Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 327. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 1155  —  327. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003, með síðari breytingum.

Frá umhverfisnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á fund sinn Kristínu Lindu Árnadóttur, forstjóra Umhverfisstofnunar, Glóeyju Finnsdóttur og Sigurbjörgu Sæmundsdóttur frá umhverfisráðuneyti, Guðjón Bragason og Björn Halldórsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sigurð Jónsson frá Samtökum verslunar og þjónustu, Bryndísi Skúladóttur frá Samtökum iðnaðarins, Jón H. Steingrímsson og Elías Ólafsson frá Efnamóttökunni og Pál Gunnar Pálsson og Evu Ómarsdóttur frá Samkeppniseftirlitinu.
    Þá bárust nefndinni umsagnir frá Umhverfisstofnun, Úrvinnslusjóði, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum verslunar og þjónustu, Samtökum iðnaðarins, Félagi íslenskra stórkaupmanna, Samkeppniseftirlitinu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum, Reykjavíkurborg, Sorpmeðhöndlun Akranesbæjar, Sorpmeðhöndlun á Hrafnkelsstöðum, Sorpbrennslunni Funa, Sorpsamlagi Miðausturlands, Sorpu, Sorpurðun Vesturlands, Efnamóttökunni og Félagi heilbrigðis- og umhverfisfulltrúa.
    Frumvarpinu er ætlað að innleiða tilskipanir 2002/96/EB um raf- og rafeindabúnaðarúrgang og 2003/108/EB um breytingu á tilskipun 2002/96/EB. Stjórnskipulegum fyrirvara þessara tilskipana var aflétt með þingsályktun 6. desember 2006.
    Frumvarpið felur í sér meginreglu um framleiðendaábyrgð þar sem lagðar eru skyldur á framleiðendur og innflytjendur að safna og meðhöndla raftækja- og rafeindatækjaúrgang á landinu öllu. Með þessu er ábyrgð framleiðenda og innflytjenda aukin með það að markmiði að minnka kostnað og umhverfisáhrif vegna meðhöndlunar úrgangs. Hugsunin að baki framleiðendaábyrgð er að framlengja ábyrgð framleiðenda á vöru sinni og ná þannig m.a. yfir umhverfiskostnað vegna förgunar vörunnar. Verði frumvarpið að lögum verða framleiðendur og innflytjendur jafnframt ábyrgir fyrir fjármögnun þessa. Þetta er breyting frá því kerfi sem nú er viðhaft þar sem þessi ábyrgð er hjá sveitarfélögum eða ríki og kostuð með almennri skattlagningu eða gjaldtökuheimildum á heimili eða fyrirtæki. Aðildarríkin verða aftur á móti að setja lög sem tryggja að framleiðendur og innflytjendur setji upp kerfi til meðhöndlunar á raf- og rafeindatækjaúrgangi og standi straum af kostnaði þess. Með þessum breytingum eru framleiðendur hvattir til að hanna vöru þannig að auðvelt verði að endurnýta hana eða endurnota. Til þess að uppfylla þessa ábyrgð sína heimilar frumvarpið að þeir geti tekið sig saman og stofnað fyrirtæki sem tekur yfir þessa ábyrgð þeirra, svokallað skilakerfi, en jafnframt staðið einir. Í frumvarpinu má finna hvatningu til framleiðenda og innflytjenda til að koma á fót skilakerfi þar sem heimilt er að undanþiggja kerfið ábyrgðartryggingu hafi það ákveðinn fjölda framleiðenda og innflytjenda og sé með tiltekna markaðshlutdeild. Er skilakerfum heimilt á grundvelli frumvarpsins að skipta með sér landsvæðum til að stuðla að hagkvæmri söfnun úrgangsins. Umsjón með starfsemi skilakerfanna er í höndum nýrrar stýrinefndar sem samkvæmt frumvarpinu er stjórn Úrvinnslusjóðs, og er stofnun hennar og rekstur fjármagnaður af skilakerfum með gjaldtöku.
    Nefndin hefur fjallað ítarlega um málið. Þau atriði sem mesta umfjöllun fengu voru hversu langt framleiðendaábyrgðin skyldi ná, hlutverk og skipan stýrinefndar, stofnun skilakerfa og möguleg skörun ákvæða frumvarpsins við samkeppnislög, nr. 44/2005.
    Í b-lið 2. gr. frumvarpsins er kveðið á um ábyrgð framleiðanda og innflytjanda á raf- og rafeindatækjaúrgangi. Kemur þar fram að þeir skuli fjármagna og tryggja meðhöndlun raf- og rafeindatækjaúrgangs að frátalinni söfnun til söfnunarstöðvar sveitarfélaga og geymslu þar. Í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga kemur fram það sjónarmið að framleiðendaábyrgð ætti að hefjast hjá neytendum en ekki en við flutning úrgangs frá sorpvinnslustöðvum sveitarfélaga. Að öðrum kosti má ætla að aukinn kostnaður leggist á sveitarfélögin verði frumvarpið að lögum enda felst í því að sveitarfélögum er þá skylt að bjóða upp á aðstöðu til flokkunar raftækjaúrgangs af mismunandi toga á söfnunarstöðvum þeirra. Enn fremur segir í umsögn Sorpu að þróun á vegum Evrópusambandsins sé í þá átt að færa framleiðendaábyrgðina nær neytandanum og beri framleiðendur þar af leiðandi þann kostnað sem samkvæmt frumvarpinu fellur á sveitarfélögin. Því sjónarmiði var einnig hreyft fyrir nefndinni að orðalagið „söfnunarstöðvar sveitarfélaganna“ fæli í sér ákveðna mismunun gagnvart einkareknum söfnunarstöðvum. Á móti þessu hafa komið fram sjónarmið neytenda um að óhagræði og óvissa skapist fyrir neytendur þurfi þeir að fara til mismunandi staða til að losa sig við mismunandi tegundir úrgangs. Tekur nefndin undir þau sjónarmið, sér í lagi þar sem sveitarfélög sjá almennt um sorpvinnslu. Nefndin telur að ganga skuli lengra við innleiðingu framleiðendaábyrgðar með þeim hætti að kostnaður af rekstri aðstöðu gámasvæða hjá söfnunarstöðvum sveitarfélaga falli á framleiðendur og innflytjendur. Telur nefndin að þannig sé komið til móts við þann kostnað sem fallið hefði á sveitarfélögin við rekstur aðstöðu söfnunargámanna. Aftur á móti áréttar nefndin að sveitarfélögum er skylt að bjóða þessa aðstöðu og koma henni upp sé hún ekki fyrir hendi. Með þessu móti nær framleiðendaábyrgðin jafnframt til geymslu úrgangs raf- og rafeindatækja frá heimilum á söfnunarstöðvum sveitarfélaga. Áréttar nefndin að sveitarfélögum skuli heimilt að innheimta gjald fyrir afnot skilakerfa af aðstöðu á söfnunarstöðvum sínum en ekki til að greiða kostnað við gerð slíkrar aðstöðu sé hún ekki fyrir hendi. Gjaldið skal ákveðið af ráðherra að fenginni tillögu stýrinefndar og umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga. Leggur nefndin til breytingar þessu til samræmis.
    Mikil umræða fór fram innan nefndarinnar um skilakerfi sem frumvarpið kveður á um en framleiðendur og innflytjendur eiga að uppfylla skyldur sínar samkvæmt frumvarpinu með rekstri eigin skilakerfis eða með aðild að sameiginlegu skilakerfi, sbr. b-lið 2. gr. frumvarpsins. Hlutverk skilakerfa er að tryggja söfnun og móttöku á raf- og rafeindatækjaúrgangi frá söfnunarstöðvum sveitarfélaga á öllu landinu og tryggja að úrgangurinn sé meðhöndlaður af til þess bærum aðilum, sbr. 1. mgr. e-liðar 2. gr. frumvarpsins. Skulu skilakerfin fjármögnuð af framleiðendum og innflytjendum. Í fjölmörgum umsögnum var gerð athugasemd við þetta nýja kerfi. Komu fram sjónarmið um að einfaldara væri að nýta Úrvinnslusjóð og fella raf- og rafeindatækjaúrgang undir lög um úrvinnslugjald, nr. 162/2002. Það hefur aftur á móti komið skýrt fram hjá fulltrúum ráðuneytisins og Samtökum atvinnulífsins að ekki sé hægt að fara þá leið. Slíkt fari gegn meginhugsun tilskipunarinnar.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir afdráttarlausri ábyrgð framleiðenda og innflytjenda á raf- og rafeindatækjum allt frá framleiðslu til meðhöndlunar þeirra sem úrgangs. Mikill hluti þessarar ábyrgðar felst í skipulagningu, yfirumsjón og eftirfylgni skilakerfisins sem sinnt skal af stýrinefnd. Í frumvarpinu er farin sú leið að setja á stofn slíka stýrinefnd en stjórn Úrvinnslusjóðs skal annast hlutverk hennar. Því sjónarmiði var hreyft fyrir nefndinni að Evrópulöggjöf sé í auknum mæli að þróast í þá átt að auka framleiðendaábyrgð og því væri það fyrirkomulag sem Úrvinnslusjóður byggist á mögulega á undanhaldi. Er það álit nefndarinnar að því sé rétt að hafa sjálfstæða stýrinefnd sem skipuð er fulltrúum atvinnulífsins, ásamt einum fulltrúa án tilnefningar, enda leggur nefndin til að framleiðendaábyrgð verði aukin og að skilakerfi skuli greiða sveitarfélögum fyrir aðstöðu gámasvæða á söfnunarstöðvum þeirra. Er þetta í meira samræmi við tillögu nefndar sem skipuð var til að semja drög að frumvarpi þessu. Aftur á móti telur nefndin rétt að nýta þá þekkingu og reynslu sem er hjá Úrvinnslusjóði og veita stýrinefnd heimild til að semja um að hluti verkefna hennar skv. a–d-lið 2. mgr. f-liðar 2. gr. frumvarpsins verði falinn öðrum. Nefndin leggur til breytingar þessu til samræmis. Áréttar nefndin að þessari tillögu er ætlað að tryggja að sú þekking sem Úrvinnslusjóður býr yfir nýtist. Samhliða þessari tillögu verður jafnframt að gera ákveðnar breytingar á lögum um úrvinnslugjald, nr. 162/2002, til að opna fyrir heimild Úrvinnslusjóðs til að gera slíka samninga. Leggur nefndin til að sú heimild einskorðist við verkefni sem falla undir lög um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003, og því sé ekki um opna heimild að ræða til handa Úrvinnslusjóði. Nefndin telur einnig að jafnframt sé opnað á þann möguleika að sams konar framkvæmd geti verið viðhöfð verði þróunin sú að framleiðendaábyrgð verði tekin upp.
    Eitt helsta umræðuefni innan nefndarinnar var ákvæði 4. mgr. e-liðar (18. gr.) 2. gr. þar sem kveðið er á um heimild skilakerfa til að skipta með sér landsvæðum með samningi með það að markmiði að stuðla að hagkvæmri söfnun raf- og rafeindaúrgangs. Skal stýrinefnd samþykkja slíkan samning eða synja. Nefndin óskaði sérstaklega eftir áliti Samkeppniseftirlitsins hvað þetta ákvæði varðar. Í áliti þess kom fram að lagaheimild sem þessi væri í ósamræmi við bannákvæði 10. gr. samkeppnislaga, nr. 44/2005. Varar Samkeppniseftirlitið við því að verði frumvarpið óbreytt að lögum og gámaþjónustufyrirtæki sem ráðandi eru á markaðnum taki að sér þessi verkefni geti það skapað hættu á frekari uppskiptingu markaða í tengslum við aðra starfsemi þessara fyrirtækja. Samkeppniseftirlitið bendir aftur á móti á fyrirmynd í dönskum lögum þar sem ekki er gefin bein heimild í lagatexta fyrir skilakerfi til að skipta með sér landsvæði heldur sé heimilað að tilraunir skuli gerðar til að tryggja að söfnun, móttaka og meðhöndlun raf- og rafeindaatækjaúrgangs fari fram með landfræðilega skynsamlegum hætti. Slíkt orðalag tryggir frekar að samkeppnissjónarmið séu höfð að leiðarljósi. Í dönsku lögunum er farin sú leið að veita ráðherra heimild til setningar reglugerðar til að kveða nánar á um söfnun, móttöku og meðhöndlun raf- og rafeindatækjaúrgangs í landfræðilegu tilliti. Telur nefndin að rétt sé að fara þá leið að tilraunir í þessa átt skuli vera í höndum stýrinefndar sem hefur formann með sérstaka þekkingu á samkeppnismálum. Jafnframt skal nefndinni skylt að leita álits Samkeppniseftirlitsins við slíka vinnu. Leggur nefndin til breytingar í samræmi við þetta. Er það álit nefndarinnar að hér sé best tryggð skynsamleg söfnun úrgangs í sem bestu samræmi við samkeppnislög.
    Nefndin leggur jafnframt til aðrar smávægilegar breytingar á frumvarpinu sem einkum varða lagatæknileg atriði.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Kolbrún Halldórsdóttir og Árni Þór Sigurðsson skrifa undir álit þetta með fyrirvara.
    Kristinn H. Gunnarsson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 26. maí 2008.



Helgi Hjörvar,


form., frsm.


Kjartan Ólafsson.


Kolbrún Halldórsdóttir,


með fyrirvara.



Illugi Gunnarsson.


Katrín Júlíusdóttir.


Höskuldur Þórhallsson.



Guðfinna S. Bjarnadóttir.


Herdís Þórðardóttir.


Árni Þór Sigurðsson,


með fyrirvara.