Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 387. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 1065  —  387. mál.
Framhaldsnefndarálit


um frv. til l. um breyt. á l. nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta félags- og tryggingamálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið milli 2. og 3. umræðu samkvæmt heimild í 2. mgr. 29. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991.
     Eins og fram kemur í nefndaráliti um málið, dags. 24. apríl 2008, ræddi nefndin um aðgang Vinnumálastofnunar að gögnum skattyfirvalda, skv. b-lið 13. gr. frumvarpsins og lagði til þá breytingu á honum að við setninguna „ Skattyfirvöld skulu láta Vinnumálastofnun í té upplýsingar sem nauðsynlegar eru eftirlitinu með framkvæmd laganna “ bættust orðin „enda hafi umsækjandi verið upplýstur um það“. Í nefndaráliti sagði að breytingin væri í þá veru að á umsókn um fæðingarorlof væru upplýsingar til umsækjanda um að hann samþykkti jafnframt að skattyfirvöld létu Vinnumálastofnun í té upplýsingar sem nauðsynlegar væru eftirlitinu með framkvæmd laganna, enda væri það forsenda bótanna.
    Við 2. umræðu um málið var því hreyft að ekki væri samræmi milli þess sem fram kæmi í áliti nefndarinnar og breytingartillögu hennar við b-lið 13. gr. Það væri ekki það sama að umsækjandi væri upplýstur um að Vinnumálastofnun gæti sótt upplýsingar til skattyfirvalda og að hann hefði samþykkt það.
    Með lögum nr. 90/2004 var lögum um fæðingar- og foreldraorlof breytt þannig að farið var að samkeyra útgreiðslur Fæðingarorlofssjóðs við skattkerfið. Tryggingastofnun ríkisins var með lögunum gefin heimild til að sækja upplýsingar um umsækjendur úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá beint til skattyfirvalda sem var gert skylt að veita upplýsingarnar. Síðari breyting á lögunum, með lögum nr. 155/2006, færði þessa heimild Tryggingastofnunar til Vinnumálastofnunar, sbr. núverandi 15. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof. Vinnumálastofnun hefur því nú þegar aðgang að skattgögnum umsækjenda sem nauðsynlegar eru við framkvæmd laganna. Breyting sú sem frumvarpið leggur til nú á b-lið 13. gr. færir eftirlit með framkvæmd laganna frá skattyfirvöldum til Vinnumálastofnunar og leggur því þá skyldu á skattyfirvöld að veita stofnuninni þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru eftirlitinu með framkvæmd laganna.
    Meiri hluti nefndarinnar áréttar það sem fram kom í nefndaráliti dags . 24. apríl 2008 að sambærilegar heimildir til að sækja upplýsingar til skattyfirvalda er að finna í lögum nr. 22/2006, um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, og í lögum um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006 . Að auki virðist ekki vera um að ræða teljanlegar breytingar á aðgangi Vinnumálastofnunar að upplýsingum umfram núgildandi lög. Meiri hlutinn telur þó eðlilegt að við samkeyrslu upplýsinga af því tagi sem kveðið er á um í lögunum sé samþykkis umsækjanda leitað og honum gert ljóst til hvaða gagna samþykkið taki.
    Meiri hlutinn ítrekar þann skilning sinn að það sé forsenda fyrir greiðslum úr fæðingarorlofssjóði að umsækjendur um fæðingarorlof samþykki að Vinnumálastofnun sé heimilt að afla skattgagna þeirra frá skattyfirvöldum og leggur því til breytingu á 11. gr. frumvarpsins þannig að við 3. mgr. 15. gr. laganna bætist ákvæði um að samþykki umsækjanda þurfi fyrir öflun gagnanna.
    Áfram er gert ráð fyrir því að einungis verði greitt úr sjóðnum á grundvelli skattframtala, staðgreiðsluskrár og tryggingagjaldskrár sem skattyfirvöld láta Vinnumálastofnun í té. Ef umsækjandi samþykkir ekki að Vinnumálastofnun afli nauðsynlegra gagna hjá skattyfirvöldum skv. 15. gr. laganna verður fæðingarorlof ekki greitt. Við þessar aðstæður eru ekki forsendur fyrir því að skattyfirvöld láti Vinnumálastofnun í té upplýsingar um umsækjanda í tengslum við eftirlit með framkvæmd laganna. Þá er litið til þess að samkvæmt athugasemdum við 13. gr. frumvarpsins kemur fram að til að sinna eftirlitinu þurfi upplýsingar úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá sem Vinnumálastofnun hefur þegar aðgang að skv. 15. gr. laganna. Telur meiri hlutinn því nægilegt að umsækjandi samþykki öflun nauðsynlegra gagna við framkvæmd laganna og hann verði upplýstur um öflun gagnanna til nota við eftirlitið.
    Við lestur frumvarpsins, með breytingum eftir 2. umræðu, kom í ljós að leiðrétta þarf eina tilvísun í lögin og leggur meiri hlutinn því til breytingu þess efnis.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Ásta R. Jóhannesdóttir og Ögmundur Jónasson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.


Alþingi, 21 . maí 2008.

Guðbjartur Hannesson ,
form., frsm.
Ármann Kr. Ólafsson .
Birkir J. Jónsson .

Árni Johnsen.
Jón Gunnarsson .
Illugi Gunnarsson .

.