Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 471. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 1100  —  471. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um stofnun opinbers hlutafélags um rekstur Keflavíkurflugvallar o.fl.

Frá meiri hluta samgöngunefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnhildi Hjaltadóttur, Friðfinn Skaftason og Karl Alvarsson frá samgönguráðuneytinu, Trausta Baldursson frá Umhverfisstofnun, Þorvald Heiðar Þorsteinsson frá Skipulagsstofnun, Borgar Valgeirsson frá Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Helgu Jónsdóttur frá BSRB, Stefán Thordersen frá flugmálastjórn Keflavíkurflugvelli, Jens Bjarnason og Árna Gunnarsson frá Samtökum ferðaþjónustunnar, Hauk Hauksson frá Flugstoðum, Sigurð Jónsson frá Samtökum verslunar og þjónustu, Loft Jóhannsson, Davíð Hansson og Ástráð Haraldsson frá Félagi íslenskra flugumferðarstjóra.
    Umsagnir bárust frá Reykjanesbæ, Vegagerðinni, Flugráði, SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu, Landhelgisgæslu Íslands, Samtökum ferðaþjónustunnar, Skipulagsstofnun, Flugmálastjórn Íslands, ríkislögreglustjóra, Félagi íslenskra flugumferðarstjóra, Persónuvernd, Flugmálastjórn Keflavíkurflugvelli, Flugstoðum ohf., Umhverfisstofnun, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samkeppniseftirlitinu, Félagi slökkviliðsmanna á Keflavíkurflugvelli, Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, BSRB og Sandgerðisbæ.
    Með frumvarpinu er lagt til að stofnað verði opinbert hlutafélag um rekstur flugvallarsvæðis Keflavíkurflugvallar og Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Gert er ráð fyrir að félagið verði allt í eigu íslenska ríkisins og að sala þess verði óheimil.
    Á fundum sínum ræddi nefndin nokkuð um tilgang félagsins skv. 4. gr. frumvarpsins en þar er ekki tekinn fram sá megintilgangur félagsins að reka borgaralegan alþjóðaflugvöll auk þess að hagnýta flugvallarsvæðið í þágu öryggis- og varnartengdrar starfsemi og þjóðlegra skuldbindinga ríkisins. Telur meiri hlutinn rétt að það verði skýrlega tekið fram og leggur til breytingu í þá veru.
    Á fundum sínum ræddi nefndin skipulags- og mannvirkjamál á svæðinu en frumvarpið mælir fyrir um áframhaldandi sérstöðu þess þar sem gert er ráð fyrir að utanríkisráðherra fari með yfirstjórn skipulags- og mannvirkjamála á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli en sérstök sex manna skipulagsnefnd skipuð af samgönguráðherra fari með málefni flugvallarsvæðisins. Gert er ráð fyrir að sveitarfélögin Garður, Reykjanesbær og Sandgerði tilnefni hvert einn fulltrúa í nefndina auk fulltrúa sem tilnefndir eru af umhverfisráðherra og Skipulagsstofnun og einn skal skipaður án tilnefningar af samgönguráðherra. Á fundi nefndarinnar komu fram sjónarmið um að samþykktir skipulagsnefndarinnar kæmu til umfjöllunar og afgreiðslu Skipulagsstofnunar og því væri ekki við hæfi að fulltrúi tilnefndur af stofnuninni sæti í nefndinni. Fellst meiri hlutinn á þau rök og leggur til að samgönguráðherra tilnefni fulltrúa í nefnina í stað Skipulagsstofnunar.
    Enn fremur komu fram ábendingar um að ekki væri samræmi milli frumvarps til skipulagslaga, 374. máls, og þessa frumvarps varðandi rétthæð skipulagsáætlana en í 7. mgr. 12. gr. frumvarps til skipulagslaga segir að gildandi skipulagsáætlanir skuli vera í innbyrðis samræmi. Jafnframt segir þar að svæðisskipulag sé rétthærra en aðalskipulag og aðalskipulag rétthærra en deiliskipulag en í 6. mgr. 8. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að við gerð svæðisskipulags á Suðurnesjum samkvæmt skipulagslögum séu hlutaðeigandi skipulagsyfirvöld bundin af samþykktu aðalskipulagi flugvallarsvæðisins. Þetta felur í sér ósamræmi sem meiri hlutinn telur nauðsynlegt að tekið verði á í frumvarpi til skipulagslaga og frumvarpi til laga um mannvirki sem til meðferðar eru í þinginu.
    Í frumvarpinu er ekki lagðar til neinar breytingar á rekstri slökkviliðs Keflavíkurflugvallar en þeim sjónarmiðum var hreyft fyrir nefndinni að slökkviliðið væri ekki nægilega öflugt. Telur meiri hlutinn í því sambandi rétt að taka fram að rekstraraðilar flugvallarins eru bundnir af alþjóðlegum reglum og taka mið af viðbúnaðaráætlunum á erlendum flugvöllum auk þess sem viðbúnaður á flugvöllum er bundinn í reglugerð. Ekki stendur til að slá neitt af öryggiskröfum og viðbúnaði enda telur meiri hlutinn að verði slys á flugvellinum sé það almannavarnamál og um það fari samkvæmt lögum um almannavarnir.
    Þá ræddi nefndin á fundum sínum þær breytingar sem lagðar eru til á réttindum starfsmanna og þá sérstaklega lífeyrismál. Í lokamálsgrein ákvæðis til bráðabirgða II er kveðið á um að starfsmaður sem hefur áunnið sér rétt til lífeyrisgreiðslna hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og ræðst til starfa hjá hlutafélaginu geti ekki hafið töku lífeyris fyrr en hann lætur af því starfi. Í frumvarpi sem varð að lögum nr. 102/2006, um stofnun hlutafélags um flugleiðsöguþjónustu og flugvallarekstur Flugmálastjórnar Íslands, þegar Flugstoðir ohf. voru stofnaðar, var ekki tekið á lífeyrismálum starfsmanna þeirra sem eru í sama stéttarfélagi með sambærilegum hætti. Telur meiri hlutinn að slíka breytingu þyrfti að skoða heildstætt í lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Þegar litið er til jafnræðis og samræmis telur meiri hlutinn því nauðsynlegt að leggja til að lokamálsgrein ákvæðis til bráðabirgða II verði fellt brott.
    Nokkuð var rætt um væntanlegt fyrirkomulag flugleiðsöguþjónustu á Keflavíkurflugvelli og meiri hlutinn telur þá tillögu heppilega sem mælt er fyrir um í bráðabirgðaákvæði III, þ.e. að samgönguráðherra sé heimilt að fela Flugstoðum ohf. þessa þjónustu.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að félagið hefji rekstur og verði stofnað fyrir 1. júní nk. en tíminn er augljóslega orðinn of knappur og leggur meiri hlutinn því til að félagið hefji rekstur 1. janúar 2009 og að aðrar dagsetningar frumvarpsins miðist einnig við þann dag.
    
Þá leggur meiri hlutinn til smávægilegar lagatæknilegar breytingar, þ.e. að fella út tilvísanir í númer laga í 1. gr., 3. mgr. 9. gr. og í ákvæðum til bráðabirgða í frumvarpinu þar sem nægilegt er að vísa til lagaheita og ekki fer milli mála við hvaða lög er átt, auk þess sem það er til einföldunar ef lögum er breytt eða þau endurútgefin að ekki þurfi að gera breytingar á tilvísunum í öðrum lögum samhliða.
    Loks ræddi nefndin samkeppnismálin á fundum sínum og meiri hlutinn telur rétt að taka fram að í frumvarpinu eru ekki gerðar neinar breytingar á því fyrirkomulagi sem ríkt hefur varðandi verslunarrekstur í flugstöðinni hingað til en fríhöfnin er rekin sem sjálfstætt hlutafélag. Leggur meiri hlutinn áherslu á að eftir stofnun hlutafélagsins verði það hlutverk stjórnar félagsins að móta hvernig best verði að reka samkeppnisrekstur á vellinum.
    Meiri hlutinn lítur svo á að samgöngur þurfi að skoða í heild á landi, láði og legi og að frumvarpið sé mikilvægur áfangi í átt að heildstæðu flugsamgöngukerfi. Með breytingunum sem lagðar eru til í frumvarpinu verði flugvöllurinn auk þess betur í stakk búinn til að byggja upp sterka sjálfstæða einingu og geti þannig tekist á í samkeppni við aðra alþjóðlega flugvelli.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.


Alþingi, 22. maí 2008.



Steinunn Valdís Óskarsdóttir,


form., frsm.


Ólöf Nordal.


Herdís Þórðardóttir.



Karl V. Matthíasson.


Ármann Kr. Ólafsson.


Guðjón A. Kristjánsson,


með fyrirvara.