Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 522. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 1322  —  522. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003.

Frá samgöngunefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Karl Alvarsson og Maríu Rún Bjarnadóttur frá samgönguráðuneytinu, Gest G. Gestsson frá Vodafone, Auði Ingu Ingvarsdóttur og Hallmund Albertsson frá Símanum hf. – Skipti og Harald I. Birgisson frá Viðskiptaráði Íslands.
    Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Persónuvernd, Ríkisútvarpinu, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Póst- og fjarskiptastofnun, Samtökum atvinnulífsins, Skipti hf. (Síminn hf. og Míla ehf.), Viðskiptaráði Íslands, Og fjarskiptum ehf. (Vodafone) og ríkislögreglustjóra.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem varða m.a. endurskoðun á ákvörðunum Póst- og fjarskiptastofnunar. Þá er lagt til að Póst- og fjarskiptastofnun geti skotið úrskurðum úrskurðarnefndar um fjarskipta- og póstmál til dómstóla. Loks er lagt til að ráðherra skipi í nefndina án sérstakrar tilnefningar Hæstaréttar. Þá er einnig lagt til að tekið skuli upp gjald vegna málskots lögaðila til úrskurðarnefndar og lagðar til breytingar á málsmeðferðartíma og málshöfðunarfrestum. Loks er lögð til breyting er varðar eftirlitsúrræði Póst- og fjarskiptastofnunar gagnvart öðrum en fjarskiptafyrirtækjum og póstrekendum.
    Nefndin ræddi á fundum sínum fjölmörg atriði, m.a. skipun nefndarinnar, skipunartíma nefndarinnar, málskotsgjaldið og heimild úrskurðarnefndarinnar til að skjóta málum til dómstóla. Nefndin telur að meiri festa og aukin sérþekking og samræmi fáist í úrskurðum nefndarinnar ef hún er skipuð til lengri tíma eins og gert er ráð fyrir í gildandi lögum og fellst því ekki á þá breytingu sem lögð er til í frumvarpinu um að stytta skipunartímann.
    Nefndin ræddi einnig um styttingu áfrýjunartímans úr sex mánuðum í þrjá. Telur nefndin að þar sem oft sé um að ræða mjög flókin álitaefni í þessum málum vegi það þyngra en sá ávinningur að fá niðurstöðu fyrr. Þá telur nefndin það enn fremur samræmast þeirri breytingu frumvarpsins um að úrskurðir nefndarinnar skuli liggja fyrir innan tólf vikna í stað átta eins og í gildandi lögum. Leggur nefndin því til að tillaga frumvarpsins um styttingu áfrýjunartímans verði felld brott.
    Þá ræddi nefndin þá tillögu frumvarpsins að Póst- og fjarskiptastofnun geti skotið úrskurðum úrskurðarnefndar um fjarskipta- og póstmál til dómstóla en á fundum nefndarinnar kom fram að stofnunin gæti haft mikla hagsmuni af því að fá úrskurði nefndarinnar endurskoðaða eins og aðrir aðilar kærumála. Nefndin fellst á þau sjónarmið en telur hins vegar mikilvægt að þessi heimild verði einungis notuð í undantekningartilfellum og þá með samþykki ráðherra og leggur til breytingu í þá veru.
    Nefndin ræddi einnig á fundum sínum gjaldtökuheimildina sem lögð er til í frumvarpinu en þar er kveðið á um að taka skuli gjald vegna málskots fjarskiptafyrirtækja og póstrekenda til úrskurðarnefndar. Telur nefndin rétt að taka fram að ekki er tekið gjald vegna málskots einstaklinga til úrskurðarnefndarinnar. Nefndin telur þó nauðsynlegt að gera nokkrar breytingar á ákvæðinu þar sem hún telur að hvorki séu forsendur fyrir því eða réttlætanlegt að mismuna fyrirtækjum við gjaldtökuna eftir veltu þeirra. Telur nefndin eðlilegra að úrskurðarnefndin líti til þess við ákvörðun málskostnaðar að tapist mál í grundvallaratriðum skal sá málsaðili sem tapar greiða málskostnað.
    Loks leggur nefndin til smávægilegar breytingar á reglugerðarákvæði frumvarpsins til að afmarka frekar heimildir ráðherra til að setja reglugerð um starfsemi nefndarinnar, m.a. um að afmarkað verði í reglugerðinni umfang sérfræðikostnaðar og um skiptingu kostnaðar vegna málareksturs fyrir nefndinni.
    Þá leggur nefndin til að samgönguráðherra skuli skipa úrskurðarnefnd eigi síðar en 1. janúar 2009.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali.

Alþingi, 3. sept. 2008.



Steinunn Valdís Óskarsdóttir,


form., frsm.


Ólöf Nordal.


Herdís Þórðardóttir.



Karl V. Matthíasson.


Árni Þór Sigurðsson,


með fyrirvara.

Guðni Ágústsson.



Ármann Kr. Ólafsson.


Guðjón A. Kristjánsson.