Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 660. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 1324  —  660. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á vopnalögum, nr. 16 25. mars 1998, með síðari breytingum.

Frá allsherjarnefnd.



1. gr.

    Í stað 2. málsl. 3. mgr. 13. gr. laganna koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Kostnaður vegna námskeiða og prófa greiðist með gjaldi sem ráðherra ákveður að fengnum tillögum ríkislögreglustjóra. Ráðherra setur í reglugerð ákvæði um námskeið þessi og próf, þ.m.t. námskeiðs- og prófagjöld.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði heimild til handa ráðherra til að ákveða fjárhæð gjalds sem þeir skulu greiða sem sækja námskeið og taka próf í meðferð og notkun skotvopna og að nánari útfærsla þess verði í reglugerð.
    Samkvæmt 3. mgr. 13. gr. vopnalaga skulu umsækjendur um skotvopnaleyfi sækja námskeið í meðferð og notkun skotvopna. Skal ráðherra setja í reglugerð ákvæði um slík námskeið og próf. Í 2. mgr. 27. gr. reglugerðar um skotvopn, skotfæri o.fl., nr. 787/1998, er gert ráð fyrir að ríkislögreglustjóri annist framkvæmd skotvopnanámskeiða og prófa og setji reglur um framkvæmd námskeiða og gerð kennsluefnis. Þá er ríkislögreglustjóra heimilt að fela öðrum framkvæmd námskeiðanna skv. 3. mgr. 27. gr. reglugerðarinnar. Ríkislögreglustjóri hefur um árabil falið Umhverfisstofnun að annast framkvæmd skotvopnanámskeiða samkvæmt sérstöku samkomulagi. Samhliða skotvopnanámskeiðum heldur Umhverfisstofnun svonefnd veiðikortanámskeið sem halda ber samkvæmt lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, nr. 64/1994. Gjald fyrir skotvopnanámskeið hefur verið um 20.000 kr. fyrir hvern þátttakanda og miðast gjaldið við það að standa straum af útlögðum kostnaði. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að nánari útfærsla námskeiðs- og prófagjalda verði í reglugerð. Í gildandi lögum er heimild fyrir ráðherra til að setja í reglugerð ákvæði um námskeiðin og prófin. Nefndin vill árétta að sú heimild tekur einnig til þess að gera nánari grein fyrir námskeiðs- og prófagjöldum.