Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1199, 135. löggjafarþing 476. mál: rafræn eignarskráning verðbréfa (viðskipti með verðbréf í erlendri mynt).
Lög nr. 64 7. júní 2008.

Lög um breytingu á lögum nr. 131/1997, um rafræna eignarskráningu verðbréfa.


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. laganna:
  1. 1. málsl. 1. mgr. orðast svo: Seðlabanki Íslands tekur við innlánum frá reikningsstofnunum sem aðild eiga að verðbréfamiðstöð og annast efndalok greiðslufyrirmæla í greiðslukerfi vegna viðskipta með rafbréf í íslenskum krónum.
  2. Í stað 2. og 3. mgr. koma þrjár nýjar málsgreinar sem orðast svo:
  3.      Uppgjör greiðslufyrirmæla vegna viðskipta með rafbréf sem skráð eru í erlendum gjaldmiðli í verðbréfamiðstöð hér á landi fer fram fyrir milligöngu verðbréfamiðstöðvar. Verðbréfamiðstöð skal gera samning um slíkt uppgjör og skal það uppgjörskerfi sem samið er um háð samþykki Fjármálaeftirlitsins að fenginni umsögn Seðlabanka Íslands og uppfylla jafngildar kröfur og gerðar eru í lögum nr. 90/1999, um öryggi greiðslufyrirmæla í greiðslukerfum. Tryggt skal að uppgjörskerfið hafi öruggan aðgang að viðkomandi gjaldmiðli þannig að tryggð séu örugg og skilvirk efndalok viðskiptanna. Verðbréfamiðstöð er skylt að halda þeim fjármunum sem hún tekur við frá reikningsstofnunum vegna uppgjörs sérgreindum frá eigin fjármunum sem vörslufé.
         Verðbréfamiðstöð skal setja reglur um uppgjör viðskipta með rafbréf og skulu reglurnar hljóta samþykki Fjármálaeftirlitsins að höfðu samráði við Seðlabanka Íslands.
         Skipa skal samráðsnefnd verðbréfamiðstöðva, kauphalla, Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands og skipar hver aðili einn fulltrúa í nefndina. Seðlabanki Íslands fer með formennsku í nefndinni. Hlutverk samráðsnefndar er að fjalla um samskipti verðbréfamiðstöðva, kauphalla og Seðlabankans í tengslum við frágang viðskipta.


2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 28. maí 2008.