Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 651. máls.

Þskj. 1312  —  651. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um Viðlagatryggingu Íslands,
nr. 55/1992, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008.)




1. gr.

    10. gr. laganna ásamt fyrirsögn orðast svo:

Eigin áhætta vátryggðs.


    Eigin áhætta vátryggðs skal vera 5% af hverju tjóni, þó eigi lægri fjárhæð en hér segir:
     1.      Vegna lausafjár, sem vátryggt er skv. 1. mgr. 5. gr., 20.000 kr.
     2.      Vegna húseigna, sem vátryggðar eru skv. 1. mgr. 5. gr., 85.000 kr.
     3.      Vegna mannvirkja, sem vátryggð eru skv. 2. mgr. 5. gr., 850.000 kr.
    Ráðherra er heimilt með reglugerð að ákvarða hækkun á ofangreindum lágmarksfjárhæðum.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Ákvæði laganna taka til tjóna sem verða frá 25. maí 2008.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er lagt fyrir Alþingi skv. 28. gr. stjórnarskrárinnar. Um athugasemdir vísast að öðru leyti til fylgiskjals I.



Fylgiskjal I.


BRÁÐABIRGÐALÖG
um breytingu ákvæða laga um Viðlagatryggingu Íslands
um eigin áhættu vátryggðs.


FORSETI ÍSLANDS
gjörir kunnugt:

    Viðskiptaráðherra hefur tjáð mér að ákvæði laga um Viðlagatryggingu Íslands, nr. 55/ 1992, kveði á um óeðlilega hátt lágmark eigin áhættu tjónþola á tjónum á innbúi vegna náttúruhamfara sem Viðlagatrygging Íslands bætir. Samkvæmt 10. gr. laganna skal eigin áhætta vátryggðs af hverju tjóni á innbúi vera 5%, þó eigi lægri en 40.000 kr. og skal fjárhæðin umreiknast til samræmis við gildandi vísitölu byggingarkostnaðar á hverjum tíma. Umreiknuð fjárhæð miðað við 1. apríl 2008 er 85.000 kr. og 90.800 kr. miðað við 1. júní 2008.
    Í jarðskjálftanum sem átti upptök sín á Suðurlandi 29. maí sl. varð mikið tjón á innbúum þúsunda heimila á Suðurlandi. Leiðir hækkun sú er orðið hefur á vísitölu byggingarkostnaðar til þess að eigin áhætta á tjónum á innbúi þykir óeðlilega há. Telur ríkisstjórnin nauðsynlegt að bregðast við þessu nú þegar áður en uppgjörum vegna tjónanna lýkur. Þykir eðlilegt að breytingin miðist við 25. maí sl. og nái þannig til tjóns er varð í jarðskjálftunum 29. maí sl. Til að tryggja að tjónþolar fái sanngjarnari bætur fyrir tjón sitt beri brýna nauðsyn til að nú þegar verði gerð breyting á gildandi lögum.
    Fyrir því eru hér með sett bráðabirgðalög skv. 28. gr. stjórnarskrárinnar á þessa leið:

1. gr.

    10. gr. laga um Viðlagatryggingu Íslands, nr. 55/1992 orðast svo:

Eigin áhætta vátryggðs.


    Eigin áhætta vátryggðs skal vera 5% af hverju tjóni, þó eigi lægri fjárhæð en hér segir:
     1.      Vegna lausafjár, sem vátryggt er skv. 1. mgr. 5. gr., 20.000 kr.
     2.      Vegna húseigna, sem tilgreindar eru í 1. tölul. og vátryggðar eru skv. 1. mgr. 5. gr., 85.000 kr.
     3.      Vegna mannvirkja, sem vátryggð eru skv. 2. mgr. 5. gr., 850.000 kr.
    Ráðherra er heimilt með reglugerð að ákvarða hækkun á ofangreindum lágmarksfjárhæðum.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Ákvæði laganna taka til tjóna sem verða frá 25. maí 2008.

Gjört á Bessastöðum, 7. júní 2008.



Ólafur Ragnar Grímsson.


(L. S.)


Björgvin G. Sigurðsson.



Fylgiskjal II.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Viðlagatryggingu Íslands, nr. 55/1992, með síðari breytingum.

    Markmið frumvarpsins er að staðfesta bráðabirgðalög frá 25. maí 2008 um breytingu á lögum um Viðlagatryggingu Íslands, nr. 55/1992, um lækkun eigin áhættu tjónþola vegna náttúruhamfara en bráðabirgðalögin voru sett í framhaldi af jarðskjálftunum á Suðurlandi þann 29. maí 2008.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.