Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 547. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 1160  —  547. mál.




Nefndarálit



um frv. til. l. um uppbót á eftirlaun.

Frá efnahags- og skattanefnd.


    
    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Maríönnu Jónasdóttur, Harald Steinþórsson og Ingva Má Pálsson frá fjármálaráðuneyti, Ingvar Rögnvaldsson og Guðrúnu Jenný Jónsdóttur frá ríkisskattstjóra, Sigríði Lillý Baldursdóttur og Sigurð Grétarsson frá Tryggingastofnun ríkisins, Hrafn Magnússon frá Landssamtökum lífeyrissjóða, Guðríði Ólafsdóttur frá Öryrkjabandalagi Íslands, Helga Hjálmsson og Borgþór Kjærnested frá Landssambandi eldri borgara og Unnar Stefánsson frá Félagi eldri borgara. Þá hefur nefndinni borist umsögn frá Alþýðusambandi Íslands.
    Í frumvarpinu er mælt fyrir um að þeim sem engan eða takmarkaðan rétt eiga til eftirlaunagreiðslna úr lífeyrissjóði skuli tryggður lágmarkslífeyrir, eftirlaunauppbót, að fjárhæð 25.000 kr., enda hafi þeir hvorki atvinnutekjur né fjármagnstekjur. Er það skilyrði að rétthafi hafi náð 67 ára aldri og að hann uppfylli viss skilyrði um búsetu hér á landi. Upphaf greiðslutímabils er miðað við lok álagningar opinberra gjalda ríkisskattstjóra. Eftirlaunauppbót greiðist úr ríkissjóði og er samkvæmt frumvarpinu meðhöndluð á sama hátt og greiðslur úr lífeyrissjóði í skattalegu tilliti og gagnvart almannatryggingum.
    Nefndin bendir á að frumvarpinu er ætlað að rétta hag þeirra aldraðra sem verst eru staddir og lítið sem ekkert hafa greitt í lífeyrissjóð með tilheyrandi ávinnslu réttinda. Nefndin telur að hert eftirlit með því að fólk greiði í lífeyrissjóð, sem tekið var upp fyrir átta árum, leiði til þess að þeim einstaklingum sem þurfa á uppbót samkvæmt frumvarpinu að halda muni fækka en í dag er áætlað að rétthafar samkvæmt frumvarpinu séu um 5.000. Þar af fá einungis 680 fullar bætur sem bendir til að þeir hafi hvorki tekjur af fjármagni, atvinnu né rétti í lífeyrissjóði. Talið er að um sé að ræða eldri ekkjur sem aldrei voru á vinnumarkaði, sjálfstæða smærri atvinnurekendur sem greiddu fyrir starfsmenn sína til lífeyrissjóðs en ekki fyrir sig sjálfa, fatlaða sem aldrei voru á vinnumarkaði, og svo þá sem aldrei greiddu til lífeyrissjóðs þrátt fyrir lagaskyldu. Þá greiða nokkrir lífeyrissjóðir mjög lágan lífeyri af ýmsum ástæðum og má þar nefna Lífeyrissjóð bænda og Lífeyrissjóð leigubifreiðastjóra.
    Fram kom í nefndinni að tekjur þess sem engan rétt á í lífeyrissjóði og engar tekjur hefur af atvinnu eða fjármagni og býr einn muni hækka um 12.584 kr. á mánuði fyrir skatt vegna skerðinga á tekjutryggingu og heimilisuppbót. Eftir skatt er um 8.089 kr. að ræða á mánuði. Verður þá enginn aldraður sem býr einn með lægri lífeyri og tekjur en 148.515 kr. á mánuði fyrir skatt. Hjón sem bæði eru á ellilífeyrisaldri og eiga hvorugt rétt í lífeyrissjóði og hafa engar tekjur, hvorki af atvinnu né af fjármagni, hækka hvort um sig um 15.415 kr. á mánuði fyrir skatt og 9.909 kr. eftir skatt og hafa því 19.818 kr. meira til ráðstöfunar á mánuði. Eftir samþykkt frumvarpsins verða engin hjón með lægri tekjur samanlagt en 252.970 kr. á mánuði fyrir skatt.
    Í nefndinni kom fram að tvenn sjónarmið voru uppi um greiðslu þessarar uppbótar. Önnur var að nota samtímaupplýsingar um lífeyrisgreiðslur frá lífeyrissjóðum og gera svo upp eftir árið og krefja þá um endurgreiðslu sem hefðu tekjur af fjármagni eða atvinnu. Vegna þess að slíkt kerfi hefur ekki gefist vel var ákveðið að fara þá leið sem kemur fram í frumvarpinu, þ.e. að greiða uppbótina eftir á, og er þá um endanlega upphæð að ræða. Því fylgir þó sá galli að nokkur tími líður frá því að fólk fer á lífeyri og þar til uppbótin berst.
    Rætt var í nefndinni hvernig fara ætti með það þegar sá sem öðlast hefur rétt til uppbótar á eftirlaun andast. Fram kom sá skilningur að eftirstandandi greiðslur á greiðslutímabili skuli falla niður við andlát og leggur nefndin til breytingartillögu þar að lútandi.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Við 6. gr. Á eftir 3. mgr. komi ný málsgrein, er orðist svo:
    Greiðslur uppbótar, sem falla í gjalddaga eftir að rétthafi andast, falla sjálfkrafa niður.

Alþingi, 27. maí 2008.



Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Ellert B. Schram.


Bjarni Benediktsson.



Lúðvík Bergvinsson.


Paul Nikolov.


Jón Bjarnason.



Guðbjartur Hannesson.


Höskuldur Þórhallsson.


Ólöf Nordal.