Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 620. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 1205  —  620. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 55/1996, um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna, með síðari breytingum.

Frá heilbrigðisnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Áslaugu Einarsdóttur frá heilbrigðisráðuneyti, Ágúst Geir Ágústsson, formann nefnarinnar sem samdi frumvarpið , Guðmund Arason frá ART Medica og Sigurð Guðmundsson landlækni.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um tæknifrjóvgun auk afleiddra breytinga á barnalögum. Með frumvarpinu er m.a. lagt til að einhleypum konum verði heimilt með sömu skilyrðum og pörum að gangast undir tæknifrjóvgun hér á landi, að skilyrðum um hámarksaldur konu til að gangast undir slíka meðferð verði breytt þannig að heimilt verði meta í hverju einstöku tilviki hvort kona sé fær um að gangast undir slíka meðferð og loks að ráðherra fái heimild til að setja leiðbeinandi reglur um hámarksfjölda uppsettra fósturvísa og loks er lagt til að gerðar verði tilteknar breytingar á skilyrðum fyrir framkvæmd tæknifrjóvgunarmeðferðar.
    Á fundum nefndarinnar voru ákvæði frumvarpsins um skilyrði tæknifrjóvgunar nokkuð rædd og þar á meðal breytingar á 3. gr. laganna þess efnis að ráðherra setji reglur um heimild eða skyldu til að leita til umsagnar félagsráðgjafa eða annarra fagaðila og eftir atvikum barnaverndarnefndar um félagslegar aðstæður þeirra sem fara í tæknifrjóvgun. Fram komu þau sjónarmið fyrir nefndinni að eðlilegt væri að gætt yrði jafnræðis með fagaðilum á viðkomandi sviði og fellst nefndin á þau sjónarmið.
    Nefndin vekur athygli á að á fundum hennar hefur farið fram mikil umræða um tæknifrjóvgun sérstaklega í tengslum við frumvarp til laga um breytingar á lögum um tæknifrjóvgun, sem varð að lögum nr. 27/2008 og varðaði stofnfrumurannsóknir. Nefndin ræddi á þeim tíma sérstaklega hvort leggja ætti til breytingar á því frumvarpi m.a. varðandi möguleika einstæðra kvenna til að gangast undir tæknifrjóvgunaraðgerð o.fl. en fram kom að starfandi væri nefnd heilbrigðisráðherra sem ynni að endurskoðun laga um tæknifrjóvgun og ákvæði reglugerðar um tæknifrjóvgun. Nefndin lagði því áherslu á og taldi brýnt að vinnu þeirrar nefndar við endurskoðunina yrði hraðað og fagnar því sérstaklega þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu.
    Nefndin leggur til lagatæknilega leiðréttingu á 10. gr. barnalaga.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með svofelldri

BREYTINGU:

    
    Við 2. mgr. 8. gr. bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Í stað orðanna „eða kjörmóðir skv. 2. mgr. 6. gr.“ í 1. málsl. 1. mgr. 10. gr. laganna, komi: eða foreldri ákvarðað skv. 2. mgr. 6. gr.

    Guðjón A. Kristjánsson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann samþykkur áliti þessu.


Alþingi, 28. maí 2008.

Ásta Möller,
form., frsm.
Ágúst Ólafur Ágústsson.
Þuríður Backman.

Pétur H. Blöndal.
Árni Páll Árnason.
Valgerður Sverrisdóttir.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir.
Ellert B. Schram.
Álfheiður Ingadóttir.