Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 294. máls.
135. löggjafarþing 2007–2008.
Þskj. 1346  —  294. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um nálgunarbann.

Frá minni hluta allsherjarnefndar.



    Minni hluti allsherjarnefndar telur mikilvægt að tryggja réttarstöðu þeirra sem sæta ofsóknum í samfélaginu. Lagaákvæði um nálgunarbann hafa því miður ekki uppfyllt þær væntingar sem gerðar voru til þeirra, þau hafa reynst veik og ekki gegnt því hlutverki sem þeim var ætlað. Því er óhjákvæmilegt að breyta þeim í grundvallaratriðum svo hægt sé að beita þeim á markvissan og skilvirkan hátt. Breytingartillögum meiri hlutans er ætlað að tryggja það að ákveðnu marki og leggst minni hlutinn ekki gegn þeim. Það er hins vegar mat minni hlutans að nálgunarbann sé lagaúrræði sem nýtist í ákveðnum tegundum mála, en ekki endilega sem úrræði fyrir fórnarlömb heimilisofbeldis. Því sé nauðsynlegt að samhliða lagfæringum á lagaákvæðum um nálgunarbann verði hugað að réttarstöðu fórnarlamba heimilisofbeldis. Slíkt verður best gert með því að leiða í lög ákvæði um brottvísun af heimili og heimsóknarbann, sem þingmenn Vinstri hreyfingarinnar . græns framboðs hafa lagt til síðan á 131. löggjafarþingi, nú síðast á 133. löggjafarþingi, sjá þskj. 71 . 71. mál. Þar er um að ræða hina svonefndu „austurrísku leið“. Með úrræðunum sem þar eru lögð til og úrræðunum í frumvarpi til laga um nálgunarbann eru ákveðin líkindi, sem gera það að verkum að vel fer á því að vista þau í einum og sömu lögunum. Því leggur minni hlutinn til talsverðar breytingar á frumvarpinu, m.a. á heiti þeirra, þ.e. að þau nefnist lög um nálgunarbann, brottvísun af heimili og heimsóknarbann.
    Minni hlutinn telur að með góðum vilja hefði verið hægt að nýta tíma nefndarinnar í sumar til að gera nauðsynlegar athuganir á þróun löggjafar um nálgunarbann í nágrannalöndum okkar ásamt því að kanna reynsluna af austurrísku leiðinni í þeim löndum þar sem hún hefur verið innleidd. Hefðu slíkar athuganir getað leitt til þess nefndin hefði lagt til að gerðar hefðu verið nauðsynlegar breytingar á því óviðunandi lagaumhverfi sem fórnarlömb heimilisofbeldis hafa þurft að búa við allt of lengi og lagt til að austurríska leiðin yrði tekin upp hér á landi. Telur minni hlutinn þá leið best til þess fallna að tryggja réttaröryggi fórnarlamba heimilisofbeldis og með því yrði baráttan gegn heimilisofbeldi markviss og skilvirk.
    Í nefndaráliti meiri hlutans koma fram efasemdir um að tímabært sé að færa heimildina til beitingar nálgunarbanns frá dómstólum til lögreglu og er því lýst sem áliti meiri hlutans að áður en af slíkri breytingu verði þurfi að skoða möguleg áhrif þess. Það er hins vegar óljóst hvert meiri hlutinn beinir því áliti sínu. Minni hluti nefndarinnar telur reynslu nágrannalandanna sýna að úrræðið sé betur komið í höndum lögreglu sem er á vettvangi og hefði viljað að kapp hefði verið lagt á að sýna fram á það svo að hægt hefði verið að innleiða nauðsynlegar lagabreytingar í þessari atrennu.
    Íslenska ríkisstjórnin hefur skuldbundið sig eins og ríkistjórnir annars staðar á Norðurlöndum til að vinna markvisst gegn kynbundnu ofbeldi. Til þess verður að horfast í augu við þann napra veruleika að konur og börn eru beitt ofbeldi í samfélagi okkar og ofbeldið á sér oft stað inni á heimilum fórnarlambanna. Í Noregi, Svíþjóð og Danmörku hafa verið leidd í lög ákvæði sem taka mið af austurrísku leiðinni og hefur framkvæmd þeirra gefið góða raun.
    Minni hlutinn leggur einnig áherslu á að breytingar þær sem hér eru lagðar til eru í samræmi við tilmæli alþjóðlegra eftirlitsstofnana á sviði mannréttinda og breytingartillögurnar eru til þess fallnar að auka réttarvernd kvenna og barna. Vekur minni hlutinn sérstaka athygli á tilmæli þings Evrópuráðsins sem leggur til að tekin sé upp í lög heimild til brottflutnings ofbeldismanns af heimili, þ.e. austurríska leiðin. Austurríska aðferðin felur í sér úrræði til verndar þeim sem verða fyrir ofbeldi á heimilum með því að lögregla hefur við tilteknar kringumstæður heimild til að fjarlægja ofbeldismenn af heimili sínu og banna þeim heimsóknir þangað og í nánasta umhverfi í tiltekinn tíma. Með því að fara þessa leið yrði stigið mjög mikilvægt skref í baráttunni gegn heimilisofbeldi. Þannig þyrftu þeir sem beittir eru ofbeldi á heimilum ekki lengur að flýja heimili sitt heldur yrði þeim sem brýtur af sér gert að yfirgefa heimilið samkvæmt ákvörðun lögreglu.
    Minni hlutinn telur að ákvæði af þessu tagi brjóti ekki gegn ákvæðum mannréttindasamninga sem Ísland á aðild að og ætlað er að vernda friðhelgi heimilis og fjölskyldu því að samningarnir kveða á um að heimilt sé að takmarka friðhelgi heimilis og einkalífs til verndar réttindum annarra. Sama á við um 71. gr. stjórnarskrár en það færi gegn tilgangi þessara samninga að túlka friðhelgi einkalífsins þannig að í skjóli hennar sé heimilt að brjóta gegn frelsi og mannhelgi kvenna og barna.
    Með breytingartillögum minni hlutans er komið til móts við ítrekuð tilmæli nefnda Sameinuðu þjóðanna, sem m.a. fylgja eftir samningnum um afnám allrar mismununar gagnvart konum, um að íslensk stjórnvöld tryggi úrræði sem gagnist fórnarlömbum heimilisofbeldis og komi á virkum lagafyrirmælum um nálgunarbann.
    Mannréttindaskrifstofa Íslands, lögmenn og starfsfólk Neyðarmóttöku vegna nauðgana á Landspítala hafa sent allsherjarnefnd umsagnir vegna frumvarps þessa þar sem hvatt er til þess að Ísland fari að dæmi Austurríkis og margra annarra Evrópuríkja og innleiði austurrísku leiðina. Umsagnir þessara aðila eru fylgiskjöl með nefndaráliti þessu.
    Minni hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali.

Alþingi, 9. sept. 2008.



Alma Lísa Jóhannsdóttir.







Fylgiskjal I.


Umsögn frá neyðarmótttöku vegna nauðgana.
(5. mars 2008.)




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Fylgiskjal II.


Umsögn frá Mannréttindaskrifstofu Íslands.
(19. febrúar 2008.)




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.