Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 519. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 1126  —  519. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um viðauka við fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2007–2010.

Frá samgöngunefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ragnhildi Hjaltadóttur, Friðfinn Skaftason, Jóhann Guðmundsson og Eirík Bjarnason frá samgönguráðuneyti, Hermann Guðjónsson og Sigurð Ás Grétarsson frá Siglingastofnun, Hrein Haraldsson frá Vegagerðinni og Þorgeir Pálsson frá Flugstoðum.
    Umsagnir bárust nefndinni frá Siglingastofnun Íslands, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Vegagerðinni, Eyþingi, Fjórðungssambandi Vestfirðinga, bæjarstjórn Seyðisfjarðar, Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi, SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu, Vopnafjarðarhreppi, Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi og Reykjavíkurborg.
    Með þingsályktunartillögu þessari er lagt til að flýtt verði ýmsum framkvæmdum á landsbyggðinni, bæði í vega- og flugmálum, í því skyni að styrkja innviði byggðanna. Þá er lagt til að ýmsum hafnarframkvæmdum verði frestað sem leiðir af tekjusamdrætti hafnarsjóða vegna aflasamdráttar og að öðrum verði flýtt vegna breyttra atvinnuhátta.
    Á fundum nefndarinnar kom fram að viðaukinn fæli í sér breytingar frá gildandi samgönguáætlun til samræmis við fjárlög ársins 2008 en þær væru nauðsynlegar til þess að áætlunin yrði nægilega gagnsæ. Þá kom fram að ekki væri um nýja stefnumótun að ræða í þessari áætlun.
    Nefndin leggur ekki til neinar efnislegar breytingar á tillögunni en smávægilega lagfæringu. Nefndin telur hins vegar nauðsynlegt að framkvæmdum við ferjubryggjuna í Flatey verði lokið, en upplýst var að viðbótarkostnaður við það er um 14 millj. kr., og auk þess að framkvæmdum á vegarkaflanum frá Ísafjarðardjúpi og út á Drangsnes verði einnig lokið en samkvæmt upplýsingum nefndarinnar er viðbótarkostnaður við það um 2–4 millj. kr. Nefndin beinir því til samgönguráðuneytis að það verði skoðað með tilfærslum milli liða í áætluninni.
    Nefndin beinir því enn fremur til samgönguráðuneytis að rannsóknarfé til jarðganga, bæði í þéttbýli og dreifbýli, verði aukið. Í því efni þarf, auk jarðfræðirannsókna, að taka tillit til samfélagslegra þátta á borð við þéttingu byggðar, öryggissjónarmiða, umferðardreifingar og annarra atriða þegar hagkvæmni jarðganga er skoðuð.
    
Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Í stað tölunnar „670“ í lið 4.1.4. komi: 870 .

    
Árni Þór Sigurðsson er samþykkur áliti þessu með fyrirvara.
    

Alþingi, 24. maí 2008.



Steinunn Valdís Óskarsdóttir,


form., frsm.


Ólöf Nordal.


Herdís Þórðardóttir.



Karl V. Matthíasson.


Árni Þór Sigurðsson,


með fyrirvara.


Árni Johnsen.



Guðni Ágústsson.


Ármann Kr. Ólafsson.


Guðjón A. Kristjánsson.