Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 477. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 1026  —  477. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, með síðari breytingum.

Frá umhverfisnefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið. Umsagnir bárust frá Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Skotveiðifélagi Íslands og Félagi leiðsögumanna með hreindýraveiðum.
    Í 1. gr. frumvarpsins er lögð til breyting á gjaldi fyrir veiðikort úr 2.200 kr. í 3.500 kr. fyrir hvert veiðiár. Enn fremur er að finna nýmæli þess efnis að sé veiðiskýrslu ekki skilað inn fyrir ákveðin tímamörk komi til hækkunar gjalds fyrir veiðikort í 5.000 kr. Líkt og fram kemur í athugasemdum við frumvarpið hefur gjaldið ekki hækkað frá árinu 2003 og þar af leiðandi ekki fylgt verðlagsþróun undanfarin fimm ár. Nefndin telur að sú hækkun sem frumvarpið gerir ráð fyrir sé tímabær, ekki síst í ljósi þess að gjaldinu er ætlað að standa undir kostnaði við rannsóknir á stjórn á friðun og veiðum villtra dýra og fugla. Enn fremur telur nefndin að mikilvægt sé að tryggja með sem bestum hætti að veiðikortshafi skili inn veiðiskýrslu enda hafa þær að geyma upplýsingar sem skapa grundvöll rannsókna á ástandi og stofnstærð villtra fugla og dýra. Sú hækkun á gjaldi fyrir veiðikort sem frumvarpið kveður á um, sé veiðiskýrslu ekki skilað á réttum tíma, mun að áliti nefndarinnar hvetja veiðikortshafa til að skila inn veiðiskýrslum og þannig fáist réttari mynd af ástandi og stofnstærð viðkomandi dýrategunda. Álítur nefndin að með endurskoðun gjaldsins og tryggari skilum veiðiskýrslna séu stoðir þessa rannsóknastarfs styrktar.
    Í 2. gr. frumvarpsins er kveðið á um rétt Umhverfisstofnunar til að halda námskeið fyrir þá sem vilja gerast leiðsögumenn með hreindýraveiðum og til að innheimta gjald til að standa straum af kostnaði við slík námskeið. Ekki eru gerðar athugasemdir við þær breytingar sem frumvarpið kveður á um í umsögnum. Aftur á móti koma þar fram nýjar tillögur um hvað betur mætti fara í þessum efnum. Vill nefndin árétta að tímabært sé, í ljósi tíðra breytinga á lögum nr. 64/1994, að fram fari heildarendurskoðun á þeim. Er það álit nefndarinnar að tillögur umsagnaraðila eigi betur heima við slíka endurskoðun.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
         Kolbrún Halldórsdóttir og Árni Þór Sigurðsson skrifa undir álit þetta með fyrirvara er lýtur að endurskoðun laga nr. 64/1994.
    Kristinn H. Gunnarsson sat fundinn sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 19. maí 2008.Helgi Hjörvar,


form., frsm.


Kjartan Ólafsson.


Kolbrún Halldórsdóttir,


með fyrirvara.Illugi Gunnarsson.


Katrín Júlíusdóttir.


Höskuldur Þórhallsson.Guðfinna S. Bjarnadóttir.


Ólöf Nordal.


Árni Þór Sigurðsson,


með fyrirvara.