Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 288. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 1013  —  288. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla.

Frá menntamálanefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á fund sinn Arnór Guðmundsson, Sigurjón Mýrdal, Þórhall Vilhjálmsson og Karl Kristjánsson frá menntamálaráðuneyti. Einnig komu á fund nefndarinnar Halldór Grönvold frá Alþýðusambandi Íslands, Elna Katrín Jónsdóttir og Eiríkur Jónsson frá Kennarasambandi Íslands, Ágústa E. Ingþórsdóttir frá Félagi náms- og starfsráðgjafa, Guðbjörg Vilhjálmsdóttir frá félagsvísindadeild Háskóla Íslands, Guðjón Bragason, Svandís Ingimundardóttir og Guðrún Ósk Sigurjónsdóttir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Kristbjörg Stephensen borgarlögmaður, Ólafur Proppé og Anna Kristín Sigurðardóttir frá Kennaraháskóla Íslands, Guðmundur Heiðar Frímannsson frá Háskólanum á Akureyri, Halldóra Friðjónsdóttir frá Bandalagi háskólamanna og Kristín Á. Guðmundsdóttir og Birna Ólafsdóttir frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja.
    Þá bárust nefndinni umsagnir frá Kennaraháskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri, Listaháskóla Íslands, Félagsvísindadeild Háskóla Íslands, Landbúnaðarháskóla Íslands, stúdentaráði Kennaraháskóla Íslands, Kennarasambandi Íslands, Félagi framhaldsskólakennara, Félagi leikskólakennara, Bandalagi háskólamanna, Bandalagi íslenskra námsmanna, Félagi um menntarannsóknir, Samtökum áhugafólks um skólaþróun, Félagi náms- og starfsráðgjafa, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, Iðjuþjálfafélagi Íslands, ADHD-samtökunum, Félagi lesblindra á Íslandi, Umhyggju, Samtökunum Heimili og skóli, umboðsmanni barna, Rauða krossi Íslands, biskupi Íslands, Prestafélagi Íslands, Íslenskri málnefnd, safnaráði, Jafnréttisstofu, félagsmálaráðuneytinu – innflytjendaráði, Samtökum atvinnulífsins, Alþýðusambandi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Eyþingi. Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Akraneskaupstað, Akureyrarbæ, Ásahreppi, Borgarbyggð, Fljótsdalshéraði, Flóahreppi, Grundarfjarðarbæ, Húnaþingi vestra, Kópavogsbæ, Langanesbyggð, Mosfellsbæ, Mýrdalshreppi, Reykjavíkurborg, Sveitarfélaginu Árborg, Sveitarfélaginu Ölfusi, Seltjarnarnesbæ, Tálknafjarðarhreppi og Jöfnunarsjóði sveitarfélaga,
    Þann 7. desember 2007 var fjórum frumvörpum vísað til meðferðar í nefndinni. Var hér um að ræða frumvörp til heildarlaga um leik-, grunn- og framhaldsskóla ásamt frumvarpi til laga um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Frumvörp þessi mynda umgjörð um skólamál í landinu allt að háskólastigi og er ætlað að auka samfellu og sveigjanleika í skólastarfi og tryggja skóla án aðgreiningar. Í upphafi starfs nefndarinnar var ljóst að mikil vinna væri fyrir höndum og hefur nefndin haft fasta vikulega aukafundi til að fjalla um málin.
    Frumvarpi til laga um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla er ætlað að leysa af hólmi lög nr. 86/1998, um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra. Í frumvarpinu er að finna nýmæli um lögverndun á starfsheiti leikskólakennara og aukin menntunarskilyrði til að öðlast starfsheiti og starfsréttindi grunnskóla- og framhaldsskólakennara. Jafnframt er lagt til í frumvarpinu að gildissvið leyfisbréfa leik-, grunn- og framhaldsskólakennara verði víkkað á þann hátt að það nái til aðliggjandi skólastiga, kveðið er á um að 2/ 3hlutar stöðugilda á leikskólum skuli mönnuð leikskólakennurum og lögð er áhersla á forgang þeirra til starfa sem lokið hafa bakkalárprófi umfram aðra sem ekki hafa lögverndað starfsheiti samkvæmt frumvarpinu. Enn fremur er kveðið á um forgang kennara í starf í þeirri námsgrein sem hann hefur sérhæft sig í o.fl.
    Nefndin ræddi ákvæði frumvarpsins ítarlega á fundum sínum. Meðal þeirra atriða sem hvað mesta umræðu fengu meðal nefndarmanna voru aukin menntunarskilyrði til starfsréttinda og þá sér í lagi er varðar leikskólakennara, sú krafa að 2/ 3hlutar stöðugilda við kennslu, umönnun og uppeldi barna í leikskólum skuli teljast til stöðugilda leikskólakennara, undanþáguheimild frá þessari kröfu og starfsöryggi annars starfsfólks á leikskólum en leikskólakennara og hæfnisskilyrði skólastjórnenda.
    Mikil umræða fór fram innan nefndarinnar um leikskólakennaramenntun og stöðu leikskólakennara og annars starfsfólks í leikskólum landsins. Enn fremur urðu nokkuð háværar umræður í þjóðfélaginu um auknar menntunarkröfur til að hljóta starfsheitið leikskólakennari og tengist sú umræða 9. gr. frumvarpsins þar sem kveðið er á um að lágmark 2/ 3hlutar stöðugilda við kennslu, umönnun og uppeldi barna í hverjum leikskóla skuli teljast til stöðugilda leikskólakennara sem og 20. gr. frumvarpsins þar sem gert er ráð fyrir undanþágu frá þessu ákvæði 9. gr. og veitt heimild til að ráða til bráðabirgða, að hámarki í eitt ár, einstakling sem ekki hefur menntun leikskólakennara, fáist ekki leikskólakennari í stöðugildið þrátt fyrir ítrekaðar auglýsingar. Erfitt er að fjalla um fyrrgreind ákvæði ein og sér og í umfjöllun nefndarinnar voru þessar greinar frumvarpsins skoðaðar í samhengi og með tilliti til þeirrar stöðu sem nú ríkir í leikskólamálum hér á landi. Jafnvel þó að í gildandi lögum sé kveðið á um að öll stöðugildi skuli skipuð leikskólakennurum, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 78/1994, þá telur nefndin að sú krafa sem og markmið frumvarpsins, sbr. 9. gr., endurspegli ekki íslenskan veruleika í starfsmannamálum leikskólastigsins, en samkvæmt upplýsingum af vef Hagstofu Íslands voru í desember sl. 32,6% allra starfsmanna sem sinntu uppeldi og menntun barna í leikskólum með leikskólakennarapróf, 0,4% starfsfólks við uppeldi og menntun höfðu lokið diplómanámi í leikskólakennarafræðum og 6,4% höfðu aðra uppeldismenntun. Töluverðar athugasemdir komu fram í umsögnum sveitarfélaga um þessar auknu menntunarkröfur. Telja þau að um stórt skref sé að ræða, einkum með hliðsjón af því að ekki er langt síðan leikskólakennaranámið var flutt á háskólastig. Þar af leiðandi sé stór hópur leikskólakennara í dag sem ekki hefur lokið grunnháskólanámi. Ekki séu heldur gerðar kröfur um meistarapróf í þessari starfsstétt í þeim nágrannalöndum sem við berum okkur saman við. Lýstu sveitarfélögin jafnframt yfir áhyggjum af neikvæðum áhrifum sem lenging námsins gæti haft á mönnun í leikskólum þar sem nú þegar ríki mannekla. Sambærileg sjónarmið má jafnframt sjá í umsögnum frá verkalýðshreyfingunni sem bendir fyrst og fremst á stöðu annars starfsfólks á leikskólum þar sem ekki sé gert ráð fyrir að mögulegt sé fyrir þennan hóp að fá raunfærnimat til að afla sér menntunar á þessu sviði og að starfsöryggi þessa hóps sé lítið sem ekkert skv. 20. gr. frumvarpsins. Í máli fulltrúa kennarastéttarinnar hefur aftur á móti komið fram að með ákvæðum um auknar menntunarkröfur sé horft til framtíðar og mikilvægt sé að framtíðarsýn í skólastarfi verði mótuð og ekki sé réttlætanlegt að láta neikvæða umfjöllun hafa áhrif þar á.
    Varðandi 9. gr. frumvarpsins og þá breytingu að ekki sé lengur gert ráð fyrir að allir starfsmenn sem koma að uppeldi og menntun innan leikskóla séu leikskólakennaramenntaðir, heldur 2/ 3starfsmanna, vill nefndin árétta að ekki er hægt að skipta starfsfólki leikskóla í tvo hópa með þessum hætti. Tillit verði að taka til þess að fólk með mismunandi menntun og þekkingu nýtist vel í starfi innan leikskólans, má þar nefna m.a. þá sem lagt hafa stund á ýmiss konar listnám, íþróttafræðinga, sjúkraþjálfara, félagsfræðinga og aðra sem lokið hafa uppeldisnámi. Með ofangreindri breytingu er annars vegar verið að viðurkenna mikilvægi einstaklinga með annars konar menntun en leikskólakennaramenntun í störfum innan leikskóla. Í því sambandi ber þó að líta til 2. mgr. 6. gr. frumvarps til laga um leikskóla þar sem ráðherra er veitt heimild til setningar reglugerðar sem kveður á um leiðbeiningar- og stjórnunarhlutverk leikskólakennara gagnvart öðru starfsfólki. Hins vegar yrðu með þessari breytingu sett í lög raunhæfari viðmið um hlutfall menntaðra leikskólakennara en verið hefur í lögum fram til þessa. Nefndin telur mikilvægt að ríki og sveitarfélög taki höndum saman og geri áætlun um hvernig ná megi þessu viðmiði um 2/ 3hluta leikskólakennaramenntaðra. Núna er hlutfallið 1/ 3að meðaltali yfir landið.
    Telur nefndin að taka verði tillit til þeirrar stöðu sem er í starfsmannamálum leikskóla í dag og hversu langt er í land að manna 2/ 3hluta stöðugilda leikskóla með leikskólakennurum þegar litið er á meðaltal yfir landið. Áréttar nefndin því mikilvægi þess að tryggja þeim starfsöryggi sem starfa á leikskólum en hafa ekki leikskólakennaramenntun. Í 20. gr. frumvarpsins er kveðið á um heimild til að lausráða í auglýsta leikskólakennarastöðu, til eins árs í senn, einstakling sem ekki er leikskólakennari. Hefur þetta í för með sér að starfsöryggi viðkomandi starfsmanns er mjög rýrt enda gerð krafa í 11. gr. frumvarpsins um að auglýsa skuli öll laus störf leikskólakennara. Til að auka starfsöryggi þessa fólks, sem oft hefur mikla þekkingu og reynslu af störfum í leikskóla, leggur nefndin til breytingar á frumvarpinu í þá átt að hafi tiltekið starf leikskólakennara verið auglýst í tvígang án þess að menntaður leikskólakennari hafi fengist verði heimilt að ráða viðkomandi starfsmann í starfið. Enn fremur telur nefndin rétt að tryggja að þeir starfsmenn sem ekki hafa kennaramenntun og ráðnir hafa verið á grundvelli gildandi laga haldi starfi sínu. Leggur nefndin því til breytingu á bráðabirgðaákvæði frumvarpsins.
    Það er álit nefndarinnar að góð menntun sé ekki síður mikilvæg á leikskólastigi en á öðrum stigum skólastarfs. Enn fremur sé mikilvægt að sambærilegar menntunarkröfur séu gerðar til leikskólakennara og grunnskólakennara með tilliti til samfellu í skólastarfi. Álítur nefndin því að möguleiki á flæði kennara milli aðliggjandi skólastiga, sbr. 24. gr. frumvarpsins, sé mikilvæg nýjung í skólastarfi. Það gefi meðal annars færi á því að í yngstu bekkjum grunnskóla geti komið inn sjónarmið leikskólakennara í kennsluháttum. Telur nefndin að grundvöllur fyrir þessu flæði kennara milli skólastiga sé sá að kröfur til kennaramenntunar verði þær sömu á mismunandi skólastigum. Leggur nefndin því ekki til breytingar á 3. gr. frumvarpsins.
    Því sjónarmiði var hreyft fyrir nefndinni að óljóst væri um hvers konar námseiningar væri að ræða í 4. tölul. 2. mgr. 4. gr. frumvarpsins, sem kveður á um heimild þeirra sem lokið hafa fullgildu lokaprófi í listgrein, tæknigrein eða verkgrein sem nýtist á grunnskólastigi, til að nota starfsheiti grunnskólakennara. Áréttar nefndin að hér sé átt við ECTS-einingar eða staðlaðar námseiningar, sbr. lög nr. 63/2006, um háskóla. Leggur nefndin til breytingu á 8. gr. frumvarpsins til að taka af allan vafa sem kann að hafa verið uppi.
    Nefndin áréttar mikilvægi þess að samræmis sé gætt milli allra skólastiganna, eftir því sem við á. Leggur nefndin til að samræmis verði gætt milli ákvæða 9., 12. og 16. gr. frumvarpsins þar sem krafist er starfsheitis grunnskólakennara, sbr. 1. mgr. 12. gr., og starfsheitis framhaldsskólakennara, sbr. 1. mgr. 16. gr., svo að viðkomandi geti verið ráðinn til kennslu á þeim skólastigum.
    Nokkur umræða átti sér stað innan nefndarinnar um ráðningu sérfræðinga í grunnskólum skv. 4. mgr. 12. gr. frumvarpsins. Þar er kveðið á um að til grunnskóla megi ráða tímabundið, að hámarki eitt ár í senn, sérfræðing til að kenna sérgrein sína enda sé kennslan ekki meira en 240 mínútur á viku. Telur nefndin rétt að undirstrika að hér er ekki eingöngu átt við háskólamenntaða sérfræðinga heldur sé grunnskólum veitt svigrúm til að fá til sín sérfróða einstaklinga á ákveðnu sviði, til dæmis ákveðinni starfsgrein eða tómstundaiðju. Þannig getur einstaklingur með mikla reynslu á ákveðnu sviði fallið undir ákvæðið.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að þeir sem lokið hafa bakkalárprófi á sviði uppeldis- og kennslugreina njóti forgangs umfram aðra til starfa í leikskólum og grunnskólum, sbr. 3. og 4. mgr. 23. gr. Er einnig kveðið á um slíkan forgang einstaklings til starfa í framhaldsskóla hafi hann lokið starfsréttindaprófi eða háskólaprófi ásamt a.m.k. 120 stöðluðum námseiningum í viðkomandi kennslugrein. Telur nefndin rétt að ítreka að hér er einungis átt við forgang viðkomandi einstaklinga umfram þá sem ekki hafa starfsheiti leikskólakennara, grunnskólakennara eða framhaldsskólakennara. Leggur nefndin til breytingu á frumvarpinu til samræmis við þetta.
    Töluverð umræða fór fram í nefndinni um hæfnisskilyrði stjórnenda leik-, grunn- og framhaldsskóla. Nokkurs misræmis gætir milli 10. og 13. gr. frumvarpsins um ráðningu skólastjórnenda við leikskóla og grunnskóla og 17. gr. frumvarpsins sem kveður á um ráðningu skólastjórnenda framhaldsskóla. Eins og ákvæði frumvarpsins eru nú eru gerðar meiri kröfur til skólastjórnenda leikskóla og grunnskóla en stjórnenda framhaldsskóla. Gerð er krafa um viðbótarmenntun í stjórnun eða kennslureynslu til þeirra sem sækja um starf leikskólastjóra eða skólastjóra grunnskóla auk starfsheitisins leikskólakennari eða grunnskólakennari, eftir því sem við á. Í 17. gr. er aftur á móti einungis gerð krafa um að viðkomandi hafi starfsheitið framhaldsskólakennari. Telur nefndin að samræma þurfi þær kröfur sem gera eigi til stjórnenda mismunandi skólastiga og leggur til breytingar á frumvarpinu þar um.
    Nefndin leggur jafnframt til aðrar smávægilegar breytingar á frumvarpinu sem einkum varða lagatæknileg atriði.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Kolbrún Halldórsdóttir og Höskuldur Þórhallsson skrifa undir álit þetta með fyrirvara.
    Paul Nikolov var fjarverandi við afgreiðslu málsins. Kjartan Eggertsson sat fundinn sem áheyrnarfulltrúi í stað Jóns Magnússonar og er hann samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 9. maí 2008.Sigurður Kári Kristjánsson,


form., frsm.


Einar Már Sigurðarson.


Pétur H. Blöndal.Guðbjartur Hannesson.


Höskuldur Þórhallsson,


með fyrirvara.


Ragnheiður Ríkharðsdóttir.Katrín Júlíusdóttir.


Kolbrún Halldórsdóttir,


með fyrirvara.