagi leikskólakennara og Marta Sigurðardóttir, frá Alþýðusambandi Íslands kom Halldór Grönvold, frá Eflingu komu Sigurður Bessason og Sigurrós Kristinsdóttir og frá Persónuvernd kom Rakel Jensdóttir. Símafundur var jafnframt haldinn með Jakobi Th. Möller, fyrrverandi starfsmanni Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna og fyrrverandi dómara við Mannréttindadómstól fyrir Bosníu og Hersegóvínu, og ræddur dómur Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Folgerø og annarra gegn Noregi frá 29. júní 2007.
    Þá bárust nefndinni umsagnir og erindi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Eyþingi, Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Akraneskaupstað, Akureyrarbæ, Ásahreppi, Borgarbyggð, Fljótsdalshéraði, Flóahreppi, Grímsnes- og Grafningshreppi, Húnaþingi vestra, Kópavogsbæ, Langanesbyggð, Mosfellsbæ, Mýrdalshreppi, Reykjanesbæ, Reykjavíkurborg, Seltjarnarnesbæ, Snæfellsbæ, Sveitarfélaginu Árborg, Sveitarfélaginu Garði, Sveitarfélaginu Hornafirði, Sveitarfélaginu Ölfusi, Tálknafjarðarhreppi, Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, Kennarasambandi Íslands, Félagi leikskólakennara, Félagi leikskólafulltrúa, faghópi leikskólasérkennara, Félagi íslenskra myndlistarkennara, leikskólastjórum í Hafnarfirði, Félagsráðgjafafélagi Íslands, Þroskahjálp, Þroskaþjálfafélagi Íslands, Félagi náms- og starfsráðgjafa, Iðjuþjálfafélagi Íslands, Styrktarfélagi krabbameinssjúkra barna, Umhyggju, Öryrkjabandalagi Íslands, Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, Félagi lesblindra á Íslandi, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, Barnaheillum, Barnaverndarstofu, samtökunum Heimili og skóli, umboðsmanni barna, Jafnréttisstofu, Lýðheilsustöð, Persónuvernd, félagsmálaráðuneytinu – innflytjendaráði, Safnaráði, Íslenskri málnefnd, Kennaraháskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri, Landbúnaðarháskóla Íslands, Félagi um menntarannsóknir, Samtökum áhugafólks um skólaþróun, Bandalagi háskólamanna, Samtökum atvinnulífsins, Alþýðusambandi Íslands, foreldrafélögum leikskóla í Garðabæ, Siðmennt, biskupi Íslands, Prestafélagi Íslands og Rauða krossi Íslands.
    Hinn 7. desember 2007 var fjórum frumvörpum vísað til meðferðar í nefndinni. Hér er um að ræða frumvörp til heildarlaga til leik-, grunn- og framhaldsskóla ásamt frumvarpi til laga um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Frumvörpin mynda umgjörð um skólamál í landinu allt að háskólastigi og er ætlað að auka samfellu og sveigjanleika í skólastarfi og tryggja skóla án aðgreiningar. Í upphafi starfs nefndarinnar var ljóst að mikil vinna væri fyrir höndum og hefur nefndin haft fasta vikulega aukafundi til að fjalla um málin.
    Með frumvarpi til laga um leikskóla er lagt til að sett verði ný heildarlög um leikskóla, en lögunum er ætlað að leysa af hólmi lög um leikskóla, nr. 78/1994. Frumvarpi þessu er ætlað að auka samfellu, samræmi og svigrúm innan leikskólans og á milli skólastiganna. Með frumvarpinu er leitast við að færa löggjöf um leikskóla til samræmis við þær þjóðfélagsbreytingar sem átt hafa sér stað frá gildistöku laga nr. 78/1994, um leikskóla, út frá þeirri reynslu sem fengist hefur frá gildandi lögum. Frumvarpinu er ætlað að skapa hnitmiðaða rammalöggjöf um leikskóla, styrkja starf leikskóla og tryggja leikskólabörnum umhverfi sem tekur mið af mismunandi þörfum þeirra og þroska. Í frumvarpinu er að finna mörg nýmæli í þessa átt. Aukin áhersla er lögð á velferð og öryggi barnanna sjálfra og hvernig leikskólastarf skuli koma til móts við börnin. Endurspeglast þessi áhersla til að mynda í VIII. kafla frumvarpsins um sérfræðiþjónustu og stoðkerfi leikskóla þar sem kveðið er á um rétt barna til sérfræðiþjónustu. Jafnframt er í fyrsta sinn kveðið á um heimild foreldra, fyrir hönd barna sinna, að kæra til menntamálaráðherra ákvarðanir sem lúta að framkvæmd sérfræðiþjónustu barns, gjaldtöku og aðgang að leikskóla. Enn fremur má sjá að aukin áhersla er lögð á aðkomu foreldra að leikskólastarfi og er það í fullu samræmi við þróun undanfarinna ára þar sem dvalartími barna á leikskóla hefur lengst.
     Nefndin ræddi ákvæði frumvarpsins ítarlega á fundum sínum. Meðal þeirra atriða sem hvað mesta umræðu fengu meðal nefndarmanna voru gildissvið og markmið frumvarpsins, starfsfólk leikskóla og þá með sérstöku tilliti til frumvarps um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda í leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, ráðningarskilyrði og símenntun starfsfólks, húsnæði og fjöldi barna í leikskóla, ákvæði VI. kafla um námskrár og samstarf skólastiga, ákvæði VII. kafla um mat og eftirlit með gæðum leikskólastarfs, ákvæði VIII. kafla um sérfræðiþjónustu og stoðkerfi leikskóla og leyfi til reksturs leikskóla.

Hlutverk leikskóla.
    Mikill hluti þess starfs sem fram fer innan leikskólans snýr að umönnun barna. Nefndin er sammála um mikilvægi þess að gera umönnunarhlutverki leikskóla ekki lægra undir höfði en uppeldis- og menntunarhlutverki hans. Telur nefndin því áríðandi að það komi skýrt fram í frumvarpinu og leggur til að breytingartillögu þess efnis.
    Í 2. gr. frumvarpsins er að finna markmiðsgrein þess. Segir í henni að markmið uppeldis og kennslu í leikskóla skuli meðal annars stuðla að umburðarlyndi og víðsýni barna og efna siðferðisvitund þeirra. Í athugasemdum við greinina segir að orðið „siðferðisvitund“ komi nú í stað orðalagsins „kristilegs siðgæðis“ eins og er í gildandi lögum, sbr. 2. gr. laganna. Sambærilega breytingu má einnig finna í frumvarpi til grunnskólalaga sem jafnframt er til meðferðar hjá nefndinni. Mikil umræða átti sér stað í þjóðfélaginu sem og innan nefndarinnar um þetta þessar breytingar. Snerist sú umræða fyrst og fremst að þeirri breytingu og að fyrrgreint orðalag „kristilegt siðgæði“ var tekið út úr markmiðsgrein laga um grunnskóla en telur nefndin að sömu sjónarmið eigi við um frumvarp til laga um leikskóla. Í athugasemdum við 2. gr. frumvarpsins kemur fram að fyrrgreint orðalag er tekið út í ljósi breytinga á samfélaginu á undanförnum árum, til að mynda fjölgun erlendra barna í leikskólum landsins. Því sjónarmiði hefur þó verið hreyft fyrir nefndinni að meiri hluti innflytjenda til landsins er kristinnar trúar. Í þeirri umræðu sem átti sér stað í þjóðfélaginu var á tíðum vísað í dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Folgerø og annarra gegn Noregi. Áréttar nefndin að þrátt fyrir að í málinu hafi verið tekist á um vísun í kristilegt siðgæði og uppeldi í norsku löggjöfinni um grunnskóla og undanþáguheimildir frá kennslu í námsgreininni kristinfræði og aðar lífsskoðanir þá eigi niðurstaða dómstólsins jafnframt við um markmiðsgrein laga um leikskóla. Það sem skiptir máli hér er að dómstóllinn tilgreinir að þyngri áhersla er lögð á kristni en önnur trúarbrögð og að ákveðið ójafnvægi ríki þar á milli en telur að slíkt sé eðlilegt þegar tillit er tekið til stöðu kristni í Noregi, en hin evangelíska-lúterska trú er ríkistrú Noregs sem um 85% landsmanna aðhyllast. Kemur ekki fram í dómnum að slíkt brjóti í bága við mannréttindasáttmála Evrópu. Álítur nefndin því að það fari ekki í bága við ákvæði sáttmálans að ríki meti og ákveði innihald markmiðsgreina í löggjöf sinni með tilliti til kristinnar trúar. Dómstóllinn kvað ekki á um að Normenn þyrftu að breyta markmiðsgrein sinni þar sem sagði að stuðla skyldi að „kristilegu siðgæði og uppeldi“. Með hliðsjón af því sem að framan greinir og þess hversu mjög íslensk saga og menning og þau gildi sem íslenskt þjóðfélag byggist á eru samofin hinni kristnu arfleifð íslenskrar menningar, telur nefndin rétt að tekið sé mið af þeirri staðreynd í markmiðsgrein frumvarpsins og leggur til breytingar á henni.
    Nefndin telur málörvun barna á leikskólaaldri afar mikilvæga og undirstrikar hlutverk leikskóla í máltöku barna. Telur nefndin enn fremur að með því að styrkja stöðu íslenskunnar og stuðla að eðlilegri færni í íslensku sé stutt verulega við börn með annað móðurmál en íslensku. Álítur nefndin að með aukinni áherslu á þetta hlutverk leikskólans sé með sem bestum hætti leitast við að tryggja að leikskólabörn fái þá málörvun sem þau þarfnast á viðkomandi aldursskeiði.
    Á undanförnum áratugum hefur samfélagið staðið frammi fyrir miklum þjóðfélagsbreytingum. Breyttar neysluvenjur, aukin kyrrseta og þyngdaraukning er staðreynd í íslensku samfélagi líkt og annars staðar á Vesturlöndum. Í ljósi þessa telur nefndin að mikilvægt sé að sporna við aukinni þróun í þessa átt með því að vekja börn, strax á leikskólaaldri, til umhugsunar um heilbrigða lífshætti. Er það álit nefndarinnar að áhersla á heilbrigðisvitund barna eigi heima í ákvæðum laga um leikskóla og leggur fram breytingartillögu þar um. Leggur nefndin jafnframt áherslu á að allir leikskólar skuli leitast við að bjóða heilnæmt fæði og taka tillit til ráðlegginga Lýðheilsustöðvar og manneldisráðs um mataræði og næringarefni.

Stofnun leikskóla.
    Leikskólastigið er skilgreint sem fyrsta skólastigið hér á landi þótt ekki sé kveðið á um almenna leikskólaskyldu. Það er jafnframt á forræði sveitarfélaga að starfrækja leikskóla þótt menntamalaráðherra fari með yfirumsjón þeirra málefna sem gildandi leikskólalög og frumvarp þetta taka til. Í IX. kafla frumvarpsins er fjallað um stofnun og rekstur leikskóla og kemur m.a. fram að það sé sveitarstjórnar að tilkynna ráðuneytinu þegar það stofnar eða hættir rekstri leikskóla, veitir rekstrarleyfi fyrir starfsemi leikskóla eða fellir slíkt úr gildi. Telur nefndin það skýrt að hér er einungis um tilkynningarskyldu sveitarstjórnar að ræða. Þessu til stuðnings bendir nefndin á að í athugasemdum við 3. gr. frumvarpsins kemur fram að ábyrgð menntamálaráðuneytis taki ekki til stofnunar, fjármögnunar eða reksturs leikskóla. Í 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins er aftur á móti sagt að yfirstjórn menntamálaráðherra nái ekki til byggingar og reksturs leikskóla. Nefndin telur þetta orðalag ekki nægjanlega skýrt og leggur til að notað verði orðið „stofnun“ í stað byggingar þannig að ekki verði nokkur vafi á að það sé á forræði sveitarfélaganna sjálfra að stofna leikskóla en ekki einungis að annast byggingu þeirra og rekstur.
    Í 25. gr. frumvarpsins er að finna heimildarákvæði um rekstur leikskóla til handa öðrum en sveitarfélögum, svo sem sjálfseignarstofnunum, hlutafélögum eða öðrum viðurkenndum rekstrarformum en slík heimild er bundin við samþykki viðkomandi sveitarfélags. Í ákvæðinu er gerð sú krafa að í rekstrarleyfi sé m.a. kveðið á um samskipti, eftirlit og skipulag og framkvæmd sérfræðiþjónustu. Fram kemur í greininni að leikskólar sem starfa á grundvelli slíks leyfis skuli lúta sömu lögum og reglum og aðrir leikskólar sem reknir eru af hálfu sveitarfélaganna sjálfra og að ákvæði stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, eiga við um þær ákvarðanir sem kæranlegar eru skv. 30. gr. frumvarpsins, þ.e. um rétt til sérstakrar aðstoðar og þjálfunar og um aðgang að skóla. Aftur á móti er tekið fram í greininni að ákvarðanir um gjaldtöku sjálfstætt starfandi leikskóla séu undanþegnar slíkri kæruheimild. Töluverðar umræður áttu sér stað innan nefndarinnar um þessa heimild. Lutu þær fyrst og fremst að jafnræðissjónarmiðum, hvort tryggt væri að sjálfstætt reknir leikskólar yrðu að hlíta ákvæðum frumvarpsins ásamt ákvæðum um gjaldtöku. Leggur nefndin áherslu á að þau lög og þær reglur sem eiga við um leikskóla gildi jafnframt um sjálfstætt rekna leikskóla og rekstraraðila þeirra. Skv. 5. málsl. 1. mgr. 25. gr. frumvarpsins eru ákvarðanir er lúta að gjaldtöku sjálfstætt starfandi leikskóla ekki kæranlegar. Enn fremur segir í 2. mgr. 27. gr. frumvarpsins að slíkir leikskólar séu jafnframt undanskildir gjaldtökuákvæði þess. Í 1. mgr. 27. gr. er lögfest sú venjuhelgaða heimild sveitarfélaga að innheimta gjald fyrir dvöl barns á leikskóla sem þó má ekki vera hærra en sem nemur meðalraunkostnaði dvalar hvers leikskólabarns. Af orðanna hljóðan má ráða að frumvarpinu sé ekki ætlað að veita sveitarfélögum vald til að hafa áhrif á gjaldtöku sjálfstætt rekinna leikskóla. Í umsögn Reykjavíkurborgar kom aftur á móti fram að slíkt væri erfitt fyrir sveitarfélög að sætta sig við og að einhver úrræði þurfi til að setja því mörk hversu hátt slíkt gjald getur orðið. Tekur nefndin að mörgu leyti undir með sjónarmiðum Reykjavíkurborgar og telur að með því að veita sveitarfélögum vald til að hafa áhrif á fjárhæð gjaldtöku sjálfstætt rekinna leikskóla megi styrkja stoðir jafnréttissjónarmiða. Er nefndin sammála um að það eigi ekki að vera á valdsviði ríkisins hvort og þá hvernig sveitarfélög kjósa að haga sínum málum og skilyrðum fyrir veitingu rekstrarleyfa, slík umræða eigi að fara fram á sveitarstjórnarstiginu. Telur nefndin því að ekki sé rétt að útiloka sveitarfélög frá því að geta haft áhrif á gjaldtöku sjálfstætt rekinna leikskóla í viðkomandi sveitarfélagi og leggur til að 25. gr. frumvarpsins verði breytt á þann hátt að sveitarstjórnum verði heimilt að gera þjónustusamning við viðkomandi skóla um hvort tveggja, fyrirkomulag þjónustu og gjaldtöku. Enn fremur telur nefndin nauðsynlegt að gera breytingar á 2. mgr. 27. gr. frumvarpsins með tilliti til þessa og leggur til að gjaldtökuákvæði 27. gr. skuli jafnframt ná til sjálfstætt rekinna leikskóla sé kveðið á um slíkt í þjónustusamningi við sveitarfélagið.
    Í 1. mgr. 12. gr. frumvarpsins er að finna ákvæði er varðar gerð leikskólahúsnæðis og þá kröfu um að húsnæðið og aðbúnaður þess skuli tryggja öryggi og vellíðan barna, svo sem varðandi húsbúnað, hljóðvist, lýsingu og loftræstingu. Nokkur umræða um þessa grein átti sér stað innan nefndarinnar. Eru nefndarmenn sammála um að jafnframt verði að hafa öryggi og vellíðan starfsfólks leikskóla að leiðarljósi hvað varðar leikskólahúsnæði og aðbúnað þess.

Mat og eftirlit með gæðum leikskólastarfs.
    Mikil umræða átti sér stað innan nefndarinnar um VII. kafla frumvarpsins sem hefur að geyma nýmæli um mat og eftirlit með gæðum leikskólastarfs. Í umsögnum sveitarfélaganna koma almennt fram miklar athugasemdir við ákvæði kaflans þess efnis að verið sé að leggja auknar og óraunhæfar skyldur á herðar sveitarfélaga sem ekki eru nægjanlega vel rökstuddar, til að mynda í 1. mgr. 19. gr. sem kveður á um árlega upplýsingagjöf til ráðuneytis. Krafa um árlegar upplýsingar sem þessar muni auka útgjöld þeirra til muna, þannig verði minni sveitarfélög að kaupa þjónustu fagaðila til að framkvæma ytra mat. Þá efast sveitarfélögin um að ráðuneytið hafi svigrúm til að vinna úr þeim gríðarlega miklu upplýsingum innra og ytra mats sem árlega munu berast ráðuneytinu. Hins vegar hefur komið fram af hálfu menntamálaráðuneytis að ekki verði gerð krafa um formlega ársskýrslu né ítarlegri upplýsingar en nú þegar er krafist samkvæmt reglugerð um upplýsingaskyldu sveitarfélaga varðandi skólahald, nr. 384/1996. Fremur verði byggt á stöðluðum tölulegum upplýsingum sem séu samanburðarhæfar milli viðfanga og yfir tíma. Þannig fáist vísbendingar um stöðu og þróun skólastarfs. Gerir ráðuneytið enn fremur ráð fyrir að nýtt verði þau upplýsingakerfi um leik- og grunnskóla sem fyrir hendi eru, til að mynda kerfi Hagstofu og Mentors, en um 97% grunnskóla eru aðilar að því upplýsingakerfi. Er það álit nefndarinnar að mat og eftirlit sem frumvarpið kveður á um sé mikilvægt til þess að hægt sé að bæta leikskólastarf. Í athugasemd við 19. gr. frumvarpsins kemur fram að stærstur hluti leikskólastjóra sem reynslu hafa af ytra mati telji að það hafi jákvæð áhrif á skólakerfið, veiti mikilvægt aðhald og sé gott stýritæki við stefnumótun. Slíkt aðhald fer ekki síst fram með því að veita kerfisbundið skýrar upplýsingar um starfsemi skóla. Aðhald sem þetta er nauðsynlegt á sama tíma og leitast er við að auka ábyrgð skóla og sveitarfélaga á skólahaldi. Telur nefndin enn fremur að svo að markmiðið með slíku aðhaldi skili sér og leiði til umbóta í skólastarfi þurfi að draga frekar fram ábyrgð sveitarfélaganna til að framkvæma ytra mat. Slíkt náist með því að kveða á um upplýsingaskyldu þeirra um ytra mat til menntamálaráðuneytisins. Í 2. mgr. 18. gr. er kveðið á um skyldu leikskóla til að birta opinberlega upplýsingar um innra mat sitt, tengsl þess við skólanámskrá og áætlanir um umbætur. Með því að hafa þá skyldu að birta innra mat opinberlega er íbúum samfélagsins gert kleift að fylgjast með eftirfylgni og umbótum á grundvelli niðurstaðna mats. Er það álit nefndarinnar að mikilvægt sé að kveða á um skyldu sveitarfélaga til að nýta niðurstöður ytra mats til umbóta í skólastarfi. Hvíli sú skylda á sveitarfélögum, ásamt upplýsingaskyldu þeirra til menntamálaráðuneytis, er íbúum samfélagsins gert mögulegt að fylgjast með hvort niðurstöður ytra matsins séu nýttar til umbóta í skólastarfi líkt og greinin kveður á um. Aftur á móti er það álit nefndarinnar að árleg upplýsingaskylda sé full íþyngjandi og ekki sé nauðsynlegt að allra upplýsinga verði aflað á hverju ári. Er því lagt til að sú skylda verði felld brott. Nefndin áréttar þó að regluleg upplýsingagjöf sé æskileg. Vill nefndin jafnframt ítreka mikilvægi eftirlits menntamálaráðuneytisins og að þær upplýsingar sem sveitarfélögin gefa á grundvelli innra og ytra mats verði nýttar.
    Nefndin áréttar enn fremur að við gerð innra mats leikskólastarfs skuli taka tillit til sjónarmiða barna eftir því sem við á. Er það í samræmi við ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins þar sem fram kemur í 12. gr. að aðildarríki samningsins skuli tryggja að réttmætt tillit sé tekið til skoðana barns í öllum þeim málum sem það varða.

Starfsfólk leikskóla.
    Staða starfsfólks leikskóla og hlutverk þess var eitt af meginumræðuefnum innan nefndarinnar. Hélst sú umræða í hendur við umræður um 9. og 20. gr. frumvarps til laga um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Þar er í 9. gr. kveðið á um að lágmark 2/ 3hlutar stöðugilda við kennslu, umönnun og uppeldi barna í hverjum leikskóla skuli teljast til stöðugilda leikskólakennara. Í 20. gr. frumvarpsins er svo gert ráð fyrir undanþágu frá þessu ákvæði þar sem heimild er veitt til að ráða til bráðabirgða, að hámarki í eitt ár, einstakling sem ekki hefur menntun leikskólakennara, fáist ekki leikskólakennari í stöðugildið þrátt fyrir ítrekaðar auglýsingar. Er hér um að ræða breytingu frá gildandi lögum þar sem gert er ráð fyrir að öll stöðugildi skuli skipuð leikskólakennurum, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 78/1994. Þessi markmið eru þó ekki í takt við íslenskan veruleika í starfsmannamálum leikskólastigsins, en samkvæmt upplýsingum af vef Hagstofu Íslands voru í desember sl. 32,6% allra starfsmanna sem sinna uppeldi og menntun barna í leikskólum með leikskólakennarapróf. Nefndin áréttar að ekki megi draga úr mikilvægi þess starfsfólks sem ekki hefur menntun leikskólakennara. Er oft á tíðum um að ræða einstaklinga sem hafa yfir að ráða annarri fagmenntun, svo sem í þroskaþjálfun og uppeldisfræðum, eiga styttra sérhæft nám að baki sem aðstoðarfólk í leik- og grunnskólum eða hafa mikla reynslu á þessu sviði. Samkvæmt upplýsingum á vef Hagstofu Íslands hafði í desember 2007 0,4% starfsfólks við uppeldi og menntun lokið diplómanámi í leikskólakennarafræðum og 6,4% höfðu aðra uppeldismenntun. 39,4% starfsfólks leikskóla í desember 2007 höfðu lokið námi í uppeldisfræðum. Í ljósi þessa telur nefndin rétt að litið sé á allt starfsfólk leikskólans sem einn hóp og að tryggja skuli að rödd þess starfsfólks sem ekki hefur leikskólakennaramenntun fái að heyrast til jafns við raddir leikskólakennara. Álítur nefndin mikilvægt að þessi hópur starfsfólks leikskóla komi að kosningu aðal- og varamanns, sem hefur málfrelsi og tillögurétt, til setu í nefnd sveitarstjórnar sem fer með málefni leikskóla í umboði hennar og að réttur fulltrúa alls starfsfólks leikskóla sé tryggður til setu á fundum nefndarinnar þar sem fjallað er um málefni leikskólans.
    Í 6. gr. frumvarpsins er fjallað um starfsfólk leikskóla. Í fjölda umsagna voru gerðar athugasemdir við heiti III. kafla og greinarinnar. Nefndin er sammála þeim athugasemdum sem gerðar voru um að nota orðið starfsfólk leikskóla í stað starfslið leikskóla og leggur til að því verði breytt og samræmt í ákvæðum frumvarpsins.
    Í 2. mgr. 6. gr. er kveðið á um að leikskólastjóri, aðstoðarleikskólastjóri og leikskólakennarar skuli hafa menntun leikskólakennara, sbr. lög um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Telur nefndin að rétt sé að undirstrika í ákvæðinu, líkt og gert er í gildandi lögum, að heimilt verði að ráða starfsfólk sem hafi reynslu og ákveðna þjálfun í störfum innan leikskólans. Þetta er í fullu samræmi við 1. mgr. 9. gr. og 20. gr. frumvarps til laga um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Leggur nefndin því til að á eftir 2. málsl. 2. mgr. 6. gr. komi nýr málsliður sem kveður á um heimild starfsfólks sem ekki hefur leikskólakennaramenntun til að taka þátt í að annast uppeldi og menntun barna, enda fáist ekki leikskólakennari til starfsins.
    Í 8. gr. frumvarpsins er kveðið á um rétt leikskólastjóra og leikskólakennara til símenntunar. Þau sjónarmið komu fram hjá einstökum nefndarmönnum að eðlilegra væri að ákvæði um símenntun ættu almennt heima í kjarasamningum en ekki í lagaákvæðum enda sé um samningsatriði að ræða. Hins vegar komu umsagnir í þá átt að tryggja þyrfti að til staðar væri sambærilegur símenntunarsjóður fyrir leikskólakennara og til er fyrir grunnskólakennara og jafna þannig stöðu þeirra frekar. Enn fremur kom fram hörð gagnrýni frá verkalýðshreyfingunni um stöðu annars starfsfólks leikskóla en leikskólakennara og rétt þeirra til símenntunar. Telur nefndin rétt að árétta að ekki sé hægt að skipta starfsfólki leikskóla í tvo hópa með þessum hætti. Mikill hluti starfsfólks á leikskólum landsins hefur ekki leikskólakennaramenntun en nefndin telur að mikilvægt sé að veita því starfsfólki möguleika til að þróa sig og styrkja í starfi. Ekki sé hægt að greina svo á milli starfsfólks leikskóla að einungis hluta þeirra eigi kost á símenntun. Fyrir því séu gild jafnræðissjónarmið. Leggur nefndin til þá breytingu á frumvarpinu að ekki einungis leikskólastjórar og leikskólakennarar eigi kost á símenntun heldur allt stafsfólk leikskóla.
    Í 5. gr. frumvarpsins er fjallað um leikskólastjóra og byggist hún að hluta til á 12. gr. gildandi laga um leikskóla. Í greininni er mælt fyrir um rekstrarlega stjórnun hans og ábyrgð á daglegu starfi leikskólans og að það samrýmist gildandi lögum, reglugerðum, aðalnámskrá, skólanámskrá og öðrum fyrirmælum sem kunna að vera í gildi. Hins vegar er tekið út ákvæði frá gildandi lögum um skyldu hans til að halda reglubundna fundi með starfsfólki leikskólans. Er þetta ólíkt því sem fram kemur í 7. gr. frumvarps til laga um grunnskóla þar sem hvort tveggja er fjallað um ábyrgð skólastjóra á að stuðla að samstarfi allra aðila skólasamfélagsins og að boða til kennara- og starfsmannafunda. Enn fremur hefur komið fram í umsögn Kennarasambands Íslands að í frumvarpsdrögum nefndar menntamálaráðherra til endurskoðunar á leikskólalögum hafi ákvæðið verið í betra samræmi við 7. gr. frumvarps til laga um grunnskóla og 12. gr. gildandi laga. Enn fremur sé að finna sambærilegt ákvæði í 9. og 10. gr. frumvarps til laga um framhaldsskóla. Er það álit nefndarinnar að rétt sé að stuðla að sambærilegri skyldu og ábyrgð skólastjóra mismunandi skólastiga og mælir því fyrir breytingum á 5. gr. frumvarpsins í þá átt að það sé á ábyrgð leikskólastjóra að stuðla að samstarfi milli foreldra, starfsfólks leikskóla og annars fagfólks sem og að hann skuli boða til kennara og starfsmannafunda svo oft sem þurfa þykir.
    Leggur nefndin einnig til að leikskólastjóri skuli árlega gefa út starfsáætlun leikskóla en sé ekki einungis heimilt að gera slíkt, sbr. 2. mgr. 14. gr. frumvarpsins. Er það álit nefndarinnar að mikilvægt sé að slík áætlun liggi ávallt fyrir enda hafi hún að geyma mikilvægar upplýsingar sem æskilegt er að séu aðgengilegar starfsfólki leikskóla, foreldrum og rekstraraðilum.
    Í 3. mgr. 6. gr. er að finna nýmæli þar sem kveðið er á um að óheimilt sé að ráða til starfa á leikskóla einstakling sem hlotið hefur refsidóm fyrir brot gegn XXII. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, en í kaflanum er fjallað um kynferðisbrot. Er þar jafnframt kveðið á um að við ráðningu skuli liggja fyrir sakavottorð viðkomandi einstaklings eða heimild til handa leikskólastjóra til að afla upplýsinga úr sakaskrá. Mikil umræða átti sér stað innan nefndarinnar um þetta nýmæli auk þess sem fjöldi umsagnaraðila gerði athugasemdir við þessa grein frumvarpsins. Snerust umræður innan nefndarinnar fyrst og fremst um ósamræmi milli lagabálka um ráðningarskilyrði starfsmanna sem starfa með börnum. Er þar fyrst að líta til ákvæða barnaverndarlaga, nr. 80/2002. Í 2. mgr. 36. gr. laganna er að finna sambærilegt bannákvæði því sem hér um ræðir en þar segir að óheimilt sé „ ... að ráða til starfa hjá barnaverndaryfirvöldum eða heimilum og stofnunum samkvæmt lögum þessum, hvort sem þau eru rekin af einkaaðilum, ríki eða sveitarfélögum, menn sem hlotið hafa refsidóm vegna brota á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga, sbr. 1. mgr.“ Í 1. mgr. 36. gr. er aftur á móti að finna ákveðna takmörkun á ákvæðinu en þar er tekið fram að bannið taki einungis til brota á ákvæðum kaflans þegar brot beinist gegn einstaklingi sem ekki hefur náð 18 ára aldri. Í annan stað ber að líta til ákvæða 3. mgr. 10. gr. æskulýðslaga, nr. 70/2007, þar sem er að finna ákvæði sem er efnislega samhljóða 3. mgr. 6. gr. frumvarpsins að öðru leyti en því að æskulýðslög banna einnig ráðningar einstaklinga sem hlotið hafa refsidóm fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974, á síðastliðnum fimm árum. Í æskulýðslögum einskorðast refsinæmi verknaðar ekki við það að brot hafi beinst gegn einstaklingi yngri en 18 ára, eins og miðað er við í barnaverndarlögum, heldur telst viðkomandi ekki hæfur til að sinna æskulýðsstarfi, hvort sem brotaþoli hefur verið yngri eða eldri en 18 ára. Í frumvarpinu sem hér er til umræðu er því að finna ákveðinn milliveg milli fyrrgreindra lagabálka. Gengið er lengra en gert er í barnaverndarlögum en skemur en gert er í æskulýðslögum, enda nær 3. mgr. 6. gr. ekki til brota gegn lögum um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974. Í athugasemdum umsagnaraðila var í allmörgum tilvikum bent á þennan mismun milli framangreindra ákvæða. Varar Reykjavíkurborg við slíku misræmi og tekur Samband íslenskra sveitarfélaga þar undir. Aftur á móti kom fram í máli fulltrúa Barnaverndarstofu að þegar barnaverndarlögin voru samin var verið að taka fyrstu skrefin í þessa átt og því stigið varlega til jarðar. Mundu þeir, ef kæmi til endurskoðunar laganna, mælast til að gengið yrði lengra í þessum efnum en barnaverndarlögin gera nú. Hvað varðar 2. málsl. 3. mgr. 6. gr. frumvarpsins, um að sakavottorð skuli liggja fyrir við ráðningu eða heimild leikskólastjóra til að afla upplýsinga úr sakaskrá, má enn fremur finna ákveðið misræmi milli lagabálka. Skv. 3. mgr. 36. gr. barnaverndarlaga hafa yfirmenn skóla, leikskóla, sumardvalarheimila, íþrótta- og tómstundamiðstöðva og annarra slíkra stofnana eða staða þar sem börn koma saman eða dveljast um lengri eða skemmri tíma, heimild til að afla upplýsinga úr sakaskrá sem einskorðaðar eru við refsidóma vegna brota á XXII. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, þegar brotið hefur beinst gegn barni, að fengnu samþykki viðkomandi. Í athugasemdum við greinina segir að ekki sé rétt að kveða á um alhliða bann við ráðningu einstaklinga sem falla undir 36. gr. heldur eigi slíkt frekar heima í sérlögum, til að mynda lögum um leikskóla. Þess í stað var kveðið á um heimild til að afla upplýsinga úr sakaskrá viðkomandi einstaklings sem sækir um að starfa á slíkum stað. Í 4. mgr. 10. gr. æskulýðslaga er farin sama leið og í barnaverndarlögum varðandi heimild til að afla upplýsinga úr sakaskrá. Verða slíkar upplýsingar einungis gefnar að fengnu samþykki viðkomandi. Í 2. málsl. 3. mgr. 6. gr. frumvarpsins er ekki að finna framangreint skilyrði um samþykki viðkomandi einstaklings og gengur ákvæðið því lengra en hvort tveggja barnaverndarlög og æskulýðslög að þessu leyti. Í athugasemdum um greinina kemur fram að hér sé átt við fullt sakavottorð og að heimild nái til allra starfsmanna leikskóla. Segir enn fremur að komi fram á sakavottorði upplýsingar um refsiverða háttsemi viðkomandi sé það í höndum leikskólastjóra að meta með málefnalegum hætti hvort viðkomandi sé samt sem áður hæfur til að gegna starfi á leikskóla. Nefndin telur þá leið sem farin er í frumvarpinu heppilega. Verður að setja hagsmuni barna sem dveljast á leikskóla, oft á tíðum allan daginn, í fyrsta sæti og í raun er óhjákvæmilegt og réttmætt að komið sé í veg fyrir að einstaklingar sem brotið hafa gegn XXII. kafla almennra hegningarlaga sinni störfum sem fela í sér umgengni, umsjón og ábyrgð á börnunum. Enn fremur telur nefndin að slíkt bann skuli ná til allra kynferðisbrota, óháð því hversu langur tími er liðinn frá því að brotin voru framin, enda hafa rannsóknir jafnframt sýnt að hluti kynferðisafbrotamanna endurtekur verknað sinn. Að mati nefndarinnar verða hagsmunir leikskólabarna ekki að fullu tryggðir nema ráðningarbannið sé ótakmarkað. Nefndin telur því rétt að tiltaka allan kynferðisbrotakafla almennu hegningarlaganna til að taka af allan vafa um að ráðningarbannið nái til brota gegn 4. mgr. 210. gr. þeirra um vörslu barnakláms og tryggja þannig velferð barna með sem bestu móti. Þetta er til samræmis við þá áherslu sem lögð er á velferð barna í íslenskri löggjöf, sbr. t.d. 3. mgr. 76. gr. stjórnarinnar þar sem kveðið er á um að í lögum skuli börnum tryggð sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Enn fremur má líta til alþjóðlegra skuldbindinga íslenska ríkisins, til að mynda ákvæða samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins þar sem í 19. gr. er kveðið á um að aðildarríki samningsins „ … skuli gera allar viðeigandi ráðstafanir á sviði löggjafar, stjórnsýslu, félags- og menntunarmála til að vernda barn gegn hvers kyns líkamlegu og andlegu ofbeldi, meiðingum, misnotkun, vanrækslu, skeytingarleysi, illri meðferð eða notkun, þar á meðal kynferðislegri misnotkun, meðan það er í umsjá annars eða beggja foreldra, lögráðamanns eða lögráðamanna, eða nokkurs annars sem hefur það í umsjá sinni.“
    Hvað varðar aðgang að sakavottorði einstaklinga telur nefndin þá leið sem farin er í frumvarpinu vel til þess fallna að gæta hvort í senn hagsmuna barna og atvinnufrelsis einstaklings. Telur nefndin að með banni æskulýðslaganna við ráðningu einstaklings sem hlotið hefur refsidóm fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni á undangengnum fimm árum sé seilst ívið langt. Með rýmri heimildum leikskólastjóra til fulls aðgangs að sakavottorði sé treyst dómgreind og málefnalegu mati leikskólastjóra til að meta hvort viðkomandi einstaklingur sé þess verðugur að starfa við umönnun, uppeldi og menntun barna á leikskólastigi. Þannig er einstaklingur sem gerst hefur brotlegur gegn ákvæðum laga um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974, ekki útilokaður frá því að starfa á leikskóla. Hér er oft um að ræða smávægileg brot sem að áliti nefndarinnar ættu ein og sér ekki að útiloka einstakling frá tækifæri til þess að starfa á leikskóla. Telur nefndin því réttmætt að láta leikskólastjóra það eftir að meta hæfni einstaklings til starfs í hverju tilviki. Það að tryggja leikskólastjóra aðgang að fullu sakavottorði geri honum m.a. kleift að hafa þetta mat á sínum höndum. Nefndin leggur því ekki til breytingar á 3. mgr. 6. gr. frumvarpsins.

Sérfræðiþjónusta.
    Samfélagslegt gildi menntunar er ótvírætt en hún er líka mikilvæg forsenda þess að einstaklingur geti fótað sig í nútímasamfélagi og getur skipt sköpum um möguleika hans til að sjá sér og sínum farborða og njóta annarra grundvallarréttinda. Í mörgum alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að er fjallað um mikilvægi menntunar og rétt til menntunar. Sem dæmi má nefna mannréttindayfirlýsingu og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, mannréttindasáttmála Evrópu, Alþjóðasamning um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi og Salamanca- yfirlýsinguna. Jafnframt er vinna hafin við að fullgilda sáttmála Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðra, sem undirritaður var af hálfu Íslands 30. mars 2007. Það sem er sameiginlegt með þessum samningum er jafn réttur allra einstaklinga til menntunar. Enn fremur er í stjórnarskránni kveðið á um rétt allra til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi, sbr. 2. mgr. 76. gr. Í lögum nr. 59/1992, um málefni fatlaðra, er jafnframt fjallað um rétt fatlaðra einstaklinga til þjónustu ríkis og sveitarfélaga og sérstaklega tekið fram í 7. gr. að ávallt skuli leitast við að veita fötluðum þjónustu samkvæmt almennum lögum á sviði menntunar og heilbrigðis- og félagsþjónustu. Ef aftur á móti kemur í ljós að viðkomandi einstaklingur þarf á slíkri þjónustu að halda að henni verður ekki fullnægt innan almennrar þjónustu skal hann fá þjónustu samkvæmt lögum um málefni fatlaðra. Þótt börn eigi ekki skýlausan rétt á leikskóladvöl, þar sem leikskóli er ekki skyldubundinn líkt og grunnskóli, þá eiga fötluð börn rétt til leikskóladvalar til jafns á við önnur börn á leikskólaaldri, sbr. 19. gr. laga nr. 59/1992. Í gildandi lögum um leikskóla, nr. 78/1994, má finna í VI. kafla ákvæði um rétt leikskólabarna til sérstakrar aðstoðar og þjálfunar. Þar er í 15. gr. fjallað um rétt barna á leikskólaaldri, og þar segir að börn sem vegna „fötlunar, tilfinningalegra eða félagslegra erfiðleika þurfa sérstaka aðstoð og þjálfun, eiga rétt á henni innan leikskólans undir handleiðslu sérfræðinga“. Í 16. gr. laganna er jafnframt kveðið á um að ráðgjafar- og sálfræðiþjónusta sveitarfélaga skuli veita foreldrum barna og starfsfólki leikskóla nauðsynlega ráðgjöf og þjónustu. 17. gr. laganna setur enn fremur þá skyldu á rekstraraðila leikskóla að þeir skuli byggðir og reknir þannig að þeir geti sinnt fötluðum börnum. Í VIII. kafla frumvarpsins er fjallað um sérfræðiþjónustu og stoðkerfi leikskóla. Í 21. gr., sem byggð er á 16. gr. gildandi laga, er kveðið á um stuðning sérfræðiþjónustu sveitarfélaga við leikskólabörn og foreldra þeirra sem og við starfsemi leikskóla og starfsfólk hans. Í 22. gr., sem byggð er á 15. gr gildandi laga, má sjá að börnum er tryggður réttur til handleiðslu sérfræðinga í þeirri aðstoð og þjálfun sem viðurkenndir greiningaraðilar telja þau þurfa. Í ákvæðunum frumvarpsins er mælt fyrir um skyldu sveitarfélaga til að ákveða fyrirkomulag sérfræðiþjónustu en jafnframt stuðla að því að hún geti farið fram innan leikskólans. Enn fremur er það í höndum leikskólastjóra að samræma störf þeirra sem sjá um málefni einstakra barna og eiga samráð við foreldra og félagsþjónustu sveitarfélaganna sé þess þörf. Nefndin telur að með þessum breytingum og víðari hugtakanotkun sé réttur barns betur tryggður en í gildandi lögum. Í umsögnum sveitarfélaga eru gerðar athugasemdir um þessar auknu skyldur sem þessi kafli frumvarpsins setur á þau og meðal annars bent á að ýmis sú þjónusta sem leikskólabörn eiga rétt á sé á höndum ríkisins en ekki sveitarfélaganna sem hafi ekki skipulagsvald yfir öllum þeim sérfræðingum sem börn eiga rétt á handleiðslu frá. Í athugasemdum við 22. gr. kemur aftur á móti fram að sá réttur sem barn hefur til sérstakrar aðstoðar og þjálfunar lýtur sömu viðhorfum og gert er ráð fyrir í dag samkvæmt lögum um málefni fatlaðra, nr. 59/1992, og lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007. Telur nefndin því að undirstrika verði að þótt sveitarfélög skuli stuðla að því að þjónustan geti farið fram innan leikskóla þurfa sumir einstaklingar slíka þjálfun að ekki er mögulegt að þjálfa viðkomandi í skólahúsnæðinu. Aftur á móti ítrekar nefndin að sveitarfélög skuli stuðla að því að þjónustan geti farið fram innan leikskólans. Það er svo í höndum leikskólastjóra að samræma sérfræðiþjónustu sem barni er veitt. Með ákvæðinu er verið að styrkja forstöðuhlutverk leikskólastjóra og er því ætlað gera leikskólastjóra kleift að samræma sérfræðiþjónustu viðkomandi barns við stundaskrá og vikuáætlanir þess og gera vinnuviku barnsins sem heildstæðasta. Í því skyni er nauðsynlegt að samhæfa þá sérfræðiþjónustu sem veitt er af sérfræðiþjónustu sveitarfélags og öðrum sérfræðingum, t.d. á heilbrigðissviði, sem annast viðkomandi barn. Fram hefur komið í máli fulltrúa menntamálaráðuneytisins að starfandi sé nefnd á vegum ráðuneytisins sem hefur það hlutverk að skilgreina betur störf og þjónustu við fötluð börn í leik- og grunnskólum, óháð því hver veitir þjónustuna. Í starfi þeirrar nefndar hefur áhersla verið lögð á að leik- og grunnskólar gegni lykilhlutverki í samræmingarvinnu á þessu sviði og að sérfræðiþjónustan geti farið sem mest fram innan skólanna sjálfra. Telur nefndin rétt að árétta að þessi skylda leikskólastjóra nær til samræmingar á störfum þeirra sem sjá um hvert einstakt barn innan leikskólans. Enn fremur er það álit nefndarinnar að kveða þurfi skýrar á um að sé þess þörf skuli leikskólastjóri hafa samráð við félagsþjónustu sveitarfélaga vegna málefna einstakra barna. Vill nefndin jafnframt árétta að eðlilegt sé að leikskóli samræmi störf á sviði sérfærðiþjónustu leikskóla, þrátt fyrir að rekstur leikskóla sé ekki skyldubundið hlutverk sveitarfélaga, þar sem allt að 95% barna á aldrinum 4–5 ára eru í leikskóla. Leggur nefndin því til breytingar á 22. gr. frumvarpsins.
    Í 3. mgr. 12. gr. frumvarpsins er kveðið á um að ráðherra setji reglugerð um húnæði og búnað í leikskóla í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Er það álit nefndarinannar að eðlilegt sé að kveða á um slíkt samráð í lagagreininni skuli sveitarfélög bera ábyrgð á húsnæði og búnaði leikskólahúsnæðis, sbr. 1. mgr. 4. gr. frumvarpsins. Nefndin telur þó mikilvægt að samráð verði jafnframt haft við Samtök fatlaðra svo að sjónarmið þeirra komist á framfæri enda kveður frumvarpið á um að stuðla skuli að því að sérfræðiþjónusta fari fram innan leikskólans, sbr. 21. gr. frumvarpsins.

Upplýsingagjöf
    Í 16. gr. frumvarpsins er að finna nýmæli um skyldu sveitarstjórna til að koma á gagnvirku samstarfi milli leikskóla og grunnskóla. Meginforsendan fyrir þessari skyldu er að tryggja að samstarf og samvinna ríki á milli þessara skólastiga svo að aðlögun og undirbúningur leikskólabarna fyrir nám í grunnskóla verði sem allra best. Í þessu skyni gerir 2. mgr. 16. gr. ráð fyrir að persónuupplýsingar um hvert einstakt barn, sem að gagni geta komið fyrir velferð barnsins og aðlögun þess í grunnskóla, skuli fylgja barninu. Nefndin telur að með þessu sé dregið úr óvissu um meðferð persónuupplýsinga og að hagsmunir einstakra barna verði betur tryggðir. Aftur á móti telur nefndin að ákvæðið sé fullvíðtækt og gjalda beri varhug við því að allar upplýsingar um börn fylgi þeim frá leikskóla til grunnskóla. Er þetta í samræmi við þá meginreglu laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 77/2000, sem finna má í 3. tölul. 7. gr. laganna. Leggur nefndin því til að einungis þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru fyrir velferð og aðlögun barnsins í grunnskóla skuli fylgja barninu úr leikskóla. Enn fremur leggur nefndin áherslu á að ekki verði einungis litið til persónuupplýsinga einstakra barna heldur verði einnig að líta til hugmynda- og kennslufræði skólastiganna með það að markmiði að auka samfellu á milli þeirra. Þannig sé betur tryggt að kennarar grunnskólans geti byggt á fyrri reynslu barnanna þegar þau hefja nám á grunnskólastigi.
    Nefndin áréttar einnig að skýrt verði að vera á hverra höndum meðferð upplýsinga skuli vera, en samkvæmt greininni skulu þær vera á hendi leikskóla eða annarra sérfræðinga. Nefndin leggur jafnframt til þá breytingu að í reglugerð sem ráðherra er heimilt að setja á grundvelli 3. mgr. 16. gr. skuli kveða á um meðferð, eyðingu og miðlun upplýsinga á milli skólastiga. Tekur nefndin þar með undir sjónarmið sem fram koma í athugasemdum en hvort tveggja sveitarfélög og skólar telja þörf á skýrari reglum um þessi atriði.

Foreldrar leikskólabarna
    Í 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins kemur fram sú skilgreining að þeir sem fara með forsjá barns í skilningi barnalaga teljast foreldrar þess. Með þessu er leitast við að koma til móts við þann fjölda foreldra sem fer með sameiginlega forsjá. Hins vegar er ekki gerður greinarmunur á sameiginlegri forsjá þegar foreldrar búa saman og sameiginlegri forsjá þegar foreldrarnir búa ekki saman. Getur þetta skapað óvissu í framkvæmd þegar kemur að samvinnu, samráði og samþykki foreldra um atriði er varða barn þeirra og hvort eigi að ganga út frá því að forsjárforeldrar séu alltaf í sambærilegri eða sömu stöðu. Telur nefndin að mikilvægt sé að staða foreldra sem fara með sameiginlega forsjá en búa ekki saman verði gerð skýr þegar kemur að málefnum barna þeirra í leikskólum, til að mynda þegar kemur að framkvæmd sérfræðiþjónustu, sbr. 22. gr. frumvarpsins, og hvernig skuli staðið að samþykki slíkrar þjónustu, þ.e. hvort samþykki beggja foreldra sé nauðsynlegt.
    Í 2. mgr. 9. gr. frumvarpsins er kveðið áum rétt foreldra sem ekki tala íslensku eða nota táknmál. Er í greininni lögð sú skylda á skóla að leitast við að tryggja þeim túlkun á upplýsingum sem nauðsynlegar eru vegna samskipta foreldra og skóla samkvæmt 1. mgr. greinarinnar. Í 1. mgr. greinarinnar kemur fram réttur þeirra á upplýsingum um skólastarfið og stöðu barna sinna. Nokkur umræða átti sér stað um hvort að kveða ætti sterkara að orði og gera skyldu skólans ótvíræðari. Telur nefndin að ekki beri að breyta ákvæðinu enda sé lögð sú skylda á leikskólann að leitast við að tryggja túlkun á viðkomandi upplýsingum.
    Nefndin leggur jafnframt til aðrar smávægilegar breytingar á frumvarpinu seim einkum varða lagatæknileg atriði.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Kolbrún Halldórsdóttir og Höskuldur Þórhallsson skrifa undir álit þetta með fyrirvara.
    Paul Nikolov var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Kjartan Eggertsson sat fundinn sem áheyrnarfulltrúi í stað Jóns Magnússonar og er hann samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 9. maí 2008.Sigurður Kári Kristjánsson,


form., frsm.


Einar Már Sigurðarson.


Pétur H. Blöndal.Guðbjartur Hannesson.


Höskuldur Þórhallsson,


með fyrirvara.


Ragnheiður Ríkharðsdóttir.Katrín Júlíusdóttir.


Kolbrún Halldórsdóttir,


með fyrirvara.