Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 529. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 1097  —  529. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 6/2001, um skráningu og mat fasteigna, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og skattanefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þórhall Arason frá fjármálaráðuneyti, Hauk Ingibergsson og Margréti Hauksdóttur frá Fasteignamati ríkisins, Guðjón Bragason og Gunnlaug Júlíusson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Helgu Jónsdóttur og Ólaf L. Einarsson frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Sigurjón Helga Guðjónsson frá Húseigendafélaginu og Harald Inga Birgisson frá Viðskiptaráði. Þá hafa nefndinni borist umsagnir frá Skipulagsstofnun, Ásahreppi, Stykkishólmsbæ, ríkisskattstjóra, Byggðastofnun, Seðlabanka Íslands, Hagstofu Íslands, Ríkisendurskoðun, Fasteignamati ríkisins, Reykjavíkurborg, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Viðskiptaráði Íslands, Umhverfisstofnun, Samtökum fjármálafyrirtækja, Mosfellsbæ, Skeiða- og Gnúpverjahreppi, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Félagi fasteignasala, Eyþingi, Hvalfjarðarsveit og Fljótsdalshreppi. Einnig hafa nefndinni borist tilkynningar frá Íbúðalánasjóði.
    Í frumvarpinu eru lagðar til ýmsar breytingar á starfsemi Fasteignamats ríkisins m.a. með hliðsjón af áherslum sem fram koma í áliti efnahags- og skattanefndar frá 12. desember 2007, sbr. þskj. 492, 289. mál. Kom þar fram að nefndin teldi ekki lengur ástæðu til að láta húseigendur bera kostnað af rekstri stofnunarinnar nú þegar Landskrá fasteigna væri komin í fullan rekstur. Þess í stað lagði nefndin til að fyrst og fremst ættu tekjur sem tilkomnar væru vegna þjónustu við aðila sem mesta hagsmuni hefðu af skránni að standa undir rekstrinum. Aðrar helstu breytingar frumvarpsins varða nýtt heiti stofnunarinnar, tilhögun fasteignaskráningar og aðferð við endurmat fasteigna.
    Við meðferð málsins gerðu Samband íslenskra sveitarfélaga og Samtök fjármálafyrirtækja athugasemdir við þá leið sem valin er við fjármögnun stofnunarinnar. Af hálfu sambandsins var á það bent að hagsmunir ríkisins af skránni væru miklir og því eðlilegt að ríkið legði sitt af mörkum til reksturs stofnunarinnar. Samtök fjármálafyrirtækja töldu að gjald vátryggingafélaga fyrir afnot þeirra af brunabótamati fengi ekki staðist þar sem rekja mætti afnotin til lögbundinnar skyldu húseigenda til brunatrygginga.
    Á fundum nefndarinnar gerði Samband íslenskra sveitarfélaga einnig athugasemdir við nýtt heiti stofnunarinnar og að það hefði ekki verið rætt innan stjórnar. Fulltrúi Húseigendafélagsins óskaði eftir því að félagið fengi að tilnefna aðila í stjórn.
    Nefndin telur að ákvæði frumvarpsins standi því ekki í vegi að ríkið greiði gjald til Fasteignaskrár Íslands fyrir almenn not af skránni en bendir á að sumar stofnanir ríkisins eiga lögvarinn rétt til aðgangs að skránni. Nefndin tekur einnig fram að Samband íslenskra sveitarfélaga og Samtök fjármálafyrirtækja munu samkvæmt frumvarpinu eiga sinn fulltrúa hvort í þriggja manna stjórn stofnunarinnar. Stjórninni er m.a. ætlað að gera tillögu að gjaldskrá stofnunarinnar til ráðherra. Nefndin gerir ekki athugasemd við val á nýju heiti stofnunarinnar og telur að það lýsi ágætlega meginþáttum í starfsemi hennar.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:


     1.      Við 14. gr. Í stað orðanna „eru í tryggingu“ í b-lið b-liðar komi: eru tryggðar.
     2.      Við 18. gr. Greinin orðist svo:
             Orðin „skv. 31. gr.“ og „samkvæmt þeirri grein“ í 1. mgr. 34. gr. laganna falla brott.
     3.      Við 20. gr. Við greinina bætist: og í stað orðanna „það telur“ í 32. gr. laganna kemur: hún telur.
     4.      Við 24. gr. Í stað orðanna „1., 2., 4., 7. og 10. mgr.“ í b-lið 7. tölul. komi: 1., 2., 4. og 7. mgr.

    Ögmundur Jónasson skrifar undir álitið með fyrirvara.
    Ellert B. Schram, Lúðvík Bergvinsson og Paul Nikolov voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Grétar Mar Jónsson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi.

Alþingi, 16. maí 2008.Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Ögmundur Jónasson,


með fyrirvara.


Bjarni Benediktsson.Gunnar Svavarsson.


Magnús Stefánsson.


Ragnheiður E. Árnadóttir.