Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 476. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 1058  —  476. mál.
Nefndarálit


um frv. til l. um breyt. á l. nr. 131/1997, um rafræna eignarskráningu verðbréfa.

Frá viðskiptanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Áslaugu Árnadóttur og Björgu Finnbogadóttur frá viðskiptaráðuneyti og Harald Inga Birgisson frá Viðskiptaráði.
    Frumvarpið byggist á tillögum nefndar sem viðskiptaráðherra skipaði 19. desember 2007 til að fara yfir lagaákvæði er varða uppgjör innlends hlutafjár sem er skráð í erlendri mynt.
    Í frumvarpinu er lagt til að gera peningalegt uppgjör verðbréfa sem skráð eru í erlendum gjaldmiðlum í íslenskri verðbréfamiðstöð mögulegt með því að bæta við 15. gr. laga um rafræna eignarskráningu verðbréfa ákvæðum um að verðbréfamiðstöð hafi milligöngu um uppgjör slíkra verðbréfa.
    Í 1. mgr. 15. gr. laganna eru verðbréf skráð í erlendum gjaldmiðli ekki sérstaklega nefnd og sýnist eðlilegt að skilja ákvæðið þannig að það eigi fyrst og fremst við um uppgjör viðskipta með verðbréf í íslenskum krónum. Til að eyða óvissu um það hvaða reglur gilda um uppgjör íslenskra verðbréfa sem skráð eru í erlendri mynt eru gerðar tillögur um tvær efnislegar breytingar á 15. gr. Annars vegar er lagt til að skýrt verði tekið fram að 1. mgr. 15. gr. eigi eingöngu við um verðbréf í íslenskum krónum. Hins vegar er lagt til að bætt verði við greinina nýrri málsgrein sem kveði á um öruggan farveg fyrir fullnaðaruppgjör viðskipta með verðbréf sem skráð eru í erlendri mynt. Gert er ráð fyrir því að þessi tilhögun verði háð samþykki Fjármálaeftirlitsins að fenginni umsögn Seðlabanka Íslands og uppfylli jafngildar kröfur og gerðar eru í lögum um öryggi greiðslufyrirmæla í greiðslukerfum. Einnig er gerð tillaga um skýr ákvæði um eignarhald viðskiptaaðila á fjármunum í vörslu verðbréfamiðstöðva og um setningu reglna um uppgjör verðbréfaviðskipta og um samráðsnefnd fyrirtækja og stofnana á sviði verðbréfaviðskipta til þess að fjalla um málefni tengd uppgjöri og frágangi.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Birkir J. Jónsson og Jón Gunnarsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 16. maí 2008.


Ágúst Ólafur Ágústsson,

form., frsm.

Guðfinna S. Bjarnadóttir.

Jón Bjarnason.


Birgir Ármannsson.

Árni Páll Árnason.

Björk Guðjónsdóttir.


Höskuldur Þórhallsson.