Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 548. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 1110  —  548. mál.
Nefndarálitum frv. til. l. um breyt. á l. nr. 36/1978, um stimpilgjald, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og skattanefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingva Má Pálsson, Guðmund Árnason og Maríönnu Jónasdóttur frá fjármálaráðuneyti, Hauk Ingibergsson og Ástu Guðrúnu Beck frá Fasteignamati ríkisins og Jónu Björk Guðnadóttur frá Samtökum fjármálafyrirtækja. Einnig hafa nefndinni borist umsagnir frá sýslumanninum í Hafnarfirði, ríkisskattstjóra, Neytendasamtökunum, Samtökum fjármálafyrirtækja, Byggðastofnun, Samtökum iðnaðarins, Seðlabanka Íslands, Viðskiptaráði Íslands, Alþýðusambandi Íslands, Fasteignamati ríkisins, Ríkisendurskoðun, Félagi fasteignasala og Fasteignamati ríkisins. Þá hafa nefndinni borist tilkynningar frá Hagstofu Íslands og Íbúðalánasjóði.
    Frumvarpið er lagt fram í framhaldi af yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem gefin var út í tengslum við kjarasamninga Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins hinn 17. febrúar 2008.
    Í frumvarpinu er lagt til að stimpilgjöld falli niður vegna lána til kaupa á fyrstu íbúð. Er þar nánar útlistað hvað átt er við með fyrstu íbúðarkaupum og tilgreint hvaða skilyrði þurfa að vera uppfyllt. Kaupandi má ekki áður hafa verið þinglýstur eigandi íbúðar, hann þarf að verða skráður fyrir minnst helmingseignarhlut í hinni keyptu íbúð og hann þarf að standa að fjármögnun með útgáfu skuldabréfs eða tryggingarbréfs sem tryggt er með veði í fasteign. Frumvarpið gerir ráð fyrir að niðurfelling gjaldsins ráðist jafnframt af eigendasögu maka eða sambúðaraðila kaupanda.
    Á fundum nefndarinnar kom fram að framkvæmd niðurfellingar yrði almennt á ábyrgð sýslumanna sem skýrist af hlutverki þeirra sem þinglýsingarstjóra. Í frumvarpinu eru þeim og öðrum sem annast stimplun skjala, bönkum og sparisjóðum, falið að sannreyna hvort skilyrði niðurfellingar séu uppfyllt og skulu þá jafnan liggja fyrir afrit kaupsamnings, vottorð um hjúskaparstöðu og staðfesting úr Landskrá fasteigna. Ákvörðun stimpilgjalds er hægt að kæra til fjármálaráðuneytis.
    Nefndin ræddi þau skilyrði frumvarpsins sem varða kaup á fyrstu íbúð með hliðsjón af ýmsum markatilvikum sem þó má ætla að sjaldan muni reyna á í framkvæmd. Nefndin ræddi sérstaklega hvort rétt væri að líta aðeins þrjú ár aftur í tímann við mat á því hvort kaupandi hefði áður verið þinglýstur eigandi íbúðar á sama hátt og gert var hjá Íbúðalánasjóði um tíma. Nefndin taldi að efni stæðu ekki til þess að gera slíka breytingu því að það kallaði fram önnur og stærri vandkvæði. Nefndin telur að frumvarpið gefi ekki tilefni til verulegra vandkvæða í framkvæmd.
    Nefndin hefur fjallað um hvort málefnalegt sé að einskorða niðurfellingu stimpilgjalds við kaup á fyrstu fasteign og bendir hún á að frumvarpinu er ætlað að aðstoða fólk við kaup á fyrstu fasteign í samræmi við kjarasamninga. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að stimpilgjald í fasteignaviðskiptum verði afnumið á kjörtímabilinu þegar aðstæður á fasteignamarkaði leyfa. Nefndin telur líklegt að staðan á fasteignamarkaði leyfi niðurfellingu stimpilgjalds en þar sem misvísandi teikn eru um stöðu í efnahagsmálum í heild sinni telur nefndin ekki tímabært að stíga það skref til fulls þótt um það séu skiptar skoðanir. Litið yrði á slíkt sem skattalækkun og það væri ekki heppilegt á meðan Seðlabankinn heldur stýrivöxtum háum til að berjast við verðbólgu. Hins vegar kann að styttast í að staða efnahagsmála gefi færi á að fella gjaldið niður að fullu.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Ögmundur Jónasson og Bjarni Harðarson skrifa undir álitið með fyrirvara. Þeir eru sammála markmiði frumvarpsins en gera fyrirvara við þá leið sem valin er.
    Bjarni Benediktsson og Gunnar Svavarsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Grétar Mar Jónsson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi.

Alþingi, 26. maí 2008.Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Ellert B. Schram.


Ögmundur Jónasson,


með fyrirvara.Lúðvík Bergvinsson.


Paul Nikolov.


Herdís Þórðardóttir.Bjarni Harðarson,


með fyrirvara.