Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 287. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
2. uppprentun.

Þskj. 1127  —  287. mál.
Formbreyting.
Breytingartillaga


við frv. til l. um leikskóla.

Frá Kolbrúnu Halldórsdóttur.


     1.      Við 2. gr. F-liður 2. mgr. orðist svo: Að rækta hæfileika barna til tjáningar og sköpunar í þeim tilgangi m.a. að styrkja sjálfsmynd þeirra og heilbrigðisvitund, skilning og virðingu fyrir mannréttindum, öryggi og hæfni til mannlegra samskipta.
     2.      Við bætist nýr kafli, IV. kafli, Leikskólabörn, með tveimur nýjum greinum, 9. og 10. gr., svohljóðandi:
             a. (9. gr.)

Réttur leikskólabarna.

             Öll börn í leikskóla eiga rétt á verkefnum sem taka mið af aldri þeirra og andlegri og líkamlegri getu í hvetjandi námsumhverfi í viðeigandi húsnæði sem tekur mið af þörfum þeirra og vellíðan barnahópsins. Börn í leikskóla eiga rétt á því að njóta bernsku sinnar og hæfileika og finna til öryggis í öllu starfi á vegum leikskólans. Leita skal sjónarmiða leikskólabarna varðandi skólaumhverfi þeirra og starf innan leikskólans.
              b. (10. gr.)

Leikskólabörn með sérþarfir.

             Börn í leikskóla eiga rétt á því að komið sé til móts við námsþarfir þeirra í almennum leikskólum án aðgreiningar, án tillits til líkamlegs eða andlegs atgervis.
             Heyrnarlausum leikskólabörnum skal tryggt málumhverfi svo þau fái notið þeirrar menntunar og leikskilyrða sem leikskólinn hefur upp á að bjóða.
             Leikskólar geri móttökuáætlun vegna barna sem hafa annað móðurmál en íslensku eða nota táknmál. Tryggja skal að þessi börn og foreldrar þeirra fái aðgang að upplýsingum um leikskólastarfið og framvindu þess.