Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 129. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 1118  —  129. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á raforkulögum, nr. 65/2003, með síðari breytingum.

Frá iðnaðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Kristján Skarphéðinsson, Guðjón Axel Guðjónsson og Lárus M.K. Ólafsson frá iðnaðarráðuneyti, Elínu Smáradóttur og Ragnheiði Ingu Þórarinsdóttur frá Orkustofnun, Júlíus Jón Jónsson frá Hitaveitu Suðurnesja hf., Tryggva Þ. Haraldsson og Pétur Þórðarson frá Rarik, Eirík Bogason frá Samorku, Þórð Guðmundsson frá Landsneti og Þórð H. Hilmarsson frá Fjárfestingarstofu. Þá hafa nefndinni borist umsagnir frá landlæknisembættinu, Landsvirkjun, Norðurorku, Landsvirkjun, Rarik, Samorku, Landsneti, Hitaveitu Suðurnesja, ríkislögreglustjóra, Orkuveitu Reykjavíkur, Byggðastofnun, Orkustofnun, Landhelgisgæslu Íslands, Eyþingi og Umhverfisstofnun.
    Efni frumvarpsins má greina í þrennt. Í fyrsta lagi er kveðið á um skyldu flutningsaðila, dreifiveitna og vinnslufyrirtækja til að hafa tiltækar viðbragðsáætlanir við vá auk þess sem lagður er grunnur að neyðarsamstarfi þessara aðila, stórnotenda og hins opinbera á formlegum vettvangi. Í annan stað leggur frumvarpið til lækkun á eftirlitsgjaldi í þeim tilgangi að færa það nær raunkostnaði af eftirliti Orkustofnunar. Í þriðja lagi er lagt til að aflviðmiðun stórnotandahugtaks raforkulaga verði færð úr 14 MW í 8 MW.
    Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að brýn þörf væri á neyðarsamstarfi innan raforkugeirans og að umsjón með verkefninu hefði verið í höndum Landsnets hf. Nú þegar hefði Landsnet í samstarfi við iðnaðarráðuneytið og Orkustofnun komið á fót formlegum samstarfsvettvangi hagsmunaaðila sem nefnist Neyðarsamstarf raforkukerfisins. Fulltrúar hins opinbera á þeim vettvangi séu Orkustofnun og ríkislögreglustjóri.
    Um rökin fyrir lækkun eftirlitsgjalds kom fram á fundi nefndarinnar að í ljósi aukins flutnings innan raforkukerfisins hefðu tekjur af gjaldinu hækkað mikið á meðan kostnaður Orkustofnunar af eftirliti hefði verið nokkuð stöðugur.
    Nefndin ræddi þá breytingu frumvarpsins sem varðar skilgreiningu hugtaksins stórnotandi. Fram kom að rökin fyrir breytingunni væru öðrum þræði að lækka flutningsgjöld orkufreks smáiðnaðar, ekki síst með hagsmuni landsbyggðar og nýsköpunar að leiðarljósi. Fulltrúi Fjárfestingarstofu sem kom á fund nefndarinnar tók fram að breytingin væri til þess fallin að auka áhuga erlendra aðila á að fjárfesta hér á landi og að hún mundi auðvelda uppbyggingu iðnaðar með annars konar orkuþarfir en áður hefur þekkst. Mætti í því sambandi nefna koltrefjaiðnað, netþjónabú og líftækni.
    Á fundum nefndarinnar hafa komið fram áhyggjur af því að lækkun á aflviðmiðun stórnotandahugtaksins geti haft í för með sér aukinn kostnað fyrir aðra notendur flutningskerfisins auk þess að raska innbyrðis verkaskiptingu milli Landsnetsins og dreifiveitna sem ekki er ástæða til að hrófla við nema að vandlega athuguðu máli. Fulltrúar ráðuneytisins hafa hins vegar bent á að tenging stórnotenda við Landsnetið eigi ekki að leiða til kostnaðarauka annarra notenda, sbr. 8. mgr. 12. gr. raforkulaga. Aðrir telja ósennilegt að smáir stórnotendur, þ.e. þeir sem nota afl á bilinu 8 og 14 MW, geti staðið undir byggingu nýrra flutningsvirkja.
     Nefndin telur ekki tímabært að ráðast í breytingu á stórnotandahugtaki raforkulaga og telur að hún þarfnist meiri undirbúnings. Nefndin leggur sérstaka áherslu á að hún komi til skoðunar við endurskoðun raforkulaga sem fyrirhuguð er, sbr. ákvæði XIII til bráðabirgða í raforkulögum.
    Við meðferð málsins var óskað eftir því að nefndin legði til breytingu á 5. mgr. 12. gr. raforkulaga til samræmis við tillögur sem unnar voru í samvinnu fulltrúa Landsnets, Orkustofnunar og dreifiveitna. Eru þær komnar fram vegna áhrifa af gjaldskrárbreytingum Landsnets á tekjur dreifiveitna af innmötun smávirkjana. Með hliðsjón af athugasemdum þessara aðila leggur nefndin til breytingu á 5. mgr. 12. gr. raforkulaga.
    Nefndin fagnar loks ákvæðum frumvarpsins um neyðarsamstarf og lækkun eftirlitsgjalds.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:

     1.      Við 1. gr. B-liður falli brott.
     2.      Á eftir 3. gr. komi ný grein er orðist svo:
             5. mgr. 12. gr. laganna orðast svo:
             Sama gjaldskrá skal vera fyrir innmötun virkjana á flutningskerfið. Þar sem virkjanir tengjast flutningskerfinu um dreifiveitu skal innmötunargjaldið renna til dreifiveitunnar. Greiða skal úttektargjald vegna framleiðslu slíkrar virkjunar til flutningsfyrirtækisins sem hér segir:
         1.      Vegna þeirrar orku sem framleidd er í virkjun sem er undir 1,42 MW skal ekki greiða úttektargjald til flutningsfyrirtækisins.
         2.      Vegna orku sem framleidd er í virkjunum á stærðarbilinu 1,42–3,1 MW skal ekki greiða úttektargjald við neðri stærðarmörkin en síðan skal gjaldið fara hlutfallslega hækkandi þar til það nemur 60% fulls úttektargjalds við efri mörkin.
         3.      Vegna orku frá virkjun sem er 3,1–7 MW skal greiða 60% fulls úttektargjalds.

    Guðni Ágústsson skrifar undir álitið með fyrirvara.
    Ragnheiður E. Árnadóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 26. maí 2008.



Katrín Júlíusdóttir,


form., frsm.


Kristján Þór Júlíusson.


Einar Már Sigurðarson.



Álfheiður Ingadóttir.


Herdís Þórðardóttir.


Guðni Ágústsson,


með fyrirvara.



Björk Guðjónsdóttir.


Grétar Mar Jónsson.