Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 526. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 1049  —  526. mál.




Nefndarálit


um frv. til l. um endurskoðendur.

Frá efnahags- og skattanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þórð Reynisson og Hörpu Theodórsdóttur frá fjármálaráðuneyti, Margréti G. Flóvenz frá Félagi löggiltra endurskoðenda, Lárus Ögmundsson og Albert Ólafsson frá Ríkisendurskoðun, Sæmund Valdimarsson og Hrafn Magnússon frá Landssamtökum lífeyrissjóða, Jónu Björk Guðnadóttur frá Samtökum fjármálafyrirtækja og Harald I. Birgisson frá Viðskiptaráði. Þá hafa nefndinni borist umsagnir frá Tollstjóranum í Reykjavík, Félagi íslenskra stórkaupmanna, Samtökum fjárfesta, ríkisskattstjóra, Seðlabanka Íslands, Kauphöll Íslands, Viðskiptaráði Íslands, Félagi löggiltra endurskoðenda, ríkislögreglustjóra, Samtökum fjármálafyrirtækja, ríkisendurskoðun, Deloitte og Fjármálaeftirlitinu.
    Í frumvarpi því sem er til umfjöllunar eru innleidd ákvæði 8. félagatilskipunar ESB nr. 2006/43/EB en tilskipuninni er ætlað að samræma vinnubrögð og tryggja áreiðanleika við reikningsskil í því augnamiði að efla traust í viðskiptum á EES-svæðinu, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 160/2006. Tilskipunin setur þar af leiðandi ákveðnar lágmarkskröfur um reglur sem varða endurskoðun og endurskoðendur í aðildarríkjunum. Frumvarpið er lagt fram samhliða frumvarpi til laga um breyting á lögum um ársreikninga, nr. 3/2006 (mál nr. 527).
    Á fundum nefndarinnar var rætt um hvaða lagalega þýðingu alþjóðlegir endurskoðunarstaðlar, sem vísað er til í 9. gr. frumvarpsins, hafa og hvernig rétt sé að standa að innleiðingu þeirra. Ráðuneytið sendi nefndinni minnisblað af þessu tilefni þar sem fram kemur að upptaka staðlanna í íslenskan rétt leiði af skuldbindingum Íslands samkvæmt EES-samningnum. Þeim sé ætlað að samræma framkvæmd endurskoðunar á hinum innri markaði og þar sem þeir varði einkar tæknileg atriði sé ekki talin þörf á að bera þá undir löggjafann í hvert skipti heldur látið þar við sitja að fela ráðherra að annast innleiðingu á grundvelli 31. gr. frumvarpsins. Sú aðferð við innleiðingu er í samræmi við 127. gr. laga nr. 3/2006, um ársreikninga, sem fjallar um upptöku alþjóðlegra reikningsskilastaðla.
    Þá ræddi nefndin um inntak og eðli siðareglna, einkum í ljósi skyldu endurskoðenda til að eiga aðild að Félagi löggiltra endurskoðenda. Rætt var um hvort félaginu væri með þessu fengið opinbert vald. Fram kom að vald félagsins sætti takmörkun þar sem gildi siðareglna sem því er falið að setja er komið undir samþykki fjármálaráðherra. Þá væri ekki ástæða til að ætla að heimild félagsins til að taka árgjald af félagsmönnum yrði misbeitt þar sem gjaldinu er einvörðungu ætlað að standa undir kostnaði vegna lögbundinnar starfsemi félagsins.
    Í tilefni af athugasemdum fjallaði nefndin nokkuð um hugtakið endurskoðandi sem skilgreint er í 1. gr. frumvarpsins. Fram kom að í ákvæðinu fælist ekki breyting frá gildandi lögum. Þá var talið, með hliðsjón af niðurstöðu nefndar sem vann að undirbúningi frumvarpsins, að ekki væri ástæða til að gera greinarmun á hugtökunum löggiltur endurskoðandi og endurskoðandi.
    Loks ræddi nefndin skilgreiningu frumvarpsins á hugtakinu eining tengd almannahagsmunum en í frumvarpi sem fjármálaráðherra leggur fram samhliða og varðar breytingu á lögum um ársreikninga (mál nr. 527) er kveðið á um að við slíka einingu skuli starfa endurskoðunarnefnd sem skipuð sé þremur mönnum hið minnsta. Samtök fjármálafyrirtækja lögðu áherslu á að smáir og meðalstórir sparisjóðir og fjármálafyrirtæki yrðu undanþegin skyldu til að koma á fót endurskoðunarnefnd. Þá töldu Landssamtök lífeyrissjóða að með því að fella lífeyrissjóði undir hugtakið væri að ástæðulausu verið að ganga lengra en gert er ráð fyrir í tilskipuninni sem liggur frumvarpinu til grundvallar. Vísa samtökin til þess að íslensku lífeyrissjóðirnir búi nú þegar við margfalt eftirlitskerfi. Fulltrúar fjármálaráðuneytisins tóku ekki undir framangreindar röksemdir og fulltrúi félags löggiltra endurskoðenda taldi að ekki væri ástæða til að ætla að umræddur áskilnaður hefði mikinn kostnaðarauka í för með sér. Fram kom að mikilvægi endurskoðunarnefnda fælist einna helst í aðkomu að vali á endurskoðanda fyrir eininguna og eftirliti með því að sami endurskoðandinn starfaði ekki samfellt lengur en sjö ár við endurskoðun einingar tengdrar almannahagsmunum.
    Nefndin leggur áherslu á að beiting þeirra valdheimilda sem Félagi löggiltra endurskoðanda eru fengnar í frumvarpinu samræmist meðalhófi og taki mið af lögbundnu hlutverki félagsins sem felst í því að tryggja gæði endurskoðunar og koma í veg fyrir að endurskoðendur eigi óeðlilegra hagsmuna að gæta við störf sín.
    Með hliðsjón af athugasemdum Félags löggiltra endurskoðenda og að höfðu samráði við fjármálaráðuneytið telur nefndin rétt að í frumvarpið komi bráðabirgðaákvæði um réttarstöðu þeirra sem rétt eiga samkvæmt gildandi lögum til að starfa sem löggiltir endurskoðendur. Nefndin leggur einnig til að í 16. gr. frumvarpsins sem fjallar um málskot til endurskoðendaráðs verði tilgreindur málskotsfrestur. Þá leggur nefndin til orðalagsbreytingu á 4. mgr. 20. gr. frumvarpsins.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Bjarni Benediktsson, Ragnheiður E. Árnadóttir og Ögmundur Jónasson gera fyrirvara við álitið. Fyrirvari Bjarna og Ragnheiðar varðar málsmeðferð við innleiðingu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar. Bjarni gerir einnig fyrirvara er lýtur að félagaskyldu.
    Gunnar Svavarsson og Paul Nikolov voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 19. maí 2008.


Pétur H. Blöndal,

form., frsm.

Ellert B. Schram.

Ögmundur Jónasson,

með fyrirvara.


Bjarni Benediktsson,

með fyrirvara.

Magnús Stefánsson.

Ragnheiður E. Árnadóttir,

með fyrirvara.


Lúðvík Bergvinsson.