Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 46. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 46  —  46. mál.




Frumvarp til laga



um Háskóla á Ísafirði.

Flm.: Kristinn H. Gunnarsson, Magnús Stefánsson, Jón Bjarnason.



I. KAFLI
Hlutverk.
1. gr.

    Háskólinn á Ísafirði er vísindaleg mennta- og rannsóknastofnun. Hann veitir stúdentum sínum menntun til að sinna sjálfstætt vísindalegum verkefnum og til að gegna ýmsum ábyrgðarstörfum í atvinnulífinu. Háskólanum er heimilt að veita framhaldsmenntun og endurmenntun í þeim fræðum sem stunduð eru í deildum hans.

II. KAFLI
Kennarar og stúdentar.
2. gr.

    Kennarar við Háskólann á Ísafirði eru prófessorar, dósentar, lektorar, aðjúnktar og stundakennarar.
    Prófessorar, dósentar og lektorar hafa einir kennslu og rannsóknir að aðalstarfi. Aðjúnktar eru ráðnir til eins árs hið skemmsta. Stundakennarar eru ráðnir til eins árs eða skemmri tíma.
    Háskólaráð setur nánari reglur um starfsskyldur kennara.

3. gr.

    Rektor ræður prófessora, dósenta, lektora, aðjúnkta og stundakennara.
    Umsóknum um prófessors-, dósents- og lektorsstarf skulu fylgja upplýsingar um háskólamenntun, vísindastörf og önnur störf, svo og ritsmíðar og rannsóknir umsækjenda.
    Rektor skal skipa þriggja manna dómnefnd eftir tilnefningu háskólaráðs og menntamálaráðherra til tveggja ára í senn, til þess að dæma um hæfi umsækjenda til að gegna starfi prófessors, dósents eða lektors. Háskólaráð tilnefnir tvo menn í nefndina og er annar þeirra formaður. Annar fulltrúa háskólaráðs skal starfa utan háskólans. Menntamálaráðherra tilnefnir einn mann í nefndina. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt.
    Í dómnefnd má skipa þá eina sem lokið hafa meistaraprófi úr háskóla.
    Að ábendingu viðkomandi deildar skal rektor hverju sinni tilnefna sérfræðing til ráðgjafar fyrir dómnefnd um mat á fræðistörfum umsækjenda.
    Dómnefnd skal gefa rökstutt álit um hvort ráða megi af vísindagildi rita og rannsókna umsækjanda, svo og af námsferli hans og störfum, að hann sé hæfur til að gegna starfinu. Engum manni má veita starf prófessors, dósents eða lektors nema meiri hluti dómnefndar hafi látið það álit í ljós að hann sé til þess hæfur.
    Háskólaráði er heimilt að setja reglur sem kveða á um að ákvæði 3. mgr. gildi við ráðningu sérfræðinga á sviði rannsókna og annarra fræðistarfa við háskólann.
    Heimilt er að flytja lektor úr lektorsstarfi í dósentsstarf og dósent úr dósentsstarfi í prófessorsstarf, enda liggi fyrir hæfnisdómur dómnefndar.
    Háskólaráð setur nánari reglur um nýráðningar og framgang í starfi þar sem einnig er kveðið á um störf dómnefnda og meðferð umsókna. Háskólaráð getur mælt svo fyrir í reglunum að undanþiggja megi auglýsingu störf sem byggjast á sérstökum tímabundnum styrkjum, störf sem tengjast sérstökum tímabundnum verkefnum, störf sem nemendur stunda við háskólann samhliða rannsóknartengdu framhaldsnámi og störf við háskólann sem tengjast tilteknu starfi utan hans á grundvelli samstarfssamnings.
    Heimilt er að ráða kennara til háskólans tímabundinni ráðningu til allt að fimm ára. Um tilhögun slíkrar ráðningar skal háskólaráð setja reglur. Sama á við um þá sem eingöngu eru ráðnir til vísinda- og fræðistarfa.
    Kennara má ráða í hlutastarf í samræmi við reglur sem háskólaráð setur. Heimilt er að tengja starf kennara tilteknu starfi utan háskólans eða starfi við stofnanir hans samkvæmt reglum sem háskólaráð setur.

4. gr.

    Háskólaráð skal, að fengnum tillögum deilda, staðfesta reglur um skráningu stúdenta í einstakar deildir þar sem kveðið er nánar á um inntökuskilyrði í viðkomandi deild. Þeir einir teljast stúdentar við Háskólann á Ísafirði sem skrásettir hafa verið til náms samkvæmt reglum þessum.
    Við skrásetningu til náms greiðir stúdent skrásetningargjald, 45.000 kr., fyrir heilt skólaár. Heimilt er að taka 15% hærra gjald af þeim sem fá leyfi til skrásetningar utan auglýstra skrásetningartímabila.

III. KAFLI
Stjórnskipulag.
5. gr.

    Háskólaráð er æðsti ákvörðunaraðili innan skólans nema annað sé berum orðum tekið fram í lögum.
    Í háskólaráði eiga sæti:
     1.      Rektor, sem er sjálfkjörinn í ráðið og er jafnframt forseti þess.
     2.      Tveir fulltrúar kennara sem ráðnir eru ótímabundið við skólann og tveir til vara, kosnir á almennum fundi þeirra til tveggja ára í senn.
     3.      Einn fulltrúi stúdenta og einn til vara, kosnir til tveggja ára í senn samkvæmt reglum stúdentafélags háskólans.
     4.      Einn fulltrúi skipaður af menntamálaráðherra og einn til vara til tveggja ára í senn.
    Varaforseta kýs ráðið úr hópi háskólaráðsfulltrúa kennara.

6. gr.

    Rektor boðar til fundar í háskólaráði eftir þörfum. Óski tveir háskólaráðsfulltrúar eftir fundi er rektor skylt að boða til hans. Rektor stýrir fundum ráðsins.
    Háskólaráðsfundur er ályktunarhæfur ef helmingur atkvæðisbærra fulltrúa sækir fund hið fæsta. Afl atkvæða ræður úrslitum mála. Ef atkvæði eru jöfn sker atkvæði forseta úr. Varafulltrúar skulu sitja fundi háskólaráðs í forföllum aðalfulltrúa.

7. gr.

    Menntamálaráðherra skipar rektor til fimm ára samkvæmt tilnefningu háskólaráðs. Skal staðan auglýst laus til umsóknar. Háskólaráð setur reglur um hvernig staðið skuli að tilnefningu rektors.
    Þann einan má skipa í stöðu rektors sem lokið hefur æðri prófgráðu við háskóla og öðlast hefur stjórnunarreynslu. Óheimilt er að framlengja skipunartíma rektors án auglýsingar.
    Rektor verður ekki leystur frá störfum án þess að það sé borið undir háskólaráð og hljóti samþykki meiri hluta þess.
    Rektor er yfirmaður stjórnsýslu háskólans og æðsti fulltrúi hans gagnvart mönnum og stofnunum innan hans og utan. Hann hefur almennt eftirlit með starfsemi háskólans og hefur frumkvæði að því að háskólaráð marki sér heildarstefnu í málefnum skólans. Rektor hefur ráðningarvald yfir öllum starfsmönnum skólans nema annað sé berum orðum tekið fram í lögum. Á milli funda háskólaráðs hefur rektor ákvörðunarvald í umboði ráðsins í öllum málum háskólans sem ekki varða veruleg fjárhagsmálefni skólans eða hafa í för með sér breytingar á skipulagi hans.

8. gr.

    Háskólaráð ákvarðar deildarskipan háskólans og afmarkar aðrar stjórnunareiningar innan skólans. Háskólaráð setur reglur um yfirstjórn deilda og um val á deildarforsetum. Störf deildarforseta skulu auglýst laus til umsóknar. Háskólaráð setur deildum starfsreglur og reglur um hvert skuli vera verksvið, vald og ábyrgð hverrar stjórnunareiningar innan hverrar deildar.
    Stofnanir og einstakir starfsmenn háskólans, sem ekki lúta sérstakri stjórn, heyra beint undir embætti rektors.

9. gr.

    Fyrir hverja deild háskólans eða skilgreinda námsbraut skal setja námskrá sem kveður á um markmið, inntak og meginviðfangsefni námsins, þar með talda starfsþjálfun á vettvangi þar sem það á við.
    Á grundvelli námskrár skal árlega gefa út kennsluskrá þar sem m.a. er gerð grein fyrir tilhögun náms, kennsluháttum og námsmati. Í kennsluskrá eða öðrum starfsáætlunum einstakra deilda skal enn fremur kveðið á um missira- eða annaskiptingu, kennslutíma, próftímabil, leyfi og önnur atriði er varða skipulag náms.
    Háskólaráð staðfestir námskrár og kennsluskrár, en deildarráð ber ábyrgð á gerð þeirra.

IV. KAFLI
Kennsla, framkvæmd prófa, agaviðurlög.
10. gr.

    Háskólaráð skal setja reglur um prófgráður, prófgreinar, próftíma, prófdómara, endurtekningu prófa, viðurkenningu erlendra prófa, skiptingu fullnaðarprófs í fleiri en einn hluta, undirbúningspróf, einkunnir og annað er að prófum lýtur. Heimilt er í reglum háskólaráðs að kveða á um hámarkstímalengd í námi eða einstökum hlutum þess og um afleiðingar ef þeim ákvæðum er ekki fullnægt.
    Stúdent á rétt til að fá útskýringar kennara á mati skriflegrar úrlausnar sinnar ef hann æskir þess innan 15 daga frá birtingu einkunnar. Vilji stúdent sem ekki hefur staðist próf þá eigi una mati kennarans getur hann snúið sér til viðkomandi deildarforseta. Skal þá prófdómari skipaður í hverju tilviki. Einnig getur kennari eða meiri hluti stúdenta, telji þeir til þess sérstaka ástæðu, óskað skipunar prófdómara í einstöku prófi. Háskólarektor skipar prófdómendur að fengnum tillögum háskóladeildar.

11. gr.

    Rektor getur veitt stúdent áminningu eða vikið honum úr skóla um tiltekinn tíma eða að fullu ef hann hefur gerst sekur um brot á lögum eða öðrum reglum háskólans eða framkoma hans gagnvart starfsmönnum háskólans eða öðrum stúdentum er ósæmileg eða óhæfileg. Áður en ákvörðun um brottrekstur er tekin skal leita umsagnar háskóladeildar og gefa stúdentinum kost á að tjá sig um málið. Stúdent er heimilt að skjóta ákvörðun rektors til áfrýjunarnefndar samkvæmt lögum um háskóla. Málskot frestar framkvæmd ákvörðunar rektors. Rektor getur að hæfilegum tíma liðnum heimilað stúdent sem vikið hefur verið að fullu úr skóla að skrá sig aftur til náms í háskólanum ef aðstæður hafa breyst. Stúdent er heimilt að skjóta synjun rektors um skráningu til áfrýjunarnefndar.

V. KAFLI
Rannsóknir, bókasafn o.fl.
12. gr.

    Háskólanum er heimilt að starfrækja rannsóknastofnun á eigin vegum eða í samvinnu við aðra. Kennarar háskólans geta fullnægt rannsóknarskyldu sinni að nokkru eða öllu leyti með störfum í þágu rannsóknastofnunarinnar. Heimilt er að ráða sérfræðinga til starfa við hana.
    Rannsóknastofnunin skal eftir því sem aðstæður leyfa veita stúdentum skólans ráðgjöf og fræðslu um skipulagningu og framkvæmd rannsókna.
    Háskólaráð skal setja reglur, sem menntamálaráðherra staðfestir, um starfsemi rannsóknastofnunarinnar, um skipan stjórnar og gjaldtöku fyrir þjónustu sem rannsóknastofnunin veitir.
    Heimilt er háskólaráði að stofna sérstaka rannsóknarsjóði. Skal um þá sett skipulagsskrá.
    Háskólanum er heimilt með samþykki menntamálaráðherra að eiga aðild að rannsóknar- og þróunarfyrirtækjum sem eru hlutafélög, sjálfseignarstofnanir eða félög með takmarkaða ábyrgð og stunda framleiðslu og sölu í því skyni að hagnýta og þróa niðurstöður rannsókna sem háskólinn vinnur að hverju sinni. Háskólaráð fer með eignarhlut skólans í slíkum fyrirtækjum.

13. gr.

    Við háskólann skal vera rannsókna- og sérfræðibókasafn sem tengist fræðasviðum skólans. Hlutverk þess er að veita stúdentum og kennurum háskólans og öðrum lánþegum safnsins sérhæfða þjónustu vegna kennslu, náms og rannsókna. Háskólaráð skal setja nánari reglur um starfsemi bókasafnsins.

14. gr.

    Háskólanum á Ísafirði skal heimilt að taka gjald fyrir þjónustu sem telst utan þeirrar lögmæltu þjónustu sem háskólanum er skylt að veita. Háskólaráð setur nánari reglur um gjaldtöku og ráðstöfun gjalda samkvæmt ákvæði þessu.
    Háskólaráði er heimilt að semja við félög stúdenta, hollvinasamtök, einstaklinga, samtök þeirra og fyrirtæki eða opinberar stofnanir um að taka að sér þjónustu fyrir hönd Háskólans á Ísafirði enda sé farið að ákvæðum í 30. gr. laga um fjárreiður ríkisins.

15. gr.

    Háskólanum er heimilt að gera samstarfssamninga við aðrar stofnanir og fyrirtæki sem tengjast starfssviði háskólans, t.d. um kennslu, rannsóknir og ráðningu kennara og annarra starfsmanna. Háskólaráð setur nánari reglur um stöðu þeirra starfsmanna innan háskólans sem þannig eru ráðnir til starfa við skólann.

16. gr.

    Að fenginni tillögu viðkomandi deildarfundar hefur háskólaráð rétt til þess að veita doktorsnafnbót. Slíka nafnbót má veita í heiðursskyni, að undangengnu doktorsnámi eða með vörn doktorsritgerðar.
    Háskólaráð setur sérstakar reglur um veitingu doktorsnafnbótar, þ.m.t. um doktorsnám og um vörn doktorsritgerða.

VI. KAFLI
Gildistaka, reglugerð o.fl.
17. gr.

    Menntamálaráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd þessara laga.

18. gr.

    Allar reglur sem háskólaráð setur á grundvelli þessara laga skulu birtar í Stjórnartíðindum.

19. gr.

    Lög þessi, sem sett eru með hliðsjón af lögum um háskóla, nr. 63/2006, öðlast gildi þegar í stað.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Menntamálaráðherra skal skipa fimm manna háskólaráð til bráðabirgða sem tekur til starfa þegar í stað. Tvo menn skipar ráðherra án tilnefningar og skal annar þeirra vera formaður, tveir skulu tilnefndir af Fjórðungssambandi Vestfirðinga og einn af nemendum Menntaskólans á Ísafirði. Hlutverk ráðsins verður að tilnefna rektor sem menntamálaráðherra skipar og jafnframt að undirbúa stofnun skólans í samstarfi við rektor. Skólinn skal hefja kennslu eigi síðar en á haustönn 2009 og skal þá skipa nýtt háskólaráð skv. 5. gr.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta var áður lagt fram á síðasta löggjafarþingi.
    Á 52. Fjórðungsþingi Vestfirðinga, sem haldið var á Tálknafirði dagana 7.–8. september 2007, var samþykkt ályktun um stofnun Háskóla Vestfirðinga. Frá árinu 2005 hefur verið starfrækt Háskólasetur Vestfjarða þar sem Vestfirðingar hafa átt þess kost að stunda nám við aðra háskóla í landinu. Er nú áætlað að u.þ.b. 150 nemendur stundi þar fjarnám.
    Hugmyndin að stofnun Háskóla á Vestfjörðum á sér nokkurn aðdraganda. Á 130. löggjafarþingi var lögð fram þingsályktunartillaga, sem ekki fékkst samþykkt, þar sem skorað var á ráðherra menntamála að beita sér fyrir stofnun háskóla á svæðinu. Er þar m.a. vísað til þess að helstu rökin fyrir stofnun skólans væru af byggðarlegum toga enda benti reynsla af stofnun Háskólans á Akureyri til þess að slík stofnun gæti stutt vel við byggð í landinu.
    Vestfirðingar hafa staðið frammi fyrir erfiðum byggðavanda undanfarin ár og hafa stjórnvöld viðurkennt vandann, nú síðast með boðuðum mótvægisaðgerðum vegna samráttar í veiðum á þorski fyrir næstu fiskveiðiár. Vestfirðingar búa við einhæft atvinnulíf og því ljóst að samdrátturinn mun hafa veruleg áhrif á afkomu fólks á svæðinu. Vonir standa til þess að með stofnun háskóla verði þessi áhrif milduð enda má gera ráð fyrir að háskóla fylgi aukin tækifæri til nýsköpunar og sérhæfingar.
    Frumvarp þetta er samið á grunni laga um háskóla, nr. 63/2006, en flestar greinar þess eiga sér hliðstæðu í lögum um Háskólann á Akureyri, nr. 40/1999.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Kjarninn í starfsemi Háskólans á Ísafirði er kennsla og rannsóknir. Ætla má að námskrá háskólans muni taka sérstakt mið af sérstöðu Vestfjarðasvæðisins auk þess sem umfang starfseminnar kemur til með að ráðast af fjárveitingum Alþingis, samningum sem gerðir verða við menntamálaráðuneytið á grundvelli VIII. kafla laga um háskóla og fjárframlögum frá öðrum aðilum.

Um 2. gr.

    Hér er starfsheitum kennara skólans lýst. Gert er ráð fyrir að háskólaráð setji almennar reglur um hvernig starfsskyldur kennara skiptast á einstaka þætti (kennslu, rannsóknir, þjónustu og stjórnun) og geti einnig hlutast til um aðra skiptingu vegna einstakra kennara. Í reglum þessum skal einnig kveðið á um veitingu rannsóknarleyfa, sem eftir atvikum geta einnig náð til annarra starfsmanna.

Um 3. gr.

    Samkvæmt greininni annast rektor ráðningu kennara við skólann og er sú tilhögun í anda laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Umsækjendur um störf eiga að styðja umsóknir sínar tilteknum gögnum og líkt og í núgildandi lögum um Háskólann á Akureyri er gert ráð fyrir að þriggja manna dómnefnd, skipuð af rektor en tilnefnd af háskólaráði og menntamálaráðherra, rannsaki hæfi umsækjenda um starf prófessors, dósents og lektors. Nefndinni til ráðgjafar hverju sinni er tilnefndur sérfræðingur í því skyni að leggja mat á fræðistörf umsækjenda.
    Háskólaráð setur reglur um nýráðningar og framgang kennara í starfi og skal þar m.a. kveða nánar á um störf dómnefnda og meðferð umsókna. Ráðinu er þar enn fremur heimilað, að teknu tilliti til sérstaks eðlis háskólaumhverfisins og þeirra starfa sem þar eru unnin, að víkja frá meginreglum laga um auglýsingu starfa og tímabundar ráðningar á vegum ríkisins, sbr. 7. gr. og 2. mgr. 41. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Loks er gert ráð fyrir að í reglunum kveði ráðið á um ráðningu sérfræðinga á sviði rannsókna og annarra fræðistarfa.
    Í frumvarpi til laga nr. 43/2003, um breytingu á lögum um Háskólann á Akureyri, er gerð grein fyrir í hverju sérstaða háskólastarfa getur falist og eiga þau sjónarmið sem þar eru rakin einnig við hér að breyttum breytanda. Í frumvarpinu er enn fremur vakin athygli á því að heimild háskólaráðs til að tengja starf kennara tilteknu starfi utan háskólans eða starfi við stofnanir hans samkvæmt reglum sem ráðið setur er við það miðuð að hún verði ekki bundin við störf hjá opinberum stofnunum eingöngu. Heimild þessi er nauðsynleg til að auka svigrúm háskólans til að tengjast fleiri aðilum utan hans, enda vinnur háskólinn markvisst að því að tengja kennslu- og rannsóknarstarfsemi sína atvinnulífi og annarri rannsóknarstarfsemi í landinu.

Um 4. gr.

    Almenn skilyrði háskólainngöngu er viðurkennt stúdentspróf úr íslenskum skóla eða annað sambærilegt próf frá erlendum skóla. Tilgreina mætti tvenns konar undantekningar frá þessu. Eins og greinin mælir fyrir um skal háskólaráð, að fengnum tillögum viðkomandi deilda, setja reglur sem binda aðgang að námsgreinum sérstökum skilyrðum til viðbótar hinum almennu. Í annan stað má ætla að ráðinu verði heimilt á grundvelli laga um háskóla að setja reglur um rétt þeirra til inngöngu sem ekki hafa lokið prófi en hafa til að bera hliðstæðan þroska og þekkingu og þeir sem það hafa þreytt.
    Skráningargjaldi er ætlað að standa undir hluta af kostnaði við háskólastarfið og er heimildin til töku þess í samræmi við áskilnað 2. mgr. 22. gr. laga um háskóla. Í lögum um háskólann á Akureyri og lögunum um Háskóla Íslands er að finna sambærilegar heimildir en nokkurrar óvissu virðist þó hafa gætt um hvort skráningargjald sé skattur eða þjónustugjald. Má um þetta vísa til sjónarmiða sem rakin eru í frumvörpum til laga nr. 132/2004 og laga nr. 135/2004 en á sérstöku skjali sem fylgdi þeim er að finna yfirlit yfir þá þjónustu sem gjaldinu er ætlað að standa undir.
    Gera skal ráð fyrir að upphæð skrásetningargjalds verði bókfært hjá yfirstjórn háskólans í samræmi við fjárlög og að upphæð þess komi til endurskoðunar við afgreiðslu þeirra laga ár hvert.

Um 5. gr.

    Háskólaráð er að meginstefnu til æðsti ákvörðunaraðili innan háskólans og ráðið skipa fimm nánar greindir einstaklingar. Samkvæmt greininni er rektor sjálfkjörinn í ráðið og jafnframt forseti þess, en um skipan ráðsins að öðru leyti er byggt á ákvæðum laga um háskóla, sbr. 16. gr. Tveir verði kjörnir fulltrúar kennara sem ráðnir eru tímabundið. Stúdentar kjósi einn fulltrúa og er gert ráð fyrir því að stúdentafélag skólans setji sér sérstakar reglur um kjör þeirra. Lagt er til að menntamálaráðherra skipi einn fulltrúa í ráðið. Rökin fyrir því að utanaðkomandi aðilar eigi sæti í æðstu stjórn skólans eru af þrennum toga: það styrkir stjórnsýslu stofnunarinnar, eflir tengsl hennar við samfélagið og veitir henni aukið aðhald.

Um 6. og 7. gr.

    Greinarnar fjalla um störf háskólaráðs og um skipan, hæfi og verksvið rektors og þarfnast ekki frekari skýringa.

Um 8. gr.

    Háskólaráð tekur ákvörðun um deildarskipan skólans og aðrar stjórnunareiningar og er sú tilhögun til þess fallin að tryggja aukið sjálfstæði háskólans. Það felur í sér að stofnunin getur ákvarðað á hvaða sviðum menntun er veitt en ákvörðun um það er háð samningum við stjórnvöld og aðra aðila, sbr. athugasemdir við 1. gr. frumvarpsins.
    Kveðið er á um að háskólaráð setji reglur um yfirstjórn deilda og hvernig deildarforseti er valinn. Hliðstætt gildir um aðrar stjórnunareiningar sem háskólaráð telur nauðsynlegt að afmarka sérstaklega. Þeir starfsmenn eða stofnanir sem ekki lúta sérstakri stjórn heyra beint undir rektor. Þetta ákvæði breytir engu um að rektor ræður alla starfsmenn skólans.

Um 9. gr.

    Greinin kveður á um skyldur skólans til að gefa út nám- og kennsluskrár fyrir það nám sem í boði er. Nám- og kennsluskrár eru unnar á ábyrgð deilda en skulu staðfestar af háskólaráði. Námskrár eru öðrum þræði hugsaðar til að gefa aðilum utan skólans færi á að koma á framfæri athugasemdum um skipan námsins og einstaka þætti þess. Einnig má líta á þær sem hluta af upplýsingaskyldu stofnunarinnar til stjórnvalda, hagsmunaaðila og almennings. Kennsluskrár eru nánari útfærsla á ákvæðum námskrár um tilhögun náms.

Um 10. gr.

    Greinin mælir fyrir um að háskólaráð skuli setja reglur sem varða prófgráður, framkvæmd prófa, prófdómara og fleira.

Um 11. gr.

    Í greininni er kveðið á um heimildir rektors til að áminna eða víkja nemanda úr skólanum um stundarsakir eða að fullu vegna hegðunarbrota. Er í greininni kveðið á um andmælarétt nemandans í tilefni af brottvikningu og enn fremur rétt hans til að skjóta ákvörðunum rektors um viðurlög til sjálfstæðrar úrskurðarnefndar samkvæmt lögum um háskóla. Mikilvægt er talið að agaviðurlög styðjist við heimildir í lögum þar sem um íþyngjandi ákvarðanir er að ræða af hálfu háskólayfirvalda.

Um 12. gr.

    Grein þessi er sett til samræmis við upphafsgrein frumvarpsins og heimilar háskólanum að starfrækja rannsóknarstofnun á eigin vegum eða í samvinnu við aðra. Um kosti samvinnu skólans við aðrar stofnanir og fyrirtæki er fjallað í athugasemdum við 15. gr. frumvarpsins. Háskólaráð skal setja reglur, sem menntamálaráðherra staðfestir, sem lúta m.a. að hlutverki, starfssviði og stjórn rannsóknastofnunar.

Um 13. gr.

    Leggja ber áherslu á mikilvægi vel búins rannsókna- og sérfræðibókasafns til að háskólinn geti rækt kennslu-, rannsóknar- og þjónustuhlutverk sitt.

Um 14. gr.

    Í þessari grein er kveðið á um heimild háskólans til að taka gjald fyrir þjónustu utan lögbundinnar skyldu. Dæmi um slíkt gæti verið aukin þjónusta vegna tölvuaðgangs og innhringisambanda fyrir þá stúdenta sem þess óska. Einnig gæti hér fallið undir gjaldtaka fyrir veitingu vottorða um námsástundun og próf sem er utan reglulegrar upplýsingagjafar um þetta efni. Með þessu ákvæði er lagt til að þessi möguleiki verði rýmkaður, en um leið er lögð áhersla á að ákvarðanir um slík þjónustugjöld verða að byggjast á þeim kostnaði sem felst í því að veita þjónustuna.
    Jafnframt er háskólaráði heimilað að semja við félög, fyrirtæki og stofnanir um að greiða þeim fyrir sérgreinda þjónustu. Eins má fela fyrirtækjum, samtökum eða stofnunum að sinna þessum verkefnum. Hér undir geta fallið ýmis verkefni er varða til dæmis stoðþjónustu við stúdenta. Gert er ráð fyrir því að það sé á valdi háskólaráðs að semja við félög stúdenta um þjónustu af þessu tagi.

Um 15. gr.

    Samvinna háskólans við aðra stofnanir og fyrirtæki, sem tengjast starfssviði hans, getur annars vegar aukið möguleika á fjölþættari kostum hvað varðar menntun og rannsóknir og hins vegar leitt af sér hagkvæmni og sparnað. Eðlilegt þykir að háskólaráð skilgreini nánar réttindi og skyldur þeirra sem ráðnir eru með þessum hætti, t.d. atkvæðisrétt þeirra á deildarfundum og þátttöku í stjórnun háskólans. Má í þessu sambandi vísa til athugasemda við 3. gr. frumvarpsins.

Um 16.–19. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Í ákvæði til bráðabirgða er mælt fyrir um hvernig staðið skuli að stofnun háskólaráðs í upphafi. Helsta hlutverk þess verður að tilnefna rektor og undirbúa í samráði við hann stofnun skólans. Eftir atvikum skulu þessir aðilar viðhafa samstarf við Háskólasetur Vestfjarða um starfsemi og aðstöðu.