Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 545. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 1039  —  545. mál.
Nefndarálitum. frv. til l. um breyt. á l.um Lánasjóð íslenskra námsmanna, nr. 21/1992, með síðari breytingum.

Frá menntamálanefnd.


                                  
    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðmund Árnason ráðuneytisstjóra, Jón Vilberg Guðjónsson og Hellen Gunnarsdóttur frá menntamálaráðuneyti og Steingrím Ara Arason frá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Þá hafa nefndinni borist umsagnir og erindi frá Alþýðusambandi Íslands, Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri, Kennaraháskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri, Lánasjóði íslenskra námsmanna, Stúdentaráði Háskóla Íslands, Bandalagi íslenskra námsmanna, Sambandi íslenskra námsmanna erlendis og Sambandi íslenskra framhaldsskólanema. Engar athugasemdir voru gerðar við frumvarpið af hálfu þessara aðila.
    Með frumvarpinu er lögð til breyting á 13. gr. laga nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna, til samræmis við rökstutt álit Eftirlitsstofnunar EFTA frá 19. júlí 2006. Í áliti stofnunarinnar segir að búsetuskilyrði laganna feli í sér óbeina mismunun gagnvart farandlaunþegum og fjölskyldum á framfæri þeirra. Í 28. gr. EES-samningsins er kveðið á um frjálst flæði launþega innan Evrópska efnahagssvæðisins og í 31. gr. samningsins er veittur sambærilegur réttur til sjálfstætt starfandi einstaklinga, sbr. lög nr. 2/1993. Enn fremur segir í 2. mgr. 7. gr. laga nr. 47/1993, um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, að launþegar skuli njóta sömu félagslegra réttinda og skattaívilnana og innlendir launþegar. Námslán teljast til félagslegra réttinda þessum skilningi. Eins og 13. gr. laga nr. 21/1992, er úr garði gerð skulu umsækjendur lána vera búsettir á Íslandi. Auk þess verður viðkomandi að hafa haft hér fasta búsetu undanfarin tvö ár eða í þrjú ár af síðustu tíu árum fyrir upphaf þess tímabils sem sótt er um námslán vegna. Hin óbeina mismunun felst í því að þrátt fyrir lagatextinn mismuni ekki samkvæmt orðanna hljóðan þá eru áhrif hans þau að Íslendingar eiga auðveldara með að uppfylla búsetuskilyrðin en aðrir ríkisborgarar EES-ríkjanna.
    Í frumvarpinu er brugðist við þessari mismunun á þann hátt að námsmenn sem eru íslenskir ríkisborgarar og námsmenn og fjölskyldur þeirra sem eru ríkisborgarar ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu, og eru efnahagslega virkir og uppfylla skilyrði laganna, svo og reglna sem settar eru með stoð í þeim, eiga rétt á námslánum. Enn fremur kveður frumvarpið á um að efnahagslega óvirkir ríkisborgarar ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu, og fjölskyldur þeirra, sem búið hafa hér á landi samfellt í fimm ár öðlist rétt til námslána. Hvað felst í samfelldri búsetu er svo nánar tilgreint í 4. mgr. 1. gr. frumvarpsins.
    Nefndin kynnti sér reglur sem gilda um þessi mál annars staðar á Norðurlöndunum og er þar að finna sambærilega leið og farin er í frumvarpi þessu þar sem sett eru opin ákvæði og ráðherra gefin heimild til frekari reglusetningar. Er það álit nefndarinnar að með frumvarpinu sé komið á móts við álit Eftirlitsstofnunar EFTA þar sem efnahagslega virkir einstaklingar komi til með að sitja við sama borð og íslenskir ríkisborgarar verði frumvarp þetta að lögum.     Áréttar nefndin jafnframt að fimm ára búsetuskilyrði fyrir ríkisborgara ríkja á EES-svæðinu sem eru efnahagslega óvirkir feli ekki í sér mismunun þar sem um ólíka hópa er að ræða.     Nefndin telur rétt að samræma hugtakanotkun í frumvarpinu en þar er hvort tveggja talað um námsaðstoð og námslán. Er það álit nefndarinnar að námsaðstoð á Íslandi felist í námslánakerfinu sjálfu og kjörum námslána, svo sem vaxtastigi þeirra, lánstíma og niðurfellingu lána. Leggur nefndin því til að orðið námslán verði notað í stað námsaðstoðar. Áréttar nefndin að hér er eingöngu um orðalagsbreytingu að ræða sem hefur ekki áhrif á efnisatriði frumvarpsins.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:

    Í stað orðsins „námsaðstoðar“ í 3. mgr. 1. gr. og sama orðs hvarvetna annars staðar í frumvarpinu komi, í viðeigandi beygingarfalli: námslána.

    Jón Magnússon sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 20. maí 2008.Sigurður Kári Kristjánsson,


form., frsm.


Einar Már Sigurðarson.


Illugi Gunnarsson.Guðbjartur Hannesson.


Höskuldur Þórhallsson.


Ragnheiður Ríkharðsdóttir.Katrín Júlíusdóttir.


Kolbrún Halldórsdóttir.