Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 432. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 1215  —  432. mál.




Framhaldsnefndarálit



um frv. til l. um breytingu á nokkrum lögum á auðlinda- og orkusviði.

Frá 2. minni hluta iðnaðarnefdar.



    Að ósk undirritaðrar fór frumvarp til laga um breytingar á nokkrum lögum á auðlinda- og orkusviði aftur til nefndar milli 2. og 3. umræðu og komu gestir frá iðnaðarráðuneyti, Landsneti hf. og Sambandi íslenskra sveitarfélaga á fund nefndarinnar til að svara spurningum er varða 4. gr. frumvarpsins um Landsnet í kjölfar samhljóða samþykktar stjórnar sambandsins frá 23. maí sl.:
    „Stjórnin leggur til þá breytingu á frumvarpi til laga um breytingu á nokkrum lögum á auðlinda- og orkusviði, 432. mál, að 4. gr. frumvarpsins, sem fjallar um breytingu á eignarhaldi á Landsneti hf., falli brott úr frumvarpinu. Landsnetið er vegakerfi orkunnar. Stjórnin telur afar brýnt að fyrirtækið verði áfram alfarið í opinberri eigu.“
    Fram kom á fundinum að í upphaflegri umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga var aðeins bent á að með 4. gr. frumvarpsins væri opnað fyrir breytingu á eignarhaldi Landsnets. Hlyti sú breyting að verða umdeild. Einróma samþykkt ellefu manna stjórnar sambandsins gengur því lengra en sú umsögn. Þar er tekin skýr pólitísk afstaða til þess grundvallaratriðis hvort einkaaðilar geti orðið eigendur að Landsneti, sem er vegakerfi raforkunnar, og leggur stjórnin til að 4. gr. frumvarpsins, sem opnar á eignarhald einkaaðila að fyrirtækinu, falli brott.
    Í svörum við spurningum nefndarmanna benti Guðjón Bragason, sviðsstjóri lögfræðisviðs sambandsins, á að ef 4. gr. frumvarpsins verður samþykkt óbreytt skapast ósamræmi á milli 8. gr. raforkulaga og bráðabirgðaákvæðis XII við sömu lög. Niðurstaðan yrði tvö algerlega misvísandi ákvæði í raforkulögum, sem ekki gæti talist vera góð lagasetning. Einnig benti hann á að í bráðabirgðaákvæði XIII við lögin væri kveðið á um endurskoðun laganna fyrir árslok 2010. Því væri með öllu ótímabært að breyta 8. gr. laganna nú eins og lagt er til í 4. gr. frumvarpsins. Loks benti hann á að rök um að samræma þurfi lagaákvæði um eignarhald á orkufyrirtækjum ættu alls ekki við um Landsnet hf. þar sem fyrirtækið er ekki í samkeppnisrekstri. Landsnet væri vegakerfi raforkunnar í landinu og að mati stjórnar sambandsins ættu einkaaðilar ekki að eiga hlut í því.
    Guðmundur Ingi Ásmundsson, staðgengill forstjóra Landsnets, sagði fyrirtækið ekki taka afstöðu til tillagana um breytt eignarhald. Það væri ákvörðun stjórnmálamanna. Í Bretlandi og Finnlandi væri flutningsfyrirtæki raforku rekið af almenningshlutafélögum og að þau hefðu, eins og ríkisfyrirtækin í Danmörku, Noregi og Svíþjóð, náð í fremstu röð óháð eignarhaldi.
    Um túlkun iðnaðarráðuneytis vísast til álits meiri hluta iðnaðarnefndar. Undirrituð telur þau svör ófullnægjandi og ekki svara spurningunni um það hvort ákvæðið telst rétthærra, heimild til breytingar á eignarhaldi Landsnet sem 4. gr. hefur í för með sér eða áðurnefnt bráðabirgðaákvæði í raforkulögunum. Bráðabirgðaákvæði XII við raforkulögin var afrakstur vinnu svokallaðrar 19 manna nefndar sem sátt hefur náðst um. Vandséð er hvaða nauðsyn dregur ráðuneytið til þess að leggja nú áherslu á aðra niðurstöðu hvað varðar eignarhaldið á Landsneti rétt áður en endurskoðun laganna hefst.
    Í nefndaráliti 2. minni hluta kom fram stuðningur við það markmið frumvarpsins að tryggja að auðlindir sem eru í eigu almennings verði það áfram en jafnframt miklar efasemdir um aðra þætti frumvarpsins. Þær efasemdir jukust enn við 2. umræðu og vinnu nefndarinnar sem einkenndist því miður af stöðugu undanhaldi gagnvart kröfunni um enn frekari markaðsvæðingu. Í stað þess að gera kröfu um að opinbert eignarhald væri ætíð 2/ 3 hlutar í sérleyfisrekstri orkufyrirtækjanna er nú aðeins gerð krafa um einfaldan 51% meiri hluta og í stað þess að banna varanlegt framsal vatnsaflsvirkjana sem eru 7 MW eða minni, er nú fyrirhugað að draga mörkin við 10 MW. Það jafngildir því að Mjólkárvirkjun og Andakílsvirkjun séu settar á söluskrá.
    Ákvæði frumvarpsins um að skipta upp öflugustu orkufyrirtækjum landsmanna og heimila einkaaðilum að kaupa bútana, ýmist allt að 49% eða að öllu leyti, stangast algerlega á við þann skilning 2. minni hluta að framleiðsla rafmagns og hitaveita fyrir almennan markað sé samfélagslegt verkefni sem ekki eigi að reka með með hagnaðarvon einstaklinga að leiðarljósi. Krafan um uppskiptingu gengur lengra en raforkutilskipun Evrópusambandsins og viðurkennt er að fyrirtækjalegur aðskilnaður og tvöföld yfirbygging mun kosta mikið fé. Ljóst er að sá reikningur mun enda á borðum almennra raforkukaupenda, heimila og fyrirtækja í landinu.
    Engin rök hafa komið fram fyrir 4. gr. frumvarpsins sem opnar sem fyrr segir fyrir þann möguleika að einkaðilar megi kaupa 49% hlut í Landsneti. Landsnet er grunnnet raforkukerfisins. Fyrirtækið ber ábyrgð á öryggisþáttum í raforkuflutningi og kerfisstjórnun. Öll starfsemi þess byggist á sérleyfisrekstri og algeru banni við þátttöku í samkeppnisrekstri. Einkaaðilar eiga ekki erindi í þann rekstur að mati 2. minni hluta sem vísar einnig til þess að erlendis hefur slík tilhögun bæði leitt til minna afhendingaröryggis og hærra raforkuverðs.
    Orðalag í 1. 8. og 13 . gr. frumvarpsins, eins og það var lagt fram, þar sem fjallað er um bann við framsali á „eignarrétti að vatni“ er umhugsunarefni í ljósi þess óleysta ágreinings sem staðið hefur um vatnalögin frá 2006. Gildandi vatnalög kveða skýrt á um að landeigendur hafi ekki eignarrétt á vatni heldur aðeins umráðarétt og hagnýtingarrétt. Ákvæði frumvarpsins virðast því ganga gegn þessu meginatriði gildandi vatnalaga sem stjórnarandstaðan á síðasta kjörtímabili stóð einhuga vörð um. Um þessar mundir er þetta ágreiningsefni til umfjöllunar í nefnd iðnaðarráðherra og er ekki gert ráð fyrir að nefndin skili af sér fyrr en næsta haust.
    Við 3. umræðu málsins leggur undirrituð til breytingartillögu um að 4. gr. frumvarpsins, sem eftir 2. umræðu er orðin 3. gr., falli brott, sbr. 4. tölul. á þskj. 1099.

Alþingi, 28. maí 2008.



Álfheiður Ingadóttir.