Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 49. máls.
136. löggjafarþing 2008–2009.
Þskj. 49  —  49. mál.
Tillaga til þingsályktunarum andstöðu við eldflaugavarnakerfi í Austur-Evrópu.

Flm.: Steingrímur J. Sigfússon, Katrín Jakobsdóttir, Árni Þór Sigurðsson.    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leggjast eindregið gegn áformum Bandaríkjanna og eftir atvikum NATO um að koma upp eldflaugavarnakerfi í Austur-Evrópu. Skal þessari afstöðu komið skýrt til skila á vettvangi NATO og annars staðar þar sem við á í alþjóðasamstarfi. Jafnframt ályktar Alþingi að Ísland beiti sér fyrir því með virkum hætti að gildandi samningar um afvopnun eða takmörkun vígbúnaðar verði virtir. Eru þar einkum mikilvægir ABM-samningurinn um takmörkun gagneldflauga og gegn vígbúnaði í geimnum, samningurinn um takmörkun hefðbundins vígbúnaðar í Evrópu og NPT-samningurinn um bann við frekari útbreiðslu kjarnorkuvopna, sér í lagi 6. gr. samningsins sem kveður á um kjarnorkuafvopnun.

Greinargerð.


    Þingsályktunartillaga þessi var lögð fram á 135. löggjafarþingi en kom ekki til umræðu og er nú endurflutt óbreytt. Henni fylgdi svohljóðandi greinargerð:
    „Áform bandarískra hermálayfirvalda um að koma upp eldflaugavarnakerfi – stjörnustríðsáætlunin svokallaða – eru ekki ný af nálinni. Óvinsældir áætlunarinnar eru hins vegar svo miklar að hún hefur ekki gengið undir sama nafni lengur en tíu ár í senn: Þegar Ronald Reagan setti hana fram árið 1983 kallaðist hún Strategic Defense Initiative, þegar Bill Clinton settist í forsetastólinn breyttist nafnið í Ballistic Missile Organization en í forsetatíð George W. Bush hefur hún heitið Missile Defense Agency. Nokkru fyrir síðustu nafnbreytingu ákváðu Bandaríkjamenn einhliða að segja upp ABM-samningnum um takmörkun gagneldflauga, einum mikilvægasta afvopnunarsamningi í sögunni, til að geta byggt eldflaugavarnakerfið upp óáreittir.
    Eldflaugavarnakerfinu er ætlað að bregðast við árás (skamm-, meðal- eða langdrægra) eldflauga, annars vegar með ratsjárbúnaði til þess að staðsetja flaugarnar og stefnu þeirra og hins vegar vígtólum til þess að granda þeim áður en þær hæfa skotmark sitt. Á heimasíðu Missile Defense Agency er að finna margvíslegar hugmyndir að slíkum vopnum: gagneldflaugar frá landi eða herskipum, flugvélar með leysigeislabyssur eða jafnvel leysigeislabyssur svífandi á braut yfir lofthjúpi jarðar. Vopnaframleiðendur hafa beitt sér ötullega fyrir því að Bandaríkin og NATO hrindi áformum um slíkt eldflaugavarnakerfi í framkvæmd enda er þeim mikill fjárhagslegur akkur í því að fá að vinna að smíði þessara reyfarakenndu vopna á næstu árum og áratugum. Ljóst er að það mun kosta gríðarlega fjármuni að byggja upp slíkt kerfi enda þótt enn sé allt á huldu um hvort þau áform séu á annað borð framkvæmanleg.
    Það má heita óumdeilt að uppsetning og tilvist eldflaugavarnakerfis af þessu tagi er ekki til þess fallin að stuðla að afvopnun og friðsamlegri sambúð þjóða. Þvert á móti eru eldflaugavarnir líklegar til að stuðla að frekari vígbúnaði almennt, en einkum þó í þeim löndum sem þær beinast sérstaklega gegn, sbr. vígbúnaðarkapphlaupið á seinni hluta 20. aldarinnar. Ef árásaraðili hefur í hyggju að hæfa skotmark sitt mun hann umfram allt leggja áherslu á að framleiða sem flestar eldflaugar og yfirgnæfa þannig viðbragðsgetu slíks eldflaugavarnakerfis. Virtir sérfræðingar á sviði vígbúnaðarmála hafa einnig bent á að ef ríki eða uppreisnar- eða hryðjuverkahópar ætla sér að koma kjarnorkusprengjum eða öðrum gereyðingarvopnum að skotmarki í fjarlægu landi sé mun líklegra að til þess verði notaðar aðrar flutningaleiðir en háloftin með eldflaugum. Eins og ávallt hefur vígvæðing í einu ríki í för með sér að nágrannaríki þess vígvæðast að sama skapi. Raunar er fyrirsjáanleg vígvæðing í framhaldinu af eldflaugavarnakerfi Bandaríkjanna og NATO þegar hafin, því Rússar hafa svarað þessum fyrirætlunum með því að segja upp samningnum um takmörkun hefðbundins vígbúnaðar í Evrópu og jafnvel gefið í skyn að þeir muni aftur reyna að staðsetja kjarnorkuvopn á Kúbu. Hætta er á því að sú afvopnunarstefna á sviði kjarnorkuvígbúnaðar, sem átt hefur að heita við lýði frá lokum kalda stríðsins, heyri þar með brátt sögunni til.
    Eins og gefur að skilja hefur andstaðan við þessar hugmyndir verið mikil, ekki síst í þeim löndum sem eiga eftir að hýsa kerfið og verða þar af leiðandi að skotmarki ef til styrjaldar kæmi. Þótt meiri hluti heimamanna í Póllandi, þar sem Bandaríkjamenn vilja reisa eldflaugaherstöð, hafi lengi verið mótfallinn áætlununum skrifuðu stjórnvöld þar í landi nýlega undir samkomulag um að eldflaugavarnakerfið yrði hýst þar, með þeim skilyrðum að í Póllandi yrði einnig komið fyrir svokölluðum Patriot-eldflaugum. Í Tékklandi, þar sem áætlað er að koma fyrir ratsjárstöðvum, mældist andstaða heimamanna tæplega 70% í skoðanakönnun í júní á þessu ári. Ríkisstjórn Tékklands hefur fyrir sitt leyti samþykkt frumsamkomulag við Bandaríkin um málið en virðist ólíkleg til þess að leggja það til samþykktar fyrir þingið, þar sem hún hefur ekki meirihlutastuðning, fyrir kosningar 2010.
    Á vettvangi NATO var sérstaklega tekið undir mikilvægi eldflaugavarnakerfisins fyrir Evrópu og lagt til að það yrði útvíkkað og að NATO tæki meiri þátt í uppbyggingu þess. Hér er lagt til að íslensk stjórnvöld beiti sér fyrir því að hætt verði við uppbyggingu kerfisins. Andstaða af þessu tagi er ekki óþekkt í ríkisstjórnum annarra landa. Í stjórnarsáttmála norsku ríkisstjórnarinnar segir: „Regjeringen vil at Norge skal arbeide for å skrinlegge dagens planer for rakettforsvar, og ta initiativ til et økt fokus på tidlig varsling og forebygging av konflikter.“ (Soria Moria-erklæringen, 2. kafli.) Í samræmi við sáttmálann hafa Norðmenn svo beitt sér á vettvangi NATO fyrir því að hætt verði við uppbyggingu eldflaugavarnakerfisins í Póllandi og Tékklandi en ekki notið við það stuðnings frá Íslandi svo vitað sé.
    Hér er jafnframt lagt til að Ísland stuðli að því að ýmsir alþjóðlegir afvopnunarsáttmálar verði virtir á alþjóðavettvangi. Eldflaugavarnakerfið brýtur gegn eða grefur undan öllum þessum samningum. Það á ekki síst við um afvopnunarákvæði NPT-samningsins um bann við frekari útbreiðslu kjarnorkuvopna, þar sem samningsaðilar skuldbinda sig í 6. gr. „til þess að halda áfram í góðri trú samningum um raunhæfar ráðstafanir varðandi stöðvun kjarnorkuvopnakapphlaupsins innan skamms tíma og eyðingu kjarnavopna og um samning um almenna og algjöra afvopnun undir ströngu og raunhæfu alþjóðlegu eftirliti.“ Ísland er að sjálfsögðu aðili að samningnum eins og næstum öll önnur ríki heims.“