Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 554. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 1170  —  554. mál.




Frumvarp til laga



um Fiskræktarsjóð.

(Eftir 2. umr., 28. maí.)



1. gr.
Fiskræktarsjóður.

    Fiskræktarsjóður er sjálfstæður sjóður í eigu ríkisins og á forræði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem hefur það hlutverk að veita lán eða styrki til verkefna sem þjóna þeim markmiðum að efla fiskrækt, bæta veiðiaðstöðu, styðja við rannsóknir í ám og vötnum og auka verðmæti veiði úr þeim.

2. gr.

Stjórn Fiskræktarsjóðs.


    Fiskræktarsjóður lýtur fimm manna stjórn sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipar til fjögurra ára í senn. Tveir nefndarmanna skulu skipaðir samkvæmt tilnefningu Landssambands veiðifélaga, einn samkvæmt tilnefningu Landssambands stangaveiðifélaga og einn samkvæmt tilnefningu Landssambands fiskeldisstöðva. Ráðherra skipar formann nefndarinnar án tilnefningar og skal atkvæði hans ráða úrslitum ef atkvæði falla jöfn. Nú tilnefnir einn framangreindra aðila eigi mann í stjórn sjóðsins og skipar þá ráðherra í nefndina án tilnefningar. Varamenn skal skipa með sama hætti.

3. gr.
Verkefni stjórnar.

    Stjórn Fiskræktarsjóðs hefur yfirumsjón með starfsemi hans í samræmi við lög þessi og reglugerð. Verkefni stjórnar eru m.a. að:
     a.      skila ársreikningum og reglulegu yfirliti um starfsemi sjóðsins til ráðherra,
     b.      taka ákvarðanir um ávöxtun eigin fjár,
     c.      taka ákvarðanir um úthlutanir og útgjöld.

4. gr.
Ráðstöfunarfé Fiskræktarsjóðs.

    Ráðstöfunarfé Fiskræktarsjóðs er:
     a.      innheimt gjald af veiðitekjum,
     b.      arður af eigin fé,
     c.      fjárveiting úr ríkissjóði,
     d.      annað.

5. gr.
Gjald af veiðitekjum.

    Veiðiréttarhafar skulu greiða til Fiskræktarsjóðs 2% gjald af hreinum tekjum af veiði í ám og vötnum á hverju almanaksári.
    Nú hefur veiðifélag tekjur af ráðstöfun á sameiginlegri veiði eða öðrum lögbundnum verkefnum sínum og skal þá félagið standa Fiskræktarsjóði skil á 2% gjaldi af arðgreiðslum á hverju almanaksári.

6. gr.

Álagning og innheimta gjalds af veiðitekjum.


    Fiskistofa annast álagningu og innheimtu gjalds skv. 5. gr. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er þó heimilt að fela innheimtumönnum ríkissjóðs eða öðrum aðilum innheimtu þess.
    Fiskistofu er heimilt að fella niður álagningu gjalds skv. 5. gr. nemi tekjur veiðiréttarhafa skv. 1. mgr. þeirrar greinar eða heildararðgreiðslur veiðifélags til félagsmanna sinna skv. 2. mgr. greinarinnar lægri fjárhæð en 500 þús. kr. á gjaldárinu miðað við vísitölu neysluverðs frá 1. janúar 2008.
    Veiðiréttarhafar og veiðifélög skulu að eigin frumkvæði senda Fiskistofu ársreikning veiðifélags eða framtal yfir tekjur af veiði, þ.m.t. leigutekjur, fyrir 1. maí ár hvert vegna næstliðins almanaksárs á eyðublaði sem Fiskistofa leggur til.
    Ef Fiskistofa telur fram komin gögn eða upplýsingar ófullnægjandi, óglögg, tortryggileg eða ekki látin í té í umbeðnu formi eða hún telur frekari þörf á einhverju atriði skal hún skora skriflega á þann sem kann að verða krafinn um gjald skv. 5. gr. að bæta úr því innan ákveðins tíma og láta í té gögn sem á skortir. Ef ekki er bætt úr annmörkunum, svar berst ekki innan tiltekins tíma, þau gögn eru ekki send sem óskað er eftir eða fram komin gögn eða upplýsingar eru ófullnægjandi eða tortryggileg að mati Fiskistofu er henni heimilt að áætla álagningu gjalds skv. 5. gr. og skal álagningin vera svo rífleg að eigi sé hætt við að fjárhæðir séu áætlaðar lægri en þær eru í raun og veru. Við áætlun er Fiskistofu heimilt að líta til gagna sem aflað er frá öðrum stofnunum eða einkaaðilum og veita vísbendingar um veiðitekjur gjaldskylds aðila.
    Hver sá sem tregðast við að láta Fiskistofu í té upplýsingar er varða gjaldskyldu skv. 5. gr. skal sæta dagsektum að ákvörðun Fiskistofu sem mega nema allt að 10.000 kr. á dag. Dagsektir má innheimta með fjárnámi.
    Eigi síðar en 30. júní hvert ár skal Fiskistofa hafa lokið álagningu á gjaldendur skv. 5. gr. og skal þeim tilkynnt bréflega um hana.
    Nú telur veiðiréttarhafi eða veiðifélag álagt gjald eða gjaldstofn eigi rétt ákveðinn og getur viðkomandi þá innan tveggja vikna frá því að hann fékk vitneskju um álagninguna kært hana til Fiskistofu sem þá skal innan tveggja vikna frá lokum gagnaöflunar kveða upp úrskurð um málið. Úrskurðum Fiskistofu um álagningu gjalds má skjóta til úrskurðar ráðherra.
    Gjöld skv. 5. gr. vegna næstliðins almanaksárs falla í gjalddaga 1. ágúst ár hvert. Ef gjöldin eru ekki greidd innan 30 daga frá gjalddaga skal greiða dráttarvexti af þeim skv. III. kafla laga um vexti og verðtryggingu. Álagning gjalds eða úrskurður um gjaldtöku eru aðfararhæfar ákvarðanir. Má Fiskistofa krefjast fullnustu með aðfarargerð þegar liðnir eru 30 dagar frá dagsetningu álagningar eða uppkvaðningu úrskurðar.

7. gr.
Eigið fé Fiskræktarsjóðs.

    Eigið fé Fiskræktarsjóðs skal að lágmarki vera 270 millj. kr. Lágmarksfjárhæð þessi skal taka breytingum í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs frá 1. janúar 2008.
    Eigið fé, sem ekki hefur verið ráðstafað með heimild í 8. gr., skal ávaxtað samkvæmt samningi við aðila sem hefur leyfi til fjárvörslu lögum samkvæmt, um vörslu og ávöxtun eigin fjár.
    Nú nær eigið fé ekki lágmarksfjárhæð skv. 1. mgr. og skal þá ávaxta eigið fé skv. 2. mgr. þar til lágmarksfjárhæð skv. 1. mgr. er náð.

8. gr.
Úthlutanir úr Fiskræktarsjóði.

    Fyrir 1. september hvert ár skal stjórn Fiskræktarsjóðs gefa út og láta birta lána- og úthlutunarreglur sem gilda skulu fyrir sjóðinn næsta almanaksár. Reglurnar skulu áður bornar undir ráðherra til samþykktar.
    Heimilt er að veita lán og styrki úr Fiskræktarsjóði í samræmi við gildandi lána- og úthlutunarreglur.
    Fiskræktarsjóði er heimilt að afla umsagnar Fiskistofu um umsóknir um lán eða styrki til framkvæmda er lúta að fiskrækt í ám og vötnum þyki þess þörf.
    Fiskræktarsjóði er heimilt að skilyrða úthlutanir við að úthlutunarhafar geri grein fyrir framvindu verkefna og ráðstöfun fjár samkvæmt nánari reglum sjóðstjórnar.
    Fiskræktarsjóði er heimilt að ákveða að greiða úthlutanir í áföngum eftir framvindu verkefna.
    Um málsmeðferð við veitingu lána og styrkja gilda ákvæði stjórnsýslulaga.

9. gr.

Reglugerðarheimild. Kostnaður af rekstri.


    Ráðherra er heimilt að setja með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessara laga, þ.m.t. um málsmeðferð og ráðstöfun fjár úr Fiskræktarsjóði.
    Allur kostnaður af starfsemi Fiskræktarsjóðs greiðist af honum.

10. gr.
Viðurlög.

    Ef maður af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi skýrir rangt eða villandi frá upplýsingum, eða heldur leyndum upplýsingum, sem máli skipta við álagningu gjalds á veiðitekjur skv. 5. gr. varðar það fésektum eða allt að tveggja ára fangelsi.
    Hafi fyrirsvarsmaður eða starfsmaður lögaðila gerst sekur um brot gegn 1. mgr. má auk refsingar sem hann sætir gera lögaðilanum sekt, enda sé brotið drýgt til hagsbóta fyrir lögaðilann eða hann hafi notið hagnaðar af brotinu.

11. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2009. Um leið falla úr gildi eldri lög um lax- og silungsveiði, nr. 76/1970, með síðari breytingum.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Ráðherra skal þrátt fyrir 11. gr. skipa nýja stjórn Fiskræktarsjóðs eigi síðar en 1. janúar 2009. Ríkissjóður leggur Fiskræktarsjóði til 270 millj. kr. sem mynda eigið fé sjóðsins eigi síðar en 1. janúar 2009.