Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1306, 135. löggjafarþing 620. mál: tæknifrjóvgun (heimild einhleypra kvenna o.fl.).
Lög nr. 54 5. júní 2008.

Lög um breytingu á lögum nr. 55/1996, um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna, með síðari breytingum.


1. gr.

     Í stað orðsins „pörum“ í 3. mgr. 2. gr. laganna kemur: þeim.

2. gr.

     3. gr. laganna orðast svo:
     Tæknifrjóvgun má því aðeins framkvæma að:
  1. fyrir liggi skriflegt og vottað samþykki konunnar. Sé konan gift, í sambúð eða staðfestri samvist þarf skriflegt og vottað samþykki hins aðilans jafnframt að liggja fyrir,
  2. ætla megi að barninu sem til verður við aðgerðina verði tryggð þroskavænleg uppeldisskilyrði,
  3. konan sé á eðlilegum barneignaaldri og hafi líkamlega burði og fullnægjandi heilsufar til að takast á við það álag sem fylgir meðferð, meðgöngu og fæðingu barns. Tekið skal mið af því að ekki megi búast við skaðlegum áhrifum meðgöngu eða fæðingar á móður eða barn með hliðsjón af almennum læknisfræðilegum og fæðingarfræðilegum viðmiðum,
  4. andleg heilsa og félagslegar aðstæður parsins eða konunnar séu góðar.

     Áður en tæknifrjóvgun fer fram og samþykki skv. a-lið 1. mgr. er gefið skal veita upplýsingar um meðferðina og þau læknisfræðilegu, félagslegu og lögfræðilegu áhrif sem hún kann að hafa.
     Tæknifrjóvgun má aðeins framkvæma að uppfylltum skilyrðum 1. mgr. Læknir leggur mat á það hvort skilyrðin séu uppfyllt áður en hann ákveður hvort tæknifrjóvgun fari fram. Synjun læknis um framkvæmd tæknifrjóvgunar má skjóta til landlæknis. Ákvörðun landlæknis er kæranleg til ráðuneytisins. Um meðferð kærumála hjá landlækni og ráðuneyti fer samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.
     Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd ákvæðis þessa, m.a. um heimild eða skyldu til að leita umsagnar félagsráðgjafa eða annarra fagaðila og eftir atvikum barnaverndarnefndar um félagslegar aðstæður parsins eða konunnar.

3. gr.

     5. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:
Tæknifrjóvgunarmeðferð.
     Tæknifrjóvgun má framkvæma með tæknisæðingu eða glasafrjóvgun.
     Eingöngu er heimilt að nota gjafakynfrumur við tæknifrjóvgun ef frjósemi er skert, um er að ræða alvarlegan erfðasjúkdóm eða aðrar læknisfræðilegar ástæður mæla með notkun gjafakynfrumna. Sé um að ræða einhleypa konu eða konu í staðfestri samvist eða óvígðri sambúð með annarri konu er þó ætíð heimilt að nota gjafasæði.
     Gjöf fósturvísa er óheimil.
     Staðgöngumæðrun er óheimil.

4. gr.

     6. gr. laganna ásamt fyrirsögn fellur brott.

5. gr.

     Á eftir orðunum „óvígðri sambúð“ í 2. mgr. 9. gr. laganna kemur: eða einhleyp kona.

6. gr.

     Við 15. gr. laganna bætast tveir nýir stafliðir sem orðast svo:
  1. hámarksfjölda fósturvísa sem að jafnaði skuli heimilt að setja upp við tæknifrjóvgunarmeðferð,
  2. hámarksaldur kynfrumugjafa.


7. gr.

     Á eftir 15. gr. laganna kemur ný grein sem orðast svo:
     Landlæknir hefur eftirlit með því að tæknifrjóvgunarmeðferðir sem framkvæmdar eru hér á landi séu í samræmi við ákvæði laga þessara og reglugerða sem settar eru á grundvelli þeirra. Um eftirlit og eftirlitsúrræði landlæknis fer samkvæmt lögum um landlækni.

8. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.
     Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á barnalögum, nr. 76/2003:
  1. Í stað orðanna „sbr. þó 2. mgr. 6. gr.“ í 1. gr. laganna kemur: sbr. þó 2. mgr. 3. gr. og 2. mgr. 6. gr.
  2. Við 3. gr. laganna bætist ný málsgrein sem orðast svo:
  3.      Barn einhleyprar konu sem getið er við tæknifrjóvgun verður ekki feðrað.
  4. Í stað orðanna „eða kjörmóðir skv. 2. mgr. 6. gr.“ í 1. málsl. 1. mgr. 10. gr. laganna kemur: eða foreldri ákvarðað skv. 2. mgr. 6. gr.


Samþykkt á Alþingi 30. maí 2008.