Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 614. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 1119  —  614. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um almannatryggingar, nr. 100/2007, með síðari breytingum.

Frá félags- og tryggingamálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og hafa henni borist umsagnir frá Þroskahjálp, Tryggingastofnun ríkisins, Viðskiptaráði Íslands og Öryrkjabandalagi Íslands.
    Með frumvarpinu er frítekjumark vegna atvinnutekna örorkulífeyrisþega og endurhæfingarlífeyrisþega hækkað úr rúmlega 27 þús. kr. í 100 þús. kr. á mánuði. Ákvæðið er sett til bráðabirgða, tekur gildi 1. júlí 2008 og gildir út árið. Markmið frumvarpsins er að hvetja einstaklinga til vinnu og gera örorkulífeyrisþegum kleift að afla sér aukinna tekna af atvinnu án þess að bætur frá Tryggingastofnun ríkisins skerðist. Unnið er að tillögu um endurskoðað örorkumat sem byggist m.a. á markmiðum um starfshæfnismat og eflingu starfsendurhæfingar með áherslu á að skoða frekar getu fólks til starfa en vangetu. Tillögunni er ætlað að ná svipuðum markmiðum hvað varðar örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega og hvetja einstaklinga til vinnu.
    Nefndin telur að hækkun frítekjumarksins muni leiða til aukinnar atvinnuþátttöku örorkulífeyrisþega og hafa þannig í för með sér hærri tekjur og meiri lífsgæði þeim til handa. Rannsóknir hafa jafnframt sýnt að það sé þjóðhagslega hagkvæmt að öryrkjar vinni, kjósi þeir að gera það.
    Ákvæðinu er ekki ætlað að hefta eða binda þá vinnu sem nú þegar er hafin með nokkrum hætti. Því telur nefndin eðlilegt að ákvæðið sé einungis sett til bráðabirgða og hafi þar með hvorki bindandi né fordæmisskapandi áhrif.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Ásta R. Jóhannesdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Birkir J. Jónsson skrifar undir álit þetta með fyrirvara.

Alþingi, 26. maí 2008.



Guðbjartur Hannesson,


form., frsm.


Ármann Kr. Ólafsson.


Árni Johnsen.



Jón Gunnarsson.


Pétur H. Blöndal.


Kristinn H. Gunnarsson.



Birkir J. Jónsson,


með fyrirvara.


Ögmundur Jónasson.