Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 38. máls.

Þskj. 38  —  38. mál.Frumvarp til laga

um breyting á lögum um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu,
nr. 36/1993, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 136. löggjafarþingi 2008–2009.)
1. gr.

    1. gr. laganna orðast svo:
    Nú hefur læknir úrskurðað mann látinn og skal þá svo fljótt sem við verður komið flytja líkið í líkhús.
    Skylt er að greftra lík í lögmætum kirkjugarði eða grafreit eða brenna það í viðurkenndri líkbrennslustofnun (bálstofu), sbr. 8. gr., svo fljótt sem auðið er og eigi síðar en þremur vikum eftir andlát nema sérstakar aðstæður komi upp, enda sé þá sótt um undanþágu til viðkomandi heilbrigðisyfirvalda.

2. gr.

    Í stað orðanna „7. gr.“ í 5. mgr. 2. gr. laganna kemur: 8. gr.

3. gr.

    2. og 3. mgr. 3. gr. laganna orðast svo:
    Óheimilt er að greftra lík eða brenna það nema það sé í kistu og hjúpað líkklæðum eða öðrum klæðnaði. Þó skal heimilt að veita einstökum trúfélögum leyfi til að búa lík til greftrunar innan sinna vébanda samkvæmt eigin hefðum, enda samrýmist það lögum og góðum siðum.
    Heimilt er að setja lík andvana fædds barns eða látins ungbarns í kistu með öðru líki óski forsjármaður þess og aðilar skv. 2. gr. eru því samþykkir. Útfararstjóri ber ábyrgð á því að þessu ákvæði sé fylgt.

4. gr.

    Í stað 4. gr. laganna kemur nýr kafli, er verður II. kafli, Um flutning á kistum og duftkerum milli landa og landshluta, með tveimur nýjum greinum, er orðast svo, og breytast önnur kafla- og greinanúmer samkvæmt því:

    a. (4. gr.)
    Hver maður á rétt til legstaðar í kirkjugarði eða grafreit þar sem hann óskaði að hvíla eða vandamenn hans, sbr. 2. gr., óska legs fyrir hann.

    b. (5. gr.)
    Ef flytja þarf kistu eða duftker milli landshluta eða landa skal sá sem ábyrgð ber á flutningnum sjá til þess að dánarvottorð sé afhent sýslumanni í því umdæmi þar sem maðurinn lést. Sýslumaður afhendir flutningsaðila staðfest afrit dánarvottorðs og skal það fylgja líkinu til viðtakanda. Ekki má flytja lík úr landi nema ákvæðum þessum sé fylgt, sbr. lög um dánarvottorð, krufningar o.fl. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið setur leiðbeinandi reglur um flutning á kistum og duftkerum milli landshluta og milli landa.

5. gr.

    5. gr. laganna, er verður 6. gr., orðast svo:
    Með kirkjugörðum eða grafreitum í lögum þessum er átt við afmarkað grafarsvæði, sbr. 7. gr.
    Þar sem þörf krefur er heimilt að afmarka sérstaka reiti fyrir mismunandi trúarbrögð og einnig óvígðan reit.
    Í nýjum kirkjugörðum er skylt að gera ráð fyrir óvígðum reit og sérstökum reitum fyrir önnur trúarbrögð en kristin.

6. gr.

    2. málsl. 2. mgr. 6. gr. laganna, er verður 7. gr., orðast svo: Kirkjugarðsstjórn getur ákveðið sérstakan minningarreit í kirkjugarði eða við kirkju vegna drukknaðra manna eða horfinna, sbr. lög um horfna menn, og nýtur sá reitur sömu friðhelgi og legstaður.

7. gr.

    Í stað 7. gr. laganna koma tveir nýir kaflar, er verða IV. kafli, Um bálstofur, duftker og greftrun þeirra, með fjórum nýjum greinum, 8.–11. gr., og V. kafli, Um útför og þá sem annast útfarir og veita þjónustu við látna og aðstandendur þeirra, með fjórum nýjum greinum, 12.–15. gr., og orðast greinarnar svo en önnur greina- og kaflanúmer breytast samkvæmt þessu:

    a. (8. gr.)
    Líkbrennsla hér á landi má eingöngu fara fram í stofnunum sem dóms- og kirkjumálaráðuneytið löggildir.
    Áður en líkbrennsla fer fram þarf að vera fyrir hendi vottorð lögreglustjóra þess efnis að hann sjái ekkert því til fyrirstöðu að líkbrennsla fari fram. Þeim sem sér um framkvæmd líkbrennslu ber að afla vottorðs þessa.

    b. (9. gr.)
    Búa ber um öskuna í þar til gerðum duftkerum sem skylt er að varðveita í kirkjugarði eða löggiltum grafreit, sbr. þó 11. gr. Skal grafa kerin niður í grafarstæði eða leggja þau í leiði ef rétthafar leiðis heimila það. Dýpt duftkersgrafar skal vera um 1 metri.

    c. (10. gr.)
    Kirkjugarðsstjórn getur ákveðið sérstakan reit í kirkjugarði fyrir duftker og sé stærð hvers leiðis jafnan hin sama, um ½ fermetri. Nöfn þeirra sem duft er varðveitt af í kirkjugarði skal rita á legstaðaskrá og kerin og grafirnar tölusettar, sbr. 34. gr. Kirkjugarðsstjórn getur einnig afmarkað almennan reit í kirkjugarði, þar sem ösku látinna verði komið fyrir, án þess að grafarnúmers sé getið, en nöfn hinna látnu skulu færð í legstaðaskrá, sbr. 1. mgr. 34. gr.

    d. (11. gr.)
    Dóms- og kirkjumálaráðherra getur heimilað, samkvæmt nánari reglum er hann setur, að ösku verði dreift yfir öræfi eða sjó, enda liggi fyrir ótvíræð ósk hins látna þar að lútandi. Óheimilt er að dreifa ösku látins manns á fleiri en einn stað sem og að merkja dreifingarstað. Sömuleiðis er óheimilt að geyma duftker fram að ráðstöfun þess annars staðar en í líkhúsi. Duftker sem ætluð eru til dreifingar ösku skulu vera úr forgengilegu efni og brennd strax að lokinni dreifingu. Óheimilt er að geyma ösku látins manns lengur en í sex mánuði.

    e. (12. gr.)
    Með útför í lögum þessum er átt við helgiathöfn, sem lýtur hefð og siðum trúfélags og prestur eða forstöðumaður trúfélags annast, eða borgaralega athöfn sem aðstandendur annast. Skal farið að vilja hins látna, hafi hann náð 18 ára aldri, um það hvort útförin eigi að vera innan vébanda trúfélags eða borgaraleg. Ef vilji hans liggur ekki fyrir skal tekið tillit til óska aðstandenda hans, sbr. 2. gr.
    Ekki er skylt að hafa útfararathöfn áður en lík er borið til grafar.

    f. (13. gr.)
    Á eftir útför tekur annaðhvort við greftrun, þar sem kista með hinum látna er borin til grafar og jarðsett í kirkjugarði eða grafreit, eða bálför. Við bálför er kista með hinum látna brennd og askan sett í duftker og jarðsett í kirkjugarði eða grafreit, sérstökum duftreit í kirkjugarði, eða ofan á kistu með leyfi rétthafa leiðis eða öskunni er dreift, sbr. 11. gr.

    g. (14. gr.)
    Útfararþjónustu mega þeir einir reka sem hafa til þess leyfi sýslumanns. Dóms- og kirkjumálaráðherra er heimilt að ákveða að leyfisveitingar verði á hendi eins sýslumanns. Synjun sýslumanns um veitingu leyfis er kæranleg til dóms- og kirkjumálaráðuneytis. Ráðherra setur nánari reglur um leyfisveitinguna í reglugerð.
    Þar sem kirkjugarðsstjórnir reka útfararþjónustu skal sú starfsemi og fjárhagur henni tengdur vera algerlega aðskilin frá lögboðnum verkefnum kirkjugarðsstjórnar.

    h. (15. gr.)
    Dóms- og kirkjumálaráðuneytið hefur eftirlit með þjónustu þeirra sem annast útfarir og veita þjónustu við látna og aðstandendur þeirra, en það eru einkum heilbrigðisstéttir, prestar, forstöðumenn skráðra trúfélaga, starfsmenn útfararþjónustu, starfsmenn kirkjugarða, starfsmenn kirkna og tónlistarfólk.

8. gr.

    Fyrirsögn II. kafla laganna, er verður III. kafli, orðast svo: Um kirkjugarða og grafreiti og friðhelgi þeirra.

9. gr.

    1. mgr. 12. gr. laganna, er verður 20. gr., orðast svo:
    Skylt er sveitarfélagi að láta ókeypis í té hæfilegt kirkjugarðsstæði, svo og efni í girðingu, þó þannig að óbreyttar haldist kvaðir þær er þegar eru á jörðum og lóðum þar sem kirkjugarðar standa. Nú hafa fleiri en eitt sveitarfélag sameiginlegan kirkjugarð og skal þá skipta kostnaðinum, sbr. 28. og 29. gr., niður á hlutaðeigandi bæjar- og sveitarfélög eða hluta þeirra eftir mannfjölda í hverju þeirra fyrir sig.

10. gr.

    Í stað orðanna „kaupstöðum eða kauptúnum“ í 2. mgr. 13. gr. laganna, er verður 21. gr., kemur: þéttbýli.

11. gr.

    1. mgr. 14. gr. laganna, er verður 22. gr., fellur brott.

12. gr.

    Fyrirsögn IV. kafla laganna, er verður VII. kafli, orðast svo: Um skyldur og rétt sveitarfélaga vegna kirkjugarða og grafreita, svo og um eignarnám vegna kirkjugarða og grafreita.

13. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 18. gr. laganna er verður 26. gr.:
     a.      Í stað orðanna „safnaðarfundur, eða safnaðarfundir ef fleiri söfnuðir en einn eiga í hlut“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: kirkjugarðsstjórn.
     b.      2. mgr. orðast svo:
                  Nú er kirkjugarður fjarri kirkju og skal þá vera klukka í sáluhliði eða stöpli. Hringja má klukku í sáluhliði þótt útförin sé borgaraleg.

14. gr.

    Í stað orðanna „smekklega prýddir blómjurtum og vel um þá hirt“ í 2. mgr. 19. gr. laganna, er verður 27. gr., kemur: vel hirtir.

15. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 20. gr. laganna er verður 28. gr.:
     a.      Í stað orðsins „húsnæðisaðstöðu“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: aðstöðu.
     b.      Í stað orðsins „útfararkirkjur“ í 2. mgr. kemur: kirkjur, þar sem fram fara útfarir (útfararkirkjur).
     c.      3. mgr. orðast svo:
                  Kirkjugarðsstjórn er heimilt að annast kirkjur sem eingöngu eru nýttar við greftranir (greftrunarkirkjur) og kosta rekstur þeirra.

16. gr.

    21. gr. laganna fellur brott.

17. gr.

    Í stað orðsins „greftri“ í 2. málsl. 22. gr. laganna, er verður 29. gr., kemur: grafartöku.

18. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 23. gr. laganna er verður 30. gr.:
     a.      Á eftir orðunum „tveimur dýptum“ í 2. mgr. kemur: enda sé frá því gengið þegar grafið er í fyrra sinnið. Sama heimild skal gilda um duftker.
     b.      Við greinina bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Heimilt er að jarðsetja kistu ungbarns í leiði með samþykki rétthafa leiðisins.
    

19. gr.

    Við 25. gr. laganna, er verður 32. gr., bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Heimilt er að úthluta fleiri grafarstæðum fyrir duftker.

20. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 27. gr. laganna er verður 34. gr.:
     a.      Í stað orðanna „nöfn, kennitölu og stöðu, heimili, aldur, greftrunardag og grafarnúmer“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: nöfn, kennitölu, lögheimili, dánardag, jarðsetningardag og grafarnúmer.
     b.      2. málsl. 2. mgr. fellur brott.

21. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 31. gr. laganna er verður 38. gr.:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Kirkjugarðsstjórn tekur ákvörðun um að hætt skuli að grafa í kirkjugarði enda komi til samþykki kirkjugarðaráðs. Kirkjugarðaráð getur, þar sem svo hagar til að sókn er orðin fámenn og sjaldan eða aldrei hefur verið grafið í kirkjugarði á undanförnum 25 árum, ákveðið að fengnu samþykki viðkomandi kirkjugarðsstjórnar og biskups Íslands að hætt skuli að grafa í honum og hann lagður niður.
     b.      Í stað orðanna „sóknarnefnd (kirkjugarðsstjórn)“ í 4. mgr. kemur: kirkjugarðsstjórn.

22. gr.

    Orðin „löglegur safnaðarfundur eða safnaðarfundir, í Reykjavíkurprófastsdæmum“ í 1. málsl. 32. gr. laganna, er verður 39. gr., falla brott.

23. gr.

    Orðin „sóknarprestur, í Reykjavíkurprófastsdæmum“ í 35. gr. laganna, er verður 42. gr., falla brott.

24. gr.

    36. gr. laganna, er verður 43. gr., orðast svo:
    Nú spillir uppblástur eða vatn niðurlögðum kirkjugarði og skal þá kirkjugarðsstjórn tafarlaust tilkynna það kirkjugarðaráði sem gerir síðan þær ráðstafanir er þurfa þykir.

25. gr.

    Í stað orðanna „og innheimtuaðilar aðstöðugjalda skulu“ í 2. mgr. 40. gr. laganna, er verður 47. gr., kemur: skal.

26. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 41. gr. laganna er verður 48. gr.:
     a.      Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, er verður 2. mgr., er orðast svo:
                  Kirkjugarðaráði er heimilt að gera þjónustusamning við Kirkjugarðasamband Íslands um að annast ýmiss konar verkefni sem lúta að málefnum kirkjugarða.
     b.      Í stað orðsins „bænahús“ í lok 2. mgr., er verður 3. mgr., kemur: bænhús.
     c.      Í stað orðsins „Sjóðnum“ í 3. mgr., er verður 4. mgr., kemur: Kirkjugarðaráði.

27. gr.

    2. málsl. 49. gr. laganna, er verður 56. gr., orðast svo: Flutnings skal bæði getið í legstaðaskrá þess kirkjugarðs sem lík er flutt frá og þess kirkjugarðs sem það er flutt í.

28. gr.

    Á eftir 1. málsl. 1. mgr. 50. gr. laganna, er verður 57. gr., kemur nýr málsliður er orðast svo: Þá setur ráðherra í reglugerð nánari reglur um stofnun og starfrækslu líkhúss.

29. gr.

    Heiti laganna verður: Lög um kirkjugarða, grafreiti, greftrun og líkbrennslu.

30. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. september 2009.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í dóms- og kirkjumálaráðuneyti á grundvelli tillagna nefndar sem skipuð var af dóms- og kirkjumálaráðherra til að gera úttekt á lögum um kikjugarða, greftrun og líkbrennslu og leggja fram tillögur til úrbóta. Frumvarpið var lagt fram á 135. löggjafarþingi en var ekki afgreitt á því þingi. Það er nú lagt fram á ný óbreytt.
    Málefni útfararþjónustufyrirtækja hafa undanfarin missiri gefið tilefni til að starfsemi þeirra og lagaumgjörð verði skoðuð nánar. Álitaefni er hvort nægilega skýrar reglur gildi um útfararþjónustuna eða hvort þörf sé á að setja skýrari og fyllri reglur um starfsemina. Þá hafa töluverðar umræður orðið um siðareglur í stéttinni og hvort ekki sé nauðsynlegt að semja siðareglur fyrir útfararstjóra og aðra sem veita þjónustu við andlát.
    Til þess að kanna hverra lagabreytinga og annarra úrbóta væri þörf skipaði dóms- og kirkjumálaráðherra þriggja manna nefnd undir formennsku Þórsteins Ragnarssonar forstjóra 29. júní 2005 til þess að gera úttekt og í framhaldi af því setja fram tillögur til úrbóta. Í skipunarbréfinu er verkefni nefndarinnar lýst sem hér segir:
     1.      Að fara yfir lög um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu, nr. 36/1993, með síðari breytingum, svo og önnur lög, með það fyrir augum að setja fram tillögu að lagabreytingum um þá þætti sem ástæða kann að vera til breyta í ljósi væntanlegra siðareglna.
     2.      Að endurskoða reglugerð um útfararþjónustu, nr. 233/1995, með síðari breytingum.
     3.      Að semja tillögur að siðareglum fyrir útfararstofur og starfsmenn þeirra, svo og aðra sem veita þjónustu við látna og aðstandendur þeirra.
     4.      Að leggja fram tillögur um sameiginlegan vettvang fyrir útfararstofur á Íslandi, m.a. hvort rétt sé að stofnað verði landssamband útfararstofa eða annars konar samtök.
    Nefndin átti í störfum sínum að hafa samráð við útfararstofur og aðra helstu aðila sem koma að þjónustu við látna og aðstandendur þeirra.
    Nefndinni var ætlað að ljúka störfum fyrir septemberlok 2005, en hún fékk frekari frest og skilaði tillögum sínum í nóvember sama ár. Að því búnu voru tillögurnar sendar þeim sem málið varðar helst, til umsagnar. Nokkrar umsagnir bárust og hefur verið tekið tillit til margra þeirra ábendinga og tillagna sem bárust.
    Meginbreytingarnar, sem lagðar eru til í frumvarpi þessu, eru eftirtaldar:
     1.      Lagt er til að heiti laganna verði breytt þannig að orðið „grafreitur“ komi þar fyrir. Kirkjugarðar eru einungis garðar þar sem kirkju er að finna, en oft hagar þannig til að grafreitir eru fjarri sjálfri kirkjunni, í sjálfstæðum görðum.
     2.      Lagt er til að flytja skuli lík í líkhús eftir að læknir er búinn að úrskurða mann látinn og að tilgreina skuli hámarksdagafjölda sem megi líða frá andláti til útfarar, sbr. 1. gr. frumvarpsins. Einnig verði óheimilt að greftra lík eða brenna nema það sé lagt í kistu og hjúpað líkklæðum eða öðrum klæðnaði, sbr. 3. gr. frumvarpsins.
     3.      Bætt verði við sérstökum kafla í lögin um flutning kistu eða duftkers milli landshluta eða milli landa, sbr. 4. gr. frumvarpsins.
     4.      Í nýjum kirkjugörðum verði skylt að gera ráð fyrir óvígðum reit og sérstökum reitum fyrir önnur trúarbrögð en kristin, sbr. 5. og 6. gr. frumvarpsins. Auk þess verði bætt við ákvæði sérstakan minningarreit við kirkju vegna horfinna, látinna eða drukknaðra er skuli njóta sömu helgi og legstaður.
     5.      Sérstakur kafli verði um útför og þá sem annast útfarir og veita þjónustu við látna og aðstandendur þeirra, sbr. 7. gr. (e–h-lið) frumvarpsins. Vakin er athygli á að lagt er til að hugtakið „útför“ verði skilgreint, svo og að ákvæði verði um virkt eftirlit með útfararstofum.
     6.      Heimilt verði að grafa kistu ungbarns í leiði, sbr. 18. gr. frumvarpsins.
     7.      Heimilt verði að gera þjónustusamninga við Kirkjugarðasamband Íslands, sbr. 26. gr. frumvarpsins.
    Hvað varðar önnur störf fyrrgreindrar nefndar má geta þess að nefndin lagði fram drög að reglugerð um útfararþjónustu er leyst gæti af hólmi reglugerð nr. 232/1995 og var hún nánast endursamin. Hefur reglugerðin síðan verið gefin út með nokkrum breytingum, sem gerðar voru í ráðuneytinu, sem reglugerð nr. 426 23. maí 2006, um útfararþjónustu.
    Einnig hlutaðist nefndin til um að láta þýða siðareglur Evrópusambands útfararstofnana á íslensku og síðan bætti hún við frekari skýringum. Nefndin taldi ekki heppilegt að semja siðareglur fyrir aðra sem veita þjónustu við látna og aðstendur þeirra. Nefndin taldi eðlilegast að hafa sama fyrirkomulag og gildir annars staðar á Norðurlöndum, en þar undirrita útfararstjórar innan landssambandanna siðareglur EFFS (European Federation of Funeral Services) áður en þeir hefja störf. Siðareglurnar eru bindandi fyrir íslenska útfararstjóra, og voru þær gefnar út sem fylgiskjal með fyrrgreindri reglugerð í maí 2006.
    Loks gerði nefndin grein fyrir því hvernig sjá mætti fyrir stofnun sameiginlegs vettvangs fyrir útfararstofur á Íslandi, nokkurs konar landssamband útfararstofa.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Áður fyrr, þegar ekki voru fyrir hendi hæfilegar geymslur eða líkhús til þess að geyma lík í, var oft ekki um annað að ræða en að geyma líkin á heimili viðkomandi eða nánustu ættingja hans. Því var alsiða að lík voru látin standa uppi eins og það var kallað og þá tíðkuðust líka húskveðjur. Kistulagning er nú komin í stað þeirra. Fyrir hendi er aðstaða um allt land, aðallega á sjúkrahúsum en einnig á vegum kirkjugarða og einstaka útfararstofu til geymslu á líkum. Því er gert ráð fyrir að líkum skuli komið í geymslu svo fljótt sem auðið er eftir að úrskurðað hefur verið um andlát. Þá þykir nauðsynlegt vegna eðlis líkhúss, svo sem út frá heilbrigðissjónarmiðum, að um þau verði settar reglur og er því lagt til að ráðherra verði veitt heimild til að setja reglur um stofnun og starfrækslu líkhúsa, sbr. 28. gr. frumvarpsins.
    Hnykkt er á því að um tvær tegundir greftrunar sé að ræða, jarðsetningu líks í kistu eða brennslu með eftirfarandi jarðsetningu öskunnar eða dreifingu hennar yfir öræfi eða sjó.
    Með sama hætti þykir eðlilegt, einkum af heilbrigðisástæðum, að ekki líði of langur tími frá andláti til greftrunar. Gert er ráð fyrir að jarðsett skuli sem fyrst eftir andlát, og ekki síðar en 21 degi eftir andlát. Algengast er að jarðsett sé u.þ.b. viku eftir andlát því að undirbúningur tekur sinn tíma, að útvega prest og útfararstofu, gera ráðstafanir í kirkjugarði o.fl. Eins þarf að gefa ættingjum, aðstandendum, vinum og kunningjum kost á að vera viðstaddir, en þeir geta komið hvaðan sem er af landinu eða frá útlöndum. Nú getur borið svo við að fyrirsjáanlega takist ekki að halda tímamörkin og er þá ráðgert að sækja þurfi um undanþágu til heilbrigðisyfirvalda. Þetta á að sjálfsögðu ekki við þegar um horfna menn er að ræða

Um 2. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 3. gr.


    Við útför er prestur trúnaðarmaður stjórnvalda að því leyti að honum er óheimilt að gera útför nema aðstandendur framvísi dánarvottorði eða staðfestingu sýslumanns um að andlát hafi verið tilkynnt. Ef annar prestur annast útför en presturinn í prestakallinu þar sem andlát bar að lætur presturinn þar sem andlátið bar að í té staðfestingu á móttöku vottorðs eða staðfestingar sem aðstandendur koma í hendur prestinum sem á að annast útförina.
    Hingað til hefur ekki verið talið nauðsynlegt að hafa í lagatexta að lík skuli jarðsett eða brennt í kistu, svo sjálfsagt hefur það verið talið. Með auknum fjölda manna sem aðhyllast önnur trúarbrögð hér á landi er nú talið nauðsynlegt að setja ákvæði hér um í lög því í sumum trúarbrögðum er talið nægjanlegt að sveipa lík klæðum áður en það er jarðsett. Engu síður er talið æskilegt að nokkur sveigjanleiki geti verið fyrir hendi þótt rétt sé að setja um leið eðlilegar skorður.
    Þá er sett inn nýtt ákvæði sem heimilar að lík andvana fædds barns eða ungbarns sé lagt í kistu með öðru líki. Mörgum hefur sviðið sárt við slík andlát að geta ekki lagt börnin hjá nánum látnum skyldmennum frekar en að láta þau hvíla ein. Hér er opnuð leið til að heimila þetta, en skilyrði er að fullt samkomulag sé um það hjá þeim sem ráðstafa legstæði því sem jarðsett er í, svo og hjá foreldrum eða forsvarsmönnum barns.

Um 4. gr.


    Hér lagt til að við lögin bætist nýr kafli, en heppilegt þykir að skipa þannig reglum sem fjalla einkum um flutning kistu með lík eða duftkers með ösku látins manns milli landshluta eða landa. Engar reglur eru fyrir í lögum um þetta efni og þykir rétt að lögfesta slíkar reglur.
    Í a-lið er um mikla breytingu að ræða þótt textinn sé lítið breyttur. Hér er verið að afnema þær skorður sem verið hafa á því hvar maður kýs að verða jarðaður eða aðstandendur fyrir hans hönd. Engar beinar hömlur hafa verið á því hvar menn kjósa sér legstað, en þeir hafa ekki átt rétt á legstað nema í sókninni sem þeir önduðust í eða þar sem þeir voru síðast heimilisfastir. Kirkjugarðsgjald hefur runnið til sóknar þeirra, þó svo að þeir hafi verið jarðaðir annars staðar.
    Með breyttu fyrirkomulagi á kirkjugarðsgjaldi skiptir ekki lengur fjárhagslegu máli hvar menn eru jarðsettir. Gjaldið sem greitt er sem kirkjugarðsgjald fyrir látinn mann rennur nú til þess kirkjugarðs þar sem viðkomandi er jarðsettur. Annars vegar er í nýlega samþykktu gjaldalíkani um að ræða kostnað við grafartöku og hins vegar viðhald á viðbótarsvæðinu vegna grafarstæðisins. Með þessu er mönnum frjálst að öðru jöfnu að velja sér kirkjugarð eða grafreit þótt reikna megi með að flestir kjósi að verða jarðaðir meðal ættingja eða vandamanna eða þar sem þeir hafa búið eða á stað sem þeir eiga ættir að rekja til.
    Í b-lið er reynt að tryggja, að flutningur líks í kistu eða duftkers með ösku látins manns, fari fram samkvæmt reglum. Þannig er flutningsaðila gert skylt að afhenda sýslumanni afrit dánarvottorðs er skal fylgja líkinu til viðtakanda. Eins þurfa tiltekin skjöl að fylgja í flutningi milli landa.
    Ísland gerðist árið 1975, með auglýsingu nr. 20 frá utanríkisráðuneytinu, aðili að Evrópusamningi frá 1973 um flutning líka. Samkvæmt þeim samningi er áskilnaður um að við flutning líka milli landa fylgi dánarvottorð á ensku, vottorð um að líkið beri eigi með sér smitnæman sjúkdóm er sótthætta geti stafað af, flutningsvottorð útfararstofu og vottorð frá lögreglu er heimilar flutninginn. Þessi gögn eru sett í umslag, sem fest er utan á umbúnaðinn, þannig að viðtakendur hafi aðgang að þeim strax við komu á áfangastað.
    Þá skiptir einnig máli að við pökkun og umbúnað duftkera sem flytja á milli landshluta innan lands eða til útlanda sé farið eftir almennum reglur sem tíðkast í greininni. Ráðgert er að ráðuneytið setji leiðbeinandi reglur hér að lútandi.

Um 5. gr.


    Gert er ráð fyrir að 1. efnismgr. verði sama efnis og 5. gr. laganna, nema hvað grafreitum er bætt við skilgreininguna á þeim svæðum sem teljast til afmarkaðra grafarsvæða. Þá eru lagðar til viðbætur á ákvæðinu sem nauðsynlegar eru í ljósi þess að íbúum landsins, sem eru annarrar trúar en kristnir, hefur fjölgað mjög á undanförnum árum. Þykir því full ástæða til að kirkjugarðsstjórnir hugi að því hvernig þær ætli sér að bregðast við þegar beiðni kann að berast frá einhverjum um að jarðsett verði í óvígðum reit eða afmörkuðum reit fyrir tiltekin trúarbrögð. Þá er tekið fram í 3. efnismgr. að við skipulagningu nýrra kirkjugarða skuli kirkjugarðsstjórn vera skylt að afmarka slík svæði innan garðsins.

Um 6. gr.


    Efnislega er greinin samhljóða 6. gr. núgildandi laga, en bætt er við að minningarreitur geti ekki aðeins verið vegna horfinna manna, heldur líka vegna látinna og drukknaðra, en margir hafa saknað þess að slíkir reitir eru ekki fyrir hendi.

Um 7. gr.


     Um a–d-lið (8,–11. gr.).
    Lagt er til að ákvæðum 7. gr. laganna verði skipað í nýjan kafla, en þau eru efnislega nánast óbreytt. Þó er tekið fram að óheimilt sé að geyma ösku látins manns lengur en í sex mánuði. Þykir eðlilegt að nokkur frestur sé veittur til ákvörðunar á því hvar askan verði jarðsett eða henni dreift, en með sama hætti þykir óeðlilegt ef líður meira en missiri áður en ferlinu er lokið. Geymsluaðstaða í húsnæði bálstofunnar er heldur ekki með þeim hætti að unnt sé að geyma duftkerin í langan tíma.
     Um e–h-lið (11.–15. gr.).
    Helsta tilefni frumvarps þessa er að finna í þessum greinum sem fjalla um útfararþjónustu og útfararstjóra. Einnig þykir rétt að lögfest verði ákvæði um útfarir sem ekki eru kirkjulegar, svokallaðar borgaralegar útfarir. Þær hafa verið fátíðar. Kveðið er á um hvernig með skuli fara ef vilji hins látna var ekki ljós í þessum efnum. Þá er að finna nýtt ákvæði sem lýsir því hvernig ferill útfarar er í framkvæmd, eftir að athöfn í kirkju lýkur eða borgaralegri athöfn, annaðhvort með því að kista er jarðsett eða aska jarðsett eða henni er dreift. Loks er bætt við nýrri grein þar sem tekið er fram hvaða aðilar það eru sem annast að jafnaði útför. Enn fremur er kveðið á um að ráðherra skuli hafa virkt eftirlit með þeim sem leyfi hafa fengið til útfararþjónustu.
    Í e-lið (12. gr.) er nýmæli. Gert er ráð fyrir að útför geti verið tvenns konar, kirkjuleg eða borgaraleg, og er skilgreining í greininni. Hafi sá látni lýst vilja sínum um hvora athöfnina hann kýs skal farið að vilja hans, enda hafi hann náð 18 ára aldri. Rétt þykir að tekið verði tillit til óska aðstandenda hans ef ekki er vitað um vilja hans í þessum efnum.
    Í f-lið (13. gr.) er einnig nýmæli, en eins og þar er lýst er gert ráð fyrir jarðsetningu eftir útför, þar sem kista er borin til grafar, eða bálför þar sem kista er brennd og aska hins látna sett í duftker og annaðhvort jarðsett eða öskunni er dreift samkvæmt reglum sem um dreifingu gilda. Duftker má jarðsetja í sérstakan duftreit en einnig verður heimilt samkvæmt þessu ákvæði að setja duftkerið ofan í leiði þar sem kista hvílir, enda liggi leyfi rétthafa leiðisins fyrir. Sérstaklega er tekið fram að ekki sé skylt að hafa útfararathöfn áður en lík er borið til grafar.
    Greinin í g-lið (14. gr.) er samhljóða núgildandi 21. gr. laganna.
    Í h-lið (15. gr.) eru taldar upp þær stéttir sem hafa með höndum verkefni er skapast við andlát. Fyrir utan heilbrigðisstéttir, presta, útfararstofur og starfsfólk kirkjugarða má nefna starfsfólk í kirkjum, tónlistarfólk o.fl. Rétt þykir að tilgreina þetta sérstaklega, ef og þegar ástæða þykir til að setja sérstakar reglur um samskipti þessara stétta, hugsanlega einhverjar siðareglur o.fl. Þá er ástæða til að árétta að ráðuneytinu er ætlað að halda uppi eftirliti með útfararþjónustunni.

Um 8. gr.


    Gert er ráð fyrir að við þann kafla laganna, sem fjallar um kirkjugarða, verði bætt ákvæðum sem lúti að því að útbúa skuli afmarkaða reiti í kirkjugörðum fyrir látna er tilheyra mismunandi trúarbrögðum eða óvígðan reit ef hlutaðeigandi kirkjugarðsstjórn samþykkir slíka tilhögun. Þá er skylt við hönnun nýrra kirkjugarða að gera ráð fyrir óvígðum reit og sérstökum reit fyrir önnur trúarbrögð. Þá er heimilað að kirkjugarðsstjórn geti látið útbúa sérstaka minningarreiti í kirkjugörðum eða við kirkju, ef því er að skipta, til þess að minnast horfinna, látinna eða drukknaðra.

Um 9.–12. gr.


    Í þessum greinum er einungis um smávægilegar orðalagsbreytingar og tilfærslur ákvæða að ræða. Notað er orðið sveitarfélag í stað annarra heita yfir stjórnvöld eins og hreppa, bæjarfélög og hreppshluta.

Um 13. og 14. gr.


    Í þessum greinum er einkum um lagfæringar á orðalagi að ræða. Þó er nýmæli í b-lið 13. gr. um að heimilt sé að hringja klukku þótt útför sé borgaraleg. Í handbók fyrir presta þjóðkirkjunnar segir að við útför skuli hringja klukku með tilteknum hætti stutta stund fyrir útfararathöfn og enda með bænaslögum, þrisvar sinnum þremur slögum.

Um 15. gr.


    Hér er eingöngu verið að hnykkja á skilgreiningu og orðnotkun. Með útfararkirkju er átt við allar kirkjur þaðan sem jarðað er, þar á meðal sóknarkirkjur. Hins vegar er greftrunarkirkja eingöngu kirkja þaðan sem jarðað er.
    

Um 16. og 17. gr.


    Í 7. gr. frumvarpsins er lagt til að ákvæði núgildandi 21. gr. laganna verði 14. gr. og er hér lögð til breyting til samræmis við það. Enn fremur er lögð til orðalagsbreyting.

Um 18. gr.


    Gert er ráð fyrir nýmæli um að gengið hafi verið frá því að grafa megi í tveimur dýptum þegar grafið er í fyrra skiptið.
    Þá verði heimilað að jarðsetja kistu ungbarns í leiði með samþykki rétthafa þess. Er þetta ákvæði tilkomið annars vegar af tilfinningalegum sjónarmiðum, sem rétt þykir að virða og eru ekki í andstöðu við útfararsiði, og hins vegar verður það einnig til þess að spara rými í kirkjugarðinum.

Um 19. gr.


    Gert er ráð fyrir nýju ákvæði um að heimilt sé að úthluta fleiri grafarstæðum fyrir duftker. Skýring þessa er sú að þar sem duftker þarfnast aðeins um ¼ af venjulegu kistuleiði er víða unnt að koma því við að úthluta fleiri grafarstæðum en þremur til sömu fjöldskyldu. Fer það nokkuð eftir aðstæðum í hverjum kirkjugarði hvort unnt verður að úthluta fleiri grafarstæðum fyrir duftker.

Um 20. gr.


    Gert er ráð fyrir breytingu á 27. gr. laganna, er verði 34. gr., sem fjallar um legstaðaskráningu, vegna framkominna athugasemda um þau atriði sem ber að að skrá í legstaðaskrá. Til að mynda hefur verið bent á að erfitt sé að tilgreina tiltekna stöðu eða starfsheiti. Vegna þessara athugasemda var farið yfir þau atriði sem ástæða þykir að skrá. Lagt er til að ekki beri að skrá starfsheiti. Hugsunin að baki skráningunni er að skrá skuli grunnatriði sem auðveldi fólki að finna legstaði látinna. Í því efni er starfsheiti eða stöðuheiti léttvægt. Sama gildir um aldur hins látna sem felldur er úr upptalningunni.

Um 21.–25. gr.


    Hér er ekki er um aðrar breytingar að ræða en þær að á nokkrum stöðum er lagt til að kirkjugarðsstjórn fjalli um mál þar sem í núgildandi lögum eru tilgreindir safnaðarfundir eða sóknarnefnd. Enn fremur er lagt til að ef kirkjugarðaráð hyggst ákveða að hætt skuli að grafa í tilteknum kirkjugarði eða hann skuli lagður niður þurfi að afla samþykkis bæði frá viðkomandi sóknarnefnd og biskupi Íslands, sbr. 21. gr. frumvarpsins.

Um 26. gr.


    Ekki er um neinar meiri háttar efnislegar breytingar að ræða sem þarfnast skýringa fyrir utan það að gert er ráð fyrir nýju ákvæði um að kirkjugarðaráði verði heimilt að gera þjónustusamning við Kirkjugarðasamband Íslands um að annast ýmiss konar verkefni er lúta að málefnum kirkjugarða.

Um 27. gr.


    Lagt er til að bætt verði inn ákvæði þess efnis að upptöku á líki, sem heimiluð hefur verið, skuli getið í legstaðaskrá kirkjugarðsins. Þetta er nauðsynlegt svo að unnt verði að rekja ferlið, ef slík upptaka hefur átt sér stað. Með sama hætti á einnig að skrá tilfærsluna í þeim garði eða grafreit sem lík eða duftker er flutt í. Fátítt er að slíkar upptökur eigi sér stað.

Um 28. gr.


    Lagt til að ráðherra verði veitt heimild til að setja í reglugerð nánari reglur um stofnun og starfrækslu líkhúsa, sbr. umfjöllun um 1. gr. frumvarpsins.

Um 29. gr.


    Með breytingunni á heiti laganna er verið að undirstrika að þau afmörkuðu svæði sem notuð eru til jarðsetningar látinna þurfa ekki að vera í nánd við kirkju eða umhverfis kirkju. Fyrr á öldum var hagræði að því að hafa garðinn sem næst kirkju eða umhverfis kirkju og það þótti mikil ógæfa ef ekki fékkst leg í „vígðri mold“. Með breyttum tímum þykir eðlilegt að nota ekki aðeins heitið kirkjugarður heldur einnig heitið grafreitur yfir greftrunarsvæðin, enda eru ekki lengur fyrir hendi þau nánu tengsl sem voru milli trúar, kirkju og útfarar.

Um 30. gr.


    Gert er ráð fyrir að lögin öðlist gildi 1. september 2009. Þar sem nauðsynlegt verður að setja nokkrar reglugerðir og semja ýmsar reglur verður að ætla hæfilegan tíma í því skyni að geta haft þær tilbúnar þegar lögin öðlast gildi.Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 36/1993,
um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu, með síðari breytingum.

    Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á ýmsum ákvæðum gildandi laga um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu. Helstu breytingarnar lúta að reglum um útfarir og þjónustu við látna og aðstandendur þeirra, þ.m.t. um þjónustu útfararstofa. Framlög úr ríkissjóði til kirkjugarða eru ákvörðuð samkvæmt samkomulagi við kirkjugarðaráð í sérstöku reiknilíkani og mun lögfesting frumvarpsins ekki hafa áhrif á þau framlög eða útgjöld ríkissjóðs að öðru leyti.